Þegar þetta er skrifað hafa 106 misgóðar athugasemdir verið gerðar við helgargreinum mínum Skal umbera þá sem misnota tjáningarfrelsið gegn múslimum? og Hvernig notum við tjáningarfrelsið sem áróðurstæki? Svör við athugasemdum greinarinnar: "Skal umbera þá sem misnota tjáningarfrelsið gegn múslimum?" en þar ræði ég um kvikmyndina Fitna og hvernig mér sýnist hún misnota tjáningarfrelsið með óábyrgum hætti.
Það sem kemur mér helst á óvart er heiftin sem má finna í mörgum athugasemdum, sem virðist byggður á þeim ótta að verið sé að gera aðför að tjáningarfrelsinu.
Fyrir mér er tjáningarfrelsið heilagt. Ég vil verja það með kjafti og klóm. Hins vegar virðist fólk skilja hugtakið "tjáningarfrelsi" á ólíkan hátt.
Annars vegar er það fólk sem telur að tjáning skuli ekki bara vera frjáls, heldur ætti tjáningin helst að flæða út og skiptir þá engu máli hvað er sagt, enginn ber ábyrgð og ef einhver særist er það bara af aumingjaskap. Þetta eru ekki ólík þeim rökum þegar fullorðið fólk heldur því fram að einelti og ofbeldi meðal barna sé bara eðlilegur hlutur sem er allt í lagi að viðgangist, því að þetta herðir bara börnin.
Ég er ekki sáttur við þessa skilgreiningu á tjáningarfrelsi.
Í mínum huga er frelsi ekki það að geta gert hvað sem er án þess að þurfa að horfast í augu við afleiðingar gjörða þinna. Þú stekkur ekki fram af kletti og vonar að frelsisins vegna hrapirðu ekki í hafið. Þú keyrir ekki bíl á 200 km. hraða um Kópavoginn af því að bíllinn þinn gefur þér frelsi til að komast svona hratt. Þegar við stökkvum fram af kletti eða keyrum alltof hratt þurfum við að horfast í augu við afleiðingarnar, sama hverjar þær eru.
Það sama á við um tjáningarfrelsi. Við getum sagt hvað sem okkur dettur í hug. Hins vegar getur sumt sem við tjáum verið líkt því að stökkva fram af kletti eða keyra á 200 km. hraða gegnum Kópavoginn. Við þurfum að bera ábyrgð.
Höfundar skopmynda í Danmörku og áróðursmyndarinnar Fitna misskilja tjáningarfrelsið, því að tjáningarfrelsið er nokkuð sem okkur ber að virða, í stað þess að misnota. Misnotkun á tjáningarfrelsi kallar fram raddir sem vilja stýra tjáningu, útiloka að fólk geti tjáð skoðanir sínar, ritstýra. Þetta vil ég ekki.
Það sem ég vil er að virðing sé borin fyrir frelsinu sem við höfum til að tjá okkur, til að hugsa, til að hafa samskipti, og að þetta frelsi verði ekki misnotað, því að þá verði því stefnt í hættu.
Af hverju reiðist fólk slíkri skoðun?
Getur verið að fólk reiðist þessari skoðun af því að hún er vel rökstudd, og þar sem engar glufur á röksemdunum er að finna þurfi að skella sér út fyrir svæði rökfræðinnar þar sem ofbeldi í máli, eða rökvillur, hafa meiri áhrif en vel rökstutt mál?
Þegar sumir einstaklingar verða rökþrota virðist vera í tísku að ráðast gegn persónum frekar en málefninu sjálfu. Það rökþrot er kallað ad hominem, eða persónurökþrotið. Reyndar kemur mér ekkert á óvart að fólk beiti rökþrotum þegar því þrýtur rök og verður pirrað. En mér finnst nokkuð langt gengið þegar hugleysingjar sem skrifa í nafnleysi beita ad hominum á þá sem hafa hugrekki til að skrifa undir eigin nafni.
Athugasemdir
Minnir að það hafi verið Sören Kierkegaard sem sagði að málfrelsi væri gagnslaust ef fólk nýtti sér ekki frelsið til að hugsa (man þetta ekki orðrétt). Rímar ágætlega við það sem þú skrifar.
Guðmundur (IP-tala skráð) 31.3.2008 kl. 19:35
Skondið, ég var nefnilega einmitt einnig að skrifa um tjáningarfrelsið einnig en út frá öðrum vinkil.
AK-72, 31.3.2008 kl. 19:35
Ég er alveg pollrólegur ?
Ómar Ingi, 31.3.2008 kl. 21:36
Guðmundur: Gaman að þessu! Ég hef ekki verið nógu duglegur að lesa Kirkegaard. Kannski kominn tími til að bæta úr því.
AK-72: Grein þín er umhugsunarverð og jú, skemmtilegt að við skulum semja þetta á nokkurn veginn sama tíma.
salb: Takk fyrir athugasemdina og allar hinar núna um helgina.
Ég var ekki að vísa til þess að þú ávarpaðir mig Don Hrannar de Breiðholt, og gaman að þú skulir sjá húmorinn í heitinu, enda kallar einn af mínum bestu félögum sig Sancho. Það er ekki ad hominem, og hef ég ekki sakað einn eða neinn um slíkt, heldur benti á að einhver ónafngreindur aðili notaði þau rokþrot í athugasemdum sínum í öðrum færslum, og ekkert endilega gegn mér.
Ég tala hvergi um heftun skoðanafrelsis, aðra en þá að einstaklingar þurfa að vera meðvitaðir um ábyrgð þeirri sem fylgir tjáningu þeirra.
Vil ég koma í veg fyrir birtingu áróðursverka? Ekki með valdi, nei. Hins vegar þætti mér vænt um að fólk sýndi tjáningarfrelsinu ekki vanvirðingu með óábyrgri tjáningu sem getur valdið skaða.
Hvernig skaða?
Til dæmis: Aukið fordóma gagnvart viðkomandi hópi, og þar af leiðandi gert hópnum lífið leiðara en efni standa til.
Tja, nei. Ég er ekki hlynntur ritskoðun almennt séð, en get séð fyrir mér aðstæður þar sem ritskoðun getur verið nauðsynleg - en það væri þá aldrei gagnvart persónulegum skoðunum einstaklinga fyrir opnum tjöldum. Aftur á móti getur ritskoðun verið réttlætanleg þegar ritin eru til þess ætluð að ýfa upp reiði og heift á svæði þar sem slíkt á alls ekki við, til dæmis í góðra vina hópi, á vinnustað, í skólastofu. Það þarf að meta aðstæður hverju sinni, en opinberar skoðanir einstaklings á opinberum vettvangi, nei, - það vil ég ekki ritskoða.
Þetta er skoðun sem á fyllilega rétt á sér. Hins vegar má rökstyðja hana betur. Satt er að ég kemst ekki alltaf að skiljanlegri niðurstöðu, þar sem að niðurstaðan er ekki alltaf skiljanleg.
Ég þykist kannast nokkuð vel við hvað ad hominem þýðir, og hef lesið eitthvað eftir John Stuart Mill, og hef fræðst mikið á þeim lestri, og tel mig hugsa nokkuð gagnrýnið um þær upplýsingar og hugmyndir sem ég les. Hvort mér takist að tjá það vel er annað mál, enda er ég enginn John Stuart Mill. Takk samt fyrir samanburðinn. Ég roðna af monti.
Já, og myndanotkunin mín er mikil. Ég hef svo gaman af myndum. Það er rétt. Leitt að þú hafir lent í skömmum vegna myndar sem þú hefur birt. Og ég veit að ég er ekki nógu duglegur að geta heimilda um þær. Ef þú hins vegar hægrismellir á myndirnar geturðu fundið tengil í síðuna þaðan sem þær koma. Ég mæli með því.
Kærar þakkir fyrir áhugann á langhundunum mínum, þú ert nú ekki alveg saklaus sjálf(ur) þegar kemur að hinum löngu hvolpum.
Ómar: Pollrólegur segirðu. Enda er ég ekki að skrifa um kvikmyndir í augnablikinu.
Hrannar Baldursson, 31.3.2008 kl. 21:44
Góðar pælingar hjá þér Hrannar. kv. B
Baldur Kristjánsson, 31.3.2008 kl. 22:09
Takk fyrir þennan málefnalega pistil.
Sveinn Atli Gunnarsson, 31.3.2008 kl. 23:20
Ég verð nú bara að segja það að þessar samræður ykkar hér á milli eru nú stórskemmtilegar og gaman að sjá góða penna skiptast á skoðunum.
Ég er reyndar ekki alveg sammála pistli Hrannars því ég álít að um leið og við setjum einhverjar hömlur á tjáningarfrelsi þá munum við glata því sem það stendur fyrir. Svo má nú ekki gleyma því t.d. að þeir sem mótmæltu dönsku skopmyndunum voru að nýta sér sama frelsið og þeir voru að mótmæla. (vonandi skildist þetta)
Gardar (IP-tala skráð) 1.4.2008 kl. 00:20
Hrannar: takk fyrir áhugaverða pistla.
Garðar, það ERU hömlur á tjáningarfrelsinu, t.d. hvað snertir meiðyrði, ærumæðingar, níð, morðhótanir og hatursáróður. Það er bara spurning um hvar við drögum mörkin, ekki hvort.
Svartagall, 1.4.2008 kl. 14:40
Sæll Hrannar
Ég er algerlega sammála þessari grein þinni og ábendingin varðandi ad hominem rökvillu þeirra sem skrifa undir dulnefni er að bæta gráu ofan á svart.
Ég var þó ekki sammála túlkun þinni á myndinni "Fitna" þar sem ég greinilega skyldi tilgang og gagnrýni myndarinnar á annan veg en þú. Ég gat ekki séð að henni væri beint að þeim múslimum sem fara ekki offari, heldur islamistum sem sýna nær engu umburðarlyndi nema eigin trúarskoðun. Ég reyndi að skoða myndina aftur á netinu en á Youtube fann ég bara slatta af myndum sem báru sama heiti en voru annað. Hlekkir á myndina virtust blokkeraðir.
Svanur Sigurbjörnsson, 1.4.2008 kl. 21:11
Sæll á ný
Ég fann myndina hér og skoðaði aftur enda stutt. Í myndinni er Islam tengt við hryðjuverk og morð og ekki talað sérstaklega um íslamista þannig að það má gagnrýna það að hann greini ekki á milli mismunandi hluta Islam. Hins vegar er ljóst að það sem sýnt er í myndinni er að gerast og það er oft erfitt að greina á milli þeirra sem eru frjálslyndi og svo aftur bókstafstrúar meðað múslima. Það eru mörg hættumerki og það þarf að sporna við óheillaþróun í átt að myndun sharía-ríkja í Evrópu.
Svanur Sigurbjörnsson, 1.4.2008 kl. 21:48
Ég segi stundum við kunningja mína, að sú muslima "umræða" sem vaðið hefur uppi undanfarin ár á V-löndum, sé einhver hin fáránlegasta umræða sem sögur fari af á okkar tímum.
Einkennist af svo miklum fordómum og vanþekkingu að það hálfa væri miklu miklu meira en nóg.
En td þegar eg les sumt sem menn eru að skrifa á netinu um viðkomandi málaflokk... ja, eg segi nú bara alveg eins og er, að eg efast stundum stórlega um að fólki sé hreinlega alvara. Slík eru yfirgengilegheitin.
Annars er þetta frábær pistill hjá Hrannari.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 1.4.2008 kl. 22:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.