Fyrirbærin sem skipta máli

Staðreyndir eru ekki fyrirbæri. Þær eru bara. Það er hægt að skoða þær frá óteljandi sjónarhornum, en alltaf er staðreyndin sú sama.

Skoðun er fyrirbæri. Það flækist um huga okkar. Við höfum jafnvel skoðanir um staðreyndir, sem gerir þá staðreyndina í huga okkar að annars stigs fyrirbæri. Samt er staðreyndin ennþá þarna einhversstaðar úti. Hún breytist ekki. Skoðunin tifar eins og tíminn. Ekkert sem heldur henni kyrri.

Rökhugsun er fyrirbæri í huga okkar sem hefur þann ofurkraft að stoppa tímann. Við tengjum rökin í staðreyndir og sjáum að þessi bönd eru traust, en þegar við tengjum rökin í fyrirbæri, teygjast þau og slitna fljótt. 

Samsæriskenningar eru líka fyrirbæri - þær víxla staðreyndum og skoðunum, og rökin sem eru í raun veik virðast eins og marmarasúlur sem halda uppi musterum í skýjaborgum.

Þegar við lítum á sannleikann, þennan hlutlæga sannleika, það sem við sjáum öll út frá okkar eigin sjónarhorni, þá vitum við að hann er eitthvað miklu meira en fyrirbæri, en vitum líka að sjónarhorn okkar á honum er fyrirbæri í sjálfu sér. 

Það sem mig langar að segja er ansi fjarri því sem ég skrifaði hér að ofan. Mig langar að minnast á fyrirbæri sem skiptir máli. Það er að viðurkenna aðra manneskju, ekki bara fyrir það sem hún hefur gert, það sem hún getur, eða það sem hún mun geta gert, heldur fyrir það sem hún er, fyrir það eitt að vera til. Það eitt er nóg til að hún skipti máli. 

Það er staðreynd að manneskjan er til staðar, en það er fyrirbæri að bera nógu mikla virðingu fyrir henni til að viðurkenna hana fyrir það sem hún er.

Hvaða önnur fyrirbæri skipta máli sem ekki eru staðreyndir?


Bloggfærslur 1. mars 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband