Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Hvernig væri heimur án trúarbragða?

duty_calls

Ímyndum okkur heim þar sem enginn trúir á Guð, sálarheim handan þessa heims, eða því að lífið hafi æðri tilgang en þann sem hver einstaklingur skapar sér.

Trúarbrögð bjóða upp á átakasögur milli hins góða og illa, reyna að móta veginn til hins góða fyrir sérhvert barn í trúfélaginu og reyna að stýra því frá hinu illa. Þannig verða trúarbrögð að einhvers konar samfélagslegu öryggisneti fyrir sálarlíf einstaklinga. Þetta net tryggir að viðkomandi verði í samskiptum við fólk sem trúir því sama, og verði líklegri til að leita hins góða í heimi þeirra trúarbragða sem viðkomandi ástundar.

Ég hef ekkert á móti þessu.

Svo eru það hinir trúlausu. Þeir telja skipulögð trúarbrögð vera byggð á hindurvitnum, eða sögum sem hafa ekkert að segja þegar kemur að hinum hversdagslega veruleika og þeim sannleika sem vísindalegar rannsóknir halda fram um heiminn, að sérhver kenning sé fallvölt og sé í eðli sínu röng sé hún ekki mögulega röng í hugum þeirra sem trúir henni. Í heimi vísinda er hið fullkomna og óendanlega ekki til.

Ég hef ekkert á móti þessu heldur.

En lífið heldur áfram. Það eru 8 milljarðir manneskja á þessari Jörð sem þurfa einhvern veginn að lifa saman, helst í sátt og samlyndi, en oft brjótast út átök, ófriður og jafnvel styrjaldir. Hinir trúlausu kenna oft trúarbrögðum um þessi átök, en trúaðir leita dýpra.

Í þessum suðupotti sem jörðin er, hljóta að verða átök, sama hvort fólk trúir á einhverja yfirnáttúru eða ekki. Reyndar er nákvæmlega jafn líklegt að átök rísi meðal hinna trúlausu og hinna trúuðu. Kommúnismi Leníns reyndi að bæla niður öll trúarbrögð í Sovétríkjunum, gerði vantrú að lögum; nokkuð líkt því þegar Ólafur Tryggvason neyddi þá sem trúðu á goð eða ekki neitt til að verða kristnir, eða réttdræpir. Afleiðingarnar voru þeir að fólk fór að ástunda trú sína í leyni. Á síðustu öld neyddist fólk í fjölda landa Evrópu og Asíu til að fela sína trú vegna ofsóknar vantrúarmanna. Mörg árhundruð hafa vantrúaðir þurft að fela vantrú sína vegna ofsókna trúaðra.

Þetta virðast vera tvær hliðar á tuttugu hliða teningi.

Það er flott þegar fólk trúir á eitthvað sem er þeim æðra, á eitthvað sem þekkingarfræði vísinda getur ekki snert, og reynir ekki að snerta. Ástæðan er sú að í trúarbrögðum finnur fjöldinn oft á tíðum visku sem gerir þeim fært að lifa í sátt og samlyndi.  Það er líka flott þegar fólk hefur enga þörf fyrir trúarbrögð og lifir samkvæmt þeirri sannfæringu.

Það sem er hins vegar pirrandi er þegar fólk úr öðrum hópnum reynir að sannfæra hina um að þeir hafi rangt fyrir sér, annað hvort með ofsatrú á rök, eins og þau hinstu rök séu byggð á einhverju öðru en trú, eða með trúarbókstöfum. Hvorugt er virkilega sannfærandi. 

Það væri best í þeim heimi sem ég bý í að fólk fengi að vera trúað eða trúlaust í friði. Það er það sem trúfrelsi snýst um. Þá finnst mér allt í lagi að trúaðir og trúlausir haldi fram sínum boðskap og að fólk læri um hann, og móti sér sínar eigin skoðanir um heiminn. 

 Það að þola ekki einhvern annan fyrir að vera svolítið öðruvísi en maður er sjálfur er svolítið eins og að vera upptekinn af því þegar einhver vogar sér að vera á ólíkri skoðun einhvers staðar í netheimum.

Annars langar mig að ljúka þessari hugleiðingu á pælingu frá manni sem virðist hafa áttað sig á samfélagslegu mikilvægi trúarbragða, sem ópíum fyrir fjöldann:

 

"Trúarleg streita er í sömu mund tjáning raunverulegrar streitu og mótmæli gegn raunverulegri streitu. Trúarbrögð eru andvarp hinnar kúguðu skepnu, hjartað í miskunnarlausum heimi, rétt eins og þau eru andinn í andlausum aðstæðum. Þau eru ópíum fyrir fólkið. Gjöreyðing trúarbragða sem tálsýn hamingju fyrir fólkið er nauðsynleg til að það geti öðlast raunverulega hamingju. Krafan um að hafna tálsýn um ástand þess er sú krafa að hafna ástandi sem krefst tálsýna." Karl Marx

 

Svarið við spurningunni um hvernig heimurinn væri án trúarbragða, væri sjálfsagt í líkindum við ef spyrt væri hvernig hátíðarmatur væri án hátíðar, eða hvernig rauðvín braðgðist án berja, eða hvernig mexíkóskur matur bragðaðist án kryddjurta. Heimurinn væri sjálfsagt fátækari og bragðdaufari.


Trúir þú á upprisu andans og eilíft líf?

Við heyrum sögu af manni sem hélt fyrirlestra um mannlegan kærleik og fyrirgefningu, og hélt því fram að allar manneskjur væru börn Guðs. Þar sem að hann telur allar manneskjur vera börn Guðs, álykta guðfræðingar þess tíma að maðurinn sé í raun að kalla sjálfan sig son Guðs. 

Það er erfitt að festa hendur á hvað "Guð" þýðir. Ólík trúarbrögð túlka það hugtak á ólíkan hátt, og jafnvel ólíkir angar trúarbragða eiga erfitt með að negla það niður. Einnig reyna trúlausir að negla hugtakið á kross, en tekst misjafnlega vel. Sjálfur tel ég Guð vera hið góða í mannkyninu, öll þau andans verk sem lifa af okkar jarðneska líf.

Þess fyrirlesari er handsamaður eftir að vinur hans uppljóstrar um hvar hann er staddur. Þessi vinur hans sér um fjármál námsmana og fyrirlesararans og tekur virkan þátt í skipulagningu næstu funda. Það má segja að þetta hafi verið farandskóli. Auðvitað er vinurinn, Júdas, sakaður um að hafa svikið fyrirlesarann, þó að honum hafi tekist með upplýsingagjöfinni að auka tekjur hópsins. Ekki fylgir sögunni að auðvitað voru þetta varla leynilegar upplýsingar, því maðurinn hélt opna fyrirlestra daglega, og því auðsótt mál að handsama manninn á einum slíkum.

Hvað um það.

Fyrirlesarinn er ákærður fyrir að villa á sér heimildir, fyrir að þykjast vera sonur Guðs. Rómversk stjórnvöld sjá ekki hvað er svona alvarlegt við þetta og vilja ekki ákæra. Hins vegar heimtar hópur ofsatrúarmanna blóð þessa manns, þar sem að orð hans jafnast á við guðlast. Stjórnvöld ákveða að leyfa almenningi að velja og haldin er svona takmörkuð þjóðaratkvæðagreiðsla, þar sem ákveðið er að krossfesta fyrirlesarann.

Fyrirlesarinn er nú hæddur. Hann er pyntaður. Fólk kastar í hann grjóti þar sem hann staulast eftir götu í fylgd hermanna á meðan hann dregur stóran krossvið á eftir sér. Fyrir hugmyndir sínar hefur maðurinn verið fordæmdur eins og ótýndur glæpamaður, sem á ekkert betra skilið en að deyja kvalarfullum dauðdaga. 

Fyrirlesarinn er negldur fastur á krossinn og deyr hann þar. Nemendur hans, móðir og aðrir vinir fylgjast með. Þau vita að hann er drengur góður sem engum hefur gert neitt mein. Þeim finnst þetta óréttlátt og vilja bjarga manninum, en geta það ekki þar sem hans er gætt af rómverskum vörðum. 

Fyrirlesarinn deyr. Hann er jarðaður. Sorgin er gríðarleg meðal vina hans, sem ákveða að minnast hans með því að setja líf hans og boðskap í ramma frásagnar. Þeim tekst þetta með því að krydda söguna hressilega svo að eftir verður tekið. Sumir hneykslast á sögunum því þær eru svo ótrúlegar. Þeir fatta ekki að sagan er rammi utan um boðskapinn, og ramminn er til þess eins að festa boðskapinn upp á vegg og hafa til sýnis. Þegar þú gagnrýnir listaverk, missirðu algjörlega marks þegar þú gagnrýnir rammann frekar en verkið sjált. Og verkið í þessu tilfelli er boðskapurinn sem felst í fyrirlestrunum.

Upp úr stendur að fyrirlestrarnir gleymast ekki.

Það er hin raunverulega upprisa. Ekki það að fyrirlesarinn vaknaði frá dauðum og fór að ganga meðal fólks og flaug síðan til himna. Það er bara sagan um söguna. Heldur er það andi fyrirlestrana sem lifir áfram, fyrirlestra sem fjölluðu um hvernig betra sé að lifa lífinu með fyrirgefningu sem grundvallarhugtak, frekar en reiði, hefnd eða blóðþorsta. Því með fyrirgefningu, sama hversu hörmulegt lífið getur verið, þá er alltaf von að hægt verði að hreinsa til og byrja upp á nýtt. Með fyrirgefningu eru skuldir murkaðar út, í stað þess að láta þær magnist upp og endi í blóðugum átökum. Með fyrirgefningu þarf ekki að hefna, og jafnvel ekki alltaf að borga allt til baka, né þarf að elta fólk í gröfina með ófullkomnum gjaldþrotalögum.

Fyrirlesarinn talaði um nýja leið til að takast á við lífið og tilveruna. Fyrir það var hann fordæmdur af samtíðarmönnum sínum. Hann er einnig fordæmdur af ýmsum nútímamönnum. Málið er að upp úr boðskapnum urðu til öll þessi trúarbrögð og allar þessar kenningar um hvernig best sé að túlka boðskapinn, og smám saman verða þessi trúfélög að samfélagsafli sem vill þvinga boðskapinn yfir á alla meðlimi samfélagsins. Svoleiðis hegðun er bara pirrandi og er í sjálfu sér í mótsögn við boðskapinn sjálfan. En hvað er hægt að gera? Það er erfitt að bæði halda og sleppa.

En ég spyr: hvaða leið er betri til að lifa lífinu heldur en með fyrirgefningu sem grundvallarhugtak? Viljum við endalaust erfa það ef einhver hefur sært okkur, viljum við endalaust vera ósátt við það sem er ósanngjarnt og ranglátt? Er eina leiðin til að jafna ranglæti að framkvæma ranglæti á öðrum?

Ég þykist ekki vera kristinn og þykist ekki heldur ekki vera kristinn. Hins vegar hef ég þessa lífsskoðun og er tilbúinn að endurskoða hana þegar betri rök bjóðast um hvernig hægt er að lifa lífinu vel. Rökin þurfa að vera djúp og benda á betri leiðir. Þá finnst mér ekki nóg ef rökin snúist aðeins um hvernig lifa skuli eigin lífi til að vera sáttur við tilveruna, heldur þurfa þau einnig að hafa raunveruleg samfélagsleg gildi. Slík kenning þyrfti að ná yfir meira svið en einstaklinginn og innsta fjölskyldukjarna, hún þyrfti að ná yfir mannlegt samfélag um víða veröld.

Þér er velkomið að skrifa athugasemdir og gagnrýna þennan hluta af minni lífsskoðun. Ég mun hlusta á þig, þó að mögulegt sé að ég svari ekki öllum athugasemdum, enda hef ég minn eigin píslarakstur í dag á Nissan Micra frá 1999 og verð ekki með netsamband aftur fyrr en á þriðjudag.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband