10 bestu ofurhetjumyndirnar: 1. sæti: Batman Begins (2005) ****
29.10.2007 | 22:37
Komið er að lokafærslunni um bestu ofurhetjumyndirnar að mínu mati. Vonandi verður þörf á að uppfæra listann fljótlega þar sem von er á kvikmyndum innan skamms um Iron Man, Thor, framhald af Batman og Superman, og þeirri athyglisverðustu: The Watchmen.
Ég vil þakka tryggum lesendum kærlega fyrir sinn þátt í að gera þennan lista að veruleika, og sérstaklega vil ég þakka hvatningu Ásdísar Sigurðardóttur sem ýtti mér yfir síðasta hjallann.
Batman Begins er besta ofurhetjumynd sem ég hef séð og langbest allra þeirra kvikmynda sem gerðar hafa verið um Batman, fyrir utan kannski teiknimyndirnar snilldargóðu Batman: Mask of the Phantasm (1993) og Batman Beyond: Return of the Joker (2000), en þær voru gerðar fyrir sjónvarp og vídeó, þannig að þær teljast varla með sem kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndin um Leðurblökumanninn er frá 1943, en hún heitir einfaldlega The Batman.
Vinsælir sjónvarpsþættir voru gerðir á 6. áratugnum sem gerðu í raun grín að teiknimyndaforminu og tóku sig alls ekki alvarlega. Þetta voru litríkir þættir og höfðu töluvert skemmtanagildi, en náðu alls ekki þeim anda sem Bob Kane, höfundur persónunnar, reyndi að draga fram í teiknimyndasögum sínum.
Árið 1989 leikstýrði Tim Burton Batman þar sem tókst að skapa spennandi andrúmsloft í kringum aðalpersónuna, en Jack Nickolson tókst hinsvegar að draga meginhluta myndarinnar niður á sama plan og þættina frá 6. áratugnum. Þetta var þó þróun í rétta átt. Batman var að einhverju leyti tekinn alvarlega. Í Batman Returns hélt Burton áfram fyrri háttum og endurskapaði þar meðal annars Mörgæsina og Kattarkonuna. En Kattarkonan var sérlega vel heppnuð í hlutverki Michelle Pfeiffer. Gallinn við myndina var hins vegar sá að það var allt of mikið af illmennum út um allt og Batman sjálfur fékk nánast enga athygli. Í Batman Forever tók Joel Schumacher við taumunum og hélt húmornum áfram með því að fá þá Jim Carrey og Tommy Lee Jones til að ýkja sín hlutverk. Heimur persónunnar hrundi síðan í Batman & Robin sem var ofhlaðin ofurillmennum, en þar fór Arnold Schwarzenegger í broddi fylkingar sem Herra Frystir og Uma Thurman sem Eitraða Jurt.
Nú eru breyttir tímar. Í fyrsta sinn er Batman tekinn alvarlega, nú af leikstjóranum Christopher Nolan og handritshöfundunum David S. Goyer og bróður Christopher, Jonathan Nolan. Farið er djúpar í persónusköpun Batman en áður hefur verið gert í kvikmyndum. Rakin er sagan af morði foreldra Bruce Wayne (Christian Bale) og þeirri biturð sem hann upplifir sem barn, og þeirri hlýju sem þjónninn hans Alfred (Michael Caine) veitir honum þegar hann gengur honum í föður stað. Þegar Bruce Wayne mistekst að hefna foreldra sinna, þar sem annar aðili er fyrri til að drepa morðingja þeirra, leggur hann í leiðangur út í heim, fyrst og fremst til að hafa upp á illmennum sem hann vill taka reiði sína út á og síðar meir til að læra bardagalistir undir stjórn Ra's Al Ghul (Liam Neeson).
Dregin er upp biksvört mynd af Gothamborg, þar sem æskuást Bruce, Rachel Dawes (Katie Holmes) er orðin að saksóknara og í stöðugri lífshættu stöðu sinnar vegna, undan ofsóknum mafíósans Carmine Falcone (Tom Wilkinson) og Dr. Jonathan Crane (Cillian Murphy).
Þegar Bruce Wayne snýr aftur til Gotham eftir mörg ár í útlegð kemst hann að því að stjórnarformaður Wayne samsteypunnar (Rutger Hauer) ætlar að sölsa undir sig stjórnina og halda áfram framleiðslu á útrýmingarvopnum; sem er þvert gegn hugmyndum Wayne fjölskyldunnar um mannúðarstörf fyrirtækisins. Wayne finnur einstaklinga sem tilbúnir eru til að leggja honum lið í baráttu sinni gegn glæpum sem Batman. Helstir þeirra eru lögreglufulltrúinn Jim Gordon (Gary Oldman) og uppfinningamaðurinn Lucius Fox (Morgan Freeman).
Allir þessir klassaleikarar taka hlutverk sín alvarlega og standa sig gríðarlega vel. Þeir ýkja ekki hlutverk sín eins og fyrri Batman leikarar; og það er einmitt lykillinn að velgengni Batman Begins. Manni stendur ekki á sama um þessar persónur og samskipti þeirra og í ljós kemur að heilmikið býr þeim að baki og samband þeirra reynist margbrotið og spennandi.
Hasarinn er aukaatriði. Spennandi persónur og góð samtöl er helsti styrkleiki Batman Begins. Samt er hasarinn vel útfærður þegar að honum kemur, og er hann hæfilega í takt við söguna.
Ég bíð spenntur eftir framhaldinu sem kemur út 2008, The Dark Knight, sem verður leikstýrt og skrifuð af sömu einstaklingum og gerðu Batman Begins. Leikarahópurinn verður ekkert síðri, en meðal leikara í framhaldinu verða Heath Ledger, Maggie Gyllenhaal (sem tekur við Katie Holmes í hlutverki lögfræðingsins Rachel Dawes), William Fichtner sem hefur verið að gera góða hluti sem spilltur FBI rannsóknarmaður í Prison Break, Anthony Michael Hall, Aaron Eckhart og Eric Roberts.
10 bestu ofurhetjumyndirnar:
1. sæti: Batman Begins (2005)
2. sæti: The Incredibles (2004)
3. sæti: Spider-man (1999-2003)
4. sæti: The Matrix (1999-2003)
6. sæti: X-Men þríleikurinn (2000-2006)
Flokkur: Kvikmyndir | Breytt 2.11.2007 kl. 00:48 | Facebook
Athugasemdir
Góð grein eins og venjulega hjá þér.
Mig langar bara að bæta því við (af því mér þykir það skipta máli) að Batman Begins er byggð á verkum Frank Miller sem hefur teiknað nokkrar eftirminnilegustu Batmanseríurnar. Hann teiknaði og skrifaði að auki sögurnar 300 (sem nýlega varð kvikmynd) og Sin City (sem stefnir í margar myndir). Sumir segja að Hollywood hafi fyrst tekist að gera góðar bíómyndir eftir teiknimyndasögum þegar menn þar fóru að taka sögurnar alvarlega og meðhöndla þær af virðingu - vera söguþræðinum og persónunum trúir (sbr Spiderman, Sin City, Batman begins) en ekki hræra öllu saman í einn óskiljanlegan graut þar sem sagan bíður lægri hlut fyrir fxdeildinni (Daredevil, Batman og Robin, Elektra).
Nú bíður maður spenntur eftir því að sjá hvað verður í framtíðinni.
Netverji (IP-tala skráð) 30.10.2007 kl. 07:01
Athyglisvert en get ekki verið 100% sammála.
HULK var ofurhetjumynd hins hugsandi manns og margfalt, margfalt áhugaverðari, betur gerð og flottari en ruslið GHOST RIDER. Þá mynd á að grafa í bakgarðinum á miðnætti og reyna að gleyma henni.
BLADE 2 var líka mikið hressilegri en draugaknapa-ruslið. Og hvað með THE CROW?
Gísli Sverrisson (IP-tala skráð) 30.10.2007 kl. 16:46
gaman að þessu og flott vinna hjá þér. einhverra hluta vegna hef ég ekki séð begins myndina en verð að bæta úr. ekki spurning. er nú kannski ekkert hjartanlega sammála um röðina en þetta er þín best of... (ekki nennti ég að byrja á þessu), svo ég kvitta að mestu.
en tek samt undir hjá gísla með the crow. sem var jafn æðisleg og númer tvö var það ekki.
en meira svona. bestu spæjara, bestu gaman, bestu morð og svo framvegis sko.
arnar valgeirsson, 30.10.2007 kl. 18:29
Ég er sammála því að The Crow sé mjög fín, en hún var í 11. sæti hjá mér, en fannst Hulk aftur á móti misheppnuð.
Ætli maður byrji ekki bara nýjan lista fljótlega fyrst að Arnar stingur upp á því. :) Alltaf gaman að smíða svona lista.
Hrannar Baldursson, 30.10.2007 kl. 18:41
Sæll Hrannar og takk fyrir pistilinn. Ég hef alltaf haft gaman af ævintýramyndum og ofurhetjumyndir eru þar á meðal. Ég er alveg sammála þér með Batman Begins, mjög góð ofurhetjumynd og langbesta Batman mynd sem ég hef séð. Í þeim Batman myndum sem gerðar hafa verið undanfarin ár hefur mér fundist Gotham borg vera of plastleg og illmennin of ýkt. Skyldi aldrei af hverju það kom ekki mynd um Batman í þessum dúr.
En kannski er óraunhæft að ætlast til þess að myndir um teiknimyndahetjur séu mjög raunsæjar.
Atli (IP-tala skráð) 1.11.2007 kl. 00:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.