Færsluflokkur: Bloggar

Hvernig má bæta íslenska stjórnmálaumræðu?

Það þarf ekki mikið.

  1. Stjórnmálamenn þurfa að meina það sem þeir segja.
  2. Stjórnmálamenn þurfa að hlusta á það sem aðrir segja.
  3. Stjórnmálamenn skulu ekki vera í mótsögn við sjálfa sig.
  4. Stjórnmálamann skulu standa við bæði litlu og stóru orðin.

Þá getum við byrjað að tala saman.


Megum við krefjast heilbrigðrar skynsemi? (Myndbönd)

Laugardaginn 30. október ætlar satýristinn Jon Stewart að leiða kröfugöngu í Washington þar sem krafist verður heilbrigðrar skynsemi. Stewart telur að rödd hinnar venjulegu manneskju heyrist ekki vegna öfgahópa og ýktra upphrópana. Hann telur fáránleikann í sundrungu vinstri og hægri stjórnmála ekkert annað en geðveiki. Ég er honum sammála.

Af hverju ekki að krefjast heilbrigðrar skynsemi í kröfugöngu, þar sem engar öfgar eru leyfðar, engar upphrópanir sem ráðast að persónum? Uppástungur um skilti í kröfugöngunni gætu verið þannig:

  1. Ég er þér ósammála en tel þig samt ekki vera Hitler, Stalín og mömmur þeirra!
  2. Heimili landsins þurfa ekki á ykkur að halda. Þið þurfið á þeim að halda.
  3. Er "Helvítis fokkin fokk" íslenska?
  4. Óhæf ríkisstjórn, farið á námskeið!
  5. Eigum við að velta þessu fyrir okkur saman?
  6. Hvar er Skjaldborgin? Svar óskast ekki.
  7. Má ljúga?
  8. Hvernig væri að spjalla saman yfir kaffibolla?
  9. Hættið að rífast, ræðið saman eins og manneskjur. Líka við mig.
  10. Þegar þú ferð í ræðustól, hvort er mikilvægara, ímynd þín eða skynsamlegar leiðir?

Vinstri og hægri stjórnmál virðast frá mínu sjónarhorni aðeins eiga heima á hæli fyrir fólk með mikilmennskubrjálæði. Betra væri að setja markmið án þess að rífast, velta fyrir sér erfiðleikum á leið að þessum markmiðum, finna síðan lausnir og leysa málin skynsamlega.

Svoleiðis er gert í öllum vel reknum fyrirtækjum og á traustum heimilum. Af hverju ekki á Alþingi?


Hver er konan? (Ekki sú sem þú heldur)

Hún varð forsætisráðherra, fyrst kvenna í sínu landi, árið 2009. Hún hefur barist af miklum krafti ásamt fjármálaráðherra við að hreinsa spillingaröfl úr stjórnkerfinu. Fyrrum forsætisráðherra og helstu samstarfsmenn hans hafa verið ákærðir fyrir landráð, og fyrir vikið reynir hann að ná aftur völdum með öllum tiltækum ráðum.

Töluverður fjöldi auðmanna, spilltra embættismanna og stjórnmálamanna hefur verið dæmdur í fangelsi fyrir svik og landráð og sitja nú inni!

Almenningur í landi hennar er þakklátur fyrir hugrekki hennar og ötula vinnu, þrátt fyrir erfiða kreppu. Hún hefur fengið líflátshótanir, en í stað þess að byrgja sig af, hefur hún fækkað lífvörðum og gengur frjáls um götur borgar sinnar, því hún hefur unnið sér inn mikla virðingu fyrir verk sín, framkomu og heiðarleika.

Hver er konan?

Nei, þetta er ekki Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrum vonarstjarna og núverandi forsætisráðherra Íslands, þó að þetta sé í hnotskurn það sem almenningur vænti frá henni, heldur Jadranka Kosor, forsætisráðherra Króatíu.

Jadranka er alvöru ráðamaður, annað en forsætisráðherra Íslands, sem aðeins er stjórnmálamaður.

120px-Jadranka_Kosor_2009_crop


Eru tillögur Hreyfingarinnar um neyðarlög skynsamlegar?

 Tillögur Hreyfingarinnar:

  • Ákvæði um að höfuðstóll húsnæðislána heimila verði tafarlaust leiðréttur með því að færa vísitölu verðtryggingar fram fyrir hrun bankakerfisins, til 31. desember 2007, og hækkanir höfuðstóls og afborganir húsnæðislána til samræmis við það.
  • Vísitala til verðtryggingar verði færð aftur til 1. janúar 2008 og lánið uppreiknað miðað við efri vikmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabanka Íslands, allt að 4%. Samningsvextir gildi.
  • Mælt verði fyrir um að hægt verði að fresta afborgunum húsnæðislána um allt að tvö ár með lengingu lánstíma sem nemur því.
  • Þá verði kveðið á um að skuldabyrði heimila vegna gengistryggðra íbúðalána og annarra lána sem kölluð hafa verið erlend lán eða myntkörfulán verði leiðrétt í samræmi við leiðréttingu verðtryggðra íbúðalána. Hið sama gildi um óverðtryggð íbúðalán.
  • Í kjölfarið verði stefnt að því að afnema verðtryggingu í þrepum og skal miðað við að hún verði afnumin með öllu fyrir árslok 2011. Þó verði ríkissjóði heimilt að gefa út verðtryggð skuldabréf að lágmarki til 25 ára.
  • Kveðið verði á um það í frumvarpinu að kröfur fyrnist að hámarki að tveimur árum liðnum frá lokum gjaldþrotaskipta og að ekki verði hægt að halda kröfum við lengur en sem þeim tíma nemur.
  • Að beiðni gerðarþola verði nauðungarsölu á íbúðarhúsnæði frestað til 1. júní 2011 og allar nauðungarsölur sem farið hafa fram á grundvelli ólögmætra krafna látnar ganga til baka.
  • Þá verði óheimilt samkvæmt frumvarpinu að láta bera nokkurn mann úr íbúð sinni nema að fenginni staðfestingu sveitarfélags á að viðkomanda sé tryggt viðunandi húsnæði og lágmarksframfærsla samkvæmt nýjum opinberum og samræmdum framfærsluviðmiðum.
  • Skilgreina skal opinber og samræmd lágmarksframfærsluviðmið fyrir 31. desember 2010.

Þetta eru að mínu mati skynsamlegar hugmyndir. Þær ganga nákvæmlega jafn langt og þörf er fyrir. Ný frumvörp ríkisstjórnarinnar eru ágæt, en ganga ekki alveg nógu langt til að koma í veg fyrir gjaldþrot, - þau eru hins vegar ágæt fyrir þá sem eru á leið í gjaldþrot.

Ég trúi ekki þeim hræðsluáróðri sem er í gangi um að þetta muni kosta lífeyrissjóðina svo mikið að aldraðir og öryrkjar tapi næstum öllu sínu. Hins vegar myndi þetta kosta mikið þá sem treysta á að eignast aukapening á kostnað skuldugra heimila. Það eru þeir sem stjórna Íslandi á bak við tjöldin og munu sjálfsagt koma í veg fyrir að þetta frumvarp verði samþykkt með einum eða öðrum hætti.


mbl.is Hreyfingin vill setja neyðarlög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru stökkbreyttar skuldir ímyndun bankanna? (Myndband)

Sama þó að fólk borgi reglulega af skuldum sínum í hverjum mánuði hækkar höfuðstóllinn stöðugt. Í Bandaríkjunum er staðan ekki ósvipuð því sem Íslendingar eru að upplifa. Bankar selja eignir ofan af fólki, henda þeim út og skipta um lása, vegna þess að fólk er ekki tilbúið að borga þær skuldir sem bankar hafa lagt ofan á raunverulegar skuldir. 

Það er farið að kalla þessar skuldir ímyndaðar. 

Hvernig væri að fólk neitaði að samþykkja höfuðstólsbreytingar af húsnæðislánum og greiddu einungis samkvæmt upphaflegri afborgunaráætlun? Er það ekki sjálfsögð krafa?

Myndbandið hér að neðan sýnir hvernig ástandið er í Bandaríkjunum. Vilja Íslendingar endurtaka þann leik, þar sem kuldaleg græðgi risafyrirtækja fær að kremja manneskjur undir járnhæl sínum í friði, vegna hug- og skilningsleysis stjórnmálamanna?


Hefur tekist að slökkva bál byltingarinnar?

Aðeins 12 dagar frá fjölmennustu mótmælum Íslandssögunnar, þar sem Alþingi virti að vettugi kröfur um réttlæti og aðgerðir. Þingheimi virðist hafa tekist að slökkva í bálinu með því að lofa öllu fögru og svíkja það svo. Að nú yrði loks farið í aðgerðir fyrir heimilin.

Dagar liðu og niðurstöður funda sífellt á sömu leið, að niðurstöður fengjust á næstu fundum, að stofnuð yrði nefnd. Kannski á morgun, kannski hinn, kannski eftir einhverjar vikur, kannski mánuði. 

Þannig hefur tekist að slökkva bálið. Kannski.

Nú þegar bálið logar ekki lengur og stjórnarliðum finnst þeir öruggir á ný, skal dregið úr stóru yfirlýsingunum og allur spilastokkur blekkingarstjórnmála og áróðursbragða notaður til að kveða niður efasemdir.

Og mig grunar að það hafi tekist. Mótmælaraddir hafa þagnað. Bumbur óma ekki lengur í fjölmiðlum. Mig grunar þó að enn kraumi undir, að það sé heilmikil olía og súrefni eftir, að það þurfi ekki nema fáeina neista til að logarnir skjótist fram á nýjan leik.

Leiðrétting á stökkbreyttum lánum er sjálfsögð, réttlát og sanngjörn krafa. Fólk er ekki að tala um að græða á ástandinu, heldur að fá miskabætur fyrir þann stórfellda glæp sem unninn hefur verið gegn Íslendingum öllum, af fáeinum landsmönnum sem vildu eignast allt sem líkaminn girnist. 

Um 90% lánþega standa í skilum. Spunalæknar ríkisstjórnar túlka það þannig að þá hlýtur meirihlutinn að vera í góðum málum. Ég held að þessir lántakendur séu heiðarlegt fólk sem gerir allt í sínu valdi til að borga skuldir sínar, jafnvel þó að þær séu bæði ósanngjarnar og óréttlátar vegna glæpsamlegs forsendubrests. Þetta fólk er að borga. Og þessar greiðslur, ásamt auknum sköttum, hækkandi vöruverði og lækkandi launum, verða sífellt erfiðari viðureignar.

Reyndar hafa um 50.000 manns farið í greiðsluaðlögun, sem þýðir að mánaðargreiðslan hefur verið lækkuð, en höfuðstóllinn stækkar samt enn hratt, og nýjar mánaðarlegar greiðslur eftir aðlögun hækka stöðugt. 

Verði ekkert gert fyrir þær manneskjur sem lifa sífellt við þrengri kost, og vita að ekkert má fara úrskeiðis án þess að allt fari fjandans til, munum við þurfa að horfa upp á afar sorglega atburði, mannlegar hamfarir sem enn er hægt að koma í veg fyrir með smá hugrekki og visku.

Engin manneskja verður gjaldþrota að gamni sínu, þó að fullt af eigendum fyrirtækja finnist það flott sport, enda afleiðingarnar nánast engar fyrir fyrirtækin, en afleiðingarnar nær útlegð og dauðadómi fyrir einstaklinga sem verða gjaldþrota. Að verða gjaldþrota Íslendingur er hugsanlega verri örlög en þyngsta refsing sem dómstólar geta veitt. Morðingjar sem fá lífstíðardóm geta sloppið út eftir 8 ár fyrir góða hegðun. Manneskja sem verður gjaldþrota getur verið eignalaus í áratugi vegna ákvæðis um að kröfuhafar geta endurnýjað kröfur sínar á tveggja ára fresti.

Hvernig þingheimur getur verið blindur gagnvart þessum hamförum er mér ráðgáta.

Þjóð sem hefur ekki efni á réttlæti er gjaldþrota.


Er Ísland gjaldþrota?

Þjóð sem hefur ekki efni á réttlæti er gjaldþrota.

Það er ekkert réttlæti í því að heiðarlegt og duglegt fólk sitji tjóðrað í skuldafangelsi vegna stórtæks bankaráns og þátttöku eigenda, starfsmanna og ríkisvalds í ráninu, auk ribbalda sem nú vilja ráðast inn á heimilin í laganna nafni.

Þetta rán var orsök þess að gjaldeyrisforsendur brustu, ástæða þess að verðbólgan rauk upp, ástæða þess að verðtryggð jafnt sem gjaldeyrislán eru stjórnlaus.

Ránsfengnum var dreift til fárra hópa, í leyni. Sumir komu honum úr landi. Snúið var upp á reglur og með blekkingum varð hinu dýpsta ranglæti snúið upp í réttinn fyrir fáa til að eignast allar eigur þeirra sem minna mega sín. Varið af heilögum einkarétti. Minnir á rannsóknarrétt miðalda.

Nú grætur þjóðin beiskum tárum. Fólk sér vini, kunningja og ættingja í vandræðum. Venjulegt fólk. Sumir eiga varla fyrir mat. Fjölskylda og vinir redda þeim kannski í bili. Hversu lengi? Sumir eru fluttir úr landi - þetta eru oftast feður og mæður, synir og dætur, sjaldnar afar og ömmur. Sumar fjölskyldur eru sundraðar. Sum börn hafa ekki séð eigið foreldri svo mánuðum skiptir. Hvers eiga þessi börn að gjalda?

Fólk hefur verið rænt. Það hefur verið vaðið inn á heimili þeirra, þau bundin og kefluð, öllum þeirra eigum sópað í stóra svarta plastpoka og sent heim til kröfuhafa sem síðan kíkja gegnum þessar persónulegu eigur og brenna þær á báli, til að hlýja sér og gleðja sínar myrku sálir í neistafluginu.

Þjóð sem hefur ekki efni á réttlæti er gjaldþrota.

Réttlætið felst í að leyfa réttlátu fólki að lifa í friði, í friði frá áreiti vegna skulda sem það vill greiða en getur það ekki vegna þess að skuldirnar margfölduðust umfram greiðslugetu. Þetta fólk þarf annað tækifæri. Þjóðin getur gefið þessu fólki annað tækifæri. En þjóðin vill það ekki. 

Réttlætið er dýrt og óþægilegt fyrir þá sem þurfa ekki á því að halda, fólki sem finnst það hafa sloppið vel, fólki sem heldur að skuldavandinn sé aðeins vandi fólks sem tók heimskulega áhættu, eins og að kaupa sér íbúð frekar en að leigja, kaupa sér bíl frekar en að hjóla eða fara með strætó. Það gleymist hratt að þetta fólk hefur verið rænt. Margir aleigu sinni. Og þegar þeir sem nóg eiga úthrópa fórnarlömb þessara glæpa sýna þeir hinir sömu ekkert annað en tómar sálir sem ekkert getur fyllt annað en neistaflug brennandi heimila.

Þjóð sem hefur ekki efni á réttlæti er gjaldþrota.


Erfiðar spurningar um niðurfellingu lána

Eiga fyrirtæki að vera flokkuð á sama hátt og einstaklingar? Það er þekkt að fyrirtæki geta orðið gjaldþrota án þess að manneskja verði hundelt til æviloka fyrir gjaldþrotið. Það sama á ekki við um einstaklinga.

Á það sama að gilda um fólk sem keypti sér munaðarvörur eins og sumarbústaði, húsbíla, sportbíla eða annað slíkt og um þá sem keyptu hreinar nauðsynjar, þak yfir höfuðið og fararskjóta?

Á það sama að gilda um þá sem enn vaða í peningum og þá sem ná varla endum saman?

Á það sama að gilda um þá sem hafa neyðst til að flytja úr landi og þá sem neyðst hafa til að búa enn á Íslandi vegna stökkbreyttra lána?

Sjálfsagt væri réttast að miða niðurfellingu við ákveðna hámarksupphæð á niðurfellingu, því það eru sumir sem hafa keypt fasteignir á lánum fyrir hundruði milljóna, en vandinn sem rætt er um snýr fyrst og fremst að fjölskyldufólki og að hver manneskja geti komist af og haldið í íbúð sína eða hús. Niðurfelling á lánum braskara sem keypt hefur sér tuttugu íbúðir á lánum er ekki það sem þjóðin er að hugsa. Held ég.

Hvað finnst þér?


Er fátækt sjálfsagður hlutur?

Í mínum huga hefur Ísland fyrir sýndargóðæristímann alltaf notið ákveðinnar sérstöðu. Þá var Ísland land þar sem fátækt var í lágmarki og ríkidæmi ekki jafn öfgafullt og í dag. Eftir góðæri hefur ríkidæmi fárra aukist gífurlega og fátækt fjöldans stækkað hratt og er enn að stækka. Margt ríkidæmið hefur einnig reynst orðið til með sýndarmennsku og kerfisbundnum svikamyllum, og er kostnaðurinn hefur þegar étið margar fjölskyldur og byrjað að narta í aðrar.

Þetta er ekki eðlilegt.

Víða um heim verður mikill fjöldi fólks undir í samfélögum, verða fátækir og eiga um sárt að binda. Rísa þá gjarnan upp trúarbrögð sem hjálpa þeim þjáðu að sætta sig við lífsins táradal. Kapphlaupið um lífsgæðin snýst um að lenda ekki í undirmálshópnum, sem þræll fyrir hinar æðru stéttir auðmanna, og komast frekar í hópinn þar sem hinir vinna fyrir þig.

Mér þætti áhugavert að vera fluga á vegg hjá ráðgjöfum AGS og jafnvel skimast inn í viðhorf þeirra um hvernig þjóðfélög ættu að vera þegar málið snýr að fátækt. Einnig þætti mér áhugavert að heyra hvað stjórnmálamenn, þingmenn og fólk almennt hugsar þegar kemur að þessu máli.

Finnst okkur fátækt sjálfsagður hlutur, eitthvað sem einkennir hvert einasta samfélag, nánast nauðsynlegur hluti þess að lifa í þessum heimi? Finnst okkur fátækt bara allt í lagi? Erum við meðvituð um hvað hinir ríku, þeir sem völdin hafa, fá gífurlega mikil aukin völd og auð þegar fátæktin breiðir úr sér? Erum við meðvituð um að fátækt er val samfélagsins, að hægt er að komast hjá slíkum vanda með samstöðu? Erum við meðvituð um að slík samstaða verður alltaf úthrópuð af þeim sem telja veldi sínu ógnað?

Þetta viðhorf. Þessi trú. Að fátækt sé bara veruleiki. Sú trú virðist óhagganlegri en kirkjan.

Deilum við þessari trú? Viljum við samfélag þar sem ákveðinn hópur fólks er dæmdur frá fæðingu til dauða, nema með einstaka undantekningum, til fátæktar, undirgefni og lífs án raunverulegra tækifæra?

Meta mætti gildisgapið á milli ráðgjafavalds AGS og íslensku þjóðarinnar, því mig grunar að þessir ráðgjafar lifi í heimi þar sem fátækt þykir sjálfsagður hlutur - einfaldlega kostnaður vegna uppbyggingar, en slíkt viðhorf hef ég ekki sjálfur.

Neyð eins hluta samfélags á kostnað annars hluta hins litla Íslands er ekki eitthvað sem við eigum að sætta okkur við.


Hvar er auðmýktin?

Á mánudaginn var fylgdist ég dolfallinn með mótmælum á Austurvelli gegnum Netið frá Noregi. Á einum skjá sést brenna á Austurvelli og fólk tromma á tunnur. Víggirðing hefur verið reist umhverfis Alþingi og ræðurnar sýndar beint.

Það lítur út eins og ræðumenn séu staddir innan í gríðarstórri tómri tunnu, sem verið er að berja utanfrá. En enginn bumbusláttur heyrist, aðeins innantómar ræður, tómari en nokkur tunna - og ég get ekki annað en hugsað með mér hversu hátt bylur í þeim tómu.

Átta til tíuþúsund manns stóðu fyrir utan Alþingi og öskruðu eins og hungrað barn sem ekki getur tjáð sig öðruvísi. Íslenska þjóðin er barn. Móðir þess og faðir hefur yfirgefið hana. Skilið hana eftir. Þegar venjulegt fólk notar tungumál og reynir að tjá sig í rólegheitum, er ekki hlustað. Þetta fólk þykir kannski ekki nógu merkilegt til að ná eyrum hinna háttvirtu. 

Og ég velti fyrir mér hvað getur náð þessum háttvirtu eyrum. Út frá ræðunum að dæma, ósköp fátt. Það þarf að berja á hinum háttvirtu hlustum til að þær hlusti. Enginn af þeim sem ræður, stjórnar, drottnar eða sér sig sem lítinn guð talar beint til fólksins sem stendur úti í kuldanum og skapar hávaða. Nei. Höfðingjarnir fela sig á bakvið þykka múra, lögregluvegg og sérhannaðan mótmælavegg, og þeir voga sér ekki að tala við þá sem vilja það eitt að á þá sé hlustað, tekið mark, að unnið sé saman að markmiðum og lausnum. Er beðið um of mikið?

Ég velti þessu fyrir mér. Hvað ef Jóhanna eða Steingrímur og flestöll hin hefðu sleppt því að halda sínar innantómu ræður og þess í stað vogað sér að opna svaladyrnar, gengið fram á svalir, veifað og sýnt að þau hafi áhuga á að hlusta á fólkið? Hefðu þau fengið í sig egg eða flösku? Eða hefði slík athöfn verið túlkuð sem hugrekki af fjöldanum og ráðamönnum hugsanlega tekist að vinna sér inn vott af virðingu á ný? Það fáum við aldrei að vita því tækifærið rann þeim úr greipum.

Ég velti fyrir mér auðmýktinni. Hvernig hún virðist hverfa úr hjarta stjórnmálamannsins, rétt eftir að hann eða hún lýsir yfir auðmjúku þakklæti eftir kosningar. Kannski auðmýkt sé bara einnota græja notuð á tyllidögum?

Að lokum, eitt af þeim lögmálum sem ég reyni að fylgja hvern einasta dag í mínu lífi:

Vitræn auðmýkt: Að vera meðvitaður um takmarkanir eigin þekkingar, þar með talið tilfinningu fyrir aðstæðum þar sem manns eigin sjálfhverfa er líkleg til að blekkja mann sjálfan; tilfinningu fyrir hlutdrægni, fordómum og takmörkunum eigin sjónarhorns. Vitræn auðmýkt kannast við að maður ætti ekki að þykjast vita meira en maður veit. Hún er ekki merki um hugleysi eða þrælslund. Hún hefur í för með sér skort á vitrænni tilgerð, stolti eða svikulli lund, og styrkir innsæi í rökrænar undirstöður eigin skoðana, eða skort á slíkum undirstöðum. (Foundation for Critical Thinking)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband