Bloggfærslur mánaðarins, desember 2009
Hefur nýhöftunarhyggja Samfylkingar og Vinstri Grænna andvana fæðst?
18.12.2009 | 23:53
Í fyrra varð frægt þegar hin orðheppna Jóhanna Sigurðardóttir tilkynni andlát nýfrjálshyggju. Í dag bíð ég eftir að hún tilkynni um andlát nýhöftunarhyggju, en eins og flestir vita, þá fæddist hún andvana. Frekar neyðarlegt atvik. Huss huss. Áhugavert hvað hún skrifaði um verðtrygginguna á heimasíðu sína árið 1996. Orðrétt skrifaði hún:
Efnahagsleg rök og sanngirni mæla með því að verðtrygging á lánum til heimilanna verði alfarið bönnuð.
Áður en Steingrímur J. Sigfússon komst til valda sem fjármálaráðherra vildi hann ólmur losna við verðtrygginguna og viðræður um aðild að Evrópusambandi áttu ekki að koma til mála. Ég hef aldrei séð nokkurn mann komast upp með jafn snaran viðsnúning á jafn stuttum tíma, og það undarlega er að fólk virðist virða hann fyrir það eitt að vera snjall ræðumaður. Síðan hvenær var það nóg?
Þessi ríkisstjórn hefur svikið eigin kosningaloforð. Það eitt ætti að vera nóg til að hún fengi að fjúka. Hins vegar virðist vandinn vera enn dýpri, að stjórnmálamenn líta á störf sín sem einhvers konar frama, frekar en þjónustu. Ég hélt að tími innihaldslausrar kappræðu og mælskulistar væri liðinn, en hafði greinilega rangt fyrir mér.
Þjóðin verður að ná saman. Íslendingar eru í augnablikinu tvær þjóðir. Þeir sem eiga og þeir sem skulda. Þeir sem skulda greiða látlaust í vasa þeirra sem borga. Þetta fólk er ómeðvitað komið í þrælkunarbúðir. Það er heft af eigin skuldbindingum sem eru afar fjarri því sem það ætlaði sér.
Þegar lögfræðingar ráðleggja fólki sem hefur stöðugt unnið af heilindum og ávallt borgað sínar skuldir að fara gjaldþrotaleiðina, þá hlýtur eitthvað afar djúpt og alvarlegt að vera að, eitthvað sem er kannski ósýnilegt, en verður að berjast gegn af öllu afli.
Samviskuleysi, handalögmál og kúgun hafa stöðugt gegnt meginhlutverki í mannkynssögunni, og munu sjálfsagt halda því áfram, þó að okkur finnist erfitt að trúa því að nútíminn hafi ekki enn lært af mistökum fortíðarinnar. Sagan hefur kennt okkur það eitt að hún er dæmd til að endurtaka sig. Og nútími sérhverrar kynslóðar telur sig ávallt búinn að sigrast á fyrri fordómum og þekkingarleysi, og áttar sig ekki á að með þeirri trú á eigin fordómaskort, sé hún að dæma sjálfa sig til að endurtaka mistök eina ferðina enn.
Vonandi fjölmennir fólk á útifundinn í dag, 19. desember 2009, og ekki bara það, heldur hringir líka í tvo til þrjá félaga og hvetur þá að hringja líka í tvo til þrjá félaga til að hvetja með á fundinn. Þannig væri hægt að ná saman góðum hópi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Af hverju það er ekki "óheiðarlegt" að vera á móti ICESAVE
16.12.2009 | 17:51
Undanfarið hef ég heyrt þau rök fyrir að samþykkja ICESAVE samninginn, að það sé heiðarlegra heldur en að samþykkja hann ekki, að ef við samþykkjum ICESAVE erum við að viðurkenna skuldbindingar sem eru samkvæmt lögum okkar. Þar að auki sé fólk orðið leitt á þessu máli og best að klára það sem fyrst.
Með fullri virðingu fyrir þeim sem halda því fram að það sé heiðarlegra í málinu að ganga að samningnum, þá eru þeir að gefa í skyn að óheiðarlegt sé að ganga ekki að samningnum. Þetta er rökvilla og þar af leiðandi vitleysa. En ef vitleysa hljómar sannfærandi og er endurtekin nógu oft, þá fer fólk að trúa henni. Það væri alveg eins hægt að segja að öll börn séu ódrepandi vegna þess að þau eru saklaus og að ekkert geti skaðað þá sem eru saklausir, þar sem Guð verndar þá, fordómur sem leiddi reyndar þúsundir barna til dauða á miðöldum og flest í krossferðum.
Heiðarlegt fólk getur verið með eða á móti ICESAVE og óheiðarlegt fólk getur verið með eða á móti ICESAVE. Þetta hefur ekkert með heiðarleika að gera.
Hins vegar greini ég áhugavert siðferðilegt vandamál þarna, og það er hvort að fara skuli að lögum skilyrðislaust, sama hvert málefnið er, eða hvort að fylgja skuli siðferðilegum lögmálum, eins og hugsjóninni um réttlæti.
Lög byggja á siðferði, en ekki öfugt. Það þarf afar sjálfstæða hugsun til að greina það sem er siðferðilega rétt eða rangt út frá ólíkum siðfræðikerfum, en það þarf nánast enga sjálfstæða hugsun til að greina hvað er rétt eða rangt út frá lögum.
Tökum nytjahyggjuna sem siðfræðilega kenningu um rétt og rangt. Meginhugmynd nytjahyggjunnar er að velja skuli það sem er heildinni til heilla. Þetta getur þýtt að einhverjum einstaklingum eða hópum megi fórna, slíkt sé réttlætanlegt til að bjarga heildinni. Þá vakna spurningar um hver þessi heild sé, og hvernig sé hægt að velja á réttlátan hátt hverjum skuli fórna og hverjum hlífa þegar verið er að vernda heildina.
Samkvæmt nytjahyggjunni væri aðeins réttlætanlegt að samþykkja ICESAVE ef það kemur heildinni betur en að samþykki ekki ICESAVE. Gallinn er að fólk á erfitt með að leggja dulu yfir augu sín og blinda sjálf sig gagnvart eigin þjóðfélagsstöðu, og því líklegt að viðkomandi muni telja hópinn sem hann eða hún tilheyrir sem mikilvægan hluta af heildinni. Það sama munu aðrir gera. Þessum spurningum þyrfti að svara:
- Væri ICESAVE samþykkt heildinni til heilla?
- Hver er heildin?
- Er réttlætanlegt að útskúfa þeim sem minna mega sín?
- Er réttlætanlegt að fórna einstaklingum fyrir heildina?
- Er réttlætanlegt að fórna hópum fyrir heildina?
- Jafnast réttlæting nytjahyggjunnar á við réttlæti?
Tökum aðra siðfræðikenningu, gegnsæishyggju, eða "transcendentalism". Sú kenning snýst um að réttlæti sé þegar hægt er að sjá meginlögmál út frá athöfnum. Samkvæmt þessum hugmyndum er mannlífið yfirleitt talið óendanlega verðmætt, og aldrei réttlætanlegt að fórna einum fyrir fjöldann. Þess vegna er frekar erfitt að sætta nytjahyggjufólk og gegnsæishyggjufólk, grundvallarforsendur stangast á. Hugmyndir eins og þrælkun, fasismi, einræði, nasismi, kapítalismi, má rekja til nytjahyggju, en hugmyndir eins og skoðanafrelsi, kynfrelsi, lýðræði, kommúnismi, og fleiri hugmyndir má hins vegar rekja til gagnsæishyggju. Mér dettur ekki í hug að dæma annað hvort sem gott eða slæmt í sjálfu sér.
Meginlögmál gagnsæishyggjunnar til að átta sig á hinu rétta og ranga er að spyrja sig: hvað ef allir gerðu svona, eða hvað ef enginn gerði svona? Eða: komdu fram við aðra eins og þú vilt að aðrir komi fram við þig.
Hvað ef allar þjóðir tækju ábyrgð á skuldsetningu óreiðumanna, sem höfðu áður hagnast óheyrilega án þess að deila þeim auð með þjóðinni, og vilja nú í stað þess að missa allar sínar eigur, skuldsetja eigin þjóð til frambúðar, ekki bara þá sem sitja heima í kvöld og horfa á sjónvarpið, heldur líka börn þeirra og barnabörn, og jafnvel barnabarnabörn og barnabarnabarnabörn. Börnin hafa ekki val, en ábyrgðin yrði lögð á þeirra herðar af okkur, og þar með yrðu þau þrælbundin til frambúðar. Hvað myndu Bretar gera ef við myndum skipta um hlutverk?
Ekki segja mér að þrælkun framtíðarinnar sé heiðarlegri en að forða framtíðinni undan þrælkun, nema þú getir rökstutt þá skoðun afar vel.
Aðrar siðfræðilegar kenningar, eins og epíkurismi, sem ég held að sé ríkjandi á Íslandi í dag ásamt nytjahyggjunni, myndu benda á að það þurfi að vera ákveðið jafnvægi í heiminum, jafnvægi á neyslu okkar, og því væri rétt að borga.
Stóuspeki, sem er enn ein siðfræðikenningin, myndi sjálfsagt segja okkur að kyngja þessu eins og hverju öðru meðali, að ytri og efnisleg gæði skipta okkur hvort eð er engu máli, við fáum þau hvort eð er að láni í þessu lífi og þurfum hvort eð er að skila þeim aftur einhvern tíma. Því minni tengingu sem við höfum við efnið, því tilbúnari erum við fyrir dauðann.
Ef við lítum hins vegar á siðferðilega dyggð sem mælikvarða á rétt og rangt, þá er ljóst að við erum í afar vondum málum, því dyggð snýst um að fólk geri skyldu sína, sem er að gera allt sem það getur af heilindum og gera það vel og án sjálfselsku. Ég efast um að hin spillta íslenska þjóð skoraði hátt á dyggðaskalanum, enda virðist sjálfselskan dyggðinni sterkari.
Eins og ég hef vonandi sýnt fram á með þessari stuttu grein, þá er engan veginn nóg að samþykkja ICESAVE vegna þess að það er heiðarlegra en að gera það ekki, eða vegna þess að þetta mál hefur dregist alltof mikið á langinn og er leiðinlegt.
Það er ljóst að það verður að klára þetta mál. Spurningin er ennþá hvernig. Og báðar leiðirnar eru vondar. Önnur leiðir framtíð okkar í vanda, hin leiðir okkur sjálf í vanda.
Að segja heiðarlegra að setja framtíð okkar í vanda en okkur sjálf, finnst mér svolítið sjálfhverft, og satt best að segja óréttlætanlegt. Við þurfum að hreinsa til. Það er á hreinu. En við þurfum að gera það sjálf. Ekki ýta vandanum undan okkur. Slíkt leiðir varla til góðra lykta.
Það sem vakti mig til umhugsunar fyrir þessa grein:
Í gær skrifaði ég athugasemd við eina af mörgum góðum greinum Láru Hönnu, Samhengi hlutanna og sameign þjóðar, um hvernig ég rökstuddi greiningu mína fyrir ICESAVE. Athugasemd minni var svarað af "Ásu", en henni þótti eitt mikilvægt atriði skorta í mínar pælingar. Mér finnst þessi athugasemd sýna góðan hug, en held að hún missi samt marks. Þakka ég henni fyrir þessa athugasemd, og vonandi þyk ég ekki of frakkur að birta hana hér í heild:
Sæl Lára Hanna, þetta er góð ábending en ég hef einmitt furðað mig á þvi margfalda lénsveldi sem viðgengst í stjórnkerfinu en þar eru hundruð lítilla klíka sem starfa einar og óháðar hvor annari í stanslausri samkeppni um fé og völd.
Einnig áhugavert innlegg hjá Hrannari en ég hjó eftir því hjá honum að ekki kemur til umræðu grundvallarviðhorf til Icesave og það sem mér persónulega finnst málið snúast um. Hann setur ekki upp aðalútskýringuna á því af hverju fólk vill klára Icesave en aðalástæða mín fyrir því hefur ekkert að gera með hagsmuni heldur er meira í anda þess sem Páll er að ræa um: heiðarleika, að standa við lög og reglur, að virða samninga og hegða sér á ærlegan hátt.
Við erum ekki öll með einhverja ytri hagsmuni að leiðarljósi, það snýst ekki allt um hvað við getum grætt en það virðist vera aðaleinkenni þessararar þjóðar, eiginhagsmunasemi og skortur á samvinnu, samkennd og samheldni sem er einmitt það sem Páll bendir á. Ég vil klára Icesave vegna þess að ég vil tilheyra þjóð sem virðir gerða samninga, virðir lög og reglur og fer eftir þeim á ærlegan máta en hegðar sér ekki eins og útrásarvíkingur eða siðlaus agent sem telur í lagi að hlúa að glæpastofnunum sem vaða uppi undir verndarvæng ríkisins og neita svo að koma heiðarlega fram og standa við samninga, lög og reglur.
Ef við erum ósátt við lög og reglur vinnum við að því að breyta þeim.
Þetta og önnur atriði sem benda til þess að það er ákveðin ,,lögleysa í sálu þessrar þjóðar, þrjóska við að fara eftir reglum eða lögum og sjálftökuhentisemi sem er ungræðisleg og vanþroskuð. Gott dæmi eru lögin sem banna áfengisauglýsingar. Menn fara í kringu lögin og auglýsa áfengi lon og don og allir vita að um áfengisauglýsingar er að ræða þó að einhverstaðar í horninu standi ,,léttöl. Við samþykkjum öll þessi lögbrot með því að yppta öxlum og segja að þetta skipti ekki máli, þetta sé allt í lagi því þessi lög séu svo asnaleg. Semsagt á Íslandi má bjróta lög ef fólk almennt telur þau asnaleg og þjóna ekki þeirra hagsmunum. Siðleg þjóð myndi frekar breyta lögunum og fara svo eftir þeim. En ekki á Íslandi, hér hefur engin fyrir því að vinna að því að breyta þessum lögum í þá átt sem samfélagið vill heldur umber brot á þeim því engin nennir að þvargast í að kæra svona ,,smotterí.
Ef að menn geta valið að brjóta þau lög sem þeim henta með einhverskonar almennum consesus eða samþykki, þá er ekki skrýtið að meirihluti þjóðarinnar vilji ekki standa við Icesave skuldbindingar okkar, velji í raun frekar að haga sér eins og útrásarvíkingarnir og taka ekki ábyrgð á þeim samþykktum sem þjóðin hefur gegnist undir, vilja ekki standa við undirrituð lög, ekki standa við skuldbindingar og ekki beina sjónum sínum að þeim sem raunverulega ábyrgð bera í málinu.
Samvinna, samheldni, samhugur, samúð, hluttekning, heiðarleiki, hugrekki, víðsýni og samhengi hlutanna er fórnað á altari sjálfshyggjunnar enn einu sinni.
(Ása)
Einnig skrifaði minn ágæti bloggvinur, Sæmundur Bjarnason þetta í dag, skáletrun er mín:
Mér leiðast Icesave-umræður. Pældi samt í gegnum umræður um það efni sem Emil Hannes fór af stað með. Er sammála honum um að siðferðislega er ekki hægt annað en samþykkja að greiða þetta. Lagakróka og þessháttar er hægt að nota í báðar áttir. Pólitískir flokkar ráða of miklu um afstöðu fólks í þessu máli og útlendingahatrið er alltof áberandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Athugasemd mín við grein Láru Hönnu um pælingar Páls Skúlasonar í Silfrinu
15.12.2009 | 06:48
Lára Hanna tekur daginn snemma og skrifar þessa hörkugóðu grein hérna. Við virðumst vera á sömu bylgjulengd, þó að við tökum kannski ólíkt á málunum, hún með hörkugóðum færslum og myndskotum þar sem hún greinir málefnin á snilldarlegan hátt, ég með því að leita lausna erlendis. Hvort tveggja einstaklingsframtak, án stjórnmálatengsla, með almannaheill ofarlega í huga. Hennar helsta markmið virðist vera að taka á gullfiskaminni landans, að hafa til staðar tæki til að rifja upp mál sem gleymast í amstri dagsins, og vera vakandi í umræðunni. Þetta virkar vel. Mitt markmið hefur leynt og ljóst verið af sama meiði, og tel ég mig hafa fundið leið sem getur hentað íslensku þjóðinni vel, en er hræddur um að fáir séu að hlusta.
Þeir sem mig þekkja kannast við virðingu mína fyrir Páli Skúlasyni, bæði sem manneskju og heimspekingi. Ég lít á Pál sem kæran vin, sem hefur verið mér leiðarljós og virkur leiðbeinandi um torfærur heimspekinnar, en hann ásamt Róberti Haraldssyni unnu með mér að BA ritgerð minni sem ég skrifaði fyrir mörgum árum um gagnsemi heimspekinnar. þrátt fyrir að ég sé oftast á flakki um heiminn og fjarri íslensku samfélagi, er hugur minn oftast hjá minni þjóð.
Ég endurbirti hér athugasemd mína við grein Láru Hönnu:
Sæl Lára Hanna.
Ég hef sjálfsagt kinkað kolli álíka oft yfir lestri þessarar greinar og þegar þú fylgdist með Páli Skúlasyni í Silfrinu. Eins og þú veist, þá fór ég í víking til Noregs með góða hvatningu á bakinu, meðal annars frá þér, og hef hafið störf hjá fyrirtæki sem sett hefur saman aðferðarfræði og hugbúnað sem hjálpar stjórnendum og starfsmönnum við að tengja í heildarmynd samhengi á milli gilda og verka, í stað þess að setja af stað vinnuferli sem þarf að síendurtaka, hugsanlega í einstöku samhengi, hugsunarlaust.
Ég hef minnst á þetta víða og vakið litla athygli. Veit ekki alveg af hverju það er. Kannski vegna þess að þessi aðferðafræði gæti hafnað spillingu eins og regnkápa hafnar rigningu, í réttum höndum.
Aðferðafræði sem byggir á því að umfang starfsemi byggi fyrst og fremst á gildum, sem eru sett fram myndrænt í hugbúnaði og fylgt eftir með verkefnum sem verða til útfrá gildunum, en ekki í einhverju tómu tilgangsleysi, hlýtur að vera eitthvað eftirsóknarvert á þessum tímum, sérstaklega þar sem að þessi leið virkar. Ég hef séð hana virka, hún gerir öll verkefni gagnsæ, og ég ýki ekki þegar ég segi 'öll'.
Ég held að þetta sé nákvæmlega það sem stjórnsýslu okkar vantar. En óttast að slíkar aðferðir séu hugsanlega það sem stjórnsýslan óttast mest. Hugsaðu þér stjórnsýslu þar sem allir starfsmenn fá verkefni sem beintengt eru þeim markmiðum og gildum sem þjóðin velur, og fer að öllu eftir þeim lögum og kröfum sem tengjast þessum markmiðum.
Það besta af öllu væri að fá stofnanda þessarar hugmyndar og leiðtoga fyrirtækisins í sjónvarpsviðtal, þar sem hann gæti sýnt fram á af hverju og hvernig þetta virkar. Ef hægt væri að gefa honum krefjandi skipulag til að greina, sem útskýrt hefur verið í skjali, þá getur þessi aðferðarfræði fundið hver þau röklegu vandamál sem krefjast nánari umhugsunar og tengingu við markmið, kröfur, lausnir og afurðir.
Hægt er að nota þetta til að hagræða í stjórnsýslu, án þess að grípa fyrst og fremst til þess frumstæða að segja upp fólki. Hægt er að finna fólki gagnlegri verkefni, frekar en segja því upp. Hægt er að nýta betur skattpeningana sem þegar fást inn, frekar en að hækka skatta hugsunarlaust og halda að með því einu, magni frekar en gæðum, takist okkur að ráða við þann vanda sem að steðjar.
Ég hef notað þessa aðferðafræði sjálfur til að greina mínar eigin hugsanir um ICESAVE, og þannig áttað mig á af hverju það mál er á villugötum. Mig grunar að markmið allra aðila sé að klára málið sem fyrst, annað hvort með samþykkt eða höfnun. Ástæður fólks fyrir samþykkt eða höfnun er einnig ólík. Þeir sem vilja samþykkja geta haft áhuga á 1) Evrópusambandinu sem lausn eða 2) áframhaldandi stjórnarsamstarfi sem lausn. Þeir sem eru á móti geta litið á höfnun þess sem 1) réttlætismál, þar sem almenningur eigi ekki að borga skuldbindingar einkafyrirtækja og einstaka stjórnmálamanna sem hugsanlega höfðu ekki rétt til að taka slíka ákvörðun án samþykkis Alþingis eða 2) öðlast auknar vinsældir til að ná völdum eftir næstu kosningar.
Afurðir fyrri hópsins reyndist vera að þvinga málinu í gegn til samþykkis og án samræðu, en afurðir seinni hópsins var að gera það eina sem þau gátu, hafið málþóf til að tefja og höfða til réttlætisins. Þjóðin virðist vera að hlusta og átta sig smám saman. En þetta er erfitt mál, og mikið af innihaldslausum skoðunum sem rugla fólk í ríminu, sem byggja fyrst og fremst á því hver heldur með hverjum.
Þetta átti ekki að verða svona langt, en svona gerist þegar maður byrjar að kinka kolli. Held ég birti þessa athugasemd sem eigin færslu í dag.
Með bestu kveðju,
Hrannar
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Réðist múgurinn snaróður og öskrandi gegn Obama eða voru þessi "svokölluð" mótmæli fyrirsögn í æsifréttastíl?
10.12.2009 | 21:39
Ég var á staðnum.
Ef það kallast mótmæli þegar um 20 manns halda á kröfuspjöldum og mótmæla stríði, en þúsundir hrópa af einhvers konar fögnuði til að bjóða gest velkominn og samfagna honum, "Obama, Obama, Obama!" og unglingsstúlkur skrækja þegar fyrst hann og síðan Will Smith birtast stundarkorn, þá má fullyrða að búsáhaldabyltingin hafi verið svo blóðug að helmingur íslensku þjóðarinnar lét lífið á Austurvelli. Þetta var meira eins og 17. júní, jólastemmning eða slíkt, heldur en pirruð mótmæli.
Fréttin segir:
Þúsundir manna gengu um götur Óslóarborgar í mótmælaskyni við stríðsrekstur Bandaríkjamanna í Afganistan eftir að Barack Obama Bandaríkjaforseti tók við friðarverðlaunum Nóbels.
Mótmælendur gengu fylktu liði með kyndla um götur borgarinnar, en göngunni lauk fyrir framan hótelið þar sem Obama gistir.
Þetta var í mínum huga svokallaður samstöðu- og fagnaðarfundur. Þeir sem segja annað eru að slá ryki í augu fólks, enda með eitthvað allt annað í huga en að segja sannleikann. Hagræðing sannleikans kemur yfirleitt sumum vel sem duglegir eru að næla sér í athygli fjölmiðla. Kannski það sé lögmál? Flest fólk var brosandi með friðarkyndla, en örfáar hræður tróðu sér fremst með kröfuspjöld til að mótmæla fjölgun hermanna í Afganistan.
Konan mín kom á staðinn aðeins á undan mér og varð vitni að kveðju hans heilagleika, og sagði hún mér með stjörnurnar í augunum, hvernig hann hafði kinkað vinsamlega kolli til þeirra sem héldu á kröfuspjöldunum og síðan lotið höfði í virðingarskyni. Þessi maður hafði fullkomna stjórn á fjöldanum.
Ég mætti á staðinn nokkrum mínútum síðar til að samfagna manninum ásamt dóttur minni. Hún var yfir sig ánægð þegar hún sá Obama bregða fyrir í nokkrar sekúndur úr glugga hótelsins og veifa til mannfjöldans, sem skrækti af fögnuði. Þeir fáu sem höfðu kröfuspjöld í hendi hlupu strax að átt að skrækjunum, en samkvæmt dóttur minni var hann örugglega ekki lengur en fjórar sekúndur bakvið sína skotheldu rúðu. Ég missti af því að sjá þennan merkilega svip bregða fyrir eitt augnablik, en er samt ekkert að fara yfir um vegna þess missis. Hins vegar þótti mér gaman að sýna manninum samstöðu, en hann og starfsfólk hans hafa lyft Grettistaki með því að lagfæra málstað þjóðar sem lá í rúst eftir að W. fór frá eftir 8 ár í valdastól og tókst að gera Bandaríkin að óvinsælasta ríki heims.
Þegar rapparinn og Hollywoodstjarnan svokallaða Will Smith steig út úr hótelinu voru skrækirnir ekkert minni. Þetta minnti mig töluvert á augnablik sem ég upplifði í London fyrir nokkrum árum, þegar Sylvester Stallone og félagar gengu um rautt teppi til að frumsýna "Rocky Balboa". Svipað tóbak.
Mér þótti merkilegt að vera umkringdur að minnsta kosti hundrað manna lögreglu- og hermannaliði með öflugar vélbyssur og merkilegt að sjá votta fyrir svokölluðum leyniskyttum í turnum og hótelgluggum. Ef þetta voru ekki raunverulegar leyniskyttur, þá var ímyndunarafl mitt að minnsta kosti nógu öflugt til að fylla þessa lífsreynslu. Einnig voru þó nokkrir sköllóttir menn í svörtum síðfrökkum á sveimi, og varð mér þá allt í einu hugsað til hversu lélegar "Matrix Reloaded" og "Matrix Revolutions" voru í samanburði við upprunalegu myndina, en ég þóttist viss um að þetta væru þrautþjálfaðir öryggisverðir á vegum CIA, enda stökk þeim ekki bros á vör og voru byggðir eins og Arnold áður en hann varð ríkisstjóri.
Mynd: HB
Mótmælaganga í Ósló | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Obama, konungur Bandaríkjanna kemur til Osló með frökku fylgdarliði, og Greenpeace
10.12.2009 | 06:38
Þarna riðu um lögreglumenn á gríðarstórum hestum, og nokkrir með vígalega hunda í keðju, en þeir hafa girt af vinalegan jólamarkað með girðingu sem gerst hefur reyndar sek um það stílbrot að vera ekki rafmögnuð, þannig að fólk getur ekki gengið á gangstéttinni, heldur þarf það að fara út á götu til að komast leiða sinna. Lögreglubílar út um allt. Búið var að tjalda innan girðingarinnar og héldu þar sig nokkrir löggæslumenn og sötruðu kaffi eða jólaglögg. Fréttir hafa borist af því að lögreglumenn alls staðar að í Noregi komi til þátttöku, og menn grínast með að á morgun verði þá ókeypis glæpadagur um allt land, þar sem allar löggur verða uppteknar af Obama.
Sumum unglingum hérna er ofboðið, og finnst samkvæmt skoðanakönnun VG (ekki vinstri grænir) að alltof mikið sé gert úr þessari stuttu heimsókn, og að þarna sé verið að eyða langt umfram efni, sérstaklega á tímum þar sem mikið er talað um alþjóðlega efnahagskrísu.
Í gærmorgun tók ég bát frá Akerbryggju í Osló og gekk framhjá Nóbelshúsinu. Ég fór sömu leið heim um kvöldið. Í anddyri Nóbelhússins eru tvö veggspjöld. Annað þeirra með mynd af Martin Luther King. Hin af Barack Hussein Obama. Á báðum stendur:
KING
OBAMA
Ég sá þrjár Blackhawk þyrlur fljúga yfir Oslófjörð seinna um daginn, eða ég held að þær hafi verið Blackhawk. Þær voru að minnsta kosti svartar og litu út eins og risastórar mýflugur, og drundi ógurlega í þeim. Þær þutu lágt yfir vatnsflötinn og hurfu jafn snögglega og þær birtust. Mögnuð fyrirbæri.
Einnig frétti ég af afar öflugri ratsjárstöð sem sett var upp í tilefni dagsins, sem á að geta greint minnstu hreyfingu sérhverrar músar sem vogar sér í 20 kílómetra radíus nálægt Obama. Ég vogaði mér að taka af mér bakpokann á miðju torgi, taka úr honum myndavélina og taka nokkrar myndir af loftbelg. Mér fannst að verið væri að fylgjast með mér einhvers staðar úr klukkuturni þar sem leyniskytta lá örugglega í leyni og fylgdist með þessum hávaxna Íslendingi í brúnum leðurjakka að munda grunsamlega myndavél á bryggjunni.
Ég get varla annað en hugsað til þess þegar móðir Teresa fékk friðarverðlaun Nóbels. Hún hafði ekki fyrir því að mæta, heldur óskaði eftir því að veisluföngunum væri varið í eitthvað merkilegra en hennar persónu. Þar var sönn fyrirmynd. Hún eyddi ekki krónu. Að bandaríska ríkisstjórnin skuli eyða 2 milljörðum króna í þessa dagsferð kemur mér ekkert á óvart miðað við allt umstangið í kringum þessi ósköp. Netið datt meira að segja nokkrum sinnum niður í dag, og ég velti fyrir mér hvort það væri tengt þessum stórviðburði, að forseti Bandaríkjanna kíki í heimsókn að taka á móti friðarverðlaunum Nóbels og tveimur milljónum dollara. Og ferðin kostar hann 2000 milljón króna!
Ég upplifi komu Obama svona eins og hálfgerða endurkomu Michael Jackson. Það eru veggspjöld á strætóskýlum með stórum myndum af Obama, og öllum er ljóst að einhver stórmerkilegur náungi er þar á ferð. Á sama tíma hefur gífurlegt Michael Jackson æði gripið um sig og það eru varla sungin jólalög lengur á jólaskemmtunum barna, heldur þurfa þau öll að vera með svalt Michael Jackson atriði. Rokkstjarnan Obama er bara rökrétt framhald!
Ég hef farið á nokkra rokktónleika. Koma Obama minnir á eitthvað slíkt, nema að allir virðast vilja að hitta hann. Kóngurinn og ráðherrarnir, fólkið og krakkarnir. Hann þykir svalur.
Enda er hann það kannski.
Á Akerbryggju sama morgun var líka sjón sem mér fannst frekar merkileg. Ég veit ekki hvort þú deilir undrun minni, en yfir miðri bryggjunni flaut stór loftbelgur, merktur Greenpeace með áletruninni:
SAVE THE CLIMATE - GREENPEACE
Norðmenn eru sérstaklega næmir fyrir umhverfisvernd, og ekkert á svæðinu gat mögulega mengað jafn mikið og hinn öflugi gaslogi sem notaður var til að belgja loftbelginn út og halda á floti yfir bryggjunni.
Mynd af Nóbelhúsinu í Osló: Wikipedia
Gríðarleg öryggisgæsla í Ósló | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Eigum við að samþykkja eða hafna ICESAVE?
9.12.2009 | 08:08
Ég vil byrja þennan pistil með því að þakka alþingismanninum Eygló Harðardóttur fyrir að vitna í orð mín til að gera grein fyrir atkvæði sínu gegn ICESAVE, eða með öðrum orðum: samþykkt ríkisábyrgðar á lántöku Tryggingarsjóðs innistæðueigenda og fjárfesta, þrátt fyrir að ljóst sé að ég sé ekki stuðningsmaður hennar flokks, frekar en annarra flokka. Tilvitnun hennar má lesa hér. Segjum svo að raddir þeirra sem tjá sig á bloggsíðum heyrist ekki innan veggja Alþingis.
ICESAVE var útibú banka í einkaeign. Þegar neyðarlög voru sett í október 2008 var lofað að innistæður allra Íslendinga væru tryggðar. Erlendir eigendur kröfðust að sjálfsögðu að þeirra eignir yrðu jafntryggðar og Íslendinga, sem varð til þess að óvart neyddist íslenska þjóðin að borga öllum kröfuhöfum, hvaðan sem þeir eru. Á meðan urðu hinir sönnu ábyrgðarmenn ICESAVE stikkfrí, og í stað þess að flýja undan vendi réttlætisins, hefur þeim tekist að finna skjól undir pilsfaldi ríkisstjórnarinnar.
Þetta er óréttlátt, en sárt.
Allir þeir sem áttu innistæður í bönkum fengu að halda sínu að mestu. Það þýddi að pening vantaði til að borga inn á reikningana þannig að af nógu væri að taka. Þessi peningur var fenginn frá auknum álögum á þá sem skulduðu húsnæðislán og myntkörfulán.
Það sem réttlætir slíka aðgerð er að ólíklegra er að fólk í erfiðri stöðu geti varið sig, en þeir sem vígbúnir eru öflugum lögfræðingum og hafa hagsmunatengsl andskotans í skjalatösku sinni. Lögfræðingum er vorkunn. Þeim er ætlað að starfa samkvæmt lögum, en ekki taka mið af því sem er réttlátt út frá siðferðilegum viðmiðum. Til þess eru heimspekingar. Heimspekingar sjá í hendi sér að skýrt rof er á milli íslenskra laga og siðferðis, sem hefur skapað gap sem má ekki vera til staðar, því slíkt gap skapar ósamstöðu og vantraust, brennir upp lífið sjálft, það lím sem heldur okkur saman sem samfélagi.
Ætlast er til að Íslendingar fari í gífurlega viðgerðarvinnu. Stíflan umhverfis landið hefur brostið. Það er gífurlegt gat á miðri stíflu, þrisvar sinnum stærra en eldfjallið Hekla, og það fer stækkandi. Verkefni okkar er að fylla upp í þetta gat með steypu, svo að Ísland sökkvi ekki. Vandinn er sá að við getum kannski útvegað nógu mikla steypu, en engan veginn nógu mikinn mannskap eða tækjabúnað til að fylla upp í gatið. Og þó okkur takist kannski að fylla upp í hluta gatsins, þá verður það ekki nóg, því það fer stækkandi og sjórinn streymir stöðugt inn, gerir þeim sem steypa stöðugt erfiðara fyrir við að halda sér í jafnvægi í flotgöllum sínum.
Eigum við stanslaust að fylla upp í þetta gat með steypu, eða ættum við kannski að viðurkenna þá staðreynd að við ráðum ekki ein við verkefnið, við þurfum hjálp erlendis frá. Þessi hjálp þarf ekki að vera í formi steypu, heldur vinnutækja og vinnuafls sem getur hjálpað okkur að stoppa í steypuna. Við verðum að sætta okkur við að fyrsta verkefni þeirra gæti verið að handsama þá sem skoppa um stífluna með sprengjuefni í túbum og kasta því hingað og þangað í þeirri von að fleiri sprungur myndist, þannig að athyglin öll verði á stíflunni, en ekki þeim sem sprengdu gatið upphaflega og hafa unnið gegn viðgerðinni.
- Að samþykkja ICESAVE er það sama og að stækka gatið í stíflunni, með þeirri von að erlendir aðilar muni í framhaldinu rétta okkur hjálparhönd við að fylla upp í hana.
- Að hafna ICESAVE núna er það sama og að kalla strax á hjálp.
Í raun eru báðir kostir afar slæmir, en þessi sífella stækkun gatsins er sínu verri fyrir heildina, en að takast á við vandann strax. Verði ICESAVE samþykkt reikna ég þó með að sumir geti baktryggt sig og komið peningum undan, en að meirihluti Íslendinga verði í miklum vanda, sem og ríkið og velferðarkerfið.
Hinn kosturinn er í raun að viðurkenna veruleikann, en það getur verið erfitt og sárt. Íslensk þjóð er gjaldþrota og þarf hjálp, þar sem hún virðist ekki geta tekið á eigin málum. Það fylgir mikil óvissa og óöryggi að lýsa yfir eigin vanmætti og að óska eftir raunverulegri hjálp, slíkt krefst mikils hugrekkis og jafnframt auðmýktar. Ég er ekki að tala um algjöra uppgjöf, heldur viðurkenna hvernig raunveruleg staða okkar er, og gera allt sem í okkar valdi stendur til að rétta þessa stöðu, af heilindum.
Einhverjir gætu haldið að við værum að gera það einmitt með að samþykkja ICESAVE, en það er ekki raunin. Með því að samþykkja ICESAVE erum við að auka vandann í stað þess að stoppa hann. Við erum að samþykkja kröfur sem við getum ekki staðið við og vonumst til að í framtíðinni munu þessar kröfur verða látnar falla niður vegna þess að þær eru pólitískar í eðlu sínu, sjálfsagt það atriði sem ekki má tala um á Alþingi og rætt hefur verið við samningamenn Hollendinga og Breta, en er að sjálfsögðu aðeins enn einn blekkingarleikurinn og kolrangt, bæði siðferðilega og löglega, að samþykkja skuldbindingar sem ætlunin er ekki að standa við.
Þjóðin þarf bæði að takast á við gífurlegan vanda og leita réttlætis, en gengur illa í báðum verkefnum. Hvað er til ráða?
Við erum í dag, af hinu alþjóðlega samfélagi, álitin þjóð án siðferðis sem virðir engin mannanna lög, heldur aðeins bókstafi eigin laga, þjóð sem lætur óreglulýð dæma börn okkar til frambúðar í ánuðarvinnu við að flytja steypu að stíflunni. Ríki sem ætlar að hylma yfir með óreiðumönnum og láta þjóðina borga. Hvern einasta aur. Að samþykkja ICESAVE tryggir slík örlög.
Að hafna ICESAVE er að hafna neyðarlögunum. Innistæðueigendur munu tapa miklu fé. Ríkissjóður verður sjálfsagt gjaldþrota og atvinnulíf lamast um stund. Við verðum að gera okkur grein fyrir að samþykkt á ICESAVE frestar slíkum örlögum um nokkur ár, en stækkar hins vegar vandann.
Stóra spurningin er hvort best sé að taka á vandanum strax í dag, eða hlaupa undan honum í nokkur ár. Hvort tveggja eru erfiðar ákvarðanir, sem fólk verður að ræða af heilindum, frekar en að stökkva í pólitískar skotgrafir og rífa niður skoðanir hins, einfaldlega vegna þess að þær eru ekki þær sömu og mínar.
Slík samræða gæti sýnt ríkinu hvernig best er að forgangsraða. Við þurfum hjálp erlendis frá. Það er ljóst. Ríkisstjórnin telur að þessi hjálp komi frá Evrópusambandinu. Og að forsenda inngöngu í Evrópusambandið sé að standa við neyðarlögin. Það er sjálfsagt rétt mat.
Hins vegar er spurningin hvort að réttara væri að einbeita sér að því að hreinsa til. Kalla strax eftir erlendri aðstoð og hleypa rannsóknarmönnum inn í landið og gefa þeim aðgang að leyndum upplýsingum til að gera upp Hrunið, og koma þeim frá sem komu þjóðinni í þennan vanda upphaflega.
Hér er verið að tala um forsendur og forgangsröðun.
Hvort er betra að byrja á að taka til heima hjá okkur og finna siðferðilegan stöðugleika, eða hella sér út í meiri vitleysu og viðhalda þeirri óreglu sem kom okkur upphaflega í þennan gífurlega vanda?
Það eru engin auðveld svör við þessu máli.
Að hefja samræður er fyrsta skrefið, skref sem er miklu betra en að þvinga fram örlög þjóðarinnar með þögulu valdi. Einnig þarf þessa blessaða ríkisstjórn að standa við loforð sitt um að aflétta leynd og fá allt upp á borðið.
Maður fer að halda að þessi ríkisstjórn feli haug beinagrinda í skápnum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Um hvað bloggar maður sem hefur ekkert að segja?
8.12.2009 | 07:19
Í dag er einn af þessum morgnum. Ég reyni að gefa mér um 50 mínútur á dag til að blogga um eitthvað. Ég á 23 mínútur eftir. Ég hef ekkert merkilegt að segja í dag.
Kannski ég lýsi kannski mínum venjulega virkum degi hérna í Osló.
Ég vakna um klukkan 6 og tek þátt í að undirbúa börnin fyrir skóladaginn. Bý um rúmið, skelli mér í sturtu, bursta tennurnar og hárið. Næ að setjast niður fyrir framan tölvuna um klukkan 7:30 og hef þá 50 mínútur. Í dag er ég þegar búinn að gefa út eina grein af rogerebert.blog.is um New Moon, þessa vinsælu ástarsögu um vampírur og varúlfa. Roger er ekki hrifinn.
Nú blogga ég svo um ekki neitt.
Klukkan 8:20 fer ég út úr húsi og geng í fimmtán mínútur niður að bryggju. Þar tek ég hraðbát sem kemur mér yfir Oslófjörð á tíu mínútum. Hinumegin geng ég svo aftur fimmtán mínútur að fyrirtækinu þar sem ég starfa, Ambitiongroup, sest þar niður fyrir framan Mac, forgangsraða og leysi öll þau hugsanlegu verkefni sem skjalastjóri í upplýsingatæknifyrirtæki getur fengið inn á borð til sín.
Eftir vinnudaginn fer ég svo aftur heim. 15 mínútu ganga, 10 mínútu sjóferð, 15 mínútu ganga. Það verður jólaskemmtun í skólanum hjá dóttur minni í dag, þar sem hún mun flytja ræðu á ensku. Það verður gaman að fylgjast með því.
Þegar heim kemur sest ég niður og þarf að leysa þýðingarverkefni sem tekur sjálfsagt um þrjár klukkustundir, og eftir það get ég kannski náð að horfa á eina bíómynd eða kannski sjónvarpsþátt á DVD, svona til að slappa aðeins af.
Úff. Klukkan orðin 8:04.
Yfirleitt ef ég hef ekkert að segja, þá kíki ég gegnum fréttir á mbl.is eða eyjunni, eða á Silfur Egils, þar er alltaf eitthvað bitastætt að finna. Ef ekki, held ég kannski áfram að lesa eina af þeim bókum sem liggja opnar hjá mér. Þessa dagana liggur safn ritgerða eftir Henry David Thoreau á skrifborði mínu og les ég vandlega ritgerðina hans um borgaralega óhlýðni, þar sem hann fjallar um skyldu sérhverrar manneskju að bregðast við vondum lögum með því að brjóta lög.
Ég hef fullar bókahillur af spennandi lesefni, en les hverja þeirra svo hægt, því að þegar hugmyndirnar fara að spretta fram þarf ég að greiða úr þeim, og geri það með því að skrifa um þær. Stundum birti ég þessar hræringar á blogginu, en yfirleitt ekki.
Klukkan orðin 8:09.
Það má kannski minnast á að þegar ég geng þessar 15 mínútur á milli staða, hlusta ég yfirleitt á hljóðbók og hef fengið mikla ánægju úr efni frá The Teaching Company. Frábært efni. Í bátnum les ég svo eins og einn kafla úr einhverri skáldsögu. Í augnablikinu er ég að lesa "The Lost Symbol" eftir Dan Brown, um prófessorinn Robert Langdon sem lenti í "Da Vinci Code" og "Angels og Demons" ævintýrunum. Ég hafði ekki verið neitt sérstaklega hrifinn af fyrri bókum eða bíómyndum, en "The Lost Symbol" hefur náð skemmtilegum tökum á mér, þó að hún sé svipuð að uppbyggingu og þær fyrri. Skemmtilega blandað saman vísindaskáldskap og dulspeki.
Á göngu minni hlusta ég hins vegar þessa dagana á "Innocents Abroad" eftir Mark Twain. Hann varð frægur fyrir þessa ferðasögu hans og hóps fólks frá New York á 19. öldinni, og skrifar hann með miklum húmor um ævintýri sín og samferðalanga sinna um ókunnar slóðir. Ég kann vel að meta íróníuna og húmorinn sem geislar úr sögum þessa sagnameistara, en hann er þekktur fyrir að spila saman fordómum fólks og síðan nýrri upplifun sem stangast á við fordóma þeirra, en samt sjá þeir þessa upplifun út frá sjónarhorni fordómsins. Mikil snilld.
Klukkan orðin 8:15.
Þarf að koma mér af stað. Best að láta Púkann lesa yfir greinina og birta svo.
Svona blogga ég þegar ég hef ekkert að segja.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Að samþykkja ICESAVE eins og frumvarpið er í dag, er að stökkva fram af himinháum kletti án öryggisnets, vængja, fallhlífar eða gúmmíteygju. Þó að maður stökkvi fram af fjalli geti mótvindur kannski verið nógu mikill til að maður lifi fallið af... RIGHT!
Hvernig er hægt að sannfæra manneskju sem ætlar að taka slíkt stökk um að það sé hættulegt, að hún geti dáið, og ef hún vill ekki að hlusta og ásakar viðmælandann einfaldlega um að dramatísera hlutina, hvernig er hægt að sannfæra slíka manneskju og hvað getur maður gert ef hún hefur þúsundir manna í eftirdragi og ætlar að stökkva fyrst og láta alla hina fylgja á eftir, með góðu eða illu?
Eygló Harðardóttir skrifar ágætis pistil um ICESAVE málin, þrátt fyrir að hún starfi á Alþingi og sé Framsóknarkona. Þar skrifar hún meðal annars:
"Kjarninn virðist vera sá að við sem eru á móti málinu trúum að við verðum látin greiða þetta og þeir sem eru með málinu trúa því EKKI að við verðum látin borga þetta."
Ef þetta er satt, að ICESAVE málið snúist um trú eða vantrú, þá er um afar alvarlegt vandamál að ræða. Ef kjarni málsins er trú sem byggir á sannfæringu, sem byggir á þeirri von að það þurfi kannski aldrei að borga reikninginn sem verið er að samþykkja, þá eru viðkomandi á afar slæmri braut. Ef málefnin eru orðin að trúarbrögðum verður ekkert pláss fyrir rökræðu, og án rökræðu verða ákvarðanir teknar sem byggja á loftköstulum einum saman.
Þetta útskýrir hvers vegna ræður á Alþingi virðast alltaf vera í kappræðustíl, í stað samræðustíls. Kappræður snúast um að sannfæring eins verði ofan á, en samræður snúast um að dýpka þekkingu og skilning á málefnum og taka síðan góða ákvörðun sem hefur skynsamlegan grundvöll. Ef Alþingismenn trúa ekki á kraft skynseminnar, þá er Alþingi glatað dæmi og þyrfti helst að kippa því úr sambandi strax í kvöld.
Áhugavert að Eygló skuli nota orðið trú og vissulega er afar varhugavert að byggja slíka ákvörðun á trú frekar en skynsemi. Stærra vandamál er að þingmenn virðast sumir hverjir ekki fara eftir eigin samvisku, heldur fylgja fyrirskipunum leiðtoga eigin flokks. Það er einnig andstætt heilbrigðri skynsemi.
Reyndar eru til fordæmi fyrir slíkum ákvörðunum. Álíka gáfulegar ákvarðanir voru teknar á miðöldum þegar börn voru send í krossferðir til Jerúsalem byggt á þeirri trú og von að sakleysi barnanna myndi yfirstíga öll vandamál. Börnunum var slátrað á leið sinni að landinu helga.
Vísinda- og fræðimenn hafa stöðugt verið í baráttu við trúarstofnanir sem vilja ekki sætta sig við að hugsanlega geti heimsmynd þeirra verið röng. Þetta er svo augljóst að það þarf varla að nefna dæmi. Það virðist einhver sjúkdómur hafa heltekið Samfylkingu og VG. Ég veit að þetta fólk vill vel. Það vill hjálpa þér að komast yfir götuna, hvort sem þú vilt fara yfir götuna eða ekki. Ef ekki og þú streitist á móti, verður kölluð til sérsveit lögreglu og þú skalt fara yfir götuna.
Reyndu að ræða við manneskju sem er sannfærð um að einhver ósannindi eru sönn, eitthvað sem þú veist að eru ósannindi, og þú munt ekki hafa árangur af því erfiði að sannfæra viðkomandi. Skortur á skynsemi finnur alltaf einhverja réttlætingu fyrir eigin trú, sama hversu fjarstæðukennd hún kann að vera.
Í tilfelli Samfylkingar grunar mig að sannfæringin sé sú að ef ICESAVE lögin verða að veruleika, þá muni íslenska þjóðin neyðast til að ganga í Evrópusambandið, sem síðasta úrræðið í þröngri stöðu, að VG vilji þvinga þessu í gegn til þess eins að halda áfram völdum. Ég hef ekki heyrt nein skynsamleg rök fyrir samþykkt á ICESAVE frumvarpinu, en heyrt mörg góð rök gegn því. Ég mun ekki ræða þau rök í þessum pistli, sem þegar er orðinn alltof langur, heldur hugsanlega í næsta pistli, þar sem rökin gegn ICESAVE eru svo hrópandi augljós að óskiljandi er hvernig hægt er að setja sig á móti þeim, nema þá með beitingu trúar og óljósra vona.
Í skák eru leikir eins og ríkisstjórnin er að leika núna kallaðir örvænting, en það er fyrirbæri sem á sér stað í erfiðri stöðu og skákmaður reynir að bjarga sér með því að hræra í stöðunni, fórna köllum og vonast til að hinn aðilinn geri einhver mistök. Slíkar aðferðir bera sjaldan góðan árangur, en stöku sinnum gengur slíkt þó upp, en það er bara undantekning og við erum að tala um minnstu mögulegu áhættu, sem er að tapa einnig skák, ekki að leggja undir framtíð komandi kynslóða.
Það er sorglegt hvernig þingmenn skipta sér eftir flokkslínum í stað þess að fylgja lögmálum gagnrýnnar hugsunar, ákvarðanatöku sem byggir á skynsemi og raunverulegu áhættumati.
Viðeigandi myndband frá Monty Python, öll þrjú atriðin.
Athugasemd: Ríkisstjórnin þarf að endurskoða hug sinn, því hún er að gera grundvallarmistök í verkefnastjórnun, sem felst í of mikilli bjartsýni. Allt þarf að ganga upp til að áætlunin verði að veruleika. Trúðu mér. Ég hef sjálfur brennt mig á þessu.
Það má lesa um bjartsýnisvilluna á Wikipedia, þar segir meðal annars:
"Bjartsýnisvilla birtist í kerfisbundinni tilhneigingu fyrir fólk til að vera of bjartsýnt um útkomu áætlaðra aðgerða. Þetta inniheldur ofmat á líkindum jákvæðra atburða og vanmats á líkindum neikvæðra atburða. Þetta er ein af mörgum tegundum jákvæðra tálsýna sem fólk er almennt veikt fyrir."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Þór Saari í hræðsluleiðangri eða Steingrímur J. í afneitun?
4.12.2009 | 06:46
Ég flutti úr landi í vor þar sem ég sá ekki fram á að geta borgað skuldir mínar á Íslandi. Samt hef ég fullan hug á að standa við mínar skuldbindingar. Þykir ekki spennandi að fara gjaldþrotaleið, enda veit ég að kröfur á einstakling eru endurnýjanlegar þannig að þær fyrnast aldrei á meðan maður lifir. Ég hafði keypt mér 10 ára gamla íbúð árið 2005, eftir að hafa búið erlendis í mörg ár, og jafngamlan bíl. Eiginkonan keypti einnig gamlan og notaðan bíl með myntkörfuláni, eftir að í ljós kom að strætisvagnasamgöngur virkuðu ekki nógu vel til að tryggja að við gætum staðið við skuldbindingar tengdar skólun barna og vinnu. Átti ekki flatskjá. Sukk?
Vissulega fór ég illa að ráði mínu með að flytja aftur til Íslands. Og ákveðið dómgreindarleysi að taka lán fyrir íbúð og bíl. Þannig tók ég þátt í góðærinu, frekar en að flytja ekki aftur heim. En þetta er það sem allir gerðu á Íslandi. Og ég er vitur eftirá. Sé eftir því að hafa tekið þessi lán og vil losna við þau fyrir fullt og allt. Þau eru afar íþyngjandi. Sérstaklega þegar eignirnar eru að gufa upp. Enda sagði fjölskylda mín erlendis að það væri brjálæði að taka slík lán. Ég hlustaði ekki vel á þau og lét Íslendinga hins vegar sannfæra mig án þess að vera of gagnrýninn. Þau mistök ætla ég ekki að endurtaka. Spurning hvort ég fái tækifæri til þess.
Þegar ég missti vinnuna og sá fram á að þó ég fengi sæmilega launaða vinnu, og þó ég hefði haldið henni, hefði ég og mín fjölskylda aldrei komist út úr skuldafangelsinu, nema ríkisstjórnin gerði eitthvað kraftaverk. Ég reiknaði ekki með slíku, enda mat ég stöðuna þannig að íslenskir stjórnmálaflokkar hefðu í raun engin völd, væru gagnslausir, þó að þeir vildu vel, og að raunveruleg völd væru í höndum lítils hóps auðmanna, sem hefur tök á almenningsáliti í gegnum fjölmiðla, styrkt hefur ýmsa þingmenn, hafa staðið á bakvið fjölmörg ólög, og stjórna jafnvel sjálfu dómskerfinu. Þar að auki trúi ég ekki á handstýrt gengi. Ég las Ríkið eftir Platón afar vandlega til að öðlast dýpri skilning á eðli stjórnmálanna, og komst á þá skoðun að Ísland væri ekki lengur lýðræðissamfélag, heldur auðræði sem stjórnað væri af fáum.
Það kemur fleira til, en þessar ástæður þóttu mér nægar til að flytja með fjölskylduna úr landi. Ég á fleiri duglega ættingja sem flutt hafa út, og veit um afar vel menntað vinafólk sem einnig er á leiðinni innan skamms.
Í mínum huga er fjöldi þeirra sem flutti úr landi engan veginn eðlilegur, enda ætlaði ég mér að búa með eiginkonu og börnum á Íslandi til frambúðar. Þar til mig fór að gruna í hvað stefndi um vorið 2008, þá byrjaði ég að leita leiða erlendis.
Það að segja þennan fjölda sem þegar er fluttur úr landi vera eðlilegan finnst mér satt best að segja móðgandi gagnvart þeim sem hafa neyðst til að flytja frá landinu sem ól okkur upp. Við erum Íslendingar með mannlega reisn, sem vildum búa á Íslandi og taka þátt í uppbyggingu góðs samfélags. Hins vegar eru aðstæður til þess hrikalegar, fyrst og fremst vegna mannlegrar spillingar, annarlegs hugarfars og óréttlætis.
Hvert sem maður lítur virðist fólk vera álitið tannhjól í kerfi sem þarf að rúlla áfram, og upp komu hjá mér hugrenningar um einhvers konar fasisma, þar sem trúin var ekki á að samfélagið væri hrein og vel sett saman vél sem rúllaði áfram með virkri þátttöku samfélagsins, heldur sams konar vél, sem haldið væri við af fúskurum, sem krefjast þess að vélin sé hrein og gljáandi á yfirborðinu, en nákvæmlega sama um hvort hún væri rotin að innan og virkaði í raun eða ekki.
Ísland var orðið að ríki hulið brúnkukremi og bóni.
Að lokum féll Ísland saman þjáð af anaroxíu og stressi, og í stað þess að kalla til lækni og sálfræðing til að hjúkra sjúklingnum, var hrópað á hjálp, bara einhvern sem vildi sjúklingnum vel, hvort sem hann þekkti einhver úrræði eða ekki. Þannig að auðvitað fengu steinafræðingur og flugþjónn hlutverk læknisins og sálfræðingsins, þar sem raunveruleg þekking þykir ekki nauðsynleg þegar kemur að hjálparstörfum. Vinsældir og trúverðugleiki skiptir meira máli. Absúrd heimssýn!
Sýnileg umhyggja fyrir kosningar og þrá í völd er nóg til að komast inn á heimili sjúklingsins. Og svo þegar greyið liggur fárveikt uppi í rúmi, eru notuð gömul heimilisráð eins og að láta hann bara jafna sig í friði. Allt í einu er sjúkrarúmið orðið að dánarbeði.
Þór Saari eða hræðsluáróður hafa ekki haft áhrif á mína ákvörðunartöku. Það voru ískaldar staðreyndir og einfalt áhættumat sem sannfærði mig um að heilsu barna minna stafaði meiri hætta af því að búa á Íslandi en að flytja úr landi.
Ég vil borga mínar skuldir. Það hef ég alltaf gert. Og alltaf staðið við hverja einustu afborgun. En ég sá fram á að geta það ekki lengur. Ég gat ekki lengur treyst á sjálfan mig til að standa við eigin skuldbindingar. Ég vil borga mín lán og losna endanlega við þau.
Þegar í ljós koma úrræði sem þýða að lánin verða lengd um óljósan tíma með aukalántöku, höfuðstóll fyrra láns ekki leiðréttur í samræmi við glæpina sem voru framdir, og að nánast engin samúð er með þeim sem eru í samskonar stöðu, er ljóst að Ísland er einfaldlega ekki ætlað þeim sem gerðust það óskammfeilnir að taka lán fyrir þaki yfir höfuðið og fararskjóta.
Frekar hefði maður átt að vera vitur og leigja íbúð árið 2005, en með þeim gölluðu formerkjum að slíkar leigur eru yfirleitt til eins árs og fjölskyldan hefði hugsanlega þurft að flytja árlega úr íbúð í íbúð. Hvernig líf er það, fyrir börn?
Því miður hefur reynsla mín af Íslendingum að miklu leyti verið afar sorgleg frá því ég flutti 'heim' árið 2004, til allt annars Íslands en ég flutti frá árið 1998. Í stað samfélags þar sem fólk stóð saman og studdi hvert annað, fannst mér ég fluttur til einhverrar ískaldrar distópíu, þar sem allir ættu að vera steyptir í sama form. Að heyra skoðanir eins og að hjónaskilnaður væri sjálfsagður hlutur, að eðlilegt væri hversu mörg börn væru greind ofvirk, að sjá hvernig kennarastarfið, sem ég menntaði mig til, var ekki nægilega launað til að hægt væri að hafa þak yfir höfuðið.
Allt voru þetta mikil vonbrigði. Í landi þar sem mikið góðæri átti að eiga sér stað.
Góðæri sem var ekkert annað en goðsögn, einhvers konar gervitrúarbrögð með fjölda nýrra guða sem horfðu yfir Ísland og frá Íslandi með úttroðna vasa af innistæðulausum tékkum.
En aftur að spurningunni: Er Þór Saari í leiðangri til að sannfæra þjóðina um að hún ráði ekki við skuldir sínar? Svar mitt er nei. Hann er að sýna blákaldan veruleika. Hann segir einfaldlega satt og rétt frá. Það hljómar kannski eins og bölsýnistal, en er það ekki. Veruleikinn er einfaldlega frekar svartur þegar skuldir þjóðarbúsins eru metnar á 310%, og gætu auðveldlega hækkað til muna umfram það vegna ýmissa óvissuþátta.
Steingrímur virðist hins vegar vera í afneitun. Hann berst fyrir því að ICESAVE komist í gegnum Alþingi án þess að berjast fyrir því með rökum í þingsal. Þess í stað talar hann um að málþóf sé slæmt, en þetta málþóf er aðeins til komið vegna þess að þvinga á frumvarpi í gegn án rökstuðnings, þar sem stjórnaraðstaðan telur um ólög að ræða og þar með skyldu sína að berjast gegn þeim, afstaða sem ég skil vel og ber virðingu fyrir, þrátt fyrir að ég telji viðkomandi ekki treystandi til að fara með stjórn landsins, frekar en þá sem eru við stjórn í dag.
Steingrímur rökstuddi ákvörðun sína um að rökstyðja ekki ICESAVE lögin með því að nota rökvilluna 'mótsögn'. Hann vísaði til nauðsynlegrar leyndar, en lýsti síðan yfir að ekki væri til staðar nein leynd, að upplýsingarnar væru hins vegar of viðkvæmar til að treysta almenningi og alþingi fyrir þeim. Fyrir manneskju sem kannast kannski ekki við rökvillur og mælskulist, ruglast hún kannski einfaldlega í rýminu við að reyna að botna í þessari rökleysu, og ræðumaðurinn kemst upp með þetta, enda er almennt ekki gerð sú krafa til stjórnmálamanna að þeir segi rétt og satt frá, heldur er ætlast til af þeim að þeir sannfæri fólk um eigin sannfæringu, sama hver hún kann að vera.
Svona horfir þetta mál við mér.
Þór Saari í hræðsluleiðangri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
Alþjóðlegir bankar fylgjast vandlega með hegðun íslenskra banka
3.12.2009 | 19:25
Það hefur verið áhugavert að heyra frá vinum mínum víða um heim og ræða við þá um stöðuna á Íslandi. Þegar talað er um lán erlendis frá til Íslands, er svarið sem heyrist oftast, "Íslendingar eiga ekki skilið lán fyrr en þeir eru búnir að taka til heima hjá sér," og þegar ég ræði við þá um hvernig banka- og lánastofnanir eru að kreysta peninga úr úr fólkinu, undrast þeir þessa miklu grimmd, sérstaklega þar sem þessum stofnunum hefur verið gefið svigrúm til að gefa fólkinu svigrúm.
Góður vinur minn sem er vel tengdur í alþjóðlega bankastarfsemi trúði mér fyrir því að augu alþjóðlega bankasamfélagsins væri á íslenskum fjármálastofnunum, og yrðu bankarnir dæmdir eftir því hvernig þeir kæmu fram við viðskiptavini sína.
Miðað við hvernig þeir hafa hagað sér til þessa, er ekki von á að íslenskir bankar fái þægilegan dóm.
Mér finnst þetta áhugaverður vinkill.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)