Bloggfærslur mánaðarins, desember 2014

Hvernig getur þú gert heiminn betri?

Holding_Earth_in_Hands

Ég hef verið að velta fyrir mér hvernig ég get bætt heiminn. Nú erum við ekki að tala um að bjarga heiminum frá einhverri ógurlegri ógn, heldur eru þetta einungis fletir sem mér sýnist að gætu bætt heiminn, ef sérhver manneskja reynir að bæta þetta hjá sjálfum sér.

 

1. Traust

Hugsaðu þér heim þar sem þér er treystandi og þú getur treyst öðrum til að vera réttlátir, sanngjarnir og heiðarlegir, heim þar sem ekki enginn, heldur bara þú, svíkur aldrei loforð og fyrirheit.

 

2. Heiðarleiki

Hugsaðu þér heim þar sem þú gerir alltaf það sem þú trúir að sé rétt. Í verslun er þér gefið vitlaust til baka. Þú átt að fá 500 krónur, en færð 5000 krónur, og þú leiðréttir mistökin.

 

3. Gagnrýnin hugsun

Hugsaðu þér heim þar sem þér finnst allt í lagi að efast um sannleiksgildi staðhæfinga, ekki vegna vantrausts, heldur að hugsanlega vantar einhverjar upplýsingar eða samhengi sem getur skýrt hugmyndir á nýjan og ferskan hátt. Hugsaðu þér heim þar sem hægt að efast um gildi trúarbragða og siðvenja, og jafnvel um gildi þess að efast um slíkt yfir höfuð. 

 

4. Hlustun

Hugsaðu þér heim þar sem þú hlustar á annað fólk, virkilega hlustar, setur þig í þeirra spor og reynir að sjá veruleikann út frá þeirra sjónarhorni. Og í þessari hlustun þarf að sjálfsögðu einnig að hlusta á eigin hugsanir sem melta allar þær upplýsingar sem hlustað hefur verið á. 

 

5. Hreinskilni

Hugsaðu þér heim þar sem þú getur ekki logið, verður að segja satt, ekki vegna þess að annars yrði þér refsað, heldur vegna þess að það er rétt og samviska þín þyldi ekki annað. Það væri áhugavert að vita hvort leynd eða hreinskilni sé meira virði til langs tíma litið.

 

6. Hjálpsemi

Hugsaðu þér heim þar sem þú hjálpar öðru fólki sem lendir í vanda. Til dæmis á fjölskylda ekki pening fyrir leigu eða mat, og þú leggur þig fram við að hjálpa fjölskyldunni, ekki með því að gefa þeim pening, heldur með því að sýna þeim leið til farsældar, og hjálpa til að leggja grunninn að samfélagi þar sem annað kemur ekki til greina.

 

7. Sanngirni

Hugsaðu þér heim þar sem þú getur ekki annað en verið sanngjörn manneskja, að í stað þess að gefa alltaf þeim sama tækifæri til að ná góðum árangri, þá gefur öðrum þetta sama tækifæri, sé það á þínu valdi að veita slík tækifæri.

 

8. Réttlæti

Hugsaðu þér heim þar sem þú gerir alltaf það sem þú trúir að sé rétt, þó að afleiðingarnar geti verið sárar, og þessi trú er að sjálfsögðu ekki óbifanleg, þar sem gagnrýnin hugsun hjálpar þér að átta þig á hvað er rétt og hvað er rangt. 

 

9. Von

Hugsaðu þér heim þar sem þú getur stöðugt haldið í þá von að heimurinn fari batnandi, sérstaklega á stundum þar sem erfitt er finna slíka von.

 

10. Kærleikur

Hugsaðu þér heim þar sem þú finnur í hjarta þínu kærleika til alls sem er til, og skilur að hver einasta manneskja, hvert einasta dýr, hver einasta planta, hver einasti hlutur og hvert einasta fyrirbæri hafa einhvern tilgang sem við hugsanlega skiljum ekki í augnablikinu, og munum ekkert endilega nokkurn tíma skilja.

 

Þetta gerist ekki að sjálfu sér, heldur byrjar allt hjá þér og mér, og öllum hinum.


Hátíð ljóss og friðar enn og aftur

GledilegJol

Kominn er tími til að fagna sigri ljóssins yfir myrkrinu enn á ný. Hverju sem þú trúir eða ekki trúir, þá er von um bjartari tíma framundan. Sumum líkar að yfirfæra þessa von á lífið sjálft. Ég lái þeim ekki.

Gleðileg jól og njótið þess að vera til, vitandi að dagarnir eru farnir að lengjast á ný.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband