Greiðsluvandi heimila og velferðarráðuneytið: "Eru lánþegar bara fáfróðir vitleysingar?"

110% leiðin hljómaði vel í upphafi:

Að lán sem hvílir á heimili verði lækkað niður í 110% af fasteignamati. 

Þetta hljómar vel. Veruleikinn er annar. Allt annar.

Í fyrsta lagi, þá er þetta ekki jafn einfalt og það hljómar, því að lánveitandi (banki) hefur algjört vald um hvernig farið er í málið. Og lánveitendum er í sjálfvald sett hversu sanngjarnir þeir vilja vera.  Bankar hafa ekki reynst sanngjarnir lánveitendur og hafa ekki reynst trausts verðir síðasta áratuginn.

Í einum bankanum fór fram samræða, nokkurn veginn með þessum hætti:

 

Heimsókn í banka

Íbúðareigandi sem tók 100% lán 2005 og hefur séð lánið hækka um 50% á þessum tíma, kemur inn í útibú Íslandsbanka og óskar upplýsinga um 110% leiðina.

Lánþegi: "Halló, ég vil óska eftir 110% leiðinni. Hvað þýðir hún í raun og veru?"

Bankastarfsmaður: "Gjörðu svo vel og fáðu þér sæti. Jú, í fyrsta lagi þá þurfum við umsókn frá þér og maka þínum, auk allar mögulegar upplýsingar um fjárhag þinn og maka þíns."

LÞ: "Af hverju?"

BS: "Af því bara. Annars færðu umsóknina ekki afgreidda. Í öðru lagi þá fáum við mat frá fasteignamati ríkisins um verðmæti íbúðarinnar. Síðan fáum við okkar eigin matsaðila til að verðmeta raunverulegt verðmæti eignarinnar."

LÞ: "Bíddu nú aðeins. Ertu að segja mér að fasteignamatið sé ekki hið raunverulega mat?"

BS: "Já, við höfum samning við fasteignasala sem verðmeta eignina út frá öðrum forsendum, og síðan förum við eftir því mati."

LÞ: "Er það löglegt? Má ég fá mat frá öðrum fasteignasala?"

BS: "Við förum einungis eftir mati okkar eigin fasteignasala."

LÞ: "Hvað svo?"

BS: "Ofan á mat fasteignasala okkar, leggjum við 15%, sem er til að fá út 110% upphæðina. Ofan á það leggst síðan ýmis konar kostnaður."

LÞ: "Jahérna. Getið þið ekki bara tekið íbúðina mína og fellt niður lánið?"

BS: "Nei, við tökum aðeins yfir íbúðina þegar lánþegi er kominn í greiðsluþrot."

LÞ: "Og tekur þá bankinn yfir íbúðina og selur, en lánþeginn þarf að borga það sem stendur eftir að láninu?"

BS: "Nákvæmlega."

Lánþegi gengur út úr bankanum með óbragð í munni og ákveður að sækja ekki um 110% leiðina.

 

Ég skrifa þessa grein eftir að hafa lesið skýrslu frá velferðarráðuneytinu þar sem höfundur veltir fyrir sér af hverju 30% færri en áætlað var, ákváðu að fara 110% leiðina. Ég geri ráð fyrir að hluta svarsins sé að finna í þeirri köldu ósanngirni og vantrausti sem birtist í samtalinu hér fyrir ofan. 

Hér kemur hluti skýrslunnar sem vakti athygli mína. Ég merki þá kafla með grænu sem mér finnst athyglisverðir í þessu samhengi og skrifa svo skástrikaðar athugasemdir með.

 

Úr áfangaskýrslu velferðarvaktarinnar:

Vinnuhópur um fjárhagsvanda heimilanna lagði fram eftirfarandi niðurstöður og ábendingar:

  1. Umboðsmanni skuldara hafa borist 200–300 umsóknir um greiðsluaðlögun í hverjum mánuði síðastliðið hálft ár. Úrvinnsla greiðsluaðlögunarmála hefur gengið hægt og uppsöfnuðum málum hjá embættinu fjölgað hratt á liðnum mánuðum. Um 1.900 frjáls greiðsluaðlögunarmál eru óafgreidd en með fjölgun starfsmanna og betri vinnuferlum er talið að hraðar gangi að afgreiða mál en áður.
  2. Umsóknir um 110% leið stjórnvalda hafa verið mun færri en gert var ráð fyrir. Íbúðalánasjóði hafa borist um 2.750 umsóknir sem er um 30% þess sem áætlanir sjóðsins gerðu ráð fyrir og viðskiptabankarnir hafa móttekið um 1.300 umsóknir.
    HB: Ég reikna með að flestar umsóknir hafi farið til Landsbankans, þar sem spurst hefur út að þeir hafi í raun komið til móts við viðskiptavini sína.
  3. Sértækum skuldaaðlögunarmálum hefur fjölgað nokkuð frá því skilyrði voru rýmkuð í desember 2010 en eru þó enn mun færri en gert var ráð fyrir. Um 550 heimili hafa frá október 2009 gert samninga um sértæka skuldaaðlögun, þar af um 400 frá október 2010.
  4. Óvissa er enn um endurútreikning gengisbundinna lána en kæra vegna þeirra var send Eftirlitsstofnun EFTA í apríl síðastliðnum. Óljóst er hve langan tíma málsmeðferð tekur.
  5. Tilfinnanlega skortir miðlægan gagnagrunn um fjárhagsstöðu heimilanna þannig greina megi heildstætt fjárhagsstöðu og vanda heimilanna. Með fyrirliggjandi gögnum er einungis mögulegt að skoða stöðu og þróun frá einstaka aðilum og allar líkur á að talsverð skörun sé milli aðila þar sem margir fá lausnir hjá fleiri en einum aðila. Skortur á samkeyrslu upplýsinga veldur því að engu er hægt að slá föstu um hve mörg heimili eru í vanda eða hve margir hafa fengið úrlausn mála sinna.
    HB: Af hverju í ósköpunum er ekki löngu búið að stofna slíkan gagnagrunn? Eru þeir sem starfa að þessum málum bara að vinna í Word og Excel, en nota ekki upplýsingatæknina samkvæmt þörfum?
  6. Vanskil fara vaxandi og árangurslausum fjárnámum hefur fjölgað verulega á liðnum mánuðum.
    HB: Viðvörunarbjöllur hljóta að hljóma í þingsölum þegar þeir lesa þennan hluta skýrslunnar. Þetta er bara ein setning, en mikilvæg er hún. Málið er að verðtryggingin blæs upp skuldirnar hvort sem farið er 110% leið eða ekki. Það er ekki tekist á við rætur vandans, og eina ástæðan sem kemur mér til hugar er að þau öfl sem ráða í landinu eru grimm, eigingjörn og ómannúðleg með öllu.
  7. Út frá þeim gögnum sem vinnuhópurinn hefur aðgang að má álykta að mun færri heimili hafi nýtt sér úrræðin sem tiltæk eru en áætlanir gerðu ráð fyrir. Að óbreyttu er hætta á því að sá vandi sem þeim var ætlað að leysa sé enn að verulegum hluta óleystur. Ástæða er til að skoða hvort ekki sé rétt að lengja umsóknarfrest um 110% leiðina sem er að óbreyttu til 1. júlí næstkomandi41, en Íbúðalánasjóði er ekki heimilt að framlengja úrræðið án lagaheimildar. Auk þess ættu stjórnvöld að beita sér fyrir betri kynningu til almennings á þeim úrræðum sem í boði eru.
    HB: Það breytir engu að framlengja frestinn. 110% lausnin dugar ekki. Verðtrygging og okurvextir byrja strax að leggjast ofan á 110% lausnina, rétt eins og hún hefur gert við 100% lán. Fólk verður komið í sömu stöðu og áður innan árs.
  8. Úrræðin sem eru í boði eru mörg og flókin og erfitt er fyrir fólk að átta sig á hvað hentar og hvar eigi að sækja um. Sértæk skuldaaðlögun sem var sett fram sem heildarlausn fyrir yfirskuldsett heimili hefur reynst seinfarnari en ráð var fyrir gert. Þá virðist hópur fólks enn bíða eftir frekara útspili eða raunverulegri leiðréttingu hrunsins.
    HB: Þetta er rétt. Úrræðin eru það flókin að sérfræðingar bankanna geta túlkað þau og unnð bankanum í hag á kostnað lánþega. Það verður að stoppa snjóboltaáhrif verðtryggingarinnar og leita raunverulegrar leiðréttingar á ráni fjármálastofnanna úr vösum almennings gegnum okurvexti sem felast í vafasömum og hugsanlega ólöglegum útreikningum á hækkun höfuðstóls. Ég skil ekki hvernig 19 milljón króna lán til 40 ára getur orðið að 29 milljón króna skuld 5 árum síðar, þrátt fyrir að skil hafi verið staðin á láninu. Það að greitt sé inn á lán á að lækka höfuðstólinn. Annað er út í hött. En þannig er staðan í dag - höfuðstóll lána er enn að bólgna út, þökk sé verðtryggingunni og þeirri kúgun sem fólkið með svipuna beitir í hennar nafni.
  9. 110% leiðinni var ætlað að flýta aðlögun íbúðaskulda að verðmæti eigna. Ljóst er að umsóknir hafa verið mun færri en ráð var fyrir gert. Eftir því sem næst verður komist stafar þetta af ýmsum ástæðum, svo sem:
    HB: Ég geri grein fyrir einni ástæðunni efst í þessari grein. Þegar bankinn hefur vald til að nota eigin verðmat á íbúð og smyrja þannig ofan á mat ríkisins, býður það upp á misnotkun og ranglæti. Hver treystir þessum bönkum í dag?
  • Þeir sem eru mikið yfirskuldsettir eru gjarnan í miklum greiðsluvanda og þá dugar ekki 10% lækkun lána.
    HB: Sammála
  • Algengt er að fólk telji að 110% leiðin sé bundin við þá sem eru í greiðsluvanda og sækir því ekki um.
    HB: Ósammála að vandinn felist í vanþekkingu fólks á lausnum.
  • Nokkurs misskilnings hefur gætt um að afskriftir á lánum séu skattskyldar og að fólk lendi á vanskilaskrá í kjölfar niðurfærslu lána.
    HB: Ósammála að vandinn felist í vanþekkingu fólks á lausnum.
  • Neikvæð umfjöllun fjölmiðla á eflaust einnig einhvern þátt í því að ásókn í úrræðið hefur ekki verið meiri en raun ber vitni.
    HB: Ósammála að vandinn felist í vanþekkingu fólks á lausnum.

Það er eins og þeir sem stóðu að þessari rannsókn átti sig ekki á þeim óásættanlegu lausnum sem viðskiptabankarnir stjórna, og telji vanþekkingu hafa meiri áhrif á dómgreind manna, heldur en skynsemi og góð dómgreind. Ég held einmitt að flest fólk í þessari erfiðu stöðu hafi ágætis dómgreind, og sé þreytt á að heyra hvað stjórnvöld telja almenning vera heimskan og fáfróðan. Fólk vill lausn á þessum vanda, en stjórnvöld skella við skollaeyrum og hlusta ekki. Ég tel þann heimskan sem ekki vill hlusta. Ég tel þann heimskan sem telur sig vita allt, geta allt, og stjórna öllu betur en allir aðrir. Því miður er of mikið af slíku fólki við völd á Íslandi í dag. Þetta fólk þarf að læra að hlusta. Það þarf að læra auðmýkt. Það þarf að vinna með fólkinu, ekki á móti því.

     10. Rétt er að benda á í þessu sambandi að áætlanir um fjölda umsókna byggðust á hlutfalli lána af fasteignamati eigna en verðmat samkvæmt 110% leiðinni hefur reynst að meðaltali 10% hærri en fasteignamat.
HB: Þetta er kjarni málsins. Að meðaltali 10% hærri, sem þýðir sjálfsagt að sumir bankar höfðu verðmatið 0% hærra og aðrir kannski 20% hærra. Af hverju er ekki fylgst með slíkri hegðun? 10% af 20 milljónum eru 2 milljónir, þannig að þessi mismunur er engin smá upphæð. Til samanburður eru 20% af 20 milljónum 4 milljónir.

 

Að lokum

Með von um að stjórnvöld fari að vakna og að almenningi takist að vekja þau með virkri þátttöku í átaki Hagsmunasamtaka heimilanna. Skráðu þig til þátttöku hér.

(Ég vil taka fram að undirritaður er ekki tengdur neinum stjórnmálaflokki, og er fyrst og fremst rekinn áfram til að skrifa greinar sem þessar af sterkri réttlætiskennd og gremju vegna aðgerðarleysis stjórnvalda sem komst til valda með fögrum loforðum - en stendur ekki við neitt af því sem skiptir máli.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Tek heilshugar undir athugasemdir þínar. Málin er í raun enn í biðstöðu. Það vantar enn að taka á stökkbreytingu lána, það gengur ekki að setja lög sem brjóta síðan önnur lagaákvæði til þess eins að svína á lántakendum svo þeir borgi af enn hærri höfustóll með okurvöxtum! Það eru margir að bíða eftir niðurstöðu kærunnar til ESA svo dæmi sé tekið. Þangað til neitar stór hópur fólks að skrifa undir nýja samninga vegna gengislána. Gremjan er víða og réttlætiskennd almennings er stórlega misboðið. Hvet líka alla til að skrifa undir undirskriftasöfnun HH.

Jóna Ingibjörg Jónsdóttir (IP-tala skráð) 9.7.2011 kl. 12:03

2 identicon

Hæ,

það voru ekki 30% færri sem sóttu um heldur "...sem er um 30% þess sem áætlanir sjóðsins gerðu ráð fyrir"

kv/

Arnar (IP-tala skráð) 9.7.2011 kl. 20:23

3 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Þakka þennan pistil ,mjög svo fræðandi eins og allt sem þú skrifar/Kveðja

Haraldur Haraldsson, 10.7.2011 kl. 00:13

4 identicon

Ég held að málin skýrist aðeins þegar fólk áttar sig á því að þetta var prentvilla, Velferðarráðuneytið heitir í raun Helferðarráðuneyti.

Það er líklegast verið að bíða eftir því að allir fari úr landi, velkomin í kúbu norðursins.

Emil Emilsson (IP-tala skráð) 12.7.2011 kl. 13:46

5 Smámynd: Óskar Arnórsson

Algjörlega sammála þessum frábæra pistli.

Að sjálfsögðu eru lántakandur bara fáfróðir vitleysingar, í peningamálum. Og ég sjálfur er svo sannarlega einn af þeim.

Allt bankasýstemið byggir á þeirri staðreynd að hægt sé að rugla svoleiðis í fólki að hægt sé að stýra því eins og búfénaði á bændabýli. Og hafa gagn af því eins og beljum á bás.

Íslendingar eru sérlega illa á sig komnir hvað varðar heimsku, fáfræði og almennan aumingjaskap.

Og besta sönnuninn heitir verðtrygging sem hvergi þekkist í heiminum nema á Íslandi.

Í afríku þar sem ríkisstjórnir ræna fólkið án þess að nenna að senda því rukkanir áður og þvæla í fólki, heldur lætur vopnaðar sveitir hermanna og lögreglumanna sjá um ránin. Árangurinn er sá sami enn aðferðirnar eru öðruvísi.

Vandin felst ekki í vanþekkingu á lausnum, heldur botnlausri græðgi þeirra sem halda að þeir stjórni landinu, sérlega græðgi þeirra sem stjórna í leyni þeim sem við völdum til að stjórna.

Ísland er hugarfarslegt villimannaland og ekki hollt fyrir nokkurn barn að alast upp í þessu umhverfi sem landið býður upp á....enn Íslandi til afsökunar er að það eru enn til lönd sem hafa það verra, enn þeim fer óðum fækkandi í heiminum. 

Óskar Arnórsson, 15.7.2011 kl. 00:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband