No Country for Old Men (2007) ****
10.2.2008 | 10:59
Lögreglustjóri í Texas, Ed Tom Bell (Tommy Lee Jones), fær inn á borð til sín ljótt mál, þar sem fíkniefnasmygl og fjöldamorð koma við sögu. Hann kemst að því að fyrrum hermaður úr Víetnam stríðinu, Llewelyn Moss (Josh Brolin), hefur fundið nokkrar milljónir dollara eftir að allir sem komu að fíkniefnasölunni drápu hvern annan. Ed Tom hefur einnig komist að því að leigumorðinginn Anton Chigurh (Javier Bardem), auk mexíkóskrar mafíu er á eftir Moss, og að þeir munu ekki stoppa fyrr en peningurinn er kominn í þeirra hendur.
Þó að hægt sé að fullyrða að Ed Tom Bell sé í raun aðalsögupersóna No Country for Old Men, þar sem að hann virðist vera sá eini sem lærir eitthvað af öllum ósköpunum, þá fylgir frásögnin fyrst og fremst Llewelyn Moss og flótta hans undan hinum snartruflaða morðingja, Chigurh.
Llewelyn Moss er einn á veiðum þegar hann slysast til að finna leifarnar af miklu blóðbaði og tvær milljónir dollara. Hann finnur einn mann á lífi sem biður um vatnsopa. Eftir að hann finnur peninginn, fer hann heim og felur hann. Um miðja nótt man hann síðan eftir manninum sem bað um vatnssopann og fer aftur á staðinn þar sem blóðbaðið átti sér stað. Hann kemur að manninum dauðum, og ljóst er að setið er fyrir honum. Þar með hefst flótti hans. Honum tekst að senda eiginkonu sína, Carla Jean Moss (Kelly Macdonald) í burtu, og ætlar að losa sig við alla þá sem eru á eftir honum.
Á milli Llewelyn Moss og Antons Chigurh, sem drepur nánast allt sem vogar sér að anda í návist hans, er mexíkóska mafían - og fá þeir heldur betur að finna fyrir að ekki er gott að lenda í þessum blessaða Chigurh. Mafíuforinginn (Stephen Root) fær leigumorðingjann Carson Wells (Woody Harrelson) til að leita uppi Chigurh og drepa hann, en Chigurh er ekki bara geðveikur, hann er líka snjall og kann að ná stjórn á nánast hvaða aðstæðum sem er.
Á meðan allt þetta gengur yfir kemst Ed Tom nær sannleika málsins, - og þegar hann kemst að því hvílíkur óhugnaður er í gangi fallast honum hendur, og hann verður að endurmeta allt sitt líf og tilgang þess að starfa sem lögreglumaður í heimi þar sem fólki virðist standa algjörlega á sama um siðferði og lög.
No Country for Old Men fjallar í raun um það sem breytist í samfélaginu og það sem er varanlegt. Svo virðist sem að geðveikin, óheilindin og morðin séu varanleg, en að fólkið eldist og kemur að því að það áttir sig á að það ræður ekki lengur við þessa bilun. Hinir ungu telja sig hins vegar ráða við hana, hvort sem þeir gera það eða ekki. Og þeir biluðu kæra sig kollótta og halda bara áfram í sínum klikkaða heimi að gera klikkaða hluti. Fórnarlömbin eru hins vegar bara á röngum stað og á röngum tíma, hending ein virðist ráða hvort að þau lifi eða ekki.
Leikstjórnin er frábær, en allir leikararnir standa sig stórvel og þá sérstaklega hinn frábæri Javier Bardem, sem leigumorðinginn ósýnilegi Chigurh (sem enginn kann að bera fram). Ég mæli með spænsku myndinni The Sea Inside (Mar adentro (2004)), þar sem hann sýnir einnig stórleik. Josh Brolin og Tommy Lee Jones eru líka mjög traustir, og ljóst að Brolin (sonur James Brolin) kemur mjög sterkur inn árið 2007 eftir mörg mögur ár í Hollywood, en hann lék í fjórum áberandi kvikmyndum í fyrra: No Country for Old Men, Planet Terror, In the Valley of Elah og American Gangster. Það verður áhugavert að sjá hann í kvikmyndinni Bush, þar sem hann mun leika George W. Bush, en Oliver Stone mun leikstýra henni, en sú mynd kemur út 2009.
No Country for Old Men hefur fengið fjölda tilnefninga til Óskarsverðlauna í ár:
- Besta kvikmyndatakan (Roger Deakins)
- Besta leikstjórn (Ethan Coen og Joel Coen)
- Besta klipping (Ethan Coen og Joel Coen)
- Besta árangur í hljóði (Skip Lievsay, Cragi Berkey, Greg Orloff og Peter F. Kurland)
- Besta árangur í hljóðblöndun (Skip Lievsay)
- Besta kvikmynd ársins (Scott Rudin, Ethan Coen og Joel Coen)
- Besti leikari í aukahlutverki (Javier Bardem)
- Besta handrit byggt á áður útgefnu efni (Joel Coen og Ethan Coen)
Ég er handviss um að Javier Bardem fær Óskarinn fyrir sitt hlutverk, enda mjög eftirminnilegt illmenni þar á ferð. Ég reikna einnig með að Coen bræður fái Óskarinn fyrir bestu leikstjórn, bestu klippingu og besta handritið, - en er í meiri vafa um hvort þeir nái verðlaunum fyrir bestu kvikmynd, en miðað við samkeppnina á ég von á því að þeir taki þetta, enda eru snilldirnar Gone Baby Gone og 3:10 to Yuma ekki tilnefndar sem bestu myndirnar í ár.
Sýnishorn úr No Country for Old Men:
Flokkur: Kvikmyndir | Facebook
Athugasemdir
Þetta er ágætis mynd en langt frá því að vera eitthvert meistarastykki að mínu mati.
Júlíus Valsson, 10.2.2008 kl. 13:50
...ég gleymdi einu: Bókin er hins vegar frábær.
Júlíus Valsson, 10.2.2008 kl. 13:50
Án efa ein besta kvikmynd Coen bræðra og er þá samt af nógu að taka , sammála þér með handritið það er 100%
Hugsa að leikstjórinn og myndin verði þeirra líka
Besta myndin sem sýnd hefur verið hérna 2008
Ekki missa af þessari í kvikmyndahúsi.
Ómar Ingi, 10.2.2008 kl. 14:20
Dóttir mín (30 ára) sá þessa mynd um daginn og sagði við mig að ef ég ætlaði bara að sjá eina mynd þetta árið, þá væri þetta myndin. Takk fyrir góða samntekt.
Ásdís Sigurðardóttir, 11.2.2008 kl. 00:14
Ég hlakka ósegjanlega til að sjá þessa mynd. Ég las bókina fyrir nokkrum árum og var með óhugnaðarhroll í dálítinn tíma á eftir.
Steingerður Steinarsdóttir, 12.2.2008 kl. 09:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.