Ólík viðhorf: Landflótta lánþegi og aðstoðarmaður forsætisráðherra

Facebook_863982i

Við Hrannar B. Arnarsson áttum í samskiptum á Facebook sem endaði með að ég var sakaður um að bulla og leita mér ekki upplýsinga. Mér er afar annt um sannleikann og þætti miður ef ég sjálfur uppfyllti ekki þær kröfur sem ég geri til sjálfs mín, um að leita mér stöðugt upplýsinga til að mynda skoðanir reistar á traustum rökum, og segja satt og rétt frá þessum skoðunum. Og í fullri hógværð vona ég að þessar skoðanir reynist það traustar að hægt verði að kalla þær þekkingu sem er sterkari en straumar og stefnur líðandi stundar.

Skoðanir Hrannar B. Arnarsson hljóta að enduróma þær skoðanir sem líðast í forsætisráðuneytinu. Ég er hins vegar landflótta lánþegi. Ég sá ekki fram á að geta haft fyrir mér og minni fjölskyldu á Íslandi, og flutti úr landi til að vinna mér inn fyrir stökkbreyttum húsnæðisskulum og bílalánum á Íslandi, nokkuð sem ég sé ekki eftir, sérstaklega eftir að hafa upplifað samræðu eins og þessa.

Ég hef ekki hugmynd um hversu margir Íslendingar hafa flutt af landi brott eða íhuga það, en reikna með að fyrri talan sé í þúsundum og síðari talan í tugum þúsunda.

Það er ekkert léttmeti að flytja frá einu landi til annars. Í mínu tilfelli var ákvörðunin auðveld þó að framkvæmdin hafi verið og sé enn í dag erfið. Ég sá ranglætið sem var í gangi og vildi ekki að börn mín þyrftu að búa við slíka samfélagsgerð í framtíðinni, þar sem gífurlegar greiðslur til stjórnmálamanna þykja eðliðlegar, þar sem stjórnmálamenn og útrásarvíkingar taka saman höndum og ryksuga allan auð þjóðarinnar og reyna að komast upp með það, og gera það hugsanlega, þar sem eigendur banka eignast banka með því að taka lán í öðrum bönkum, og lána eigendum hinna bankanna til að eignast þá. Ég vil ekki lifa í svona samfélagi og spurningin var einföld: átti ég að berjast fyrir að breyta Íslandi í betra samfélag eða flytja úr landi?

Hugsanlega átti ég auðvelt með að taka þessa ákvörðun þar sem ég hef búið erlendis áður. Sem unglingur bjó ég eitt sumar í Noregi, vann við að skúra á spítala í Bærum 16 ára gamall. Gerði það til að kaupa mér Commodore Amiga 2000 tölvu, sem tókst. 

Nokkrum árum síðar fór ég í M.Ed. nám til Bandaríkjanna og kynntist bandarískri menningu innanfrá. 

Enn síðar flutti ég til Mexíkó og kynntist öðru lífi og menningu þar. 

Eftir að hafa flutt heim til Íslands 2004 gerði ég þau mistök að kaupa mér íbúð á 100% láni. Mistök sem ég sé eftir enn í dag. Ég á mér enga ósk heitari en að losna við þessa íbúð og lánið sem á henni hvílir. 110% leiðin virkar ekki til þess, vegna þess að ég hef staðið í skilum og staðið undir ábyrgð. Ísland er undarlegur heimur.

Fjölskyldan ákváð saman að flytja úr landi. Forsendur fyrir að búa á Íslandi höfðu brostið.

Árin erlendis hafa ekki verið auðveld. Það er ekki auðvelt að finna samanstað fyrir fjögurra manna fjölskyldu í nýju landi, eða finna gott starf og skóla sem henta börnunum. Það er í mörg horn að líta. Ég sé fram á að lífið komist fyrst í nokkuð eðlilegt horf næsta haust, um tveimur og hálfu ári eftir brottflutning frá Íslandi.

Því finnst mér svo merkilegt þegar ég sé lítið gert úr flutning fólks frá Íslandi, eins og það sé bara einhver þægileg lausn. Það er ekki þannig. Þetta er góð leið fyrir þá sem sætta sig ekki við að lifa við stöðugan ójöfnuð og spillingu, nokkuð sem hefur því miður virðist vera haldið áfram af nýjustu ríkisstjórn Samfylkingar og VG, þrátt fyrir fögur fyrirheit um að hreinsa til. Gífurlegum fjármunum hefur verið varið í að verja fjármálastofnanir, sem miskunnarlausar hafa aleiguna af varnarlausu fólki.

Það allra sárasta finnst mér loforðin um skjaldborg yfir heimilin og að banna verðtryggingu, en bæði Samfylking og VG gjömmuðu hátt um bæði fyrirbærin fyrir síðustu kosningar og reyndar stanslaust í mörg ár áður en til byltingar kom, og þegar kemur að deginum þegar tækifærið gefst til að standa við gefin loforð og áætlanir, snúa báðir flokkarnir baki í þjóðina og yppta öxlum. Þeim er sama um fólkið. Þannig er það bara.

hrannarbjorn.jpg

3. maí 2011, kl. 16:33
Hrannar Björn Arnarsson skrifar:

Skjaldborg í orði og á borði - gjaldþrotum fækkar þrátt fyrir eitt mesta efnahagshruni síðari tíma - vitið þér enn eða hvað ?

"Samkvæmt opinberum tölum um fjölda gjaldþrota einstaklinga hefur engin aukning orðið á slíkum gjaldþrotum eftir bankahrunið. Þvert á móti hefur slíkum gjaldþrotum fækkað ef eitthvað og eru í lágmarki miðað við tölur frá aldamótum."

Nokkrir einstaklingar birtu skilaboð um að þetta væri frekar villandi. Ein spurning frá Frímanni S. var þannig kl. 16:36:

„Hvað eru margir gjaldþrota sem eru með frest vegna greiðsluaðlögunar og annarra úrræða.?"

Og önnur athugsemd frá Gunnhildi Ö. kl. 16:49:

Æil hvurslags er þetta eiginlega Hrannar, við erum ekki asnar þó við virðumst kannski stundum vera það. Hvað eru margir með frystingar sem nú eru að renna sitt skeið, hvað eru margir með umsóknir inni hjá Umboðsmanni skuldara og því í raun greiðsluþrota? En það er gott að þú ert svona ánægður með gang mála á Íslandi, það er þá einhver sem gleðst yfir ástandinu. Er ég þó sannfærð um að það eru ekki þeir sem berjast við að eiga fyrir salti í grautinn og standa fyrir utan hjáparstofnanir í hverri viku. Mig langar að segja við þig: Skammastu þín, en þar sem ég er vel upp alin geri ég það ekki.

Hugmyndaheimurinn sem birtist í athugasemdum nafna míns þykir mér skelfilegur, en hann svarar kl. 16:53:

Þetta er allt satt og rétt hjá ykkur - fullt af fólki sem berst í bökkum, fullt af fólki sem er með frystingar og skjól af allskyns úrræðum og flestir Íslendingar hafa það mun verr en fyrir hrun. Þessu neitar enginn. Tölurnar tala hinsvegar sínu máli um að stjórnvöldum hefur tekist að forða fjölda gjaldþrotum og því að fólk missi heimili sín umvörpum eins og allt stefndi í. Því er væntanlega óþarfi að afneita - eða hvað ?

Ég vil taka fram að þessu neita ég í svari sem kemur síðar. „Þessu neitar enginn" er staðhæfing sem stenst ekki þar sem ég neita henni, og tel nokkuð öruggt að ég er ekki enginn. Þessu neita ég.

Árni H. Svarar kl. 17:04:

Þessi framsetning er villandi Hrannar. Gjaldþrot eru ekki fleiri vegna þess að það kostar kröfuhafa að setja fólk í gjaldþrot og í flestum tilfellum er ekki eftir neinu að slægjast, allar eignir yfirveðsettar og kröfuhafar græða lítið á því að setja fólk í þrot. Það hafa hins vegar margir misst heimili sín á nauðungarsölum þegar veðhafar leysa til sín eignirnar.

Hrannar Björn svarar kl. 17:20:

Sömu rök áttu við um gjaldþrot einstaklinga fyrir hrun Árni, enda fátítt að einstaklingar séu séttir í þrot, nema búið sé að ganga að öllum fasteignum áður. Hitt er rétt að fjöldi fólks hefur misst fasteignir í kjölfar hrunsins, þó þar hafi menn hingað til getað verið í skjóli vegna úrræða stjórnvalda - margir hafa hinsvegar kosið að nýta það skjól ekki enda felst ekki í því lausn, heldur aðeins skjól til að leita lausna.

Þarna kemur skýrt fram að skjaldborg ríkisstjórnar fyrir heimili hafi aðeins verið „skjól til að leita lausna" en markmiðið ekki verið að hjálpa fólki til að leysa sín mál eftir allt ranglætið sem hefur hrunið yfir heimilin frá og fyrir hrun. Þetta er þvert á það sem flokkar lofuðu fyrir Hrun, en í raun er þetta ekkert annað en það sem gagnrýnendur hafa verið að segja: úrræði ríkisstjórnarinnar hafa verið að lengja í hengingarólinni. Þetta hefur Hrannar B. Arnarsson, aðstoðarmaður forsætisráðherra staðfest. Mér finnst þetta mikil frétt.

Gunnhildur Ö kveikir greinilega á þessu og svarar Hrannari kl. 17:26:

Hvaða tölur eru það Hrannar sem sýna að fólki hafi verið forðað frá gjalþrotum. Hvað hafa t.d. mörg greiðsluaðlögunarmál komist á? Við vitum öll að það hafa fjölmargir fengið gálgafrest með frystingum og að fjölmörg mál liggja inni hjá Umboðsmanni skuldara sem ekki hafa fengið afgleiðslu. Þegar niðurstað þeirra mála allra liggur fyrir getum við farið að tala um tölur/staðreyndir. Mér verður mjög misboðið þegar svona fáránlegum fréttaflutningi er skellt í andlit okkar sem vitum á eigin skinni hvernig skaldborgin virkar.

Eftir að hafa séð þessi samskipti skrifar Don Hrannar de Breiðholt, rétt áður en hann ekur af stað til vinnu 4.5.2011 kl. 7:43:

 

‎"Tölurnar tala hinsvegar sínu máli um að stjórnvöldum hefur tekist að forða fjölda gjaldþrotum og því að fólk missi heimili sín umvörpum eins og allt stefndi í. Því er væntanlega óþarfi að afneita - eða hvað ?"

Það eru ekki stjórnvöld sem hafa forðað fólki frá gjaldþrotum, heldur er það fólkið sjálft sem hefur gert það, með samhjálp og með því að flytja úr landi. Hvert sem ég fer og sama á hvern ég hlusta, nema þig, þá er fólk afar hneykslað á aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar.

Kannski hefurðu sjálfur það bara of gott til að líta niður úr fílabeinsturninum? Ekki veit ég það.

Síðan bætti ég við 4 mínútum síðar:

Það er ein ástæð fyrir því að ég varð ekki gjaldþrota: þar sem lögin um gjaldþrot jafnast á við lífstíðarfangelsi ákvað ég frekar að flytja úr landi með fjölskyldu mína en sitja í skuldafangelsi með mín börn alla ævi. Að minnsta kosti er von til að komast af erlendis. Ekki misskilja mig, Ísland er land sem ég elska, en stjórnendur þessa lands hafa algjörlega klúðrað því að fólk sem keypti sér húsnæði á síðasta áratug geti komist þar af. Þá er ég bæði að tala um núverandi ríkisstjórn og þær fyrri. Ekkert hefur breyst.

Þarna er ég að sjálfsögðu að tala um gjaldþrotalögin eins og þau voru þegar ég flutti af landi snemma árs 2009. Ég kannast við breytingar á lögunum desember 2010, þar sem bætt var inn ákvæði um að kröfuhafar gætu aðeins framlengt kröfur sínar fyrir dómstólum, og þeir gætu gert það á tveggja ára fresti. Þessa breytingu tel ég ekki vera marktæka fyrr en í ljós hefur komið að gjaldþrota manneskja verður ekki hundelt af kröfuhöfum ævina út. Einnig tel ég það í sjálfu sér ömurlegt hlutskipti fyrir nokkra manneskju að verða gjaldþrota, og sérstaklega ef það er ekki hennar sök, ef hún hefur ekki lifað um efni fram og hefur aðeins verið saknæm um að taka sér húsnæðislán - eins og það sé glæpur. Í það minnsta sýnist mér refsað harðar á Íslandi fyrir að taka stökkbreytt húsnæðislán heldur en líkamsárásir, nauðganir og jafnvel morð.

Hrannar Björn svarar kl. 11:57:

Eithvað hefur þú kynnt þér gjaldþrotalögin ílla nafni, rétt eins og þau úrræði sem skuldurum bjóðast, ef þú telur að í þeim felist ekki aðrar lausnir en "lífstiðarfangelsi". Það er beinlínis fráleit fullyrðing og ekki í neinu samhengi við raunveruleikann. Eins stenst það ekki skoðun að menn geti flúið gjaldþrot með því að flýja land, en það er önnur saga. Skuldir hverfa ekki við það að yfirgefa landið. Annars finnst mér þú tala um þessi mál af svo yfirgripsmikilli fáfræði Hrannar, að það er mér eiginlega áfall - þú virðist hvorki kynna þér mál, né taka mark á þeim ábendingum sem þú færð um allar þær rangfærslur sem þú ferð með. Ég sé því satt best að segja lítinn tilgang í að ræða þessi mál við þig öllu frekar. Þú virðist fastur í einhverjum tilbúnum veruleika sem engu fær breytt og þannig verður það bara að vera. Gangi þér annars allt í haginn.

Þarna gefur Hrannar Björn sér að ég hafi kynnt mér gjaldþrotalögin illa. Ég hef lesið þau. Bæði þau sem voru í gangi fyrir breytinguna í desember 2010 og eftir breytinguna. Ég hef skoðað hvaða áhrif gjaldþrot hefur haft á manneskjur og séð að fólk hefur verið hundelt alla ævi af kröfuhöfum, og að kröfurnar eru einfaldlega endurnýjaðar með reglulegu millibili. Ég hef rætt við lögfræðing um þetta. Hans mat var að breytingin á lögunum breyttu í raun engu, aðeins því að kröfurnar yrðu endurnýjaðar með styttra millibili.  Ef þetta er merki um að hafa kynnt mér gjaldþrotalögin illa, þá hef ég gert það, og óska eftir að mér verði bent á nákvæmlega hvað ég hef gert vitlaust.

Einnig bendir Hrannar Björn mér á að ég hafi kynnt mér úrræði skuldara illa. Í fyrsta lagi, þá líkar mér illa við að kalla lánþega „skuldara". Í öðru lagi hef ég lagt á mig töluverða vinnu til að kynna mér þessi úrræði. Áður en ég tók ákvörðun um að flytja úr landi, kynnti ég mér þessi úrræði rækilega. Ég gekk meira að segja í Hagsmunasamtök heimilanna og hjálpaði samtökunum að safna upplýsingum, ræddi við samtökin á fundum og var sá aðili sem benti á að bæði gjaldeyrislán og verðtryggð lán væru í raun ólögleg vegna forsendubrests. Síðan þetta gerðist hefur bróður mínum tekist að sanna ólögmæti gjaldeyrislána í réttarsal, sem þýtt hefur að fjármálafyrirtækin hafa þurft að endurgreiða töluverðar upphæðir.

Nú tel ég rétt að beina athyglinni að verðtryggðum lánum, en forsendur þeirra hafa einnig brugðist, þó ástæðurnar séu aðrar. Ég hef stöðugt kynnt mér úrræði „lánþega" og verið ósáttur við t.d. 110% leiðina, en ég geri skýra grein fyrir henni í þessari færslu sem ég skrifaði 20.4.2011:

"Þeim var eg verst er eg unni mest" og Af hverju látum við þrælkun líðast á Íslandi í dag?

Þannig að ég hef leitað mér upplýsinga um þessi mál, en Hrannari Birni Arnarssyni finnst mér ég hafa leitað þessara upplýsinga illa, og þætti mér vænt um að vita hvað er rangt í mínum málflutningi. Það er slegið undir beltisstað með að ásaka viðmælandann um þekkingarleysi og gera ekkert til að leiðrétta þetta mögulega þekkingarleysi, þetta er þekkt úrræði mælskulistarmanna notað til að drepa málefnislega umræðu.

Þessu svara ég kl. 19:21 (að loknum löngum vinnudegi):

Í fyrsta lagi, þá hef ég skoðað gjaldþrotalögin nýju þar sem kröfuhafar geta aðeins samkvæmt dómsúrskorði fengið kröfur sínar endurnýjaðar. Nú hefur engin reynsla komið á þessi lög, þannig að það er 50-50 hvort þessi endurnýjun verði áfram jafn auðveld fyrir kröfuhafa og áður. Ég vildi ekki verða gjaldþrota og flutti úr landi, ekki til að láta skuldir hverfa, heldur til að geta borgað mínar skuldir með launum erlendis frá.

Skemmtilega orðað hjá þér að þér finnst ég fastur í einhverjum tilbúnum veruleika. Það finnst mér líka. Hins vegar hef ég mikla trú á að þessum veruleika sé hægt að breyta til hins betra sé vilji og dugnaður fyrir hendi.

Gangi þér sömuleiðis allt í haginn.

Samhliða þessu áttum við í orðasennu á öðrum þræði Hrannars B. Arnarssonar, þar sem hann sýnir frá tölfræðilegu sjónarhorni að allt er í allrabesta lagi á Íslandi. Þeir sem þekkja eitthvað til tölfræði kannast við hversu auðvelt er að túlka hvaða hugsanlegar tölur sér í hag, sé til þess vilji. Það finnst mér ósiðlegt háttarlag.

Þannig hófst hin samræðan með skilaboðum frá Hrannari Birni, 2.5.2011:

‎"Ólíkt því sem margir vilja vera að láta í umræðu, og stundum af öðrum ástæðum en sannleiksást, þá fer skulda- og gjaldeyrisstaðan hratt batnandi. Það þýðir að vonandi verða tækifæri til að hefja afléttingu hafta fyrr en síðar, og að það er engin ástæða til að ætla að krónan veikist ef svo heldur áfram sem horfir."

Mér sýnist Hrannar Björn fullyrða hér að krónan sé sterk. Verðbólgan er lítil. Fyrir kosningar lofuðu Samfylking og VG að banna verðtrygginguna. Nú er tækifæri til þess. Og takið eftir hvernig nafni minn fer í hring í þessari samræðu. Fyrst segir hann að krónan sé sterk og síðar heldur hann því fram að krónan sé ekki nógu sterk til að hægt sé að klippa verðtrygginguna úr sambandi.

4.4.2011 skrifaði ég grein um þetta mál: Af hverju er ekki enn búið að BANNA verðtryggingu lána?

Undirritaður skrifar kl. 16:20:

Svo ég leyfi mér að tala eins og rispuð plata: Hvað um aftengingu verðtryggingar?

Svarið frá Hrannari Birni kl. 16:59 kom mér á óvart, enda hefur þarna greinilega orðið algjör viðsnúningur á stefnu Samfylkingar og VG, og þar að auki finnst mér hugsunin svo grunn, skammsýn og innantóm að mér hreinlega blöskrar:

Myndir þú frekar velja lán með breytilegum vöxtum ? Ég þakka mínu sæla fyrir 4,15% vexti + verðtryggingu, en lægri vexti efast ég um að hægt verði að gefa í íslenskum krónum - sú hefur amk ekki verið raunin undanfarna áratugi... Aftenging verðtryggingar eða bann við henni leysir engan vanda - fjármagnið mun alltaf þurfa að innibera vexti sem dekka áhættuna

Ég get svarað nú að ég tel málið ekki það einfalt að einungis ein lausn sé möguleg: annað hvort að viðhalda verðtryggingu eða hafa lán með breytilegum vöxtum. Mögulegar lausnir þarf að kanna og útlista. Það eru hundruðir mögulegra lausna. Ekki bara ein. Mér hafði ekki dottið í hug að aðstoðarmaður forsætisráðherra gæti verið svona skammsýnn.

Þess vegna svara ég kl. 18:03:

Hrannar Björn: Ertu að grínast eða ertu blindur? Verðtryggingin er búin að éta upp eignir fólks í heimilum þeirra. Nú þegar verðbólgan er lág gefst einmitt tækifæri til að klippa á hana. Mundu að þegar verðtrygging var fyrst sett á, þá var hún einnig sett á laun. Nú þegar verðtryggð laun og verðtryggð lán fylgjast ekki að, skapar það gríðarlegt ójafnvægi. Ég er, í mestu vinsemd, hneykslaður í skammsýni þinni.

Í stað þess að átta sig á að kannski sé hægt að hugsa þetta í víðara samhengi, ákveður Hrannar Björn að festa sig við að einungis ein önnur leið sé til en verðtrygging. Þessu svarar hann kl. 19:03

Berðu saman vexti af óverðtryggðum lánum og verðtryggðum Hrannar - farðu eins langt aftur og þú vilt en ræðum um kosti og galla verðtryggingar þegar þú hefur rannsakað þróun þessarar grunnforsendu rökræðunnar sem þú fitjar hér uppá. Til langs tíma kemur verðtryggingin nefnilega betur út. Verðtrygging étur ekki upp neinar eignir, ekki frekar en hún bjó þær til þegar hún hélt hvorki í við þróun launa eða fasteignaverðs. Verðtrygging er hlutlaus mælikvarði á þróun verðlags, sem ver lánveitendur og lántaka fyrir áhættu af verðbólgu. Hvað heldur þú að margir hefðu farið á hausinn eða misst eignir sínar ef þeir hefðu haft breytilega vexti á lánum sínum í stað verðtryggða, þegar vextir lágu í kringum 20% - Ég hefði amk ekki ráðið við slika vexti á 25 milljóna láni - bara vextir hefðu verið um 5 milljónir á ári ! Ég er því hvorki blindur né í hlátur í hug... Vandinn er ekki verðtrygging - vandinn er óstöðugleiki íslensku krónunnar og þann vanda leysir þú ekki með afnámi verðtryggingar. Sorry !

Munið að í upphafi greinar skrifar Hrannar Björn um styrkleika krónunnar, en í síðustu málsgrein um óstöðugleika íslensku krónunnar. Hann talar í hringi og aðeins um eina hugsanlega lausn.

Ég tel verðtryggingu rangláta vegna þess að hún tryggir aðeins lánveitanda, en lánþegi hefur enga tryggingu. Hækki verðlag, hækkar lánið, en ekki geta lánþega til að greiða af láninu því að laun eru ekki verðtryggð. Afleiðing þessa er ójöfnuður. Þar sem Hrannar Björn Arnarsson situr í forsvari fyrir flokk sem kennir sig við jöfnuð, þykir mér þetta afar athyglisvert, og því held ég áfram að velta þessu fyrir mér, en gat ekki á mér setið að stinga inn einum léttum brandara, þrátt fyrir alvarleika málsins, kl. 22:29:

Jú, blindur. Þú sérð það bara ekki sjálfur.

Og síðan bæti ég við 4.5.2011 kl. 19:31:

Að sjálfsögðu leita ég mér upplýsinga, nafni. Í raun er þetta í grunninn pólitísk afstaða. Að halda í verðtryggingu eykur ójöfnuð í samfélaginu og flokkast sem hægri stefna, eða íhaldssemi. Það er auðvelt að rökstyðja slíka stefnu, hafirðu farið í framboð í skjóli hennar. Að afnema verðtryggingu miðar að jöfnuði í samfélaginu og ber keim af svokallaðri jafnaðarstefnu, nokkuð sem Samfylking var kosin til að berjast fyrir. Að Samfylking og Vinstri græn skuli hafa breyst í hálfgerða hægri flokka er svolítið spes.

Rétt eins og með Icesave, þá virðist þú vera að þiggja þínar upplýsingar, hvaðan sem þú færð þær, gagnrýnislaust. Þú getur betur.

Ég hafði gagnrýnt Samfylkingu og VG fyrir Icesave afstöðu þeirra þar sem efnisleg rök héldu ekki vatni, og reynt var að kasta ryki í augu fólks með stanslausum endurtekningum, hræðsluáróðri og spuna. Þessi spunahegðun heldur áfram þegar kemur að verðtryggingu og úrræðum fyrir lánþega.

Ég skil ekki af hverju, en íslenskir stjórnmálamenn virðast ekki kunna auðmýkt. Að viðurkenna þegar þeir hafa haft rangt fyrir sér. Það virðist útilokað. Að hafa rangt fyrir sér getur ekki gerst, aðeins aðstæður geta breyst. Svona tækifærishyggja mun aldrei leiða til góðs.

Nú hefur þolinmæði Hrannars Björns þrotið, enda sér hann að rökleg staða hans er töpuð. Í stað þess að gefast upp og takast í hendur eins og heiðursmönnum sæmir, ákveður hann að ryðja taflmönnunum af borðinu og rjúka í burtu með þessari athugasemd á miðnætti, kl. 0:05 (á mínum tíma - sjálfsagt 22:05 að íslenskum tíma):

Verðtryggingin hefur ekkert að gera með hægri eða vinsti - þetta er þvílíkt dæmalaust rugl hjá þér að það tekur engu tali... úff!

Að lokum óskaði ég eftir leyfi til að birta þessa samræðu á blogginu, en fékk aldrei svar. 5.5.2011 kl. 19:45 skrifa ég:

Sæll aftur Hrannar Björn, fæ ég leyfi þitt til að birta þessa samræðu á bloggi mínu?

Þessi samskipti fóru fram samtímis á tveimur ólíkum þráðum, og að lokum bað ég nafna minn um leyfi til að birta samræðu okkar á bloggi mínu. Ég hef ekki fengið neitt svar við þessari beiðni og álykta því að þögn sé það sama og samþykki. Tveir dagar hafa liðið frá þessari spurningu minni og tel ég það meira en nægan umþóttunartíma.

Þögn er sama og samþykki.

620x350_facebook_chat_tcm48-155120

Sárt finnst mér að vera ásakaður um að kanna málin ekki vel, en ég tel mig hafa gert það og jafnvel prófað skoðanir mínar með því að skrifa um þær greinar og lesa vandlega athugasemdir við þær, eins og sjá má á greinum sem ég hef áður birt. 

Hins vegar hef ég ekki atvinnu af að rýna í þessi mál og nota eingöngu örfáar tómstundir um kvöld og helgar til þess. Það að ég fæ ekki laun fyrir að rannsaka þessi mál og hafa skoðanir um þau, þýðir ekki að skoðanir mínar né nokkurs annars séu einskis virði. 

Að gera lítið úr skoðunum annarra kalla ég hroka. Hroki frá næstæðsta starfsmanni einnar æðstu stofnunar þjóðarinnar til manns sem hefur neyðst til að flytja frá landi og þjóð sem hann elskar, veldur óneitanlega svolitlum vonbrigðum.

 

***

Að sjálfsögðu eru athugasemdir við þessa færslu opnar þannig að ekki verði hægt að segja þessa grein vera aðeins háða einu takmörkuðu sjónarhorni. Athugasemdirnar verða sjálfkrafa hluti að greininni, og öllum er velkomið að taka þátt.

Endilega, ef þú sérð hvar ég hef rangt fyrir mér, hvar upplýsingar mínar, þekking eða skoðanir eru ónákvæmar, þá þætti mér afar vænt um leiðréttingu, ekki leiðréttingu með upphrópun, heldur leiðréttingu með rökum.

 

Fyrri færslur sem tengjast þessari samræðu:

  1. Af hverju látum við þrælkun líðast á Íslandi í dag? 21.4.2011 | 18:47
  2. "Þeim var eg verst er eg unni mest" 20.4.2011 | 05:55
  3. Af hverju ríkisstjórnin verður að víkja strax 10.4.2011 | 06:57
  4. Af hverju við segjum NEI við Icesave III (myndbönd) 9.4.2011 | 07:09
  5. Af hverju "já" er ekki það sama og að loka Icesave málinu 8.4.2011 | 05:48
  6. Hefurðu lesið áhættugreiningu Marinós G. Njálssonar um Icesave? 7.4.2011 | 14:43
  7. Af hverju er ekki enn búið að BANNA verðtryggingu lána? 4.4.2011 | 23:33
  8. Nei eða já? Já eða nei? 3.4.2011 | 21:19
  9. "Ég nenni þessu ekki lengur" 15.3.2011 | 17:13
  10. Viltu ræða nokkrar af grundvallarspurningum Icesave? 27.2.2011 | 09:55
  11. Hvort eiga lögin um Icesave að vernda hagsmuni eða réttlætið? 22.2.2011 | 00:04
  12. Er ekkert pláss fyrir heiðarlegt fólk á Íslandi? 20.2.2011 | 09:26

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Aðalsteinn Agnarsson

Flottur ertu Hrannar!

Ég og margir aðrir kusum Jóhönnu vegna loforða um innköllun kvótans,

og FRJÁLSAR handfæraveiðar, sem einar og sér leysa byggða, fátæktar

og atvinnuvanda fátækrar þjóðar!

Bæði málin óefnd!

Aðalsteinn Agnarsson, 7.5.2011 kl. 10:24

2 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Takk fyrir frábæra færslu, og afhjúpun hroka Hrannars B Arnarssonar. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 7.5.2011 kl. 11:14

3 identicon

Hvað varðar verðtryggingu, verð ég að segja að Hrannar Björn hafi ýmislegt til síns máls.  Það er í raun um þrjá möguleika að ræða.  Sá fyrsti er að vera með verðtryggð lán, sem tryggja lánveitandann.  Önnur eru ekki verðtryggð lán, með vöxtum, sem ekki er verðbólgu sambærileg og geta því orðið lánþega að láni.  Þetta fyrirbæri, gerði margann Íslendinginn vellríkan, eftir stríðsárinn.  Því þannig var þetta komið fyrir, verðbólgan át upp láninn fyrir þig.  Hinn möguleikinn, sem Hrannar Björn bendir þér á, er öfugt tilfelli við ofangreint ... í slíku tilfelli, er nokkurs verðbólgutrygging á lánunum.  Þetta hefur einnig átt sér á Íslandi, og gerðist eftir að tvö núllinn voru tekinn af krónunni, en þá var líka lánaforsendur breittar.  Og lánveitendur urðu vellríkir.  Þetta var síðan breitt í verðtryggingu, eftir að ég fór frá landi þó, til að komast til móts við hin tvö fyrri tilvikin.

Það sem ljóst er, er að Hrannar Björn er að tala máli lánveitenda.

Ég get vel skilið að menn vilji hverfa aftur í fyrst kerfið, þa´er náttúrulega best og ef verðbólgunni er haldið niðri þá er það heldur ekkert tab fyrir lánveitenda.

Ég veit ekki hversu gamall þú ert, Hrannar, hvort þú munir eftir þessu.  En ég er sammála þér í, að það kerfi sem gerði fólki svo auðvelt að taka lán.  Á ekki að refsa lántakandum, heldur lánveitendanum.  Því það er lánveitandinn, sem er að taka áhættuna.  Og það er lánveitandinn, sem er að spila með peningana ... og því er það hann, sem á að tapa í þessu tilviki.  Ekki lánþeginn, sem lendir í þeirri stöðu að ekki geta greitt (ég er sjálfur í þeirri stöðu), en sú staða er ekki hans eigið verk.  Það á ekki, að mínu mati, að refssa lánþeganum fyrir eitthvað sem ekki er af hans völdum.  Það á ekki að refsa fórnarlambinu...

Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 7.5.2011 kl. 11:17

4 identicon

Mér finnst engum ætti að koma á óvart að forsætisráðherrann hafi valið hrokagikk sem einn af sínum aðstoðarmönnum. Sækjast sér um líkir?

Það sem mér finnst forvitilegt en hvað pilturinn virðist lítt hæfur í sínum málaflutningi. Eiginlega minnir hann mann óþægilega mikið á þá vesælu "playground bullies" sem sum okkar muna eftir frá lægri stigum skyldunámsins. 

Pilturinn virðist þó vinnusamur, ef þessi skrif hans eru hluti af hans embættisstörfum, því hann situr greinilega enn við tölvuna langt fram á kvöld.

Agla (IP-tala skráð) 7.5.2011 kl. 12:39

5 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Þrjár "góðar" ástæður til að fara að drífa sig aftur heim á Klakann góða?

- Bankastjórar nýju bankanna leggja áherslu á að hvatakerfi verði tekið upp til handa stjórnendum bankanna.

- Bankarnir að byrja aftur að lána til íbúðarkaupa.

- Fréttir um rífandi uppsveiflu á Íslandi:

http://icelandreview.com/icelandreview/daily_news/IMF_Iceland?s_Economic_Outlook_among_the_Worst_0_377481.news.aspx

Ketill Sigurjónsson, 7.5.2011 kl. 13:22

6 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Don Hrannar, ég vona að þú hafir það gott í Noregi.

Varðandi nýju gjaldþrotalögin, þá eru þau að nokkru leiti sýndarleikur.  Ef tveggja ára fyrningin er rofin með dómi, þá tekur við gamla reglan.  Það þarf sem sagt bara að rjúfa hana einu sinni til þess að fólk fari inn í gamla pakkann.

Bjarne Örn, nánast hvergi í heiminum er boðið upp á verðtryggð húsnæðislán.  Aðeins varðandi undirmálslánin í Bandaríkjunum og gengistryggðu lán í Austur-Evrópu hef ég heyrt að vaxtabreytingar eða breytingar á höfuðstóli lánanna hafi valdið vanda.  Það er rétt að verðbólgan er vandamálið og verðtrygging er afleiða af  henni, en á meðan fjármagnseigendur eru öruggir með góða raunávöxtun, þá er enginn hvati fyrir þá að halda verðbóglunni niðri.  Ég er t.d. þeirrar skoðunar, að betra sé að hafa verðtryggingu með þaki á árlegar verðbætur en að afnema verðtrygginguna alveg.  Það sem mestu máli skiptir er að hafa innbyggða hvata um allt hagkerfið til að halda verðbóglunni niðri.  Verði verðbólgan mikil, þá beri fjármagnseigendur líka tjónið, en ekki bara lántakar.

Marinó G. Njálsson, 7.5.2011 kl. 14:48

7 identicon

Frábær pistill.

Hrannar B, Árni Páll og nokkrir til viðbótar hljóta að að vera ótrúleg vonbrigði fyrir fólkj sem hafði trú á núverandi stjórnarfólki. Sem betur fer slapp ég við það.

Þórður Áskell Magnússon (IP-tala skráð) 7.5.2011 kl. 17:31

8 Smámynd: Einar Guðjónsson

Er hissa á Hrannari Arnarssyni sem nú hafði talsverða reynslu af að keyra fyrirtæki í gjaldþrot ásamt Helga Hjörvar og voru þeir barðir sundur og saman af kröfuhöfum þó að ég sé ekki viss um að þeir hafi verið settir í gjaldþrot. Hékk sennilega saman við að þeir eru stofendur hlutafélagsins Reykjavíkurlistans og náði yfirtakan á sveitarsjóði Reykjavíkurhrepps sennilega til að beila þá frá gjaldþroti.

Þeir hafa greinilega ekkert lært af þessari reynslu sinni og vilja endilega að sem flestir upplifi það sama. Árángurslaus fjárnám og gjaldþrot. Kannski er Hrannar ömurlegasta dæmið um afneitun.

Einar Guðjónsson, 7.5.2011 kl. 20:39

9 Smámynd: Hrannar Baldursson

Góðar athugasemdir og takk fyrir stuðninginn.

Marinó: Takk fyrir að staðfesta þetta með gjaldþrotalögin. Þau sýnast mér vanhugsuð.

Ég hef það gott í Noregi og líður vel, en þætti betra að sjá meira gert fyrir þá sem lent hafa í hræðilegum vanda, sem versnar aðeins með skilningsleysi þeirra sem allt þykjast vita og skilja betur en aðrir, bara stöðu sinnar vegna.

Ég er farinn að trúa því að valdhafar á Íslandi hafi engan áhuga á fólkinu og raunverulegum viðfangsefnum og skilji ekki hvaða áhrif ákvarðanir þeir hafa á raunverulegt líf fólks, sérstaklega þegar ákvarðanirnar eru illa hugsaðar og skortir skilning. Valdhafar virðast fyrst og fremst hafa áhuga á að halda eigin völdum og öðrum frá þessum völdum. Sjálfhverfan virðist vera gífurlegt vandamál.

Hrannar Baldursson, 7.5.2011 kl. 21:32

10 identicon

Hef oft haft gaman af ad lesa pistlana thina her.

Gott ad thu fluttir med thina fjolskyldu ur landi er sjalf buin ad flytja milli landa nokkrum sinnum og tha tekur yfirleitt 2-3 ar allt ferlid thannig ad manni finnist madur eiga heima a stadnum. Min reynsla af thvi ad flytja til Islands eftir rum 10 ar i burtu thadan eg var utlendingur a Islandi thad var thvi mjog audveld akvordun ad flytja aftu i burtu thadan, sem betur fer nogu snemma. Gangi ther vel afram!!

bjork (IP-tala skráð) 8.5.2011 kl. 07:11

11 Smámynd: Einar Solheim

Sæll Hrannar,

Þú færð hér stuðning frá "the usual suspects". Ég get líka tekið undir margt í þínum málflutningi, en engu að síður liggur að mínu mati sannleikurinn á milli málflutnings ykkar nafnanna.

Ég þekki nú til þín og veit að ekkert vantar upp á heilasellurnar. En það máttu vita að Samfylking er einmitt einn flokka að vinna að því að losna við verðtryggingu með því að ganga í ESB og taka upp Evru. Þú talar um að það séu fleiri kostir í boði en verðtryggðir vextir eða háir breytilegir vextir. Mér þætti vænt um að sjá þá kosti. Ég hef eytt miklum tíma í að velta þessu fyrir mér og ég sé ekki þessar lausnir sem þú segist sjá. Allir eru sammála um að verðbólga sé böl, en hún er sá djöfull sem krónan þarf að draga.

Einar Solheim, 8.5.2011 kl. 10:03

12 Smámynd: Hrannar Baldursson

Sæll Einar,

Þakka hlý orð. Sömuleiðis kannast ég við að gráu sellurnar þínar eru í fínu lagi.

Það eru margar mögulegar leiðir. Og ég held ekki fram að ég hafi listað þær allar né að þær séu allar góðar. Til að finna bestu leiðina, er best að vinna góða greiningarvinnu. En þar sem ég sit dettur mér nokkrar í hug: Ein er að setja neyðarlög þar sem hámark er sett á verðtryggingu, önnur er að fella verðtryggingu niður og á móti hækka vexti að hámarki 4% á móti. Ég skil ekki af hverju vextirnir þyrftu endilega að vera breytilegir. 

Þetta er nokkuð sem hverjum manni getur dottið í hug. Ég er viss um að góður hópur sérfræðinga gæti fundið fleiri lausnir væru þær hugsaðar með skynsamlegum og skipulegum hætti. Ég þekki til fyrirtækis hér í Noregi sem gæti gert slíka greiningu fyrir stjórnvöld, nokkuð sem tæki ekki meira en viku til að fá inn ferskar hugmyndir, en slík hugmyndavinna hefur verið afþökkuð með þeim skilaboðum að stjórnvöld séu með allt á hreinu í sínum málum.

Það finnst mér sorglegt.

Ef þú veltir aðeins fyrir þér hvernig lausnir og markmið tengjast saman, þá er það þannig að markmiðin eru fá meðan lausnirnar eru mögulega margar. Það eru hins vegar ólíkar hindranir á milli markmiða og lausna. 

Nú hefur Samfylkingin sett sér það markmið að ganga í ESB, markmið sem ég er sáttur við í sjálfu sér, en ætlast á sama tíma til að innganga í ESB sé lausn á ýmsum vandamálum.

Það er samhengisvilla sem stöðvar allar framfarir og í raun hengir öll föt á einn snaga í fatahenginu, og sligar að sjálfsögðu þennan eina snaga, á meðan að sjálfsögðu væri eðlilegt að dreif fötunum á fleiri snaga.

Hrannar Baldursson, 8.5.2011 kl. 10:51

13 identicon

Ég tek heilshugar undir með Marínó. Bankarnir/lánveitendur hafa belti og axlarbönd á meðan lántakendur bera alla áhættu. Að því tilskyldu að stórir hópar fari ekki í þrot þá fylgir þessu kerfi þ.e. verðtryggingu lána sá galli að lánveitandi eru í mörgum tilvikum að hagnast á veikingu krónunnar og verðbólgu. Með afnámi verðtryggingar og stífum reglum varðandi breytilega vexti þá myndast krafa á fagleg vinnubrögð allra aðila um að halda verðbólgu innan skynsamlegra marka.

Haraldur (IP-tala skráð) 8.5.2011 kl. 11:35

14 Smámynd: Einar Solheim

Vandamálið er að peningar er eins og hver önnur vara. Vextir eru endurgjald afnota og ráðast af framboði og eftirspurn. Eins og þú nefnir, þá er hægt að setja hámark á verðbætur. Einnig er hægt að setja á svokallað vaxtaálag (t.d. 4% í stað verðbólgu). Aðgerðin er framkvæmanleg - en hvað með afleiðingarnar?

Á sumarmánuðum 2011 tekst seðlabankanum að afnema gjaldeyrishöftin án meiriháttar hruni á íslensku krónunnar. Stjórnvöld - uppfull bjartsýni eftir þennan árangur - lögfesta því 4% þak á verðtryggingu og þar sem stýrivextir eru lágir sjá menn loks fram á að geta fjármagnað húsnæðiskaup á sambærilegum kjörum og býðst almenningi annarsstaðar. Landinn gleðst óstjórnlega, enda verðtryggingin talin af mörgum uppspretta sinna fjárhagsvandamála. Um áramótin 2011/2012 hefur gengi krónunnar hins vegar lækkað um 12%. Gengislækkun þessi leiðir eðlilega af sér hækkun á öllum neysluvörum og aðföngum og við árslok er verðbólgan komin í 7%. Áður hefði þetta verið áhyggjuefni, en nú hefur landinn ekki áhyggjur - lánin hafa hvort sem er bara hækkað um 4%. Verðlag hefur sem sagt hækkað um 3 prósentustig fram yfir hækkun lána. En hvað gera þá fjármagseigendur? Þeir lánuðu pening verðtryggt á 3% vöxtum og fá svo 4% verðtryggingu, en þar sem verðlag hækkaði um 7% skilaði þessi ráðstöfun fjár viðkomandi fjárfesti 0% ávöxtun. Í raun minna því þrátt fyrir að hann hafi ekki hagnast á láninu, þurfti hann að greiða fjármagnstekjuskatt af vaxtatekjunum. Erlendi lánadrottninn er í enn verri málum. Á sama tíma og hann fékk 7% í nafnvexti af láni sínu, veiktist gengi krónunnar um 12%. Hann hafði því neikvæða ávöxtun upp á 5%. Hann skrúfar auðvitað algjörlega á öll lán til Íslands, enda mun hagkvæmara að lána til aðila á Evrusvæðinu, þó svo að þar fái hann aðeins 3% vexti án verðtryggingar. Íslenskir fjármagnseigendur sjá það sama - hefðu þeir lánað peningin til evrulands, hefðu þeir ávaxtað fé sitt um 15% í krónum talið - 12% vegna veikingu íslensku krónunnar og 3% í vexti. Bæði íslenskir og erlendir fjárfestar hamast við að losa sig við sínar íslensku krónur og veldur þetta enn frekara gengisfalli. Verðbólgan hækkar enn frekar og er komin upp í 23% áður en Seðlabankinn grípur inn í og setur á gjaldeyrishöft á ný. Loksins tókst að stöðva þetta útstreymi fjármagns og greyið þeir sem sátu eftir með peninga sína í íslenskum krónum inn í íslenska hagkerfinu. Gjaldeyriskreppa skellur á og lúxusvörur eins og baðkör og sófasett verða ekki flutt inn nema að undangenginni gjaldeyrisumsókn til seðlabankans. ...kannski þessi aftenging vaxta við markaðslögmálin hafi ekki verið svo góð þrátt fyrir allt...

Þetta er því miður sá raunveruleiki sem við búum við. Sjálfur hef ég flutt til Noregs eins og þú, og er nú í þeirri stöðu að ég myndir frekar vilja hafa peninga mína hér í Noregi á 3% vöxtum en á Íslandi á 10% vöxtum. Eins og er hef ég ekkert val því gjaldeyrishöftin gera það að verkum að ég er lokaður inni á Íslandi (því miður ekki með mjög mikla peninga þó ;)

Sagan sýnir okkur að íslenska krónan er sögulega mjög veikur gjaldmiðill. Það eru því aðeins tvær ástæður fyrir því að fjármagnseigendur eru tilbúnir til að lána til Íslands. Það er að lánið sé í erlendum gjaldmiðlum þannig að gjaldeyrisáhættan sé ekki til staðar, nú eða að lánið sé verðtryggt - sem er í raun ekkert annað en annarsskonar vörn við sveiflum á gengi krónunnar. Raunverulegir valkostir í stöðunni eru því aðeins tveir: Að við skiptum um gjaldmiðil eða sættum okkur við verulega lakari lífskjör en gengur og gerist í nágrannalöndum okkar.

Það eru vissulega til þeir sem segja að krónan sé góð og að það sé ekkert lögmál að hún þurfi að vera veik, en 100 ára saga hennar er hörmungarsaga. Það er ekkert sem bendir til þess að betur muni takast að stjórna henni í framtíðinni en mönnum hefur tekist hingað til. Höldum við krónunni þýðir það verðtrygging, gengistrygging eða háir breytilegir vextir. Sorry - en ég hef ekki séð aðra möguleika í stöðunni án þess að slatta af draumapúðri sé bætt inn í formúluna.

Einar Solheim, 8.5.2011 kl. 12:13

15 Smámynd: Ómar Ingi

Það er eins og mig minni að hann hafi tengst glæpsamlegu athæfi þessi Hrannar B.

Ómar Ingi, 8.5.2011 kl. 14:14

16 identicon

Varðandi verðtrygginguna er mikilvægt að hafa eitt í huga að hún felur hagstjórnarmistök stjórnvalda.  Þetta sýnir hagsaga Íslands svart á hvítu.

Hver er síðan kjarninn í því hvers vegna er unnt að fela þessi mistök ?  Jú, vegna þess að með verðtryggða krónu (sem er í reynd gengistrygging að 40% leiti) vinnur stýrivaxtavopn Seðlabankans ekki á hagsveiflum kerfisins.  Það er aðeins við ýkt vaxtastig sem að vextir bankans fara að bíta á en þá ekki beint á almenning heldur óbeint í gegnum fjármagnskostnað fyrirtækja ergo, verðlag og laun.

Það má því færa sterk rök fyrir því að meginástæða þess að við höfum búið við sveiflakenndan gjaldmiðil er einmitt verðtryggingin.

Það er síðan kapituli út af fyrir sig að bjóða íbúðalán með 5% raunvöxtum, það kallast ekkert annað en rán.

Björn Kristinsson (IP-tala skráð) 9.5.2011 kl. 07:35

17 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Sæll Hrannar. Þetta er frábærlega vel gerður pistill hjá þér og segir allan sannleikann. Þetta er skelfingar ástand hér á landi og ef ég væri yngri færi ég flutt til Noregs. Ég er ein af þessum sem stend í skilum og á alltaf minna og minna til matar og annar nauðsynja. Svona er Ísland í dag og hefur verið lengi og verður lengi til viðbótar, þetta eru gjörsamlega vanhæfir stjórnendur hér á landi og það er allt gert til þess að styrkja og styðja við bankana og einnig að vernda lánveitendur, þetta er skelfilegt ástand og ekki gaman að vera ungur með fjölskyldu þegar fólk er slegið síendurtekið í hausinn af ráðamönnum lands okkar. Svei þessu fólki öllu.

Ásdís Sigurðardóttir, 9.5.2011 kl. 12:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband