Rambo (2008) ****
13.2.2008 | 23:19
Sarah Miller (Julie Benz) og unnusti hennar Michael Burnett (Paul Schulze) eru á leið til Búrma í átta manna hóp sem boðberar kristinnar trúar. Þau hafa heyrt af gereyðingu þjóðarbrota sem eiga sér stað og vilja koma einhverju góðu til leiðar með því að fræða og hjúkra fólkinu.
Þau reyna að fá bandarískan veiðimann gleraugnaslanga til að sigla með þau frá Tælandi til Búrma. Í fyrstu segir hann þvert nei, og bendir fólkinu vinsamlegast að fara heim þar sem enginn getur breytt neinu með bókum og hjúkrun í stríðshrjáðu landi, óvarin og vopnlaus. Loks samþykkir hann þó þegar Sarah spyr hann hvort að það sé ekki þess virði að bjarga þó ekki sé nema einu lífi. Svarið sem John Rambo (Sylvester Stallone) gefur með augnaráðinu er nóg til þess að áhorfendur viti að þessi eina manneskja sem hann telur þess virði að bjarga er Sarah Miller sjálf.
Rambo samþykkir að fara með hópinn til Búrma. Eftir að hafa slátrað nokkrum sjóræningjum og vakið þannig mikinn óhug meðal farþeganna, skilur hann þau eftir í Búrma og heldur sína leið. Sarah og Michael sinna þorpsbúum þar sem börn hafa misst útlimi vegna jarðsprengja og fólk er vart læst. Það býr við bágar aðstæður sem versna til muna þegar herinn ræðst á þorpið og slátrar nærri öllum þorpsbúum, og handsama Sarah og Michael, ásamt nokkrum öðrum.
Þegar ekkert hefur heyrst frá hópnum í tíu daga er Rambo beðinn að fylgja hóp málaliða á staðinn þar sem hann skildi þau eftir. Hann er ekki lengi að samþykkja, og býr sér til nýja sveðju áður en lagt er af stað. Málaliðahópurinn er eins og klipptur út úr Predator (1987) með Arnold Schwarzenegger. Þeir gera sér ekki grein fyrir hvers lags vígvél siglir bátnum, nema leyniskyttan sem kölluð er Skólastrákur (Matthew Marsden), en hann áttar sig á hvers lags náungi Rambo er.
Hópurinn vill upphaflega ekki fá Rambo með í björgunarleiðangurinn, enda gamall kall sem þeir halda að muni hægja á þeim, en hann fer samt, - og gerir það sem hann gerir best. Eins og hann segir sjálfur, það er jafn auðvelt fyrir hann að drepa og það er fyrir aðra að anda. Við tekur sérstaklega vel uppbyggður björgunarleiðangur.
Tæknilega er Rambo gífurlega vel heppnuð. Það er langur skotbardagi sem hefði alveg eins getað verið leikstýrður af Spielberg, en hann er án nokkurs vafa stolinn úr þeim 20 fyrstu mínútum af Saving Private Ryan sem mest umtal vakti á sínum tíma. Handritið hentar viðfangsefninu fullkomlega og Stallone leikstýrir af stakri snilld. 2006 leikstýrði Stallone Rocky Balboa og tókst það ómögulega, að gera bestu Rocky myndina frá upphafi. Nú endurtekur hann leikinn, og gerir bestu Rambo myndina frá upphafi.
Til viðvörunar, þá er Rambo gífurlega ofbeldisfull mynd þar sem mannslíkamar eru bókstaflega tættir í sundur. Hún höfðar til allra lægstu hvata áhorfandans, en hún gerir það vel og af hreinskilni, - Stallone þykist ekki vera að gera eitthvað annað en ógeðslega og blóðuga stríðsmynd um aldna ofurhetju. Það eru engar pólitískar ræður, aðeins augnaráð og ofbeldi sem segja margfalt meira en nokkur orð.
Ef þú ferð að sjá Rambo í bíó, skaltu ekki eiga von á Howard's End, ballett eða fínni óperu, heldur drullugum leðjuslag frá upphafi til enda. Rambo höfðar til sömu hvata og þeirra sem fylgjast með kappleikjum - þú ferð til að sjá þinn mann rústa andstæðingnum, og dáist að því hvernig hann gerir það. Hvort þú skammist þín eitthvað fyrir að hafa gaman af jafn viðbjóðslegu ofbeldi og birtist hér, er svo allt annar handleggur, - sem vekur reyndar áhugaverðar spurningar um áhrif ofbeldisfullra kvikmynda á ofbeldi í samfélaginu, - spurningar sem ég þykist ekki getað svarað.
Ég gef Rambo fjórar stjörnur af fjórum mögulegum (myndir komast ekki upp í fimm stjörnur hjá mér nema ég sjái þær tvisvar og gefi þeim í bæði skiptin fullt hús), vegna þess að hún gerir nákvæmlega það sem henni er ætlað að gera, hvorki meira né minna. Hún er formúlumynd sem hefði eins getað verið gerð í Hong Kong, en formúlumynd sem hittir á allar réttu nóturnar á öllum réttu augnablikunum.
Ég er viss um að fjölmargir gagnrýnendur muni gefa Rambo slaka dóma þar sem að hún höfðar ekki til þeirra, hún er ekki nógu gáfuleg, hún er ekki falleg, hún er með of miklu ofbeldi - en þannig á Rambo að vera. Rambo á ekki að vera gáfuleg, heldur má hún sýna hráar og ljótar tilfinningar, og aðalpersónu sem er algjörlega týnd í heimi sem er henni óskiljanlegur. Rambo er vonsvikinn einstaklingur sem finnst heimurinn illur og trúir að einungis ill meðöl geti breytt einhverju, og þá ekkert endilega til hins betra.
Sýnishorn úr Rambo:
Flokkur: Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 23:22 | Facebook
Athugasemdir
Þetta er svona algjört must að sjá, búin að sjá hinar og þetta er ekki fullkomið nema sjá þær allar.
Ásdís Sigurðardóttir, 14.2.2008 kl. 00:04
Stórkostleg bíómynd sem gaf mér tilefni til að rita lengstu kvikmyndarýni til þessa.
Þórður Ingvarsson (IP-tala skráð) 14.2.2008 kl. 01:54
Já, þessa verður maður á sjá rétt eins og Die Hard bara til að sjá hvort menn hafi einhverju gleymt.
Steingerður Steinarsdóttir, 14.2.2008 kl. 10:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.