Bloggfærslur mánaðarins, október 2012

Hvað er "Guð"?

Creaci%C3%B3n_de_Ad%C3%A1n

Þegar rætt er um trúarbrögð, á blogginu sem annars staðar, poppar upp orðið "Guð" öðru hverju. Ég hef tekið eftir að fólk skilur þetta hugtak á afar ólíkan hátt.

Sumir telja að verið sé að tala um einhvern mann með hvítt skegg í himnaríki sem fylgist náið með öllu sem gerist í hinu mannlega lífi. Aðrir telja að Guð sé huglægt fyrirbæri, skapað af mönnum, til að átta sig á tilverunni. Enn aðrir telja að Guð sé öll þau lögmál sem heimurinn fylgir eða öllum heiminum stjórnar, og í þeirri merkingu er Guð samt algjörlega afskiptalaus, fyrir utan að við finnum fyrir honum í fyrirbærum eins og þyngdaraflinu eða ljósi, og svo framvegis. Enn aðrir telja Guð vera alls ekki neitt, ekki til, ekkert; en virðast stundum ekki átta sig á hversu ofar okkar skilningi ekkertið getur verið.

En flestir virðast tengjast þessu hugtaki sterkum tilfinningaböndum. Af hverju er mér ráðgáta.

Svo eru það rifrildin sem skapast í kringum Guð. Einn hópurinn skilgreinir Guð á sinn eigin hátt, eða réttara sagt skilur "Guð" á sinn hátt og kærir sig ekki um neinar skilgreiningar þar sem einn skilningur lítur út fyrir að vera allur skilningur, og fullyrðir síðan að hann sé til. (Og þegar ég nota "hann" gæti "það" eða "hún" verið jafn réttmæt hugtök). Annar hópur skilgreinir Guð síðan á annan hátt, eða kærir sig ekki um skilgreiningar frekar en hinn hópurinn, og fullyrðir að hann sé ekki til, og geti ekki verið það.

Hvorugur hópurinn virðist átta sig á að stundum þegar við notum sama orðið, erum við að tala um alls ólík fyrirbæri. Svona misskilningur fer stigvaxandi, sérstaklega þegar annar hópurinn telur sig hafa algjörlega rétt fyrir sér og útilokað að annað sé mögulegt; og beitir kaldhæðni eða íroníu, vegna þess að sumir félagar fatta djókið, á meðan hinir gera það ekki. Oft gleymist að hundur þýðir eitt fyrir eina manneskju og eitthvað allt annað fyrir aðra manneskju, eftir því hvernig og hvort viðkomandi hafi kynnst hundi, og þá hvernig reynslan hafi verið.

Þannig verður til menningarheimur um þá sem eru inni og þá sem eru úti. Því miður virðist nauðsynlegt fyrir þá sem eru inni að skilgreina restina sem úti. Þá hópa vil ég skilgreina sem sértrúarhópa. Svo eru það aðrir hópar, sem vilja að allir séu meðtaldir, og vilja enga útiloka; en þessir hópar eiga á hættu að fá yfir sig flæði af háðsgusum og óvild fyrir að þvinga trú sinni yfir á annað fólk, fólk sem vill bara vera í friði; og þessa hópa vil ég kalla trúarbrögð.

Þegar þú lest orðið "Guð", hvað þýðir það í þínum huga?

 

Mynd: Sköpun Adams eftir Michelangelo


Stór sigur fyrir beint lýðræði!

nationalism-e1344318953459

Kosninganiðurstöður og góð þátttaka (ekki mjög góð samt) sýna fyrst og fremst að þjóðin sem slík er skynsemisvera og þarf að hafa kost á beinum kosningum í fleiri málum. Þessar kosningar eru stór sigur fyrir beint lýðræði. Það sem tapaði í þessum kosningum er fulltrúalýðræðið. Það er úrelt.

Óháð því hverjar niðurstöður verða í hverju máli fyrir sig, þá er ljóst að þjóðin hefur sýnt vilja til að koma skilaboðum sínum á framfæri, hreint og beint.

Þetta virðist vera rökrétt framfaraskref. 


Hvenær er réttlætanlegt að leka trúnaðarupplýsingum?

whistleblower 

Sértrúarsöfnuður sem kannast ekki við að vera trúfélag, Vantrú, höfðaði mál gegn Bjarna Randveri, stundarkennara við Háskóla Íslands í guðfræði, og kærði kennarann til siðanefndar Háskóla Íslands. Vantrúarmenn sem meðal annars hafa heimsótt þessa bloggsíðu sem þú lest núna, eru duglegir að biðja um tilvísanir, en ekkert endilega rök, máli manna til stuðnings, og telja "vísindin" vera einhvers konar svarmaskínu, á meðan sannleikurinn um vísindin er sá að þar er meira um spurningar en svör, og kenningar en sannleik.

Vantrúarmenn höfðu skipulagt árásir á Bjarna á lokuðu spjallkerfi sínu, vegna þess að hann fjallaði um Vantrú í kennslustund án þeirra samþykkis. Um þetta mál má meðal annars lesa hérna. Athugasemdirnar eru sérstaklega áhugaverðar.

Í þessum spjallþræði af innri vef Vantrúar hafði meðal annars verið talað um að leggja í "heilagt stríð" gegn kennaranum, sem síðar var fylgt eftir með því að skrifa á árásargjarnan hátt um manninn á vefnum "vantru.is", auk þess að hann var kærður til siðanefndar Háskóla Íslands, sem í sjálfu sér er afar alvarlegt mál. Fátt er alvarlegra en að ráðast gegn orðspori og virðingu annarrar manneskju. Og þá er það sérstaklega alvarlegt ef í ljós kemur að ákæran var tilefnislaus.

Vantrúarmenn virðast lifa í slíkri villu að telja slíka árásargjarna hegðun það sama og gagnrýna hugsun. Rétt eins og ofsatrúaðir einstaklingar eigin trúfélaga telja sig ástunda sína trú, á meðan þeir vinna í raun gegn henni. 

Einhver þeirra sem las eða tók þátt í umræðunni lak þessum spjallþræði af innri vef Vantrúar til kennarans. Sama hver sú manneskja var, þá á hún virðingu og heiður skilið fyrir uppljóstrunina.

Vantrúarmenn gagnrýna að Bjarni skuli hafa notað þessar upplýsingar sér til varnar, enda séu þær trúnaðarupplýsingar sem "stolið" var af þeirra trúnaðarsvæði. 

Telja Vantrúarmenn þá leyndarhyggjuna sem slíka mikilvægari en sannleikann? Ef svo er, virðist Vantrú taka afstöðu gegn samtökum eins og "Wikileaks" og uppljóstrurum í fyrirtækjum og stofnunum sem koma upp um vafasama og skaðlega hegðun innan úr eigin herbúðum, og með leyndarhyggju þar sem almenningi er haldið fáfróðum á kostnað fámennrar klíku, eins og til dæmis skilyrðislausri bankaleynd, eða földum upplýsingum um skaðsemi reykinga sem var vísvitandi haldið frá neytendum af tóbaksfyrirtækjum. Dapurlegt skot í fótinn.

Vantrú þykist berjast gegn hindurvitnum og skipulögðum lygum trúarbragða, en í stefnu þess segir orðrétt á forsíðu þeirra: "Helsta markmið félagsins er að vinna gegn boðun hindurvitna í samfélaginu." Með þessari skipulögðu árás á eina manneskju hefur félagið sýnt að það stendur ekki fyrir skynsamlega umræðu og gagnrýna hugsun, þó svo að sumir einstaklingar innan félagsins geti verið af öðrum meiði.

Ber einstaklingi eitthvað annað en siðferðileg skylda til að láta vita af svona umræðu meðal félaga sinna?  Væri kannski réttara að þegja og verða þannig samsekur öðrum félagsmönnum að glæpnum, ef við gerum ráð fyrir að einelti og skipulagt níð sé glæpur?

 

Mynd: Whistleblower eftir Goni Montes


Leitin að hinu óþekkta

lestkristiansand.jpg
 
Ég sit í lest og ferðast frá Stavanger til Kristiansand, í Noregi. Það er myrkur þarna úti. Ég veit að tré, fjöll, vötn og fjöldi fólks streymir framhjá mér, eða þá að ég streymi framhjá því. Og ég veit að þetta eru allt tré, fjöll, vötn og fólk sem ég þekki ekki. Jafnvel þó að ég þekki eitthvað til einhverra þeirra.
 
Og ég átta mig á að ferðalagið í gegnum þetta líf er svolítið eins og að sitja í þægilegu sæti við lestarglugga og horfa á allt hið óþekkta streyma framhjá, og ég átta mig á að þegar við ferðumst svona hratt, þurfum við eitthvað til að halda okkur í, við þurfum á einhverju að halda sem við þekkjum. Kannski þess vegna logga ég mig inn á bloggið mitt með iPadnum mínum og byrja að skrifa. Og ég skrifa þér þó að ég þekki þig ekki neitt, og kannski vegna þess að ég tel mig þekkja þig að einhverju leiti. Og innst inni veit ég að þessi þú sem ég skrifa, er ég sjálfur, einhvers staðar í framtíðinni, einstaklingur sem man ekki til þess að hafa skrifað þessi orð, en gerði það samt. 
 
Þannig verð ég sjálfur jafn ókunnugur og hver annar sá sem les þessi skrif.  
 
Reyndar þarf ég ekki að hugsa lengi til að sjá að jafnvel hugur minn er umhverfi fullt af trjám, fjöllum vötnum og fjölda fólks sem ég þekki ekki. Því að hver einasta manneskja sem ég hef kynnst, ég gæti kynnst henni betur; hvert einasta tré sem ég hef séð, gæti ég snert; og hvert einasta fjall sem ég hef klifið, gæti ég klifið aftur. 
 
En alltaf staldra ég við það sem ég þekki, þegar tími gefst til þess. Hugsanlega vegna þess að ég vil kynnast því betur. Sem þýðir kannski í raun að vilji ég þekkja það betur, sé ég svolítið heillaður af hinu óþekkta. Og ég veit að það litla sem ég veit er eitthvað sem ég get þekkt betur, og því er ég umkringdur hinu óþekkta. Af hverju ætli við leitum svo stíft af þekkingu, þegar svo lítið er af henni að hafa, og svo lítið af vanþekkingu okkar sjálfra, þegar úr svo miklu er að moða?
 
Við ferðumst gegnum þetta líf og stærum okkur af því sem við þekkjum, því við teljum okkur vera það sem við vitum, vera þær prófgráður sem við höfum náð í skólum lífsins. En kannski erum við einmitt ekki það sem við þekkjum, heldur nákvæmlega það sem við ekki þekkjum, því að lífið er ekki eitthvað sem stendur í stað, heldur streymir áfram og afmáir allar minningar, þannig að það eina sem eftir stendur er eitthvað sem ekki fæst afmáð. Og hvað er það? Kannski þekkingarleysið sjálft? Nakinn skilningur? Eða kannski það sem við erum innst inni og yst úti?
 
Við erum ekki það sem við höfum, við erum það sem við leitum. Við erum það sem við beinum athygli okkar að á hverri stundu. Og athygli mín er stöðugt á námi, á því hvernig við lærum, og ég heillast af augnablikum þar sem ég uppgötva mig sem fáfróðan, þegar ég geri mistök, þegar ég geri eitthvað heimskulegt, eitthvað sem ég skammast mín fyrir, og reyni síðan að átta mig á hvaðan mistökin koma. 
 
Góður vinur minn telur að þetta sé stöðug leit að afsökunum, en ég tel mig vita að  að þetta er leit að skýringum, skilningi á sjálfum mér og heiminum, því að oft veit ég ekki af hverju ég geri mistök - þau bara gerast, og ég hef þessa þörf til að setja saman kenningar um hvaðan mistökin spretta. Og þá helst til að koma í veg fyrir að þau gerist aftur af mínum völdum.
 
Stundum geri ég mistök þegar ég er veikur fyrir, stundum vegna  hugarfars - því ekki er ég fullkominn þar frekar en nokkur annar - stundum finn ég til hroka, þeirri hugmynd að ég geti gert hlutina betur en allir aðrir, og stundum finnst mér ég hafa lífið í hendi mér, en það er á slíkum augnablikum sem mistökin koma í heimsókn og minna mig á að auðmýktin skili meiru en hrokinn. 
 
Ég er alltaf í leit að þessu augnabliki þar sem allt stendur í stað, þar sem allt er fullkomið, þar sem ekkert getur orðið betra, en svo átta ég mig á að þetta augnablik finnst ekki í lífinu, þar sem lífið stendur aldrei í stað. Kannski finnast þessi augnablik í þeim verkum sem maður skilur eftir sig. Eins og þessari bloggfærslu, til dæmis.
 
En hvaða verk skil ég eftir mig, þar sem ég þýt gegnum heiminn í þessari hraðlest? Er ég eitthvað meira en gufa sem líður upp í andrúmsloftið? Eru þessi skrif eitthvað meira en bókstafir sem birtast örfáum augum og gleymast svo á troðfullri lestarstöð, fullu af fólki sem getur varla beðið eftir að komast inn í lestina sem ég er að fara úr? Við þurfum nefnilega alltaf að kíkja á næsta blogg, lesa næstu grein, gera eitthvað annað.
 
Við erum alltaf á leiðinni út í buskann.
 

Af hverju eru lygar skaðlegar?

 liar
 
Lygar eru eitt af þeim fyrirbærum í þessum heimi sem vert er að fyrirlíta. Ég er ekki að tala um saklausan skáldskap, eða þegar fólk segir eitthvað rangt vegna þess að það veit ekki betur, heldur þegar það viljandi segir ósatt. Reynir að blekkja með orðum.
 
Sá sem lýgur, getur gert það af ýmsum ástæðum, til dæmis gæti viðkomandi talið að lygin hjálpaði honum að verja slæman málstað, geti verið gagnleg við ákveðnar aðstæður, eða væri einfaldleg skemmtilegri en sannleikurinn. Ástæðurnar eru margar. Helsta uppspretta lyga virðist tengjast hagsmunavörslu, sérstaklega þegar hagsmunirnir tengjast eigin skinni.
 
Afleiðingarnar eru alltaf þær sömu þegar litið er til lengri tíma, skaðlegar fyrir lygarann og það samfélag sem lygarinn lýgur að. Hugsanlega lifir lygarinn við þá sjálfsblekkingu að lygar séu skaðlausar, og einfaldlega nauðsynlegur hluti af leiknum sem þetta líf getur verið í hans huga, og réttlætir sig jafnvel með þeirri hugsun að allir hinir ljúgi líka. Og ekki er ólíklegt að viðkomandi muni taka þetta afar sjúka viðhorf til heimsins, með sér i gröfina.
 
Það er tvennt sem einkennir lygara: þeir eru yfirleitt tilbúnir til að taka sér afstöðu óháð þeim upplýsingum sem fyrir liggja, og þar að auki hafa þeir mikla trú á eigin minni og gáfum. Því varla lýgur sá sem telur sig ekki geta valdið lýginni til lengri tíma? Þeir telja sig klára, en eru það ekki, því að lygin gerir þá sem ástunda hana sífellt heimskari. Sjálfur treysti ég ekki eigin minni. Of oft hefur mig misminnt um staðreyndir og hef upplifað þá sorglegu mæðu sem fylgir því að hitta manneskju og muna ekkert eftir henni. Ef svona erfitt getur verið að muna sannleikann, hversu erfitt ætli það sé að muna lygarnar og aðgreina þær frá sannleikanum til lengri tíma litið? Frekar treysti ég á skilninginn, og gagnrýna hugsun, að virða hlutina fyrir mér í hvert sinn sem ég rannsaka þá, eins og ég sé að gera það í fyrsta sinn.
 
Hvernig gera lygar einstakling heimskari? Jú, sjáðu til. Við tengjum okkur saman í mannlegu samfélagi með orðum, og á meðan setningarnar og meiningarnar í orðunum eru sannar, þá getum við byggt upp traust samfélag saman, treyst hverju öðru, vaxið saman. Þegar lygarar blanda sér í slíkt samfélag, yfirleitt til að láta sig og sín sjónarmið líta betur út, þá hefur það áhrif á hvernig við upplifum  veruleikann.  Þegar við uppgötvum síðan að það er gjá milli veruleikans sjálfs og þess veruleika sem við trúum á, vakna spurningar um hvernig heimurinn sem við upplifum varð að öðru en því sanna. 
 
Unglingar sem vaxa úr grasi sjá stundum hræsnina sem fylgir lygum, því þeir eru tengdir við hinn náttúrulega heim, og eru enn að móta trú sína á heiminum, og þeir sjá í gegnum lygarnar, að minnsta kosti um sinn. 
 
Reynst getur erfitt að rekja þræðina í lyganetinu, og hugsanlega er það vonlaust verk, en sá sem í upphafði lagði fram lygina, hefur tekist að skekkja heimsmyndina, og hefur tekist að rugla samfélagið í rýminu, þannig að það verður veikara fyrir, og tefur fyrir framförum, hugsanlega í einhver ár, en það fer sjálfsagt eftir völdum viðkomandi. 
 
Er eitthvað heimskulegra en slík verk?

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband