Hvernig greinum við á milli falsfrétta og sannleikans?

calvin+and+hobbes

Síðustu tvö ár hefur mikið verið öskrað, ekki rætt, um falsfréttir, að fjölmiðlar eins og Washington Post, CNN, New York Times, og sjálfsagt líka Eyjan, Mogginn, Útvarp Saga og Vísir séu fullir af falsfréttum.

Það virðist vefjast fyrir okkur flestum að átta okkur á hvað er falsfrétt og hvað er sannleikur, en hér er ein aðferð. 

Falsfréttir, óháð miðli, eiga það sameiginlegt að þær eru byggðar á skoðunum, tilfinningum eða trú. Þær byggja á hvað hinum og þessum finnst um hitt og þetta. Það er hægt að deila endalaust um slíka hluti og aldrei komast að niðurstöðu. Það getur verið áhugavert að ræða málin og hugsa um þau, en þegar rót málsins snýst um hvað fólki finnst, þá er ekki lengur um frétt að ræða.

Sannleikurinn finnst samt hugsanlega í sumum samræðum, en slíkar samræður þurfa að fylgja mjög ströngu ferli, þar sem forsendur eru skýrar, byggðar á staðreyndum, og pælingar eru tengdar saman með gildum rökum. Það eru því miður ekki margir sem hafa mikla færni í að greina góð rök frá slæmum, og er það frekar vandasöm iðja.

Það er nefnilega miklu auðveldara að mynda sér skoðanir út frá því hvað manni finnst, hvernig mælandi kemur fyrir, hversu sannfærandi viðkomandi virðist, og þar eftir götunum.

Hér erum við enn og aftur komin í togstreitu milli þess sem Platón kallaði sófista annars vegar og heimspeking hins vegar. Sófistinn, eins og flestir pólitíkusar, og þá sérstaklega popúlistar, reyna að sannfæra múginn um hitt og þetta, og beita til þess alls konar mælskulistarbrögðum, sjónhverfingum sem virðast sannfærandi, en eru þó ekki gildar út frá lögmælum rökréttrar hugsunar. 

Heimspekingarnir, eða fréttamiðlar sem byggja á staðreyndum og ræða svo tengingar á rökréttan hátt, eru hins vegar alls ekkert endilega sannfærandi, og hugsanlega miklu leiðinlegri en þeir sem vekja tilfinningar okkar, þar sem mestu skiptir að vera eins hlutlaus í umfjöllun og mögulegt er. 

Það er áhugavert að skoða fréttir, og þá sérstaklega þegar stjórnmálamenn reyna að sannfæra aðra út frá eigin skoðun hvað er rétt og hvað er rangt, eða satt og ósatt.

Til dæmis er ágætt að hlusta þegar viðkomandi segir að eitthvað sé "algjörlega fráleitt", "mjög dapurlegt", "skítlegt", eða þar fram eftir götunum, til að greina að þar fer manneskja sem reynir frekar að sannfæra en komast nær sannleikanum.

Vinir sannleikans fara sér hægar og velta hlutunum fyrir sér fram og til baka, þannig að fólki fer kannski að leiðast heldur fljótt. Lygar að sannfæringakraftur ferðast hins vegar margfalt hraðar en sannleikurinn, þó að sannleikurinn sigri yfirleitt á endanum.

Aðferðin er semsagt sú að greina hvenær reynt er að höfða til tilfinninga áheyrenda, og hvenær reynt er að höfða til skynseminnar. Að greina þarna á milli krefst ákveðinnar visku, þekkingar og góðrar rökhugsunar; nokkuð sem flestir þegnar lýðræðissamfélags ættu að búa yfir, en gera því miður sjaldan.

 

---

 

Mynd af vefsíðunni Comics, Beer, and Shakespeare


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þórhallsson

Það verður helst að tala um hvert viðfangsefni fyrir sig,

koma með dæmi.

Jón Þórhallsson, 22.11.2018 kl. 20:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband