Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2012

Mission: Impossible - Ghost Protocol (2011) ****

MissionImpossibleGhostProtocol

„Mission: Impossible – Ghost Protocol“ er betri en allar fyrri Mission: Impossible myndirnar. Allt gengur upp í þetta skiptið. Í stað þess að einblína á Tom Cruise eins og gert hefur verið í öllum fyrri myndunum og áhættuleik hans, hefur verið ákveðið að leggja áherslu á persónusköpun og frumleg atriði, þó að ramminn utan um söguna sé sá sami og áður.

 

Það er einvalalið bæði fyrir framan og aftan myndavélina. Brad Bird leikstýrir sinni fyrstu leiknu mynd, en áður hefur hann fengist við leikstjórn teiknimyndanna „The Iron Giant“, „The Incredibles“ og „Ratatouille“. Það sem sérstaklega vekur athygli er hversu gríðarlega vel heppnuð atriðin eru. Leikstjóranum tekst að skapa góða tilfinningu fyrir umhverfi hvers einasta atriðis og leikur sér skemmtilega með tíma og rúm. Ég man ekki eftir að hafa séð jafn flott atriði í nokkurri annarri hasarmynd.  Ég á ekki orð.

Hægt er að nefna nokkur dæmi:

  • Yfirlitsmynd og eltingarleikur í Búdapest
  • Flótti úr rússnesku fangelsi
  • Brotist inn í skjalasafn með iPad
  • Yfirlitsmyndir yfir eyðimerkur Saudi-Arabíu
  • Brotist inn í netþjónaherbergi á efstu hæðum Burj Khalifa turnsins í Dubai
  • Eltingarleikur í sandstormi
  • Slagsmál á ýmsum hæðum hátæknibílastæðis í Mumbai.

Þetta er ein af þeim myndum sem maður verður að sjá í bíó, helst í risastórum IMAX sal. Tónlistin er líka flott útfærð og gefur manni gæsahúð þegar við á.

Nóg um umgjörðina.

Í þetta sinn þarf Ethan Hunt (Tom Cruise) að koma í veg fyrir kjarnorkustyrjöld sem sænska illmennið Kurt Hendricks (Michael Nyquist) ætlar að koma af stað til að græða á ástandinu sem mun fylgja í kjölfarið. Í för með Hunt slást hin undurfagra og snjalla Jane Carter (Paula Patton) sem leitar hefnda á sínum heittelskaða, tæknisnillingurinn fyndni Benji Dunn (Simon Pegg) sem þráir að taka þátt í alvöru hasar, en situr yfirleitt fyrir framan tölvuskjá, og greinandinn William Brandt (Jeremy Renner) sem hefur furðugóða bardagahæfileika miðað við skrifstofublók, og með óuppgerða fortíð í farteskinu. Þessi hópur vinnur skemmtilega saman að lausn vandamála sem þarf að leysa með mikilli tæknikunnáttu, með því að nýta hvern sentímetra og hverja einustu sekúndu, sem að sjálfsögðu á að vera ómögulegt að auki.

Það eru mörg flott atriði í myndinni. Efst á mínum lista eru eltingarleikur í sandstormi, blekkingarleikur með iPad og síðan Tom Cruise sprangandi utan á hæsta turni heims.

„Mission: Impossible – Ghost Protocol“ er eins og njósna-, hasar- og spennumyndir eiga að vera. Þessi skemmtun gengur fullkomlega upp og er það þétt að mig langaði til að horfa á hana aftur strax og hún var búin. Listilega gerð hasarmynd.

Ekki missa af þessari í bíó!


Til hamingju Sjálfstæðisflokkur! Ísland er ykkar!

Til hamingju Sjálfstæðisflokkur! Ísland og Alþingi er þitt á nýjan leik. Fall ríkisstjórnar er óhjákvæmilegt. Stórmeistarafléttan í gær  er það magnaðasta sem sést hefur í íslenskri pólitík síðan bakstunguhnífarnir fóru á fullt í Reykjavík fyrir nokkrum árum. Ljóst er að flokksmenn annarra flokka gera sér varla grein fyrir hvað er í gangi og vita ekki að í gær var dagurinn þegar stjórnin tapaði völdum.

Afar snjallt að hafa bandamenn ofarlega í röðum flestra annarra flokka. Öðruvísi komast rétt mál ekki í gegn.

 

(Broskall gleymdist...)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

(...ekki) Wink


Hvernig greinum við góða manneskju frá vondri manneskju?

good-or-evil-22

Þetta er spurning sem leitar á mig þennan ágæta laugardag. Það er létt snjólag yfir bænum og friðsemdin er mikil. Önnur vinnuvika ársins hefur liðið hratt og nauðsynlegt að setjast niður, velta hlutunum fyrir sér, og ímynda sér augnablik þar sem tíminn stendur í stað. Slíkt augnablik finn ég þegar ég sest niður og skrifa vangaveltur mínar.

Ein tilraun til að svara þessari spurningu, um hvernig við greinum góða manneskju frá illri, kemur úr Biblíunni. Ég tek það fram að ég álít Biblíuna ekkert heilagri en aðrar bækur, en hef fundið í henni töluvert af visku frá fyrri kynslóðum sem ég tek til mín. Þó að brot úr þessari góðu bók séu afar góð, þá eru ekki allir ávextir hennar jafn góðir. Það er nefnilega svo auðvelt að túlka og mistúlka orð að það er tilviljun ein hvort afleiðingarnar verði góðar eða vondar. Ætli það fari ekki mest eftir því hversu vel gefin eða vel viljuð manneskja les ritið.

Þar af leiðandi, samkvæmt hennar eigin skilgreiningu á hinu "góða tré", er mögulegt að túlka Biblíuna ekki sem góða bók og ætti því helst að kasta á bálköst, en orðrétt segir í Matteusarguðspjalli 7:15-20:

"Varist falsspámenn. Þeir koma til yðar í sauðaklæðum, en innra eru þeir gráðugir vargar. Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá. Hvort lesa menn vínber af þyrnum eða fíkjur af þistlum? Þannig ber sérhvert gott tré góða ávöxtu, en slæmt tré vonda. Gott tré getur ekki borið vonda ávöxtu, ekki heldur slæmt tré góða ávöxtu. Hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og í eld kastað. Af ávöxtum þeirra skuluð þér því þekkja þá."

Nú er reyndar hægt að deila um það hvort að svona málsgreinar og síðan prestar sem hafa jafnvel misþyrmt börnum séu ávextir Biblíunnar, en ef við látum að sem svo sé, þá má túlka það sem svo að Biblían hefur gefið af sér vonda ávexti og sé þar af leiðandi lítils virði.

Reyndar tek ég hvorki Biblíunni né öðrum bókum það bókstaflega að ég fari í einu og öllu eftir því sem þar er sagt, né trúi ég að þessi málsgrein sé að eilífu sönn, heldur reyni að átta mig á hvað verið er að meina, og velti fyrir mér hvort þetta eigi á einhvern hátt við mitt eigið líf og aðstæður.

Í þessu tilfelli sýnist mér viskan eiga vel við um manneskjur, en ekki fyrirbæri eins og bækur eða stofnanir. 

Til eru manneskjur sem halda því fram að trú sé af hinu illa. Aðrir telja trú vera af hinu góða. Enn aðrir vilja ekki alhæfa um þessu mál. Ekki ætla ég að deila um slíkar alhæfingar, enda virðist merking þeirra innantóm.

Ágætt kínverskt spakmæli skilgreinir trú sem vilja í samræmi við samvisku og visku heimsins.

 

Spurningar sem vakna:

  1. Hvað er góð manneskja?
  2. Getur manneskja verið góð án þess að trúa á hið góða?
  3. Er nóg að gera hið rétta samkvæmt lögum og reglum til að vera góð manneskja?
  4. Getur manneskja sem alltaf hlítir lögum og reglum verið ill manneskja?
  5. Hvernig þekkjum við muninn á hinu góða og hinu rétta?
  6. Hvers konar trú hefur alltaf góðar afleiðingar?
  7. Hvers konar trú hefur stundum góðar afleiðingar og stundum vondar?
  8. Hvers konar trú hefur alltaf vondar afleiðingar?
  9. Er öll trú sem útilokar önnur sjónarmið á heiminum af hinu illa?
  10. Er allt það trúleysi sem útilokar öll önnur sjónarmið af hinu illa?
  11. Er það satt að ef manneskja framkvæmir illvirki eða framleiðir vondan hlut, að sú manneskja sé þá annað hvort ekki góð í sjálfri sér eða vinni ekki vel?
  12. Ætli það sé annars sami hluturinn: að vera góð manneskja og vinna vel?
  13. Er hægt að alhæfa eitthvað um trú?
  14. Er bara hægt að alhæfa um túlkun ákveðinnar manneskju sem lifir í samræmi við ákveðna trú?
  15. Hvað er gott?
  16. Hvað er hið góða? 

Er hægt að tendra ljós í myrkri sál?

3247905268_5da836df2a

 

"Maður sem ákveður að lifa fyrir sál sína er eins og maður sem kveikir á lampa í myrku húsi. Myrkrið hverfur samstundis. Standir þú við ákvörðun þína mun sál þín skína þessari birtu."

- Búddha

 

Hvernig kveikjum við svona ljós?

Hvernig vitum við hvenær það er myrkur í sál okkar?

Er sálin til eða kannski bara stunduð kulnuð?

Er sálin eitthvað sem býr í einstaklingi eða mannkyninu öllu?

Deilum við sál með dýrum og plöntum?

Er kannski ekki hægt að tala um sál nema tilvist hennar hafi fyrst verið sönnuð með notkun mælitækja og rökhugsunar?

 

 

 

Mynd: 

E+Co Energy Through Enterprise


Hvað er svona merkilegt við réttlæti?

 12%20angry%20men
"Hvort viltu efnislegan eða siðferðilegan úrskurð?"

 

Réttlát dómgreind byggir á siðfræði, skynsemi, náttúrulögmálum, trúarbrögðum eða jöfnuði, en ætti sjálfsagt að byggja á sameiningu allra þessara þátta. Þegar brotið er gegn viðteknum reglum, snýst réttlæti um að rétta hið ranga með sanngirni og réttsýni.

Hér er heimfærð dæmisaga um réttlæti. Túlki hver sem vill.

 

Heimfærð dæmisaga:

Tvær þingkonur komu til forsætisráðerra og gengu fyrir hana. Önnur konan sagði: "Með leyfi, herra minn! Ég og kona þessi búum í sömu íbúð, og ég eignaðist barn í íbúðinni. Þremur dögum síðar eignaðist hún líka barn. Hún tók á móti mínu barni, en ég tók við hennar. Við vorum tvær saman og enginn annar hjá okkur í húsinu."

"Ég skil," sagði forsætisráðherra og klóraði hökuna.

Konan hélt áfram: "Þá dó sonur hennar um nóttina, af því að hún hafði lagst ofan á hann. Hún vaknaði um miðja nótt og tók son minn frá mér á meðan ég svaf. Hún lagði hann að brjósti sér en dauða soninn sinn lagði hún að brjósti mér."

"Skelfilegt að heyra þetta," sagði forsætisráðherra.

"Þegar ég vaknaði um morguninn og ætlaði að gefa syni mínum brjóst, sá ég að hann var dauður! Ég skoðaði hann betur og sá þá að þetta var ekki sonur minn."

Hin konan sagði: "Nei, það er minn sonur sem er lifandi. Þinn sonur er dauður."

Sú fyrri sagði: "Nei, það er þinn sonur sem er dauður, en minn sonur sem er lifandi."

Þannig þráttuðu þær fyrir framan forsætisráðherra langa stund. Hún fylgdist með bakvið sín þykku gleraugu, hlustaði og hugsaði vandlega.

Þá sagði hún: "Önnur segir: ,Minn sonur er lifandi og þinn sonur er dauður.' Hin segir: ,Nei, þinn sonur er dauður, en minn sonur er lifandi.'"

Forsætisráðherra tók upp símann og hringdi í aðstoðarmann sinn: "Viltu koma hingað á skrifstofuna? Mig vantar hárbeittan kjöthníf." Konurnar litu báðar undrandi á forsætisráðherra, en sögðu ekkert. Aðstoðarmaðurinn mætti á staðinn 10 mínútum síðar, með þennan líka stóra og þunga, en jafnframt hárbeitta kjöthníf. Aðstoðarmaðurinn var í rándýrum jakkafötum, vel rakaður og ilmaði af Boss rakspíra, en virtist þó ekki stíga í vitið.

Hann sagði skælbrosandi: "Mættur!"

Forsætisráðherra sagði við aðstoðarmann sinn: "Skerðu barnið í sundur og gefðu hvorri konunni sinn helming." 

Aðstoðarmaðurinn sagði, "Já, ráðherra", og steig að barninu, lyfti hnífnum og bjó sig undir að skera í maga þess. Barnið brosti til hans og hló.  Konurnar vissu ekki hvort þær ættu að taka þetta alvarlega, en báðar störðu þær vantrúaðar á forsætisráðherra og aðstoðarmann hans.

Þá stóð konan á fætur sem átti barnið, rétti fram báðar hendur og hrópaði, því að ást hennar til barnsins brann í brjósti hennar: "Gefðu henni barnið, ekki drepa það!"

Hin sagði og veifaði frá sér: "Þið eruð að grínast. Ekki glæta að þið meinið þetta. Skerið það bara í sundur!"

Þá svaraði forsætisráðherra: "Gefðu hinni konunni barnið. Hún er skjaldborg þess."

Og öll veröldin las næsta dag á Netinu um dóminn, sem forsætisráðherra hafði dæmt. Öll athugasemdakerfi fylltust af athugasemdum. Mikið var hneykslast á hvernig hún fór langt út fyrir valdsvið sitt, og að réttast væri að kæra hana til landsdóms. En sumir héldu að hún væri gædd djúpri dómgreind til þess að útkljá erfið mál, og ætti mikla virðingu skilið fyrir visku sína.

 

Heimildir:

Skilgreining á Wikipedia höfð til hliðsjónar

Konungabók Biblíunnar, 3. kafli.

 

Mynd:

Henry Fonda í hinu afar snjalla réttarhaldsdrama 12 Angry Men


Getur nokkur manneskja lifað án trúar?

harry_voldemort-pg-horizontal
Voldemort spyr: "Af hverju lifir þú?"
Harry Potter svarar: "Því að ég hef eitthvað til að lifa fyrir."

Ef þú hefur nokkurn tíma spurt sjálfan þig spurningarinnar, "Af hverju lifi ég?" eða "Hver er tilgangur lífs míns?" þá hefurðu vonandi áttað þig á að hlutirnir eru ekki eins einfaldir og þeir líta út fyrir að vera við fyrstu sýn, eða fyrsta hugsaða svar, eða fyrstu tilfinningu eða skoðun sem á þig leitar.

Það hættulega við slíkar spurningar er að svara þeim of fljótt. Annað svarið felst í að fallast á allar skýringar trúarbragða alltof fljótt, hitt svarið felst i að hafna öllum skýringum trúarbragða alltof fljótt. Að festa skoðun eða trú án þess að vita betur er ein helsta uppspretta fordóma sem geta eyðilagt manns eigið líf, og hugsanlega einhverra sem þú umgengst í lífinu líka.

Líf manneskju sem engu trúir er á svipuðu stigi og dýrs, finnur sér engan tilgang, því um leið og hún hefur fundið tilgang, trúir hún. Þannig má í raun segja að þeir sem trúa ekki, hafi engan boðskap að flytja annan en þá skoðun að manneskjur séu ekkert annað en dýr; að hin mannlega sál sé ekki til, sem er að sjálfsögðu trú, og hugsanlega aðeins trú sem getur komið frá mannlegri sál.

Þannig eru þeir sem boða trúleysi trúaðir á að betra sé að trúa ekki. Trúleysi er hugsanlega aðeins verri fordómur en þeirra sem trúa um of, þar sem í það minnsta hafa þeir sem trúa um of einhverja von, hvort sem hún er fölsk eða sönn. Hinir sem engu trúa hafa enga von. 

Af hverju lifir þú?

 

Mynd: Úr kvikmyndinni Harry Potter and the Deathly Hallows, Part II


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband