8. Óskarsverðlaunin: Mutiny on the Bounty (1935) ****
22.4.2007 | 12:02
Ég ætla að horfa á allar kvikmyndir sem valdar hafa verið besta myndin á Óskarsverðlaunahátíðum frá upphafi. Mutiny on the Bounty frá 1935 er sú áttunda í röðinni.
Mutiny on the Bounty fjallar um áhöfnina á seglskipinu Bounty sem siglir af stað undir flaggi bresku krúnunnar árið 1787. Leiðin liggur til Tahiti og á að taka tvö ár. Markmið ferðarinnar var að sjá til framleiðslu á brauðaldin sem nota skyldi til ódýrrar fæðu fyrir þræla á Vestur-Indíu.
Margir úr áhöfninni hafa verið teknir nauðugir með í ferðina af krám í nafni konungs. Fletcher Christian (Clark Gable), fyrsti stýrimaður, hvetur þessa ólánsömu menn áfram til dáða. Aftur á móti er skipstjórinn, William Blight (Charles Laughton), grimm mannvera sem með sjarma á við órangútan nýtur einskis meira en að sjá mennina kúgaða undan eigin valdi.
Blight leggur Christian línurnar snemma í ferðinni, vill ekki að hann hugsi sjálfstætt, heldur sjái einfaldlega um framkvæmd fyrirskipana hans, sama hversu ómannúðlegar þær geta verið. Christian ofbýður valdníðsla skipstjórans gegn áhöfninni og segir sína skoðun, en fyrir vikið leggur Blight hann í einelti og reynir að fá hann til að brjóta af sér, til að geta refsað honum og hugsanlega drepið.
Blight skipstjóri refsar með hýðingu skipverjum sem sýna óhlýðni eða hegðun sem hann sættir sig ekki við. Einn skipverjinn deyr áður en hann hefur fengið öll þau svipuhögg sem Blight skipaði, en þrátt fyrir dauðann er haldið áfram að hýða hann með svipunni, þar til réttum fjölda svipuhöggva hefur verið náð. Blight krefst þess. Þannig heldur skipstjórinn áfram, fer illa með mennina, drepur suma með refsingum, gefur óbreyttri áhöfn myglaðan mat en nýtur sjálfur góðra rétta.
Á Tahiti kynnast skipverjar hinu góða lífi. Fletcher Christian verður ástfanginn af eyjarstúlku. Með ástinni sér hann hlutina í nýju ljósi.
Á heimleiðinni kemur að því að Fletcher Christian springur á limminu, en ekki vegna haturs gagnvart skipstjóranum, sem felur níðingsverk sín bakvið vanhugsuð sjólög, heldur vegna mannúðar gagnvart öðrum skipverjum. Christian gerir uppreisn ásamt áhöfninni og sendir þá sem standa með skipstjóranum á haf út með árabát, en með nægan mat og drykk til að geta lifað ferðina af. Blight heitir því að hefna sín á Christian og uppreisnarmönnunum og sjá þá hengda í hæsta gálga, lifi hann þessa ferð af.
Miðskipsmaðurinn Roger Byarn (Franchot Tone) stendur á milli steins og sleggju. Hann stendur gegn uppreisninni, enda breskur heiðursmaður, en er besti vinur Fletcher Christians. Christian hafði bjargað lífi Bryan þegar Blight refsaði honum með því að senda hann upp í hæsta mastur í miklum stormi. Í uppreisninni er hann rotaður af mönnum Christians, þannig að hann verður strandaglópur með uppreisnarmönnunum gegn eigin vilja.
Á endanum kemst hann aftur til Englands, en er þá saksóttur sem uppreisnarmaður. Hann heldur tilfinningaþrungna ræðu fyrir herréttinum, sem á þátt í að breyta sögu breskra sjólaga til hins betra, þar sem lögð er meiri áherslu á frelsi en þvingun.
Mutiny on the Bounty er stórmynd eins og stórmyndir eiga að vera. Handritið er vel skrifað og leikararnir lifa sig inn í hlutverkin. Leikstjórinn hefur einnig góð tök á viðfangsefninu, og myndin skilur mikið eftir sig. Clark Gable og Charles Laughton eru frábærir í aðalhlutverkunum, sem og Franchot Tone í hlutverki Byarn.
Þrátt fyrir skilaboð myndarinnar um það hversu öflugur breski flotinn er, skilur hún áhorfandann eftir djúpt snortinn, þakklátan fyrir að svona gott bíó sé til og fullan vonar um að framtíðin beri góðar kvikmyndir í skauti sér.
(Áhugaverðan lestur um þátttöku ungs Íslendings gegn breska sjóhernum í þorskastríðinu má finna hjá bloggvini mínum, ritsnillingnum Jóni Steinari Ragnarssyni: Þegar Ég Fór í Stríð Fyrir Ísland, þar sem hann lýsir þátttöku sinni í þorskastríðinu).
Óskarsverðlaun The Mutiny on the Bounty árið 1936:
Sigur:
Besta kvikmynd
Tilnefningar:
Besta tónlist: Nat W. Finston, Herbert Stothart
Besta klipping: Margareth Booth
Besta handrit: Jules Furthman, Talbot Jennings, Carey Wilson
Besti leikari í aðalhlutverki: Clark Gable
Besti leikari í aðalhlutverki: Charles Laughton
Besti leikari í aðalhlutverki: Franchot Tone
Besti leikstjóri: Frank Lloyd
Aðrar kvikmyndir sem valdar hafa verið besta mynd ársins:
Wings (1928) ****
The Broadway Melody (1929) *1/2
All Quiet on the Western Front (1930) ****
Cimarron (1931) ***1/2
Grand Hotel (1932) ***
Cavalcade (1933) ***
It Happened One Night (1934) ****
Flokkur: Kvikmyndir | Breytt 30.4.2007 kl. 17:36 | Facebook
Athugasemdir
Ég hef ekki séð þessa. Hafði mjög gaman að útgáfunni með Marlon Brando þegar ég var strákur. 80's-útgáfan er meira að segja alveg hreint ágæt. Hvernig er þessi í samanburði við þær?
Haukur Viðar, 22.4.2007 kl. 16:16
Þessi mynd er snilld.
Og Charles Laughton hélt henni uppi -
einn af stórleikurunum.
Ef hann var í mynd , þá var sú mynd góð.
Halldór Sigurðsson, 22.4.2007 kl. 16:42
Haukur: Það er alltof langt síðan ég sá hinar útgáfurnar til að geta borið þær saman, en þessi útgáfa fannst mér frábærlega vel gerð og spennandi.
Halldór: Sammála þér um snilld Charles Laughton, hann gerði Blight að ófreskju, en mér fannst Clark Gable ekkert síðri.
Hrannar Baldursson, 22.4.2007 kl. 20:05
Kúl. Ég tékka á þessari við tækifæri.
Haukur Viðar, 23.4.2007 kl. 01:05
hef heyrt talað um Charles Laughton í kvikmyndafræðinni hérna í skólanum, magnaður náungi.
Ég er annars bara að kasta kveðju
Oddur Ingi (IP-tala skráð) 23.4.2007 kl. 17:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.