Erum við að stela þegar við deilum ekki af sjálfum okkur?

SethGoden
 
"Ef þú hikar við að markaðssetja það sem þú hefur fram að færa er málið ekki feimni eða að þú sért tvístíga. Það er að þú ert að stela, vegna þess að einhver gæti þurft að læra frá þér, taka þátt með þér eða kaupa frá þér." (Seth Godin, This is Marketing, bls. 250 - þýðing HB)
 
Þessa dagana tek ég þátt í námskeiði hjá Háskóla Íslands sem ber heitið "Markaðssetning fyrir fullorðna námsmenn". Kennarar eru Hróbjartur Árnason og Magnús Pálsson. 
 
Hróbjartur sagði okkur sögu af bandarísku pari sem fór til Víetnam og þorps inni í landi þar sem fréttir höfðu borist að börn væru illa nærð. Þegar parið hafði skoðað aðstæður í þorpinu sá það að börn voru almennt vannærð, og spurðu hvort það væru einhverjar undantekningar frá reglunni, hvort einhver börn voru vel nærð. Jú, einhver börn voru að fá næringu, en lifðu samt við sambærilegar aðstæður. Fór þá parið og heimsótti foreldra þessara barna og spurðu þau hvernig stæði á því að börn þeirra væru ekki í sömu neyð og önnur börn. Þau útskýrðu að þau veiddu rækjur úr nærliggjandi vatni sem þau bættu út í hrísgrjón og fengu þannig nauðsynlega næringu. Parið fékk þess foreldra til að kenna öðrum í þorpinu þessa aðferð og tókst þannig að leysa þennan vanda um vannærð börn. Það gerðu þau og urðu þannig að áhrifavöldum í þorpinu.
 
Hugsum okkur hvað þessi fræðsla hafði mikið að segja fyrir fólkið í þorpinu. Við hefðum kannski getað ímyndað okkur að lausnin á vandanum væri að senda pening eða mat til þorpsbúa, halda söfnun, en svo kemur í ljós að fræðsla og yfirfærsla þekkingar gat leyst vandann með frekar lítilli fyrirhöfn og kostnaði, og ekki bara í augnablikinu heldur hugsanlega margar kynslóðir fram í tímann.
 
Ég velti fyrir mér þessum tveimur hugmyndum, þegar við vitum og skiljum eitthvað betur en aðrir, hvort að okkur beri skylda til að fræða aðra um slíka þekkingu, eins og Seth Godin minnist á og þá hvernig við komum þessari þekkingu á framfæri.
 
Ef við höfum góða reynslu og þekkingu af alls konar hlutum, ættum við að miðla öllu því sem við þekkjum, eða væri betra að pakka einhverju af okkar þekkingu og skilningi inn og markaðssetja innan ákveðins ramma?
 
Væri betra að velja sér eitt áhugasvið og gera því góð skil eða velja mörg svið og taka þá áhættu að maður fleyti kellingar á yfirborðinu frekar en kafi djúpt?
 
Nú er ég farinn að velta fyrir mér hverjir mínir eigin styrkleikar eru, hvað ég veit og skil, og hvort að deila 'mér' með öðru fólki á opinberum vettvangi geti gefið samfélaginu einhver verðmæti? Og ég velti fyrir mér hvort það sé mín skylda að átta mig á þessu, og þá að deila þeirri þekkingu og skilningu sem ég hef safnað að mér á lífsleiðinni. Getur virkilega verið, að ef ég geri þetta ekki, eins og Seth Goden meinar, að ef ég geri þetta ekki, sé ég í raun þjófur?
 
 
Það er kannski djúpt í árina tekið. Hugsanlega ekki samt. Eins og Magnús minntist á í einum tímanum: við erum öll kraftaverk. Ber okkur ekki að deila af þessu kraftaverki sem hvert og eitt okkar er?
 
Erum við að stela þegar við deilum ekki af sjálfum okkur?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Þakk fyrir fræðsluna.  

Egilsstaðir,09.09.2021   Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 9.9.2021 kl. 16:39

2 identicon

Skemmtileg færsla Hrannar. Þessi setning set líka eftir hjá mér, fékk mig til að hugsa hlutina í öðru samhengi.

Kristín Björg (IP-tala skráð) 13.9.2021 kl. 23:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband