Hvaða máli skipta staðreyndir fyrir heildarmyndina?

 



Staðreynd er sannanlegur sannleikur, fullyrðing sem hægt er að endurskoða og staðfesta. Skoðanir og trú byggja stundum á staðreyndum, stundum ekki, en þykja af hörðum staðreyndarsinnum tilgangslausar hneigðir sem koma hinum sannanlega sannleika ekkert við.

Það er hins vegar gríðarlegur munur á hinum sannarlega sannleika og sannleikanum sjálfum, en þeir fræði- og vísindamenn sem starfa við rannsóknir á hinum sannarlega sannleika þekkja margir hverjir af eigin raun hversu lítilvægur sannanlegur sannleikur er þegar kemur að lífsviðhorfi fólks og trú. Hins vegar eru sannanlegur sannleikur afar mikilvægur til að þoka vísindalegri þekkingu fram á við. 

Hversu mikið af þekkingu okkar ætli sé byggð á sannanlegum sannleika annars vegar og skoðunum eða trú hins vegar, og hvort hefur meira vægi í leit okkar að lífshamingju? Sannarlegur sannleiki er oft þrúgandi og erfiður, hann sífellt breytir heimssýn okkar og skoðunum, en er hugsanlegt að í trúarbrögðum felist þekking sem við gætum aldrei nálgast út frá sannanlegum sannleika? Segjum að einhver viti það að Jesús var sonur Guðs, eða að Múhameð var hinn sanni spámaður eða að Búdda hafi öðlast alsælu. Við köllum þetta ekki þekkingu, heldur trú. Þessi trú hefur djúp áhrif á sálarlíf viðkomandi einstaklings og hvernig hann kemur fram við annað fólk.

Þessi áhrif eru sannanlegur sannleikur. Þekking á þessum staðreyndum getur verið túlkuð á ýmsan hátt, sjálfsagt út frá okkar eigin skilningi og mati á heiminum. Okkur gæti þótt trú fólks vera rugl, en getum ekki neitað því að þessi trú hefur áhrif. Hvort að þessi trú eða hvers konar trú hefur góð eða slæm áhrif er svo verkefni í aðra rannsókn.

Þeir sem hafa öfgatrú á staðreyndum munu sjálfsagt dissa þessar pælingar sem innihaldslausar og samhengislausar skoðanir, sem þær eru reyndar ekki, því að þessar skoðanir hafa innihald og samhengi sem eru í það minnsta mér sjálfum skiljanlegar, sem ég reyni svo að deila með öðrum. Hvort að rétti vettvangurinn til þess sé bloggið, og hvort að mér takist að gera mig skiljanlegan, er reyndar önnur spurning.

 


 

Hvernig við skynjum leiðarljós þeirra Gandhi og Martin Luther King yngri í baráttu þeirra fyrir frelsi gegn kúgun utanaðkomandi afla, sem drifin af trúarbrögðum þeirra eða ekki, hlýtur að vera umdeilanlegt. Ég get ekki séð hvernig hægt er að útiloka kröfu þeirra tveggja um skilyrðislausa mannúð, frelsi og virðingu  sem annað en siðferðilega kröfu - en þessar siðferðilegar kröfur eiga sér hljómgrunn í flestum trúarbrögðum, sem og siðfræði, en þær koma staðreyndum ósköp lítið við, öðrum en þeirri staðreynd að við búum til staðreyndir og að staðreyndir eru til staðar, en að við getum breytt heiminum til betri vegar. 

Sá sem hangir í staðreyndum trúir því sjálfsagt að við búum í besta mögulega heimi, fyrir utan þá sem trúa ekki á staðreyndir, og að það þurfi að sannfæra þetta fólk um heimsku þeirra. Sá hinn sami hefur hugsanlega ekki mikinn áhuga á hvernig gríðarlega stórir hópar geta unnið saman góð verk þegar þeir gera það í sameiningu. Fyrir slík verk þarf samnefnara, og ég held að trúarbrögðin séu slíkur samnefnari, hvort sem okkur líkar betur eða verr.

 

wedding

 

Trúarbrögð sameina fólk um gildi, sem hægt er að nýta til uppbyggingar og samstöðu í samfélaginu, en þegar þau eru misnotuð sundra þau.

Trúleysi er ágætt út af fyrir sig. Einstaklingar hafa fullan rétt á að vera trúlausir. Hins vegar hafa trúlausir afar lítil áhrif út á samfélagið, ekki vegna þess að þeir eru fáir, heldur vegna þess að eini samnefnarinn þeirra er ákveðin neikvæðni sem getur ekki gagnast til að fá fólk til samvinnu.

Trúlausir eru ekki hópur, heldur fjöldi einstaklinga sem stendur ekki saman um nein raunveruleg gildi. Hvort að staðreyndir hafi gildi er áhugaverð spurning, og þá hljótum við að spyrja hvað staðreyndir séu og hvernig við komumst að því hvað er staðreynd og hvað er ekki staðreynd, og hvort að allt það sem eru ekki staðreyndir hafi þar af leiðandi ekkert gildi, vegna þess eins að slík gildi eru ekki staðreyndir í sjálfu sér.

 


Það er einnig áhugavert að velta fyrir sér hvort að tilvist Guðs sé sannanlegur sannleikur eða einfaldlega sannleikur sem manneskjan hefur ekki mátt til að öðlast, eða bara blekking. Sá sem tekur afstöðu hefur skipað sér í ákveðinn flokk, sama hvort viðkomandi hafi rétt fyrir sér eða ekki. Þeir munu grafa sig í skotgrafir og skjóta á hinn aðilann fyrir að hafa rangt fyrir sér, hugsanlega vegna gífurlegs óöryggis um sannleika málsins. Viðkomandi mun þræta fyrir að eigin skoðanir séu réttar, og gera allt sem í eigin valdi stendur til að sýna fram á að skoðanir hins séu rangar; en þá gleymist að skoðanir eru ekki sannanlegur sannleikur, nokkuð sem í raun er ekki hægt að sannreyna, þannig að grafist er fyrir um rökin á bakvið skoðanirnar. 

Hvernig gagnrýna skal rök sem standa að bakvið skoðunum eru ákveðin fræði, sem ég mun fara nánar út í síðar, en eitt af því sem ber að forðast er einmitt að koma sér fyrir í skotgröf og skjóta linnulaust á þá sem hafa ólíkar skoðanir í þeirri von að kannski í það minnsta ein kúla úr hríðskotakjaftinum hitti í mark. 

 

logicalfallaciespodcast

Greinilegt að umfjöllun um trúarbrögð er sívinsæl og þær æsa fólk til að segja furðulegustu hluti, og þá oft í skjóli nafnleysis. Nafnleysingjarnir eru bálkur út af fyrir sig, en ég hef tilhneigingu til að taka þá ekki alvarlega, sérstaklega þegar viðkomandi sýnir dónaskap og hroka. Reyndar á það sama við um bloggara sem skrifa undir nafni, um leið og viðkomandi sýnir lítilsvirðingu hef ég tilhneigingu til að hætta að lesa athugasemdir viðkomandi. Samt vil ég ekki endilega loka viðkomandi út úr umræðunni þar sem hugsanlega dæmi ég viðkomandi rangt, sem ég get svo endurskoðað síðar.

Mér finnst sú staðreynd að umræða um trúarbrögð vekur heiftarleg viðbrögð afar áhugaverð, og óháð skoðunum sem fram koma í þessum athugasemdum, sannfærir mig um að ég sé á réttri leið þegar mig grunar að í trúarbrögðum felist gífurlegt samfélagslegt vald sem hægt er að nýta til góðs eða ills. Yfirleitt byrja trúarbrögð í góðri meiningu en eiga það til að snúast upp í andstöðu sína? Hvers vegna ætli það sé? Getur verið að vald spillir? Þýðir það að við ættum að hunsa slíkt vald?

Ég vil að gefnu tilefni vísa í lista yfir rökvillur sem koma yfirleitt óvart upp í samræðum, en eru margoft misnotaðar í kappræðum, enda duga þær oft til að rugla fólk í rýminu eða sannfæra um ágæti eigin málstaðar á kostnað hins, algjörlega óháð heiðarlegri sannleiksleit. 

Þessar vangaveltur byggja á athugasemdum og pælingum sem birtast í færslunum:

E.S. Ég hef verið sakaður um að skemmta skrattanum, og það af trúlausum einstaklingi. Er það ekki svolítið skondið?

Bloggfærslur 24. september 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband