Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2012

Sjaldgæf snilld: The Avengers (2012) *****

Það er ekki oft sem myndir ná fullu skori hjá mér. Minnir að Avatar hafi verið nálægt því. En "The Avangers" slær ekki eina einustu feilnótu, byggir á persónum sem hafa verið á kreiki í marga áratugi, og nær að vera frábær skemmtun. Þetta er ein af þessum sýningum þar sem þú ferð út úr fullum sal og allir í kringum þig ljóma af ánægju. Ekki síðan ég sá "Borat" með vinnufélögunum um árið hef ég heyrt jafn marga hlæja í bíó.

Josh Whedon, maðurinn á bakvið "Buffy The Vampire Slayer", "Angel", "Firefly", "Serenity" og "Dollhouse", sem einnig skrifaði handritið á bakvið "Toy Story" og "Alien Resurection" hefur unnið þrekvirki með "The Avengers". Hann gerir nákvæmlega það sama og hann hefur gert alla tíð gert, gefur hverri einustu persónu það mikla athygli og sýnir þær í þannig ljósi að þér getur ekki annað en líkað við þær, og byggir þær upp á skondnum samtölum, samskiptum og slagsmálum.

"The Avengers" er litrík og í hinni er gríðarlega mikill hasar, en húmorinn er mesti styrkleiki hennar. Öllum aðalpersónum eru gerð góð skil, oftast betri en í fyrri myndum. Eina persónan sem virkar frekar litlaus í þessum stóra hópi er Nick Fury í meðförum Samuel L. Jackson, sem því miður er líkari Mace Windu úr "Star Wars" heldur en Jules úr "Pulp Fiction". Thor, Loki, Hulk, Black Widow, Captain America, Iron Man, Hawkeye og Agent Coulson eiga öll eftirminnileg augnablik. 

Söguþráðurinn er sá að Loki, hinn bitri norræni guð, hefur þörf til að ná völdum einhvers staðar í heiminum, þar sem honum mistókst að ná völdum í Ásgarði, ákveður að ná heimsyfirráðum yfir jörðinni. Hann gerir samning við herskáar geimverur og finnur leið til að opna hlið sem gerir þeim kleift að ráðast á jörðina með stuttum fyrirvara. Til að gera þessa árás mögulega þarf Loki á orkukubbi að halda sem er í vörslu S.H.I.E.L.D. og tekst honum að ná þessum kubbi. 

Verður það til þess að Nick Fury, stjóri S.H.I.E.L.D. sem er einhvers konar hátækni njósnasamfélag fyrir Bandaríkin, kallar á aðstoð ofurhetjanna sem hann hefur rekist á í gegnum tíðina. 

Af öllum ofurhetjunum í myndinni er ein þeirra sem heppnast langbest. Það hafa þegar verið gerðar um hana tvær kvikmyndir, sú fyrri leikstýrð og Ang Lee með Eric Bana í titilhlutverkinu, afar misheppnuð, og sú seinni með Edward Norton í hlutverkinu, mun betri en sú fyrri en samt engin snilld, og nú loksins tekst Mark Ruffalo að gera Hulk verulega góð skil, með sama húmor og birtist í teiknimyndasögunum sjálfum. Samskipti Hulk við Loka eru óborganleg.

Ég ætla ekki að blaðra meira um þessa mynd. Þetta er ein af þessum myndum sem þú verður að sjá í bíó. Hún er á svipuðum gæðaskala og upphaflegu "Star Wars" myndirnar og "Lord of the Rings", og slær þeim jafnvel við.

Skelltu þér í bíó og taktu með þér góðan vin eða fjölskyldumeðlim. Ég bauð konu minni og börnum; þau margþökkuðu fyrir sig og gátu varla hætt að tala um myndina. Þeim fannst hún öllum frábær. 

Þetta gerist sjaldan.


Þú heldur sjálfsagt að þessi grein sé um þig, er það ekki?

Að ráðast að stjórnmálamanni og auðmanni, Sigmundi Davíði Gunnlaugssyni, fyrir að halda því fram að síðari ríkisstjórn hafi valdið meiri skaða en sú fyrri, er í raun frekar marklaust, enda samanburðurinn í sjálfu sér ómælanlegur. Báðar ríkisstjórnir hafa valdið samfélaginu gríðarlegum skaða, enda eru þær byggðar upp á nákvæmlega sama hátt og fylgja sams konar munstri sem lýsir sér í hentistefnu. Rifist er um mál sem skipta engu máli, og ekki tekið alvarlega á erfiðu málunum, því þau eru svo erfið. Skynsemi og greind virðast hafa yfirgefið stjórnmálalífið (eða aldrei komið í heimsókn), og þess í stað skal hjakka í sama farinu og þykjast vera flottasti haninn í hænsnabúrinu. 
 
Hver hefur valdið meiri skaða? Ríkisstjórnin fyrir Hrun eða ríkisstjórnin eftir Hrun?
 
Ríkisstjórnin fyrir Hrun fylgdi frjálshyggjustefnunni að miklu leyti, fyrir utan að sumir fengu að vera frjálsari með peninga en aðrir. Bankar sköpuðu gríðarlegar upphæðir sápukhúlupeninga með lánum þar sem fátt eða lítið myndi nokkurn tíma fást til baka. Þannig var sett upp sú svikamylla að allir skattgreiðendur, og sérstaklega lántakendur (skuldarar) myndu þurfa að borga til baka allan þann pening sem óprúttnir náungar stálu, fullkomlega löglega að sjálfsögðu, samkvæmt íslensku réttarfari - sem því miður virðist hafa horfið frá hugtakinu réttlæti og vikið sér nær að pælingum um hvurs lags athafnir passa við ríkjandi lagabálka og hefðir, heldur en það sem er sanngjarnt og rétt í víðara samhengi.
 
Þessi ríkisstjórn hafði ekki bolmagn, og hugsanlega ekki vilja, til að fylgja stefnu sinni eftir þannig að réttlát yrði. Fulltrúi þessarar ríkisstjórnar virðist horfa á sjálfan sig sem píslarvott, fullan af réttlátri reiði, á meðan hverjum heilvita manni er ljóst að þessi reiði er ranglát. 
 
Ríkisstjórnin eftir Hrun hefur með öfgafullum hætti unnið gegn öllu því sem fyrri ríkisstjórn stóð fyrir, með hugmyndir hins andvana kommúnisma á bakvið sig, þannig að fólkið, almenningur í landinu, hefur staðið varnarlaust á velli þar sem stanslausir skotbardagar fara fram. Þetta fólk kaus ríkisstjórn til að finna leið út úr ógöngunum, en fékk í stað þess ríkisstjórn sem virðist hafa sem efsta forgangsatriði að hatast í fyrri ríkisstjórn og andstæðingum sínum, og vekja aftur til lífsins hugsjónir sem sannreynt hefur verið að leiða í ógöngur, eða kannski afturgöngur í þessu tilviki.
 
Þessi ríkisstjórn virðist auk þess halda að hrynjandi Evrópusamband geti komið Íslandi til hjálpar, nokkuð sem hljómaði ekki illa fyrir Hrun, en eftir Hrun er staða Evrópuríkja því miður haltrandi. Í stað þess að koma þeim sem lent hafa í klóm varga bankakerfisins til bjargar, hafa viðkomandi verið brytjaðir niður og seldir hæstbjóðanda sem veisluréttir. Þessi ríkisstjórn hefur tekið gríðarleg lán sem þarf að byrja að borga til baka á næsta kjörtímabili. Þá fyrst kemur skaðinn í ljós.
 
Hefur verið til ríkisstjórn á Íslandi þar sem stjórnmálamenn hafa unnið með fólkinu sem þeir ættu að vinna fyrir?  Eftir síðustu kosningar komu þau nýju sér vel fyrir í fílabeinsturnum og heyra ekki lengur það sem annað fólk hefur að segja, það gleymir jafnvel öllu því sem það sjálft hefur sagt og hentar ekki lengur vegna betri eigin stöðu. Vonbrigði mín vegna þessarar ríkisstjórnar er ekki mikil, því ég bjóst ekki við neinu. Þetta er getulaust pakk sem virðist halda að allt snúist um það sjálft, með sárafáum undantekningum. Þannig er sagan endalausa.
 
Ég sé ekki betur en að langflestir stjórnmálamenn standi fyrir framan spéspegil og keppist um í vinsældarleik um atkvæði til að láta almenning finnast þeir flottari en hinir. Hvað er það annað en hégómi? 
 
Svo ég vitni í ágætis lag: "You're so vain, you probably think this song is about you, don't you?"
 
 


Hver skilur íslenskt réttlæti?

Fólk sem veldur öðrum miklum skaða, hvort sem er vegna ofbeldis, vanrækslu eða fjárhagsklækja þarf ekki að svara til saka, nema að forminu til. Sé glæpurinn nógu stór er engum refsað. Hafi viðkomandi framið smærri glæp og viðurkennt það er viðkomandi sleppt, kannski til að hann geti framið stærri glæpi?
 
Fyrrverandi forsætisráðherra sem fundinn var sekur um vanrækslu í embætti, er ekki látinn svara til saka, en refsing í slíku máli, þó hún væri ekki nema vika í skilorðsbundnu fangelsi, væri skárri en engin refsing. Að sætta sig við refsingu krefst ákveðinnar auðmýktar. Að refsa ekki, gefur þau skilaboð að brotið var smávægilegt og skipti þannig engu máli. Þannig geta klókir stjórnmálatæknar snúið út úr málinu þannig að út lítur að allir hafi unnið, á meðan raunin er að allir hafa tapað.
 
Aumingjar sem tóku húsnæðislán fyrir þaki yfir höfuðið hafa fengið margfalt þyngri refsingu fyrir að brjóta engin lög. Og hætti þeir að taka út refsingu sína, er þeim gert að fara út á götu með allt sitt hafurtask. Og mega þeir bara bíta í það súra, enda hafa viðkomandi engin áhrif á þjóðfélagsmyndina, eru bara almúgaþrælar.
 
Ekki fyrirmenni eins og þeir sem brjóta lögin. 
 
Það eru jafnvel harðari viðurlög fyrir að blogga um sum fyrirmennin. Fyrir að segja satt en geta ekki sannað réttarfarslega að orðin sem eru notuð séu tæknilega nákvæm.
 
Fyrirgefning og samúð eru falleg og kristileg hugtök, en ég skil ekki íslenskt réttlæti.

Viltu verða milljarðamæringur?

Formúlan er sáraeinföld. Þú þarft græðgi. Þú þarft samviskuleysi. Þú þarft að sjá lífið á sama stigi og dýralíf. Heimspeki og siðfræði henta þér ekki. Slík dýpt er gagnslaus. Eða það heldur þú þar til spilaborgin hefur hrunið.

Þú þurftir ekki mikið. Klink til að stofna fyrirtæki og skort á siðferðisvitund. Síðan endurtókstu leikinn eins oft og þig langaði til. Reyndar þekktir þú kannski líka rétta fólkið til að toga í réttu spottana, og til að passa upp á að glæpurinn stæðist íslensk lög, því varla viltu láta nappa þig fyrir þjófnað eða rán á heiðbjörtum degi?

Skref eitt: Þú stofnar fyrirtæki. Það er ekkert mál að stofna fyrirtæki. Þú borgar eitthvað smáræði til að það sé mögulegt og svo finnurðu upp eitthvað nafn. Það getur verið hvað sem er. Segjum að tilgangur fyrirtækisins sé fjármögnun.

Skref tvö: Þú skrifar niður viðskiptahugmynd. Eða færð einhvern til að skrifa hana fyrir þig. Eða skrifar kannski hálfa setningu eins og "stofna netverslun". Til dæmis viltu stofna fréttasíðu á netinu, verslun í Danmörku, Þýskalandi, Bandaríkjunum, nefndu það. Það getur verið hvað sem er. Þú þarft aðeins að sýna fram á að þú þurfir lán og ætlir að borga það til baka, hvort sem þú ætlar í raun og veru að borga það til baka eða ekki. Þú ert þannig innrétt manneskja að ábyrgðin verður aldrei þín, heldur munt þú selja ábyrgðina í hendur fyrirtækinu sem þú hefur stofnað. Þú verður aldrei gjaldþrota vegna fyrirtækisins, það tryggja íslensk lög, hins vegar verður fyrirtækið örugglega gjaldþrota. Þú þarft bara að passa að það skaði engan beint.

Hafir þú siðferðisvitund og sért heilindismanneskja, munt þú aldrei geta framkvæmt þetta. Sértu hinsvegar lásýkarakter án siðferðisvitundar sem sérð græðgi sem eitthvað eðlislægt manneskjunni og að lífið snúist um ekkert annað en hver vinnur og hver tapar, (það er ekki ólöglegt að vera svoleiðis, aðeins dapurlegt og skaðlegt samfélaginu eftir því sem viðkomandi hefur meiri áhrif); þá slærðu til og tekur lán upp á einhverjar milljónir, eða einhverja milljarða komist þú upp með það. 

Þetta með milljarðana virðist auðveldara þegar þú hefur hitt fólk af sama sauðahúsi, sem stofnar fyrirtæki í sama tilgangi, til að taka lán og borga þau aldrei til baka, eða með öðrum orðum, búa til peninga sem samfélagið þarf að tryggja. Þú getur þá fengið lán til að kaupa fyrirtæki félaga þinna, og búa þannig til samsteypu. Síðan geturðu með samsteypu fyrirtækja tekið miklu hærri lán til að kaupa ennþá stærri fyrirtæki, og þá jafnvel fyrirtæki sem hafa raunveruleg gildi á bakvið sig: starfandi fólk, vinnslu, góðar hugmyndir, og svo framvegis. 

En þér er sama um það. Þegar þú hefur hitt á svona gott fyrirtæki, þá geturðu einfaldlega fært allan peninginn úr öllum hinum fyrirtækjunum, skúffufyrirtækjunum, yfir í þetta virkilega góða fyrirtæki. Svo læturðu hin fyrirtækin sem skulda öll lánin fara á hausinn, en passar að það séu engin tengsl milli þeirra og fyrirtækis þíns sem fékk allan peninginn.

Að sjálfsögðu tekurðu út vænan arð árlega, frá öllum fyrirtækjunum, þó að innkoman sé ekkert annað en lán, en fyrir þann sem ætlar aldrei að borga til baka, er lán að sjálfsögðu ekkert annað en hreinn gróði.

Að lokum selurðu góða fyrirtækið og kemur öllum peningunum fyrir í nýju fjárfestingafyrirtæki sem aldrei hefur tekið lán, er skuldlaust og hreint, síðan kemurðu peningunum fyrir í einhverri skattaparadísinni á Tortola, á einhverri aflandsey, eða einhversstaðar í fjandanum, og eyðir því sem eftir lifir í að kaupa fyrirtæki sem geta verndað mannorð þitt: fjölmiðla, lögfræðiskrifstofur, ráðgjafafyrirtæki, banka, fjarskiptafyrirtæki, endurskoðunarfyrirtæki, verslanir, lykilfólk í stjórnmálaflokkum, flugvélar og skip, og svo framvegis; allt sem getur verndað þig og gert lífið ódýrara og öruggara gagnvart öllum þeim heimskingjum sem þú hefur stolið frá, löglega. Þú lifir lífinu eins og kafbátur á flótta.

Þú hefur grætt ógurlega mikið. Kostnaðurinn hefur hins vegar óvart komið í bakið á þér. Atvinnuleysi eykst. Fjölskyldur tapa heimilum sínum. Fólk tekið eigið líf. Fjölskyldur sundrast. Gamlir vinir hata þig. Gott fólk fyrirlítur þig. Nema sumir sem elska þig fyrir smá styrki. Fólk flýr land sitt. Heiðarlegt og skynsamlegt fólk verður gjaldþrota á þinn kostnað. Hörmungar steypast yfir þjóð þína, og ekki aðeins þjóð þína, heldur allan heiminn, því félagar þínir af sama sauðahúsi koma allsstaðar frá, og hafa allsstaðar leikið sama leikinn. Stolið frá almenningi og síðan flúið út í buskann. 

Hins vegar fer þetta "út í buskann" sífellt smækkandi, því sífellt fleiri átta sig á svikamyllunni, og verða sífellt grimmari gagnvart þeim sem hlunnfóru þá, sem þýðir að þú verður að kaupa þér aukið öryggi, múra þig inn, hætta að lifa í samfélagi með öðru fólki sem ekki er eins og þú. Og svo þegar þú hættir að geta grætt af samfélaginu, verður þú að græða af þeim sem gerðu eins og þú. Sá leikur getur verið hættulegri. Tundurskeyti í djúpinu.

Og þú áttar þig loks á að svona líf er ekki þess virði að lifa því. En þá er það orðið of seint. Þú hefur sokkið of djúpt. Það er engin leið upp á yfirborðið aftur. 

Kafbáturinn fellur saman vegna þrýstings úr djúpinu og skorts á súrefni.

Innanfrá.


Alltof gott aprílgabb?

Að gefnu tilefni vil ég taka það sérstaklega fram að síðasta færsla mín, "Atlaga að tjáningarfrelsinu!" var aprílgabb.

Admin á skákhorni Íslendinga hefur aldrei fjarlægt færslu frá mér, né bannað mig, enda er hegðun mín yfirleitt ágæt nema á 1. apríl. Þá leyfi ég mér ýmislegt sem ég leyfi mér ekki dags daglega.

Nú fór það svo að æsilegar umræður hafa hafist um málfrelsi á Skákhorninu, sem getur verið spennandi að fylgjast með, enda íslenskir skákmenn með líflegri karakterum á þessari jarðkringlu. Þessar umræður sem hafa orðið frekar heitar má sjá hérna.

Verð að leggja höfuðið í bleyti. Hef aðeins 363 daga til að plana næsta gabb. Whistling


Atlaga að tjáningarfrelsinu!

censorship_xlarge
 
Á Íslandi erum við ekki lengur frjáls til að segja skoðanir okkar. Séu skrif okkar birt í fjölmiðlum eða bloggsíðum, getur þeim verið breytt í pólitískum tilgangi, þannig að meining þín verður öndverð því sem að stendur skrifað. Þetta hef ég upplifað á eigin skinni.
 
Smelltu hérna til að sjá grein sem ég skrifaði á Skákhornið í morgun, umræðuvettvang íslenskra skákmanna i meira en áratug, og reyndi að ræða málin, en umsjónarmaður fjarlægði nánast samstundis öll ummæli sem gátu virst gagnrýnin á störf íslenska skáksambandsins, enda skilst mér að mafía útrásarvíkinga hafi safnast þar saman í stjórn. Samt reyndi ég að gæta orða minna!
 
Tilefnið er að fjölda ummæla hefur verið breytt af umsjónarmanni. Fyrst hélt ég að þetta væri eitthvað grín, en svo þegar hann byrjaði að breyta mínum skrifum til að hljóma pólitískt rétt, og síðan með því að loka aðgangi mínum, var mér ofboðið.
 
Það væri óskandi að menn tækju upp kyndilinn og skráðu sig inn á þetta Skákhorn, sem áður var líflegt og skemmtilegt, fullt af áhugasömum ritsnillingum, og mótmæltu svona kommúniskum aðferðum.
 
Skráning á skákhornið er hér.
 
Vil benda þeim sem hafa áhuga á sjálfa stjórnarskrána, en þar segir:
 
     73. gr. verður svohljóðandi:
 
     Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar.
 
     Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða.
 
     Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband