Færsluflokkur: Trúmál og siðferði
Hvað er æra og hvernig er hægt að reisa hana upp?
11.7.2017 | 02:52
Undanfarið hefur mikið verið rætt um "uppreist æru", og lagalegan skilning þess hugtaks, en mig langar að velta fyrir mér raunverulegri merkingu hugtaksins í víðum skilningi heilbrigðar skynsemi frekar en hinum þrönga lagalega skilningi.
Í stuttu máli er lagalegi skilningurinn sá að uppreist æru getur afbrotamaður fengið sinni hann störfum þar sem skilyrði fyrir starfinu er 'hreinn skjöldur' eða 'óflekkað mannorð', eða algjörlega fyrirgefningu allra synda innan íslensks lagaramma, sem þýðir að þrátt fyrir fyrri afbrot getur viðkomandi starfað við lögvarin störf að nýju. Sjá nánar á Vísindavefnum.
Siðrof gæti hafa átt sér stað milli laga og siðferðis, þar sem að almennur skilningur á uppreist æru er sá að fyrst og fremst saklaus manneskja geti fengið mannorð sitt hreinsað, efir að hafa verið saklaus dæmd, á meðan lagaumhverfið og stjórnmál virðast líta á það sem mögulegt mannanna verk að hreinsa mannorðs manns sem hefur sannarlega brotið alvarlega af sér, án þess að viðkomandi sýni iðrun eða viðurkenni nokkurn tíma að hafa haft rangt við, þó að sannarlega sé það raunin.
Þegar manneskja sek um alvarlega glæpi fær uppreist æru þykir það ekki eðlilegt nema brotið hafi verið tæknilegt eða smávægileg mistök eins og ógreiddar stöðumælasektir, umferðabrot eins og að virða ekki stöðvunarskyldu eða vera ekki með bílbelti spennt, eða stolið brauðhleif til að seðja hungur, en þegar brotið hefur verið alvarlegt og manneskjan dæmd og reynst sek fyrir glæpi eins og stórþjófnað, kynferðisglæpi, morð, líkamsárás, og þar fram eftir götunum, þá ætti uppreist æru ekki að vera möguleg. Sumir glæpir eru það alvarlegir að mannorðið verður ekki hreinsað í náttúrulegum skilningi, sama þó það sé mögulegt í lagalegum skilningi.
Veltum aðeins fyrir okkur hugtakinu 'æru', það er samheiti yfir heiður eða mannorð, nokkuð sem við lærum af Hávamálum að sé nokkuð sem lifir lengur en nokkur manneskja. Ef við lifum lífinu þannig að við bætum heiminn og líf þeirra sem umgangast okkur án þess að brjóta gegn nokkrum manni, þá getur mannorð okkar lifað lengur en við, og í þessu samhengi sjálfsagt komið okkur í gott álit hjá hinum fornu guðum, en ef við lifum ærulausu lífi lendum við annars staðar en í náð hjá Þóri, Óðni og félögum, sjálfsagt gleymumst bara í einhverju eilífðar drullumalli.
Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama.
En orðstír
deyr aldregi
hveim er sér góðan getur.
Það sama er hægt að segja um kristið siðferði, að sá sem hefur gott mannorð á séns á nokkuð flottu eftirlífi, en sá sem hefur glatað mannorði sínu, æru eða heiðri fer rakleiðis til heljar þar sem þægindin eru engin.
Út frá sjónarhorni heilbrigðar skynsemi hlýtur hver sem er að sjá að ekkert mannlegt vald getur hreinsað æru manns sem brotið hefur alvarlega af sér, og eina leiðin fyrir slíka manneskju hljóti að vera að sýna djúpa iðrun, óska fyrirgefningar frá fórnarlömbum sínum og lifa lífinu ekki aðeins án þess að brjóta af sér, heldur verður viðkomandi að vinna sér inn fyrir endurreistri æru, fá samþykki þeirra sem brotið var gegn, og þá fyrst, hugsanlega, fengið hina lagalegu u æru.
Rætt hefur verið um fyrirgefningu þegar kemur að uppreist æru. Fyrirgefning er fyrst og fremst kristið hugtak, þar sem að manneskja sem hefur verið brotið gegn, hefur val um að hatast við afbrotamanninn og stefna á hefnd, eða fyrirgefa afbrotamanninum og öðlast þannig innri frið. Slíkri fyrirgefningu er ekki hægt að þvinga upp á fólk, slíkt kallast að þvinga eigin trúarskoðunum yfir á aðra, og er nokkuð sem heiðvirt fólk gerir ekki. Fyrirgefning er gott fyrirbæri, en aðeins ef hún er valin af þeim sem þurfti að þola brot.
En lykilatriðið hér sem enginn ætti að gleyma, er að lögin byggja á siðferði, en ekki öfugt. Lög sem byggja á öðru en því sem er siðferðilega réttlætanlegt, og þá með skýrum rökum og beitingu heilbrigðar skynsemi, flokkast sem ólög - og sé ég ekki betur en að lögin um uppreist æru eins og þau eru á Íslandi í dag, séu ólög sem þarf að breyta, enda varla nokkurn tíma hugsað eða ætlað þegar þessi lög voru skrifuð, að harðsvíraðir glæpamenn gætu fengið uppreist æru án þess að hafa áunnið sér hana á ný.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 02:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Er þetta sönn saga um goðatrú á Íslandi?
19.7.2013 | 04:44
Íslensku vinir: ég heyrði nokkuð skemmtilega sögu í morgun, sem ég á bágt með að trúa. Þetta var sagt á National Public Radio í Bandaríkjunum.
Trúmál og siðferði | Breytt 16.12.2014 kl. 08:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Vilja Sjálfstæðismenn frekar fylgja kristnum gildum en heilbrigðri skynsemi og gagnrýnni hugsun?
24.2.2013 | 07:28
Landsþing Sjálfstæðismanna hafnaði að breytingartillögu á þessum orðum: "Sjálfstæðisflokkurinn telur að kristin gildi séu þjóðinni til góðs nú sem aldrei fyrr og að hlúa beri að kirkju og trúarlífi. Sjálfstæðisflokkurinn vill standa vörð um þjóðkirkju Íslands samkvæmt stjórnarskrá. Landsfundur telur mikilvægt að ríkisvaldið standi full skil á félagsgjöldum (sóknargjöldum) þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga. Öll lagasetning skal ávallt taka mið af kristnum gildum og hefðum þegar það á við."
Þetta vekur upp ákveðnar spurningar.
Hvenær eiga kristin gildi og hefðir við þegar kemur að lagasetningu? Sjálfsagt á slíkt aldrei við í hugum fjölmargra þingmanna. Sjálfsagt á slíkt alltaf við í hugum annarra. Sem þýðir að setningin sem slík er jafn merkingarlaus og: "Þessi setning er ósönn". Samt hefur setningin tilgang. Hver ætli hann sé?
Þýðir þetta að trúlausir, öfgafullir vantrúarmenn, gyðingar, múslimar, hindúar, Búddatrúarmenn, goðatrúarmenn, frjálshyggjumenn, sérhagsmunavörslumenn og allir þeir sem taka ákvarðanir í lífi sínu og byggja á öðru en kristnum gildum eru ekki lengur gjaldgengir í Sjálfstæðisflokkinn?
Þurfa þeir að taka siðfræðipróf sem byggt er á kristinni trú, gildum og hefðum áður en þeir gegna ábyrgðarstöðum á þingi fyrir flokkinn? Það er nefnilega eitt að segjast miða við ákveðið siðferði og annað að fara eftir því. Það að lifa og taka ákvarðanir eftir ákveðnum gildum krefst djúprar þekkingar og visku.
Mæli með að íslenskir guðfræðingar og heimspekingar bjóði stjórnmálamönnum á námskeið um kristið siðferði, þar sem guðfræðingar skoða/ rannsaka kristin gildi út frá stjórnspeki, en heimspekingar skoði sambærileg gildi frá öðrum sjónarmiðum, til dæmis frá sjónarmiði heilbrigðrar skynsemi, gagnrýnnar hugsunar, skylduhugtakinu, nytjahyggju, trúleysi, ólíkum trúarbrögðum og sérstaklega hagsmunaöflum, - svo dæmi séu nefnd.
Hvernig verður þessu ákvæði fylgt eftir í verki?
Púkann í Don grunar að veruleikinn að baki slíkrar samþykktar hafi annað markmið en að rækta kristna trú, siði og hefðir og hafi meira að gera með umsjón sóknargjalda og söfnun atkvæða hjá þeim sem verja vilja hagsmuni kirkjunnar þjóna. Þetta gæti verið snjöll leið til að komast á atkvæðaspena gegnum Þjóðkirkjuna.
Sumir eru snillingar í að koma sér á spena.
Kristin gildi ráði við lagasetningu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál og siðferði | Breytt 16.12.2014 kl. 08:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Hvað er "Guð"?
22.10.2012 | 18:33
Þegar rætt er um trúarbrögð, á blogginu sem annars staðar, poppar upp orðið "Guð" öðru hverju. Ég hef tekið eftir að fólk skilur þetta hugtak á afar ólíkan hátt.
Sumir telja að verið sé að tala um einhvern mann með hvítt skegg í himnaríki sem fylgist náið með öllu sem gerist í hinu mannlega lífi. Aðrir telja að Guð sé huglægt fyrirbæri, skapað af mönnum, til að átta sig á tilverunni. Enn aðrir telja að Guð sé öll þau lögmál sem heimurinn fylgir eða öllum heiminum stjórnar, og í þeirri merkingu er Guð samt algjörlega afskiptalaus, fyrir utan að við finnum fyrir honum í fyrirbærum eins og þyngdaraflinu eða ljósi, og svo framvegis. Enn aðrir telja Guð vera alls ekki neitt, ekki til, ekkert; en virðast stundum ekki átta sig á hversu ofar okkar skilningi ekkertið getur verið.
En flestir virðast tengjast þessu hugtaki sterkum tilfinningaböndum. Af hverju er mér ráðgáta.
Svo eru það rifrildin sem skapast í kringum Guð. Einn hópurinn skilgreinir Guð á sinn eigin hátt, eða réttara sagt skilur "Guð" á sinn hátt og kærir sig ekki um neinar skilgreiningar þar sem einn skilningur lítur út fyrir að vera allur skilningur, og fullyrðir síðan að hann sé til. (Og þegar ég nota "hann" gæti "það" eða "hún" verið jafn réttmæt hugtök). Annar hópur skilgreinir Guð síðan á annan hátt, eða kærir sig ekki um skilgreiningar frekar en hinn hópurinn, og fullyrðir að hann sé ekki til, og geti ekki verið það.
Hvorugur hópurinn virðist átta sig á að stundum þegar við notum sama orðið, erum við að tala um alls ólík fyrirbæri. Svona misskilningur fer stigvaxandi, sérstaklega þegar annar hópurinn telur sig hafa algjörlega rétt fyrir sér og útilokað að annað sé mögulegt; og beitir kaldhæðni eða íroníu, vegna þess að sumir félagar fatta djókið, á meðan hinir gera það ekki. Oft gleymist að hundur þýðir eitt fyrir eina manneskju og eitthvað allt annað fyrir aðra manneskju, eftir því hvernig og hvort viðkomandi hafi kynnst hundi, og þá hvernig reynslan hafi verið.
Þannig verður til menningarheimur um þá sem eru inni og þá sem eru úti. Því miður virðist nauðsynlegt fyrir þá sem eru inni að skilgreina restina sem úti. Þá hópa vil ég skilgreina sem sértrúarhópa. Svo eru það aðrir hópar, sem vilja að allir séu meðtaldir, og vilja enga útiloka; en þessir hópar eiga á hættu að fá yfir sig flæði af háðsgusum og óvild fyrir að þvinga trú sinni yfir á annað fólk, fólk sem vill bara vera í friði; og þessa hópa vil ég kalla trúarbrögð.
Þegar þú lest orðið "Guð", hvað þýðir það í þínum huga?
Mynd: Sköpun Adams eftir Michelangelo
Trúmál og siðferði | Breytt 16.12.2014 kl. 08:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Hvenær er réttlætanlegt að leka trúnaðarupplýsingum?
15.10.2012 | 16:04
Sértrúarsöfnuður sem kannast ekki við að vera trúfélag, Vantrú, höfðaði mál gegn Bjarna Randveri, stundarkennara við Háskóla Íslands í guðfræði, og kærði kennarann til siðanefndar Háskóla Íslands. Vantrúarmenn sem meðal annars hafa heimsótt þessa bloggsíðu sem þú lest núna, eru duglegir að biðja um tilvísanir, en ekkert endilega rök, máli manna til stuðnings, og telja "vísindin" vera einhvers konar svarmaskínu, á meðan sannleikurinn um vísindin er sá að þar er meira um spurningar en svör, og kenningar en sannleik.
Vantrúarmenn höfðu skipulagt árásir á Bjarna á lokuðu spjallkerfi sínu, vegna þess að hann fjallaði um Vantrú í kennslustund án þeirra samþykkis. Um þetta mál má meðal annars lesa hérna. Athugasemdirnar eru sérstaklega áhugaverðar.
Í þessum spjallþræði af innri vef Vantrúar hafði meðal annars verið talað um að leggja í "heilagt stríð" gegn kennaranum, sem síðar var fylgt eftir með því að skrifa á árásargjarnan hátt um manninn á vefnum "vantru.is", auk þess að hann var kærður til siðanefndar Háskóla Íslands, sem í sjálfu sér er afar alvarlegt mál. Fátt er alvarlegra en að ráðast gegn orðspori og virðingu annarrar manneskju. Og þá er það sérstaklega alvarlegt ef í ljós kemur að ákæran var tilefnislaus.
Vantrúarmenn virðast lifa í slíkri villu að telja slíka árásargjarna hegðun það sama og gagnrýna hugsun. Rétt eins og ofsatrúaðir einstaklingar eigin trúfélaga telja sig ástunda sína trú, á meðan þeir vinna í raun gegn henni.
Einhver þeirra sem las eða tók þátt í umræðunni lak þessum spjallþræði af innri vef Vantrúar til kennarans. Sama hver sú manneskja var, þá á hún virðingu og heiður skilið fyrir uppljóstrunina.
Vantrúarmenn gagnrýna að Bjarni skuli hafa notað þessar upplýsingar sér til varnar, enda séu þær trúnaðarupplýsingar sem "stolið" var af þeirra trúnaðarsvæði.
Telja Vantrúarmenn þá leyndarhyggjuna sem slíka mikilvægari en sannleikann? Ef svo er, virðist Vantrú taka afstöðu gegn samtökum eins og "Wikileaks" og uppljóstrurum í fyrirtækjum og stofnunum sem koma upp um vafasama og skaðlega hegðun innan úr eigin herbúðum, og með leyndarhyggju þar sem almenningi er haldið fáfróðum á kostnað fámennrar klíku, eins og til dæmis skilyrðislausri bankaleynd, eða földum upplýsingum um skaðsemi reykinga sem var vísvitandi haldið frá neytendum af tóbaksfyrirtækjum. Dapurlegt skot í fótinn.
Vantrú þykist berjast gegn hindurvitnum og skipulögðum lygum trúarbragða, en í stefnu þess segir orðrétt á forsíðu þeirra: "Helsta markmið félagsins er að vinna gegn boðun hindurvitna í samfélaginu." Með þessari skipulögðu árás á eina manneskju hefur félagið sýnt að það stendur ekki fyrir skynsamlega umræðu og gagnrýna hugsun, þó svo að sumir einstaklingar innan félagsins geti verið af öðrum meiði.
Ber einstaklingi eitthvað annað en siðferðileg skylda til að láta vita af svona umræðu meðal félaga sinna? Væri kannski réttara að þegja og verða þannig samsekur öðrum félagsmönnum að glæpnum, ef við gerum ráð fyrir að einelti og skipulagt níð sé glæpur?
Mynd: Whistleblower eftir Goni Montes
Trúmál og siðferði | Breytt 16.12.2014 kl. 08:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (117)
Hvað er guðstrú?
26.6.2012 | 10:48
Frá mínu takmarkaða sjónarhorni get ég ekki betur séð en að guðstrú sé val.
Ekki allar forsendur eru gefnar í slíku vali, frekar en þegar fyrsta manneskjan ákvað að drekka mjólk. Munurinn er sá að þegar valið hefur verið tekið, þá skekkist dómgreind mannsins að því leiti að heimurinn umhverfist í annað hvort eitthvað guðlegt, eða eitthvað óguðlegt (fyrir þá sem trúa að guðstrú sé ill). Þeir sem velja ekki, hanga hins vegar í einhvers konar limbói, og líta sjálfsagt út sem tvístígandi álfar frá sjónarhóli þeirra sem hafa valið, já eða nei.
Val á hvort að einhver vitur vera, eða einhvers konar viska, sé að baki allri sköpun og lífi, og þar af leiðandi hafi mannlífið markmið óháð því hvort við sjálf sköpum það eða ekki. Slík trú getur leitt til óskapa í lífi einstaklings sem heldur að hann lifi í hinum besta hugsanlega heimi og að ekkert sem hann geri hafi nokkuð að segja í hans eigin örlagasögu.
Hins vegar getur valið einnig leitt til þess að viðkomandi sjái tilgang með því að lifa sínu lífi, vinna sína vinnu, og stefna að betra mannlífi fyrir sjálfan sig og alla þá sem einhvern veginn tengjast viðkomandi. Og viðkomandi getur einnig séð út fyrir mikilvægi eigin lífs, og metið að heildin hafi meira gildi en hlutinn.
Þeir sem velja að hafna guðstrú algjörlega halda einfaldlega fram að það sé engin vitur eða greind vera sem hafi skapað heiminn, heldur sé allt tilviljunum háð. Sú manneskja leitar sjálfsagt eftir algjöru frelsi. Að hindurvitni séu ekki að trufla líf hennar. Slík manneskja getur haft allt á hornum sér og farið hamförum á bloggsíðum gegn þeim sem einhverjum trúa, en virðast ekki hafa rödd í raunverulegu lífi, af einhverjum ástæðum - hefur enga rödd eða samstöðu. Pirringur slíkrar manneskju er skiljanlegur, en hefur að grundvallarforsendu þann skort á auðmýkt að aðrir geti haft rétt fyrir sér, sama hvernig þeir ákváðu þeirra val.
Svo eru sumir sem hafna því að velja með eða á móti, og leita visku í mannlífinu, náttúrunni og sjálfum sér.
Trúmál og siðferði | Breytt 16.12.2014 kl. 09:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (154)
Eiríkur Ingi Jóhannsson: takk!
2.2.2012 | 17:45
Um viðtalið við Eirík Inga í Kastljósi. Aðdáunarverð frásögn af sorglegum atburði.
Takk fyrir gjöfina þína til okkar allra. Frásögn af hugrekki, samkennd og sjálfsbjörgunarhvöt.
Ég samhryggist í sorg þinni.
Þitt stóra hjarta er innblástur öllum þeim sem hafa þurft að berjast í ölduróti heimsins síðustu ár, reynt að synda í ljós þyrlunnar og gera sig sýnilega, í örvæntingarfullri leit að björgun, og þú sýnir í eitt skipti fyrir öll af hverju ekkert okkar á nokkurn tíma að gefast upp.
Kærar þakkir!
Trúmál og siðferði | Breytt 16.12.2014 kl. 18:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Getur nokkur manneskja lifað án trúar?
2.1.2012 | 18:19
Voldemort spyr: "Af hverju lifir þú?"
Harry Potter svarar: "Því að ég hef eitthvað til að lifa fyrir."
Ef þú hefur nokkurn tíma spurt sjálfan þig spurningarinnar, "Af hverju lifi ég?" eða "Hver er tilgangur lífs míns?" þá hefurðu vonandi áttað þig á að hlutirnir eru ekki eins einfaldir og þeir líta út fyrir að vera við fyrstu sýn, eða fyrsta hugsaða svar, eða fyrstu tilfinningu eða skoðun sem á þig leitar.
Það hættulega við slíkar spurningar er að svara þeim of fljótt. Annað svarið felst í að fallast á allar skýringar trúarbragða alltof fljótt, hitt svarið felst i að hafna öllum skýringum trúarbragða alltof fljótt. Að festa skoðun eða trú án þess að vita betur er ein helsta uppspretta fordóma sem geta eyðilagt manns eigið líf, og hugsanlega einhverra sem þú umgengst í lífinu líka.
Líf manneskju sem engu trúir er á svipuðu stigi og dýrs, finnur sér engan tilgang, því um leið og hún hefur fundið tilgang, trúir hún. Þannig má í raun segja að þeir sem trúa ekki, hafi engan boðskap að flytja annan en þá skoðun að manneskjur séu ekkert annað en dýr; að hin mannlega sál sé ekki til, sem er að sjálfsögðu trú, og hugsanlega aðeins trú sem getur komið frá mannlegri sál.
Þannig eru þeir sem boða trúleysi trúaðir á að betra sé að trúa ekki. Trúleysi er hugsanlega aðeins verri fordómur en þeirra sem trúa um of, þar sem í það minnsta hafa þeir sem trúa um of einhverja von, hvort sem hún er fölsk eða sönn. Hinir sem engu trúa hafa enga von.
Af hverju lifir þú?
Mynd: Úr kvikmyndinni Harry Potter and the Deathly Hallows, Part II
Trúmál og siðferði | Breytt 16.12.2014 kl. 18:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (107)
Hver er stefna Richard Dawkins?
30.12.2011 | 10:35
Þessi litla pæling varð til þegar í einhverjum athugasemdum við grein gærdagsins, Vantrú án gagnrýnnar hugsunar? var rætt um Richard Dawkins, en hann virðist vera ein af höfuð fyrirmyndum þeirra sem ekki vilja ganga veg trúarbragða.
Stofnun Richard Dawkins hefur eftirfarandi stefnu, og geri ég ráð fyrir að hann sjálfur fylgi sömu stefni í verki og riti:
"Stefna Skynsemis- og vísindastofnunar Richard Dawkins er að styðja við vísindalega menntun, gagnrýna hugsun og skilning á heiminum sem byggir á gagnreyndum með það markmið í huga að yfirbuga bókstafstrú, hindurvitni, skort á umburðarlyndi og þjáningu."
Þessu er ég öllu sammála. Hins vegar er þetta hugsanlega ekki jafn augljóst og lítur út við fyrstu sýn.
Stóru spurningarnar snúast um hvað þessi fyrirbæri eru, sem og spurningar eins og:
- Er skilningur á heiminum sem byggir á staðreyndum, staðreynd í sjálfri sér? Er hægt að trúa um of á mikilvægi staðreynda? Er til einhver staðreynd sem er 100% áreiðanleg og það sönn að ekki er hægt að efast um sannleiksgildi hennar?
- Er gagnrýnin hugsun eitthvað meira en að kryfja dauð hugtök? Hvað er það sem gerir gagnrýna hugsun svona mikilvæga? Gæti heimurinn verið betri án gagnrýnnar hugsunar?
- Snýst vísindaleg menntun um að aðferðir við menntun séu vísindalegar eða að innihald vísinda snúi fyrst og fremst að vísindum frekar en trúarbrögðum?
- Hvað er það sem gerir staðreyndir að mikilvægustu forsendum fyrir skilningi á heiminum? Getur djúpur skilningur á heiminum ekki verið betri forsenda fyrir skilningi á heiminum heldur en staðreyndir sem hafa lítið að segja þegar kemur að mannlegum innri veruleika?
- Hver er munurinn á bókstafstrú og trúarbrögðum? Eru öll trúarbrögð bókstafstrú? Eru sum trúarbrögð hættulegri en önnur, eða er sum bókstafstrú hættulegri en önnur bókstafstrú?
- Hvaðan koma hindurvitni? Er hægt að koma í veg fyrir hindurvitni með því að nota rökvillur, fara með ósannindi og hæðast að "andstæðingum" eigin skoðana?
- Hver er munurinn á að sýna umburðarlyndi gagnvart manneskjum annars vegar, trú þeirra hins vegar og síðan boðaðri trú trúfélags?
- Hvernig tengjast mannlegar þjáningar trú og trúleysi? Væri minna um mannlega þjáningu án trúarbragða? Eða væri kannski meira um mannlega þjáningu án trúarbragða?
Heimilidir:
Kærar þakkir fær Tryggvi Thayer fyrir uppbyggilega gagnrýni, en hann bendi á í athugasemdakerfinu að ég þýddi "evidence-based" rangt sem "byggt á staðreyndum", á meðan að sjálfsögðu er meint með "byggt á sönnunargögnum", og kenndi hann mér hið ágæta orð "gagnreynd" til að lýsa því hugtaki. Ég hef breytt þýðingu á skilgreiningu í samræmi við þessa betrumbót, en hef þó ekki breytt spurningunum, sem vissulega fá á sig ólíka merkingu þegar annars vegar er verið að tala um staðreyndir og hins vegar gögn.
Trúmál og siðferði | Breytt 16.12.2014 kl. 18:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (56)
Vantrú án gagnrýnnar hugsunar?
29.12.2011 | 00:19
Miðað við framgöngu talsmanna félagsins Vantrúar síðustu misserin gagnvart heiðvirðu og vel gefnu fólki með sterka siðferðisvitund, réttlætiskennd og gagnrýnið viðmót, er ég farinn að velta fyrir mér hvort að félagarnir séu hvorki raunverulegir guðleysingjar né vantrúarfólk sem vilja rannsaka heiminn á gagnrýninn hátt út frá vísindalegum og fræðilegum forsendum, heldur plat rétttrúnaðarhópur, á svipaðri línu og talíbanar, sem telur sig vita hluti sem enginn veit.
Þar virðist skorta auðmýkt, hógværð, kurteisi og undrun fræðimannsins.
"Á þann hátt er ég þeim sem þykjast vita alla skapaða hluti vitrari, að ég þykist ekki vita það sem ég ekki veit." - Sókrates
Calvin & Hobbes teiknimynd: Unscrewing the inscrutable: I'm not angry, I just don't agree with you.
Trúmál og siðferði | Breytt 16.12.2014 kl. 18:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (70)