Bloggfærslur mánaðarins, október 2010

Ríkir kommúnismi á Íslandi í dag?

johanna_1450598c

Íslenska ríkisstjórnin hefur verið kennd við kommúnisma. Sumum finnst slíkt heiti réttlætanlegt, en aðrir telja það öfgakennt viðurnefni. Ég ákvað að fletta þessu upp í Britannica, alfræðiorðabók sem er viðurkennd fyrir áreiðanleika og nákvæmni. Þar er kommúnismi þannig skilgreindur: 

Kommúnismi, stjórnmála- og hagfræðiskoðun sem hefur það meginmarkmið að skipta út sjálfseignum og hagfræðikerfi sem miðar að gróða, fyrir hagkerfi þar sem samfélagið er eigandi og stjórnar framleiðslu (til dæmis á námum, orkuveitum og verksmiðjum) náttúruauðlinda samfélagsins. Þannig er kommúnismi ein gerð sósíalisma - sem nær lengra, samkvæmt þeim sem boða hann. Lengi hefur verið deilt um hver munurinn á sósíalisma og kommúnisma er, en greinarmunurinn liggur fyrst og fremst í fylgni kommúnisma við byltingarsósialisma Karl Marx. (Þýðing: HB)

Byltingarsósíalismi er það hugtak sem notað er þegar sósíalísk stjórnvöld komast til valda með byltingu, eins og búsáhaldabyltingunni.

Með þessa skilgreiningu í huga, vil ég spyrja hvort að á Íslandi sé kommúnistastjórn við völd? Ég ætla ekki að svara þessari spurningu sjálfur, enda er svarið augljóst. Þess í stað vil ég spyrja nokkurra lykilspurninga sem lesandi getur svarað til að móta eigin skoðun.

  1. Hefur íslenska ríkið að meginmarkmiði að skipta út hagkerfi sem miðar af gróða fyrir nýtt hagkerfi?
  2. Hefur íslenska ríkið áhuga á að skipta út sjálfseignum og koma þess í stað á ríkiseign? (Nýlegt dæmi af Eyjunni: Vilja hverfa frá sjálfseignarstefnu íbúða og tryggja félagslegt íbúðakerfi)
  3. Vill ríkið koma á sameign náttúruauðlinda? (T.d. kvóti, orka, gróði til samfélagsins)
  4. Komst núverandi ríki til valda gegnum byltingu?

Sé öllum þessum spurningum svarað játandi, þá er Ísland kommúnismaríki, sé farið eftir skilgreiningu alfræðiritsins Britannica.

Ég er þakklátur fyrir hverja athugasemd. Les þær allar. Get ekki lofað að svara öllum.

 

 

---

 

Af Britannica.com

communism, the political and economic doctrine that aims to replace private property and a profit-based economy with public ownership and communal control of at least the major means of production (e.g., mines, mills, and factories) and the natural resources of a society. Communism is thus a form of socialism—a higher and more advanced form, according to its advocates. Exactly how communism differs from socialism has long been a matter of debate, but the distinction rests largely on the communists’ adherence to the revolutionary socialism of Karl Marx.

 

Mynd:  Daily Telegraph


Eru ekki gagnrýnin hugsun og frelsi forsendur lýðræðisríkis?

Frelsi er grundvöllur mannréttinda og lýðræðis. Því er afar óheppilegt að þessu fína hugtaki sé blandað inn í hagfræðimódelin "frjálshyggja" og "nýfrjálshyggja", sem hafa fengið afar neikvæðan blæ eftir fjármálahrunið. Frelsið var nefnilega ekki sökudólgurinn, heldur misnotkun á frelsinu og skortur á viðbrögðum. Skilnings-, þekkingar- og siðleysi höfðu mun meiri áhrif en frelsið á það ástand sem Íslendingar þurfa að kljást við í dag. Hugsanlega brást flest sem gat brugðist.

Grundvallarstefna alls náms í lýðræðissamfélagi ætti að vera undirbúningur barna fyrir að taka þátt í lýðræðissamfélagi þar sem frelsi er virt og ákvarðanir hafa áhrif á annað fólk. Þetta er gert með því að koma virkri gagnrýnni hugsun inn í kennsluaðferðir, og þá þarf að gæta sín á að þekkja vel hvað gagnrýnin hugsun er - því eins og mörg önnur hugtök, þá er hægt að finna falsspámenn sem teikna gagnrýna hugsun upp sem eitthvað skrípi sem hún alls ekki er. Til allrar hamingju hef ég sjálfur fengið nóg tækifæri til að vinna við gagnrýna hugsun í skólastarfi, fyrst í heimspekikennslu við Fjölbrautaskólann í Breiðholti og hugfimi við Iðnskólann í Reykjavík, einnig við Selásskóla um stutt skeið, í skákþjálfun við Salaskóla og við námsstofnanir í Bandaríkjunum, Mexíkó, Costa Rica og nú síðast í Noregi. Ég sé nemendur og kennara sem beita gagnrýnni hugsun undantekningarlaust blómstra.

Virk beiting gagnrýnnar hugsunar er til bóta bæði fyrir skólastarf og samfélag, sem og einstaklinginn sem beitir henni, en það þarf stöðugt að gæta ákveðins jafnvægis til að hún virki sem aðferðarfræði í kennslu. Ég hef orðið var við stefnu þar sem gagnrýnin hugsun er að mínu mati notuð á kolrangan hátt sem eitthvað tilfinningalaust verkfæri til að skera í sundur hugtök án umhyggju fyrir þeim sem að greiningunni koma eða þeim sem fyrir henni verða. Ég hef megna óbeit á slíku. Það er ekki gagnrýnin hugsun, heldur innantóm gagnrýni, einhvers konar leikur þar sem virðing fyrir manneskjunni er ekki höfð í heiðri.

Á meðan gagnrýni er eins og beittur hnífur sem getur verið notaður til að skera í sundur alls konar vefi óljósra hugtaka, eða til að skera í sundur skýr tengsl hugtaka við önnur hugtök; þá er gagnrýnin hugsun yfir þetta hafin. Sá sem beitir gagnrýnni hugsun er umhugað um að rannsaka viðfangsefnið án þess að skaða það, og án þess að skaða heilindi þess sem rannsakar, og miðar að því að átta sig á hvernig fyrirbærið sem rannsakað er passar inn í bæði mun stærra samhengi og hvaða áhrif það hefur á sitt nánasta umhverfi. Þess vegna getur gagnrýnin hugsun aldrei staðið ein og sér, heldur verður að beita með nægilegu ímyndunarafli til að þú getir séð fyrir mögulegar afleiðingar og áhrif, og nægilegri umhyggju til að þú getir ákveðið hvort rétt sé að gera það sem þig langar að gera.

Til dæmis virðast útrásarvíkingar, stjórnmálamenn og bankamenn sem settu fjölda íslenskra heimila á hausinn hafa verið afar greindir. Þeim tókst að greina fjármálakerfið á þann hátt að þeim tókst að græða gífurlegar fjárhæðir, en á móti virtust þeir hvorki hafa ímyndunarafl né áhuga til að velta fyrir sér hvaða áhrif þeirra gífurlegi gróði í afleiðuviðskiptum hefði á aðra íslenska þjóðfélagsþegna. Þegar hugsunin er ekki gagnrýnin að fullu, heldur bara að hluta, fyrir smá heild eða einingu, þá snýst hún upp í andstöðu sína. Án umhyggju og ímyndunar verður hún að tæki til að ná völdum, einræðisvopni.

Ég tala um umhyggju. Að gagnrýnin hugsun geti ekki án umhyggju verið. Góð skilgreiningin á slíkri umhyggju er að finna í Mannréttindasáttmála Sameinuðu Þjóðanna, þar sem umhyggja fyrir mannvirðingu sérhverrar manneskju er höfuðatriði, en þó þarf að kafa dýpra, því umhyggju þarf einnig að sýna gagnvart samfélagi og náttúru. Gagnrýnin hugsun er langt frá því að vera einfalt fyrirbæri og að það tekur sérhvern einstakling mikla vinnu og nám til að ekki bara fara vel með gagnrýna hugsun, heldur skilja hvað gagnrýnin hugsun er.

Gagnrýnin hugsun getur ekki starfað og verið virk án grundvallarfrelsis. Krepputímar eru afar hættulegir fyrir slíka hugsun, því þegar fólk líður skort hefur það ekki áhuga á henni, heldur vill fyrst og fremst komast af.

Hver einasta manneskja þarf málfrelsi, sama hvar viðkomandi er staddur í samfélaginu, hvort sem viðkomandi er atvinnulaus, innfluttur, fatlaður, aldraður, barn, unglingur, eða bara ósköp venjuleg manneskja sem vil láta lítið fyrir sér fara, eða tilheyrir öðrum minnihlutahópi sem á erfitt með að tjá sig opinberlega.

Trúfrelsi er einnig mikilvægt, og þá er ég ekki bara að tala um frelsi til að trúa ekki, heldur frelsi til að stunda eigin trú og tjá hana í friði fyrir ofsóknum annarra.

Að lokum er það frelsið til að vera í friði fyrir áreiti annarra, frelsi frá ótta og ógnum. Það er ekkert athugavert við að fólk fái að vefja sig og börn sín inn í bómull og vera í næði frá umhverfinu.

Fjórar myndir um frelsi eftir Norman Rockwell tjá vel þessa umgjörð frelsis sem lýðræðið getur ekki verið án. Án frelsis lendum við í klóm einræðis. Hugsanlega er Ísland einræðisríki í dag og einvaldurinn auðvaldið. Ég vil leyfa myndum Rockwell að eiga síðasta orðið.

ROCKWELL_Norman_Freedom_of_Speech

Tjáningarfrelsi

 

 freedom-of-worship-final

Trúfrelsi

 

rockwell_want

Frelsi frá fátækt

 

rockwell_fear

Frelsi frá ótta


Hvernig má bæta íslenska stjórnmálaumræðu?

Það þarf ekki mikið.

  1. Stjórnmálamenn þurfa að meina það sem þeir segja.
  2. Stjórnmálamenn þurfa að hlusta á það sem aðrir segja.
  3. Stjórnmálamenn skulu ekki vera í mótsögn við sjálfa sig.
  4. Stjórnmálamann skulu standa við bæði litlu og stóru orðin.

Þá getum við byrjað að tala saman.


Megum við krefjast heilbrigðrar skynsemi? (Myndbönd)

Laugardaginn 30. október ætlar satýristinn Jon Stewart að leiða kröfugöngu í Washington þar sem krafist verður heilbrigðrar skynsemi. Stewart telur að rödd hinnar venjulegu manneskju heyrist ekki vegna öfgahópa og ýktra upphrópana. Hann telur fáránleikann í sundrungu vinstri og hægri stjórnmála ekkert annað en geðveiki. Ég er honum sammála.

Af hverju ekki að krefjast heilbrigðrar skynsemi í kröfugöngu, þar sem engar öfgar eru leyfðar, engar upphrópanir sem ráðast að persónum? Uppástungur um skilti í kröfugöngunni gætu verið þannig:

  1. Ég er þér ósammála en tel þig samt ekki vera Hitler, Stalín og mömmur þeirra!
  2. Heimili landsins þurfa ekki á ykkur að halda. Þið þurfið á þeim að halda.
  3. Er "Helvítis fokkin fokk" íslenska?
  4. Óhæf ríkisstjórn, farið á námskeið!
  5. Eigum við að velta þessu fyrir okkur saman?
  6. Hvar er Skjaldborgin? Svar óskast ekki.
  7. Má ljúga?
  8. Hvernig væri að spjalla saman yfir kaffibolla?
  9. Hættið að rífast, ræðið saman eins og manneskjur. Líka við mig.
  10. Þegar þú ferð í ræðustól, hvort er mikilvægara, ímynd þín eða skynsamlegar leiðir?

Vinstri og hægri stjórnmál virðast frá mínu sjónarhorni aðeins eiga heima á hæli fyrir fólk með mikilmennskubrjálæði. Betra væri að setja markmið án þess að rífast, velta fyrir sér erfiðleikum á leið að þessum markmiðum, finna síðan lausnir og leysa málin skynsamlega.

Svoleiðis er gert í öllum vel reknum fyrirtækjum og á traustum heimilum. Af hverju ekki á Alþingi?


Hver er konan? (Ekki sú sem þú heldur)

Hún varð forsætisráðherra, fyrst kvenna í sínu landi, árið 2009. Hún hefur barist af miklum krafti ásamt fjármálaráðherra við að hreinsa spillingaröfl úr stjórnkerfinu. Fyrrum forsætisráðherra og helstu samstarfsmenn hans hafa verið ákærðir fyrir landráð, og fyrir vikið reynir hann að ná aftur völdum með öllum tiltækum ráðum.

Töluverður fjöldi auðmanna, spilltra embættismanna og stjórnmálamanna hefur verið dæmdur í fangelsi fyrir svik og landráð og sitja nú inni!

Almenningur í landi hennar er þakklátur fyrir hugrekki hennar og ötula vinnu, þrátt fyrir erfiða kreppu. Hún hefur fengið líflátshótanir, en í stað þess að byrgja sig af, hefur hún fækkað lífvörðum og gengur frjáls um götur borgar sinnar, því hún hefur unnið sér inn mikla virðingu fyrir verk sín, framkomu og heiðarleika.

Hver er konan?

Nei, þetta er ekki Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrum vonarstjarna og núverandi forsætisráðherra Íslands, þó að þetta sé í hnotskurn það sem almenningur vænti frá henni, heldur Jadranka Kosor, forsætisráðherra Króatíu.

Jadranka er alvöru ráðamaður, annað en forsætisráðherra Íslands, sem aðeins er stjórnmálamaður.

120px-Jadranka_Kosor_2009_crop


Eru tillögur Hreyfingarinnar um neyðarlög skynsamlegar?

 Tillögur Hreyfingarinnar:

  • Ákvæði um að höfuðstóll húsnæðislána heimila verði tafarlaust leiðréttur með því að færa vísitölu verðtryggingar fram fyrir hrun bankakerfisins, til 31. desember 2007, og hækkanir höfuðstóls og afborganir húsnæðislána til samræmis við það.
  • Vísitala til verðtryggingar verði færð aftur til 1. janúar 2008 og lánið uppreiknað miðað við efri vikmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabanka Íslands, allt að 4%. Samningsvextir gildi.
  • Mælt verði fyrir um að hægt verði að fresta afborgunum húsnæðislána um allt að tvö ár með lengingu lánstíma sem nemur því.
  • Þá verði kveðið á um að skuldabyrði heimila vegna gengistryggðra íbúðalána og annarra lána sem kölluð hafa verið erlend lán eða myntkörfulán verði leiðrétt í samræmi við leiðréttingu verðtryggðra íbúðalána. Hið sama gildi um óverðtryggð íbúðalán.
  • Í kjölfarið verði stefnt að því að afnema verðtryggingu í þrepum og skal miðað við að hún verði afnumin með öllu fyrir árslok 2011. Þó verði ríkissjóði heimilt að gefa út verðtryggð skuldabréf að lágmarki til 25 ára.
  • Kveðið verði á um það í frumvarpinu að kröfur fyrnist að hámarki að tveimur árum liðnum frá lokum gjaldþrotaskipta og að ekki verði hægt að halda kröfum við lengur en sem þeim tíma nemur.
  • Að beiðni gerðarþola verði nauðungarsölu á íbúðarhúsnæði frestað til 1. júní 2011 og allar nauðungarsölur sem farið hafa fram á grundvelli ólögmætra krafna látnar ganga til baka.
  • Þá verði óheimilt samkvæmt frumvarpinu að láta bera nokkurn mann úr íbúð sinni nema að fenginni staðfestingu sveitarfélags á að viðkomanda sé tryggt viðunandi húsnæði og lágmarksframfærsla samkvæmt nýjum opinberum og samræmdum framfærsluviðmiðum.
  • Skilgreina skal opinber og samræmd lágmarksframfærsluviðmið fyrir 31. desember 2010.

Þetta eru að mínu mati skynsamlegar hugmyndir. Þær ganga nákvæmlega jafn langt og þörf er fyrir. Ný frumvörp ríkisstjórnarinnar eru ágæt, en ganga ekki alveg nógu langt til að koma í veg fyrir gjaldþrot, - þau eru hins vegar ágæt fyrir þá sem eru á leið í gjaldþrot.

Ég trúi ekki þeim hræðsluáróðri sem er í gangi um að þetta muni kosta lífeyrissjóðina svo mikið að aldraðir og öryrkjar tapi næstum öllu sínu. Hins vegar myndi þetta kosta mikið þá sem treysta á að eignast aukapening á kostnað skuldugra heimila. Það eru þeir sem stjórna Íslandi á bak við tjöldin og munu sjálfsagt koma í veg fyrir að þetta frumvarp verði samþykkt með einum eða öðrum hætti.


mbl.is Hreyfingin vill setja neyðarlög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru stökkbreyttar skuldir ímyndun bankanna? (Myndband)

Sama þó að fólk borgi reglulega af skuldum sínum í hverjum mánuði hækkar höfuðstóllinn stöðugt. Í Bandaríkjunum er staðan ekki ósvipuð því sem Íslendingar eru að upplifa. Bankar selja eignir ofan af fólki, henda þeim út og skipta um lása, vegna þess að fólk er ekki tilbúið að borga þær skuldir sem bankar hafa lagt ofan á raunverulegar skuldir. 

Það er farið að kalla þessar skuldir ímyndaðar. 

Hvernig væri að fólk neitaði að samþykkja höfuðstólsbreytingar af húsnæðislánum og greiddu einungis samkvæmt upphaflegri afborgunaráætlun? Er það ekki sjálfsögð krafa?

Myndbandið hér að neðan sýnir hvernig ástandið er í Bandaríkjunum. Vilja Íslendingar endurtaka þann leik, þar sem kuldaleg græðgi risafyrirtækja fær að kremja manneskjur undir járnhæl sínum í friði, vegna hug- og skilningsleysis stjórnmálamanna?


Hefur tekist að slökkva bál byltingarinnar?

Aðeins 12 dagar frá fjölmennustu mótmælum Íslandssögunnar, þar sem Alþingi virti að vettugi kröfur um réttlæti og aðgerðir. Þingheimi virðist hafa tekist að slökkva í bálinu með því að lofa öllu fögru og svíkja það svo. Að nú yrði loks farið í aðgerðir fyrir heimilin.

Dagar liðu og niðurstöður funda sífellt á sömu leið, að niðurstöður fengjust á næstu fundum, að stofnuð yrði nefnd. Kannski á morgun, kannski hinn, kannski eftir einhverjar vikur, kannski mánuði. 

Þannig hefur tekist að slökkva bálið. Kannski.

Nú þegar bálið logar ekki lengur og stjórnarliðum finnst þeir öruggir á ný, skal dregið úr stóru yfirlýsingunum og allur spilastokkur blekkingarstjórnmála og áróðursbragða notaður til að kveða niður efasemdir.

Og mig grunar að það hafi tekist. Mótmælaraddir hafa þagnað. Bumbur óma ekki lengur í fjölmiðlum. Mig grunar þó að enn kraumi undir, að það sé heilmikil olía og súrefni eftir, að það þurfi ekki nema fáeina neista til að logarnir skjótist fram á nýjan leik.

Leiðrétting á stökkbreyttum lánum er sjálfsögð, réttlát og sanngjörn krafa. Fólk er ekki að tala um að græða á ástandinu, heldur að fá miskabætur fyrir þann stórfellda glæp sem unninn hefur verið gegn Íslendingum öllum, af fáeinum landsmönnum sem vildu eignast allt sem líkaminn girnist. 

Um 90% lánþega standa í skilum. Spunalæknar ríkisstjórnar túlka það þannig að þá hlýtur meirihlutinn að vera í góðum málum. Ég held að þessir lántakendur séu heiðarlegt fólk sem gerir allt í sínu valdi til að borga skuldir sínar, jafnvel þó að þær séu bæði ósanngjarnar og óréttlátar vegna glæpsamlegs forsendubrests. Þetta fólk er að borga. Og þessar greiðslur, ásamt auknum sköttum, hækkandi vöruverði og lækkandi launum, verða sífellt erfiðari viðureignar.

Reyndar hafa um 50.000 manns farið í greiðsluaðlögun, sem þýðir að mánaðargreiðslan hefur verið lækkuð, en höfuðstóllinn stækkar samt enn hratt, og nýjar mánaðarlegar greiðslur eftir aðlögun hækka stöðugt. 

Verði ekkert gert fyrir þær manneskjur sem lifa sífellt við þrengri kost, og vita að ekkert má fara úrskeiðis án þess að allt fari fjandans til, munum við þurfa að horfa upp á afar sorglega atburði, mannlegar hamfarir sem enn er hægt að koma í veg fyrir með smá hugrekki og visku.

Engin manneskja verður gjaldþrota að gamni sínu, þó að fullt af eigendum fyrirtækja finnist það flott sport, enda afleiðingarnar nánast engar fyrir fyrirtækin, en afleiðingarnar nær útlegð og dauðadómi fyrir einstaklinga sem verða gjaldþrota. Að verða gjaldþrota Íslendingur er hugsanlega verri örlög en þyngsta refsing sem dómstólar geta veitt. Morðingjar sem fá lífstíðardóm geta sloppið út eftir 8 ár fyrir góða hegðun. Manneskja sem verður gjaldþrota getur verið eignalaus í áratugi vegna ákvæðis um að kröfuhafar geta endurnýjað kröfur sínar á tveggja ára fresti.

Hvernig þingheimur getur verið blindur gagnvart þessum hamförum er mér ráðgáta.

Þjóð sem hefur ekki efni á réttlæti er gjaldþrota.


Er Ísland gjaldþrota?

Þjóð sem hefur ekki efni á réttlæti er gjaldþrota.

Það er ekkert réttlæti í því að heiðarlegt og duglegt fólk sitji tjóðrað í skuldafangelsi vegna stórtæks bankaráns og þátttöku eigenda, starfsmanna og ríkisvalds í ráninu, auk ribbalda sem nú vilja ráðast inn á heimilin í laganna nafni.

Þetta rán var orsök þess að gjaldeyrisforsendur brustu, ástæða þess að verðbólgan rauk upp, ástæða þess að verðtryggð jafnt sem gjaldeyrislán eru stjórnlaus.

Ránsfengnum var dreift til fárra hópa, í leyni. Sumir komu honum úr landi. Snúið var upp á reglur og með blekkingum varð hinu dýpsta ranglæti snúið upp í réttinn fyrir fáa til að eignast allar eigur þeirra sem minna mega sín. Varið af heilögum einkarétti. Minnir á rannsóknarrétt miðalda.

Nú grætur þjóðin beiskum tárum. Fólk sér vini, kunningja og ættingja í vandræðum. Venjulegt fólk. Sumir eiga varla fyrir mat. Fjölskylda og vinir redda þeim kannski í bili. Hversu lengi? Sumir eru fluttir úr landi - þetta eru oftast feður og mæður, synir og dætur, sjaldnar afar og ömmur. Sumar fjölskyldur eru sundraðar. Sum börn hafa ekki séð eigið foreldri svo mánuðum skiptir. Hvers eiga þessi börn að gjalda?

Fólk hefur verið rænt. Það hefur verið vaðið inn á heimili þeirra, þau bundin og kefluð, öllum þeirra eigum sópað í stóra svarta plastpoka og sent heim til kröfuhafa sem síðan kíkja gegnum þessar persónulegu eigur og brenna þær á báli, til að hlýja sér og gleðja sínar myrku sálir í neistafluginu.

Þjóð sem hefur ekki efni á réttlæti er gjaldþrota.

Réttlætið felst í að leyfa réttlátu fólki að lifa í friði, í friði frá áreiti vegna skulda sem það vill greiða en getur það ekki vegna þess að skuldirnar margfölduðust umfram greiðslugetu. Þetta fólk þarf annað tækifæri. Þjóðin getur gefið þessu fólki annað tækifæri. En þjóðin vill það ekki. 

Réttlætið er dýrt og óþægilegt fyrir þá sem þurfa ekki á því að halda, fólki sem finnst það hafa sloppið vel, fólki sem heldur að skuldavandinn sé aðeins vandi fólks sem tók heimskulega áhættu, eins og að kaupa sér íbúð frekar en að leigja, kaupa sér bíl frekar en að hjóla eða fara með strætó. Það gleymist hratt að þetta fólk hefur verið rænt. Margir aleigu sinni. Og þegar þeir sem nóg eiga úthrópa fórnarlömb þessara glæpa sýna þeir hinir sömu ekkert annað en tómar sálir sem ekkert getur fyllt annað en neistaflug brennandi heimila.

Þjóð sem hefur ekki efni á réttlæti er gjaldþrota.


Erfiðar spurningar um niðurfellingu lána

Eiga fyrirtæki að vera flokkuð á sama hátt og einstaklingar? Það er þekkt að fyrirtæki geta orðið gjaldþrota án þess að manneskja verði hundelt til æviloka fyrir gjaldþrotið. Það sama á ekki við um einstaklinga.

Á það sama að gilda um fólk sem keypti sér munaðarvörur eins og sumarbústaði, húsbíla, sportbíla eða annað slíkt og um þá sem keyptu hreinar nauðsynjar, þak yfir höfuðið og fararskjóta?

Á það sama að gilda um þá sem enn vaða í peningum og þá sem ná varla endum saman?

Á það sama að gilda um þá sem hafa neyðst til að flytja úr landi og þá sem neyðst hafa til að búa enn á Íslandi vegna stökkbreyttra lána?

Sjálfsagt væri réttast að miða niðurfellingu við ákveðna hámarksupphæð á niðurfellingu, því það eru sumir sem hafa keypt fasteignir á lánum fyrir hundruði milljóna, en vandinn sem rætt er um snýr fyrst og fremst að fjölskyldufólki og að hver manneskja geti komist af og haldið í íbúð sína eða hús. Niðurfelling á lánum braskara sem keypt hefur sér tuttugu íbúðir á lánum er ekki það sem þjóðin er að hugsa. Held ég.

Hvað finnst þér?


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband