Færsluflokkur: Kvikmyndir
Raging Bull (1980) ****
1.3.2007 | 21:20
- Robert DeNiro þyngdi sig um tæp 30 kíló fyrir hlutverkið.
- Margir gagnrýnendur fullyrða að myndin hefði átt að vinna Óskarinn árið 1980 í staðinn fyrir Ordinary People.
- Martin Scorcese hefði átt að taka Óskarinn sem besti leikstjórinn, en Robert Redford tók gripinn það árið, einmitt fyrir Ordinary People.
Ég er sammála þessum gagnrýnendum og skil reyndar vel af hverju Scorcese var verðlaunaður sem besti leikstjórinn fyrir The Departed þrátt fyrir að hún hafi ekki verið besta kvikmynd ársins 2006, en mig grunar að myndir eins og Raging Bull og Taxi Driver, sem eru í raun klassískar, hafi gefið honum byr undir báða vængi, og held að hann hefði unnið að lokum með nánast hvaða mynd sem er, það var nóg að hún minnti á fyrri frægð.
Raging Bull fjallar um boxarann Jake LaMotta á 4. og 5. áratugum 20. aldarinnar, en hann var fullur af þrá til að sanna sig fyrir öllum heiminum og með þessari sjálfselsku tókst honum að fylla sig slíkri heift að ekkert gat hamið hann, hvorki í hringnum, einkalífinu né í eigin hugarheimi.
Jake LaMotta átti aðeins einn vin, bróður sinn, sem hann lagði nánast í einelti. Einnig fór hann illa með bæði fyrri eiginkonu sína og þá síðari. Hann var fullur kvenfyrirlitningar og hroka, og með ofsóknarbrjálæði af verstu gerð. Hann gat ekki litið af konunni sinni án þess að trúa því að hún svæfi með einhverjum öðrum.
Kannski hefði myndin betur mátt heita: "Raging Bully," því þannig hagaði Jake LaMotta sér, í það minnsta samkvæmt túlkun Robert DeNiro. Leikur DeNiro er reyndar hrein snilld. Hann verður að Jake LaMotta, óútreiknanlegur og stórhættulegur öllum þeim sem koma nálægt honum. Maður hefur stöðugt á tilfinningunni að hann sé til að kýla næsta mann í rot sem hann grunar um einhverja græsku. Þannig lifir hann lífinu og eyðileggur það fyrir sjálfum sér.
Þessi skortur á fyrirhyggju og þessi endalausa heift draga hann smám saman í svaðið, og á endanum er hann ekkert annað en skopmynd af sjálfum sér. Raging Bull minnir að mörgu leyti á Óþelló eftir William Shakespeare, sögu um mann sem eyðileggur allt sem hann elskar vegna afbrýðisemi og óttanum yfir að tapa því. Þannig harmleikur er líf Jake LaMotta, sem minnir okkur á að slíkar sögur endurtaka sig sí og æ.
Þessi heift og afbrýðisemi, og hvernig þau leika mannsálina sem er þeim haldin, er kjarninn í Raging Bull, sem ég get ekki annað en kallað hreina snilld. Það er ekki einn veikur hlekkur í allri myndinni - allir leikarar standa sig stórvel, kvikmyndatakan er mögnuð, bardagarnir eru vel gerðir. Hún er öll góð.
Smelltu hér til að lesa gagnrýni um fleiri kvikmyndir.
Kvikmyndir | Breytt 9.3.2007 kl. 17:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
The Queen (2006) ***
27.2.2007 | 18:34
The Queen er engin snilldarmynd. Hún er ágætis afþreying sem fjallar um frægasta fólk Bretlandseyja, og reyndar snilldarvel leikin af Helen Mirren í hlutverki Elísabetar Bretadrottningar. Ekki má gleyma framúrskarandi leik Michael Sheen í hlutverki Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands.
The Queen er svolítið sérstök. Að hluta til er hún þjóðfélagsádeila, að hluta drama en kjarninn í henni er rómantísk gamanmynd, og ástarsambandið er á milli Elísabetar drottningar og Tony Blair forsætisráðherra.
Sagan gerist í kjölfar bílslyssins í París sem leiddi Díönu prinsessu til dauða og fjallar um viðbrögð drottningarinnar við dauða fyrrum tengdadóttur sinnar. Það er útilokað að segja til um hvort að sönn mynd birtist á skjánum, en hún er samt mjög sennileg.
Tony Blair, sem nýi forsætisráðherrann með hugsjónir um hallarbyltingu kemur óvænt drottningunni til hjálpar þegar hann verður var við að konungsfjölskyldan er að missa allt traust vegna samskiptaleysis þeirra við almenning. Hann gerir allt í sínu valdi til að leiða drottninguna í gegnum erfiðleikana og stendur sig býsna vel sem ráðgjafi hennar, á meðan að hún ætti í rún að vera ráðgjafi hans.
Myndin fjallar annars um lífsstíl drottningarinnar, um dýrkun hennar á náttúrunni og hennar viðhorfs til embættisins, að þetta sé skylda sem einhver verður að framfylgja og það vill bara til að það er í hennar hlutverki.
Það leikur enginn vafi á því að leikstjórinn sýnir bæði drottninguna og forsætisráðherrann í mjög svo mildu ljósi. Drottningin er þessi virðingarverða þögula típa sem vill gera allt rétt, burtséð frá því hvaða skoðun fólk hefur á gjörðum hennar, en Tony Blair er maðurinn sem stýrir skipinu, og gerir það af skynsemi og mannúð.
Ég verð bara að spyrja: Er þetta virkilega sami Tony Blair og hóf Íraksstríðið með Bush Bandaríkjaforseta? Er þetta virkilega sama drottning og talaði ísköld um dauða Díönu prinsessu? Er þessi kvikmynd auglýsing fyrir breska verkamannaflokkinn fyrir næstu kosningar?
Ég hefði ekki misst af miklu þó að ég hefði misst af þessari mynd.
Smelltu hér til að lesa gagnrýni um fleiri kvikmyndir.
Kvikmyndir | Breytt 9.3.2007 kl. 17:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Niðurstöður Óskarsins: klúður!
26.2.2007 | 19:24
Mín spá var í 25% samræmi við niðurstöður akademíunnar, sem þýðir annað hvort að ég hef ekkert vit á kvikmyndum eða að smekkur minn á kvikmyndum sé gjörólíkur smekk bandarísku akademíunnar, eða eitthvað allt annað sem mér dettur einfaldlega ekki í hug.
Ég hafði rangt fyrir mér í flestum aðalkategóríum, enda fór ég eftir eigin smekk, og síður eftir því sem ég trúði að myndi gerast út frá vinsældum viðkomandi. Reyndar var ég búinn að lesa ýmsa lista gagnrýnenda í Bandaríkjunum, en vildi að sjálfsögðu frekar fara eftir eigin tilfinningu.
Það var vissulega gaman að spá í spilin, og sérstaklega gaman að sjá hvað ég er öðruvísi.
Besta kvikmyndin:
Sigurvegari: The Departed.
Ljóst er að ég er ekki sammála akademíunni um ágæti þessarar myndar, en svona er þetta. Smekkur manna er ólíkur. Ég skrifaðist á við bandaríska gagnrýnandann James Berardinelli, en honum fannst The Departed vera mikið meistarastykki. Hann hafði líka séð Internal Affairs en fannst hún svo léleg að hann nennti ekki einu sinni að skrifa um hana dóm, en sagði mér að hann hafi haft á tilfinningunni að atburðarrásinni í henni hafi verið flýtt, á meðan Scorcese gaf persónum sínum meiri tíma til að þróast. The Departed er 50 mínútum lengri mynd, sem útskýrir kannski þessa tilfinningu að einhverju marki. Svona er smekkur manna ólíkur.
0/1
Besti leikarinn:
Spá: Leonardo DiCaprio
Sigurvegari: Forest Whitaker
Þar sem að ég hef ekki séð The Last King of Scotland get ég í rauninni ekkert sagt um þetta val, nema að mig hlakkar mikið til að sjá Whitaker í þessu hlutverki.
0/2
Besta leikkonan:
Spá: Helen Mirren
Sigurvegari: Helen Mirren
Ég hafði ekki séð neina af þeim kvikmyndum sem um var að ræða. Helen Mirren hafði einfaldlega hrifsað til sín öll möguleg verðlaun og hlaut að vinna þetta. (Hefði ég fylgt sömu aðferðarfræði í öðrum kategóríum hefði ég skorað mun hærra).
1/3
Besti leikari í aukahlutverki:
Spá: Djimon HounsouSigurvegari: Alan Arkin
Það er engin spurning: Djimon Hounsou var stórkostlegur í sínu hlutverki, en verið var að verðlauna Alan Arkin fyrir stórgóðan feril.
1/4
Besta leikkona í aukahlutverki:
Spá: Rinko KikuchiSigurvegari: Jennifer Hudson
Flestir gagnrýnendur höfðu fullyrt að Hudson væri örugg með sigur, en þar sem að ég hef ekki enn séð Dreamgirl gat ég náttúrulega ekki stutt þá fullyrðingu.
1/5
Besta leikstjórn
Spá: Clint EastwoodSigurvegari: Martin Scorcese
Ljóst er að Martin Scorcese fær þessi verðlaun fyrir þær fjölmörgu klassamyndir sem að hann hefur leikstýrt á ferlinum. The Departed er alls ekki meðal hans bestu mynda; en kvikmyndaheimurinn krafðist þess einfaldlega að þessi vinsæli leikstjóri fengi loks Óskarinn og yrði ekki óverðlaunaður eins og Charlie Chaplin eða Alfred Hitchcock, sem fengu aldrei Óskar, en fjölmargar tilnefningar.
1/6
Besta frumsamda handritið:
Spá: El Laberinto del Fauno
Sigurvegari: Little Miss Sunshine
Vissulega eru samtölin í Little Miss Sunshine mjög flott skrifuð, en engin kvikmynd gerð á þessu ári jafnast á við hina frumlegu sögu sem birtist í El Laberinto del Fauno.
1/7
Besta handrit byggt á áður sömdu efni:
Spá: Children of MenSigurvegari: The Departed
Þarna er ég einfaldlega innilega ósammála, þar sem að Infernal Affairs, frummynd The Departed, hafði mun betur skrifað handrit. Þetta finnst mér einfaldlega rangt. En svona er þetta stundum.
1/8
Besta kvikmyndatakan:
Spá: El Laberinto del FaunoSigurvegari: El Laberinto del Fauno
Loksins erum við akademían sammála um eitthvað.
2/9
Bestu skeytingar/klippingar:
Spá: Blood DiamondSigurvegari: The Departed
Þarna er ég ósammála, enda þótti mér The Departed alls ekkert sérstaklega vel klippt.
2/10
Besta erlenda myndin:
Sigurvegari: Des Leben der Anderen
2/11
Besta teiknimyndin:
Spá: Cars
Sigurvegari: Happy Feet
2/12
Listræn stjórnun:
Spá: El Laberinto del Fauno
Sigurvegari: El Laberinto del Fauno
3/13
Bestu klæðin:
Spá: Curse of the Golden Flower
Sigurvegari: Marie Antoinette
3/14
Besta frumsamda tónlistin:
Spá: El Laberinto del Fauno
Sigurvegari: Babel
3/15
Besta lagið:
Spá: eitthvað úr Dreamgirls
Sigurvegari: An Inconvenient Truth
3/16
Besta förðunin:
Spá: El Laberinto del Fauno
Sigurvegari: El Laberinto del Fauno
4/17
Besta hljóðrásin:
Spá: Apocalypto
Sigurvegari: Dreamgirls
4/18
Bestu tæknibrellurnar:
Spá: Superman Returns
Sigurvegari: Pirates of the Caribbean: Dead Man's Chest
4/19
Besta heimildarmyndin:
Spá: An Inconvenient Truth
Sigurvegari: An Inconvenient Truth
5/20Scorsese fékk loks Óskarinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ghost Rider (2007) ***1/2
25.2.2007 | 21:37
Þetta finnst mér frábært. Gagnrýnendur á netinu og í fjölmiðlum almennt hafa gjörsamlega misþyrmt Ghost Rider. Eins og staðan er í dag fær hún aðeins 27% viðurkenningu sem góð mynd á rottentomatoes.com, vefsíðu sem reiknar út meðaltal jákvæðni eða neikvæðni gagnrýnanda á viðkomandi kvikmyndir. Í þetta sinn er ég ósammála straumnum, og er ánægður með hversu góðar viðtökur hún er að fá frá almenningi þrátt fyrir að vera skellt illilega af gagnrýnendum. Ég læt gagnrýni mína um Ghost Rider fylgja:
Ghost Rider (2007) ***1/2
Þó að ég gefi Ghost Rider þrjár og hálfa stjörnur er það ekki vegna þess að ég held að þetta sé stórmerkilegt listaverk, heldur bíómynd sem skilar sínu og betur en það. Fjöldi gagnrýnanda hefur rifið þessa mynd í sig og látið eins og hún sé eitthvað drasl, og þá aðallega vegna þess að guðfræðin á bakvið hana er eitthvað brengluð. En KOM ON! Aðalhetjan breytist í logandi beinagrind. Við hverju er hægt að búast?
Johnny Blaze (Nicolas Cage) gerir samning við djöfulinn sjálfan (Peter Fonda) um að losa föður sinn við krabbamein. Djöfullinn losar pabbann við krabbameinið en drepur hann samt. Ævi Johnny Blaze er í rúst eftir þetta þar sem að hann las ekki smá letrið. Hann fær ekki að halda vináttu- eða ástarsamböndum, þar sem að sál hans er nú í eigu Satans og mun verða notuð síðar sem verkfæri hans.
Johnny hefur séð eftir þessum samningi í yfir tuttugu ár og alltaf hagað sér til fyrirmyndar eftir þetta. Hann hvorki reykir né drekkur og dreymir um að gera þjóðfélaginu gagn. Hann starfar sem áhættustjarna á mótorhjóli og er frægur fyrir að stökkva yfir vörubíla og þyrlur langar vegalengdir.
Loks kemur að því að djöfullinn þarf á Draugaþreytinum (Ghost Rider) að halda, en mig langar að kalla hann Draugaþreytinn af því að hann er draugur sem þreytir áfram mótorhjóli sínum af miklum krafti. Svo er málið búið að sonur djöfulsins hefur gerst metnaðarfullur og ætlar að taka yfir veldi föður síns. Sonurinn er semsagt verri en pabbinn að því leyti að hann fylgir engum reglum. Hann drepur bara þá sem honum sýnist og pirrast ekkert yfir heilagri grund eða neinu slíku. Djöfullinn vill hafa ákveðna reglu á jörðu, þar sem að hann vill völd yfir fólki en ekki eyðileggingu, og fær hann Draugaþreytinn til að berjast gegn syni sínum og skrýmslum hans.
Myndin er vel gerð og hin besta skemmtun. Tæknibrellurnar eru flottar og ná mjög vel utan um þennan karakter, en ég hafði lesið einhverjar teiknimyndasögur um hann þegar ég var unglingur. Það eru ákveðnar klisjur í lokin sem gerir endinn frekar væminn, en ekkert sem eyðileggur of mikið fyrir því góða sem á undan er gengið.
Þema myndarinnar snýst um fyrirgefningu og val. Johnny gerði þessi einu mistök, að skrifa undir samning með blóði sínu við djöfulinn, og þrátt fyrir að hafa gert allt annað rétt í lífinu, þjáist hann stöðugt fyrir það. Og þó að hann verði að verkfæri djöfulsins, þá finnur hann kraft til að breyta rétt þrátt fyrir það, og snúa baráttunni upp í stríð hins góða gegn hinu illa, í stað hins vonda gegn hinu verra.
Svo má ekki gleyma því að myndirnar á tjaldinu eru einfaldlega gull fyrir gamla þungarokkara. Hvaða rokkari fær ekki eitthvað út úr því að sjá logandi beinagrind í leðurjakka og með svipu úr keðju gera óþokkum og skrýmslum lífið leitt.
Ljóst er að leikstjóranum, Mark Steven Johnson, hefur farið mikið fram síðan hann gerði hina sárleiðinlegu Daredevil. En ég á reyndar eftir að kíkja á leikstjóraútgáfu þeirrar myndar og einnig Electra. Ljóst að maður verður að fara að kíkja á þessar myndir, því að þó þreytarinn sé þunnur - þá er fullt af kraftmiklum spörkum í honum.
Stórskemmtileg ofurhetjumynd, en aðeins fyrir þá sem hafa gaman af ofurhetjumyndum og mæta ekki með of miklar væntingar um skynsamlegan söguþráð og góðan leik; en reyndar leika þeir Nicolas Cage og Sam Elliot skemmtilegt tvíeyki, en allir aðrir fannst mér reyndar tvívíðir og þunnir.
Smelltu hér til að lesa gagnrýni um fleiri kvikmyndir.
Draugasaga enn vinsælust vestanhafs | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Óskarsverðlaunaspá Hrannars
25.2.2007 | 00:56
Í kvöld rennur stóra stundin upp í Hollywood. 79. Óskarsverðlaunahátíðin mun eiga sér stað og fullt af kvikmyndum og fagmönnum í Hollywood og víðar verðlaunaðir fyrir afrek sín með kvikmyndalistinni. Ég hef reynt að komast yfir flestar af þeim myndum sem keppa til úrslita, en játa að ég hef ekki séð þær allar, enda ekki auðvelt að finna þær tímanlega á Íslandi þegar maður er í þessu af áhuganum einum saman.
Besta kvikmyndin:
Babel ****
The Departed ***
Little Miss Sunshine ***1/2
The Queen (Óséð)
Af þessum myndum þykir mér Babel og Letters From Iwo Jima bestar. Letters From Iwo Jima fannst mér aftur á móti alveg frábær, þegar Babel vakti mig til umhugsunar um áhugaverð málefni og hafði sterk áhrif á mig. Letters From Iwo Jima er einfaldlega svo mannleg og vel leikin, eða eins og ég sagði í gagnrýninni minni: ein best leikna mynd sem ég hef séð; þannig að val mitt er auðvelt.
Besta myndin: Letters From Iwo Jima
Mætti vinna: Babel
Mætti alls ekki vinna: The Departed
Besti leikarinn:
Leonardo DiCaprio í Blood Diamond ***1/2
Ryan Gosling í Half Nelson (Óséð)
Peter O'Toole í Venus (Óséð)
Will Smith í The Pursuit of Happiness (Óséð)
Forest Whitaker í The Last King of Scotland (Óséð)
Þar sem að ég hef augljóslega aðeins séð eina af þessum fimm kvikmyndum er vonlaust fyrir mig að dæma, en mér fannst Leonardo DiCaprio hreint frábær í Blood Diamond. Annars finnst mér skemmtilegt að Peter O'Toole sé að berjast um vinninginn í þetta skiptið, en hann er á 75. ára, aðeins fjórum árum yngri en Óskarsverðlaunahátíðin sjálf. Bara fyrir það hvað hann var frábær í Lawrence of Arabia á sínum tíma mætti hann alveg taka Óskarinn með heim til sín í þetta skiptið.
Besti leikarinn: Leonardo DiCaprio
Mætti vinna: Peter O'Toole
Penélope Cruz í Volver (Óséð)
Judi Dench í Notes on a Scandal (Óséð)
Helen Mirren í The Queen (Óséð)
Meryl Streep í The Devil Wears Prada (Óséð)
Kate Winslet í Little Children (Óséð)
Ég hef engar forsendur til að spá um sigurvegarann hérna, þar sem að ég hef ekki séð neina af þessum myndum. Samt er ekki ólíklegt að Helen Mirren taki þetta.
Spá: Helen Mirren
Besti leikari í aukahlutverki:
Alan Arkin í Little Miss Sunshine ***1/2
Jackie Earle Haley í Little Children (Óséð)
Djimon Hounsou í Blood Diamond ***1/2
Eddie Murphy í Dreamgirls (Óséð)
Mark Wahlberg í The Departed ***
Þar sem að ég hef hvorki séð Little Children né Dreamgirls get ég varla dæmt um þær. En af hinum myndunum get ég sagt að mér þótti Mark Wahlberg ágætur í The Departed, en þó alls ekki neitt það góður að hann ætti skilið Óskar fyrir. Alan Arkin var fínn í Little Miss Sunshine. Hann hefur alltaf verið traustur leikari og stóð sig mjög vel í þessari mynd, en var ekkert yfirburða átakanlegur. Aftur á móti fannst mér Djimon Hounsou alveg hreint frábær í Blood Diamond þar sem hann lék örvæntingarfullan föður sem reynir að bjarga fjölskyldu sinni úr klóm borgarastyrjaldar.
Besti leikari í aukahlutverki: Djimon Hounsou
Mætti vinna (vegna aldurs og fyrri starfa): Alan Arkin
Mætti ekki vinna: Mark Wahlberg
Besta leikkona í aukahlutverki:
Adriana Barraza í Babel ****
Cate Blanchett í Notes on a Scandal (Óséð)
Abigail Breslin í Little Miss Sunshine ***1/2
Jennifer Hudson í Dreamgirls (Óséð)
Rinko Kikuchi í Babel ****
Adriana Barraza var mjög góð sem örvæntingarfull barnfóstra í Babel, sem þurfti að komast í brúðkaup sonar síns til Mexíkó og fyrir vikið tapar nánast lífi sínu, en tapar öllu því sem hún hefur barist fyrir í fjölda ára. Abigail Breslin var mjög náttúruleg sem sjö ára stúlka í Little Miss Sunshine, en af henni geislaði þó enginn snilldarleikur. Aftur á móti var Rinko Kikuchi hreint frábær sem heyrnarlaus táningur í Babel.
Besta leikkona í aukahlutverki: Rinko Kikuchi
Mætti vinna: Adriana Barraza
Mætti ekki vinna: Abigail Breslin
Clint Eastwood fyrir Letters From Iwo Jima ****
Stephen Frears fyrir The Queen (Óséð)
Paul Greengrass fyrir United 93 (Óséð)
Alejandro González Iñárritu fyrir Babel ****
Martin Scorsese fyrir The Departed ***
Ég vil alls ekki að Martin Scorsese vinni fyrir The Departed, sem mér finnst illa leikstýrð endurgerð mikið betri kvikmyndar: Infernal Affairs **** (2002). Eastwood leikstýrði frábærum leikarahóp í Letters From Iwo Jima svo að þeir bókstaflega lifnuðu við á tjaldinu. Iñárritu gerði líka frábæran hlut með því að segja sögu sem gerðist samtímis í fjórum heimsálfum og tengdist rökrétt og listilega vel saman, og tjáði magnaða hugmynd. Þó fannst mér klassískur stíll Eastwood meira spennandi en heimildarmyndarstíll Iñárritu.
Besta leikstjórn: Clint Eastwood
Mætti vinna: Alejandro González Iñárritu
Mætti alls ekki vinna (enda er The Departed engin Taxi Driver): Martin Scorcese
Besta frumsamda handritið:
Guillermo Arriaga fyrir Babel ****
Iris Yamashita og Paul Haggis fyrir Letters From Iwo Jima ****
Michael Arndt fyrir Little Miss Sunshine ***1/2
Guillermo del Toro fyrir El Laberinto del Fauno ****
Peter Morgan fyrir The Queen (Óséð)
Þó að Little Miss Sunshine sé mjög góð mynd finnst mér hún ekki ná hæðum hinna þriggja. Mér finnst erfitt að velja á milli þeirra, en þó verð ég að segja að frumlegasta sagan var ævintýrið og stríðsmyndin El Laberinto del Fauno eftir Guillermo del Toro. Sú mynd er mögnuð og hefur djúpa sögu að segja.
Besta handrit: Guillermo del Toro
Mætti vinna: Iris Yamashita og Paul Haggis
Mætti líka vinna: Guillermo Arriaga
Besta handrit byggt á áður sömdu efni:
Sacha Baron Cohen, Anthony Hines, Peter Baynham, Dan Mazer og Todd Phillips fyrir Borat: Cultural Learnings of America for Make Benefit Glorious Nation ***1/2
Alfonso Cuarón, Timothy J. Sexton, David Arata, Mark Fergus og Hawk Ostby fyrir Children of Men ***1/2
William Monahan fyrir The Departed ***
Tood Field og Tom Perrotta fyrir Little Children (Óséð)
Patrick Marber fyrir Notes on a Scandal (Óséð)
Af þeim þremur myndum sem ég hef séð af þeim sem fengu tilnefningu, þá get ég sagt að mér þótti handritið af The Departed langt frá því að vera jafngott og af frummyndinni. Borat var náttúrulega hryllilega fyndin og skrifuð af mikilli snilld, en af þessum þótti mér Children of Men einnig vera skemmtilega skrifuð og spennandi. Ég er satt best að segja hissa á að Children of Men hafi ekki hlotið fleiri tilnefningar.
Besta handrit: Children of Men
Mætti ekki vinna: The Departed
Besta kvikmyndatakan:
Vilmos Zsigmond fyrir The Black Dahlia (Óséð)
Emmanuel Lubezki fyrir Children of Men ***1/2
Dick Pope fyrir The Illusionist (Óséð)
Guillermo Navarro fyrir El Laberinto del Fauno ****
Wally Pfister fyrir The Prestige *1/2
Mér þótti lítið varið í The Prestige, en viðurkenni að kvikmyndatakan í henni var góð. Einnig fannst mér kvikmyndatakan nokkuð flott í Children of Men, en hún hafði frekar mjúkan stíl sem áhugavert var að fylgjast með; en kvikmyndatakan í El Laberinto del Fauno var hrein snilld.
Besta kvikmyndatakan: El Laberinto del Fauno
Mætti ekki vinna: The Prestige
Bestu skeytingar/klippingar:
Douglas Crise og Stpehn Mirrione fyrir Babel ****
Steven Rosenblum fyrir Blood Diamond Blood Diamond ***1/2
Alfonso Cuarón og Alex Rodríguez fyrir Children of Men ***1/2
Thelma Schoonmaker fyrir The Departed ***
Clare Douglas, Richard Pearson og Christopher Rouse fyrir United 93 (Óséð)
Klippingarnar fyrir Babel, The Departed og Children of Men hrifu mig ekkert sérstaklega, en mér fannst sú vinna mjög áhrifarík í Blood Diamond.
Besta skeyting/klipping: Blood Diamond
Mætti ekki vinna: The Departed
Besta erlenda myndin:
Eina myndin sem ég hef séð af þeim sem eru tilnefndar er El Laberinto del Fauno og hún er einfaldlega það frábær að hún hlýtur að vinna. Ég á bágt með að trúa öðru. Reyndar fannst mér skrýtið að hún skuli ekki fengið tilnefningu sem besta kvikmynd ársins 2006, en held þó að hún hefði átt erfitt uppdráttar með að vinna gegn klassa eins og Letters From Iwo Jima.
Smærri verðlaun:
Ég spái því að Cars **** verði valin besta teiknimyndin, en ég hef því miður hvorki náð að sjá Happy Feet né Monster House.
Besta listræna stjórnunin spái ég að lendi í höndum El Laberinto del Fauno.
Ég hef ekki hugmynd um hvaða mynd getur fengið verðlaun fyrir besta klæðaburðinn, en spái þó að hin kínverska Curse of the Golden Flower geti tekið þetta.
Besta frumsamda tónlistin má lenda í El Laberinto del Fauno.
Ég hef ekki hugmynd um hvað besta lagið verður, en það eru þrjú möguleg úr myndinni Dreamgirls, sem ég hef ekki séð. Þannig að ég sleppi því bara að spá hérna.
Fyrir bestu förðunina: El Laberinto del Fauno.
Fyrir bestu hljóðrásina: Þar eru þrjár myndir sem gætu tekið þetta. Flags of Our Fathers hefur magnaða hljóðrás í bardagaatriðunum, en er samt of lík Saving Private Ryan fyrir minn smekk. Blood Diamond var líka með mjög flotta hljóðrás, en mér finnst þó að Apocalypto ***1/2 mætti taka þessi verðlaun, þar sem að hljóðrásin var mögnuð í þeirri mynd - mér fannst ég vera kominn inn í frumskóg í Mexíkó, og það er nokkuð vel af sér vikið þar sem að ég þekki það af eigin reynslu að hafa verið í frumskóg á Maya slóðum í Mexíkó.
Fyrir bestu hljóðrásarklippingu: Apocalypto.
Bestu tæknibrellurnar: Ég er í raun hissa á því að El Laberinto del Fauno eða Letters From Iwo Jima skuli ekki hafa verið tilnefnd hérna, en af þeim sem tilnefndar eru myndi ég velja Superman Returns *1/2 þó að myndin sjálf hafi verið mjög slöpp, rétt eins og aðrar tilnefndar myndir, Poseidon ** og Pirates of the Caribbean: Dead Man's Chest **.
Ég hef ekki séð neina af tilnefndum heimildarmyndum en hef þó heyrt mjög góða hluti um An Inconvenient Truth, sem hefur orðið til þess að demókratar í Bandaríkjunum vilja ólmir og uppvægir að Al Gore bjóði sig aftur fram til forseta.
Ég veit ekkert um stuttmyndirnar. Fæst orð hafa minnsta ábyrgð.
Þannig er mín spá fyrir Óskarinn árið 2007.
The Departed (2006) ***
24.2.2007 | 22:57
Það er hrein tilvililjun að ég skuli leigja The Departed (2002) og Infernal Affairs (2002) á sama degi. Ég mundi ekki það sem ég hafði einhvern tíma heyrt, að The Departed væri endurgerð Infernal Affairs. En ég komst að því í dag og verð að segja að Infernal Affairs frá Hong Kong er mun betri kvikmynd en The Departed frá Hollywood.
Sagan er nákvæmlega sú sama. Handritið er nánast copy/paste dæmi, fyrir utan það að leikararnir búa til sínar eigin persónur úr efniviðnum og sagan glatar kjarnanum sem var svo sterkur í Hong Kong útgáfunni - að illmenni þjást meira eftir því sem þeir lifa lengur, og að dauðinn sé aðeins lausn fyrir þá undan þeirri þjáningu sem illska þeirra skapar bæði þeim og öðrum.
The Departed er fagmannlega gerð í flesta staði, en samt er ein alvarleg villa. Það er þegar Billy Costigan (Leonardo DiCaprio) veitir Colin Sullivan (Matt Damon) eftirför úr kvikmyndahúsi. Þegar Billy var inni í kvikmyndahúsinu fékk hann SMS skeyti á símann. Þá var titrari símans á. En þegar það hentaði handritinu, fimm mínútum síðar, fyrir utan kvikmyndahúsið, þá fékk hann aftur SMS skeyti, en þá var hringingin á og var stillt það hátt að Colin Sullivan varð var við eftirförina og náði að flýja. Slík mistök áttu sér ekki til í upprunalegu myndinni.
Talað er um að verðlauna Martin Scorcese með óskarsverðlaunum fyrir þessa mynd. Ég tel hann ekki eiga þau skilið. Hann hefur einfaldlega tekið formúlu úr frábærri mynd, berstrípað hana af merkingu og fært hana yfir til Boston borgar. Það finnst mér ekki mikil list. Aftur á móti, fyrir þá sem ekki hafa séð Infernal Affairs, er The Departed sjálfsagt ágætis skemmtun og jafnvel óvenju góð á Hollywood mælikvarða.
Leikur DiCaprio hefur verið mikið lofaður fyrir þessa mynd, en ég játa að mér þótti hann margfalt betri í Blood Diamonds.
Það er í rauninni ekkert þema í The Departed fyrir utan klisjuna að glæpir borgi sig ekki. Ekki merkilegur pappír, en vel gerður.
Ég mæli samt með henni sem góðri skemmtun, en hún er ekki sú snilld sem markaðsvélin í Hollywood vill láta þig trúa að hún sé.
Smelltu hér til að lesa gagnrýni um fleiri kvikmyndir.
Little Miss Sunshine (2006) ***1/2
24.2.2007 | 18:58
Nú hlýtur þessu bráðum að ljúka. Hverjar eru líkurnar á því að maður horfi á þrjár myndir í röð og allar þeirra eru hörkugóðar? Little Miss Sunshine er einfaldlega stórskemmtilega gamanmynd um ástina á nánustu ættingjum, sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara.
Olive (Abigail Breslin) er 7 ára gömul, og frekar þybbin stúlka sem dreymir um að verða fegurðardrottning. Hún vinnur sér sæti í fegurðarkeppninni Little Miss Sunshine í Kaliforníu, sem á að fara fram í öðru fylki eftir fá daga. Fjölskylda hennar ákveður að fylgja henni í keppnina, en hver og einn þeirra hefur mjög sérstakan persónuleika og fást við margvísleg persónuleg vandamál.
Afinn (Alan Arkin) er heróínfýkill sem hugsar um fátt annað en hvernig hann hefði getið lifað lífinu öðruvísi. Frændinn Frank (Steve Carell) er í umsjá fjölskyldunnar eftir að hafa reynt að fremja sjálfsvíg, en kærasti hans hafði farið frá honum fyrir mann sem þótti merkilegri en Frank á vitsmunalega stiginu. Bróðir hennar (Dwayne) hatar formlega alla og dreymir um að verða flugmaður, hann talar ekki vegna þess að Nietzsche minntist einhvern tíma á að það væri ekkert merkilegt ósagt í þessum heimi. Mamman (Toni Collette) er á barmi taugaáfalls, lýgur um smáatriði en þráir ekkert annað en hreinskilni frá öðrum. Og pabbinn er hugmyndasmiður að kerfi sem á að tryggja velgengni í lífinu, vandamálið er bara að honum hefur ekki tekist að selja það og er nánast gjaldþrota, - en hann er gífurlega upptekinn af því að vinna og finnast vera sigurvegari, en fyrirlítur allt sem tengist tapi og veikleika.
Þannig er þessi fjölskylda samansett sem fer saman í þessa ferð, og að sjálfsögðu tekst þeim að púsla sér saman á leiðinni og finna lausnir á þeim vandamálum sem hrjá þau, án þess jafnvel að átta sig á því sjálf.
Hæfileikakeppnin í lokin spilar aðeins á væntingar áhorfenda, en það er bara nokkuð sem að þú þarft að sjá með eigin augum. Hvort Olive vinni fegurðarsamkeppnina er ekki aðalmálið, heldur leiðin að keppninni og að taka þátt sem þú sjálf.
Í raun fjallar Little Miss Sunshine um það að þó að þú sért kannski ekki alveg eins og allir aðrir, þá er það allt í lagi, og ekki bara það: það er frábært og gott að þú skulir voga þér að vera þú sjálf eða sjálfur. Það er á endanum það sem fólk elskar við þig.
Stórskemmtileg mynd sem ætti að geta fengið flesta til að brosa, að minnsta kosti vel út í annað, ef ekki allan hringinn.
Smelltu hér til að lesa gagnrýni um fleiri kvikmyndir.
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 19:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Infernal Affairs (Mou gaan dou) (2002) ****
24.2.2007 | 15:07
Infernal Affairs hefst á þessum orðum: "Hið versta af hinum átta vítum er kalla hið endalausa helvíti. Það merkir endalausar þjáningar."
Infernal Affairs er um hið eilífa stríðs milli hins góða og þess illa, þeirra réttlátu og þeirra ranglátu.
Unglingsstrákar eru fengnir í lið með mafíunni og lögreglunni. Verkefni þeirra geta verið ansi margslungin. Við fylgjumst með sögu tveggja ungra manna. Annar þeirra er glæpamaður sem fær það verkefni að ganga í lögregluskóla og uppljóstra um leyndarmál lögreglunnar; en annar er tekinn úr lögregluskólanum og fenginn til að njósna um glæpastarfsemina innanfrá.
Þannig ganga hutirnir fyrir sig í tíu ár. Báðir hafa unnið sig upp í öruggar stöður innan stofnunar óvinarins þegar uppgötvast að svikarar séu í báðum liðum.
Tony Leung sýnir leik í hæsta gæðaflokki og leikur mjög svo eftirminnilega og tragíska persónu. Aðrir standa sig einnig gífurlega vel.
Fyrirfram bjóst ég við að þetta væri mikil ofbeldismynd, rétt eins og Hard Boiled og The Killer, sem var það allra vinsælasta frá Hong Kong fyrir um áratug síðan, en kvikmyndalistin hefur greinilega þróast mikið þar í landi, þar sem að dramað og persónurnar eru algjörlega í aðalhlutverki, og umhverfið aðeins notað sem karakter til að skoða þær betur á áhugaverðan hátt.
Báðar aðalhetjurnar, eða aðalandhetjurnar, þurfa að takast á við sinn innri mann og finna andlegt jafnvægi í því helvíti sem það að lifa í lygavef hefur skapað þeim. Mörkin á milli þess góða og þess illa verða stundum frekar óljós, en á endanum verður hver að gera upp við sig hvað hann velur: að vera góður eða illur í þessu lífi.
Þetta val er kjarninn í sögu Infernal Affairs, sem lýkur með þessari vísun í Búdda: "Sá sem er í endalausu helvíti deyr aldrei. Langlífi er það erfiðasta við endalaust helvíti."
Frábær mynd sem óhætt er að mæla með.
Smelltu hér til að lesa gagnrýni um fleiri kvikmyndir.
Kvikmyndir | Breytt 9.3.2007 kl. 17:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Letters From Iwo Jima (2006) ****
23.2.2007 | 23:49
Letters From Iwo Jima er stórgóð kvikmynd með djúpum og áhugaverðum persónum sem allar spretta fram ljóslifandi og maður getur ekki annað en haft mikla samúð með eða andúð á.
Sögusviðið er það sama og í Flags Of Our Fathers mynd sem gerð var samhliða, af sama leikstjóra, en mörgum gæðaflokkum fyrir neðan Letters From Iwo Jima.
Sagan fylgir óbreytta hermanninum (og fyrrum bakara) Saigo. Hann er ekki hrifinn af þessu stríðsbrölti og hugsar um fátt annað en að komast heim til eiginkonu sinnar og nýfæddrar dóttur. En yfirvofandi er gífurlega öflug árás frá flota Bandaríkjamanna og frekar ólíklegt að nokkur Japani muni komast lífs af eftir þau átök, enda hafa japönsku hermennirnir fengið þau fyrirmæli að þeir skuli vernda eyjuna eða deyja. Hvað á maður sem þykir vænt um lífið að gera við svona aðstæður?
Hann er í óþægilegri stöðu í upphafi sögunnar, en yfirmenn hans sýna grimmd og hörku þegar betur hefði verið að beita visku - og oft er þessari grimmd beint gegn honum, þar sem hann liggur vel við höggi og er ekki sáttur við ástandið. En þá kemur til eyjunnar hershöfðinginn Kuribayashi, sem umturnar hvernig komið er fram við óbreytta hermenn á eyjunni og tekur upp á því að skipuleggja snilldarlega hannaðar varnir, til að verja eyjuna í sem lengstu lög - þar sem að hann grunar að hann muni seint eða aldrei fá liðsauka.
Þessir menn sem berjast af innri sannfæringu eru hetjur myndarinnar, en hinir sem berjast aðeins vegna heiðursins eru að uppfylla innantóm loforð sem á endanum skila engu, en myndin fjallar einmitt fyrst og fremst um mikilvægi þess að hugsa sjálfstætt, komast að eigin sannfæringu og breyta samkvæmt henni. Hún fjallar um mannlegan breyskleika, hugrekki og heiður, bræðralag og fórnir, heimsku og visku. Hún tekur allan skalann.
Sagan um þá Ninomiya og Kuribayashi er gífurlega áhrifarík. Fleiri einstaklingar koma við sögu, og er saga þeirra ekkert síður vel sögð, en ég mun ekki fjalla nánar um þá hér. Það er óhætt að mæla hiklaust með þessari mynd, sem er að mínu mati ein best leikna mynd sem gerð hefur verið, enda er hún trúverðug og ekki eitt einasta feilspor tekið af þeim fagmönnum sem að verkinu komu.
Ótrúlegt að sami leikstjóri hafi gert Letters From Iwo Jima og Flags Of Our Fathers, þar sem að sú síðarnefnda er bara meðalmynd en sú fyrrnefnda hreint meistarastykki.
Smelltu hér til að lesa kvikmyndagagnrýni fyrir fleiri myndir.
Kvikmyndir | Breytt 9.3.2007 kl. 17:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)