Fangelsi fordómanna

Sá sem hefur engan snefil af heimspeki fer í gegnum lífið fangelsaður af fordómum sem hann fær úr almenningsáliti, frá hefðbundinni trú hans tíma eða þjóðar og frá sannfæringum sem hafa vaxið í huga hans án samvinnu eða samþykkis skynsamlegra raka. - Bertrand Russell

Fordómar er fyrirbæri sem virðist fylgja okkur mönnunum eins og skugginn. Sama hversu vel við reynum að hrista þá af okkur, þegar birta skín úr nýrri átt í formi nýrra upplýsinga, þá verður það fyrsta sem kemur upp í huga okkar sjálfsagt lítið meira en fordómur. 

Fordómar eru eðlilegir hlutir, því við reynum alltaf að átta okkur fljótt á hlutum sem við vitum ekki, við giskum á samhengi hlutanna, reynum að átta okkur á púsluspilinu stóra. Stundum gleymum við að við vitum ekki allt. 

Til að auðvelda okkur lífið getum við ákveðið að treysta á eitthvað yfirvald sem hefur höndlað stóra sannleikann. Þetta yfirvald tekur á sig margskonar form fyrir ólíkar manneskjur. Þetta getur verið foreldri, ættingi, kennari, trúarbrögð, vinsælustu stjórnmálaskoðanirnar, gildi tengd stórum fyrirtækjum eða jafnvel knattspyrnuliðum, átrúnaðargoðum sem birtast í fjölmiðlum, kannski poppstjörnur, pólitíkusar eða heimspekingar. Stundum tökum við þessar hugmyndir úr kvikmyndum, sjónvarpsþáttum, útvarpserindum eða fréttum. 

Allt eru þetta einhvers konar ljós sem skína á okkur, og án þess að gera okkur grein fyrir því myndast skuggamynd á veggnum bakvið okkur, og nýir fordómar fara á kreik. Með góðum vilja getum við grafið upp stríðsöxi gegn eigin fordómum, reynt að átta okkur á hverjir þeir eru, passa okkur að á aðgreina þá frá okkur sjálfum sem manneskjum, og viðurkenna af auðmýkt að ekkert er mannlegra en að hafa rangt fyrir sér, jafnvel oft á dag.

Eina leiðin sem ég þekki til að taka á fordómum er að einbeita sér að því sem er satt og átta sig á tengslum þess við annað sem er satt. Og þetta sanna þarf að geta staðist endurtekna skoðun og má ekki bara vera einhver ágiskun. 

Það er satt sem segir í Biblíunni, Jóhannesarguðspjalli 8.32 að “...sannleikurinn mun gera yður frjálsa” og hjálpa þér að brjóta út úr fangelsi eigin fordóma. Ég get reyndar ekki tekið undir að eina leiðin til að finna sannleikann sé að fara eftir því sem Jesús segir, því það er fjöldinn allur af aðferðum til, til að finna hið sanna og smám saman nálgast eitthvað sem við getum kallað sannleika. 

Fyrst þurfum við kannski að átta okkur á því hvers eðlis sannleikurinn er. Er hann eitthvað sem við skynjum með skynfærum okkar eða tilfinningum, eða eitthvað sem við skiljum með skynsamlegri hugsun okkar? Getum við aðskilið það sem við skynjum, það sem við finnum og það sem við hugsum, eða væri eðlilegra að bræða þetta allt saman í eina heildarmynd þar sem tilvist okkar er vitni að heiminum og heimurinn vitni að okkur? 

Er nóg að hugsa skynsamlega til að fá okkar eigin fordóma til að leggja á flótti úr lífi okkar? Ef svo er, hvernig förum við að því að hugsa skynsamlega? Er það annars konar hugsun en sú hugsun sem vex og dafnar í okkur öllum? Þurfum við kannski að læra formlega rökhugsun til að komast að réttum niðurstöðum?

Ég held, eins og Bertrand Russell taldi, að heimspekin geti hjálpað okkur út úr ógöngum fordómanna, og reyndar ef Jesús var heimspekingur sem tilbúinn var að hugsa um hlutina af skynsemi, þá er hans leið vissulega rétt, þó að hún sé ekki eina leiðin. Og með heimspeki á ég við ást á þekkingu og visku, og þeim gildum sem felast í rökum, siðferði, þekkingu, fegurð og öllu því sem er mögulegt.


Bloggfærslur 11. mars 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband