Er einhver þekking svo áreiðanleg að engin skynsöm manneskja gæti efast um hana?

BolliÞannig spurði Bertrand Russell í Gátum heimspekinnar (The Problems of Philosophy). Þetta er ekki spurning sem einfalt er að svara. Það er ekki hægt að giska bara á svarið og segja hvað manni finnst. það þarf að færa rök fyrir svarinu.

Ef svarið er jákvætt er eðlilegt að fylgja því eftir með dæmi. Ef það er neikvætt, þyrfti að svara spurningu eins og hvort þekking sé þá hugsanlega ekki möguleg? Þarf það sem við köllum þekkingu að vera örugglega satt til að við getum kallað það þekkingu? 

Hvernig vitum við hvað er örugglega satt?

Ég hugsa um reynslu mína núna þar sem ég sit uppi í sófa og finn jarðskjálfta öðru hverju hérna í Grindavík, pikka setningar inn á tölvuna og sé liti bregða fyrir á sjónvarpsskjá þar sem Dr. Phil gengur um svið. Það er kringlótt bók við hliðina á mér, og þar er tebollinn minn með grænu tei. Ég fæ mér sopa og finn að teið er ekki lengur eins heitt og það var þegar ég lagði bollann frá mér, það er orðið volgt. 

Er allt þetta áreiðanlega satt? Frá mínu sjónarhorni í augnablikinu er þetta satt. Ég veit það. En hvað um þig? Hvernig veistu að nokkuð af þessu sem ég upplifi sé satt án þess að þú þurfir að treysta því sem ég hef að segja? Væri kannski ekki skynsamlegt að efast um svona upplýsingar, hver gæti verið ástæðan fyrir að færa slík ósannindi?

Segjum að reynslan sé persónulegri, hafi eitthvað með persónuleg átök að gera, þar sem ein persóna hefur eina útgáfu af sannleikanum, en önnur hefur aðra? Hverjum eigum við að trúa? Gætu báðar manneskjurnar verið að segja satt, út frá eigin sjónarhorni? Útskýrir það mótsagnir?

Þó að ég hafi sagt satt um upplifun mína á borðinu og tebollanum, vantaði svolítið uppá til að upplýsingarnar væru nákvæmar og með fullnægjandi lýsingu. Ég minntist ekkert á áferð bollans, né tegundinni af tei, því að ein græn tegund af te er gjörólík þeirri næstu. Það kom ekki fram að á borðinu er flaska með grænum tappa sem merkt er Klaki, teikningar eftir þriggja ára listamann liggja á borðinu, og líka IKEA kanna með vatni. Ekki hef ég minnst á hvernig lýsingin skapar skemmtilega skuggamynd út frá glasinu. Einnig er handáburður þarna. 

Þegar ég get ekki einu sinni lýst af fullri nákvæmni hvernig núverandi umhverfi mitt er, hvernig get ég þá sagt að það sem ég segi sé satt og áreiðanlegt? Ég get lýst hvernig hlutirnir virðast vera, en ég á kannski erfiðara með að lýsa hvernig þeir eru í raun og veru.

En aftur að spurningunni, er einhver þekking algjörlega áreiðanleg, svo áreiðanleg að ekki sé nokkur leið að efast um hana? Eins og ég minntist á í athugasemd við fyrri grein, “Fyrirbærin sem skipta máli”, þá er jafnvel hægt að efast um að tveir plús tveir séu fjórir:

Hvort ætli 2+2=4 sé staðreynd eða fyrirbæri? Í veruleikanum getur 2+2 auðveldlega orðið að einum, til dæmis ef við blöndum tveimur vatnsdropum við tvo vatnsdropa, þá er bara einn vatnsdropi til staðar, eða þegar maður leggur tvær hugmyndir saman við tvær aðrar hugmyndir, þá getur útkoman verið margfalt hærri en einn. Samt eftir lögmálum stærðfræðinnar myndi ég gera ráð fyrir að 2+2=4, en hef heyrt að stærðfræðilegri röksemdafærslu sem reynir að sanna að 2+2=5, eins og gert var í skáldsögu George Orwell, 1984. Þannig geta stærðfræðileg ósannindi orðið að félagslegum og skáldlegum sannindum.  (Fyrirbærin sem skipta máli, 2021)

Hvað um hugmyndir eins og komu frá Heraklítusi, að maður getur aldrei stigið tvisvar í sömu ána? Er þetta dæmi um áreiðanlega þekkingu? Eða sú hugmynd frá Parmenídesi, að engar breytingar eigi sér stað í veruleikanum? Hvað um þá hugmynd Sókratesar að heimspeki sé undirbúningur fyrir dauðann?

Er hægt að segja að eftirfarandi sé sönn setning og það áreiðanleg að enginn getur efast um sanngildi hennar?

“Allir menn eru dauðlegir”

Eða væri undir einhverjum kringumstæðum skynsamlegt að efast um áreiðanleika hennar? Er mögulegt að einhver ein manneskja sé á ferli innan um okkur sem deyr aldrei? Það hafa verið gerðar kvikmyndir um slíkar manneskjur, þannig að sögurnar eru til. Dæmi um slíkar kvikmyndir eru “The Highlander” og “The Man from Earth”. 

Hvað um þessa setningu

“Allt vatn er það sama og H20”

Getum við undir einhverjum kringumstæðum efast um áreiðanleika hennar, og talið þessar efasemdar lagðar fram á skynsamlegan máta? Hvað ef við veltum fyrir okkur hvort að drykkjarvatn sé mengað? Er það þá samt H20?

Hvað segir þú?

Er einhver þekking svo áreiðanleg að engin skynsöm manneskja gæti efast um hana?


Bloggfærslur 4. mars 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband