Bloggfærslur mánaðarins, júní 2011

Heilaþvegið Ísland?

brain-drain1-11

Heilaþvott þjóðar má kalla það fyrirbæri þegar mikið af vel menntuðu fólki flytur úr landi á stuttum tíma. Ástæður heilaþvotts eru yfirleitt af tvennu tagi: annars vegar eru aðstæður í heimalandi viðkomandi óaðlaðandi eða mikið af freistandi tækifærum í öðru landi. Á Íslandi ríkir efnahagskreppa, stjórnmálakreppa og siðferðiskreppa sem virka afar fráhrindandi á sumt fólk. Í Noregi er engin kreppa. Þess vegna er Noregur aðlaðandi fyrir vel menntað fólk frá Íslandi. Einnig er vel tekið á móti Íslendingum sem koma loks aftur "heim" eftir þúsund ára ferðalag.

Ég tel Íslendinga vera að upplifa heilaþvott í dag. Hann er sýnilegastur fyrst hjá heilbrigðisstéttum, enda mikið öryggisatriði að hafa traust heilbrigðisstarfsfólks til taks, og fólk fljótt að finna fyrir því þegar skortir á heilbrigðisþjónustu. En ekki má gleyma hinum stéttunum, ósýnilegu stéttunum. Smám saman hverfa píparar, húsasmiðir, verkfræðingar, kennarar, og fleira fólk til annarra landa. Enginn tekur eftir þessu hvarfi fyrr en alltof seint. Og þá verður alltof seint orðið alltof seint.

Fjölskyldur sem festu kaup á húsnæði frá 2004 með húsnæðislánum hafa lent í gríðarlegum erfiðleikum og upplifað skilningsleysi frá stjórnvöldum og þeim helmingi þjóðarinnar sem lenti ekki í sams konar klípu. Margir eru enn að berjast við að láta enda ná saman á Íslandi. Þegar einfaldir útreikningar sýna að dæmið gengur ekki upp, þá er leitað annarra leiða. Leitað er allra hugsanlegra leiða á heimaslóðum. Þegar þær bregðast, er leitað út á við. Þeir duglegustu finna tækifæri til að flytja úr landi. Þeir sem hafa minni metnað staldra lengur við og vonast til að málin reddist. Þetta fólk læsist inni í eigin skuldafangelsi.

Í vikunni ræddi ég við nokkra félaga mína í Bandaríkjunum. Þeir ræddu þessa tegund heilaþvottar og kölluðu "Brain Drain" á ensku. Sumir Bandaríkjamenn eru farnir að leita sér tækifæra erlendis, rétt eins og Íslendingar, enda sífellt erfiðara að fá vel launuð störf í landi hinna frjálsu. Spáð er því að vaxandi heimsveldi Kínverja muni gjörbreyta hinum vestræna heimi á næstu árum, og mikilvægt sé að halda í hið vel menntaða og duglega fólk sem leitar annað við svona aðstæður. Annars verður lítil von fyrir þá sem eftir sitja. Það má spyrja sig hvort að vestrið sé reiðubúið fyrir valdatíma austursins.

Ekki má gleyma að gríðarlegar fjárhæðir hafa verið greiddar til að styrkja innviði samfélagsins með menntakerfinu, og það á við um heim allan. Þeim löndum sem tekst að laða til sín efnilegasta og best menntaða fólkið, þeim mun farnast vel, sama hvernig viðrar. 

Viðbrögð Íslendinga eru frekar púkaleg gagnvart þessu ástandi. Það er eins og fólk átti sig ekki á því hversu verðmæt hver einasta manneskja er, og hversu mikið tap það er fyrir þjóðarbúið að missa duglegt og vel menntað fólk úr landi. Stundum furða ég mig á þessu innantóma afskipta- og sinnisleysi, og tel það jafn skaðlegt og allar hinar kreppurnar sem nú geysa á Íslandi. Þarf að þýða allt yfir í krónur eða evrur til að fólk skilji tapið sem felst í brottflutningnum?

Það væri áhugavert að sjá það í nákvæmlegum útreikningum hversu mikils virði hver einasta dugleg og vel menntuð manneskja er, sem frá Íslandi flytur. Sérhver slík manneskja kostar sjálfsagt að minnsta kosti 10 milljónir króna á ári. 10 brottfluttir kosta þá um 100 milljónir og 100 brottfluttir verða að milljarði. Sjálfsagt má meta höfuðstól hverrar manneskjur upp á hundrað milljónir.

Ég hef heyrt töluna 2500 í þessu samhengi, og með einföldum reikningskúnstum sjáum við í hendi okkar að slíkur fjöldi brottfluttra getur auðveldlega kostað þjóðina 2500 milljarði á ári. Og þá er þessi tala sjálfsagt vanmetin frekar en hitt.

Ætli ríkisstjórnin og Alþingi velti þessu yfir höfuð fyrir sér?


Super 8 (2011) **

75208_gal

"Super 8" er samvinnuverkefni á milli Steven Spielberg og J.J. Abrams sem er frægastur fyrir að vera maðurinn á bakvið sjónvarpsþættina "Lost" og "Alias", sem og kvikmyndanna "M-III" og "Star Trek". Abrams notar óspart sviðsetningu úr ævintýramyndum Spielberg, svo mikið að undirritaður var alltof meðvitaður um Spielberg áhrifin úr myndum eins og "Close Encounters of the Third Kind," "E.T.", "Jaws", "Jurassic Park", og "Raiders of the Lost Ark". Þetta var of mikið af hinu góða.

Reyndar byrjar myndin vel og skemmtilegar persónur kynntar til sögunnar. Hetjurnar eru sex börn, en aðalhetjurnar eru löggusonurinn Joe Lamb (Joel Courtney) og Alice Dainard (Elle Fanning), en þau tvö eiga afar góða spretti saman. Einnig er löggan Jackson Lamb (Kyle Chandler) skemmtileg og hefði getað orðið flottur karakter hefði meiri tíma verið varið í gaurinn.

Fyrstu tíu mínúturnar eru mjög góðar, þar sem börnin safna saman í hóp til að gera zombie-kvikmynd. Við upptöku á lestarstöð keyrir bíll inn á teinana og klessir á lestina þannig að hún fer öll úr skorðum, og tætlur úr henni dreifast um allt svæðið án þess að skaða börnin. Úr lestinni sleppur geimskrímsli sem verður að sjálfsögðu þrándur í götu barnanna og tilefni fyrir herinn til að hertaka allan bæinn.

Restin er tóm klisja, fyrir utan furðulega tilraun til að vekja samúð með skrímsli sem snæðir manneskjur í morgunverð. Ég hafði gaman af myndum Spielberg í gamla daga og missti ekki af einni einustu þeirra þegar þær komu í bíó, og hafði jafn gaman af "The Goonies" og "Gremlins", en "Super 8" kemst ekki með tærnar þar sem hinar fyrrnefndu hafa hælana. Til þess vantar henni allan frumleika og kraft.

Ég get ekki mælt með "Super 8". Samt höfðu þeir fimm félagar sem sáu hana með mér öll gaman að henni og töldu sumir að hún yrði jafnvel költ klassísk. Því mati er ég ósammála. Hafirðu gaman af skrímsla-b-myndum, leigðu þér þá eitthvað eins og "Infestation" (2009). Hún er ódýrari í alla staði, en miklu skemmtilegri.


Er íslenska hagkerfið ennþá að hrynja, hægt og hljótt?

Fjármálastofnanir svindluðu grimmt og sköpuðu sér gríðarlegan sýndargróða, bæði með því að fjármagna eigið féð á ólögmætan hátt og með því að taka stöðu gegn krónunni árið fyrir október 2008. Um þessar forsendur má lesa hér í afar góðri grein í Viðskiptablaðinu eftir Magnús Halldórsson. Ég er sammála þeim forsendum sem hann gefur sér í þessari grein, en ekki þeirri trú hans að neyðarlögin hafi verið af hinu góða fyrir þjóðina. Reyndar komu þau í veg fyrir þjóðargjaldþrot á þeirri stundu, og hafa skapað svigrúm til aðgerða, en aðgerðir hafa ekki verið nýttar sem skyldi og stofninn er fúinn, og mun fyrr eða síðar gefa eftir.

Mikið af þessum sýndargróða var breytt í raunverulegan pening fyrir fólk sem tók virkan þátt í svindlinu, og skapaði þannig nýja yfirstétt í íslensku samfélagi. Þessi nýja stétt hefur varið blóðpeningum sínum á ólíkan hátt, með kaupum á eignum hérlendis sem og erlendis, og með því að ávaxta þennan (sviksamlega) arð á innlánsreikningum með föstum vöxtum (og tryggða með verðtryggingum), en þessir reikningar voru varðir með neyðarlögum í október 2008. Lífeyrissjóðir voru virkir þátttakendur í svikamyllunni og eru það enn, þar sem innistæður þeirra eru orðnar miklu hærri en þær hefðu verið án fjármálakerfisblöðrunnar. Og líffeyrissjóðir verja þessa peninga eins og dreki á gulli sínu, og ekki nóg með það, heldur er krafist reglulegrar og verðtryggðrar ávöxtunar á höfuðstólnum.

Það er aðeins ein leið möguleg til að fjármagna slíkar ofurupphæðir; það er með því að hækka höfuðstóla á lánum lántakenda langt umfram það sem upphaflega var gert ráð fyrir. Lántakendur hafa engan annan kost en að ganga við þessum auknu og ósanngjörnu kröfum, þar sem að annars gætu þeir misst húsnæði eða atvinnutæki, með gjaldþroti. Þetta er mun alvarlegra þegar um einstaklinga er að ræða en fyrirtæki, því að manneskja sem verður gjaldþrota lendir í miklu óvissuástandi og getur hæglega tapað öllum sínum eignum, á meðan gjaldþrota fyrirtæki getur skipt um kennitölu og fært eignir sínar yfir á það, en skilið skuldirnar eftir. Í það minnsta virðast þetta vera leikreglurnar í dag. Og þetta virðast fáir vilja skilja eða hafa áhuga á.

Ég hef verið þeirrar skoðun að neyðarlögin voru galin, þó ég skilji vel af hverju sumir telja þau snilld, að þau hafi verið sett til að bjarga fjármálakerfi sem er dæmt til að hrynja á endanum, aðgerð til að tefja hrunið, þar sem grundvöllur þess að fá peninga frá lánþegum hlýtur á endanum að þverra. Hið nýja kerfi, sem er reyndar spegilmynd hins gamla, byggir á fúnum grunni sem hlýtur að gefa eftir. Það verður eitthvað hægt að sparsla í hinn fúna við, en á endanum munu þessir plástrar ekki lengur duga til annars en að fela sárin tímabundið.

Hrunið er ennþá í gangi. Með neyðarlögunum var því frestað og hinni nýju yfirstétt og líffeyrisjóðum gefið tækifæri til að skjóta eignum sínum undan. Allt sem gert hefur verið gert miðar að því að bjarga hinni nýju yfirstétt, á meðan almúginn má bíta í skjaldarendurnar og éta þær á meðan lengt er í hengingarólinni sem ennþá er vafin um hálsinn.

Samfélag og fjármálakerfi sem byggir á ranglátum grunni mun aldrei standast tímans tönn. Spurningin er hvenær næsti skellur verður og hvort að spilaborgin muni þá hrynja til grunna.


Eru bankar að reikna verðtryggð lán ólöglega?

Áhugavert viðtal á Bylgunni í morgun við formann Hagsmunasamtaka Heimilanna, Andreu Jóhönnu Ólafsdóttur, þar sem hún fullyrðir að reikningsaðferðir banka á verðtryggðum lánum standist ekki lög.

Hlustaðu með því að smella hér.


X-Men: First Class (2011) **1/2

74057_gal

"X-Men: First Class" er margfalt betri kvikmynd en hin hryllilega "Thor" sem kom út fyrr í sumar. Persónusköpunin er góð, og sagan er ágæt, en allra best er illmennið sem Kevin Bacon leikur með stæl.

Til að gera stutta sögu styttri, þá hefur nánast allt sem kemur fram í þessari mynd komið fram í hinum X-Men myndunum. Þetta er forsaga sem fjallar um hvernig Magneto (Michael Fassbender) og Prófessor X (James McAvoy) kynnast og verða næstum vinir þar til í ljós kemur að lífsskoðanir þeirra fara ekki saman og þeir eru ekki nógu þroskaðir til að gera út um málin á skákborðinu.

76415_gal

Ástæðuna virðist hægt að rekja til þess að Prófessor X fékk gott uppeldi, á meðan Magneto ólst upp í fangabúðum nasista undir harðri stjórn orkuboltans Sebastian Shaw (Kevin Bacon). Prófessor X er algóður, með skýrt siðferði og aga, leitar eftir þekkingu á stökkbreytingum og samskiptum við stökkbreytt fólk. Hann gengur til liðs við CIA þegar Shaw ógnar heimsfriðnum. Magneto á ýmislegt sökótt við Shaw og leitar hans í hefndarhug. 

Prófessor X og Magneto hittast og ákveða að vinna saman gegn þessum sameiginlega óvin, og á meðan safna þeir að sér hópi stöbbreyttra sem fylkja sér síðan í lið með öðrum þeirra frekar en hinum. Við getum sagt að X-Men hópurinn segi að meðalið helgi tilganginn, en Magneto liðið að tilgangurinn helgi meðalið, en á meðan gerir Shaw engan greinarmun á tilgangi eða meðali.

77133_gal

Þetta er svolítið skemmtileg saga, en því miður tekst leikstjóranum ekki að halda dampi út alla myndina. Hann hefði sjálfagt getað klippt hana niður töluvert og náð þannig betri takti, en sjálfsagt vegna reynsluleysis hefur hann ekki tímt að klippa burt óþarfa atriði. 

Ég sé ekki eftir að hafa séð "X-Men: First Class" í bíó, en játa að hún skilur heldur ekkert sérstaklega mikið eftir sig. Allra besta atriðið í myndinni er varla lengra en tíu sekúndur, en þar birtist gamalkunnur karakter úr myndaröðinni og fer með setningu ásamt svipbrigðum sem kitluðu hláturtaugarnar. 

Ekki alvond kvikmynd en ekki algóð heldur. Ívið betri en verri. Ef við berum "X-Men: First Class" saman við fyrri X-Men myndirnar, þá finnst mér hún ekki jafn góð og "X-Men" og "X2: X-Men United"; hins vegar mun betri en bæði "X-Men: Last Stand" og "X-Men Origins: Wolverine".


Tvífari Jóns Bjarnasonar ráðherra

Í gær varð mér á að hlusta á þessa ræðu Jóns Bjarnasonar ráðherra. Mér varð hugsað til annarrar ræðu sem ég heyrði fyrir nokkrum árum og ákvað að rifja hana upp.  

Ég skrifa þetta ekki af illkvittni. Það býr ekki vottur af slíkum tilfinningum innra með mér. Í fyllstu alvöru.

Pínlegt.

Góða skemmtun!

 

 


Hefur þú viðurkennt ósigur þinn gagnvart stjórnmálakerfinu?

Þessa dagana heyrist lítið annað en hvað allt gengur ljómandi vel á Íslandi. Þessi fögnuður hljómar svolítið grunsamlega, rétt eins og þegar allt var í ljómandi lukku rétt fyrir búsáhaldabyltinguna. Þá var verið að mæla fyrir að áfengi yrði flutt í verslanir, en í dag fyrir að sígarettur fari í apótekin. Þessir blessuðu stjórnmálamenn á þingi virðast algjörlega búnir að tapa áttum. Þeim má þó hrósa fyrir súrrealískt ímyndunarafl.

Af hverju var kerfinu ekki bylt eftir "byltinguna"? Það eina sem gerðist var að nýir tækifærissinnar tóku við ónýtu kefli og tóku á rás - í þetta sinn innrás frekar en útrás. Það þarf að taka til. Ekki með því að moka drasli út úr húsi og svo aftur inn. Það þarf að rífa niður kofann og byggja nýjan.

Alþingiskosningar eru brandari í dag. Hafa verið það frá því ég man eftir mér. Hinn almenni þegn hefur ekkert raunverulegt vald. Valið stendur um flokka. Fólk í þessum flokkum gefur fögur loforð. Þessi flokkur er kosinn. Til að ná völdum þarf flokkurinn að fórna einhverjum loforðum sínum, þannig að eftir stendur flokkur sem fólk hefði aldrei kosið. Varla er ég sá eini sem sér þetta sem sturlun?

Stjórnmálastéttin er með allt á hælunum. Jafnvel stjórnmálaþingið varð að stjórnmálaráði, fyrirbæri sem þing getur feykt á brott með einu pennastriki. Fólk  hefur sest í valdastóla sem einungis komst í þá vegna loforða um að slökkva elda og taka til, en hefur þess í stað bætt olíu á eldinn og rústað því sem eftir stóð. Eftir stendur uppgefið fólk í rjúkandi rústum.

Gjáin á milli lánþega og eigenda hefur breikkað með stuðningi ríkisstjórnar við fjármagnseigendur, endursölu á bönkum og þögulli leynigreiðslu til kröfuhafa sem þjóðin hefði þurft að samþykkja. Þjóðin vaknaði þegar ICESAVE málið kom fram, en nú hefur annað sambærilegt mál komið fram, og ríkisstjórn bæði búin að borga og samþykkja án þess að nokkur hafi fengið tækifæri til að benda á að íslensk heimili áttu þennan pening og honum fleygt úr landi í stað þess að mæta þörfum þeirra sem eru læstir inni í brennandi heimilum sínum.

Þeir sem á þingi sitja eiga það flestir sameiginlegt að vera fjármagnseigendur og þau kalla lánþega enn hinu niðrandi heiti "skuldara". Hringir það engum viðvaranabjöllum að heil stofnun var stofnuð með þessu níðingsnafni?

Lánþeginn hefur tekið á sig alla ábyrgð á forsendubrestum, og sumir leyst út allan séreignarsparnað til að sjá fyrir sér og sínum - og stjórnmálastéttin ber sér á brjóst og hreykir sér hátt af sýndarleiknum sem hún hefur staðið fyrir. Á meðan hefur fjármagnseigandinn tekið eitthvað á sig, en í engum líkindum við það sem hrunið hefur yfir lánþega.

Sér enginn að búsáhaldabyltingin misheppnaðist? Sér enginn að það var bara skipt um skaft á skóflu, í stað þess að skipta um skóflu?

Er engin leið út úr þessu sviksamlega og spillta kerfi sem ræður öllu á Íslandi í dag?

 

 

 

 

Ég vil benda á að Facebook síðuna: Stopp!! Hingað og ekki lengra, fyrir fólk sem vill láta í sér heyra og stoppa þann ófögnuð sem er í gangi, miðvikudaginn 8. júní kl. 16:00-23:00.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband