7. Óskarsverðlaunin: It Happened One Night (1934) ****
15.4.2007 | 22:25
Ég ætla að horfa á allar kvikmyndir sem valdar hafa verið besta myndin á Óskarsverðlaunahátíðum frá upphafi. It Happened One Night frá 1934 er sú sjöunda í röðinni.
It Happened One Night fjallar um Ellie Andrews (Claudette Colbert), dóttur auðkýfingsins Alexander Andrews (Walter Connolly) sem reynir að stjórna lífi hennar. Hún hefur verið svolítið galin á næturlífinu, þannig að faðir hennar fer með hana á skútusiglingu til að halda henni frá landi og vandræðum. Hún stingur sér í sjóinn, kemst til Miami og tekur rútu áleiðis til New York, þar sem hún ætlar að hitta eiginmann sinn, konunginn Westley (Jameson Thomas), og staðfesta giftinguna; en faðir hennar vill ógilda þessa giftingu þar sem hann telur Westley konung ekki vera rétta manninn fyrir hana.
Í rútunni sest hún við hlið æsifréttamannsins Peter Warne (Clark Gable), og á við hann orðastað. Hann kannast strax við stúlkuna, en lætur ekkert á því bera. Þegar töskunni hennar er stolið sér hann aumur á henni og ákveður að hjálpa henni til New York, að því tilskyldu að hann fái einkarétt af sögunni.
Á leiðinni laðast þau hvort að öðru, en vandamálið er að Peter vill að sjálfsögðu ekkert með gifta konu gera, og hún ber varla mikið traust til æsifréttamanns. Á leiðinni stoppa þau á móteli þar sem þau fá herbergi með tveimur rúmum. Peter hengir upp teppi á milli þeirra og kallar það Jeríkó, sem er að sjálfsögðu vísun í traustan vegg úr Biblíunni sem ekkert gat unnið á nema staðfast traust.
Bilið á milli þessara tveggja einstaklinga virðist í fyrstu óyfirstíganlegt, vegna bakgrunns, aldursmunar, skapgerðar og ekki síst vegna þess að Ellie er gift kóngi, - en þar sem þetta er rómantísk gamanmynd og áhorfandinn finnur fyrir sterku sambandi milli þeirra Peter og Ellie, og finnst að þau ættu að vera saman; vitum við nokkurn veginn hvað gerist.
Clark Gable og Claudette Colbert sýna ljómandi skemmtilegan samleik, enda fengu þau bæði Óskarsverðlaun sem besti leikari árið 1934. Frank Capra fékk einnig Óskarinn sem besti leikstjórinn.
Fín mynd þarna sem á jafnmikið erindi til okkar í dag og hún gerði árið 1934. Ég hafði mjög gaman að henni. It Happened One Night er klassísk rómantísk gamanmynd. Hún hefur engu tapað á þeim 73 árum sem liðið hafa síðan hún var tekin upp á filmu; og reyndar er svolítið gaman að sjá gamla bíla, klæðaburð og lest frá 1934 í fínu ástandi.
Aðrar kvikmyndir sem valdar hafa verið besta mynd ársins:
Wings (1928) ****
The Broadway Melody (1929) *1/2
All Quiet on the Western Front (1930) ****
Cimarron (1931) ***1/2
Grand Hotel (1932) ***
Cavalcade (1933) ***
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 22:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10 uppáhaldslögum safnað saman á laugardagskvöldi
15.4.2007 | 03:47
Í einu hádeginu um daginn var ég að ræða við félaga minn um tónleika. Vinur minn stakk upp á að við skelltum okkur á Rolling Stones í ágúst. Ég er ekki aðdáandi þeirra en var samt nokkuð heitur fyrir því að fara, en vinur minn er mikill aðdáandi þeirra og mér finnst einstaklega gaman að samgleðjast vinum mínum. Samt ákvað ég að fara ekki. Þetta varð til þess að ég íhugaði hverjir þyrftu að koma saman til að ná mér sem virkilegum aðdáanda á tónleika. Það eru bara tvær hljómsveitir sem koma til greina. Queen og The Beatles. Ljóst er að ekki á ég mikla framtíð fyrir mér á tónleikum. Ég á mér mörg uppáhalds lög með báðum hljómsveitunum, sem ég gæti auðveldlega fyllt listann með, en hef ákveðið að hver hljómsveit fái bara eitt lag á listanum.
Queen var snilldar hljómsveit sem blandar röddum og rokki saman á einstakan hátt. Meistaraverk þeirra er og hefur lengi verið í miklu uppáhaldi hjá mér. Fyrsta lagið fjallar um glötun sakleysis og þegar þroski ryðst inn í líf manneskjunnar eins og óargadýr.
1. Bohemian Rhapsody, Queen
Bítlarnir hafa alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér. Það lag sem fastast situr og hefur gert það svo árum skiptir fjallar um þann trega sem fylgir glötuðum tækifærum; og kannski þeirri ósk að stundum væri gott að geta bakkað nokkrar klukkustundir, stundum daga, mánuði eða ár aftur í tímann til að leiðrétta eigin mistök.
2. Yesterday, The Beatles
Charlie Chaplin er þekktastur fyrir frábærar kvikmyndir sem ruddu brautina fyrir þeirri kvikmyndamenningu sem til er í dag. Það sem færri vita um Chaplin er hversu mikill snillingur hann var við sköpun tónverka. Eitt af lögum hans hefur lengi setið í mér. Það fjallar um þennan eiginleika okkar manneskjanna að við getum þraukað hvaða erfiðleika sem við lendum í, svo framarlega sem að okkur tekst að kreista fram eins og einu brosi, þó að súrt geti verið. Það virðist ekki skipta máli hver flytur lagið, það virkar alltaf. Rod Stewart, Michael Jackson og Robert Downey Jr. hafa sungið þetta, en mér finnst við hæfi að Josh Groban fái tækifæri til að flytja þetta fyrir okkur hérna á blogginu:
3: Smile, Charlie Chaplin
Næsta lag finnst mér frábært í flutningi Gary Moore. Það fjallar um tregann sem fylgir minningum um brostna ást.
4. Still Got the Blues, Gary Moore
Fyrir mistök setti ég þetta lag sem er á eftir inn, en ég var einnig að kíkja eftir hvort að Friday On My Mind væri til á YouTube í flutningi Gary Moore - sem mér finnst alveg frábært. Í stað þess fann ég þetta lag (ekki sömu gæði):
Næsta lag get ég hlustað á endalaust. Sungið er um ástarlög og áhrif þeirra á þann sem hlustar, sérstaklega nostalgíu um það sem er liðið.
5. Yesterday Once More, The Carpenters
Næsta hljómsveit á fjölmarga smelli, en sá sem situr hæst í huga mér ákkúrat núna er þessi, sem fjallar um eina af þessum dygðum sem getur verið svo erfitt að ná stjórn á. Stundum þráir maður að geta farið aftur í tímann, en svo gerist það líka að maður getur varla beðið eftir einhverju sem maður þráir. Þá þarf maður þolinmæði. Ég er frekar óþolinmóður að eðlisfari, en get þó oftast stjórnað þessari hvöt nokkuð vel.
6. Patience, Guns N'Roses
Næst er annað lag sem tengist þolinmæði og þrá. Mér fannst þetta lag gífurlega flott þegar ég var unglingur, en í dag hefur það tekið á sig dýpri merkingu en mig hafði nokkurn tíma grunað, og ennþá finnst mér það flott.
7. Right Here Waiting, Richard Marx
Næsta lag kom mér gífurlega á óvart sem fínn inngangur í tónlist hljómsveitarinnar. Sungið er um mikilvægi sjálfsvirðingar og sjálfstrausts, og það hversu mikilvægt er að hlusta, meina hvað maður hefur að segja, láta aðra ekki hafa of mikil áhrifa á sig og að halda huganum opnum fyrir nýjum hugmyndum.
8. Nothing Else Matters, Metallica
Næsta lag fjallar rétt eins og Smile eftir Charlie Chaplin um mikilvægi þess að þrauka þegar erfitt er. Í stað þess að brosa er ráðið sem R.E.M. gefur að bíða eða halda sér fast.
9. Everybody Hurts, R.E.M.
Síðasta lagið á listanum mínum er alltaf þægilegt áheyrnar. Píanóleikari situr á bar og syngur um fólkið sem er í kringum hann. Það biður hann um að syngja fyrir þau minningar, eða óskalög. Kannski rétt eins og þessi listi minn er.
10. Piano Man, Billy Joel
Þannig er listinn. Sérstakar þakkir til habbakriss fyrir að gefa mér hugmynd að góðri bloggfærslu sem gaman er að skrifa og safna saman á YouTube, en um daginn setti hún saman skemmtilegan lista um góða íslenska tónlist. Ég gerði mér far um að hlusta á þau lög og hafði gaman af. Vonandi hafið þið, lesendur mínir, gaman af að smella á þessi myndbönd og hlusta á einhver þeirra.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 22:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)