Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2023
Flóttinn frá Grindavík: þegar hið ómögulega sprettur úr hinu mögulega
10.11.2023 | 22:55
Þessi færsla er skrifuð óvenju seint, enda hefur verið nóg í gangi hjá okkur síðustu sólarhringana. Yfirleitt les ég einhverja smá heimspeki, skrifa spurningu og svara henni síðan á milli kl. 6 og 7:30 hvern morgun. Undanfarið hef ég verið að deila pælingunni með þeim sem hafa áhuga á að lesa hérna á blogginu, en hef einnig verið að deila spurningunni á Facebook. Ég hef skrifað færslu hvern einasta dag í meira en 600 daga og get ekki hugsað mér að sleppa henni í dag.
En dagurinn í dag er einn af þessum dögum þar sem hið ómögulega gerist, eitthvað sem er svo magnað að erfitt verður fyrir nokkurn að trúa því.
Mörg verkefni voru samtímis í gangi eins og flesta daga, en eftir vinnudaginn og þegar ég kom heim, og settist niður til að velta fyrir mér næstu færslu, fór jörðin að skjálfa. Við konan mín erum að passa barnabörn á meðan foreldrar þeirra eru erlendis. Síðustu vikur hefur mikið skolfið í Grindavík og við orðin nokkuð sjóuð, getum auðveldlega greint á milli skjálfta frá 2 til 3 á Richter, og hvort þeir séu nálægt okkur eða í grennd við yfirborðið. Við erum skjálftamælar.
En það byrjaði að skjálfa, og það voru sterkari skjálftar en venjulega. Allt umhverfis hristist og skók ekki aðeins í nokkrar sekúndur eða mínútur, heldur í margar klukkustundir, og skjálftarnir voru ekkert að minnka. Þeir urðu sífellt stærri og virtust færast nær með hverri mínútunni. Þegar bækur fóru að fljúga úr hillum, glös að detta um koll, og skúffur að opnast um allt hús, og við gátum ekki róað okkur við að þetta væri bara draugagangur, og þegar við fréttum að Grindavíkur væri farinn í sundur, og þriggja og fimm ára stelpurnar okkar voru skelfingu lostnar, þá ákváðum við að pakka í töskur og keyra í Kópavoginn, gegnum Hveragerði.
Það er ekki nóg með að þetta gerðist, og þetta er ívið nóg. Ég hafði ætlað að sækja systur mína á Keflavíkurflugvöll um kl. 20:00, en við vorum á leið í andstæða eitt á þeim tíma, þannig að það plan gekk ekki alveg upp. Þar að auki eigum við von á nýju barnabarni og nokkuð líklegt er að stóra stundin renni upp í kvöld eða nótt.
En ekki klikkar færslan. Hún verður kannski ekki jafn full af pælingum og oft áður, en samt get ég sagt frá einni pælingu, nánast þema dagsins.
Þegar ég mætti til vinnu kl. 8 í morgun ræddi ég við einn starfsfélaga minn um það hvernig við værum að bregðast við jarðskjálftunum. Ég minntist á að maður gerði sitt besta til að stjórna því sem maður gæti, og það litla sem maður getur er að stjórna eigin rólyndi og einbeita sér að því sem maður getur sjálfur gert, en hafa ekki of miklar áhyggjur af því sem maður getur ekki stjórnað.
Þessir hlutir sem maður getur stjórnað eru reyndar svolítið mikilvægir, hlutir eins og viska og hugrekki, að gera það sem er rétt og láta ekki stjórnast af hræðslu og óöryggi. Ég er ánægður með þá ákvörðun að pakka í töskur og fara af stað, því það var það litla sem ég gat gert, til þess að hjálpa litlu krílunum að halda sinni eigin stillingu. Að vera í langri bílalínu á leið út úr bænum var svolítið sérstök sjón, daginn eftir að við horfðum á Venus og Mánanum hlið við hlið á stjörnubjörtum himni.
Nú erum við stödd á öruggum stað, krakkarnir að horfa á Lilo og Stitch, og ég loksins næstum búinn að leggja lokahönd á færslu dagsins.
Ekki nóg með það, við starfsfélagi minn lögðum lokahönd á námslýsingar á stórskemmtilegum námskeiðum sem við höfum byrjað að keyra við afar góðar undirtektir, Leikskólasmiðju og Umönnunarsmiðju, þar sem við þjálfum fólk sem flutt er til landsins að læra íslenskt fagmál tengdu þessu ólíka starfsumhverfi, og undirbúa þau þannig fyrir störf á þessum vettvangi. Við höfum unnið að þessu í marga mánuði, en samt virðist það svo smátt miðað við annað sem hefur gerst í dag.
Áður en þessi dagur varð að veruleika var hann ómögulegur, í það minnsta í mínum huga. Mér hefði aldrei dottið í hug, með öllu því ímyndunarafli sem ég hef, að það sem gerðist myndi gerast eins og það gerðist í dag.
Þannig sprettur stundum það ómögulega úr því mögulega.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Jarðskjálftarnir í Grindavík: veruleiki og ímyndun
9.11.2023 | 18:11
Í nótt héldu jarðskjálftar í Grindavík fyrir mér vöku frá kl. 12-4. Ég upplifði þá sem einn stanslausan skjálfta og oft lék húsið á reiðiskjálfi. Ég heyrði djúpar drunur koma á undan hverjum skjálfta, eins og einhver risastór hvalur úr eldi og brennistein ætlaði að brjóta sér leið í gegnum jarðskorpuna og gleypa allan bæinn. Önnur mynd sem ég sá í huga mínum var að mörg þúsund persónur, rithöfundar og fólk úr öllum þeim bókum sem sitja á bókahillum mínum, vaknaði til lífsins og tók til að dansa trylltan dans frá klukkan 12-4 þessa nóttina. Úti fyrir geltu hundar og ég heyrði börn og fullorðna fara upp í bíla og bruna eitthvað í burtu. Sumt af þessu gerðist í raun og veru, sumt af þessu er hluti af ímyndun minni.
Við getum ekki vitað með fullvissu að það sem við teljum að hafi einhvern tíma gerst hafi í raun átt sér stað. Samt þýðir það ekki að við vitum ekki neitt. Við verðum aðeins að vera meðvituð um að ályktunarhæfni okkar og geta til að sjá fyrir að eitthvað hafi gerst á ákveðinn hátt er takmörkuð að einhverju leyti. Við getum séð stóru myndina, og getum ímyndað okkur hvernig hlutir hafa gerst, en við getum ekki vitað nákvæmlega hvað hefur gerst á einhverri stundu sem hefur liðið, hvort sem við erum að tala um eitthvað sem gerðist fyrir 2000 árum, 10 árum, eða bara í gær, jafnvel þó að við takmörkum okkur við eitt ákveðið sjónarhorn.
Þau fyrirbæri sem ég sá fyrir mér eru hluti af öllu því sem gerðist, og líklega sá hluti sem sagnfræðingar munu líkast til ekki taka eftir, því þeir geta varla skyggnst inn í draumheim allra þeirra sem upplifðu þessa jarðskjálfta. Það sem vísindamenn hafa hins vegar eru mælar sem geta skynjað hvar skjálftarnir eiga upptök, á hversu miklu dýpi og af hversu miklum styrkleika.
Hvort ætli upplifun þeirra sem upplifðu nóttina í gegnum þessa skjálfta hafi dýpri merkingu, eða tölustafirnir sem birtast í töflum á veður.is? Getum við sagt frá þessari nótt án þess að taka tillit til upplifun allra sem að henni komu? Hvernig veljum við þau sjónarhorn sem við viljum hlusta á?
Eigum við að velja bæjarstjóra, lögreglustjóra, vísindamenn, forstjóra og einhverjar sálir sem upplifðu skjálftana til að skilja hvað gerðist í raun og veru, eða dugar okkur að heyra einhverjar staðreyndir og ímynda okkur afganginn? Ef okkur dugar að fylla í eyðurnar, erum við þá að missa af því sem raunverulega átti sér stað?
Við þurfum að átta okkur á því að upplýsingarnar sem við höfum er ekki nóg til að sjá allan sannleikann og ekkert nema sannleikann, og við þurfum að átta okkur á hvernig við fyllum stöðugt inn í eyðurnar með reynslu okkar og skilningi á heiminum, sem gætu verið góðar ágiskanir en geta líka verið út í hött.
Allt það sem við teljum vera satt, er ekki eitthvað sem við vitum með fullri vissu. Sumir trúa því sem þeir telja vera satt og telja ómögulegt að þeir geti haft rangt fyrir sér, og sumir átta sig á því að það sem þeir telja vera satt er ekki fyllilega það sem þeir telja það vera, og eru opnir fyrir nýjum túlkunum og upplýsingum, sem geta smám saman gefið fyllri mynd af þeim atburðum sem áttu sér stað.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Leitin að sjálfstæðri hugsun
8.11.2023 | 18:55
Undanfarið hef ég verið að velta fyrir mér hvað það er sem ég met mest í þessu lífi, eitthvað sem hefur rist djúpt og leitt mig frá barnæsku til dagsins í dag. Svarið sem ég fann kom mér svolítið á óvart, því ég hef í raun aldrei komið þessu í orð fyrir sjálfan mig, en hef stöðugt leitað að þessu svari síðan ég man eftir mér. Þessi spurning var í upphafi, hvað viltu verða þegar þú ert orðinn stór, og ég gat ekki svarað út frá hlutverki, því mér fannst það ekki rétt. Hver manneskja getur nefnilega gengt svo mörgum hlutverkum í lífinu, og ég vildi ekki festa mig við eitthvað eitt.
Það er ýmislegt sem ég þrái að vera sem manneskja. Helst þrái ég að vera fær um sjálfstæða hugsun, og ég vil leita og þroska í sjálfum mér visku og dyggðir, og hef gjarnan áhuga á að deila með öðrum þessu ferðalagi mínu.
Síðan vil ég að sjálfsögðu lifa góðu lífi, með konu minni og börnum, vil eiga nógu mikið af eignum til að þurfa ekki að hafa of miklar áhyggjur af skuldastöðu og slíku veseni, kann því að meta það að eiga hús, bíl og gera mitt besta til að losna við skuldir, þó svo að vaxtaumhverfið á Íslandi geri það alls ekki auðvelt. Ég vil sinna mínu starfi af kostgæfni, og vil þroskast og halda áfram að leiða bæði sjálfan mig og aðra þegar kemur að ágæti í menntavísindum og heimspeki, en þó með nægri auðmýkt til að þykjast ekki vita allt það sem ég ekki veit, en þó með nóg af þekkingu til að geta tjáð mig um þessi mál og metið þau með áreiðanlegum hætti.
Það að hugsa sjálfstætt er svolítið eins og að vera smámynt í stórum heimi myntkerfa, þar sem evran og dollarinn ráða ríkjum. Ég er ekki einu sinni íslenska krónan, heldur einhver skiptimynt sem fáeinir vinir deila með mér. Mér finnst afar áhugavert að hugsa inn á við, velta fyrir mér þeim hugmyndum sem svífa um minn eigin huga, reyna að ná taki á þeim og festa í orð, ekki aðeins í tali, heldur einnig á blaði, og jafnvel nota smá gervigreind til að teikna hugmyndina fyrir mig, helst með kúreka einhvers staðar í forgrunni.
Þegar við leitum sjálfstæðrar hugsunar erum við ekki bara að endurtaka allt það orðagjálfur sem á sér stað í heiminum, heldur erum við að leita okkar eigin raddar sem á sér hljómgrunn í þessu mikla tónverki sem mannshugurinn tekur þátt í.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Hvað kostar að vanrækja skyldur okkar og störf?
7.11.2023 | 07:42
Ef við sinnum skyldum okkar ekki af alúð og ábyrgð getur það haft dýpri áhrif á okkur sjálf, nærumhverfið og samfélagið allt en okkur grunar í fyrstu. Hugsum okkur þrjár manneskjur sem eru að velta þessu fyrir sér, fagmann, verkamann og námsmann.
Ef fagmaðurinn bregst skyldum sínum getur það eyðilagt orðspor hans á afar stuttum tíma, og ekki aðeins hans orðspor, heldur starfsstéttar hans og þeim iðnaði sem hann stundar. Hugsaðu þér afleiðingarnar ef enginn treystir lengur bankastarfsmönnum, að viðskiptavinir telji að fyrirtækið vilji ekkert annað en hirða peninginn frá viðskiptavinum sínum, að þeim sé nákvæmlega sama um að gæta þess sem er þeirra skylda að gæta, og vilja aðeins hagnast með því að nota fjármunina sem þeir fá í sína vörslu til að stækka og græða? Hversu mikils virði er slíkur fjárhirðir til lengri tíma? Hugsaðu þér að þetta væri fjárhirðir sem sinnir kindum og lömbum, en hann hefði engan áhuga á að koma þeim í beit og svo aftur heim í fjárhús, heldur vildi taka sér nokkur lömb sjálfur, slátra þeim og selja? Hver myndi treysta slíkum fjárhirði? Þegar orðspor einnar manneskju eða stéttar hefur verið lagt í rúst, þó svo það sé ekki nema af einni manneskju, getur það tekið afar mikla orku og heilmikinn tíma að bjarga því sem bjargað verður, og hugsanlega þarf að brjóta allt niður sem hefur verið byggt upp og byrja upp á nýtt, en þá með betri aga, með meiri elju, ábyrgð og alúð.
Fyrir verkamann er slíkt ástand alveg jafn slæmt, því ef hann uppfyllir ekki skyldur sínar og lætur eins og ekkert sem hann gerir skiptir máli, þá eru aðrir starfsfélagar líklegir til að falla í sama far, og ef það gerist og störf þeirra verða ekki vel unnin, getur það haft djúp áhrif á allt samfélagið, því störf eru meira en einhver smáverk, þau þjóna meiri tilgangi. Þegar verkafólk sinnir ekki skyldu sinni og finnur ekki tilgang með verkum sínum, mun það hafa áhrif á útkomuna.
Fyrir námsmann að sinna ekki skyldum sínum hefur yfirleitt áhrif á þær einkunnir sem hann fær, en takist honum að svindla sér í gegnum kerfið, þá missir hann af mikilvægum hlutum eins og að þjálfa sig í gagnrýnni hugsun, byggja upp eigin þekkingu og verður þannig illa undirbúinn þegar verkefni framtíðarinnar krefjast af honum að sinna skyldum sínum. Því sá sem hagnast á því að svindla mun á endanum lenda í aðstæðum þar sem hann verður afhjúpaður sem svindlari, og sjálfsagt sitja uppi með ónýtt orðspor og óánægt fólk allt í kringum hann; nema allir hinir séu jafn slæmir. Þá erum við komin út í aðra sálma, og farin að tala um spillt og jafnvel ónýtt samfélag. Menntun snýst ekki bara um einstaklinginn sem er að læra, heldur er menntun hornsteinn menningar og samfélags. Ef slíkur hornsteinn er illa byggður, ef það eru sprungur í honum, ef það er ekki traust efni í honum, þá mun hann á endanum verða til þess að öll byggingin hrynur. Og uppgötvist að vandinn sé í grunni eða hornsteini eftir að byggingin hefur verið byggð, þá mun það kosta ansi mikið að lagfæra bygginguna, á kostnað frekari uppbyggingar.
Traust er það sem heldur samböndum, fyrirtækjum og samfélaginu saman. Þear við sættum okkur við lygar og svik, spillingu og græðgi, þá erum við að grafa undan trausti sem framtíðin þarf að byggja á, og í stað þess að gefa þeim tækifæri til að byggja meira og betur, gefum við þeim vandamál til að leysa, sem leiða þau ekki þangað sem þau hefðu getað farið.
Það að sinna ekki skyldum sínum af alúð og ábyrgð jafnast á við að eyðileggja fyrir öllum hópnum framtíð sem hefði verið hægt að byggja, framtíð sem hefði verið góð fyrir alla í samfélaginu. Þegar við sinnum störfum okkar af alúð og ábyrgð, erum við ekki aðeins að sinna skyldu okkar gagnvart sjálfum okkur, heldur einnig fjölskyldunni, samfélaginu og framtíð sem við getum ekki séð fyrir endann á.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Að öðlast frelsi, hamingju og ró í þessum klikkaða heimi
6.11.2023 | 18:45
Leitin að frelsi, hamingju og hugarró er kannski meiri sköpun en leit. Við þurfum að sníða okkur ákveðið hugarfar til að öðlast þessa hluti.
Fyrsta skrefið er þá sjálfsagt að átta sig á að eitthvað er að, að af einhverjum ástæðum finnst okkur við ekki vera frjáls, hamingjusöm og með hugarró, og þá fyrst sjáum við að eitthvað þarf að breytast til að öðlast þessi ágætu gæði.
Það gæti farið eftir því hversu þroskuð við erum og hvar við erum stödd í lífinu, hversu vel okkur gengur eða illa, hvernig aðstæður við lifum og hrærumst í, en umfram allt er það hugarfarið sjálft sem skiptir máli; og það er aðeins ein manneskja sem getur breytt hugarfari: sú manneskja sem hefur viðkomandi hug.
Sköpun á þessu hugarástandi sem felur í sér að finna frelsi, hamingju og hugarró getur tekið allt lífið, og jafnvel þó að það takist ekki að ljúka þessari sköpun áður en lífinu lýkur, þá er leitin einhvers virði í sjálfu sér.
Við sköpum frelsið með því að þekkja og skilja heiminn í kringum okkur, með því að vera forvitin og full af undrun, með góðmennsku, með því að tjá okkur af hreinskilni og uppgötva þannig hver við erum, með því að velja það sem við teljum að er gott og rétt, og láta það óhagganlega eiga sig.
Við sköpum hamingju þegar við finnum gleðina í minnstu hlutum, og alls ekki út frá því hvernig aðrir dæma okkur, heldur út frá okkar eigin gildum og vilja. Við þurfum að sætta okkur við það sem við höfum og það sem við erum, með því sköpum við hamingjuna.
Hugarró sköpum við með því að veita þeim sem elska okkur ást og öryggi, og með því að sætta okkur við að við getum ekki stjórnað öllu, og frá því að átta okkur á að fortíðin er eitthvað sem við getum ekki breytt, og að framtíðin er ekki eitthvað sem er til, og að við höfum aðeins eitthvað örlítið vald yfir núinu. Þetta vald yfir núinu getur haft einhver áhrif á framtíðina, og getur verið byggt á því sem við þekkjum úr fortíðinni, og við getum valið það sem við teljum vera gott og rétt, en við getum ekki séð fyrir afleiðingar þess sem við veljum.
Það að skapa þessi gildi, ekki bara leita þeirra, er ferðalag sem getur tekið alla ævina, sem krefst í sjálfu sér að við verðum að vera þolinmóð, bæði gagnvart sjálfum okkur og svo þeim sem ferðast með okkur gegnum samtímann.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Við veljum það sem við erum hverja einustu stund
5.11.2023 | 12:33
Að komast að því hvort hugmynd sé góð eða slæm er svolítið eins og að komast að því hvort matur sé góður eða slæmur, hvort hann lykti vel eða illa, hvort hann bragðist vel, hvort að hann líti vel út, hvort að áferðin fari vel í mann.
Það er mun auðveldara að átta sig á hvað okkur líkar ekki heldur en því sem okkur líkar. En svo blekkjum við sjálf okkur, því við áttum okkur ekkert endilega á að það er munur á því sem okkur finnst gott eða slæmt, og því sem er í raun gott eða slæmt.
Okkur gæti þótt eitthvað súkkulaði með lakkrís æðislega gott og viljum helst háma það í okkur alla daga, en áhrif þessa sælgætis til lengdar á líkama okkar er að hann þyngist stöðugt, enda breytist sigurinn þegar við meltum hann í leðju sem hægir á blóðrásinni, og lakkrísinn svo á móti hækkar blóðþrýstinginn, þannig að hjartað kemst í mikla aukavinnu til að vinna í daglegum störfum.
Þannig er það með allar góðar og slæmar hugmyndir, og nú vil ég aldrei þessu vant alhæfa. Það er sumt sem er gott bæði til skamms tíma og til lengri tíma, það er sumt sem er slæmt bæði til styttri og lengri tíma, og svo ýmislega sem er annað hvort gott eða slæmt til styttri tíma og andstæða þess góð eða slæm til lengri tíma.
Við viljum að sjálfsögðu sækjast í það sem er gott til lengri tíma, og það getur þýtt að stundum finnst okkur það gott og stundum finnst okkur það slæmt. Til dæmis ef við viljum ná upp úthaldi og þoli, þá gerum við það til dæmis með því að fara út og skokka, eitthvað sem er ekkert endilega þægilegt til að byrja með, en svo getum við gert hlaupin að skemmtilegum ávana með því til dæmis að hlusta á tónlist meðan við skokkum, keppa við sjálf okkur eða aðra, og láta vini og ættingja vita hvernig gengur með skokkið. Þannig getum við snúið einhverju sem við vitum að hefur góð áhrif til lengri tíma, og þótt það líka gott til styttri tíma.
Það ætti að vera auðvelt að forðast það sem er vont til lengri tíma, eins og einelti, þjófnaður, lygar, svindl, hatur, ofbeldi, svik, neysla, hunsun og fordómar, en veruleikinn er sá að fullt af fólki freistast til að falla í gryfju skammtímahugsunar, gera það sem er slæmt sem verður til þess eins að það illa vex.
Það er hægt að venja sig á góða og slæma hluti. Það sem gerist með hegðun sem hefur verið áunnin er að hún stendur eftir sem hluti af persónuleika okkar, og hvað gerum við ekki til að verja það sem við erum, frelsi okkar og hegðun í samfélaginu?
Á öllum lífskeiðum okkar þurfum við að vega og meta hvað er gott og hvað er slæmt fyrir okkur sjálf. Og það sem við veljum á hverju af þessum lífsskeiðum, sama hvort við erum börn, unglingar eða fullorðin, mun hafa áhrif á næsta lífsskeið okkar. Þegar við breytum einhverri slæmri hegðun í góða eða lærum að eitthvað sem við héldum að væri gott er slæmt, og vinnum í því að tileinka okkur hið góða, þá tölum við um það eins og sjálfsagðan hlut, og köllum það nám og þroska, og lítum aldrei aftur við því sem við áttuðum okkur á að var ekki gott.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hvernig vinahópurinn litar heimsmynd okkar
4.11.2023 | 12:57
Það er góð hugmynd að kenna ungum börnum að lita og fræða þau aðeins um hvernig litirnir blandast saman. Yfirleitt uppgötva þau sjálf hvað gerist ef þau velja bjarta og glaðlega liti, þá lita þau bjartar og glaðlegar myndir. Ef þau velja hins vegar dökka liti lita þau líkast til frekar dökkar og drungalegar myndir.
Það sama gerist þegar við veljum okkur vini eða félagsskap. Ef við veljum vini sem eru góðar fyrirmyndir, viturt fólk og dyggðugt, þá er afar líklegt að við lærum slíka góða hegðun og hugsunarhætti af þessu fólki, það verður að eðlilegum hluta af okkar tilveru. En ef við ákveðum frekar að velja vini sem eru frekar slakir í hegðun, ljúga og stela, og bera litla virðingu fyrir öðru fólki, þá erum við líkleg til að sjá slíka hegðun sem eðlilegan hluta af lífsmynstri okkar.
Við berum okkur oft saman við þá sem eru í umhverfi okkar og eigum til með að dæma samfélagið og heiminn út frá þessum félagsskap. Því er mikilvægt að velja félagsskap sem fellur að þínum eigin gildum, og auk þess nauðsynlegt að velja þeir góð gildi sem þú vilti standa fyrir, því þegar einhver bregst þeim, þá getur þú brugðist við með sjálfstæðum hætti.
Rétt eins og einn dropi af bleki getur mengað hreint vatnsglas, getur slæmur félagsskapur mengað dómgreind okkar og hugarró. Gott er að hafa í huga að við þurfum ansi mikið vatn til að hreinsa blek úr hreinu vatnsglasi, en ansi lítið blek til að menga hreint vatnslglas.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Breyttu skapinu þínu, breyttu lífinu. 30 daga áskorun!
3.11.2023 | 18:43
Epíktet skrifaði fyrir um 2000 árum að ef við misstum stjórn á skapi okkar, eða værum í skapi sem við vildum ekki vera í, þá gætum við breytt því. Hann segir þannig frá aðferðinni sem hann beitti á sjálfan sig í Samræðum sínum:
Ef þú vilt ekki vera í slæmu skapi, þá skaltu venja þig af því, aldrei næra slæma skapið með neinu sem getur hjálpað því að vaxa. Umfram allt, haltu ró þinni, og teldu dagana sem þú hefur ekki misst stjórn á skapi þínu. Ég var vanur að missa stjórn á skapi mínu hvern einasta dag, og eftir það annan hvern dag, síðan þriðja hvern dag, síðan fjórða hvern. Ef þú getur haldið þessu áfram á sama hátt í þrjátíu daga, fagnaðu því með einhverjum hætti. Því fyrstu gerum við ávana veikari, og síðan er honum eytt algjörlega.
Til þess að breyta okkar eigin skaplyndi, þurfum við fyrst að átta okkur á að það er hægt, og síðan átta okkur á hvað það er í okkar skapi sem við viljum breyta. Flest viljum við losna við óþægindin sem fylgja því að missa stjórn á skapi okkar, og þá er ágætt að þekkja þessa 30 daga aðferð. Sama aðferð á við þegar við venjum okkur á nýja hegðun eða af einhverri hegðun sem við viljum losa okkur við. Þetta er ekki auðvelt, heldur krefst sjálfsaga og þess að þessu sé fylgt samviskusamlega eftir í 30 daga. Þá getur gott að fá stuðning frá vinum og ættingjum, og skipuleggja sig vel, setja til dæmis áminningu í símann.
Tilfinningar koma og fara, og skapinu er stjórnað af tilfinningum okkar. Stundum eru þær svo sterkar að þær hrinda okkur um koll og stundum tökum við ekki einu sinni eftir þeim. Erum við alltaf meðvituð um hvort við séum reið, sorgmædd, ánægð, undrandi, eða einhvern veginn?
Vitum við alltaf af hverju við höfum þær tilfinningar sem við höfum á hverri stundu? Áttum við okkur á því að yfirleitt er aðeins ein ríkjandi tilfinning á hverri stundu, og að við getum skipt henni út fyrir einhverja aðra? Til þess að skipta um tilfinningu þurfum við stundum að breyta til, fara út í göngutúr, kveikja á góðri tónlist, horfa á skemmtilega kvikmynd, skrifa niður hugsanir okkar.
Eitthvað utanaðkomandi gæti pirrað okkur, eins og jarðskjálftar gera á hverjum degi í Grindavík, þar sem fólk er vakið á nóttunni af þungum drunum sem vaxa og enda svo í skjálfta. Við vitum að við getum ekki stjórnað jarðskjálftum, en við getum stjórnað hvernig við bregðumst við þeim. Það er ekkert endilega auðvelt, en það er það eina sem við getum gert, annað en að koma okkur burt af jarðskjálftasvæðinu.
Við getum stjórnað hvernig okkur líður, við getum vanið okkur á jarðskjálftana, við getum undirbúið okkur með því að bæta við þekkingu um hvað er að gerast, við getum haft nauðsynjar tilbúnar til að bruna í burt ef allt fer til andskotans, og ýmislegt fleira getum við gert til að stjórna okkar eigin áhyggjum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Norræn hógværð: eitthvað sem Íslendingar mættu læra?
2.11.2023 | 20:22
Í Noregi og Danmörku, og hugsanlega víðar á norðurlöndum, er nokkuð til sem kallað er janteloven, en það virðist vera ríkjandi viðhorf að gera lítið úr yfirburðum einstaklinga sem hafa náð langt á einhverju sviði, og gert grín að þeim þegar þeir reyna að sýna sig sem eitthvað betri en annað fólk. Dæmi var þegar frægur norskur knattspyrnumaður, sem ég held að hafi spilað með Liverpool, keyrði um á flottum sportbíl, og í stað þess að hljóta aðdáun fyrir, hlaut hann háð.
Þar sem ég bjó lengi í Noregi hefur þessi siður hugsanlega fest sig í sessi hjá mér. Mér finnst ekkert merkilegt við að vera ríkur og frægur, en þegar einhver gerir hlutina vel og af hógværð, þá leyfi ég mér að njóta þess.
Það sem hefur komið mér einna mest á óvart eftir flutninginn heim, er hversu mikið virðist ýtt undir samkeppni og græðgi, eins og þetta séu einhverjar dyggðir, frekar en eitthvað sem grefur undan samfélaginu. Ég sé bankana græða eins og aldrei áður, og þá sem eiga mikið gera allt til að græða meira, án þess að huga að sanngirni gagnvart þeim fátækari, sem hafa tekið lán fyrir húsnæði sínu, og sem eru líklegir til að jafnvel tapa eignum sínum og lífsviðurværi ef græðgin nær sömu hæðum og hún gerði í Hruninu, því sem rak mig upphaflega til Noregs, í skjól fyrir þessu óveðri sem græðgin getur verið.
Þar fann ég raunverulegt skjól. Þar er sómakennd meðal þeirra sem stjórna. Þar verður fólk ósátt þegar einhver tekur alltof mikið fyrir sjálfan sig, bara vegna þess að hann getur það. Og slík hegðun hefur afleiðingar.
Ef Norðmenn og Danir geta verið skynsamir þegar kemur að veraldlegum eignum, af hverju virðast Íslendingar eiga svona erfitt með það?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um hamingjuna
1.11.2023 | 17:38
Samkvæmt stóuspekingum er svarið nokkuð skýrt. Hamingjan finnst í dyggðum og því að lifa í samræmi við eigið eðli. Hún snýst um að sætta sig við það sem við getum ekki breytt og einbeita okkur að því sem við getum breytt. Með því móti getum við fundið frið í jafnvæginu milli þess sem við vitum að við getum stjórnað og því sem við getum ekki stjórnað. Það sem við getum breytt eru hlutir eins og hófsemi, viska, hugrekki og réttlæti, hins vegar getum við litlu breytt þegar kemur að utanaðkomandi hlutum eins og eignum, stöðu eða áhrifum. Út frá þessu sjónarhorni er hamingjan friðsæll hugur og frelsi undan álagi, sem þú getur aðeins fengið með því að stjórna eigin tilfinningum og löngunum.
Ef ég spyr barnið í sjálfum mér hvað hamingjan er, segir það að hamingjan sé virkilega góð tilfinning, svona eins og þegar maður leikur sér við uppáhalds leikfangið sitt, fær ís eða sér foreldri eftir heilan dag á leikskólanum. Það er tilfinning án sorgar eða kvíða, það er tilfinning þegar maður er virkilega sáttur með lífið og tilveruna.
Ef ég spyr unglinginn í sjálfum mér, segir hann að hún felist í að hanga með vinunum, hlusta á góða tónlist og gera eitthvað sem maður elskar að gera. Hamingjan snýst ekki bara um að hafa gaman, heldur einnig um að líða vel með það sem maður er að gera.
Ef ég spyr sjálfan mig eins og ég er í dag, tel ég að hamingjan felist í að vera sáttur við sjálfan sig, þá manneskju sem maður hefur að geyma. Það er ekki bara einhver sjálfsánægja eða mont, heldur djúp sátt við lífið, eigin árangur, sambönd og þær dygðir sem mér hefur tekist að þroska í sjálfum mér gegnum árin.
Við tölum um hamingjuna við ólíkar aðstæður og stundum syngjum við líka um hana. Hún tekur á sig ýmsar myndir. Stundum er hún tilfinning sem tengist ánægju og gleði, stundum finnum við hana þegar við klárum eitthvað, stundum þegar við tengjumst annarri manneskju og njótum þess að elska hana og vera elskuð á móti, stundum þegar okkur líður vel í göngutúr úti í náttúrunni, stundum þegar okkur tekst að ná mikilvægu markmiði, stundum þegar okkur hefur tekist að vera jákvæð út í lífið, tilveruna, annað fólk og sjálf okkur.
Hvernig og hvort við upplifum hamingjuna nokkurn tíma á ævinni er svo annað mál. Sumir komast aldrei nálægt henni því þeir taka stöðugt rangar ákvarðanir sem skemma fyrir frekar en bæta, sumir eru á kafi í eigin löstum og ná sér aldrei upp úr þeim, og sumir hafa engan áhuga á hvorki að finna né skapa hamingjuna.
Sumir átta sig á að hamingjan felst í ferðalaginu á meðan aðrir halda að hún felist í áfangastaðnum. Og sumir halda að ef maður loksins nái taki á hamingjunni muni hún renna manni umsvifalaust úr greipum. Hugsanlega er best að ná aldrei taki á henni og hafa hana sífellt innan seilingar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)