Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2023
Það sem skiptir mál: veraldleg og andleg gæði
20.11.2023 | 21:55
Í gær bauðst systir mín, stjúpsonur og vinur minn til að fara með að húsi mínu sem statt er ofan á hraunfljóti sem flæðir beint undir húsinu. Ég var snortinn af því að þau buðu mér, en þáði boðið frá vini mínum, en hann á stóran bíl sem gat ferjað heilmikið af mínu lítilfjörlega dóti, sem ég túlka ennþá sem verðmæti, þó að vissulega gæti ég lifað lífinu án þess að eiga allt það sem ég vil bjarga.
Umfram allt er ég þakklátur fyrir að eiga svona góða að sem vilja gefa mér af verðmætum tíma sínum til að bjarga hlutunum mínum, og ég áttaði mig á því þegar við sátum í bíl björgunarsveitar í gær með hjálma á hnjánum hvað þessi vinátta er miklu verðmætari en nokkur bók, dekk, matur eða veraldleg auðæfi sem hvíla í húsinu mínu.
Við sækjumst eftir alls konar hlutum. Meiri peningum, flottari bíl, stærra húsi, glansandi leikföngum, nýjustu tækjunum, frægð á samfélagsmiðlum, að aðrir hlægi að bröndurunum okkar, að öðrum líki við það sem við gerum, að öðrum líki við það sem við erum. Samt ef þú pælir aðeins í því skiptir ekkert af þessu máli, svona í stóra samhenginu.
Ef þú tapar öllu því veraldlega sem minnst var á hér að ofan hefur ekki tapað neinu, ekki nema þú ákveðir að þú viljir halda öllum þessum hlutum. Stundum viljum við halda í og eiga hluti sem skipta engu máli, og gleymum því sem skiptir virkilega máli.
Það er eitthvað við vináttu sem er varanlegt, hún er andleg og getur lifað áfram óháð tíma og rúmi og þó að vitnisburðurinn um hana lifi aðeins og deyi svo lengi sem við lifum, þá er hún verðmæti sem við förum með alla leið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Veljum frið frekar en afbrýðisemi
19.11.2023 | 23:44
Afbrýðisemi er tilfinning sem getur sprottið upp þegar við sjáum að einhver annar eignast hlut eða fær tækifæri sem okkur finnst að við ættum sjálf að hafa fengið. Afbrýðisemi er oft kölluð leiðinlegasta syndin eða lösturinn því hún veldur þeim sem hefur hana sífellu hugarangri og gerir ekkert gagn, heldur verður hún aðeins til þess að sá sem finnur til hennar verður smám saman reiður út í aðra, nákvæmlega vegna þessa samanburðar.
Það er auðveldlega hægt að komast hjá að finna til afbrýðisemi, en það krefst íhugunar og sjálfsþekkingar, og þess að vera sáttur við það sem maður hefur, frekar en langa stöðugt í eitthvað sem maður hefur ekki. Það er nefnilega hægt að stjórna hvað maður vill. Ég get ekki stjórnað hvað þú vilt, en ég get svo sannarlega stjórnað hvað ég vil.
Þessi tilfinning, afbrýðisemi, getur sprottið fram hjá hverjum sem er og hvenær sem er. Málið er að ef hún herjar á okkur aðeins í augnablik og við finnum einhvern smá sting, og okkur tekst síðan með skynsamlegri hugsun að bægja henni frá, í stað þess að dvelja við hana, leyfa henni að festa rætur í sál okkar og dreifast um alla tilvist okkur, þá höfum við sparað okkur mikinn tíma og erfiði.
Ein af leiðunum sem ég þekki til að komast undan þessari tilfinningu sem afbrýðisemin er, er með því að langa aðeins í það litla sem maður hefur, og þá er ég ekki að tala um hluti, húsnæði, bíl, heilsu eða líf; heldur það að geta tekið ákvörðun hér og nú; það er það litla sem við höfum, og ef við áttum okkur á því verður líf okkar strax betra, en ef við áttum okkur aldrei á því.
Aðrar leiðir eru að lýsa yfir þakklæti fyrir það sem maður hefur, fyrir það góða sem gerist í lífinu, og stefna á það að læra sífellt eitthvað nýtt og áhugavert hvern einasta dag. Fagnaðu þegar þér gengur vel, og þegar illa gengur, taktu því af æðruleysi og þakkaðu fyrir að ekki fór verr.
Það er í það minnsta það sem ég geri sjálfur, eða reyni að gera, og ég er afar sáttur við tilveruna þrátt fyrir að hafa lent í margskonar krefjandi aðstæðum hér og þar um heimsbyggðina, hörmungum af völdum náttúru og manna, sem hægt er að bregðast við og gera að tækifæri til að vaxa og þroskast sem manneskja frekar en að láta þessa ytri atburði buga sig.
Því sem ég þakka fyrir þessa hugarró er fyrst og fremst kynni mín af heimspeki, sem er í raun pælingar um allt það sem hefur vægi í lífi okkar: siðferðið, rökhugsunin, þekkingin, fegurðin og heimurinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Stóískt hugarfar: innri styrkur gegn ytra mótlæti
18.11.2023 | 23:26
Nú standa Grindvíkingar í þeirri íþrótt að fá að fara inn á heimili sitt með nokkurra daga millibili og kannski fá að sækja eitthvað af eigum sínum. Það er til dæmis ekkert sjálfsagt að eiga sinn eigin borðbúnað, þar með talið Italaglös og Múmínbolla, bækur, rúm, sófa eða borðstofuborð, sjónvarpstæki, hjól, dekk undir bílinn, verkfærakassa, mat í ísskáp eða frysti, grilla úti, grípa í skákborðið eða spil.
Það er ekki hægt að bjóða fjölskyldu í mat, passa barnabörnin, skreppa saman út á róluvöll eða búð. Það er svo margt sem hefur færst algjörlega til hliðar þessa dagana. En samt halda flestir stóískri ró sinni. Æðruleysið og róin hafa verið umtöluð þessa dagana, þrátt fyrir að fólk sé ósátt með stöðuna og gagnrýni yfirvöld af hörku. Það má. Sannur stóuspekingur myndi sjálfsagt geta yppt öxlum yfir þessum veraldlegu eigum, og viðurkenni ég fúslega að vera ekki kominn nógu langt í sjálfsaga til að flokkast sem slíkur, en viðleitnin er þó til staðar.
En nú langar mig að velta aðeins fyrir mér hvað það þýðir að vera stóuspekingur, enda hefur því ansi mikið verið fleygt fram undanfarið að Grindvíkingar séu afar stóískir. Þar sem ég hef sjálfur stúderað þetta hugtak og reynt að haga mér í samræmi við dyggðir hennar til margra ára, finnst mér sjálfsagt að deila einhverju smáræði af pælingum um stóuspeki og stóuspekinga.
Stóuspekingur lítur á dyggðir sem það dýrmætasta í tilverunni. Þær dyggðir sem stóuspekingar verja mestum tíma í að byggja upp í eigin persónuleika eru viska, hugrekki, réttlæti og hófsemi. Stóuspekingur reynir að láta ytri atburði hafa sem minnst áhrif á sig, og er fær um að öðlast ró með skynsemi og rökhugsun að vopni. Þeir gera skýran greinar mun á því sem þeir geta og geta ekki stjórnað. Þeir leitast við að haga sér í samræmi við dyggðirnar eins og ekkert sé sjálfsagðara.
Annars eru stóuspekingar eins og flestar aðrar manneskjur, þeir hafa sína galla, eru ekki fullkomnar manneskjur, en átta sig á hversu gott getur verið að hafa stjórn á því sem er innan umfangs þeirra.
Stóuspekingar eru ekki tilfinningalausir. Þeir tala ekki um að eyða tilfinningum, heldur að hafa stjórn á þeim með rökhugsun og á uppbyggilegan hátt.
Stóuspekingar eru ekki bölsýnir. Þeir hvetja fólk til að vera raunsætt og horfa á lífið með hlutlægum hætti, rétt eins og vísinda- og fræðimenn gera. Með þeim hætti geta þeir verið betur undir það búnir að sætta sig við það sem þeir geta ekki breytt, en það þýðir ekki að þeir verði að búast við hinu versta.
Stóuspekingar hafna ekki gleði og ánægju. Þeim getur þótt gaman að syngja, dansa og geta auðveldlega haft góðan húmor. Yfirleitt eru þeir auðmjúkir og tilbúnir að hlusta á annað fólk, en standa nokkuð traustir fyrir þegar kemur að eigin hugsunarhætti, sem þýðir þó alls ekki að þeir séu þrjóskir.
Stóuspekin er ekki bara fyrir fáein gáfnaljós sem komast í háskóla, heldur fyrir alla, óháð menntunarstigi, því hún snýst um visku í hversdagslífinu, óháð menntastigi eða gáfum.
Stóuspekin er ekki trúarbrögð en krefst andlegs aga og trú á mátt hugans. Í stóuspekinni má finna pælingar um dyggðina og eðli alheimsins, en krefst ekki neinnar ákveðnar andlegrar trúar. Einstaklingar geta stundað stóuspeki óháð trúarbrögðum.
Stóuspekingar eru ekki óvirkir og leiðinlegir í samböndum, heldur leggja þeir mikla áherslu á rækt við sambönd sín, sem byggir á virðingu, skilningi og kærleika. Þeir átta sig á að við endum lífið einhvern tíma og meta þá lífið sjálft ennþá meira fyrir vikið, en alls ekki meira en dyggðirnar. Líf, dauði og heilbrigði eru hlutlaus fyrir stóuspekinginn á meðan hið góða og illa er eitthvað persónulegt sem við veljum sjálf eða höfnum í okkar tilvist.
Stóuspekin er alls ekki útdauð. Ein öflugasta hreyfing sálfræðinnar í dag, hugræn atferlismeðferð, byggir á stóuspeki að mestu leyti, þar sem gerður er greinarmunur á því sem við getum stjórnað og getum ekki stjórnað, því sem er raunverulegt og því sem er ímyndun. Stóuspekin getur gagnast við að stjórna álagi, taka góðar ákvarðanir og finna djúpstæða ánægju í lífinu, sama hvað gerist eða bjátar á.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Íslands hugrökku hjörtu: að finna æðruleysi í náttúruhamförum
17.11.2023 | 20:16
Grindvíkingum hefur mikið verið hrósað upp á síðkastið fyrir æðruleysi. Það sama var reyndar upp á teningnum þegar Vestmannaeyjagosið reið yfir, snjóflóð síðustu ár og áratugi, þetta heyrðist í Suðurlandsskjálftanum og þegar Eyjafjallajökull gaus. Náttúran lætur ansi oft í sér heyra á Íslandi, og þegar manneskjur verða fyrir henni virðist æðruleysið vera eitthvað sem við dáumst að. En hvað er æðruleysi?
Æðruleysi er þessi tilfinning að finna til rósemdar innra með okkur þrátt fyrir allt virðist vera galið fyrir utan okkur. Það er svolítið eins og að húka inni í öruggu steinhúsi í miðjum stormi, þar sem snjórinn þekur allt og hvín í vindinum. Þó að það verði rafmagnslaust er hægt að kveikja á kerti. Þó að hitinn fari af, þá er hægt að klæða sig vel og klappa sér til hita. Við getum alltaf fundið einhverja ljóstýru í okkur sjálfum, eitthvað sem hjálpar okkur að viðhalda ró sama hvað á bjátar.
Reyndar hef ég heyrt fólk tala um að þetta sé ekki hægt, að halda innri ró við gríðarlega erfiðar aðstæður. Einhvern tíma hefði ég kannski trúað því sjálfur, en í dag hef ég reynt það á sjálfum mér, að sama hversu erfiðar aðstæðurnar eru, þá hefur mér tekist að viðhalda nógu mikilli hugarró til að gera það sem þarf að gera þegar þarf að gera það.
Að finna fyrir hugarró þýðir ekki að maður finni ekki fyrir tilfinningum eins og depurð eða sorg, heldur að hugarfar manns verði nógu sterkt til að virka þrátt fyrir allar þessar tilfinningar sem geta sprottið upp við ólíkar aðstæður. Sem dæmi, þá getur manneskja sem þekkir ekki hræðslu ekki verið hugrökk, því hún hefur enga hræðslu til að yfirstíga, en hugrekki snýst um að ná stjórn á eigin hegðun þrátt fyrir hræðslu.
Út frá heimspekilegu sjónarhorni þá getum við öðlast slíka hugarró með því að öðlast skilning á tilvist okkar og stöðu okkar í tilverunni. Stóuspekingar sætta sig við að erfiðleikar eiga sér stað í lífinu og margt gerist sem við höfum enga stjórn á, en að vald okkar felist í hvernig við bregðumst við. Okkur gæti þótt tilvistin vera svolítið geðveik, þar sem hún hefur allt annan gang en vilji okkar og langanir, en reynsla okkar á tilverunni getur hjálpað okkur að öðlast þetta rólyndið sem æðruleysið er.
Það mætti kalla æðruleysið jafnaðargeð, og lykillinn að því er að átta sig á hvað það er sem við ráðum við og því sem við ráðum ekki við, og greina þar á milli.
Þannig hefur æðruleysisbænin eftir Reinhold Niebuhr djúpt gildi, óháð því hvort við trúum á eða höfum hugmynd um hvað Guð merkir:
Guð gefi mér æðruleysi
til þess að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt
kjark til að breyta því sem ég get breytt
Og vit til að greina þar á milli.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Að sjá ljósið úr vitanum í lífsins ólgusjó
16.11.2023 | 21:08
Á morgun fæ ég tækifæri til að heimsækja heimilið mitt. Fæ fimm mínútur til að fara inn, stinga í poka, og koma mér svo út aftur. Ástæðan fyrir fimm mínútum sýnist mér vera nokkur skýr. Átta manns fara í bifreið hjálparsveitarinnar og stoppað er fyrir framan þessi átta hús, og hver einstaklingur fær fimm mínútur og þarf að koma til baka. Það er ekki hægt að skilja fólk eftir í húsunum, bifreiðin þarf að vera nálægt ef til nýrrar rýmingar kemur.
Ég er þakklátur fyrir hverja mínútu sem ég fæ og ætla að gera mitt besta til að nota hverja einustu þeirra mjög vel. Til þess þarf ég eitthvað af visku og hugrekki. Undirbúningur minn felst í að gera lista þar sem ég forgangsraða ákveðnum hlutum eftir herbergjum í húsinu. Markmiðið er að fara eftir þessum lista og ná öllum þeim hlutum sem eru á honum. Ég veit að þegar að augnablikinu kemur er hugurinn líklegur til að fara í allar áttir, truflaður af tilfinningum sem geta ruglað mig, en þá þarf einmitt hugrekki til að sigrast á öllum þessum tilfinningum og halda starfinu áfram.
Allt þetta fær mig til að velta fyrir mér hvar ég er staddur og af hverju ég er þar, og þá er ég að velta því fyrir mér í stærra samhengi en því að vera flóttamaður í eigin landi, heldur sem manneskja í þessum heimi sem lifir í dag.
Á ferðalagi mínu um heiminn hef ég rekist utan í risa hugsunar eins og þá Epíktet og Platón. Raddir þeirra bergmála gegnum aldirnar, ekki aðeins í gegnum þeirra eigin rit, heldur endurómar speki þeirra víða og oft í ritum annarra heimspekinga. Viska þessara manna hefur vísað mér veginn áratugum saman og sífellt finn ég eitthvað frá þeim sem kveikir ferskar pælingar í mínum huga, þessi viska hefur stýrt mér ágætlega í gegnum lífsins ólgusjó, sérstaklega á degi eins og deginum í dag. Þegar ég kynntist þessum heimspekingum fyrst var skilningur minn á lífinu og tilverunni frekar grunnur, og var í raun lífsins ólgusjór í sjálfu sér.
Þrátt fyrir að Epíktet hafi verið þræll í Róm fyrir rúmlega 2000 árum finnst mér hann vera æðislegur félagi, sem hvíslar einhverju skemmtilegu að mér hvern einasta dag. Ég skil hann vel og er þakklátur honum fyrir að vera frábært dæmi um manneskju sem stýrir lífi sínu með heimspekinni, sem reyndist honum eins og viti í myrkri, sem stýrði honum og hefur stýrt mér í rólegan fjörð. Þó að heimurinn sé í algjöru rugli, þýðir það ekki að við þurfum að vera það líka, því ef við höfum trausta heimspeki sem bakland okkar, finnum við stöðugt góða leið úr öldurótinu.
Á meðan heimspeki Epíktets er eins og bjartur viti er heimspeki Platóns eins og hafið allt, djúpt og dularfullt, seiðandi og spennandi. Mig langaði að geta siglt um þá speki, kafað djúpt þegar það átti við og flogið aðeins yfir það með tíð og tíma. Það er sérstaklega tvennt sem risti djúpt í minni mitt, Hellislíkingin og lýsing hans á síðustu dögum Sókratesar, og hvernig Hellislíkingin er myndhverfing af lífi og dauða Sókratesar.
Platón kenndi mér það sem ég reyni sífellt að læra betur, að sýna auðmýkt þegar kemur að hugmyndum sem ég tel mig þekkja, því það þarf yfirleitt ekki langa samræðu eða djúpar spurningar til að maður átti sig á hvernig hvert einasta hugtak á sér ólíkar víddir, sem birtist á ýmsan hátt í ólíkum hugum. Hann gaf mér tilefni til að velta fyrir mér ódauðleika sálarinnar og óvissunni um hvað dauðinn er. Hann hjálpaði mér að átta mig á hversu rík óvissan getur verið og hvernig hún getur sjálf reynst vera leiðarljós fyrir hvernig maður lifir lífinu.
Heimspekileg iðkun mín hefur verið fræðileg en líka miklu meira en það, hún hefur reynst praktísk, gagnleg, hún hefur hjálpað mér að víkka hugarfar mitt og þannig hjálpað mér að ná fljótt yfirsýn yfir ólíklegustu hluti. Þetta hefur gagnast mér í lífi og starfi. Hugsun mín er yfirleitt nokkuð skýr, og ég er þakklátur fyrir það, en það er ekki eitthvað sem mér var gefið, heldur fólst heilmikil vinna í að öðlast þennan skýrleika sem ég bý yfir í dag, og ennþá er heilmikið verk fyrir höndum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tilfinningadoði og æðruleysi: Grindvíkingar berjast fyrir tilveru sinni
15.11.2023 | 20:33
Það er skrýtin tilfinning að þurfa að yfirgefa heimilið sitt sem maður er búinn að setja þrotlausa vinnu í til að eiga gott og fallegt heimili fyrir fjölskylduna, maður getur eiginlega ekki lýst því hvernig manni líður, ef ég tala fyrir hönd fjölskyldunnar þá líður okkur ekki illa, okkur líður ekki sæmilega og okkur líður samt ekkert vel, okkur líður bara. - Sigurður H. Hallfreðsson
Ég gæti ekki verið meira sammála stjúpsyni mínum, sem ég vitna í hér að ofan. Það erfiðasta fyrir okkur er óvissan, að vita ekki hvað verður, hvort húsin okkar fari undir hraun eða sökkvi í jörðu, hvort flæði yfir þau, hvort hitaveiturör springi inni í húsi og eyðileggi þannig það sem eftir er af eigum okkar.
Við höfum áhyggjum af húsnæðislánum sem þarf annað hvort að borga af eða munu halda áfram að safna vöxtum þá mánuði sem hægt verður að frysta lánin. Mér var tjáð að öll gjöld verði felld niður og að afborganir af bæði höfuðstöð og vöxtum verði frystar, en staðreyndin er sú að höfuðstóllinn getur hækkað um milljónir á meðan allt er fryst, sem þýðir að endurgreiðslan verður mun meiri ef maður sleppir því að borga einhverjar greiðslur. Þetta er svolítið eins og að fá matarbita að gjöf, með því skilyrði að maður greiði fimm ísskápa fullum af mat til baka.
Það eru liðnir afar erfiðir dagar fyrir Grindvíkinga síðan rýmt var vegna gríðarlegra jarðskjálfta og komandi eldgoss undir bænum. Ég finn til kvíða aldrei þessu vant, mér bregður þegar ég heyri drunur og hvelli, og er stöðugt með einhvern óþægindahroll, nánast sama hvert ég lít. Ég hef áhyggjur af fólkinu í kringum mig og vil gera mitt besta til að þeim líði vel og finni til öryggis.
Ég vil vinna mína vinnu og halda áfram að styðja mína skjólstæðinga með fullum krafti, en kannski með meiri hjálp teymisfélaga minna en oft áður. Mér hefur verið boðin gisting hér og þar á Íslandi, einnig í Bandaríkjunum, Noregi og Tyrklandi. Mér þykir afar vænt um alla þessa samstöðu, bæði frá íslenskum og erlendum vinum mínum, sem sýnir að við erum öll ein fjölskylda, þrátt fyrir ömurlegar styrjaldir sem geysa vegna þess að leiðtogar hafa lélegt hugarfar og haga sér eins og þeir eigi löndin sem þeim er ætlað að þjóna.
Á dögum eins og þessum, þegar raunhæfar líkur eru á að heimilið og flestar eigur manns verða undir hrauni eftir nokkrar vikur, það er þá sem manns sanna manngerð ætti að koma í ljós. Vissulega hefur þetta verið mikill tilfinningarússíbani sem skilur mann eftir dofinn og starandi út í loftið, maður hefur áunninn athyglisbrest þar sem ég heyri varla lengur hvað fólk segir nema ég beiti allri minni athygli, og þegar minnstu jarðskjálftar ríða yfir fæ ég kvíðahnút í magann.
Við ráðum ekki við þær tilfinningar sem við upplifum, þær koma sama hvað, rétt eins og náttúran hlustar hvorki á langanir okkar né vilja, og ryðst yfir okkur án nokkurrar tillitssemi. Þó að við elskum náttúruna, er ég ekki viss um að hún elski okkur.
Það eina sem við getum ráðið við er hvernig við vinnum úr þeim hlutum sem gerast, hvort sem það eru sterkar tilfinningar eins og ástríður eða ótti, efnislegir hlutir eins og árekstrar, sjúkdómar, náttúruhamfarir eða annað. Í huga okkar koma alls konar hugsanir, tilfinningar og langanir, en með sjálfsaga og skilningi getum við lært að vinna úr þessu öllu saman, sem síðan birtist í hugsunarhætti og hegðun.
Ef okkur tekst að haga okkur af æðruleysi og heilindum á meðan hamfarir ganga yfir, gefur það til kynna að okkur hefur tekist að þroska með okkur dyggðir eins og hugrekki, visku og hófsemi. Það sýnir að kringumstæðurnar ráða ekki yfir okkur, þó að við ráðum ekki yfir þeim, heldur að við ráðum yfir sjálfum okkur óháð kringumstæðum.
Sama þó að við vinnum stöðugt í að verða betri manneskjur með að vinna í dyggðum okkar þýðir það alls ekki að við verðum að einhvers konar ofurmennum eða dýrlingum, heldur að fólki sem er meðvitað um hvernig við erum, hvaða tilhneigingar við höfum, og lærum að vinna úr þeim á heilbrigðan hátt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Afbrot ljósmyndara RÚV í Grindavík: dyggðir og lestir þegar kemur að skilningi og blaðamennsku
14.11.2023 | 18:07
Í dag reyndi ljósmyndari RÚV að brjótast inn á yfirgefið heimili í Grindavík. Hvernig honum datt þetta í hug veit ég ekki, en þarna var hann að brjóta alvarlega af sér í starfi, með því að fremja innbrot, sem virðist stafa af því að hann vildi ná góðum myndum af því sem var í gangi, hann vildi líkast til útskýra hlutina það vel og mikið að hann þjónaði öllum þeim fréttaþyrstu sem fylgjast með fréttum, og þannig gleðja bæði yfirmenn sína og áheyrendur, en gleymdi að taka tillit til tilfinninga og réttar þeirra sem eiga eignina. Fréttir um þetta eru til dæmis á mbl og Vísi.
Annað dæmi er þegar fréttamaður stendur alltof nálægt sprungu í miðjum bæ til að sýna fréttaþyrstum almenningi hvað er að gerast í bænum. Á sama tíma fá íbúar bæjarins ekki að fara inn á heimili sín til að nálgast eigur sínar. Af hverju velta yfirvöld og blaðamenn ekki fyrir sér hvernig fólki líður þegar það sér þessa hluti eiga sér stað? Þetta má sjá á myndskeiði hjá RÚV, aftur frekar vafasamt siðferði hjá blaðamanni og fréttastofu.
Þú afsakar, kæri lesandi, að ég vil ekki bara hneykslast á þessari hegðun þó hneykslaður sé, heldur reyna að draga lærdóm af þessu, og átti mig á hvað var gert vitlaust. Mig grunar að hér hafi verið skortur á skilningi milli þess sem er góð hegðun og slæm hegðun, sem tengist í raun dygðum og löstum sem tengjast skilningnum sjálfum.
Þetta, ásamt lestri á fornri stóuspeki um dygðir og lesti, varð til þess að mig langaði að velta fyrir mér af hverju mikilvægt er að þekkja muninn á góðri og slæmri hegðun gegnum dygðir og lesti, og mig langar til að alhæfa, þó alhæfingar séu yfirleitt varhugaverðir, að dyggðir séu alltaf góðar og lestir alltaf slæmir.
Það sem ekki allir gera sér grein fyrir er hvernig dyggðir og lestir spila saman, svolítið eins og jafnvægið á vegasalti. Dyggðin er alltaf fyrir miðju í fullkomnu jafnvægi, en lestirnir eru sitthvoru megin, ef annar þeirra vegur þyngra en hinn mun sætið festast niðri, og hinn endinn vera alltof hátt uppi. Samt verður dyggðin í miðjunni alltaf söm. Það er nefnilega alltaf hægt að finna jafnvægið aftur þó að það tapist um stundarsakir.
Dyggðirnar eru fjölmargar og lestirnir ennþá fleiri. Því skiptir það máli að vera meðvitaður um það sem maður hugsar og gerir, hvern einasta dag, hverja einustu stund sem maður lifir lífinu. Það getur verið freistandi að brjóta af sér öðru hverju, sletta úr klaufunum, leika sér aðeins, en þá þarf að gæta þess að maður festist ekki á öðrum endanum.
Tökum dæmi um eina dyggð, sem er sú að leitast við að skilja hlutina. Lestirnir sem tengjast þessari dyggð eru svo miklu fleiri og meira freistandi að ef manneskjan er ekki vel meðvituð um eigin hugsunarhátt, reglur rökfræðinnar og vísindalæsi, getur hún auðveldlega fallið í lestina.
Hér langar mig að minnast á nokkra lesti sem tengjast skilningi, en eru semsagt það sem leiðir til skilningsleysis:
Dómharka getur verið frekar erfiður löstur. Hún á sér stað þegar manneskja annað hvort aflar sér ekki nógu góðra upplýsinga um aðstæður eða mistekst að tengja þær saman þannig að skilningur sé skýr. Slík dómharka er megin forsenda fordóma, sem geta snúið að hverju því sem við skiljum ekki vel.
Trúgirni getur verið jafn erfið fyrir þann sem leitar skilnings. Ef við trúum öllu sem við heyrum, óháð áreiðanleika eða sönnunargagna, trúum bara því sem okkur langar, höfum þær skoðanir sem okkur sýnist, þá erum við í raun að koma í veg fyrir okkar eigin skilning á málunum, því góður skilningur krefst þekkingar og upplýsinga sem eru sannar og byggja á staðreyndum og traustum rökum.
Skeytingarleysi er önnur orsök skilningsleysis, því sá sem skeytir ekki um að hlusta á aðra manneskju eða upplýsingar, er ekki líklegur til að meðtaka þær. Hver hefur ekki reynt að ræða við manneskju sem sýnir því sem maður hefur að segja engan áhuga. Slík manneskja, ef hún hlustar á annað borð, getur verið blind gagnvart tilfinningum annarra eða því sem við köllum að lesa herbergið. Afskiptaleysi leiðir til skorts á samkenndar og samúð, enda reynir hin skeytingalausa manneskja ekki að setja sig í spor annarra.
Of miklar útskýringar geta einnig komið í veg fyrir skilning. Þetta gerist þegar við teljum okkur vita eitthvað með nógu mikilli fullvissu og við fyllumst slíku sjálfstrausti að okkur finnst við skilja til botns einhvern ákveðinn hlut. Það sem getur gerst er að sá sem útskýrir sinn eigin skilning fyrir öðrum gleymir að taka til skilnings manneskjunnar sem rætt er við, sem getur þá breikkað bilið milli skilnings og vanskilnings. Eina lækningin sem ég þekki við þessum lesti er að sýna auðmýkt, það að við áttum okkur á að við skiljum ekki allt sem við teljum okkur skilja, og áttum okkur á því að fullkominn skilningur er ekkert annað en tálsýn.
Afskiptasemi er enn einn lösturinn. Í stað þess að velta fyrir sér því sem maður er sjálfur að hugsa um, og hefur einstaklega mikinn áhuga á, þá getur freistingin orðið sú að mann langi að deila með öðru fólki. Þegar maður deilir slíkum upplýsingum með fólki sem engan áhuga hefur á þeim, getur þeim þótt eins og verið sé að troða í þau upplýsingum sem þau langar ekkert í. Þetta hafa skólakerfi víða um heim verið gagnrýnd fyrir, og sér ekki enn fyrir endann á því.
Hroki getur komið í veg fyrir bæði eigin skilning og annarra, því hroki felur í sér að maður telur sjálfan sig vita eitthvað sem maður veit ekki. Minnisstætt er þegar Sókrates áttaði sig á að hann væri vitrari en annað fólk vegna þess að hann áttaði sig á takmörkum eigin skilnings, hann þóttist ekki vita eitthvað sem hann vissi að hann vissi ekki, á meðan margir góðir samfélagsþegnar töldu sig vita hluti sem þeir höfðu ekki hugmynd um, deildu þessari vanþekkingu og fólk sem ekki veit betur tekur upp þessar hugmyndir án gagnrýnnar hugsunar. Þetta gerist ennþá, oft á dag, í daglegu tali og fjölmiðlum.
Það væri hægt að telja upp marga fleiri lesti tengda skilningi, sem eru þá athafnir og hugsunarháttur sem kemur í veg fyrir skilning, hjá okkur sjálfum og öðrum. Það eru semsagt margar hættur á hinum gullna meðalvegi, sem er að gera allt það sem við getum gert til að öðlast betri skilning. Gagnrýnin hugsun er í miklu uppáhaldi hjá mér sem góð dyggð að djúpum og traustum skilningi, en til þess að hægt sé að beita henni, þurfum við að skilja hvað gagnrýnin hugsun er, sem þýðir að við þurfum að læra, sem er svo önnur dyggð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5 mínútur til að bjarga því sem bjargað verður
13.11.2023 | 21:16
Nauðsynlegustu eigurnar sóttar
Dagurinn í dag er dagurinn sem ég fann að ég var háður yfirvaldi meira en oftast áður, og minnti mig svolítið á dag fyrir rúmum 20 árum í Mexíkó þegar hermaður bankaði upp á heima hjá mér, rétti mér sveðju og skipaði mér að höggva tré í sundur sem fallið höfðu á göturnar eftir fellibyl.
Um hádegisleytið hafði konan mín símasamband en ég var í vinnu og lét mig vita að opnast hefði tækifæri fyrir okkur til að sækja nauðsynlega hluti á heimili okkar í Grindavík, og að það yrði hleypt inn á okkar svæði klukkan 13:00. Ég lauk kennslu fimm mínútum áður en henni átti að ljúka, kvaddi nemendur mína, sem vissu reyndar að ég hafði verið að bíða eftir slíku símtali, og rauk svo á dyr, upp í bíl og leiðin lá til Grindavíkur, nú gegnum Hafnarfjörð og Krýsuvík, enda allar styttri leiðir ófærar þar sem vegir eru farnir í sundur.
Ég hitti konuna mína í Hafnarfirði og við fórum á tveimur bílum, lentum í gríðarlegri bílaröð sem silaðist afar hægt áfram. Loks komum við að gatnamótum þar sem einn lögreglumaður sagði okkur að við hefðum sjö mínútur til að fara inn og út af heimili okkar, til að finna og taka með okkur allt það nauðsynlega sem við þurfum á meðan neyðarlögin standa yfir. Næsti lögreglumaður sagði að við hefðum fimm mínútur og að við ættum að keyra að Fagradalsfjalli og leggja þar.
Þegar við komum að Fagradalsfjalli, stoppaði ég hjá Björgunarsveitarmönnum og spurði þá hvernig staðan væri, og þeir sögðu okkur að keyra rakleitt í bæinn og upp að húsinu, að opið væri inn í bæinn til kl. 16:00 en þá þyrftum við að fara aftur út úr bænum.
Við höfðum skrifað niður Excel lista í tveimur litum yfir forgangsatriði til að klára, og okkur tókst að klára þá og koma okkur svo út úr bænum á góðum tíma. Við náðum ekki bara öllu sem var á listanum, heldur nokkrum munum til.
En það sem mér fannst sérstakt yfir daginn var hvernig yfirvöldin voru ekki samkvæm sjálfum sér, eins og upplýsingar væru jafn kvikar og hraunflæðið undir Grindavíkurbæ, og ég áttaði mig á að undirbúningur okkar með Excel listanum og innsæið, og það að drífa okkur í verkið, það var nákvæmlega það sem skilaði mestu.
Við vorum staðföst þó að upplýsingarnar voru á reiki.
Út frá því velti ég fyrir mér hvers konar upplýsingar það eru, eða ákvarðanir, sem við ættum að fallast á, án gagnrýnnar hugsunar, og fékk nokkur svör við þeirri spurningu eftir frekar stutta umhugsun.
Við þurfum ekki að biðja yfirvöld um leyfi eða heimild þegar við veljum liti til að mála málverk, heldur veljum við aðeins þá liti sem okkur líst best á þá stundina, og út frá hugmynd okkar um það sem okkur langar að mála. Kannski verður okkar eigin hugmynd þá yfirvaldið og heimildin í þessu tilfelli.
Eins þegar við ákveðum hvaða tónlist við hlustum á. Við gætum látið Spotify velja tónlistina fyrir okkur, en ég heyrði af manni um daginn sem sagðist viljandi forðast það að láta Spotify velja fyrir sig, því hann vildi ekki trúa því að hann væri algjörlega fyrirsjáanlegur þegar kæmi að tónlistarsmekk, og hann vildi uppgötva eftirlætis tónlist sína sjálfur.
Eftir að hafa orðið að flóttamanni í eigin landi þá kann ég ekkert meira að meta en tvennt: að hafa öruggt þak yfir höfuðið og ræða við vingjarnlegt fólk. Þegar ég fór í Smáralind í gær að leita mér eftir fötum, því þau sem ég var í voru orðin svolítið þreytt eftir flóttann, þá kom mér skemmtilega á óvart hversu vel sumir starfsmenn verslana tóku á móti okkur. Í Dressman var okkur boðið upp á 30% fyrir það eitt að vera í neyð, Símaveski.is gáfu Grindvíkingum hleðslutæki, og síðan hefur fjöldinn allur af fyrirtækjum fylgt í kjölfarið og boðið upp á afslætti fyrir okkur. Velvildaróskum rignir yfir okkur, ekki aðeins frá íslenskum vinum og kunningjum, heldur einnig frá vinum úr öllum heimshornum.
Á þessum dögum fáum við að sjá það besta í fólki, og ég er þakklátur fyrir það, en óska þess jafnframt að þessi hlið væri sýnileg í orði okkar og verkum alla daga ársins.Það að kunna að meta slíkt þarfnast að sjálfsögðu engrar heimildar eða yfirvalds annars en skilnings okkar og samvisku á hvað það er sem er gott.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í dag vitum við ekki hvort við séum heimilislaus
12.11.2023 | 09:18
Það er svo margt sem við vitum ekki.
Fyrir tveimur dögum bjó ég á heimili mínu þar sem ég settist daglega í þægilegan skrifstofustól, kveikti á tölvu, greip bók úr hillu og tók til við að lesa. Á því augnabliki datt mér ekki í hug að tveimur dögum síðar væru margar götur og hús í bænum stórskemmd vegna jarðskjálfta og eldsumbrota undir yfirborði jarðar.
Samt hefði ég ekki ímyndað mér það með þeim nákvæmlega hætti sem hlutirnir gerðust. Ég gat ekki séð fyrir að skjálftar yrðu svo harðir og tíðir að 5 ára barnabarn okkar yrði svo skelkuð að það hjálpaði okkur að samþykkja neyðina til að fara úr bænum. Ekki datt mér í hug að ég myndi gleyma að taka með mér sundskýlu og íþróttabuxur, og að konan myndi gleyma veskinu sínu og prjónabók. Ekki datt mér í hug að bærinn yrði rýmdur og neyðarlög sett á rétt eftir að við vorum komin út úr bænum. Ekki datt mér í hug að vera í langri bílaröð á leið út úr bænum á föstudagskvöld, eftir vel heppnaðan og góðan vinnudag.
Það er svo margt óvænt sem gerist í þessu lífi, og það gerist hvern einasta dag. En yfirleitt þegar það gerist áttum við okkur á að það hefði alltaf getað gerst og samþykkjum þessa hluti sem eðlilega og náttúrulega.
En svo langar mig að velta fyrir mér hvort við getum vitað hvað er ómögulegt í dag og virðist okkur ómögulegt um alla tíð, sem er svo kannski eitthvað sem í raun og veru getur gerst. Ágætis æfing er að hugsa 200 ár aftur í tímann og reyna að átta okkur á hvernig sá veruleiki var.
Fyrir 200 árum var ekki til einn einasti bíll á Íslandi, og ég man sem krakki að ég ímyndaði mér vetnisbíla í framtíðinni, en að maður fylli slíkan bíl með vatni og síðan kljúfi í sundur vetnið og súrefnið þannig að vetnið keyri bílinn áfram og súrefnið sé eina mengunin sem af verður. Þetta fannst mér möguleg hugmynd þá, og enn þann dag í dag get ég séð hana skýrt fyrir mér. Hugsaðu þér að fá innsýn í Ísland árið 2023, ef þú lifir lífinu árið 1823, hversu ólíkir þessir heimar eru, en samt jafn náttúrulegir og raunverulegir.
Ef við hugsum um alla tæknina sem við höfum í dag. 19 ára skrifaði ég vísindaskáldsögu um mann sem gat lesið fréttirnar á tölvunni sinni og prentað út það sem honum fannst áhugaverðast til að lesa betur. Hann átti líka úr með vekjaraklukku sem hann gat stoppað með snertingu. Þetta var ekki til þá, en í dag höfum við Netið, fréttamiðla á netinu, og Apple Watch. Allt er þetta orðið að veruleika.
Það sama má segja um síma. Það voru engir símar á Íslandi fyrir 200 árum, og þegar við veltum því fyrir okkur er alls ekki svo langt síðan. Það þarf ekki nema tvær 100 ára manneskjur til að fylla upp í þessi ár, og ef maður er kominn út í þessa sálma, þá þurfum við ekki nema 10 hundrað ára manneskjur til að fylla upp í 1000 ár. Væri ekki gaman að halda veislu með 100 hundrað ára gömlum manneskjum og ímynda okkur að við gætum nýtt hvert ár þeirra til að ferðast aftur í tímann og síðan í framtíðina? Við værum að tala um 10.000 ár í einum sal.
Hvernig ætli Ísland verði eftir 200 ár, hvað af því sem okkur þykir ómögulegt í dag gæti verið veruleiki þá, óháð því hverju við trúum að verði mögulegt eða ekki?
Getur verið að sjónvarpstæki verði ekki lengur til og þess í stað verðum við búin að finna út leið til að upplifa sögur með öðrum hætti, til dæmis með einhvers konar linsum og heyrnartækjum, jafnvel svo vel byggðum að þau geti vaxið með líkama okkar og við tökum aldrei eftir þeim? Gæti verið að öll farartæki verði sjálfstýrð af gervigreind til að koma í veg fyrir slys á fólki? Gæti verið að einhver snillingur geti fundið upp efni sem lagar sig sjálft eftir að það hefur verið brotið, og götur og hús verið byggð með slíku efni, jafnvel með einhvers konar örsmáum vélmennum sem hafa það hlutverk eitt að halda hlutum saman þegar eitthvað bjátar á?
Kannski verða vélmenni og gervigreind út um allt, mun víðar en í dag. Ég hef komist í snertingu við það sem hún getur gert í dag og finnst það geggjað. Þetta er þróun á tækni sem kveikir svo sannarlega á ímyndunaraflinu, getur gert samfélagið betra svo framarlega sem við leyfum tækninni að þróast á eðlilegan hátt.
Það væri jafnvel mögulegt að koma á stjórnskipun sem hefði gervigreindina sem nauðsynlegan hluta af stjórnsýslunni, og gæti tekið þátt í að hugsa mikilvægar ákvarðanir til enda. Hugsanlega gæti gervigreindin komið í stað dómara og lögfræðinga, rétt eins og hún getur skipt út starfsmönnum á bensínstöðvum og við búðarkassa, en þá fengju hinir löglærðu sjálfsagt ný hlutverk, við að þróa, fylgjast með og gæta þess að gervigreindin vinni störf sín vel.
Þetta þýðir að vinna fyrir fólk þyrfti endurskilgreiningu, en við höfum séð vinnu sem nauðsynlega til þess að viðhalda dyggðum okkar, gera það sem er rétt og gott til að vinna okkar skili árangri, og þá þyrftum við hugsanlega að finna aðrar leiðir til að þjálfa okkur í að lifa lífinu vel. Hugsanlega gæti það þýtt að vinnudagurinn færi fram í sýndarheimi og væri einhvers konar leikur þar sem við þjálfuðum okkur í að bæta styrkleika okkar með einum eða öðrum hætti, sérstaklega ef tæknin verður búin að taka yfir flest raunveruleg störf.
Kannski yrði líf okkar þá að miklum hluta í sýndarheimi?
Því margt af því sem við gerum í vinnunni frá degi til dags, hefur djúp áhrif á hvernig við lifum lífinu og komum fram við okkar nánustu. Þetta þurfum við að halda áfram að læra.
En já, við hljótum að geta með auðveldum hætti séð fyrir okkur að við sjáum framtíðina ekki fyrir okkur, og að verra væri að óttast framtíðina heldur en að taka virkan þátt í að þróa hana, því hún kemur með eða án okkar þátttöku, en við munum svo sannarlega finna fyrir henni þegar hún er komin til að vera.
En samt, margt af því sem við getum ímyndað okkur að gerist síðar meir, mun aldrei gerast, og er ekkert annað en ímyndun, og við verðum að sætta okkur við að erfitt getur verið að átta sig á hvað verður og hvað verður aldrei, og að þetta sé eitthvað sem við munum aldrei vita að fullu. Samt er allt þetta sem við getum ímyndað okkur mögulegt, hvort sem það verður að veruleika eða ekki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Grindvíkingar: flóttafólk í eigin landi og æðruleysið
11.11.2023 | 08:24
Gærdagurinn var súrrealískur og framhaldið er það líka. Við flúðum Grindavík um kl. 19:00 þar sem barnabörn sem við gættum voru orðnar óttaslegnar vegna jarðskjálfta, og við vildum umfram allt koma þeim í skjól. Neyðarástand var í bænum en á algjörlega persónulegum forsendum. Við keyrðum ekki rakleitt í bæinn, enda Grindavíkurvegurinn farinn í sundur, heldur ókum Suðurstrandaveginn alla leið til Hveragerðis því við vorum meðvituð um sterka jarðskjálfta í Þrengslunum og við Raufarhólshelli sem höfðu átt sér stað síðustu daga. Og um kl. 2 í nótt kom barnabarn í heiminn.
Það hefur verið afar fallegt að heyra í fjölskyldu, vinum og kunningjum nær og fjær boðin og búin að bjóða aðstoð og húsnæði. Við fundum skjól í íbúð foreldra minna. Svolítið sérstakt að vera fluttur heim kominn yfir fimmtugt. Það sama hefur heyrst frá öðrum Grindvíkingum, þeim er tekið með opnum örmum víða um samfélagið. Fátt er fallegra en slík gjafmildi. Þarna þekki ég Ísland æsku minnar.
Þetta ástand vekur vissulega upp minningar, í raun eru þetta þriðju náttúruhamfarirnar sem ég upplifi á eigin skinni. Og ég ræddi þetta aðeins við vinnufélaga um daginn sem hafði upplifað hræðilegt snjófljóð í sinni æsku, en áhrifin á okkur bæði voru sú að við byrjuðum að rækta með okkur æðruleysi, til þess einfaldlega að geta höndlað ástandið í okkar eigin sál, brugðist við ástandinu án þess að bugast og finna styrkleika sem býr óbrigðull innra með okkur, ef við aðeins kunnum að leita hans.
Þetta er samt ekki eitthvað sem venst, en fyrir vikið verður stóuspekin mér ennþá kærari, en hún kennir að einbeita okkur að því sem maður getur sjálfur breytt, frekar en öllu því stjórnlausa sem getur oltið yfir mann, öllu því sem getur gerst; hamfarir, slys. Það versta er nefnilega að gera ekki greinarmun á því valdi sem við höfum yfir sjálfum okkur, og gert sjálf okkur að fórnarlömbum ytri aðstæðna.
Ég get ekki stjórnað fellibyl, flóði, fjármálakreppum, jarðskjálftum og eldgosum, en get haft djúp áhrif á hvernig ég sjálfur bregst við þessu öllu saman, og besta leiðin sem ég þekki til þess er að rækta dyggðir í sjálfum mér og átta mig á því sem hefur raunverulegt gildi í þessu lífi.
Til eru hundruðir dyggða til að velja úr, en stóuspekingar mæla með einhverjum þeirra og ég hef verið að rækta sumar þeirra í eigin sálargarði síðustu áratugina, dyggðir eins og visku, hugrekki, réttlæti, góðvilja, hófsemi og þrautseigju. Mér hefur gengið frekar illa með hófsemina þegar kemur að því að gúffa í sig súkkulaði, en er annars nokkuð góður, sífellt á betri veg. Það sem ég hef helst lært af þessari vegferð er að þessu námi lýkur aldrei, það er stöðugt hægt að bæta sig, og ég finn hvað það er margfalt betra en að reyna það ekki.
Það var fyrst í framhaldsskóla sem ég kynntist verkum Epíktetusar, í gegnum bókina Hver er sinnar gæfu smiður, en Gunnar Dal og Gunnar Hersveinn mæltu báðir með henni, og næsti heimspekingur sem ég lærði um og dáðist af var Sókrates, sem kenndi mér vitsmunalega auðmýkt, þó að hann hafi verið á lífi. Aristóteles kenndi mér eitthvað um að leita upplýsinga og sönnunargagna fyrir því sem við höldum um heiminn. Kant kenndi mér að einn besti leiðarvísirinn gegnum lífið er að meta góðvild mikils, sérstaklega þegar hún kemur frá manni sjálfum. Ég hef notið þess að læra heimspeki með yndislegum manneskjum eins og Gunnari Hersveini (sem kom mér á slóðina), Páli Skúlasyni, Róberti Haraldssyni, Hreini Pálssyni, Þorsteini Gylfasyni, Arnóri Hannibalssyni, Mikael M. Karlssyni, Matthew Lipman, Marc Weinstein og Ann Margaret Sharp.
Það hefur verið gott að vera í fylgd slíkra manneskja, sem gera að ævistarfi sínu leit að áreiðanlegri þekkingu og visku til að fara vel með hana. Þetta eru mínar fyrirmyndir, en stærsta fyrirmyndin felst samt djúpt í sjálfum mér, barninu í mér, þessu sem er sífellt leitandi, sem veit að það veit ekki, sem reynir að kynnast dygðunum og vinna með þær, þjálfa þær í verki, læra þær af alúð.
Þetta þýðir að sama hvað á bjátar, sama hvað gerist, þrátt fyrir hamfarir og erfiðar aðstæður, þá er það sem mest skiptir eitthvað heilt og gott sem getur búið með okkur öllum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)