Bloggfærslur mánaðarins, september 2010

Þakkir til þingmannanefndar

Geir H. Haarde lofaði að allar innistæður í bönkum yrðu tryggðar þegar bankakerfið var við það að hrynja ofan á hann og okkur hin. Hann lofaði ekki að aðrar fjárfestingar yrðu tryggðar, eins og húsnæði, fyrirtæki eða skuldir.

Það þýddi að kostnaður hrunsins fór á alla hópa þjóðfélagsins nema einn, þá sem áttu pening í banka. Þetta hefur mér þótt ósanngjarnt frá upphafi hruns, og þess vegna er ég frekar sáttur við að Geir H. Haarde þurfi að standa skil á sínu máli frammi fyrir dómstólum.

Ég kenni honum ekki um hrunið. Ég kenni engum um hrunið öðrum en þeim sem unnu skemmdarverk með því að ræna bankana innanfrá og koma peningum undan með því að taka himinhá lán án veða, en ég held að þeir sömu hljóti að hafa verið beggja megin borðsins til að gera svona glæpi mögulega. Samskonar hegðun átti sér stað víða um heim. Og alls staðar er slík hegðun röng.

Í maí 2008 furðaði ég mig á því þegar Alþingi gaf leyfi til að taka 500 milljarða erlent lán til að dæla inn í bankana, og þá þegar var jafnvel mig farið að gruna hvernig á málum stóð. Ég bloggaði meira að segja um það, skrifstofublók úti í bæ sem átti ekki að hafa hundsvit á þessum málum. Mig grunaði að bankarnir höfðu verið rændir innanfrá vegna þess hvernig gengið gjörbreyttist alltaf rétt fyrir ársfjórðungsuppgjör. 

Það er óhugsandi að ráðamenn höfðu ekki fattað þetta eða grunað að eitthvað var í gangi, fyrst að einhver gaur út í bæ sá í gegnum þetta, án þess að hafa meiri upplýsingar en það sem Davíð Oddsson lét frá sér fara í febrúar 2008 og með því að kíkja á línurit yfir breytingar á genginu.

Þingmannanefndin vildi ákæra fjóra ráðherra, og ég tel ákærurnar allar hafa verið vel rökstuddar og finnst bara fyndið að einn af þeim settist strax aftur á þing. Það blossar ekki lengur upp í mér reiðin, heldur er ég farinn að hafa svolítinn húmor fyrir þessu fólki, enda tel ég mig hólpinn, fluttann úr landi á stað þar sem spilling sést varla, þar sem litið er niður á kappræðuform á þingi, þar sem heiðarleiki og dugnaður er vel metinn sem raunverulegt gildi. 

Ég vil hrósa þeim þingmönnum sem þorðu að standa á bakvið ákærurnar, enda var rökstuðningur þeirra og mál gott. Þau höfðu kynnt sér málið til hlýtar og komist að skynsamri niðurstöðu. Fyrir vikið eru þau að sjálfsögðu úthrópuð og fá á sig miklar skammir, þó að heiður þeirra sé mikill, fyrir utan fulltrúa Sjálfstæðisflokks, sem virðast ekki mega hafa sjálfstæða skoðun aðra en þá sem forysta þeirra skipar. Rök eru hætt að skipta Sjálfstæðisflokkinn máli. Sú var tíðin að rök og skynsemi voru aðalsmerki þess flokks. Ekki lengur.

Að Geir hafi verið ákærður en ekki hin þrjú er vissulega skammarlegt af þingmönnum, en þó má þakka fyrir að það tókst að opna Pandorukassann. Landsdómur fer í gang, og það eitt og sér ætti að gefa þingmönnum eitthvað aðhald, þó að það sé vissulega út í hött að þingmenn séu þeir einu sem geti ákært ráðherra - sem sjálfir eru þingmenn og þar af leiðandi samstarfsmenn eða fyrrum samstarfsmenn þeirra sem sitja á þingi.

Ímyndum okkur hvernig það væri ef aðeins dópistar fengju að taka ákvörðun um hvort  að fíkniefnasalar yrðu ákærðir fyrir sölu á fíkniefnum.


Hvað er svona merkilegt við að vera svalur?

Snoopy--Joe-Cool--Maxi-Posters-331290

Flestir virðast skilja hvað meint er með því að segja einhverja manneskju vera svala, og flestir virðast gefa svalanum gildi. En býr eitthvað mikilvægt að baki því að vera svalur? Er það einhvers konar lífsstefna? Eða er það hunsun á lífsstefnu?

Hinir svölu virðast eiga það sameiginlegt að þeir dansa línudans ósýnilegrar línu. Stígi þeir feilskref, tapa þeir svalanum. Takist þeim að dansa línuna án mistaka, hljóta þeir aðdáun þeirra sem fylgjast með.

Það virðist ekki mögulegt að vera svalur án áhorfenda. Það verður einhverjum öðrum að finnast maður svalur, og þegar þessi annar tjáir að maður sé svalur, þá skal hinn svali láta eins og hann taki ekki eftir hrósinu, því taki hann eftir því og þakkar kannski fyrir sig, þá tapar hann svalanum.

Kannski.

Hægt væri að þakka fyrir sig á svalan hátt, en það er sjálfsagt einhvers konar listform.

Frægt fólk í sviðsljósi gerir allt fyrir svalann. Líf og afkoma geta snúist um að vera, eða að minnsta kosti láta líta út fyrir að maður sé svalur. En það er bara yfirborðið. Lítum dýpra.

Hvað þýðir að vera svalur?

Að vera svalur er að vera einhvers staðar nálægt því að vera kaldur, en vera það samt ekki. Hinn kaldi reiknar út allar mögulegar leiðir, á meðan hinn heiti vekur hrifningu, en hinn svali lætur einhvern veginn eins og ekkert sé, en sýnir samt einhvers konar umhyggju fyrir umheiminum. Þessi svali kemur stöðugt á óvart, er óútreiknanlegur. 

Hinn svali hefur góða stjórn á eigin tilfinningum og látbragði, og hefur fullkomna stjórn á eigin tjáningu. Hinn svali lætur sig engu skipta þau mál sem hann hefur enga stjórn á, og dissar þau sem eitthvað utan hans umfangs. 

Gallinn er sá að hinn svali þarf stöðugt að vita hvað það er sem hann getur haft áhrif á, og hvað það er sem hann hefur engin áhrif á. Hinn svali getur dissað eldgos eða flóð, dauðann eða slys og jafnvel mannkynssöguna, en þegar kemur að atburðum samtímans, verður erfiðara að velja um hvað það er sem viðkomandi getur haft áhrif á og hvað ekki.

Getur þú haft stjórn á framtíð þjóðar þinnar? Ef þú getur það, en gerir ekkert í málinu, þá ertu varla svöl manneskja. Ef þú getur það, og gerir eitthvað í málinu, þá ertu svöl manneskja. Ef þú getur það ekki og gerir ekkert í málinu, þá ertu hugsanlega svöl manneskja, og ef þú getur það ekki en reynir það samt, ertu ekki svöl manneskja, heldur örvæntingarfullt flón.

Hinn svali er sá sem þekkir sín takmörk, þekkir sjálfan sig og heiminn af dýpt, og tekst að tjá þessa þekkingu með látbragðinu einu saman. Hin svala manneskja þekkir sjálfa sig.

Það er merkilegt. Það er svalt.


Klikkaðir miðaldra karlmenn í Kastljósi gærkvöldsins?

Andri Snær og Tryggi Þór ræddu saman í Kastljósi um orkumál. Mér fannst áhugavert hvernig samtalið fór fram. Smelltu hérna til að horfa á það.

Andri Snær minntist á að hann talar um klikkaða karla vegna þess að þegar hann reynir að ræða málin út frá staðreyndum, heilbrigðri skynsemi og með siðferðilegri sýn, þá er hann skotinn í kaf af viðkomandi miðaldra klikkuðum karlmanni fyrir að fylgja einhverri öfgastefnu, sem bæði er augljóslega ósatt og kemur málinu ekkert við.

Tryggvi Þór sýndi að kenning Andra er alls ekki svo galin, en Tryggvi Þór forðaðist að rökræða málið. Andri Snær reyndi að ræða málin og draga fram ólíkar hliðar, en Tryggvi Þór kappræddi, og reyndi að sigra í einhverri ímyndaðri mælskukeppni með því að flokka viðmælanda sinn sem andstæðing, kalla hann illum nöfnum, gera honum upp skoðanir og gera lítið úr fullyrðingum hans án þess að styðja mál sitt með rökum, sjálfsagt til þess að vinna sér inn einhverja punkta hjá sínu pólitíska klappliði sem passar allt í jafnstóra skó. Hann áttaði sig kannski ekki á að hann var að staðfesta kenningu Andra Snæs með þessum viðbrögðum sínum.

Tryggvi Þór lauk viðtalinu með því að stinga upp á að hægt væri að kljá svona mál með því að bjóða viðmælendum í sjómann, sem sýnir nokkuð vel hugarfar þingmannsins, að svona samræður snúist um hver sigri og hver tapi, frekar en að ræða málin af alvöru. Halda þingmenn á Íslandi að stjórnmál snúist bara um hver sé í hvaða liði og hversu mörg mörk eru skoruð á kostnað andstæðingsins?

Er virkilega ekkert meira í gangi þarna uppi?

Það að þingmenn komi svona fram í sjónvarpi er dapurlegt.


Af hverju reisum við turna?

eiffel-tower

Turnar eru eitt af undrum veraldar sem ég skil ekki. Í fljótu bragði kannast ég við fimm gerðir hárra turna:

  1. Kirkjur eða trúarbragðaturnar
  2. Bankar eða fjármálastofnanir
  3. Hótel eða ferðamannagildrur
  4. Útsýnisturnar eða varðstöðvar
  5. Píramídar
  6. Skraut, listaverk eða minnisvarðar

Ég ímynda mér að áður en turn er byggður kemur fyrst eitthvað fólk með hugmynd um að byggja skuli turn og síðan þarf slík ákvörðun að vera samþykkt af einhverjum fleirum. Stórt verkefni fer í gang. Mörg mannár fara í skipulag og smíði, og loks þegar byggingin er tilbúin þarf að hugsa um viðhaldið.

Sonur minn byggði eitt sinn turn úr legókubbum. Hann sagðist hafa gert það af-því-bara. Þegar hann ætlaði loks að taka hann í sundur, ákvað hann að kasta leikföngum í hann. Honum að óvörum hrukku leikföngin af turninum. Hann bifaðist ekki. Turninn var traustari en okkur hafði grunað. Okkur fannst það frekar töff. Það tók hann hálftíma að byggja þennan turn, þannig að ekki var þetta neitt stórmál.

 En allir hinir turnarnir. Til dæmis Turninn á Smáratorgi. Hann hýsir endurskoðunarfyrirtæki, veitingastað, líkamsræktarstöð, banka, leikfangaverslun og eitthvað fleira. Hann er vel merktur Deloitte, en Deloitte er alþjóðlegt ráðgjafafyrirtæki sem sérhæfir sig í að gefa stórfyrirtækjum ráð í stjórnum eða fjármálum. Ég veit samt ekki hver ákvað að byggja turninn. Og ekki veit ég af hverju.

Ég giska á að kirkjuturnar séu byggðir til að starfsfólk kirkjunnar fái betri yfirsýn yfir söfnuð sinn, en sumir halda því fram að svona turnar séu byggðir til að mynda brú frá jörð til himnaríkis. 

Bankamenn byggja turna því þeir sjá sig í samkeppni við alla hina. Sá sem vinnur í hæsta turninum og á hæstu hæð, hann vinnur. Þetta er náttúrulega bara ágiskun. Mér dettur ekkert annað í hug.

Gríðarlega há hótel eru sjálfsagt byggð þannig til að vera áberandi auglýsingaskilti. Því stærra sem hótelið er, því líklegra er að túristar taki eftir því. 

Útsýnisturnar eru að sjálfsögðu byggðir til að fylgjast með aðkomufólki.

Sjálfsagt flokkast Frelsisstyttan í New York og Eiffelturninn sem skraut eða listaverk, táknmyndir um eitthvað sem skiptir máli, Frelsisstyttan þá vonandi fyrir frelsi, og Eiffelturninn sjálfsagt bara minning um mann sem hét Eiffel.

Eini píramídinn sem ég hef klifrað upp á, Chichen Itza í Mexíkó, held ég að hafi verið notaður sem útsýnisstúka fyrir konung þegar fylgst var með knattleikjum þar sem leikmenn reyna að koma bolta í gegnum lítið gat en geta aðeins komið við boltann með mjöðmunum.

Svo eru náttúrulega til fleiri turnar. Merkjaturnar sem koma áfram útvarps, sjónvarps eða netmerkjum. Svo eru líka turnar nauðsynlegir til að bora í jörð eftir olíu frá borpöllum. Sjálfsagt flokkast vitar líka sem turnar, en þeir vara sæfarendur við að þeir séu nálægt landi og hjálpa þeim að staðsetja sig. 

World Trade Center turnarnir voru merki um mátt hins alþjóðlega efnahagskerfis. Þeir eru eyðulagðir með sorglegum afleiðingum af hryðjuverkamönnum árið 2001 og enn í dag er hið alþjóðlega efnahagskerfi að hrynja. 

Turnar eru öflug tákn, jafnvel samstöðumerki. Ef nógu margar hendur taka sig saman um að byggja turn fyrir ákveðinn tilgang, þá hlýtur það að merkja að viðkomandi hópur fólks hafi völd í nágrenni við turninn, og að turninn sé leið til að sýna slík völd.

Í "Lord of the Rings" eftir J.R.R. Tolkien voru tveir turnar tákn um ill stórveldi sem voru að safna kröftum gegn öllum þeim sem ekki gengu í lið með öflunum sem turnana byggðu. Þannig eru turnar táknmyndir fyrir hrátt afl, og þegar um hrátt afl er að ræða, skiptir minna máli fyrir suma hvort það sé gott eða illt - aðal málið er að komast í lið með líklegustu sigurvegurunum.

Þannig eru íslenskir stjórnmálaflokkar. Mest virðing er borin fyrir hæsta turninum í súluritinu. Þeir sem byggja hæsta turninn með öflum atkvæða, fá öll völdin í landinu, og fá að gera það sem þeim sýnist, eru hafin yfir lög og reglur, geta lagt fjölskyldur, heimili og fyrirtæki í rúst með því að veifa litla fingri, og finnst það sjálfsagt bara gaman og eðlilegt.

Hugsanlega hefur engum spurningum verið svarað með þessum vangaveltum, en vangavelturnar hafa þó átt sér stað, og að minnsta kosti ég sjálfur mun hugsa mig tvisvar um og velta hlutunum fyrir mér næst þegar ég rekst á turn. 


Sigrar ranglætið?

Í dag gerðist merkilegur hlutur. Ekki aðeins það að einstaklingur var dæmdur til að greiða sökudólgi sekt, heldur það hvernig valdhafar virðast hlakka yfir óförum þeirra sem eru að bugast undan óviðunandi ranglæti, ranglæti sem hefur verið gerð skýr skil í rannsóknarskýrslunni frægu, og það er eins og réttlætið skipti þetta fólk engu máli, heldur einungis afleiðingarnar. Slíkt er kallað nytjahyggja, þar sem réttlætanlegt þykir að fórna fáeinum sálum til að bjarga fjöldanum.

Ég hef mikla andúð á slíku siðferði. Það á aldrei nokkurn tíma að leyfa ranglæti að líðast gagnvart einni einustu manneskju, sama þó að réttlætið kosti einhverja milljarða og jafnvel gjaldþrot, því það er einskis virði að lifa í ranglátu samfélagi, þar sem mögulegt er að fórna hverjum sem er á altari fjöldans þegar það hentar.

Nú mega þeir sem verja ranglætið fara að vara sig, því það þarf ekki nema eina manneskju til að standa gegn því af fullum krafti til að fjöldinn átti sig á sannleikanum. Oftar en ekki áttar fjöldinn sig samt ekki fyrr en það er orðið of seint fyrir þessa einu manneskju, og hún hefur þurft að þola ómannlega háðung og niðurlægingu í langan tíma af þeim sem telja sig ósnertanlega.

Það gæti soðið upp úr innan skamms.

Þar sem mér er hugtakið "ranglæti" afar hugleikið eftir að hafa lesið fréttir dagsins, fletti ég upp í bók með tilvitnunum og þýddi nokkrar, svona rétt til að sefja öldurótið í huga mínum:

 

"Ranglæti framið gagnvart einstaklingi þjónar stundum hagsmunum fjöldans." (1770 - Junius)

 

"Eins manns réttlæti er annars manns ranglæti; eins manns fegurð er annars manns ljótleiki; eins manns viska er annars manns heimska." (1841 - Emerson)

 

"Sérhver manneskja hefur jafnan rétt til að vera varin af lögunum; en þegar lögin auka við... falska mismunun, deilir út titlum, gjöfum og sérréttindum fyrir útvalda, til að gera hina ríku ríkari og hina voldugu voldugri, hafa hinir hógværu meðlimir samfélagsins -- bændur, vélvirkjar og verkamenn -- sem hvorki hafa tíma né tækifæri til að tryggja sér slíkra greiða, rétt til að kvarta yfir ranglæti ríkisvaldsins." (10. júlí, 1832 - Andrew Jackson)

 

"Það er nokkuð auðvelt að þola ranglæti, það er réttlætið sem stingur." (1922 - Henry Louis Mencken)


Erum við plöntur?

Við erum eins og plöntur. Flest okkar. Við festum rætur okkar nálægt staðnum þar sem við fæddumst, og ef ekki þar sem við fæddumst, þar sem við ólumst upp. Við skilgreinum sjálf okkur út frá staðsetningu fæðingar okkar og fólkinu sem við umgöngumst í æsku, og sum okkar festa sig í þessari skilgreiningu og kemur ekki til hugar að efast um sannleiksgildi hennar.

Sjálfur sé ég Breiðholtið sem heimili mitt, nánar tiltekið, Fellin. Þangað flutti ég þriggja ára gamall og flutti þaðan tvítugur. Stundum dreymir mig um að flytja þangað aftur. Á stað þar sem allt er kunnuglegt. Stað þar sem maður getur séð kunnuglegum andlitum bregða fyrir á göngutúr að morgni og kvöldi. Eins furðulega og það kann að hljóma fyrir suma lesendur mína, þá er þetta ekkert annað en fjarlægur draumur. Bæði tími og vegalengdir skilja í sundur þá manneskju sem ég er í dag, og þá manneskju sem þekkti Fellahverfið eins og lófann á sér.

Fyrir fáum árum heimsótti ég gamla hverfið mitt og fannst það fallegasti staður í heimi. Þetta er djúp og sönn tilfinning.

Ég hef búið í Bandaríkjunum, Mexíkó og Noregi utan Íslands, kynnst góðu fólki, lært ný tungumál, aðlaðast framandi siðum, en finnst ég stundum vera eins og Ódysseifur á ferðalagi sínu frá Tróju til Íþöku, þar sem hann kynntist sannri fegurð og þægindum, en ekkert sem gat haldið sterkar í sál hans en hans gamla heimili.

Það er kannski þess vegna sem ég get ekki hætt að hugsa um þjóð mína. Ég veit vel að Íslendingar geta vel komist af án mín, en ég veit ekki hvort ég geti komist af án Íslendinga. Ég hef skrifað fjölmargar greinar um sjónarhorn mitt á Hruninu og fengið fádóma góð viðbrögð frá lesendum mínum, en þessar áhyggjur og rannsóknir hafa verið dýrar. Þær hafa kostað tíma sem annars hefði verið hægt að verja með fjölskyldu eða við launuð störf. 

Ég var svo einfaldur að trúa því að skrif mín gætu einhvern veginn hjálpað Íslendingum að takast á við þá hræðilegu óvætti sem ógna þeim. Og ég trúi að hjálp mín hafi verið einhverjum einhvers virði. Það var ekki fyrr en mér var bent á af mínum bestu vinum að ég þyrfti að huga meira að sjálfum mér en þeirri spillingu, lygum og ránum sem ég gat ekki lengur horft upp á, að ég ákvað að hætta því að skrifa um slíka hluti. Leyfa öðrum að gera það. Hugsa um mitt eigið umhverfi. 10 metra plús mínus. 

En ég get það ekki. Hugurinn ber mig stöðugt heim. Ég fletti upp á íslenskum fréttamiðlum og fylgist með umræðunni. Stundum tek ég líka þátt. Og ég veit að þessi bönd verð ég að slíta.

Það er eins og þegar útlendingar flytja til Íslands. Við ætlumst til að þeir læri íslensku og taki upp íslenska siði, og verðum jafnvel fyrir ákveðnum vonbrigðum þegar við sjáum að þetta fólk heldur í sína gömlu siði og vill jafnvel útbreiðslu þeirra á Íslandi. Sá sem flytur til annars lands verður að klippa á gömlu böndin, verður að segja bless við sína gömlu menningu, verður að læra nýtt tungumál og læra að hugsa upp á nýtt. Verður jafnvel að taka upp nýja siði og lifa eftir framandi siðferði. 

En viðskilnaður Íslands og Íslendings er erfiður. Það er erfitt að kveðja heimili sem virðist að hruni komið, bæði innan frá sem utan frá. Og það er útilokað að ég verði nokkurn tíma eitthvað annað en Íslendingur, sama þó að ég fái á mig annan þjóðernisstimpil með tíð og tíma. 

Ég hef þjónað þjóð minni án þess að hafa verið kosinn til þess af öðrum en mér sjálfum. Þetta val var gott. Nú er kominn tími til að velja nýjar áherslur, ný markmið, stíga upp úr öskunni og velja fyrir nýjan stað og nýjan tíma. Leggja af stað í ferðalag úr fortíðinni og frá Íslandi, ekki bara í líkama, heldur líka í huga.

Stundum finnst mér ég vera planta. Með ræturnar svo djúpar í íslenskri þjóðarsál að óhugsandi sé að grafa þær upp og flytja annað. Þessar rætur eru kannski ósýnilegar öllum öðrum en mér sjálfum, en þær eru sterkar, og sjálfu sér ágætis sönnun á því að það sé eitthvað meira en bara mólíkúl sem gera manneskju að manneskju.

Þær manneskjur sem festa aldrei rætur á einum stað í æsku? Verður það dæmt til að flækjast um heiminn án þess að skilgreina sér nokkuð heimili? Hvað um fólkið sem hefur misst heimili sín og allar fyrri aðstæður eftir náttúruhamfarir eða mannlega eyðileggingu?

Hvað verður um þetta fólk sem hefur ekki þetta plöntueðli? Verður Jörðin öll þeirra heimili, eða er það eins og borgarskáldið kvað: "Við erum gestir og hótel okkar er Jörðin"?

Stundum finnst mér við koma fram við heiminn eins og að Jörðin sé gestur en við sjálf hótelið.


Af hverju að íhuga vandlega eigið líf?

Við erum öll frjáls til að velja það að vera óheiðarleg eða heiðarleg. Það fer eftir siðferði og markmiðum hvers og eins hvað er valið, hvernig þú skilgreinir hið góða.

Sumir skilgreina hið góða sem gróða. Að eignast sem mest er gott, og til að ná slíku markmiði skipta önnur verðmæti minna máli. Fjöldi fólks getur náð slíku markmiði í lífinu án þess að brjóta lög eða gera eitthvað sem er beinlínis rangt. Hins vegar hefði viðkomandi sjálfsagt lítinn áhuga á að leita almannaheillar ef það kæmi honum illa. Mig grunar að þetta viðhorf til siðferðis sé ríkjandi á Íslandi í dag.

Svo eru það aðrir sem skilgreina hið góða öðruvísi. Til dæmis "erfa" margir hugmynd um hið góða gegnum trúarbrögð og fylgja þeirri hugmynd blint, jafnvel án þess að velta fyrir sér af dýpt að slík mynd gæti verið blekkjandi.

Enn aðrir velta vandlega fyrir sér og rannsaka hvað hið góða er á eigin forsendum, og kanna eins margar hliðar málsins og mögulegt er, hlusta á öll möguleg sjónarmið, virða fyrir sér ólíka lifnaðarhætti og markmið, og móta sér smám saman sýn á hið góða og fylgja henni eftir í verki, og með þann möguleika í huga að maður getur haft rangt fyrir sér, að eigin hugmyndir geti á einhvern hátt verið skakkar, jafnvel rangar, og halda opnum hug og hlusta á þá sem hafa önnur sjónarmið. Þannig er ég, og get ennþá valið.

Það er freistandi að einfalda lífið með því að velja, festa sig við eina trú og víkja aldrei frá henni, en það þýðir að allt annað í lífinu mun snúast um þessa trú og allt annað mun snúast um að gera þá hugmynd að veruleika.

Sjálfsagt er það eðlileg leið til að lifa lífinu. Ekki hafa allir tíma til að íhuga vandlega eigið líf, enda fer mikill af þeim tíma í rannsóknir á því hvernig við getum hugsað slíka hluti af nákvæmni.

 

Aðrar nýlegar greinar tengdar þessum pælingum:

  1. Af hverju eiga leiðtogar að vera heiðarlegir?
  2. Af hverju að breyta rétt?

Af hverju að breyta rétt?

Það er aðeins ein ástæða sem ég hef til að breyta rétt í þessu lífi:

Ég trúi því að ef ég breyti rétt, þá legg ég mitt á vogarskálirnar til að bæta líf fólksins í kringum mig, og er börnum mínum og vonandi fleirum góð fyrirmynd um hvernig hægt er að lifa lífinu vel þegar ég er sjálfur fallinn frá.

Lífið eftir dauðann er mikilvægt, líf þeirra sem erfa mann.

Mér er slétt sama hvort að ég hafi sál eða ekki eða hvort "ég" verð ennþá til í einhverju formi þegar líf mitt er horfið úr þessum kroppi. 

Ef lífið snérist bara um naflann á manni sjálfum, þá væri þetta frekar marklaust líf.


Af hverju eiga leiðtogar að vera heiðarlegir?

Við þurfum ekki á vísindum og heimspeki að halda til að vita hvað við þurfum að gera til þess að vera heiðarleg og góð, já, jafnvel vitur og dygðug. (Kant)

Heiðarleiki er siðferðilegt hugtak. Ásakir þú manneskju um óheiðarleika, getur viðkomandi ekki varið sig með lagabókstaf. Sé manneskjan ekki heiðarleg, eru miklar líkur fyrir að henni sé nokkuð sama um hvort hún sé heiðarleg eða ekki, en ósátt við að vera kölluð óheiðarleg þar sem slíkur stimpill svertir mannorðið. Ímyndin virðist mikilvægari en sannleikurinn fyrir sumt fólk.

Það sem einkennir heiðarlega manneskju er einkum að viðkomandi reynist heilsteypt, hreinskilin og er treystandi. Aftur á móti einkenna lygar, svik eða glæpir hina óheiðarlegu.

Það er eitt að vera heiðarlegur, og annað að þykjast vera heiðarlegur. Það að þykjast vera heiðarlegur og vera það ekki, er óheiðarlegt í sjálfu sér. Það er hægt að koma upp um slíkan óheiðarleika þó að erfitt sé, með því að finna ósannindi í málflutningi, sambandsleysi á milli þess sem viðkomandi segir og þess sem hann gerir, og með sönnunargögnum um þjófnaði eða aðra glæpi.

Hin heiðarlega manneskja fylgir lögum og reglum. Strangheiðarleg manneskja fylgir ströngustu lögum og reglum. Heiðarlegar manneskjur eru ekki vinsælar í hópum sem ekki eru heilsteyptir, því þær geta bent á gloppur sem geta valdið óþægindum. Ég geri þær kröfur til fólks í ábyrgðarstöðum að það eigi að vera strangheiðarlegt. Það má ekkert flekka mannorð þeirra. Það er afar auðvelt að flekka mannorð óheiðarlegrar manneskju, en mun erfiðara þegar um heiðarlega manneskju er að ræða. Samt er það víst þannig að þegar skít er skvett á fólk, þá verða allir svolítið skítugir. Skíturinn verður sjálfsagt mest áberandi á hinum heiðarlegu til að byrja með, en þeim reynist auðveldara að hreinsa hann burt, heldur en þeim sem eru óheiðarlegir.

Það er líka óheiðarlegt að þykjast vita eitthvað sem maður veit ekki. Stundum getur maður talið sjálfan sig vita eitthvað án þess að vita það í raun. Þá hafa manns eigin fordómar hugsanlega þvælst fyrir góðri þekkingarmyndun. Þegar maður telur sjálfum sér trú um að maður þekki eitthvað, en þekkir það svo ekki í raun, þá er maður að blekkja sjálfan sig, sem þýðir að viðkomandi er ekki heiðarlegur gagnvart sjálfum sér. Sú manneskja sem ekki er heiðarleg gagnvart sjálfri sér getur ekki verið heiðarleg gagnvart öðru fólki, því hún getur ekki treyst á eigin þekkingu.

Um daginn vakti Marinó G. Njálsson athygli á því að þáverandi viðskiptaráðherra sýndi óheilindi, að hann laug að þjóð sinni, með þeim afleiðingum að orðspor Gylfa Magnússonar sem ráðherra og sem fræðimaður hefur borið mikinn skaða af, eða ætti í það minnsta undir eðlilegum kringumstæðum að hafa borið skaða af. Það er ekki vegna ásakana Marinós að orðspor Gylfa skaðast, heldur vegna þess að Gylfi hélt í lygina og gerir það enn.

Aðrir ráðherrar sögðust treysta Gylfa og síðan nokkrum dögum síðar fýkur hann úr starfi. Þarna er skýr tvískinnungur á ferð, sem sýnir óheilindi, sem er skýrt merki um óheiðarleika. Því ber okkur skylda til að vera gagnrýnin gagnvart öllu sem frá leiðtogum kemur. Af hverju eru litlar lygar varðar, til annars en að fela stóru lygarnar?

Hafa aldrei verið gerðar kröfur um heiðarleika til íslenskra leiðtoga? Fá þeir að stela, svíkja og ljúga eins og þeim sýnist? Er það hluti af leikreglunum í gjörónýtum leik? Ef svo er, þá eru viðkomandi ekki leiðtogar þjóðarinnar, heldur miklu smærri heildar.

Er það ástæðan fyrir því að hrunvaldar hafa komist upp með alla sína glæpi, þó að komist hafi upp um hvað þeir og leiðtogar þjóðarinnar gerðu af sér? Til er rannsóknarskýrsla sem sýnir vel hvernig þjóðfélag Íslendingar hafa búið við. Verði ekkert gert til að breyta þessu, verður rannsóknarskýrslan að leiðbeiningum um hvernig hægt er að komast upp með sviki og pretti í stórum mæli, og hvernig hægt er að ná og halda völdum í spilltu samfélagi, svona eins og í "Prinsinum" eftir Machiavelli.

Það hefur verið illa gefið í leik þar sem úrslitum hefur verið hagrætt. Heiðarlegt fólk tapar miklu á kostnað þeirra óheiðarlegu, og hinum óheiðarlegu dettur ekki í hug að taka á sig kostnað vegna eigin glæpa; slíkt er ekki eðlislægt manneskju sem ekki er heilsteypt í siðferði sínu. 

Í dag er Ísland ranglátt samfélag. Það leikur enginn vafi á því. Rannsóknarskýrslan sannar það. Skortur á aðgerðum fyrir heimilin sannar það. Lygar leiðtoganna sanna það.

Hverjir munu segja hingað og ekki lengra og leita réttlætis fyrir þegna landsins? Réttlæti felst ekki aðeins í því að glæpamönnum sé refsað, heldur líka í að fórnarlömbum verði bættur skaðinn og sýnt fram á að fólk verði verndað gagnvart samskonar glæpum til framtíðar. Að banna súlustaði, ljósabekki, breyta drykkjusiðum, takmarka tjáningafrelsi og deila um kynjahlutföll eru ekki forgangsatriði á krepputímum. Ekki frekar en þegar haldnar voru ræður um að selja áfengi í verslunum, og ótækar vinaráðningar ráðherra varðar með kjaftæði og klóm.

Á meðan við sjáum merki um óheilindi, svik, lygar og þjófnað meðal þeirra sem þykjast ætla að hafa vit fyrir öðrum þegnum, dýpkar kreppan. Það verður ekki fyrr en hreinsað hefur verið til og raðað hefur verið upp á nýtt, að Íslendingar geta unnið sig út úr því ástandi sem orðið hefur til fyrst og fremst vegna óheilinda, lyga, svika og þjófnaðar.

Veritas vos liberabit


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband