Sandkornið og alheimurinn

glass-ball-1547291_1920

Þegar ég var barn einhvern tíma á rigningardegi, sat inni í kyrrstæðum bíl og beið eftir móður minni sem hafði farið inn í verslun, hafði ég nægan tíma til að fylgjast með dropum renna niður rúðurnar. Ég man að ég velti fyrir mér hvort það væri mögulegt að sérhver dropi á rúðu væri heimur í sjálfum sér, með stjörnuþokum, plánetum, tæknimenningu og fólki.

Þessi hugmynd hefur birst víða, til dæmis í “Men in Black” þar sem alheimur var geymdur í marmarakúlu, “Horton Hears a Who” þar sem lítil pláneta felst í rykkorni, og ljóði William Blake þar sem hann skrifaði um að sjá heiminn í sandkorni, himininn í blómi, óendanleikann í lófanum og eilífðina í klukkustund.

Þetta á líka við í daglegu lífi og hvernig við hugsum. 

Þegar við hugsum um einhverja hugmynd, þurfum við að vita allt um hana til að þekkja hana, eða er nóg að íhuga hana af dýpt? Þegar við gagnrýnum kvikmynd, getum við einungis gert það af viti ef við þekkjum allar aðrar kvikmyndir sem tengjast sama efni, eða getur verið nóg að skoða okkar eigin viðbrögð og rannsaka þessar tilfinningar í samhengi við það sem kveikir þær? 

Þetta litla eldfjall, sem forsetinn kallaði Litla Hraun, að ganga tíu kílómetra yfir hraun til að nálgast það, snerta nýja jörð sem hefur brotist djúpt úr iðrum jarðar upp á yfirborðið, að hlusta á hljóðin í eldfjallinu, þessum litla risa, finna ylinn frá honum, vera með í þessari nýju fæðingu, það hefur djúpt gildi í sjálfu sér. Sama hvað vísindamenn segja að þetta sé lítið í stóra samhenginu, þá er þetta gríðarlega stórt í litla samhenginu. Það má ekki gleymast að litla samhengið, reynsla hvers og eins, skiptir líka máli.

Þannig er það með hvert einasta val í lífi okkar. Ef við stöldrum aðeins við og virðum það fyrir okkur, valið í sjálfu sér og veltum fyrir okkur hvað það þýðir í litla samhenginu, fyrir líf okkar og augnablikið, reynsluna; öðlast það jafnvel enn meira gildi en ef við hugsunarlaust stökkvum yfir í næsta val og síðan þarnæsta. Það getur verið gott að staldra við og skoða þetta litla. Við þurfum ekki að þekkja allan heiminn, sögu jarðarinnar og mannkynsins, hugmyndir okkar allra, né einu sinni allt sem kemur fram í þeim fræðum eða áhugamálum sem við elskum mest. Hins vegar þurfum við að þekkja rökhugsun, hvað það er að hugsa rétt. Þegar við vitum það getum við beitt hugsuninni að hverju sem er, smáu sem stóru. Gott getur verið að byrja á því smáa.

Bara í skákinni, þessari fallegu íþrótt, þá finnur maður óendanleikann jafnvel áður en maður leikur fyrsta leiknum því að mögulegar leiðir eru óútreiknanlegar. Að velja fyrsta leikinn er örlagaríkt fyrir hvern skákmann, því að eðli hverrar skákar er ólíkt eftir því hver fyrsti leikurinn er og hverjir sitja að tafli, og jafnvel eftir því í hvernig skapi teflendur eru. Síðan getur skákin þróast í gjörólíka átt með hverjum leik og erfitt getur verið að ná tökum á öllum þessum mögulegu leiðum. Besta leiðin til að læra byrjanir er að skoða skákir sem hafa verið tefldar af sterkum meisturum og reyna að átta sig á ástæðunni bakvið hvern einasta leik, hver tilgangurinn var í viðkomandi stöðu, hvernig hann bætti stöðuna, svo framarlega sem að leikurinn var yfir höfuð góður. En maður lærir kannski meira af að skoða og skilja einn leik heldur en eina skák, margar skákir eða jafnvel allar skákir í viðkomandi byrjun.

Þegar ég skoða heimspekilegar hugmyndir finnst mér gott að tengja hugtök við reynslu, átta mig á hvernig hugtökin tengjast ákveðnum orðum, hvernig þau eru notuð í daglegu lífi og hvernig þau tengjast öðrum hugtökum. Þetta verður oftast til þess að skilningur minn um hugtökin dýpka að einhverju leyti, og þá út frá huganslega aðeins einu sjónarhorni. Síðan við breyttar aðstæður gæti þessi skilningur verið viðeigandi, eða ekki. Fullkominn skilningur eða þekking er ekki innan seilingar, heldur leyfir maður sér aðeins að dýfa hendinni í læk þekkingarinnar og taka einn eða tvo sopa. Þessir sopar, einn í einu, getur gefið okkur næringu, nýjar hugmyndir sem geta leitt okkur á nýjar og ókunnugar slóðir.

 

Mynd: Pixabay


Bloggfærslur 22. mars 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband