Ættu þingmenn að fylgja forystu flokksins í blindni eða ástunda gagnrýna hugsun í sérhverju máli?

Á Íslandi, séð utanfrá, virðist flokkapólitík einkennast af skorti á gagnrýnni hugsun. Hópur fólks setur ákveðnar línur, markmið, reikna ég með, og síðan eiga allir þingmenn viðkomandi flokks að fylgja þessum línum. Eftir að hafa fylgt þessum línum blindandi í einhvern tíma, geta þeir farið að trúa meira á línuna sjálfa heldur en eigin dómgreind. Það er hættulegt og getur orðið til þess að slæmar ákvarðanir eru teknar og jafnvel barist af hörku til að eigin lína nái að halda. Sérstaklega slæmt er þegar línan verður afstæð og tengd hag flokksins fyrst og fremst: til dæmis er línan "að ná völdum" mun verri en að "vernda hag þjóðarinnar". Hversu göfug sem þessi lína getur orðið, má aldrei gera hana að tabú, einhverju sem ekki má gagnrýna.

Ég velti fyrir mer hvort að alþingismenn spyrji sig gagnrýnna spurninga fyrir hverja einustu lagasetningu, eða hvort þeir nenni kannski ekki að pæla í öllum þessum lögum og langi frekar að gera eitthvað annað. Spyrja þeir sig þessara grundvallarspurninga þegar kemur að nýrri lagasetningu?

 

  1. Eru nýju lögin sanngjörn?
  2. Hvert er markmið þeirra?
  3. Eru þau líkleg til að ná tilsettum árangri?
  4. Gætu þau óvart verið einhverjum skaðleg? 
  5. Ef þau gætu verið skaðleg, getum við borið saman mögulegan skaða og mögulegt virði? 
Umræður um ný lög ættu að snúast um slíkar spurningar, kafa djúpt í málið. Ekki bara þrasa og síðan láta meirihluta þings ráða. Það hlýtur að vera mögulegt að komast að skynsamlegum niðurstöðum þegar kemur að lögum, án þess að tengja þau flokkspólitík. 
 
Vandinn við stjórnmálin er að stjórnmálamenn þurfa sífellt að hugsa um eigin stöðu innan flokksins. Segi þeir eða meti eitthvað sem ekki er í samræmi við flokkslínur, er það líklegt til að skapa óvild gagnvart persónu þeirra. Mótsögnin hérna er sú að hópur er líklegri til að ná árangri ef allir stefna að sama marki, en ef markmiðið gefur gagnrýnni hugsun ekkert svigrúm, þá eru litlar líkur á að vinnan verði á endanum til góðs.  
 
Markmið, hins vegar, sem gera ráð fyrir gagnrýnni hugsun, hvetja flokksmenn til að rannsaka og meta hvert mál á þeim forsendum sem málið stendur á, í stað þess að setja flokkslínuna sem forsendu, væri líklegra til árangurs en flest þau stjórnmálaöfl sem við upplifum í dag, þar sem nauðsynlegt virðist vera að slá fram hugmynd og standa við hana í gegnum þykkt og þunnt.
 
Mér líkaði við Borgarahreyfinguna þegar hún fyrst kom fram, því í grundvelli stendur hún fyrir gagnrýna hugsun. En ekki eitt ár leið eftir að fjórir meðlimir komust á þing, að á ársfundi samtakanna var reynt að koma flokkslínuhugsuninni inn í flokkinn. Þess vegna varð Hreyfingin til. Það er eins og íslensk stjórnmálahefð vinni gegn gagnrýnni hugsun, sjálfsagt án þess að átti sig á að hún geri það. Af þessum sökum grunar mig að flokkur sem nefnir sig "Samstaða" eða "Samfylking" standi illa, því að í nafni flokkanna felst veikleiki þeirra, að betra sé að standa saman heldur en að hugsa gagnrýnið um hvert mál. Sjálfstæðisflokkurinn hefur þó gott hugtak í heiti sínu, en virðist því miður ekki fylgja því eftir í reynd, heldur fellur í sömu gryfjuna, að fylgja flokkslínu, heldur en að kafa djúpt í sérhvert mál.
 
Þannig lítur þetta út frá mínu sjónarhorni.
 
Gagnrýnin hugsun krefst töluverðrar sjálfskoðunar af þeim sem ástundar hana. Sá sem heyrir nýja hugmynd gæti hugsað með sér "þetta hljómar vel", "þessi þingmaður flytur málið af sannfæringu", eða "þessi þingmaður er svo flottur að málið hlýtur að vera vel unnið", eða "hvílíkt hneyksli!" 
 
Gagnrýnin hugsun kemur ekki í veg fyrir þessa fyrstu tilfinningar, heldur krefst þess að við hugsum dýpra, að við metum ekki aðeins virði viðkomandi hugmyndar, heldur einnig virði okkar eigin gildisdóms á hugmyndunum. Við getum nefnilega haft rangt fyrir okkur, sama hversu hrifin eða hneyksluð við getum verið við fyrstu kynni. 
 
Með því að efast ekki aðeins um flokkslínuna, heldur einnig um okkar eigin persónulegu línu, og með því að rannsaka ekki aðeins báðar, heldur allar hliðar viðkomandi máls, þá stundum við gagnrýna hugsun. Ef okkur finnst eitthvað augljóslega rétt, og gefum sjálfum okkur ekki færi á að meta hvort okkar eigin dómur sé réttur eða rangur, þá stundum við ekki gagnrýna hugsun.
 
Það er nefnilega tvennt ólíkt: að vera gagnrýninn á andstæðar skoðanir, og að hugsa gagnrýnið.
 
Út frá þessu ætti að vera ljóst að hinn gagnrýni hugsuður þarf að hafa frjótt ímyndunarafl, til að ímynda sér ólíkar mögulegar aðstæður sem geta komið upp vegna lagasetningarinnar, verður að vera rökfastur, til að sjá útfyrir eigin skoðanir og gildisdóma, og þarf að geta endurmetið málið eftir að hafa öðlast þann skilning á málinu sem nauðsynlegur er.
 
Með því að hugsa á slíkan hátt, værum við ekki aðeins líkleg til að vera með eða á móti lagasetningunni, eða flokkinum sem flytur hana, heldur átta okkur á hvort hún sé góð eða slæm, og þá finna betri leiðir til að ná því markmiði sem lagasetningunni er ætlað.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kjarnyrtur og skynsamur vanda. 

Hannes Sigmarsson (IP-tala skráð) 29.7.2012 kl. 11:10

2 identicon

Ég gæti ekki verið meira sammála. Stóra vandamálið á Íslandi hefur lengi verið sú að pólitískir flokkar eru einráðir og stakir þingmenn sem voga sér útfyrir rammann eru útskúfaðir, burtséð frá því hvort þeirra málstaður er betri eða verri en flokksins sem þeir tilheyra. Svo virkar flokkakerfið þannig að það ver sig sjálft, þ.e. einstaklingar innan flokkanna sem fylgja flokkslínum fylgja sjálfkrafa með í kaupunum þegar kjósandi kýs flokkinn, þótt hann hafi í mörgum tilfellum í raun verið með annan eða aðra einstaklinga í huga innan þess flokks. Ef allir þingmenn okkar hefðu beitt gagnrýninni hugsun og reynt að skoða mál frá fleiri hliðum, þá hefðu þeir t.a.m. sennilega ekki ákveðið að láta íslenska ríkið greiða gleraugu, lækniskostnað og fleira fyrir sjálfa sig fyrir skömmu. Þá væru þeir líka örugglega búnir að skera niður að miklu leyti styrki til sinna eigin stjórnmálaflokka, svona allavega á meðan verið er að níðast á sjúklingum og gamalmennum vegna peningaleysis...

Högni Elfar Gylfason (IP-tala skráð) 29.7.2012 kl. 13:05

3 Smámynd: Sigurður Alfreð Herlufsen

Þakka þér fyrir pistilinn Hrannar.

Þú kemur inn á það mál sem ég þrái að sjá ástundað - gagnrýna sanngjarna málsmeðferð á hverju einasta máli!

Sigurður Alfreð Herlufsen, 29.7.2012 kl. 23:01

4 identicon

Ef í flokki; Fara þarf,
flókna leið í málum.
Éta muntu skít og sparð,
og selja fullt af sálum.

Jón bóndi (IP-tala skráð) 7.8.2012 kl. 17:22

5 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Jón bóndi. Þvílíkt ógnarskáld sem þú ert, "eða þannig" (herra IP-tala skráð)!

Þú færð ekki háa einkunn hjá mér fyrir að vera málnefnanlegur í þinni rökfærslu.

Þeir fela sitt nafn sem ekki þora að opinbera hversu skítlegt eðli þeir hafa í raun, og reyna að koma sök á aðra.

Gangi þér annars vel að dreifa málnefnanlegri umræðu í framtíðinni, Jón bóndi.

Ég bið almættið að hjálpa þér að vitkast, því það er ekki mikil manngæska né vit í svona skítkasti, og engum manni til sóma. Við verðum ekki betri en við gerum okkur sjálf.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 8.8.2012 kl. 20:14

6 identicon

Anna Sigríður Guðmundsdóttir eða þannig (frú IP-tala skráð)!

Er ekki allt í lagi heima hjá þér?

Hvaða skítkast sástu?

Vertu "málaefnaleg", það er nefnilega betra.

Jón bóndi (IP-tala skráð) 8.8.2012 kl. 23:06

7 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Jón bóndi (IP-tala skráð). Ég sá ekki neitt annað en sparð út úr þinni færslu, og það var ekki mjög lærdómsríkt né uppbyggilegt í umræðuna. Ekki veit ég á hvaða jötu þú ert, eða hvort þú hefur áhyggjur af heimilisaðstæðum mínum. Hefur þú hugsað þér að hjálpa mér ef ekki er allt í lagi heima hjá mér? Það væri þá göfugmannlega boðið. Það finnast enn alvöru "höfðingjar" á Íslandi "eða þannig".

Hafðu það annars sem best, hver sem þú ert, undir þínu stolna falska nafni. Passaðu bara að það opinberist ekki hver þú ert í raun, því það yrði vandræðalegt fyrir þig.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 9.8.2012 kl. 01:38

8 identicon

Anna Sigríður! Rosalega ertu eitthvað æst. Liggur bara við að manni þyki vænt um þig. Eru ekki öll nöfn stolin? Afhverju yrði það vandræðalegt? Það er útbreiddur misskilningur að fólk megi ekki hafa dulnefni. Aðalatriðið samt finnst mér er að vera ekki dónalegur. Mér finnst nú ekki dónalegt að skjóta smá á stjórnmálamenn. Þetta eru flest allt fyrrverandi fjölmiðlamenn. Sjónvarpsstjörnur og Blaðastrjörnur og miklar perónur að eigin áliti. Sjáðu bara þessa þætti þar sem stjórnandinn er aðalnúmerið yfirleitt. Þeir taka viðtöl við fólk sem kemst varla að til að tjá sig.

Jón bóndi (IP-tala skráð) 9.8.2012 kl. 12:25

9 identicon

Heyrðu Anna Sigríður!
Afhverju er lokað á vefinn þinn á blog.is?
Ertu eitthvað óþekk?

Jón bóndi (IP-tala skráð) 9.8.2012 kl. 14:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband