Bloggfærslur mánaðarins, september 2021
Hvað er góð kennslustund?
12.9.2021 | 09:03
Hefurðu einhvern tíma setið á námskeiði þar sem leiðbeinandi eða kennari talar allan tímann og reiknar með að allt sem hann eða hún segir skiljist af nemendum sínum, og spyr svo kannski í lok tímans, "hafið þið einhverjar spurningar?"
Það er ekki kennsla, heldur fræðsla. Fræðslu er hægt að fá víða. Þú getur kveikt á sjónvarpstækinu og fræðst um heil ósköp um hvað sem er, getur keypt eða leigt þér bækur, og ef þú lest þær vel, geturðu fræðst af þeim. Ein vinsælasta leiðin til að fræðast í dag er með því að Googla eða horfa á YouTube myndbönd. Mjög gagnlegar leiðir.
Eitt af því áhugaverða við fræðslu er að við öll túlkum hana á ólíkan hátt, út frá fyrri þekkingu okkar og reynslu, því við reynum stöðugt að tengja það sem við lærum við eitthvað sem skiptir okkur lífi í málinu. Þegar þessi þörf er uppfyllt gerist eitthvað merkilegt í okkur.
Kennsla gerist þegar umhverfi fyrir nám hefur verið afmarkað í tíma og rúmi, hvort sem það er í skólastofu, úti í skógi, inni í verksmiðju, á skrifstofu, eða á netinu. Sett hafa verið skýr námsmarkmið um hvað skal læra og jafnvel mörg undirmarkmið sem saman vinna að stóra markmiðinu. Þegar þú ert í kennslustund áttu ekki bara að sitja kyrr, þegja og glósa, heldur þarftu að fá virkni, þú þarft að æfa þig að nota hugtökin sem þú ert að læra með því að skrifa um þau eða ræða þau með félögum þínum, og ef þú ert að læra um að nota eitthvað verkfæri, sama hversu lítið eða stórt, einfalt eða margbrotið, þá þarftu fyrst að fá upplýsingar um til hvers það er notað, og hvað þér verður kennt um notkun þess, og síðan þarftu að æfa þig í notkun þess.
Þetta er alls ekki flókið, en getur verið það. Kennarinn þarf nefnilega að þekki viðfangsefnið ansi vel, og vera nógu opin manneskja til að átta sig á að nám streymir ekki frá kennara eða námsefni til nemenda, heldur tengist það þörfum og reynslu nemenda, sem þurfa að átta sig á merkingu viðfangsefnisins út frá eigin forsendum og í tengslum við fyrri reynslu til að átta sig á af hverju það gagnast þeim. Þegar við áttum okkur á hvernig hlutirnir gagnast okkur er eins og dauf pera lýsi upp huga okkar, og okkur langar að læra, og við bæði getum og gerum það.
Mitt eftirlætis tæki er mannshugurinn og þá sérstaklega gagnrýnin og skapandi hugsun sem stýrt er af umhyggju. En þannig er ég. Mér finnst fátt skemmtilegra en að kenna heimspeki, sem snýst nákvæmlega um þetta. Í öllum þeim heimspekitímum sem ég hef kennt hefur mér tekist að bæta við eigin þekkingu og kunnáttu, og læri sjálfur af því að kenna öðrum. Fátt er skemmtilegra.
Þitt eftirlætis tæki gæti verið Excel, hamar, bor, flutningabifreið, og þar fram eftir götunum. En öll þessi tæki eiga það sameiginlegt að ef við ætlum að beita þeim vel, þá þurfum við að læra að beita þeim.
Að komast í kennslustund hjá manneskju sem skilur hvernig við lærum, skilur að við þurfum að ræða saman til að átta okkur á hlutunum áður en við köfum af dýpt í tækið sem við ætlum að læra á, þurfum aðeins að átta okkur á aðstæðunum þar sem við getum notað tækið, og þurfum að skilja út frá eigin forsendum af hverju við viljum læra um það, slík kennslustund og röð kennslustunda er fjársjóður sem geggjað er að finna.
Það er óragrúi af tækifærum fyrir svona nám á Íslandi, í barnaskólum, framhaldsskólum, háskólum, á símenntunarstöðvum, og hjá einstaklingsreknum fyrirtækjum sem sum bjóða námsferli, og önnur sem kenna innanhús. Það er sannur fjársjóður að komast í slíkt, sérstaklega þegar kennarinn veit hvað hann er að gera og kann vel á tækið sem hann kennir nemandanum að nota. Við erum gríðarlega heppin að hafa vel menntaða kennara sem fylla flestar stöður og sinna starfi sínu vel, og háskólastofnanir sem styðja stöðugt við bakið á kennurunum með framboði á námi fyrir þessa stétt, sem öllum fremur þarf stöðugt að vera í símenntun, því ef það er eitthvað sem ég veit um þekkingu, þá fyllist sá tebolli aldrei og það flæðir heldur aldrei upp úr honum.
Allt nám snýst um að læra á einhvers konar tæki, hvort sem tækið er veraldlegt eða andlegt, jafnvel siðferðilegt, það er eitthvað sem við þurfum að læra að nota.
Við lærum á tækið 'lestur' til að lesa, við lærum á tækið 'heimspeki' til að hugsa betur, við lærum á tækið 'ritlist' til að skrifa betur, við lærum á tækið 'akstur' til að keyra bíl og svo frameftir götunum.
Getur þú sagt mér hvað einkennir góða kennslustund að þínu mati?
Mynd eftur Campaign Creators á Unsplash
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Erum við að stela þegar við deilum ekki af sjálfum okkur?
8.9.2021 | 09:51
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)