Af hverju þurfum við dómgreind, heilindi og þakklæti?

gavel-3577060_1280

“Það eina sem þú þarft er þetta: skýra dómgreind, starfa af heilindum fyrir samfélagið; og þakklæti fyrir það sem að höndum ber.” - Markús Árelíus, Hugleiðingar, 9.6

Markús Árelíus var keisari yfir Rómaveldi, hugsanlega sá besti þeirra allra, en pælingar hans og speki hafa lifað fram til dagsins í dag, enda virtist hann með eindæmum hófsamur og vitur maður, sem vildi til að var keisari. Einn af þeim sem hann tók sér til fyrirmyndar var þrællinn Epíktet, sem bjó í sömu borg og hann einhverjum áratugum áður, en hann fékk aðgang að ritum hans, og þau höfðu djúp áhrif á hann. Hvort það hafi verið vegna skapgerðar Markúsar eða þeirrar visku sem í ritunum bjó verður ekki dæmt um hér, en líklega var það hvort tveggja.

Það er nefnilega mikið af fólki sem kemst til valda á öðrum forsendum en þeirri að hafa góða dómgreind eða framkvæma með heill almennings í huga. Oft eru veigaminni leiðarljós sem ráða för, og þá annað hvort hugsjónir ákveðinnar stjórnmálastefnu eða hagsmunir ákveðins hóps. Þetta tvennt síðarnefnda er sjálfsagt algengara í lýðræðisríkjum, heldur en manngerð þess sem öllu ræður.

Þarna komum við að áhugaverðum fleti. Við virðum lýðræðið fyrir að gefa öllum hluta af valdinu, við fáum öll að kjósa og enginn er yfir lögin hafinn. Stjórnmálamenn eru kosnir til valda, og þó að þeir noti alls konar brellur eins og markaðssetningu og sölutækni, sem er misjafnlega áhrifarík eftir því hversu klárt markaðsfólk er í liðinu og hversu mikinn pening þetta fólk hefur í höndunum, þá virðist það ráða úrslitum hver lítur best út og hver er mest sannfærandi, frekar en endilega hver er besti fulltrúi þjóðarinnar, með bestu dómgreindina og nógu mikið vit til að framkvæma í samræmi við það.

Í lýðræðisríki virðist ekki skipta miklu máli hvort að þeir sem kosnir eru til valda séu hæfir í verkin, stofnanirnar sem þau ráða yfir virðist skipta meira máli, og að stofnanirnar séu þessum kostum gefnar að þar stjórni hæfileikaríkt fólk með góða dómgreind og geti fylgt henni eftir í verki. Þannig þurfa dómstólar, lögregla, útlendingaeftirlit, pósturinn, skólar, samgöngustofa og allar þessar stofnanir að vera vel reknar. Málið er að farið er lýðræðislega að ráðningu fólks og gætt þess að það hafi ekki aðeins þá hæfni sem þarf í starfið, heldur bestu hæfni sem til staðar er meðal landsmanna.

Á tímum Markúsar hefur hann sjálfsagt verið yfirvald yfir slíkum stofnunum og séð til að rétta fólkið fengi réttu störfin, á meðan aðrir keisarar hafa sjálfsagt farið auðveldu leiðina, sem var að velja vini og vandamenn í stjórnunarstöður, sem er reyndar nokkuð sem virðist hafa gerst á Íslandi á síðustu misserum, nokkuð sem almenningur sér sem spillingu því slík hegðun er ekki í anda lýðræðis og almannahags, heldur virðist þarna kominn upp einhver valdahroki sem á meira líkt við óvandaða harðstjórn en heilbrigt lýðræði.

En lýðræðisleg vinnubrögð hljóta að felast í að það skipti ekki máli hvort hinn kosni fulltrúi hafi skýra dómgreind, starfi af heilindum og í samræmi við hana og sýni þakklæti þeim verkefnum sem á vegi hans verða; heldur eru ferlar til staðar sem koma í veg fyrir að einræðistilburðir nái að brjótast fram í lýðræðisríkjum.

Til að svara spurningunni sem fyrst var spurt, þá þurfum við dómgreind, heilindi og þakklæti til að vera manneskja sem lifir og starfar af heilindum, og þannig er best að lifa lífinu.

 

Mynd eftir 3D Animation Production Company frá Pixabay


Bloggfærslur 13. janúar 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband