Gætum við hannað betra stjórnkerfi yfir landinu?

Churchill

Sumar þjóðir velja sér leiðtoga og sumir erfa völdin. Sumir ryðjast til valda og aðrir komast til þeirra eftir langa hugsjónabaráttu. Hvernig svo sem farið er að þá virðumst við sætta okkur frekar við að einhverjir ráði sama hversu vel eða illa þeir gera það heldur en að enginn ráði.

Það að enginn ráði er aðeins fjarstæðukennd hugmynd. Ef hún yrði eitt augnablik að veruleika myndast strax holrúm sem þarf að fylla. Það virðist aldrei vanta fólk sem vill fylla slík holrúm. Hvernig það er fyllt virðist vera aukaatriði sem og hversu góður stjórnandinn verður. Það virðist ekki einu sinni skipta máli hvaða leikreglur eru til staðar, hvort að viðkomandi nær völdum með svindlum eða prettum, morðum eða svikum, erfi völdin eða vinni þær í kosningum. 

Að vinna völdin í kosningum, lýðræðislega leiðin, er sú leið sem við höldum helst á lofti, að minnsta kosti á þessum slóðum, norðarlega í Evrópu, ekki vegna þess að hún er lýðræðið er frábært og fullkomið, heldur vegna þess að það er skárra en allar hinar eins og Winston Churchill hafði á orði.

Fólkið sem ræður, fólkið sem heldur örlögum okkar hinna í hendi sér, þetta fólk er mannlegt eins og allir aðrir en ólíkt öllum öðrum sem fylgja einni ákveðinni leið, settum lögum og reglum, stendur þetta fólk fyrir þeim veruleika að vera á krossgötum hvert sem það lítur, og þarf sífellt að taka ákvarðanir eða sleppa því. Sleppi það að taka ákvarðanir, þó að það gæti verið skynsamlegasta og besta leiðin í stöðunni, eru viðkomandi líklegir til að tapa fylgi. Að gera eitthvað lítur nefnilega út fyrir að vera betra en að vera kyrr, hvort sem það er betra eða ekki.

Í lýðræðisríki neyðast stjórnmálamenn yfirleitt til að taka ákvarðanir í samræmi við stefnu eigin flokks, hóps sem kemst til valda vegna ákveðinna hugmynda sem stjórnmálaflokkurinn vill berjast fyrir. Þetta getur auðveldað leiðtogum vinnuna, en stundum gleymist að fyrirfram ákveðnar hugmyndir eru ekkert endilega þær bestu. Að vera í forystu fyrir stjórnmálaflokk virðist vera líkt því að vera þrjósk manneskja sem einhvern tíma tók ákvörðun og finnst hún neydd til að fylgja henni sama hvað á dynur allt sitt líf. Þetta er bæði styrkleiki og veikleiki. Styrkleiki að því leiti að manneskjan veit alltaf hvert hún er að stefna, en veikleiki að því leyti að kannski er hún á leiðinni fram af klettum.

Það þyrfti að vera til staðar stjórnmálaflokkur sem þjálfar fólk sitt til að vera í þessari stöðu, mikilli óvissu, og beita gagnrýnni hugsun til að finna góðar leiðir út frá þeim aðstæðum sem eru í gangi og með ráðum bestu fagmanna.

Þegar við tölum um fagfólk verður mér strax hugsað til þríeykisins sem hefur leitt þjóðina gegnum COVID-19 á mjög áhrifaríkan hátt. Sumum finnst það hafa ráðið of miklu, aðrir eru sáttir. Sóttvarnir hafa verið vel kynntar, faraldrinum hefur verið haldið niðri og þessir fulltrúar vísindanna hafa staðið sig gríðarlega vel að mínu mati.

Ég velti fyrir mér hvernig það væri ef fagfólk fengi að byggja umgjörð fyrir hvernig ákvarðanir í heilbrigðismálum eru teknar, ef kosnum stjórnmálamönnum væri kippt út úr myndinni, og að nútíma stjórnmálamaður yrði í raun valdalaus, en ekki áhrifalaus, svipað og konungar á vesturlöndum og forsetinn á Íslandi. Hvað ef stjórnmálamenn væru bara diplómatar sem þjónuðu fagmönnum sem eru þeir fremstu í sínu fagi?

Ef það skiptir litlu máli hverjir fara með völdin í hverju landi og sérstaklega þegar leiðir að völdum eru orðin það klíkukennd og spillt að frændsemi og vinátta ráða mestu um hverjir komast til valda, af hverju ekki að hleypa helstu afreksmönnum að, og þá jafnvel hafa kosningar meðal þeirra á reglulegum fresti, til að halda þessu lýðræðislegu og gefa þjóðinni tækifæri til að hafa rangt fyrir sér öðru hverju?

Þá gæti til dæmis aðeins læknir, hjúkrunarfræðingur eða manneskja menntuð í heilbrigðismálum orðið heilbrigðisráðherra, kennari boðið sig fram sem menntamálaráðherra, lögspekingur orðið dómsmálaráðherra, og svo framvegis. Þingmenn gætu verið valdir af almenningi í almennum kosningum og með tækninni sem til er í dag mætti hafa þessar kosningar persónulegar frekar en flokksbundnar og viðkomandi manneskjur bundnar til að standa við sín kosningaloforð sem yrðu þá ekki að vera fleiri en þrjú á mann. Ég hef ekki útfært þessa pælingu af nákvæmni en af hverju ekki að bæta stjórnskipan í landinu, rétt eins og við bætum stöðugt allt annað, ferla í fyrirtækjum, tölvur og tækni, lífsstaðalinn?

Ég væri að minnsta kosti mun sáttari við að fylgja ákvörðunum fólks sem hefur eitthvað vit á hlutunum og sem hefur komist til valda vegna viðeigandi faglegrar hæfni, ekki bara vegna vinsælda og pólitískrar kænsku. Þessi leið gæti þó engan veginn verið fullkomin frekar en lýðræðið sjálft og það kæmi sjálfsagt á endanum í ljós fyrr eða síðar af ýmsum ófyrirsjáanlegum ástæðum. 

Það er gaman að velta svona fyrir sér, en ég er í sjálfu sér feginn að vera ekki í slíkri ákvörðunarstöðu að taka svona ákvörðun. Það myndi sjálfsagt velta á útfærslu hennar hversu vel hún gengi upp, og hversu vel hún væri varin gegn mögulegum spillingaröflum, sem virðast spretta upp alls staðar þar sem tekist er á um völd. Það væri nauðsynlegt að fá heilsteyptar persónur til slíkra valda, en það er alls ekki víst að þau langi í slíkar stöður.

 

Mynd: Pixabay


Bloggfærslur 19. mars 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband