Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2011

Thor (2011) *1/2

thor_poster_1

"Thor" er full af góðum hugmyndum, eins og þeirri að hinir norrænu guðir séu geimverur frá hátæknivæddu samfélagi, og myndirnar frá Hubble af stjörnuþokum sýni ekkert annað en greinar og laufblöð af hinu gríðarstóra tré Aski Yggdrasil. Einnig fyllir Chris Hemsworth vel út í búning þrumuguðsins, það er ágætis húmor í nokkrum atriðum sem og flottar tæknibrellur í bardagasenum.

Ef svoleiðis er nóg fyrir þig, gott og vel. Þá geturðu farið í bíó og haft gaman af.

76027_gal
Chris Hemsworth passar í búninginn.

Ég geri hins vegar kröfur um góða sögu og persónur. Hver einasta persóna fyrir utan Thor er algjörlega flöt, fyrir utan kannski Óðin (Anthony Hopkins) sem virðist vera meira í karakter Messíasar heldur en hins grimma og miskunnarlausa Óðins - þar sem hann virðist sækjast eftir friði og ró á meðan kjarninn í hinum gamla Óðni goðafræðinnar er að hann sækist eftir átökum til að búa til hetjur, sem var hans helsta tómstundargaman. Það er reyndar aukaatriði hér. Reyndar er Thor svolítið flatur sjálfur, hann syndir í grunnu lauginni frekar en þeirri djúpu, og örkin hans er fyrirsjáanleg frá fyrsta atriði.

76040_gal
Skugginn af svarta svaninum heilluð af Todda þegar hann er loks kominn í flott föt. 

Natalie Portan leikur stjarnvísindamann sem heldur að hún hafi fundið eitthvað merkilegt stjarnfræðilegt fyrirbæri yfir eyðimörk Nýju Mexíkó. Það eru svona skrítnir stormar, eða ormaholur, sem eru í raun vísbendingar um ferðalög geimveranna sem Heimdallur stjórnar með því að stinga stóru sverði í stein. Því miður er Portman eins og skugginn af Svarta svaninum sem hún lék svo snilldarlega á síðasta ári. Í þessu hlutverki er hún dauf og litlaus, og persóna hennar algjörlega flöt, en svolítið sæt samt. Hinn ágæti Stellan Skarsgaard er fínn sem lærifaðir hennar, en hefur úr litlu að moða, og leikur persónu sem hefði getað verið eitthvað miklu meira. 

76024_gal
Hið fagra föruneyti Þórs. Á myndina vantar Siv. Lengst til hægri er hinn ósköllótti Ray Stevenson.

"Thor" hefur svo mikið sem hefði getað verið frábært. Hún er full af glötuðum tækifærum. Til dæmis hefur Thor fjóra félaga sem berjast með honum hvert sem hann fer, en maður nær engu jarðsambandi við þessar persónur - fyrir utan að ein þeirra er leikin af hinum ágæta Ray Stevenson, sem áður lék aðalhlutverkið í annarri Marvel mynd, "Punisher - War Zone", en eins og áður segir, þá eru þessar persónur algjörlega flatar. Það eina sem gerði þá persónu áhugaverða var að ég kannaðist við leikara sem er þekktastur fyrir frábæra persónu úr sjónvarpsþáttunum "Rome". Þar var hann sköllóttur. Hér er hann hærðari en dvergarnir í "Lord of the Rings".

image-B357_4DA003541
Þór, Óðinn og Loki glansandi fínir og flottir.

Önnur mögulega góð persóna var "Laufey", en eins og þeir sem kannast við norrænar goðasögur var Loki Laufeyjarson. Þá var Óðinn faðir hans. Í þessari útgáfu er Laufey ekki bara karl, heldur konungur frostrisa sem langar til að ryðjast inn í Ásgarð og drepa Óðinn. Og Loki er ekki beinlínis sonur Óðins, heldur fóstursonur, barn sem hann fann í höll Laufeyjar. 

Loki er í sjálfu sér spennandi persóna, en mér fannst Tom Hiddleston ekki ná neinum tökum á þeirri lævísi sem mætti nota í þennan geðveika karakter. Það hefði verið meira spennandi að fá leikara með almennilegt vægi til að leika Loka.

1742747-thor17_super
Svona lítur "hún" Laufey móðir Loka út í kvikmyndinni um Þór.

Mér var nokkuð sama hvað yrði um þessar persónur, sama hversu vel umhverfi þeirra var umlukið og upplýst í skrúði tæknibrella.

Það var nokkuð um vísanir í "The Avangers" sem kemur út á næsta ári. Jeremy Renner birtist í nokkrar mínútur, Samuel L. Jackson á lítið atriði eftir kreditlistann, og svo er líka vísað í Hulk sem horfinn vísindamann. Einnig er minnst á Stark, til að tyggja ofan í okkur að þessi saga gerist í Marvel heiminum. 

76020_gal
Heimdallur samgönguráðherra.

Ég hefði búist við að Kenneth Brannagh sem leikstjóri, uppalinn í Shakespeare hefð, legði meiri áherslu á sögu og karakter, en því miður gerir hann það ekki. Þessi mynd er gerð með hangandi hendi og er svona eins og máluð eftir númerum.

Þegar kemur að ofurhetjumyndum, þá er hún ekki jafn léleg og "Batman & Robin" eða "Superman IV: The Quest for Peace". Hún er meira eins og "Hulk",  "Spider-Man 3" og "Iron Man 2". Jæja, þá veistu hvað mér finnst.

Þó verð ég að játa mig sigraðan í einu atriði sem mér fannst fyndið, þegar Thor gengur inn í gæludýrabúð og biður um hest, eða nógu stórt dýr til að geta notað sem fararskjóta.

"Thor" er á endanum frekar létt mynd og kannski aðeins of mikið léttméti fyrir undirritaðan. Ég keypti mér Timex Expedition armbandsúr samkvæmt ráðleggingu frá Roger Ebert fyrir nokkrum árum, en ef maður ýtir á hnapp kviknar grænt ljós og maður getur séð hvað tímanum líður. Líti maður einu sinni á úrið meðan myndin er í gangi, er það ekki gott tákn. Ég leit þrisvar á úrið og var samt ekkert að flýta mér. Hafði ekkert að gera annað en að horfa á myndina. Engin ytri pressa. Mér fór að leiðast síðasta hálftímann, og tel það vera vegna þess að sagan var slök og persónurnar flatar.

timex.jpg
Kvikmyndaúrið Timex Expedition


Trúir þú á upprisu andans og eilíft líf?

Við heyrum sögu af manni sem hélt fyrirlestra um mannlegan kærleik og fyrirgefningu, og hélt því fram að allar manneskjur væru börn Guðs. Þar sem að hann telur allar manneskjur vera börn Guðs, álykta guðfræðingar þess tíma að maðurinn sé í raun að kalla sjálfan sig son Guðs. 

Það er erfitt að festa hendur á hvað "Guð" þýðir. Ólík trúarbrögð túlka það hugtak á ólíkan hátt, og jafnvel ólíkir angar trúarbragða eiga erfitt með að negla það niður. Einnig reyna trúlausir að negla hugtakið á kross, en tekst misjafnlega vel. Sjálfur tel ég Guð vera hið góða í mannkyninu, öll þau andans verk sem lifa af okkar jarðneska líf.

Þess fyrirlesari er handsamaður eftir að vinur hans uppljóstrar um hvar hann er staddur. Þessi vinur hans sér um fjármál námsmana og fyrirlesararans og tekur virkan þátt í skipulagningu næstu funda. Það má segja að þetta hafi verið farandskóli. Auðvitað er vinurinn, Júdas, sakaður um að hafa svikið fyrirlesarann, þó að honum hafi tekist með upplýsingagjöfinni að auka tekjur hópsins. Ekki fylgir sögunni að auðvitað voru þetta varla leynilegar upplýsingar, því maðurinn hélt opna fyrirlestra daglega, og því auðsótt mál að handsama manninn á einum slíkum.

Hvað um það.

Fyrirlesarinn er ákærður fyrir að villa á sér heimildir, fyrir að þykjast vera sonur Guðs. Rómversk stjórnvöld sjá ekki hvað er svona alvarlegt við þetta og vilja ekki ákæra. Hins vegar heimtar hópur ofsatrúarmanna blóð þessa manns, þar sem að orð hans jafnast á við guðlast. Stjórnvöld ákveða að leyfa almenningi að velja og haldin er svona takmörkuð þjóðaratkvæðagreiðsla, þar sem ákveðið er að krossfesta fyrirlesarann.

Fyrirlesarinn er nú hæddur. Hann er pyntaður. Fólk kastar í hann grjóti þar sem hann staulast eftir götu í fylgd hermanna á meðan hann dregur stóran krossvið á eftir sér. Fyrir hugmyndir sínar hefur maðurinn verið fordæmdur eins og ótýndur glæpamaður, sem á ekkert betra skilið en að deyja kvalarfullum dauðdaga. 

Fyrirlesarinn er negldur fastur á krossinn og deyr hann þar. Nemendur hans, móðir og aðrir vinir fylgjast með. Þau vita að hann er drengur góður sem engum hefur gert neitt mein. Þeim finnst þetta óréttlátt og vilja bjarga manninum, en geta það ekki þar sem hans er gætt af rómverskum vörðum. 

Fyrirlesarinn deyr. Hann er jarðaður. Sorgin er gríðarleg meðal vina hans, sem ákveða að minnast hans með því að setja líf hans og boðskap í ramma frásagnar. Þeim tekst þetta með því að krydda söguna hressilega svo að eftir verður tekið. Sumir hneykslast á sögunum því þær eru svo ótrúlegar. Þeir fatta ekki að sagan er rammi utan um boðskapinn, og ramminn er til þess eins að festa boðskapinn upp á vegg og hafa til sýnis. Þegar þú gagnrýnir listaverk, missirðu algjörlega marks þegar þú gagnrýnir rammann frekar en verkið sjált. Og verkið í þessu tilfelli er boðskapurinn sem felst í fyrirlestrunum.

Upp úr stendur að fyrirlestrarnir gleymast ekki.

Það er hin raunverulega upprisa. Ekki það að fyrirlesarinn vaknaði frá dauðum og fór að ganga meðal fólks og flaug síðan til himna. Það er bara sagan um söguna. Heldur er það andi fyrirlestrana sem lifir áfram, fyrirlestra sem fjölluðu um hvernig betra sé að lifa lífinu með fyrirgefningu sem grundvallarhugtak, frekar en reiði, hefnd eða blóðþorsta. Því með fyrirgefningu, sama hversu hörmulegt lífið getur verið, þá er alltaf von að hægt verði að hreinsa til og byrja upp á nýtt. Með fyrirgefningu eru skuldir murkaðar út, í stað þess að láta þær magnist upp og endi í blóðugum átökum. Með fyrirgefningu þarf ekki að hefna, og jafnvel ekki alltaf að borga allt til baka, né þarf að elta fólk í gröfina með ófullkomnum gjaldþrotalögum.

Fyrirlesarinn talaði um nýja leið til að takast á við lífið og tilveruna. Fyrir það var hann fordæmdur af samtíðarmönnum sínum. Hann er einnig fordæmdur af ýmsum nútímamönnum. Málið er að upp úr boðskapnum urðu til öll þessi trúarbrögð og allar þessar kenningar um hvernig best sé að túlka boðskapinn, og smám saman verða þessi trúfélög að samfélagsafli sem vill þvinga boðskapinn yfir á alla meðlimi samfélagsins. Svoleiðis hegðun er bara pirrandi og er í sjálfu sér í mótsögn við boðskapinn sjálfan. En hvað er hægt að gera? Það er erfitt að bæði halda og sleppa.

En ég spyr: hvaða leið er betri til að lifa lífinu heldur en með fyrirgefningu sem grundvallarhugtak? Viljum við endalaust erfa það ef einhver hefur sært okkur, viljum við endalaust vera ósátt við það sem er ósanngjarnt og ranglátt? Er eina leiðin til að jafna ranglæti að framkvæma ranglæti á öðrum?

Ég þykist ekki vera kristinn og þykist ekki heldur ekki vera kristinn. Hins vegar hef ég þessa lífsskoðun og er tilbúinn að endurskoða hana þegar betri rök bjóðast um hvernig hægt er að lifa lífinu vel. Rökin þurfa að vera djúp og benda á betri leiðir. Þá finnst mér ekki nóg ef rökin snúist aðeins um hvernig lifa skuli eigin lífi til að vera sáttur við tilveruna, heldur þurfa þau einnig að hafa raunveruleg samfélagsleg gildi. Slík kenning þyrfti að ná yfir meira svið en einstaklinginn og innsta fjölskyldukjarna, hún þyrfti að ná yfir mannlegt samfélag um víða veröld.

Þér er velkomið að skrifa athugasemdir og gagnrýna þennan hluta af minni lífsskoðun. Ég mun hlusta á þig, þó að mögulegt sé að ég svari ekki öllum athugasemdum, enda hef ég minn eigin píslarakstur í dag á Nissan Micra frá 1999 og verð ekki með netsamband aftur fyrr en á þriðjudag.


Af hverju látum við þrælkun líðast á Íslandi í dag?

Þræll er manneskja bundin af annarri manneskju eða kerfi gegn vilja sínum og neydd til að þjóna viðkomandi af auðmýkt. Reyni þrællinn að brjótast út úr þrælkuninni er honum hótað gjaldþroti sem hægt er að viðhalda þar til hann deyr úr hárri elli, en gjaldþrot jafnast nánast á við líflátsdóm, og er mun þyngra en nokkur fangelsisdómur sem Íslendingur getur fengið fyrir afbrot á Íslandi, jafnvel fyrir morð. 

Það eru tveir aðilar á Íslandi sem viðhalda þrælkuninni: 

Bankarnir ásamt kröfuhöfum sem enginn veit hver er, og stjórnvöld. Því miður fylgja margir stjórnvöldum blint. En stjórnvöld eru heyrnarlaus. Heyrnarlaus leiðir blindan í samræðu. Þrælslundin er rík, og óttinn við að kerfið stoppi hræðilegri en nokkur önnur ógn í þessari veröld. 

Ef  Jón Hreggviðsson getur ekki borgað húsnæðislán sín er honum ekki sýnd nein miskunn. Eignin er seld ofan af honum á nauðungaruppboði og fyrir hana fæst alltof lágt verð, en hann situr eftir á föðurlandinu með skuldir sem hann ræður aldrei við að greiða. Velji hann gjaldþrot geta kröfuhafar endurnýjað kröfur sínar á tveggja ára fresti þar til Jón hefur gengið berfættur ofan í kalda gröfina. Þetta er kerfið sem bankarnir og stjórnvöld viðhalda í dag.

Jón Hreggviðsson og fjölskylda hans lifir í angist og upplifa sig sem einangraðar og firrtar verur í heimi sem virðist standa á sama um mannleg gildi. Kona Jóns á erfitt með að höndla hin yfirþyrmandi vandamál sem óborganlegar skuldir reynast vera, þar sem engin leið virðist út úr völundarhúsi hins snobbaða ranglætis.

Ég trúi ekki að fólkið sem stórnar landinu vilji vera jafn miskunnarlaust og skilningslaust og það virðist vera gagnvart Jóni, konu hans og börnum. Kannski kann það bara ekki að setja sig í spor annarrar manneskju sem upplifir ólíkar aðstæður? Stjórnvöld gætu gert eitthvað af viti til að afnema þrælkun Jóns, eins og til dæmis að klippa á verðtrygginguna eða gert honum fært að byrja aftur á núlli. Það þyrfti að gera gjaldþrot mannúðlegra í kjölfar hrunsins, annars finnur Jón enga leið út úr vandanum, tekur næsta flug út í heim og kemur aldrei til baka.

Skjaldborgin yfir Jón og fjölskyldu hans hefur ekki verið reist af stjórnvöldum. Stjórnvöld gerðu þau mistök að biðja bankana að byggja skjaldborgina, og að sjálfsögðu urðu bankarnir við þeirri beiðni. Hins vegar byggðu þeir skjaldborg yfir sjálfa sig, og botnvörpu yfir heimilin.

Fjölmargir flytja úr landi frekar en að verða gjaldþrota vegna forsendubrests húsnæðislána og/eða atvinnuleysis. Ég veit um nokkra sem flutt hafa burt, og veit um miklu fleiri sem er að undirbúa brottflutning. Áhugavert væri að senda fyrirspurnir á þá sem halda norskukúrsa, en mér skilst að á þeim vettvangi sé mikið að gera.

Alþingismenn virðast ekki átta sig ekki á hversu alvarleg staðan er, því flestir búa þeir við gjörólíkar aðstæður en það fólk sem er að berjast við bankana vegna húsnæðislána og forsendubrostinna skulda, en pólitíkusar virðast hvorki vilja né geta sett sig í spor fólks við slíkar aðstæður, enda áhuginn ekki fyrir hendi og miklu auðveldara að fordæma fólkið en að styðja það. Og jafnvel setja sig á aðeins hærri skör en almúgann.

Íslenska stjórnmálamenn virðast vera afar sjálfhverft lið, sem hugsar fyrst og fremst um flokkinn sinn eða sjálft sig, og á erfitt með að greina hin raunverulegu vandamál. Þó eru til undantekningar, en þær eru ekki nema 1-5 manneskjur í alltof stórum þinghópi.

Það væri ágætt ef fólk nennti að setja á sig skó þeirra sem þurfa að kljást við forsendubrest heimilislána, og ganga aðeins um í þessum skóm, í stað þess að gera það sem bankarnir gera, hlaupa í burtu með skóna og skila þeim aldrei aftur.

 

Þessar pælingar vöknuðu eftir að hafa horft á heimildarmyndina Inside Job en Egill Helgason fjallar um hana á bloggi sínu í dag. 

 


"Þeim var eg verst er eg unni mest"

Eftir að hafa kannað 110% leiðina kemur ýmislegt áhugavert í ljós.

Eðlilegt hefði verið að 110% leiðin tæki mið af fjárfestingarmati Ríkisins til að finna sanngjarna viðmiðunarupphæð. Svo er ekki gert, heldur er farið eftir markaðsvirði, og einungis Bankinn hefur rétt til að velja matsaðila sem metur upphæðina. Sjálfstætt mat þriðja aðila kemur ekki til greina. Þannig getur 19 milljóna lán sem rokið hefur upp í 29 milljónir aðeins lækkað niður í 28 milljónir, þó að óhugsandi sé að selja viðkomandi húsnæði á meira en 23 milljónir, hafi reglulega verið borgað af láninu. Hafi lánið hins vegar verið komið í vanskil getur sagan verið önnur.

Einnig hef ég kannað hvort bankar kaupi upp fasteignir, en svörin eru þau að það geri þeir einungis þegar fólk er komið í þrot, fasteignin komin í vanskil og málið gert upp með nauðungarsölu. 

Fyrirgefið, en þessi nálgun á vandamálinu frá bankans hendi finnst mér skelfileg. Þarna verður mér hugsað til sagna um skrímsli og forynjur sem liggja á gulli og nærast á mannakjöti.

Nú óska ég eftir því að ríkisstjórnin taki í taumana og geri eitthvað af viti í þessum málum. Þó ekki væri nema aftengja verðtryggingu frá húsnæðislánum frá deginum í dag, til þess að fólk geti hugsanlega minnkað húsnæðisskuldir sínar á komandi árum. Allt minna en það er ómannúðlegt.

Einnig kæmi til álita að afskrifa húsnæðisskuldir, sem eru komnar langt fram úr upphaflegum áætlunum vegna forsendubrests, en þessi forsendubrestur er runninn undan rifjum bankanna sjálfra sé hægt að treysta á upplýsingar úr Skýrslunni sem nú er árs gömul. 

Það er ljóst að peningurinn sem bankarnir fengu til að leysa úr málum heimilanna fór í að halda uppi háum launum og arðgreiðslum, en fóru ekki í eðlilegan og nauðsynlegan farveg. Það er ekki nóg að fara af stað með aðra rannsókn eða málið í nefnd. Og ekki bara eitthvað verður að gera í málinu. Það verður að gera eitthvað raunhæft, sem gerir fólki fært að byrja upp á nýtt. Á núlli. Eða næstum núlli.

Ég óska eftir að ríkisstjórnin beiti sér í þessum málum eins og VG, Framsókn, Borgarahreyfingin og Samfylking lofuðu fyrir síðustu kosningar. Hvað þarf til að hreyfa við þeim? Henda í þau blóðugum fötum? Þannig voru sumir knúðir áfram í Íslendingasögunum þegar þeir komu sér undan að gera skyldu sína.

 

Úr Laxdælu, löngu eftir að Bolli Þorleiksson hefur verið veginn, og Guðrún Ósvífursdóttir er orðin þreytt á aðgerðarleysi þegar kemur að því að gera það sem þarf að gera:

Fám nóttum síðar en Guðrún hafði heim komið heimti hún sonu sína til máls við sig í laukagarð sinn. En er þeir koma þar sjá þeir að þar voru breidd niður línklæði, skyrta og línbrækur. Þau voru blóðug mjög.

Þá mælti Guðrún: "Þessi sömu klæði er þið sjáið hér frýja ykkur föðurhefnda. Nú mun eg ekki hafa hér um mörg orð því að ekki er von að þið skipist af framhvöt orða ef þið íhugið ekki við slíkar bendingar og áminningar."

Þeim bræðrum brá mjög við þetta er Guðrún mælti en svöruðu þó á þá leið að þeir hafa verið ungir til hefnda að leita og forystulausir, kváðust hvorki kunna ráð gera fyrir sér né öðrum "og muna mættum við hvað við höfum látið."

Guðrún kvaðst ætla að þeir mundu meir hugsa um hestavíg eða leika.

Eftir þetta gengu þeir í brott.

Um nóttina eftir máttu þeir bræður eigi sofa. Þorgils varð þess var og spurði hvað þeim væri. Þeir segja honum allt tal þeirra mæðgina og það með að þeir mega eigi bera lengur harm sinn og frýju móður sinnar.

"Viljum vér til hefnda leita," sagði Bolli, "og höfum við bræður nú þann þroska að menn munu mjög á leita við okkur ef við hefjum eigi handa."


Af hverju ríkisstjórnin verður að víkja strax

Ríkisstjórnin hefur ekkert umboð vegna Icesave enda vill hún ekki skilja hvað þjóðin hefur að segja um málið. Ólafur Ragnar skildi það vel í fyrra og var góður málsvari fyrir þjóðina. En þessi ríkisstjórn fór strax að ræða við aðila úti í heimi með afsökunartón og rugli.

Steingrímur ætlar að sitja sem fastast. Hann er lím ríkisstjórnar sem er að liðast í sundur. Steingrímur þarf að skilja að völd eru ekki bara fyrir völd, heldur er fólk kosið í embætti vegna loforða sem það gefur. Maðurinn er fastur í heimi fjarri veruleikanum, enda setið á þingi í meira en 30 ár. Mín skoðun er að þingmennska umfram átta ár ætti ekki að líðast.

Árni Páll er ekki rétti maðurinn til að sjá um Icesave málið á erlendri grundu, enda reynast í hans höndum tilgangurinn helga meðalið. Tilgangurinn er að komast í Evrópusambandið og meðalaðið er hvað sem er sama hvað það kostar. Og fórnarkostnaðurinn er þegar orðinn gífurlegur.

Sjálfur hef ég ekkert á móti því að Ísland gangi í Evrópusambandið, en er ekki sáttur við hvernig litið er á það sem lausn á vandamálum frekar en markmið til að finna betri stefnu. Það þarf að leysa mörg mál á Íslandi og sitjandi ríkisstjórnin hefur ekki getað gert mikið þau tvö ár sem hún hefur setið. Hún er svona eins og kona sem situr í ruggustól og reynir að leggja kapal og rugga sér samtímis.

Það þarf að laga skuldavanda heimila og fyrirtækja með því að klippa á verðtrygginguna. Það eitt getur gefið fólki von um einhvers konar framtíð. 110% leiðin reyndist bara djók, þar sem að bankarnir stjórna öllu eignamati og útiloka sjálfstætt mat. Það er náttúrulega bara bilun.

Þessi ríkisstjórn er ráðalaus en heldur sér á floti með öllum tiltækum ráðum sem hægt er að lesa um í Prinsinum eftir Machiavelli, 16. aldar verk sem fjallar um hvernig stjórnmálamenn ná völdum og hversu auðvelt er að halda þeim þegar völdin eru loks þeirra, sé öllum tiltækum ráðum og blekkingum beitt.

Í þarsíðustu kosningum kaus ég Samfylkinguna og varð fyrir afar djúpum vonbrigðum, enda hafði Björgvin G. Sigurðsson, heimspekingur, mælt fyrir að hann myndi berjast gegn verðtryggingunni og varð hann viðskiptaráðherra, sem síðan gerði ekkert í málinu, heldur fór að spila með þeim sem höfðu mestan hag af því að halda henni. Þá var það hluti af stefnuskrá Samfylkingarinnar að berjast gegn verðtryggingarskrímslinu, en hún gerði aldrei neitt, heldur ákvað að láta það líðast áfram. Sama sagan er ennþá í gangi. Sjálf forsætisráðherra hafði barist gegn verðtryggingu með kjafti og klóm í stjórnarandstöðu og vildi umsvifalaust banna hana vegna þess ranglætis sem hún skapaði, en sem forsætisráðherra setti hún málið í nefnd sem kæfði það síðan á einni viku.

Stjórnmálamenn sem eru við völd í dag á Íslandi eru aðeins við völd valdanna vegna, og svoleiðis verður að stoppa. Þeim virðist sama um hvað þjóðin hefur að segja og túlkar úrslitin í kosningum gærdagsins eins og þeim hentar. Því spái ég. Þetta munum við sjá í allan dag og næstu daga, eins og verið sé að neyða í okkur ógeðisdrykk. það gerðist eftir Icesave kosninguna í fyrra og það mun gerast eftir Icesave kosninguna núna.

Stóri vandinn er sá að næsta ríkisstjórn verður sjálfsagt eins byggð upp, bara með öðru fólki. Það þyrfti að brjóta þetta upp með því að breyta kosningafyrirlaginu þannig að fólk geti ekki keypt sér sæti á listum með forkosningum og þannig svindlað sér bakdyramegin inn á þing. Það þarf að breyta framkvæmdarreglum um kosningar, nokkuð sem hópur eins og stjórnlagaráð mætti beita sér fyrir.

Það er ljóst að þessi ríkisstjórn þarf að víkja strax, enda hefur þjóðin sýnt skýrt og greinilega að hún treystir ríkisstjórninni ekki fyrir að breyta rétt í Icesave málinu. Það er í sjálfu sér alvarleg vantraustsyfirlýsing frá þjóðinni sem ábyrgðarfullri ríkisstjórn ber að taka alvarlega.

Mikið hefur verið talað um að þessi ríkisstjórn sé að taka til. Því miður hefur það ekki verið mín upplifun. Þessi ríkisstjórn hefur reynt að halda veislunni áfram og hefur ekki ennþá fundið sér kúst og fægiskóflu.


Af hverju við segjum NEI við Icesave III (myndbönd)

Við erum ekki aðeins að greiða atkvæði sem Íslendingar fyrir hönd Íslendinga, við erum að greiða atkvæði sem manneskjur gegn ranglátu og miskunnarlausu kerfi fyrir hönd allra manneskja í heiminum sem þolað hafa þurft viðstöðulaust ranglæti frá þessu kerfi. Sumir hafa vissulega ekki upplifað þetta ranglæti og finnst þetta ekki skipta neinu máli. Þetta fólk mætti tileinka sér aðeins meiri náungakærleik og horfa gagnrýnið á hvernig fólk er bundið í skuldaþrældóm og hundelt alla ævi verði það gjaldþrota. Hvernig hin rangláta varðtrygging stendur sem hungraður varðhundur um þetta fólk og kemur í veg fyrir að þau gangi um gæfuhlið lífsins.

Mér er ekki sama um hollenska og breska þegna og lít ekki á þá sem andstæðinga, heldur samherja. Síðustu helgi var ég á Bretlandseyjum og gat ekki betur séð en að þar væri fólk á sama máli. Það hafði reyndar sterkari skoðanir gagnvart eldgosum á Íslandi heldur en Icesave.

Ég hef haft gæfu til að ferðast víða um heim á þessu ári og stöðugt spurt fólk hvað þeim finnst um þessi mál; í Mexíkó, Bandaríkjunum, Spáni, Bretlandi og Noregi, og það sem stendur upp úr er að almenningur skuli ekki taka á sig ábyrgð og skuldir þeirra sem ábyrgð og skuldir eiga að bera, að ranglæti skuli ekki sigra, að barátta Íslendinga gegn þessum samningi sé barátta hins venjulega þegns um allan heim.

Ég gæti aldrei sagt já við Icesave, ekki bara vegna því óbragði sem fylgir, heldur að það myndi setja blett á sál mína sem ég sjálfur gæti aldrei fyrirgefið mér.

Flestir þeir sem ætla að kjósa "já" virðast gera það vegna þess að þeir eru orðnir leiðir á málinu eða hafa annarlegra hagsmuna að gæta. Það er kannski skiljanlegt viðhorf, en það er uppgjafarviðhorf, nánast þrælslund, sem gefur aðeins aukið skotfæri á Íslendinga.

Hvað ef William Wallace í Braveheart hefði sagt fyrir aftökuna: "Æi, ég nenni þessu ekki lengur. Að deyja hægt og kvalarfullt fyrir glataðan málstað eins og frelsi?"

Hvað ef Jesús hefði ákveðið að stíga niður af krossinum og sappa þá sem hann ákærði með eldingum og sagt: "Æi, pabbi. Til hvers að deyja á kvalarfullan hátt fyrir þetta pakk? Til hvers í andskotanum þarf mannkynið dæmi um algjöra fyrirgefningu?"

Hef ef Jón forseti hefði sagt: "Ég nenni ekki að standa í einhverri sjálfstæðisbaráttu. Það er miklu auðveldara að láta Dani sjá um okkur og detta bara í það. Vér samþykkjum allir."

Hvað ef Gunnar á Hlíðarenda hefði sagt: "Fögur er hlíðin og ekkert skiptir mig meira máli en þessi fallega hlíð og flotta eiginkona, en ég nenni þessu ekki lengur, og er farinn frá öllu sem ég elska."

Hvað ef Ingólfur Arnarson hefði sagt áður en hann sigldi frá Noregi: "Shit! Ég nenni þessu ekki. Betra að sofa út en flakka norður um höf."

Hvað ef Danton hefði sagt: "Það er tilgangslaust að gera byltingu gegn þessari skrúðfylkingu hefðarfólks, því að á endanum mun lýðurinn stjórna og lýðurinn er nautheimskur."

Hvað ef íslenska landsliðið í handbolta kæmist í úrslitaleik HM og í stað þess að keppa við gífurlega sterka andstæðinga sína, ákveddu að leikurinn væri fyrirfram tapaður og gæfu leikinn.

Hvað ef íslenska þjóðin segir: "Það á ekki að kenna útrásarvíkingum, spilltum ráðamönnum og banksterum um Hrunið. Við skulum gefa þeim annað tækifæri með því að segja Já við Icesave III."

Uppgjöf er engin rök.

Málið er að stjórnvöld hafa verið að gefa þessu fólki annað tækifæri þvert á vilja þjóðarinnar. Einu tækifærin sem þjóðin hefur haft til að segja hvað hún vill var við atkvæðagreiðslu Icesave II sem var hafnað með um 97% atkvæðum, og ríkisstjórnin ákvað að túlka niðurstöðuna eins og henni hentaði - og hefur áfram starfað látlaust gegn vilja þjóðarinnar. Í dag fær þjóðin annað tækifæri til að segja hug sinn og á morgun mun ríkisstjórnin halda áfram að mistúlka niðurstöðuna og láta sig engu skipta hvað þjóðinni finnst. Við eigum aldrei að gefast upp gagnvart slíkri kúgun og þess vegna kaus ég nei. Að auki vil ég ekki taka myntkörfulán fyrir óákveðna upphæð til að borga eitthvað sem mér ber engin skylda til að borga.

Þú skilur vonandi það sem ég er að segja: "Ég nenni þessu ekki lengur" er uppgjöf vegna leiða.

Eini verulegi munurinn á Icesave II og Icesave III er að áróður fyrir Icesave III hefur verið miskunnarlaus. Nýjar blekkingar líta dagsins ljós hvern einasta dag. Það verður til dæmis áhugavert að sjá í næstu viku hvort verslunarkeðjan Iceland muni ennþá dekka samninginn allan. Verði svo er það hið besta mál, en verði svo ekki, mun einhver spyrja af hverju þessi hugsanlega sala var notuð sem áróðurstæki tveimur dögum fyrir kosningar?

Frá íslenskum vinum mínum, og ég ber mikla virðingu fyrir mínum vinum, sem ætla að segja já hef ég heyrt þrenns konar rök:

 

a) Það eru allir búnir að fá leið á þessu máli.

b) Það er skynsamlegra að semja heldur en að fara í dómsmál, þar sem að upphæð þessa samnings er líklega viðráðanleg og ódýrari en að fara í dómsmál.

c) Það felst minni áhætta og kostnaður í því að segja já.

 

Ungverskur vinur minn, Adam Tamás að nafni, hafði samband við mig á meðan ég skrifaði þessa grein og vildi endilega fá að senda inn nokkur orð:

Unfortunately, that's a global trend in the western word: most company leaders take no personal responsibility for what they are doing. They just enjoy the benefits of the leadership, but do not understand, that the dark side of being on the top is - rather should be - their personal responsibility for what they and their company does. And certainly they have the right connections to polititians, when trouble comes, so they can make it throuh not having any consequences whatever they do.

But this drives far further. There are many trials going on, where normal, ordinary citizens got far higher judges for far smaller crimes: in Hungary a few citizens were put in jail for fishing without permission, while polititians, and company leaders for causing far larger social and benefical damages got very short term, or rather virtually no punishment.

Í þessari færslu hef ég ákveðið að segja nákvæmlega það sem mér finnst, í stað þess að rökstyðja málið á hófsaman hátt, en það hef ég gert í fyrri færslum. Ég hætti ekki að berjast gegn ranglæti og læt ekki letja mig frá slíkri baráttu.

 

Hér eru að lokum nokkur myndbönd frá kjosum.is þar sem gangandi vegfarendur segja af hverju þeir munu segja "nei" við Icesave. Það sem er sameiginlegt með flestum rökunum er að sterk réttlætiskennd skín í gegn.






































Af hverju "já" er ekki það sama og að loka Icesave málinu

Flestir sem hafa hug á að kjósa "já" í Icesave kosningunni telja sig vera að kjósa málið út af borðinu. Skoðum aðeins forsendur þessarar hugmyndar.

Með "já" verður samningur samþykktur þar sem staðfest er að þjóðin mun greiða óþekkta upphæð til Breta og Hollendinga. 

Upphæðin er óþekkt. Við höfum fengið upplýsingar frá skilanefnd bankans um afar bjartsýnar tölur. Getum við treyst á áreiðanleika skilanefndar? Hver og einn verður að gera það upp við sig. Þar sem ég hef heyrt of oft "úlfur, úlfur" frá "bankasérfræðingum" efast ég um áreiðanleika þessa mats.

Tímasetning á upplýsingum um að upphæðin gæti auðveldlega orðið engin kemur á frekar undarlegum tíma, aðeins tveimur dögum fyrir kosningar í máli sem tekið hefur tvö ár. Áróðursbrellur og blekkingarleikir ríkisstjórnar lituðu fyrri kosningar, og hugsanlega þær sem eru í gangi núna. Mig grunar að ríkisstjórnin sé að deila út áróðri frekar en áreiðanlegum upplýsingum, rétt eins og umræður á alþingi snúast um að sannfæra frekar en að segja sannleikann. Ég treysti ekki ríkisstjórninni.

Klárast málið með "já"? 

Hugsaðu þér að þú sért að kaupa þér bíl eða húsnæði með láni í erlendum gjaldmiðli? Þú hefur fengið greiðsluáætlun frá bankanum sem lítur ágætlega út. Það lítur út fyrir að greiðslur munu ganga ágætlega. "Sérfræðingar" lofa slík lán. Icesave er slíkt lán, fyrir utan að það er ekki verið að kaupa neitt annað en hugsanlega þjónkun við Breta og Hollendinga.

Til að tryggja stöðugleika krónunnar eftir "já" verður að halda við gjaldeyrishöftum þar til "skuldin" er greidd. Athugið að þetta verður ekki að skuld fyrr en þjóðin hefur sagt "já". Þetta þýðir að ef greiðslumat skilanefndar bankans er röng, geta gjaldeyrishöftin verið föst í allt að 40 ár. Það þýðir að stærstu alþjóðleg fyrirtæki á Íslandi neyðast til að fara úr landi og á móti minnkar tekjustofn ríkisins verulega, sem þýðir að hækka verður skatta meira, draga meira úr þjónustu og að ráðstöfunartekjur heimila verði minni. 

"Já" lokar þjóðina inni og gefur ríkisstjórninni tækifæri til að koma á kommúnismaveldi sem ekki verður hægt að losna úr fyrr en lánið hefur verið greitt.

Sagt er að "nei" leiðin kalli á óvissu dómstóla. "Já" leiðin kallar því miður á meiri óvissu en "nei" leiðin. Í "nei" leiðinni verður aðeins þörf á að hafa áhyggjur af hugsanlegu dómsmáli þar sem Bretar og Hollendingar óska eftir meiri peningum frá þjóð sem næstum varð gjaldþrota á einu bretti, og sett voru neyðarlög til að bjarga því. Ekki var gert upp á fólki vegna þjóðernis, heldur aðeins umráðs íslenskra stjórnvalda. Ríkið tryggði fullar innistæður á Íslandi og lágmarksinnistæður erlendis, enda réði þjóðin aldrei við að greiða fullar innistæður. Hefðu ekki allar innistæður verið tryggðar á Íslandi eru líkur á að kerfið hefði hrunið, þess í stað hefur það hneigt sig og er byrjað að rísa á ný með gífurlegum gróða íslenskra einkabanka og banka sem hafa verið yfirteknir af ríkinu, enda streyma peningar inn til þeirra vegna gífurlegs magns af verðtryggðum húsnæðislánum heimila, sem sumar fjölskyldur geta aðeins borgað vegna aðgangs að séreignarsparnaði, en sjá fram á gjaldþrot með áframhaldandi stöðugu álagi.

Í gangi er undirbúningur fyrir tvö dómsmál sem gera "já" leiðina stórhættulega. Annars vegar er mál þar sem dæmt verður um lögmæti neyðarlaganna. Tapi ríkið því málið án þess að hafa "já" samning er líklegt að fjármálakerfið íslenska hrynji. Nauðsynleg endurreisn fer í gang strax. En þá kemur í ljós að Bretar og Hollendingar halda í kröfur sínar, og hóta að fara í mál sem Íslendingar hafa ekki lengur efni á að taka þátt í. Þeir vilja sinn pening enda er skuldin orðin raunveruleg. Í stað peninga verður sótt í aðrar náttúrulegar auðlindir, sama hverjar þær eru, hugsanlega orkusamninga yfir 100 ár, aðgang að vatni í 100 ár, eða eitthvað slíkt. Annað eins hefur gerst víða um heim. Verði enginn slíkur samningur að þvælast fyrir þjóðinni mun endurreisnin ganga betur.

Annað dómsmál í undirbúningi er gegn sjálfum gjaldeyrishöftunum. Það er ljóst að falli gjaldeyrishöftin í dómsmáli, verður endurgreiðslan strax mun erfiðari. Evrópubankinn hefur eitt mat á verðmæti krónunnar. Það sem kallað er "raungildi" er miklu hagstæðari upphæð, en er í rauninni "platgildi" þar sem því er haldið vegna gjaldeyrishaftanna.

Niðurstaða mín er að hvorki "já" né "nei" muni klára málið. Hins vegar hefur áróður ríkisstjórnar frá upphafi snúist um að koma þessu "leiðinlega" máli frá svo það hætti að flækjast fyrir uppbyggingu. Þetta er einfaldlega ósatt. 

Það eina sem "já" tryggir er að ábyrgðarmenn Icesave skuldanna sleppa með skrekkinn og undan reiði Hollendinga og Breta, og þurfa aðeins að takast á við reiði íslensks almennings sem finnur fyrir auknum þunga á eigin herðar. Ég reikna með að mikill fjöldi muni finna sig knúna til að flytja úr landi, og spurning hvert þetta fólk geti farið, enda erfið kreppa víða um heim í dag.

"Já" er ekki það sama og að loka málinu. Ef ég tryði því og þeim upplýsingum sem hefur verið dælt í þjóðina af ríkisstjórn og fjármálastofnunum fyrir þessar kosningar, þætti mér freistandi að velja "já". En ég trúi ekki að þessar upplýsingar séu neitt áreiðanlegri en þær sem gefnar voru fyrir Icesave II kosningarnar og enn lengra aftur í tímann, um hinn "glæsilega" Svavars-samning sem átti að þvinga hljóðlaust gegnum atkvæðagreiðslu á þingi. Ég hef eiri ástæðu til að efast um áreiðanleika upplýsinga frá þessum aðilum, þar sem þeir hafa reynt vísvitandi að blekkja mig og þjóð mína, ekki bara einu sinni eða tvisvar, heldur stöðugt og í næstum hverju einasta máli. Reynt er að sannfæra frekar en að segja satt, og það böggar mig. 

Svar mitt er "nei". Málið klárast ekki með "já".

 

---

Kíktu á þessa grein sem sönnunargagn 1 til að sjá svart á hvítu að þessari ríkisstjórn er ekki treystandi: Af hverju er ekki enn búið að BANNA verðtryggingu lána?


Hefurðu lesið áhættugreiningu Marinós G. Njálssonar um Icesave?

Ég mæli með að þú kíkir á bloggsíðu Marinós og lesir vandlega áhættugreiningu hans um Icesave. Þetta er vönduð grein og fylgt eftir með skynsamlegum umræðum í athugasemdakerfinu.

Smelltu hér:

Hvernig sem fer tapar þjóðin

 


Af hverju er ekki enn búið að BANNA verðtryggingu lána?

Þessa grein birti Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra Íslands, 2. nóvember árið 1996 og virtist þá full af réttlætiskennd og umhugað um íslensk heimili. Skáletrun og textastækkun er frá undirrituðum. Hvað hefur breyst síðan Jóhanna birti þessa grein?

Árni Páll Árnason viðskiptaráðherra hefur einnig lýst yfir að hann vilji losna við verðtrygginguna, en heldur að það sé aðeins hægt með því að ganga fyrst í Evrópusambandið, en hann sagði í viðtali við Vísi árið 2008:

,,Því fyrr sem við náum í gegn aðild að Evrópusambandinu því fyrr getum við kvatt verðtrygginguna. Við megum einfaldlega engan tíma missa."

Ályktun landsfundar VG 2009 um afnám verðtryggingar:

"Fundurinn skorar á ríkisstjórnina að leita leiða til að lækka höfuðstól húsnæðislána eða frysta hluta hækkunar höfuðstóls lána vegna verðbólguskotsins. Einnig að gerð verði tímasett áætlun um afnám verðtryggingar.

Ekki verði gengið lengra í innheimtu skulda en að lánastofnun leysi til sín veðsetta eign."

Fyrir kosningar og alla tíð hafa Samfylking og VG verið sammála um afnám verðtryggingar. Nú eru þessir flokkar við völd, og munu sjálfsagt glata þeim innan skamms, en geta þau ekki að minnsta kosti gert einn hlut rétt: afnema verðtrygginguna áður en hún veldur enn meiri skaða? Nú er verðbólgan lág og kjörið tækifæri til að afnema þetta skrímsli. 

Hvað er það sem stoppar, annað en að verðtryggingin leiðir fjármálastofnanir á spena íslenskra heimila?

Mikið væri ég feginn að sjá þing og ríkisstjórn gera að minnsta kost einn hlut rétt.

 

Grein forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, skrifuð áður en hún blindaðist af eigin völdum:

 

Ísland eina landið sem verðtryggir skuldir heimilanna

Efnahagsleg rök og sanngirni mæla með því að verðtrygging á lánum til heimilanna verði alfarið bönnuð. að ríkisstjórnin sé föst í gamla verðbólguhugsunarhættinum.

RÍKISSTJÓRNIN telur að sívaxandi skuldir heimilanna séu merki um að heimilin eyði um efni fram. Ríkisstjórnin talar minna um að heimilin í landinu eru oft neydd til að taka lán til að eiga til hnífs og skeiðar frá degi til dags og fyrir gluggaumslögunum frá lánastofnunum vegna skulda sem sífellt vefja upp á sig. Ríkisstjórnin talar heldur ekki um hvernig verndarstefnan og ofurtollar í landbúnaði, sem heimilin eiga enga sök á, hafa aukið skuldir heimilanna.

Grænmetisverð eykur skuldir heimilanna
Stöðugleiki hefur ríkt í efnahagslífinu á udanförnum árum- fyrir tilstuðlan launafólks og verðbólgan verið með því minnsta sem þekkist. Fólkið skilur því ekki hvernig höfuðstóll skuldanna vex sífellt. Er nema von að það skilji ekki ástæðurnar, eins og þegar kartöflur hækkuðu tímabundið í sumar, þá leiddi vísitalan og verðtrygging til þess að skuldir heimilanna jukust um 500 milljónir króna. Hækkun á grænmeti á einu ári, sem mörg heimili hafa ekki efni á að kaupa vegna ofurtolla og verndarstefnu ríkisstjórnarinnar, juku engu að síður skuldir heimilanna um 1300 milljónir króna.

Verðtryggð lán ekki afnumin
Undirrituð beindi fyrirspurn til viðskiptaráðherra á Alþingi um verðtryggingu lána og skuldir heimilanna. Þar kom margt athyglisvert fram sem kallar á viðbrögð.

Meginniðurstaðan er að verðtrygging er ekki á lánum til heimila í löndum OECD, að Íslandi undanskildu. Notkun hennar í öðrum löndum hefur einskorðast við ríkisskuldabréf en þó í mjög litlum mæli. Skuldir heimila í árslok verða 350 milljarðar króna og hafa aukist á þessu ári um 25 milljarða króna. 90% af lánunum eru verðtryggð, en einungis 10% óverðtryggð.

Af hálfu stjórnvalda eru engin áform uppi um að takmarka verðtryggingu lána, umfram það sem þegar hefur verið ákveðið.

Staða heimilanna hér og á hinum Norðurlöndunum
Skuldir heimilanna á hinum Norðurlöndum hafa farið hraðminnkandi frá 1986. Hér á landi hafa þær farið vaxandi á þessum tíma og voru á síðasta ári 125% af ráðstöfunartekjum eða 25% umfram það fé sem heimilin hafa til ráðstöfunar. Gjaldþrot heimilanna hafa vaxið gífurlega. Á árinu 1993 voru þau 414 ­ á árinu 1995 ­ 871 gjaldþrot. Þannig hafa gjaldþrot heimilanna meira en tvöfaldast á 2 árum. Laun og lífskjör eru hér með því lægsta sem þekkist og vinnutími hvað lengstur. Auk þess þurfa íslensk heimili að búa við verðtryggingu á lánaskuldbindingum sínum sem hvergi þekkist innan landa OECD. Því til viðbótar eru bæði raunvextir og nafnvextir mun hærri hér á landi. Þannig voru nafnvextir um 2­3% hærri á Íslandi, en hinum Norðurlöndum í október sl., þó verðbólgan sé svipuð í þessum löndum.

Ríkisstjórnin hefur enga trú á stöðugleikanum
Stöðugleiki, lítil verðbólga og lengst af jákvæður viðskiptajöfnuður hefur ríkt hérlendis á síðustu misserum. Jafnframt sýna mörg fyrirtæki mikinn hagnað og greiða niður skuldir sínar.

Þessi umskipti í efnahags- og atvinnulífi má að langmestu leyti þakka launafólki, en afleiðing þess hefur bitnað á launafólki, með auknum skuldum þeirra og litlum launahækkunum. Allt þetta ætti nú að skapa forsendur til að afnema verðtryggingu á fjárskuldbindingum heimilanna. En allt kemur fyrir ekki. Rökstuðningur ráðherrans í svari við fyrirspurn minni byggist á gamla verðbólguhugsunarhættinum, ­ sem ríkisstjórnin virðist föst í. Hún hefur enga trú á að stöðugleikinn haldist til frambúðar.

Er Ísland öðruvísi?
Það vekur líka athygli í svari ráðherrans að þó stjórnvöld hafi þegar ákveðið að banna verðtryggingu á sparifé landsmanna frá 1. janúar árið 2000 stendur ekki til að banna verðtryggingu útlána umfram það sem þegar hefur verið ákveðið á skammtímalánum. Það mæla bæði efnahagsleg rök og sanngirni með því að verðtrygging á lánum til heimilanna verði alfarið bönnuð á næstu misserum.

Við viljum ekki endurtaka leikinn frá 1983 að kippa úr sambandi verðtryggingu launa en ekki lána. Ríkisstjórnin kemst ekki hjá því að svara af hverju Ísland, sem býr við svipað efnahagsumhverfi og þjóðir sem við berum okkur saman við, hafi eitt landa verðtryggingu á lánum til heimilanna. Og það sem verra er. Ætli að viðhalda henni. Því verður að breyta.

Jóhanna Sigurðardóttir, alþingism. (Mbl. nóvember, 1996)


Nei eða já? Já eða nei?

Bera ríki ábyrgð á einkafyrirtækjum?

Svar mitt er nei.

 

Eiga ríki að bera ábyrgð á einkafyrirtækjum?

Svar mitt er nei.

 

Á þjóð að taka lán í erlendum gjaldmiðlum til að borga fyrir skáldaða ábyrgð?

Svar mitt er nei.

 

Ef ekkert fæst úr þrotabúi gjaldþrota fyrirtækis, á þá þjóðin að borga eftirstöðvar af skuldum þess?

Svar mitt er nei.

 

Mun Icesave málið hverfa verði samningurinn samþykktur?

Svar mitt er nei.

 

Mun Icesave máli hverfa verði samningurinn felldur?

Svar mitt er nei.

 

Verður hægt að ákæra heila þjóð fyrir afbrot einkafyrirtækis?

Svar mitt er nei.

 

Íslendingar eiga að vera leiðtogar í þessari staðfestu, þar sem þjóðir um allan heim eru í samskonar vanda. Ætlast er til að skattborgarar borgi skuldir einkafyrirtækja víða um veröld, eins og ekkert sé sjálfsagðara. Ættum við ekki að stoppa auðvaldið frá því að vaða yfir almúgann um allan heim með því að stoppa þá heima? Það verður aðeins gert með því að segja "nei, hingað og ekki lengra." Ekki með því að segja "já, og endurtaktu leikinn að ári".

"Já" viðheldur nýfrjálshyggju.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband