Hvaða máli skipta staðreyndir fyrir heildarmyndina?

 



Staðreynd er sannanlegur sannleikur, fullyrðing sem hægt er að endurskoða og staðfesta. Skoðanir og trú byggja stundum á staðreyndum, stundum ekki, en þykja af hörðum staðreyndarsinnum tilgangslausar hneigðir sem koma hinum sannanlega sannleika ekkert við.

Það er hins vegar gríðarlegur munur á hinum sannarlega sannleika og sannleikanum sjálfum, en þeir fræði- og vísindamenn sem starfa við rannsóknir á hinum sannarlega sannleika þekkja margir hverjir af eigin raun hversu lítilvægur sannanlegur sannleikur er þegar kemur að lífsviðhorfi fólks og trú. Hins vegar eru sannanlegur sannleikur afar mikilvægur til að þoka vísindalegri þekkingu fram á við. 

Hversu mikið af þekkingu okkar ætli sé byggð á sannanlegum sannleika annars vegar og skoðunum eða trú hins vegar, og hvort hefur meira vægi í leit okkar að lífshamingju? Sannarlegur sannleiki er oft þrúgandi og erfiður, hann sífellt breytir heimssýn okkar og skoðunum, en er hugsanlegt að í trúarbrögðum felist þekking sem við gætum aldrei nálgast út frá sannanlegum sannleika? Segjum að einhver viti það að Jesús var sonur Guðs, eða að Múhameð var hinn sanni spámaður eða að Búdda hafi öðlast alsælu. Við köllum þetta ekki þekkingu, heldur trú. Þessi trú hefur djúp áhrif á sálarlíf viðkomandi einstaklings og hvernig hann kemur fram við annað fólk.

Þessi áhrif eru sannanlegur sannleikur. Þekking á þessum staðreyndum getur verið túlkuð á ýmsan hátt, sjálfsagt út frá okkar eigin skilningi og mati á heiminum. Okkur gæti þótt trú fólks vera rugl, en getum ekki neitað því að þessi trú hefur áhrif. Hvort að þessi trú eða hvers konar trú hefur góð eða slæm áhrif er svo verkefni í aðra rannsókn.

Þeir sem hafa öfgatrú á staðreyndum munu sjálfsagt dissa þessar pælingar sem innihaldslausar og samhengislausar skoðanir, sem þær eru reyndar ekki, því að þessar skoðanir hafa innihald og samhengi sem eru í það minnsta mér sjálfum skiljanlegar, sem ég reyni svo að deila með öðrum. Hvort að rétti vettvangurinn til þess sé bloggið, og hvort að mér takist að gera mig skiljanlegan, er reyndar önnur spurning.

 


 

Hvernig við skynjum leiðarljós þeirra Gandhi og Martin Luther King yngri í baráttu þeirra fyrir frelsi gegn kúgun utanaðkomandi afla, sem drifin af trúarbrögðum þeirra eða ekki, hlýtur að vera umdeilanlegt. Ég get ekki séð hvernig hægt er að útiloka kröfu þeirra tveggja um skilyrðislausa mannúð, frelsi og virðingu  sem annað en siðferðilega kröfu - en þessar siðferðilegar kröfur eiga sér hljómgrunn í flestum trúarbrögðum, sem og siðfræði, en þær koma staðreyndum ósköp lítið við, öðrum en þeirri staðreynd að við búum til staðreyndir og að staðreyndir eru til staðar, en að við getum breytt heiminum til betri vegar. 

Sá sem hangir í staðreyndum trúir því sjálfsagt að við búum í besta mögulega heimi, fyrir utan þá sem trúa ekki á staðreyndir, og að það þurfi að sannfæra þetta fólk um heimsku þeirra. Sá hinn sami hefur hugsanlega ekki mikinn áhuga á hvernig gríðarlega stórir hópar geta unnið saman góð verk þegar þeir gera það í sameiningu. Fyrir slík verk þarf samnefnara, og ég held að trúarbrögðin séu slíkur samnefnari, hvort sem okkur líkar betur eða verr.

 

wedding

 

Trúarbrögð sameina fólk um gildi, sem hægt er að nýta til uppbyggingar og samstöðu í samfélaginu, en þegar þau eru misnotuð sundra þau.

Trúleysi er ágætt út af fyrir sig. Einstaklingar hafa fullan rétt á að vera trúlausir. Hins vegar hafa trúlausir afar lítil áhrif út á samfélagið, ekki vegna þess að þeir eru fáir, heldur vegna þess að eini samnefnarinn þeirra er ákveðin neikvæðni sem getur ekki gagnast til að fá fólk til samvinnu.

Trúlausir eru ekki hópur, heldur fjöldi einstaklinga sem stendur ekki saman um nein raunveruleg gildi. Hvort að staðreyndir hafi gildi er áhugaverð spurning, og þá hljótum við að spyrja hvað staðreyndir séu og hvernig við komumst að því hvað er staðreynd og hvað er ekki staðreynd, og hvort að allt það sem eru ekki staðreyndir hafi þar af leiðandi ekkert gildi, vegna þess eins að slík gildi eru ekki staðreyndir í sjálfu sér.

 


Það er einnig áhugavert að velta fyrir sér hvort að tilvist Guðs sé sannanlegur sannleikur eða einfaldlega sannleikur sem manneskjan hefur ekki mátt til að öðlast, eða bara blekking. Sá sem tekur afstöðu hefur skipað sér í ákveðinn flokk, sama hvort viðkomandi hafi rétt fyrir sér eða ekki. Þeir munu grafa sig í skotgrafir og skjóta á hinn aðilann fyrir að hafa rangt fyrir sér, hugsanlega vegna gífurlegs óöryggis um sannleika málsins. Viðkomandi mun þræta fyrir að eigin skoðanir séu réttar, og gera allt sem í eigin valdi stendur til að sýna fram á að skoðanir hins séu rangar; en þá gleymist að skoðanir eru ekki sannanlegur sannleikur, nokkuð sem í raun er ekki hægt að sannreyna, þannig að grafist er fyrir um rökin á bakvið skoðanirnar. 

Hvernig gagnrýna skal rök sem standa að bakvið skoðunum eru ákveðin fræði, sem ég mun fara nánar út í síðar, en eitt af því sem ber að forðast er einmitt að koma sér fyrir í skotgröf og skjóta linnulaust á þá sem hafa ólíkar skoðanir í þeirri von að kannski í það minnsta ein kúla úr hríðskotakjaftinum hitti í mark. 

 

logicalfallaciespodcast

Greinilegt að umfjöllun um trúarbrögð er sívinsæl og þær æsa fólk til að segja furðulegustu hluti, og þá oft í skjóli nafnleysis. Nafnleysingjarnir eru bálkur út af fyrir sig, en ég hef tilhneigingu til að taka þá ekki alvarlega, sérstaklega þegar viðkomandi sýnir dónaskap og hroka. Reyndar á það sama við um bloggara sem skrifa undir nafni, um leið og viðkomandi sýnir lítilsvirðingu hef ég tilhneigingu til að hætta að lesa athugasemdir viðkomandi. Samt vil ég ekki endilega loka viðkomandi út úr umræðunni þar sem hugsanlega dæmi ég viðkomandi rangt, sem ég get svo endurskoðað síðar.

Mér finnst sú staðreynd að umræða um trúarbrögð vekur heiftarleg viðbrögð afar áhugaverð, og óháð skoðunum sem fram koma í þessum athugasemdum, sannfærir mig um að ég sé á réttri leið þegar mig grunar að í trúarbrögðum felist gífurlegt samfélagslegt vald sem hægt er að nýta til góðs eða ills. Yfirleitt byrja trúarbrögð í góðri meiningu en eiga það til að snúast upp í andstöðu sína? Hvers vegna ætli það sé? Getur verið að vald spillir? Þýðir það að við ættum að hunsa slíkt vald?

Ég vil að gefnu tilefni vísa í lista yfir rökvillur sem koma yfirleitt óvart upp í samræðum, en eru margoft misnotaðar í kappræðum, enda duga þær oft til að rugla fólk í rýminu eða sannfæra um ágæti eigin málstaðar á kostnað hins, algjörlega óháð heiðarlegri sannleiksleit. 

Þessar vangaveltur byggja á athugasemdum og pælingum sem birtast í færslunum:

E.S. Ég hef verið sakaður um að skemmta skrattanum, og það af trúlausum einstaklingi. Er það ekki svolítið skondið?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Fyrir slík verk þarf samnefnara, og ég held að trúarbrögðin séu slíkur samnefnari, hvort sem okkur líkar betur eða verr.

Hrannar, þetta fer að verða dálítið pínlegt.  Þú neitar einfaldlega að svara mikilvægustu spurningunni.  Neitar að sjá að bent hefur verið á krítíska galla í hugmyndum þínum.

Til að trúarbrögðin (fleirtala) geti verið slíkur samnefnari er alveg ljóst að velja þarf ein trúarbrögð (eintala).  Sagan kennir okkur að mismunandi trúarbrögð eru ekki samnefndari heldur fleygur á milli fólks.  Þannig getur fólk af sama kynþætti, sem talar sama tungumál og býr í sama landi verið sundrað einungis vegna þess að það iðkar mismunandi trúarbrögð.

Þannig að þú þarft að sýna okkur hvernig þú telur að ein trúarbrögð geti sameinað alla.

Eitt varðandi Marti Luther King.  Ef þú kynnir þér líf hans sérðu að hann starfaði ekki einn.  Í kringum hann var hópur fólks sem barðist fyrir réttindum blökkumanna.  Hluti þessa fólks voru trúleysingjar.  Saga mannréttindabaráttu 19. og 20. aldar geymir marga trúleysingja.  Ef þú villt kynna þér þá hlið mæli ég með bókinni Freethought, a history of American secularism sem fjallar fyrst um Bandaríkin eins og titillinn ber með sér en fléttar þó einnig inn frásögnum frá Evrópu.

Mannréttindabarátta hefur lengi verið nátengd baráttu fyrir málfrelsi og trúfrelsi.

Matthías Ásgeirsson, 24.9.2009 kl. 08:32

2 Smámynd: Styrmir Reynisson

Áhugaverð grein hjá þér.

Mín upplifun er hins vegar ekki sú að trúlausir gefi ekki af sér til samfélagsins eða hafi nein sameiginleg gildi. Það hafa verið gefin út (eingöngu til gamans skal tekið fram) 10 boðorð trúleysingja. Þau gengu í raun öll út á það sem allir taka sem gefnu t.d. Ekki stela, ekki drepa, ekki skaða aðra á nokkurn hátt og svo framvegis. Það er í rauninni vísun í að einhverju leiti meðfædd og að miklu leyti áunnin gildi sem nánast allir trúleysingjar gangast undir.

Ég geri mér grein fyrir því að trúarbrögð hafa oft fengið fólk til að gera góðverk sem það þurfti ekki að gera. Eða verið notuð sem sameiningartákn fyrir fólk sem vildi gera gott. Það eru einnig til trúlaus hjálparsamtök til dæmis og ég þekki persónulega trúlausa einstaklinga sem hafa fórnað miklu til að geta hjálpað fólki sem var verr statt, t.d. með því að fara í hjálparstarf eða annað þess háttar. Í þeim dæmum var ekki um að ræða annað en gott fólk sem vildi gera gott.

Þetta fær mig til að velta fyrir mér hvort fólk myndi ekki gera gott hvort sem það trúir eða ekki, hvort trúarbrögð séu í raun hvati að góðum gjörðum?

Það er góður punktur hjá þér að benda á að trúarbrögð geta skapað þeim sem stýra söfnuðum mikið vald. Það vald getur og hefur verið nýtt bæði til góðs og ills. Spurningin sem ég myndi vilja spyrja þig er hvort það vald sé eðlilegt eða hvort það sé þess virði að einhver hafi svo gífurlegt vald í skjóli ósannanlegs "sannleika"? Á Páfinn að geta rekið stærstu hjálparsamtök í heimi í skjóli almættisins? Á hann á sama tíma rétt á að reyna að koma í veg fyrir að fólk í alnæmisríkum svæðum noti smokk til að reyna að forðast alnæmi? Eða hefur hann rétt á að hylma yfir misnotkun á þúsundum drengjaí skjóli almættisins?

Styrmir Reynisson, 24.9.2009 kl. 08:39

3 identicon

Ég verð að taka undir með Matta.. það er orðið hálf neyðarlegt að lesa tilraunir þínar til að segja að trúarbrögð séu vitræn.
Þú ert fallin í að trúa á trúarbrögð... fellur fyrir  bragðinu

DoctorE (IP-tala skráð) 24.9.2009 kl. 08:40

4 Smámynd: Hrannar Baldursson

Matthías: Þetta er án efa með þínum betri athugasemdum, og sérstaklega finnst mér merkilegt hvernig þú merkir trúarbrögð með eintölu eða fleirtölu. Ég held einmitt að trúarbrögð séu ekki hlutur eða hlutir sem maður innleiðir, heldur fyrirbæri í mannlegu eðli sem við komumst ekki hjá að nota viljum við ná árangri saman.

Ég er kannski ekki að segja það sem þú vilt hlusta á?

Martin Luther King yngri var prestur.

Hvernig tengist mannréttindabaráttan inn í umræðuna og þá í tengslum við málfrelsi og trúfrelsi? Reyndar fann ég áhugaverða bók í bókabúð í Mexíkó fyrir nokkrum árum sem rakti saman mannréttindi og hvernig þau eiga samleið með öllum helstu trúarbrögðum (fleirtala) heimsins. Mannréttindasáttmáli sameinuðu þjóðanna hefur einmitt verið skrifaður með það í huga að finna sameiginlegan flöt á gildismati allra þjóða, og reyna þannig að gera hann altækan. Það hefur reynst þrautinni þyngri, en er afar áhugaverð barátta, sem ég styð með fullum hug.

Hrannar Baldursson, 24.9.2009 kl. 08:42

5 Smámynd: Hrannar Baldursson

DoctorE: Þú klikkar aldrei.

Styrmir: Ég efast engan veginn um ágæti trúlausra til góðverka og að sumir þeirra hafi sameiginleg gildi, en það er samt ákveðin mótsögn í sjálfu sér að taka slík sameiginleg gildi saman, held ég. Það sem um ræðir er sameiningarmáttur trúarbragða - sem er mun öflugri en sameiningarmáttur ekki trúarbragða. 

Áhugavert þegar þú spyrð hvort að vald sem þetta sé æskilegt? Svar mitt er frekar einfalt: þetta vald er til staðar, og ef það verður ekki notað, verður það örugglega misnotað. Ég vil frekar sjá það notað í tilraunum til að breyta vel en til að moka fjármunum undir eigin kodda. Stjórnmál eru alls ekki ólík trúarbrögðum að þessu leyti, en þau eru í raun tilraun til að sameina fólk undir forsendum sameiginlegra skoðana, sem gæti gengið upp ef stjórnmálamenn gætu hangið á þeim skoðunum sem þeir eru kosnir fyrir, í stað þess að venda þegar hentir. 

Trúarskoðanir eru að vissu leyti öflugri en stjórnmálaskoðanir þar sem að þær eru betur varðar fyrir árásum, ómögulegt að afsanna þær með rökum eða staðreyndum, þykja oft heilagar og fólk á það til að móðgast ógurlega séu slíkar skoðanir þeirra dregnar í vafa, á meðan skotfrelsi er á stjórnmálaskoðanir. 

Enn og aftur, skemmtilegar pælingar í athugasemdum. 

Hrannar Baldursson, 24.9.2009 kl. 08:54

6 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Martin Luther King yngri var prestur.

Martin Luther King yngri var ekki einfari.  Hann barðist ekki einn.  

Það hefur enginn haldið því fram að trúmenn geti ekki gert góðverð, unnið að góðum málum.

Aftur á móti halda sumir því fram að trúleysingjar geri ekki slíkt.  

Matthías Ásgeirsson, 24.9.2009 kl. 09:17

7 Smámynd: Róbert Badí Baldursson

Aftur skrifar þú fína grein! Ég tek líka ofan fyrir staðfestu þinni við að koma meiningu þinni til skila af kurteisi og yfirvegun þrátt fyrir háreysti hávaðaseggjanna. Ég er einmitt farinn að læra að hætta að svara og taka mark á fólki sem sýnir hroka og dónaskap.

Róbert Badí Baldursson, 24.9.2009 kl. 09:22

8 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Trú er eitt, trúarbrögð annað.

Annars dáist ég að þessari þráhyggju þinni til að leggja nýjar merkingar í orð og hugtök, máli þínu til stuðnings. Ég er sammála DoctorE og Matta. Þetta er orðið pínlegt. Ég held að þú ættir að bera skrif þín og svör við listann yfir Logigcal Fallacy's.  Skyldi Circular reasoning vera þar á meðal?

Hvert er markmið þitt með þessu? Ég næ engum botni í það.  Þú lagðir upp með vangaveltur um  sameiningarafl fyrir sundraða þjóð og finnur út að Trúarbrögð séu eina svarið.  Þar við situr, sama hve mikið skortir á að skýra það. Þú leggur þinn prívat skilning í hugtök, sveigir og beygir til að hvika ekki frá fyrirfram gefinni niðurstöðu.  Þetta hefur svo þróast út í orðsyfjar og analisma um merkingar hugtaka og maður er algerlega búinn að missa þráðinn.

Segðu mér í einni setningu hvað það er sem þú vilt koma á framfæri?  Er það að sannleikur sé algerlega afstæður og að til séu margar gerðir og skilgreiningar, sem kjósa má eftir hentugleikum? Hvað er pointið í þessu? Að finna leið til að losa þjóðina úr ánauð efasemda og trúleysis? Að sýna fram á að viðtekinn sannleikur, sé ekkert öðruvísi en sá sannleikur, sem trúaðir vitna til?  Í rauna að þessi hugtök séu merkingarlaus?

Jón Steinar Ragnarsson, 24.9.2009 kl. 13:15

9 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Sannanlegur sannleikur versus sannleikur????? Sérðu ekkert rangt við þetta?

Jón Steinar Ragnarsson, 24.9.2009 kl. 13:18

10 identicon

Þetta eru áhugaverðar pælingar. Ég hef það samt á tilfinningunni að ákveðinn punktur fari fram hjá fólki. Það er sú staðreynd að trú er eitthvað sem allar manneskjur búa yfir eða "nota". Trú er tól sem manneskjan hefur þróað með sér til þess að  höndla tilveruna. Einfalt dæmi um hversdaglega notkun trúar er í sambandi við jákvæðni. Að vera jákvæður er einfaldlega að trúa því að framtíðin beri eitthvað gott í skauti sér. Þú ert í rauninni að blekkja sjálfan þig - hunsa þær hamfarir sem geta fylgt óvissu daglegs lífs.

Það eru ótal ástæður fyrir því að fólk trúir hinu og þessu, en það sem þau eiga öll sameginlegt er að þau þurfa að trúa. Það gildir náttúrulega líka um fólk sem aðhyllast trúarbrögð. Enginn aðhyllist trúarbragð nema einhver þörf til að seyða tilfinningaleg óþægindi liggja þar að baki. Hvort sem það sé í sambandi við líf eftir dauðann, tilgang lífsins, eða hvað annað.

Mig langaði að taka þetta fram vegna þess að allt of oft les maður umræður sem snúast um "trú vs trúleysi". Enginn er nefnilega trúlaus.

Einnig tel ég að fólk ætti að hafa þetta í huga þegar það er að berjast gegn trúarbrögðum. Ef öllum trúarbrögðum væru útrýmt í dag þá sætum við eftir með heilan haug af taugaveikluðu og óhamingjusömu fólki. Því eins og ég nefndi áðan þá þarf fólk að  trúa, og eru líklega þróunarlegar skýringar á bak við það. Sem beinir mér að næsta punkti.

 Þú talar um að trú sameinar fólk.  Ég held að sú staðreynd hafi haft mikil áhrif á þróun okkar sem trúaðar verur. Mín kenning(legg áherslu á þetta orð) er sú að í kringum upphaf mannskyns hafi fyrsta trúarbragðið orðið til. Hefur það mögulega orðið til þegar fólk leitaði skýringar á einhverjum hamförum sem það lenti í, eða dularfullum fyrirbærum sem hræddi þau. Hvað með það. Ég tel að trúarbrögðin hafi orðið að sameiningartákni fyrir fólk. Með það síðan í huga að á þessum harðneskjulegri tímum fornalda þá hafi lífslíkur fólks verið mun meiri þegar það héldi hópinn, þá virðist trúað fólk hafa haft þróunarlega yfirburði yfir heiðingjunum. Ég er hins vegar ekki viss um að sameiningarmáttur trúarbragða sé æskilegur né nauðsynlegur í dag. Sérstaklega þar sem það virðist leiða fólk í að sameinast á móti einhverju/m. Sem á til að enda með ósköpum.

 Það sem ég er að reyna að segja er að trú er nauðsynleg, og trúarbrögð eiga væntanlega alltaf eftir að vera til í einhverju formi. Það þýðir lítið að berjast gegn trúarbrögðunum sjálfum. Trú er tól sem hefur þróast í mörg þúsund ár með þann eina tilgang að verjast rökhyggju.

Dæmi um þetta er sértrúarsöfnuður sem margir kannast líklega við. Æðstiprestur söfnuðarins spáði dómsdegi, og biðu meðlimir safnaðarins óþreygjufullir eftir að hann myndi rísa. Þegar að deginum síðan kom gerðist náttúrulega ekki neitt, og æðstipresturinn kom með nýja dagsetningu. En svolítið annað áhugavert gerðist. Í staðinn fyrir að sjá í gegnum ruglið hjá æðstaprestinum, þá byrjuðu meðlimir safnaðarins að trúa á nýju dagsetninguna með meiri staðfestu en þau höfðu gert með fyrstu dagsetninguna. 

Málið er nefnilega þannig, að ef þú ætlar að skora trú manneskju á hólm, þá þurfa rök þín gegn trúarkerfinu hennar að vera sterkari en þörf hennar til að trúa. Ef það tekst ekki þá gerir þú manneskjunni bara erfiðara með að trúa, og neyðir hana þannig til að steypa sér í frekari sjálfsblekkingu til að mæta því. Af þessum sökum er í flestum tilfellum tilgangslaust að rífast við fólk um trúarbrögðin sem þau aðhyllast.

Ég legg þannig til að að  fólk hætti að reyna að berjast gegn trúarbrögðunum sjálfum, og einbeiti sér heldur að því hvað sé hægt að gera við þörfinni á bak við þau.

Sigurður Sindri (IP-tala skráð) 24.9.2009 kl. 13:39

11 identicon

I just came for the LOL's :)

DoctorE (IP-tala skráð) 24.9.2009 kl. 14:00

12 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Í draumi sérhvers manns er fall hans falið.
Þú ferðast gegnum dimman kynjaskóg
af blekkingum, sem brjóst þitt hefur alið
á bak við veruleikans köldu ró.

Þinn draumur býr þeim mikla mætti yfir
að mynda sjálfstætt líf, sem ógnar þér.
Hann vex á milli þín og þess, sem lifir,
og þó er engum ljóst, hvað milli ber.

Gegn þinni líkamsorku og andans mætti
og öndvert þinni skoðun, reynslu og trú,
í dimmri þögn, með dularfullum hætti
rís draumsins bákn og jafnframt minnkar þú.

Og sjá, þú fellur fyrir draumi þínum
í fullkominni uppgjöf sigraðs manns.
Hann lykur um þig löngum armi sínum,
og loksins ert þú sjálfur draumur hans.


Jón Steinar Ragnarsson, 24.9.2009 kl. 15:37

13 identicon

Já.....Jón Steinarr Ragnarsson....tharna hittir thú naglann á höfudid.  Thad er einmitt thetta sem er á ferdinni.

Karamelluumbúdapappír (IP-tala skráð) 24.9.2009 kl. 17:49

14 Smámynd: Hrannar Baldursson

Jón Steinar klikkar aldrei. 

Þetta er eitt fallegasta ljóð sem skrifað hefur verið á íslensku, en finnst það eiga meira við útrásarvíkinga og Ísland fyrir Hrun, þar sem að ég er ekki að byggja loftkastala, heldur fyrst og fremst að velta fyrir mér hlutunum. Það að þetta flækist fyrir sumum, þýðir kannski að ennþá hafa þeir ekki hugsað allt dæmið til enda. Eða hvað?

En smá dæmisaga frá Kína, fyrst við erum komin út í draum og veruleika:

Dag nokkurn um sólseturbil, sofnaði Shuangzi og dreymdi að hann hefði breyst í fiðrildi. 

Hann barði saman vængjum sínum og vissulega var hann fiðrildi...

En dásamleg tilfinning þar sem hann flögraði um og gleymdi algjörlega að hann var Zhuangzi.

Fljótlega áttaði hann sig þó á því að þetta stolta fiðrildi var í raun og veru Zhuangzi sem dreymdi að hann væri fiðrildi, eða var það fiðrildið sem dreymdi sig vera Zhuangzi!

Kannski Zhuangzi hafi verið fiðrildi, og kannski var fiðrildið Zhuangzi? Það er þetta sem átt er við með "umbreytingu hluta".

Zhuang Zi (um 369-286 fyrir Krist)

Hrannar Baldursson, 24.9.2009 kl. 18:33

15 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Hrannar, dæmisagan um Zhuangzi er auðleyst: Hann var augljóslega maður að dreyma að hann var fiðrildi. Annars er engin saga, fiðrildi geta ekki sagt sögur.

Ég get ekki sagt að mér þykir þessi bloggfærsla sérstaklega vel skrifuð eða pæld. Gott dæmi er þessi efnisgrein:

"Trúlausir eru ekki hópur, heldur fjöldi einstaklinga sem stendur ekki saman um nein raunveruleg gildi. Hvort að staðreyndir hafi gildi er áhugaverð spurning, og þá hljótum við að spyrja hvað staðreyndir séu og hvernig við komumst að því hvað er staðreynd og hvað er ekki staðreynd, og hvort að allt það sem eru ekki staðreyndir hafi þar af leiðandi ekkert gildi, vegna þess eins að slík gildi eru ekki staðreyndir í sjálfu sér."

Frá fyrstu í aðra setningu ruglarðu saman tveimur merkingum orðsins "gildi". Fyrri notkunin (og sú hefðbundnari) er að nota fleirtöluorðið "gildi" yfir lífsskoðanir eða siðferðilega sannfæringu. Seinni notkunin (sem er hráþýðing úr ensku) er að nota eintöluorðið "gildi" í merkingunni að eitthvað sé einhvers virði.

Þar ertu strax kominn í rökvillu. Verðmætamat á staðreyndum er huglægt mat sem hefur ekkert með staðreyndir að gera. Staðreyndir hafa ekki og þurfa ekki að hafa "gildi", þær bara eru.

Setningin öll er mjög snúin og illskiljanleg hjá þér en þú virðist varpa upp þeirri spurningu hvort hægt sé að afskrifa staðleysur sem staðleysur á þeirri forsendu einni að verðmæti þeirra sé staðleysa. Svarið er nei. Staðleysur eru staðleysur vegna þess að þær eru staðleysur. Hvorki staðreyndir né staðleysur hafa "gildi" eða verðmæti umfram huglægt mat og huglægt mat breytir engu um staðreyndir eða staðleysur.

Efnislega langar mig þó að gagnrýna fyrstu setninguna, eftir að hafa þýtt hana: "Trúlausir einstaklingar mynda ekki skilgreinanlegan hóp manna þar sem þeir hafa ekki sameiginlegar lífsskoðanir eða siðferðisgrundvöll."

Þetta er algengur áróður trúvarnarmanna, að trú sé nauðsynleg forsenda mennsku og trúlausir séu þar af leiðandi ómennskir, hafi enga sameiginlega mennska eiginleika. En sagan og vísindin segja okkur allt annað. Mannúð, samhjálp, vinátta, ást, kærleikur, fórnfýsi, gjafmildi eru allt eðlislægir þættir okkar manna. Trúlausir einstaklingar hafa þessar kenndir til jafns við hina trúuðu. Munurinn er sá að hinir trúlausu taka sjálfir ábyrgð á mennsku sinni í stað þess að varpa ábyrgðina yfir á ómennska ímyndaða yfirnáttúrulega veru.

Okkar vestræna samfélag byggir á hugsunum og pælingum trúlausra manna. Lýðræði, mannréttindi, frelsi, bræðralag er allt sprottið af trúlausum (eða trúfrjálsum) heimspekipælingum upplýsingaraldar. Byltingarnar í amerísku nýlendunum og í Frakklandi voru upphafið að þeirri baráttu sem trúlausir og trúfrjálsir mannvinir hafa háð æ síðan. Samfélag okkar í dag er trúlausum og trúfrjálsum að þakka, samfélag skapað í trássi við trú og trúarbrögð.

Það er leitt að sjá annars ágætan dreng dragast út í illa ígrundað fúafen í vörn fyrir vanhugsaðri tilgátu um trúarbragðanauðsyn. Í ská-tilvitnun og öfugri merkingu við Marx virðist þú telja trúarbrögðin áfengi almennings, það sem heldur sauðsvartum almúganum "góðum" af því hann ræður ekki við að hugsa eigin hugsanir og taka sjálfstæðar ákvarðanir. Þarna birtist veruleg vantrú á manninn, á mennsku okkar, sam-mennskuna. Þú býrð til holu í mannkyni þar sem engin hola er og fyllir hana síðan af því sem ekki er til.

Brynjólfur Þorvarðsson, 24.9.2009 kl. 21:04

16 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Samkvæmt rökfræði Hrannars er Brynjólfur bara ósáttur við að Hrannar hefur ekki lesið sömu "kreddur" og hann og er á annarri skoðun.

Hrannar gerir aftur á móti ekki minnstu tilraun til að svara þeirri gagnrýni sem hann hefur fengið.

Þetta er með því allra slappasta sem ég hef séð á moggabloggi og hef ég þó séð margt afar slappt á þeim vettvangi.

Matthías Ásgeirsson, 25.9.2009 kl. 13:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband