Bestu vísindaskáldsögurnar í kvikmyndum, 11. sæti: The Thing

Þá er ég búinn að telja niður úr 20. sæti niður í það 11. fyrir þær vísindaskáldsögur sem mér finnst skemmtilegastar. Í ellefta sæti lendir hrollvekjan og vísindatryllirinn The Thing, sem leynir ansi skemmtilega á sér. Helsti styrkleikur myndarinnar er dúndurgóður leikhópur, drungalegt andrúmsloft og geimveru sem líkist engu sem sést hefur á tjaldinu, fyrr eða síðar. 

The Thing (1982) **** 

Á Suðurpólnum hleypur hundur yfir snjóinn á flótta undan byssukúlum frá norskri þyrlu. Hann nálgast bandaríska rannsóknarstöð, þar sem tólf manns dvelja yfir veturinn. Þyrluflugmaðurinn og skotmaðurinn eru drepnir, og hundurinn kemst inn í búðirnar. Hópur manna fer í skoðunarferð að norsku rannsóknarstofunni og kemur að rústum einum. Þeir finna einnig lík í undarlegu ástandi. Þeir taka það með sér til frekari rannsókna.

Í ljós kemur að í hundinum faldi sig geimvera sem getur tekið á sig hvaða lifandi form sem er. Hver einasti blóðdrepi verunnar er sjálfstæð heild sem getur tekið yfir líkama manneskju eða dýra. Eftir að veran drepur flesta hunda stöðvarinnar, vaknar sá grunur meðal manna að einhver þeirra gæti verið smitaður.

Þyrluflugmaðurinn R.J. MacReady (Kurt Russell) gerist leiðtogi hópsins eftir að hann áttar sig á vandamálinu. Hann fer í annan leiðangur að norsku stöðinni og finnur fornt hringlaga geimskip frosið í jörðinni, og ummerki um að lífvera hefur frosið rétt fyrir utan geimskipið og verið flutt í norsku stöðina. Innan skamms byrjar geimskrímslið að drepa mennina, einn af öðrum, en mennirnir leita örvæntingarfullir leiða til að afmá veruna af yfirborði jarðar og komast að því hvort að einhver á meðal þeirra sé þessi hlutur.

The Thing er sérstaklega vel heppnaður vísindatryllir. Leikhópnum tekst að skapa stemmingu þar sem maður hefur á tilfinningunni að allar persónurnar gjörþekkist og hafi verið saman nokkuð lengi á þessum einangraða stað.

Meðal eftirminnilegra persóna eru hundatemjarinn Clark (Richard Masur), sem virðist meta líf hunda meira en manna, stöðvarstjórinn Garry (Donald Moffat) sem skýtur fyrst og hugsar svo, jarðfræðingurinn Norris (Charles Hallahan) sem fer í óvænta, óhugnanlega en jafnframt svolítið skondna hinstu för, vélstjórinn Childs (Keith David) sem reynist harður í horn að taka, líffræðingurinn Blair (A. Wilford Brimley) sem er fyrstur til að uppgötva hvað geimverunni gengur til, læknirinn Copper (Richard Dysart), sem upplifir óhugnanlegt augnablik þegar hann reynir að bjarga lífi félaga síns með hjartastuðtæki,  og samskiptamaðurinn Fuchs (Joel Polis) sem reynist með seinheppnari mönnum.

Þegar ljóst er að hluturinn utan úr geimnum ætlar sér að drepa þá alla og komast síðan til mannabyggða, er ljóst að fyrir liggur ekkert annað en styrjöld milli þessara 12 manna og hlutarins, en það fækkar hratt í hóp mannanna og líkurnar virðast sífellt minnka og aðstæður fara síversnandi með hverri mínútu.

Maður hefur alltaf á tilfinningunni og trúir því að mennirnir séu staddir í miklum kulda, á Suðurpólnum og við sífellt erfiðari aðstæður.Tæknibrellurnar eru einstakar og oft mjög óhugnanlegar og gróteskar, nokkuð sem hefur ekki verið endurgert. Tónlistin er afar góð, en þar stjórnar sjálfur Ennio Morricone og tónlistin rímar fullkomlega við hinn hráa stíl John Carpenter. Það er þessi stíll sem gerir myndina góða. Maður er sannfærður um að þessir hlutir séu að gerast, persónurnar og aðstæðurnar virka það raunverulegar, og einmitt þess vegna verður skrímslið sjálft trúverðugara.

The Thing elur á þeirri hugmynd að maður veit aldrei fullkomlega hvaða mann næsti einstaklingur hefur að geyma, og hversu erfitt getur verið að treysta öðrum við aðstæður sem gera alla tortryggilega. Hvernig getur maður komist að sannleikanum um næsta mann, hvort að hann sé í eðli sínu góður eða illur? Og þegar við vitum það ekki, hvernig er þá best að lifa í samskiptum við aðra? Er betra að sýna fólki traust, ef okkur grunar einhvern um græsku, eða er betra að hafa varann á og sýna tortryggni gagnvart öllum í hópnum?

The Thing gekk mjög illa í bíó, en kom hún út á svipuðum tíma og E.T. The Extra Terrestrial (1982). Það er eins og fólk hafi fengið nóg af sögum þar sem allir eru hræddir við geimverurnar og fögnuðu einni þar sem geimveran er loks vinaleg. Reyndar grunar mig að The Thing hafi fælt marga frá vegna þess hversu gróteskar tæknibrellurnar eru - það er engin spurning að þær hjálpa myndinni innan hennar söguheims, en gera hana jafnframt enn erfiðari í sölu.

 

Óvenju gott sýnishorn:

 

Bestu vísindaskáldsögurnar í kvikmyndum

11. sæti: The Thing

12. sæti: Brazil

13. sæti: E.T.: The Extra Terrestrial

14. sæti: Back to the Future

15. sæti: Serenity

16. sæti: Predator

17. sæti: Terminator 2: Judment Day

18. sæti: Blade Runner

19. sæti: Total Recall

20. sæti: Pitch Black


36 Quai des Orfèvres (Lögreglustöð 36) (2004) ***1/2


Stórtækir ræningjar hafa framið sjö vel heppnuð rán á tæpum tveimur árum. Lögreglustjórinn á Stöð 36 hvetur tvo bestu menn sína til að ná þessum ræningjum áður en hann hættir störfum. Sá sem nær þeim mun verða næsti lögreglustjóri. Þessir tveir lögregluforingjar eru þeir Léo Vrinks (Daniel Auteuil) og Denis Klein (Gerard Depardieu).

Vrinks er hörð lögga sem leggur sig allan fram til að ná glæpamönnunum, hann er vinsæll meðal starfsfélaga sinna og líklegastur til að verða næsti lögreglustjóri. Klein er hins vegar metnaðarfullur og agalaus lögregluforingi sem hugsar um það eitt að ná sem mestum frama.

Vrinks fréttir að uppljóstrarinn Hugo Silien (Roschdy Zem) sé tilbúinn að koma til hans gögnum um ræningjana, en þegar á reynir er Vrinks svikinn á hrikalegan hátt, sem á eftir að hafa alvarlegar afleiðingar fyrir framtíð hans innan lögreglunnar. En hann fær upplýsingarnar og nýtir þær til að skipuleggja umsátur um ræningjana. Klein kemst á snoðir um áætlunina og er langt frá því að vera sáttur við að Vrinks fari fyrir árásinni, og í örvæntingu drekkur Klein sig fullan og æðir inn í ræningjahópinn með skammbyssu að vopni, en áttar sig ekki á því að hann er að búa til harmleik þar sem hann leiðir marga af félögum sínum í dauðann.

Ræningjarnir sleppa og ljóst er að hegðun Klein verður rannsökuð, enda er Vrinks fokillur út í hann og vill fá hann rekinn af stöðinni. En þá kemst Klein yfir viðkvæmar upplýsingar um Vrinks, og nýtir sér aðstæðurnar til að rústa starfi, máli, fjölskyldu og frama Vrinks, og jafnframt til að hreinsa orðspor sitt og ná starfi lögreglustjórans. Þegar eiginkona Vrinks, Camille (Valeria Golino), reynir að sanna sakleysi hans fer allt í bál og brand. Ljóst er að Vrinks er beittur órétti og þarf að jafna sakirnar.

Fyrir utan truflandi tónlist í upphafi myndarinnar, er henni vel leikstýrt. Það tekst að magna upp spennu og samúð með aðalhetjunni, og andúð gegn illmenninu. Hinir morðóðu ræningjar eru aukaatriði. Skilin á milli glæpamanna og lögreglumanna verða mjög óljós þegar lögreglumenn fá að gera nánast hvað sem er til að leysa glæpi, jafnvel fremja þá.

Umfram allt fjallar myndin um afleiðingar þess að láta tilganginn helga meðalið, að allt hefur afleiðingar og það illa eða góða sem þú gerir mun koma í hausinn á þér í lokin, annað hvort sem byssukúla eða ljúfur koss.

 

Sýnishorn:


Bloggfærslur 17. janúar 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband