Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Hvers vegna allir VERÐA að lesa grein Einars Más Guðmundssonar um kröfu á óháða rannsókn fjármálakrísunnar... S T R A X !

einar_mar

Einar Már Guðmundsson skrifar magnaða grein í Morgunblaðið um þá kreppu sem læðist yfir landsmenn þessa dagana. Þar sem að ég hef mikið pælt í og rannsakað þessi mál og einnig skrifað mikið um þetta sjálfur sé ég að þarna fer snilldarpenni sem skrifar beitt en með mannúð um ástandið sem ríkir í dag.

Ég vil endilega að sem flestir lesi þessa grein og leyfi mér að birta hana án samráðs við Einar Má, en fjarlægi hana að sjálfsögðu biðji hann mig um það:

 

Hvort sem sagan
er línurit eða súlurit
í auga hagfræðingsins
er heimurinn
kartafla í lófa guðs.

***

Vissulega er hinn frjálsi maður
ekki lengur veginn með vopnum,
ekki höggvinn í herðar niður
eða brenndur á báli.
Sem slíkur gæti hann öðlast samúð
sagnritara og orðið gjaldgengur
á myndbandaleigum framtíðarinnar.
Þess í stað er honum svipt burt
með snyrtilegri reglugerð
og málinu skotið til markaðarins
sem mállaus vinnur sín verk.

***

Ég byrja á smá ljóðabrotum, venjunni samkvæmt, en það er líka til mannætubrandari sem er einhvern veginn svona: Mannæta flýgur á fyrsta farrými. Flugfreyja kemur með matseðil, skrautlegan með nokkrum valkostum. Mannætan er afar kurteis, eins og mannætur eru víst við fyrstu kynni. Mannætan rennir augunum yfir seðilinn og segir svo við flugfreyjuna: Ég sé ekkert bitastætt á matseðlinum. Vilduð þér vera svo vingjarnlegar að færa mér farþegalistann?

Ég ætla ekki að fara að líkja auðmönnum Íslands, sem komið hafa okkur á kaldan klaka ásamt stjórnvöldum, við mannætur, ekki í bókstaflegri merkingu, en eftir að hafa fengið nánast allt upp í hendurnar, banka og ríkisfyrirtæki, virðast þeir samt hafa sagt við stjórnvöld og eftirlitsstofnanir: Það er ekkert fleira bitastætt á matseðlinum. Vilduð þið vera svo vingjarnleg að rétta okkur þjóðskrána?

Og stjórnvöld ábyrgjast heilt spilavíti, rússneska rúllettu, og niðurstaðan er ónýtt mannorð heillar þjóðar – og við sem vorum svo stolt og áttum stundum ekkert nema stoltið. Aumingja Jón Sigurðsson í nepjunni niðri á Austurvelli og Jónas Hallgrímsson, svo laglegur í frakkanum. Hvar er nú andi frönsku byltingarinnar og þýsku rómantíkurinnar þegar það hafa verið sett á okkur hryðjuverkalög þar sem við megum dúsa með skuggalegustu þjóðskipulögum heims og þjóðhöfðingjum sem enginn vill hitta í myrkri.

Hver Osama bin Laden er í þessu dæmi skal ósagt látið, en margir af auðjöfrunum eru flúnir land og láta ekki ná í sig eða aka um með lífverði sér við hlið. Verður ekki allt tal um turnana tvo í íslenskum stjórnmálum dálítið kaldhæðnislegt í þessu samhengi? Hafa þeir ekki orðið fyrir hryðjuverkaárás, jafnvel sjálfsmorðsárás? Eru þeir ekki hrundir og það af eigin völdum? Ég ætla heldur ekki að líkja neinum við feðgana Kim Yong Il og Kim Il Sung, en stjórnvöld og eftirlitsstofnanir þeirra virðast hafa sagt við auðmenn þessa lands þegar þeir báðu þau um þjóðskrána: Já, gjörið þið svo vel. Er ekki eitthvað fleira sem við getum gert fyrir ykkur?

Þetta eru auðvitað ekkert annað en landráð, hafi það orð einhverja merkingu lengur, og það er því skýlaus krafa okkar sem eigum ekkert nema sjálf okkur og börnin okkar að eignir auðmannanna verði frystar strax, og kerfið hætti að rannsaka sjálft sig. Almenningur vill að fjármálaeftirlitið sé sett af og það og aðrar eftirlitsstofnanir séu rannsakaðar; líka Seðlabankinn, líka ríkisstjórnin. Menn sem hafa haft hagsmuni af sukkinu eru látnir rannsaka sukkið, og fjármálaspillingin teygir sig jafnvel inn í ríkisstjórnina, en við sitjum uppi með risavaxinn reikning, tólf þúsund milljarða, og þeir ætlast til að við borgum, við, börnin okkar og barnabörnin og barnabarnabörnin líka.

Ég hirði ekki um að halda romsunni áfram, slíkur er glæpurinn sem framinn hefur verið, og þessi glæpur hefur verið framinn með vitund stjórnmálamanna, þeirra sem einkavæddu bankana, gáfu þá raunar pólitískum vildarvinum, já létu þá í hendur fjárplógsmanna sem veðsett hafa okkur langt fram í tímann og gert okkur að bónbjargarmönnum hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og öðrum lánastofnunum.

Við erum gíslar á lögreglustöð heimskapítalismans, því reikningurinn sem skilinn var eftir á veitingahúsi hans er svo stór að enginn getur borgað hann og ríkisstjórnin segir ekki eins og strákarnir í Englum alheimsins: Við erum öll saman á Kleppi, það væri of gott til að vera satt, heldur segir hún: Þjóðin borgar. Við munum pína skrílinn. Já, ríkisstjórnin er alveg jafn ábyrgðarlaus og strákarnir sem snæddu á Grillinu í áðurnefndri sögu. Munurinn er bara sá að samfélagið var búið að taka af þeim ábyrgðina en ríkisstjórnin var kosin til að axla ábyrgð.

***

Marktækur hagfræðingur, sem var búinn að vara okkur við, segir að ríkisstjórn Íslands og seðlabanki séu engu hæfari sem stjórnendur nútímahagkerfis en þau væru sem stjarnvísindamenn. Þau skildu ekki að uppsveifla íslenska hagkerfisins árin 2005 og 2006 byggðist á skuldasöfnun – lán voru tekin til þess að standa í skilum með önnur lán – og nú vita þau ekki hvernig unnt er að ná jafnvægi aftur þegar pappírsauðurinn er horfinn.

Og hagfræðingurinn bætir við: Það er ólíklegt að nýir leiðtogar sem væru valdir af handahófi í símaskrá gætu valdið jafnmiklum efnahagslegum glundroða og núverandi stjórnvöld.

Þarf frekari vitnanna við? Hvað segja stjórnvöld og hvað segja fjárplógsmennirnir? Þau segja ekkert og þeir segja ekkert. Enginn segir neitt. Það ætlar enginn af þessu fólki að axla ábyrgð. Sigurjón bankastjóri, sem lýsti ICESAVE-reikningunum sem tærri snilld, segist ekki bera neina ábyrgð, og Halldór Kristjánsson félagi hans ekki heldur, en þessum reikningum var komið á fót þegar engir marktækir bankar vildu lengur lána íslensku bönkunum. Já, þá var þeim komið á fót með ábyrgð í þjóðskránni. „Það eina sem ég þarf að gera er að kíkja í lok dags hvað er kominn mikill peningur inn,“ sagði Sigurjón bankastjóri hlæjandi við blaðamann einhvers viðskiptablaðsins. „Það bættust við fimmtíu milljónir punda bara á föstudaginn!“ Þetta hafa verið skemmtilegir föstudagar sem við fáum nú í hausinn.

Bera slíkir menn enga ábyrgð? Ekki segja þeir, og allir meðvirku stjórnmálamennirnir taka undir. Það má ekki dæma, það má ekki hafa skoðun. Samt er enginn að æpa úlfur úlfur, þeir halda bara sjálfir eða heyra það löngu á undan öllum öðrum, en þegar jafnvel götunnar menn sem stela einum lifrarpylsukepp og koníaksfleyg þurfa að sæta ábyrgð er ekkert nema eðlilegt að þeir sem hafa komið þjóðinni á kaldan klaka geri grein fyrir máli sínu og reyni að bæta fyrir brot sín, jafnvel þótt brotin kunni að vera lögleg og hafi gerst með blessun stjórnvalda. Hér er einfaldlega svo miklu meira í húfi; þjóðin getur ekki beðið eins og Breiðavíkurdrengirnir eftir einhverri hvítbók, það væri eins hægt að syngja fyrir okkur gamla Flowers-lagið Slappaðu af, nema að verið sé að viðurkenna að við séum eins og Breiðavíkurdrengirnir, við höfum verið misnotuð í einhvers konar kennitöluflakki um öll hagkerfi heimsins og gott ef ekki sólkerfi.

***

Sú hagfræðibóla, sem stjórnvöld settu engar skorður, var svo augljós vitleysa og stjórnvöldum var margsinnis bent á það, nei ekki einu sinni, ekki tvisvar, heldur hvað eftir annað. En í stað þess að taka mark á þessum ráðleggingum fóru ráðherrarnir út í lönd sem kynningarfulltrúar bankanna. Héldu Geir Haarde og Ingibjörg Sólrún virkilega að ástandið myndi lagast ef þau héldu blaðamannafundi? Hvaða stjórnspeki er þetta eiginlega? En þetta fólk ber auðvitað enga ábyrgð. Þau gátu ekki séð þetta fyrir, segja þau. Nei, þau hlustuðu bara ekki á neinar viðvaranir, þar liggur ábyrgðin, og þess vegna á að skylda þau til að hlusta á það sem við erum að segja.

Það voru orðin hálfgerð trúarbrögð að hægt væri að kjafta ástandið upp og niður, enda réð ríkisstjórnin einn aðalkjaftaskinn til sín sem ráðgjafa og hann hætti þegar hann komst að því að ráðgjafastörfunum fylgdi vinna. Við viljum líka sjá ábyrgð greiningardeildafólksins, sem virðist hafa verið í vinnu við að ljúga að okkur. Skoðið tekjublað Frjálsrar verslunar og sjáið hvað þetta fólk var með í laun! Sjaldan undir fimm milljónum á mánuði. Fyrir hvað? Fyrir að ljúga? Skoðið líka hvernig fólk nátengt ríkisstjórninni hefur makað krókinn, og nú ætlar þetta fólk að fara að rannsaka sjálft sig. Það er annars merkilegt að tekjublað Frjálsrar verslunar er allt í einu orðið eins og mögnuð heimildaskáldsaga. Fyrir hvað voru forstöðumenn greiningardeilda, fyrirtækjasviða og ég veit ekki hvaða sviða að fá sjö milljónir, átta milljónir, tíu milljónir, í mánaðarlaun? Ef Jóhann Páll Valdimarsson borgaði ljóðskáldum slík laun myndi Forlagið strax fara á hausinn. Samt virðast mér ljóð margra skálda margfalt verðmætari en pappírarnir sem þetta fólk var að sýsla með. Verður þetta fólk ekki líka að axla ábyrgð, reikna sér eðlileg laun og skila afganginum upp í skuldir? Öðruvísi verður engin sátt í þessu þjóðfélagi. Þannig er Ísland í dag.

Eða eigum við nú þegar skuldunum rignir yfir okkur að fara bara með reikningana okkar út í tunnu og halda síðan blaðamannafund? Hvað á fólkið sem nú missir húsin sín, vinnuna, að gera? Á það að halda blaðamannafund? Eins og stjórnvöld. Sjá menn ekki hvílík vanhæfni hér er á ferð? En þau bera enga ábyrgð. Samt stjórna þau landinu. Halló! Þetta er eins og að segja: Ég rústaði húsinu, en ég ber enga ábyrgð af því að ég gerði mér ekki grein fyrir að ég væri að rústa húsinu. Myndi einhver taka slíka röksemdafærslu gilda? Nei, en þetta er röksemdafærslan sem okkur er boðið upp á.

Geir Haarde átti að vita að hann var á hriplekum báti, en hann sagði: Við róum bara áfram og sjáum hvað gerist. Það er best að gera sem minnst. Það var speki frjálshyggjunnar, að gera ekki neitt. Aðspurð um vanda bankanna sagði hinn leiðtogi ríkisstjórnarinnar, Ingibjörg Sólrún: Þetta er fræðilegt vandamál, og bætti við: Ég fæ ekki betur séð en að bankarnir standi ágætlega.

Hún sagði ekki þetta er hræðilegt vandamál, heldur fræðilegt, og fór svo til Köben með Sigurði Einarssyni, fjármálafurstanum sem nú byggir sér níu hundruð fermetra sveitasetur í Borgarfirðinum og hefur nýverið látið bankann sem farinn er á hausinn kaupa handa sér hús í London upp á tvo milljarða. Geir Haarde og Ingibjörg Sólrún ætla kannski að sitja með Sigurði Einarssyni og dást að sólarlaginu í Borgarfirðinum og segja: Þetta er fræðilegt vandamál, þegar allir verða farnir úr landinu, og Sigurður Einarsson, varla ber hann ábyrgð, þessi mikli snillingur, sem fyrir örfáum vikum fékk hundruð milljóna í kaupauka. Fyrir hvað? Þetta var maðurinn sem hótaði að fara úr landi ef hann fengi ekki ofurlaun.

Já, Ingibjörg Sólrún, hvað varð af hinni hagsýnu húsmóður kvennalistans? Það eru ekki bara unglingar sem lenda í vondum félagsskap. Stjórnvöld hafa verið í vasanum á ábyrgðarlausum fjármálafurstum og nú ber þeim að taka ábyrgð á því.

Nei annars, þetta er ekki þeim að kenna. Þau bera enga ábyrgð. Geir Haarde forsætisráðherra segir að kreppan sé bara einhver óþægilegur vindur sem kom frá útlöndum, svipaður óveðrinu í síðustu viku, og ef það hefði ekki gerst, ef það hefði ekki blásið, þá væri allt í himnalagi. Það var sem sé ekkert að, bara ef bullið gat haldið áfram. Allt fjármálasukkið, ofurlaunin, kaupaukarnir, endalaus sala á verðlausum bréfum og endalaus niðurlæging á fólki sem vann heiðarleg störf. Laun Lárusar Weldings bara fyrir að byrja í bankanum voru hærri en ævitekjur flestra vinnandi manna. Rithöfundur þyrfti líklega að skrifa tugi metsölubóka til að vera andvirði eins fótspors hjá Lárusi Welding. Er þetta eðlilegt verðmætamat? Vita menn í hvað ICESAVE-peningarnir fóru? Er það satt að þeir hafi verið lánaðir til Baugsfyrirtækja sem nú skulda hundruð milljarða á meðan eigendur fyrirtækjanna monta sig af lystisnekkjum, einkaþotum, lúxusíbúðum, sveitasetrum og hótelum? Það virðist hafa verið samkomulag fjármálafurstanna að lána hver öðrum út á veð sem ekkert stóð á bak við. Og þetta finnst stjórnvöldum bara allt í lagi; og þau ætla að fara hægt í sakirnar og ekki að dæma.

Eini vandinn er sá að þetta fékk ekki að halda áfram. Það segir Geir Haarde. Nákvæmlega sama viðhorf birtist hjá Jóni Ásgeiri. Maðurinn heldur því blákalt fram, og virðist trúa því sjálfur, af svipbrigðum hans að dæma, að fyrst þeir fengu ekki meira lán til að halda vitleysunni áfram þá hafi bara allt stoppað og það sé allt Davíð að kenna. Maður gæti haldið að Jón Ásgeir væri alinn við einhverja sérstaka útgáfu af Davíðssálmum, svo hugleikinn er Davíð honum. Jón Ásgeir notar sömu rök og drykkjumaðurinn sem segir að það sé allt í lagi að keyra fullur, bara ef hann er ekki tekinn, og þegar hann keyrir á ljósastaur er það ljósastaurnum að kenna. Síðasti bankinn sem ekki gat lánað, hann gerði mig gjaldþrota! Eigum við að kaupa þetta bull? Það kann vel að vera að eitt og annað hafi verið óheppilegt við yfirtöku bankanna, til dæmis Glitnis, en hefði verið heppilegt að lána banka sem var kominn í þrot miklar fjárhæðir? Ef ég skuldaði Jóni Ásgeiri margar milljónir myndi hann þá lána mér fleiri milljónir? Skuldir banka og fyrirtækja voru einfaldlega orðnar svo miklar að dæmið gekk ekki upp. Talað er um að Stoðir skuldi 260 milljarða, Eimskip um 200 og þar fram eftir götum.

Þess vegna erum við orðin þreytt á öllu þessu bulli. Við þessar aðstæður er ríkisstjórnin rúin öllu trausti nema hún taki til hendinni og beri niður þar sem eitthvað er að sækja. Það er rétt, við ætlum ekki að borga skuldir óreiðumanna, en við erum farin að heyra mjálmið og afneitunina. Stjórnmálamennirnir munu fylla eyru okkar af langlokum og afsökunum. Þeir vonast til að geta setið af sér storminn eins og þeir eru vanir að gera. Eins og Bjarni Ármannsson var sérfræðingur í. Hann hefur kannski kennt þeim trikkin. Var það ekki Pétur Blöndal sem uppgötvaði Bjarna, Pétur Blöndal sem sagði þessa skemmtilegu setningu í þættinum Mannamál í sjónvarpinu á sunnudag: „Ég viðurkenni ekki neitt.“

Eitt hafa stjórnvöld þó framkvæmt, það er að koma sér upp sérsveit lögreglu, en að við séum búin að missa landið út úr höndunum, að hér ljúki sögu lýðveldisins, og það allt af því að örfáum fjárplógsmönnum var gefinn allt of laus taumur, það er auðvitað þyngra en tárum taki, því satt best að segja hef ég alltaf kunnað vel við lýðveldið og ég geri ráð fyrir að sakna þess þegar fram líða stundir.

Nei, ég get ekki gert mikið fyrir ríkisstjórnina, en vil þó nesta hana með einu ljóði sem henni er frjálst að fara með næst þegar hún hittir fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og önnur yfirvöld af veraldlegum toga, en það heitir einmitt Síðasta tilboð Íslendinga og er að finna í ljóðabók með því viðeigandi nafni: Í auga óreiðunnar.

Því miður, herra framkvæmdastjóri,
ég hef ekkert að bjóða
í þessum samningaviðræðum
nema þrjú tonn af kokteilsósu,
örfá eintök af dýrafræði Jónasar frá Hriflu
og allar hljómplötur Árna Johnsens.

Höfundur er rithöfundur.


Af hverju gaf viðskiptaráðherra loforð sem ekki var hægt að standa við? Erum við að renna sífellt hraðar niður hála brekku án þess að geta stoppað okkur?

brefvidskiptaraduneyti.jpg

Ég sé ekki betur en að viðbrögð Breta vegna samtals Darling við Árna Matthiesen hafi verið réttlætanleg útfrá þessu bréfi sem sent var 5. október, eða tveimur dögum fyrir samtalið fræga, þar sem oft var vísað í þetta bréf.

Ef viðskiptaráðuneytið hefur verið búið að lofa skattpeningum Íslendinga margar kynslóðir fram í tímann hlýtur íslenska þjóðin að þurfa að standa við þá skuldbindingu. Eða hvað?

Ef við erum búin að gefa skjalfest loforð, hvernig getum við réttlætt að fara ekki eftir því tveimur dögum síðar? Þarna virðast alvarleg mistök hafa verið gerð, en alls ekki einu mistökin í þessu furðulega máli. Þetta er eins og að kaupa hús og tveimur dögum síðar tilkynna seljanda að hugsanlega getum við ekki borgað það.

Auðvitað fýkur í seljandann.

 

 

slippery

 

Annað mál og áhugaverðara

Reyndar erum við komin á svolítið merkilegan rökfræðilegan flöt, sem hægt væri að kalla rökvilluna hála brekku (slippery slope fallacy) sem þýðir að við höfum byrjað að renna niður hála brekku og í stað þess að hægja á okkur, aukum við sífellt hraðan, þó að við viljum helst vera efst í brekkunni. Ég er farinn að halda að stjórnmálamennirnir okkar séu einfaldlega ekki nógu klókir til að átta sig á því að eftir að maður hefur gert ein stór mistök, hefur maður tilhneigingu til að gera önnur enn stærri áður en maður vinnur sig út úr sjokkinu sem fylgdi því að gera fyrstu mistökin, en þannig halda mistökin áfram að vinda upp á sig. Eina leiðin út úr svona ísbrekku er að höggva í ísinn með haka og halda sér fast. 

Það er ljóst að ísinn sem um ræðir er verðbólgan, gengið og fjármálaumhverfi okkar í dag, og að höggva verður í þó að það skilji eftir sig einhverjar rispur og göt. Það þarf til dæmis að uppræta verðtryggingu á lánum þegar allar forsendur verðtryggingar hafa gufað upp og sýnt er að skuldarar munu annars renna stanslaust með í brekkunni. Reyndar gæti það þýtt að eigendur renni þess í stað. Þetta er spurning um val: viljum við að eigendur tapi einhverju eða að skuldarar tapi öllu?

Ef það verður ekki gert verður að minnsta kosti að gefa fólki sanngjörn úrræði.

Það verður spennandi að heyra hvað verður gert fyrir þennan venjulega Íslending sem hefur aðeins gerst sekur um að kaupa sér húsnæði og kannski notaðan bíl, en aldrei vogað sér út í að kaupa flatskjá, risastórt einbýlishús með sundlaug og margra milljóna krónu jeppa.

Ég bíð spenntur eftir góðum fréttum.

 

 


 


mbl.is Sögðust myndu styðja Tryggingasjóð innlána
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað finnst þér um bjartsýni þegar á móti blæs?

 

 

 

Ég hef heyrt þá kenningu að bjartsýni sé pirrandi fyrir fólk sem er í vondu skapi. Að það sé alltaf einhver kátur haus sem poppar upp úr drunganum og hversdagsleikanum sem segir eitthvað jákvætt til þess eins að vera jákvæður gæti verið böl í huga eins en blessun í öðrum huga, allt eftir því hvernig hugarfari viðkomandi stýrir.

Í stjórnlausu hugarfari getum við pirrað okkur bæði yfir logni og roki, rigningu og þurrki; en þegar við vitum hvað við hugsum getum við stýrt okkar eigin hugarfari í rétta átt. Ekki bara trúa að þú getir það, spurðu frekar hvernig þú ferð að því. Þegar þeirri spurningu hefur verið kastað fram getur fyrst vonast til að ná stjórn á þessu farartæki sem hugur og tilfinningar eru.

Til gamans og til að vera einn af þessum hausum sem poppar sífellt jákvæður upp, þrátt fyrir alvarlegt þjóðfélagsástand, langar mig að þýða nokkrar tilvitnanir um bjartsýni.

Ég hef þá trú að hófleg bjartsýni geti ekki skaðað. Er það rétt?

 

"Ég get ekki breytt vindáttinni, en ég get hagað seglum eftir vindi til að ná á leiðarenda." (Jimmy Dean)

 

"Enginn getur farið til baka að upphafinu, en hver sem er getur byrjað í dag á nýjum endi." (Maria Robinson)

 

"Brostu þegar það er sárast." (NN)

 

"Kannski þarf að þvo augun með tárum okkar stöku sinnum til að við sjáum Lífið aftur á skýrari hátt." (Alex Tan)

 

"Ef þú kallar vandræði þín reynslu og manst að öll reynsla þroskar einhvern hulinn kraft innan í þér, munt þú verða fullur af lífi og hamingjusamur, sama hversu erfiðar aðstæður gætu verið." (John Heywood)

 

"Ef þú áttaðir þig á hversu öflugar hugsanir þínar eru, myndir þú aldrei hugsa neikvæða hugsun." (Peace Pilgrim)

 

"Það sem okkur sýnist vera erfiðar raunir, reynast oft vera blessanir í dulargervi." (Oscar Wilde)

 

"Jákvætt hugarfar er að spyrja hvernig hægt er að gera eitthvað frekar en að segja að hægt sé að gera það." (Bo Bennett)

 

"Bölsýnismaður sér erfiðleika í sérhverju tækifæri; bjartsýnismaður sér tækifæri í sérhverjum erfiðleika." (Winston Churchill)

 

"Það er lítill munur á bölsýnismanni og bjartsýnismanni. Bjartsýnismaðurinn sér kleinuhring; bölsýnismaðurinn sér holu." (Oscar Wilde)

 

"Bjartsýnismaður mun segja þér að glasið sé hálf fullt; bölsýnismaðurinn að það sé hálf tómt; og verkfræðingurinn að það sé helmingi stærra en það þarf að vera." (NN)

 

"Það er betra að vera bjartsýnismaður sem hefur stundum rangt fyrir sér en bölsýnismaður sem hefur alltaf rétt fyrir sér." (NN)

 

"Bjartsýnismaður er manneskja sem ferðast á engu frá hvergi til hamingju." (Mark Twain)

 

"Fyrir sjálfum mér er ég bjartsýnismaður - það virðist vita gagnslaust að vera eitthvað annað." (Winston Churchill)

 

"Venjulegur blýantur er um 15 sentímetra langur, með tveggja sentímetra strokleðri - það er að segja ef þú heldur að bjartsýnin sé dauð." (Robert Brault)

 

"Bölsýni leiðir til veikleika, bjartsýni til valds." (William James)

 

"Kennsla er mesta bjartsýnisverkið." (Colleen Wilcox)

 

 

Tilvísanir þýddar af vefsíðunni ThinkExist.com


Hófst stærsta bankarán aldarinnar fyrir nákvæmlega sjö mánuðum og lauk því fyrir tveimur vikum?

Þessa grein skrifaði ég fyrir 7 mánuðum. Þá hafði ég sterka tilfinningu fyrir að eitthvað alvarlegt væri að gerast í fjármálaheiminum og grunaði að stærsta bankarán sögunnar væri í gangi - og að það væri svo stórt að enginn sæi það - ég byrjaði að rannsaka málið upp á eigin spýtur, og leitaði mér upplýsinga víða um heim með Google að vopni.

 

Var stærsta bankarán aldarinnar framið á Íslandi rétt fyrir páska?

Eru einhverjir að taka mikla fjármuni út úr bönkunum og skipta þeim yfir í erlendan gjaldmiðil, alltof hratt? Ef svo er, þá gæti eins verið komið fyrir Íslandi og fyrir Argentínu árið 1999, þegar fjárfestar hættu að treysta argentínska hagkerfinu, tóku allan pening úr bönkum, skiptu þeim yfir í dollara og sendu úr landi. Argentína var sem sviðin jörð í mörg ár á eftir. 

Árið 1994 lenti Mexíkó í hrikalegri niðursveiflu, nokkuð sem ég upplifði af eigin raun og skuldir margfölduðust á örfáum dögum. Forsendur málsins voru reknar til þáverandi forseta Mexíkó sem var að ljúka sínu síðasta ári á forsetastól, en hann dró sér gífurlegar upphæðir úr hagkerfinu, skipti yfir í erlenda mynt og flutti til Írlands. 

Er eitthvað samskonar að gerast hér á landi undir sofandi augum stjórnvalda, sem eru kannski að horfa of mikið út á við þegar mikilvægt er að við lítum aðeins í eigin barm?

Samkvæmt frétt mbl.is segir Davíð Oddsson seðlabankastjóri að "hugsanlega hafi einhverjir verið að hafa meiri áhrifa á gengi krónunnar að undanförnu en eðlilegt getur talist".

Þetta er stórfrétt í sjálfu sér, að minnsta kosti fyrir mig, því að ég hélt að ómögulegt væri fyrir fáa einstaklinga að leika sér með gengi krónunnar, og trúði að við værum í landi þar sem hlutirnir eru í föstum skorðum og gegna ekki frumskógarlögmálum, en nú hafa hagfræðingar og sjálfur Seðlabankastjóri fullyrt að það sé mögulegt. Athugið: "Að það sé mögulegt!"

Hvort að möguleikinn hafi verið nýttur er annað mál, og hugsanlega sakamál. Einnig má spyrja hversu lengi þessi möguleiki hafi verið til staðar og hvort að þetta sé í fyrsta skiptið sem svona lagað hefur hugsanlega verið gert á Íslandi, eða hvort að þetta sé líkari almennri reglu og bara fattast vegna tæknilegra mistaka?

Stýrivextir hafa verið hækkaðir um 1.25 prósent og eru því komnir í 15%. Það er mikið miðað við að stýrivextir hjá flestum öðrum Evrópuþjóðum eru um 2%, sem þýðir að lán verða ekki jafndýr fyrir almenning á endanum.

Ég ákvað að lesa mér til og reyna að fræðast um hvað stýrivextir þýða. Svo velti ég þessu fyrir mér, og þrátt fyrir að stundum hafi allt farið í hnút komst ég loks að þessari niðurstöðu:

Samkvæmt mínum skilningi þýðir þetta að ef fjármálastofnanir taka lán frá Seðlabanka Íslands verði vextir á þeim 15%. Er þetta gert til þess að koma í veg fyrir að fjármálastofnanir taki þessi lán, því að þau geta ekki verið annað en óhagsstæð. Segjum samt að fjármálastofnanir taki þessi lán á þessum kjörum, hvað þýðir það fyrir almenna neytendur í landinu. Það er ekki um bein áhrif að ræða, þannig að spekingar geta fullyrt að þetta hafi engin áhrif á neytendur.

Aftur á móti getur þetta verið eins og tvíeggja sverð: ef fjármálastofnanir voga sér að taka lán á þessum kjörum er ljóst að þær verða að fá peningana til baka, og hvar annars staðar en hjá borgurum landsins - ef ekki í gegnum fasta vexti, þá í gegnum verðtrygginguna, - þar sem að verðtryggingar, verðbólga og stýrivextir haldast í hendur. Ef fjármálastofnanir taka hins vegar ekki lán á þessum kjörum, þá eru þær sjálfsagt ekki að endurfjármagna sig og munu þá áhrif þessara stýrivaxta vera skammvinn, og gengið byrja aftur í frjálsu falli, jafnvel innan viku.

Vinsamlegast leiðréttið mig með útskýringum sem venjuleg manneskja skilur fari ég með rangt mál.

 

Dæmisaga sem kemur okkur við:
 

 

 

mbl.isEinhverjir kunna að hafa haft óeðlileg áhrif á gengið


Hvort ertu með höfuðið í skýjunum eða fæturnar á jörðinni?

 

 

Til eru tvenns konar manneskjur í heiminum. Þær eiga í stöðugum átökum hvor við hina. Önnur vill frið þegar hin vill stríð. Önnur vill gefa þegar hin vill eignast. Önnur skapar tækifæri en hin tekur þau.

HINN LJÚFI HUGUR HINN HARÐI HUGUR
Lærir af hugsun
(Reglusöm og löghlýðin manneskja)
Lærir af reynslu
(Reglur eru til að brjóta þær, og lög má brjóta komist ekki upp um mann)
Hugsun
(Ég get hugsað um sama fyrirbæri frá 1000 sjónarhornum)
Hrifning
(Ég vil þetta og ég vil hitt, og helst aðeins meira en allir hinir)
Hugsjónir
(við þurfum að byggja okkur betri heim)
Efnishyggja
(Ég vil eignast flottari bíl, hús og meiri pening en allir hinir)
Bjartsýni
(En hvað þetta er flottur kleinuhringur!)
Bölsýni
(Það er gat á helvítis bollunni!)
Trú
(Ég vil byggja samskipti mín við aðrar manneskjur á trausti)

Trúleysi
(Fólk er fífl, það er engum treystandi nema manni sjálfum)

Frjáls vilji
(Ég get ákveðið hvernig ég lifi lífinu og það hefur áhrif á gildi lífsins)
Örlög
(Það er sama hvað maður gerir, ég enda hvort eð er í gröfinni eins og allir hinir)
Einhyggja
(Það er ágætt að leita einingar í þessum heimi)
Fjölhyggja
(Heimurinn er og verður alltaf sundraður)
Fer troðnar slóðir
(Fyrst þetta virkaði fyrir pabba, virkar það líka fyrir mig)

Fer ótroðnar slóðir
(Þó að pabbi hafi fylgt í fótspor föður síns, þarf ég ekki að gera það sama)

Þessar pælingar eru upprunnar frá heimspekingnum William James, en afar frjálslega skreyttar af undirrituðum. Ég veit að það er ekki hægt að skipta manneskjum svona í flokka - en maður getur lært eitthvað á því að pæla í svona hlutum.

  • Er eitthvað til í þessu?
  • Hvorum hópnum tilheyrir þú?
  • Hvorum hópnum vilt þú tilheyra? 


Mynd: AllPosters.com

Hvar finnast tækifærin í fjármálakreppunni?

 

 

Á síðustu árum hafa bankarnir sogað til sín margt af besta vinnuafli landsins. Nú þegar bankarnir eru fallnir hlýtur þetta fólk að velta framhaldinu alvarlega fyrir sér. Sumir vilja kannski flýja af landi brott enda með góð viðskiptatengsl í öðrum löndum og eiga ekki í miklum vandræðum með að fá góð störf. Aðrir vilja sjálfsagt halda sig á heimaslóðum.

Það má ekki gleyma því að fyrir ofurþenslu bankanna, þá var pláss fyrir allt þetta fólk á Íslandi í störfum sem hentaði þeim. Stærðfræðingar voru yfirleitt sáttir við að grafa djúpt í leyndardóma stærðfræðinnar - frekar en leyndardóma vísitölunnar, eðlisfræðingar höfðu ekkert á móti því að stunda rannsóknir á eðli heimsins - frekar en eðli áhættunnar, kennarar höfðu ekkert á móti því að kenna - frekar en að stýra færslum í einhverju kerfi. Þetta fólk er loksins frjálst á nýjan leik.

Ef það hefur áhuga, bíður þeirra gífurlega mikið af tækifærum á Íslandi. Öll sú þekking sem orðið hefur til í bankaheiminum er ekki að engu orðin eins og peningurinn, þekkingin er ennþá til staðar og hún er mun traustari grundvöllur en hlutabréf og sjóðir. Fyriræki og stofnanir vantar svona fólk. Þetta fólk hefur bara ekki verið til viðtals á meðan það var djúpt sokkið í bankaheiminn.

Það má bjóða þau velkomin heim.

Kannski þýðir þetta að stressið í þjóðfélaginu taki að hjaðna, að foreldrar finni tíma til að sinna börnum sínum, og fjölskyldan verði aftur að undirstöðu íslenskt þjóðfélags.

Er eitthvað að því?

 

E.S. Hlustið á þetta viðtal sem var á Rás 2 í morgun:

Morgunútvarp Rásar 2

Hjálmar Gíslason bjartsýnismaður

 

Mynd: Algiz

 


Um ræðu Jóns Baldvins í Silfri Egils: Er samningur við Alþjóða gjaldeyrissjóðin eina leið okkar út úr vandanum?

 

 

Í Silfri Egils átti Egill Helgason samtal við Jón Baldvin Hannibalsson, en Jón heldur því fram að eina skynsama leiðin út úr krísunni sé samningur við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn. Það myndi þýða að skilyrði væru sett á stjórnsýsluna, að bruðl og agaleysi væri stoppað - og einnig hélt hann að það þýddi að íslenska þjóðin yrði ekki gerð ábyrg fyrir ástandinu, heldur þeir einstaklingar sem græddu hvað mest á útþenslunni. Þeir þyrftu að greiða til baka það sem þeir hafa tekið (ó)frjálsri hendi.

Verkefni dagsins hlýtur að vera rannsókn á því hvort að þetta sé satt og mögulegt, og finna upplýsingar um hvort að þetta sé þýðing slíks samnings.

Annað jafn mikilvægt verkefni sem má ekki bíða með er að rannsaka hvað gerðist í raun og veru, og finna út af hverju það gerðist sem gerðist, og finna hina seku í málinu (en ekki sökudólga sem hengdir eru af dómstólum götunnar). Tvær leiðir til slíkrar rannsóknar komu fram í þættinum: annars vegar sú hugmynd að allir sem upplýstu um hvað gerðist í raun og veru fengju fyrirfram sakaruppgjöf, og hin að fá erlenda og hlutlausa aðila í rannsóknina vegna þeirrar gríðarlegu spillingar og hagsmunatengsla sem lama íslensk stjórnmál. Báðar hugmyndirnar er vert að skoða.

Ef ljóst er að samningur við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn er eina leiðin til að bjarga komandi kynslóðum frá óviðráðanlegum skuldum næstu áratugina, eða koma í veg fyrir að sjálfstæði okkar glatist, þá hlýtur að vera eðlileg krafa að allir Íslendingar standi saman í tiltektinni. Þeir sem standa gegn henni mætti ákæra sem landráðsmenn.

Þjóðin á ekki að bera ábyrgð á einkareknum fyrirtækjum. Ef Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn skilur þetta og er sammála þessu, og mun taka tillit til þjóðarinnar og hjálpa til við að stokka upp hérna heima, er augljóst að rétta skrefið er að ganga að þessum samningum, þó að það þýði sjálfsagt að Ísland þurfi að fara í nánari samstarf við aðrar þjóðir.

Hefur Jón Baldvin rétt fyrir sér?

Hann er fyrrverandi utanríkisráðherra og afar fróður um þessi mál enda með mastersgráðu í hagfræði frá Edinborgarháskóla. Hann ræddi hlutina af skynsemi, og virðist hafa séð leið út.

Hann vill skipta út bankastjórn Seðlabankans og færði góð rök fyrir sínu máli, að stjórnin væri rúin trausti bæði á Íslandi og á alþjóðavettvangi. Þó að ástæður þess að Seðlabankinn hafi tapað traustinu séu líkast til runnar úr harðvítugum árásum frá Baugsmönnum, þá er staðan í dag einfaldlega sú að traustið er horfið. Þess vegna væri rétt að skipta um áhöfn, hvort sem að ástandið er þeim að kenna eða ekki.

Er önnur leið fær?


Má ég vinsamlegast mótmæla mótmælunum gegn Davíð Oddssyni?

 

 

500 gegn 1 er einelti og ekkert annað. Sama hver á í hlut, fjöldamótmæli gegn einni manneskju er óréttlætanlegt. Það má minna á að Davíð hefur þrátt fyrir mikla og ósanngjarna gagnrýni varað við því sem gerðist, og það með góðum fyrirvara. Það voru einfaldlega alltof fáir sem hlustuðu á hann.

Hér eru nokkrar hugmyndir um mótmæli sem gætu verið heilbrigðari:

  • Mótmæli gegn slakri stjórnun seðlabanka
  • Mótmæli gegn slakri stjórn Ríkisins
  • Mótmæli gegn framferði Breta
  • Mótmæli gegn slökum viðbrögðum gegn framferði Breta
  • Mótmæli gegn ofureyðslu og of mikillar áhættutöku fjármálafyrirtækja í útrás
  • Mótmæli gegn heimsku
  • Mótmæli gegn því að einkavæddu einkafyrirtækin sem bankarnir voru, sem fara í gjaldþrot séu á ábyrgð hins íslenska almennings og framtíðarkynslóða
  • Mótmæli gegn bölsýni
  • Mótmæli gegn mótmælum 

Aðstandendur þessara "mótmæla" mega skammast sín. Ég mótmæli þeirra mótmælum, en ekki þeim sjálfum sem manneskjunum.

Þar liggur munurinn.

Sérstaklega vil ég taka fram að ég er ekki sjálfstæðismaður, þetta finnst mér einfaldlega andstyggileg aðför að einstaklingi.


mbl.is Mótmæla Davíð Oddssyni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrjú hjól undir bílnum - og áfram skröltir m(G)eir

 


 

Ísland er jeppi með þrjá farþega og einn bílstjóra. Það springur á einu dekki, en bílstjórinn er svolítið þrjóskur rétt eins og í gömlu lagi Ómars Ragnarssonar, og svo springur á því næsta en bílstjórinn heldur samt áfram og þriðja dekkið springur, en áfram höktir hann þó.

Jeppinn lenti úti í á. 

Farþegarnir þrír þurfa að gera upp við sig hvort þeir ætli að drífa sig út úr bílnum og upp á þurrt land eða leggja bílstjórann í einelti fyrir að koma þeim í þetta klandur. Bílstjórinn situr sem fastast og spólar úti í ánni á meðan hann svarar fyrir sig að kominn sé tími til að gera eitthvað í málunum.

Hvað á fólkið að gera?

Á það að sitja sem fastast og mótmæla, eða gera eitthvað í málunum?

Aðgerðaráætlun 1: Mótmæla. Mótmæla. Mótmæla. Vonast til að bílstjórinn skipti um skoðun.

Aðgerðaráætlun 2: Drífa sig út úr jeppanum, koma sér upp á þurrt land og bjarga bílstjóranum sem enn þrjóskast við í jeppanum, eða skilja hann eftir úti í miðju fljóti.

Ég er löngu kominn út úr jeppanum og upp á þurrt land. Satt best að segja er ég að leita eftir hjálp til að koma bílstjóranum í skjól. 

Hvað um þig?

Hvar ert þú?

 

Mynd: Wikipedia.org


Ég vil sýna forseta Íslands og íslensku þjóðinni stuðning. Hvað um þig?

 

713cb622679fcdb

 

Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, heimsótti vinnustað minn í dag ásamt forsetafrúnni og óskaði eftir að starfsmenn í fyrirtæki sem stendur svo vel og er ennþá í sókn þrátt fyrir fjármálakreppu á Íslandi, styðji við bakið á samlöndum sínum með öllum þeim ráðum sem okkur kemur til hugar.

Ég er staðráðinn í að taka þessari áskorun forsetans af fullri alvöru og gera mitt besta til að koma baráttuhug þeim og bjartsýni sem við í Marel búum yfir á þessum erfiðu tímum.

Það er satt að við sem búum á Íslandi þurfum að standa saman. Við þurfum að standa saman gegn ógnum sem að okkur steðja og koma í veg fyrir að okkar eigin veikleikar verði okkur að tjóni. 

Við verðum að þekkja það sem er gott og verðskuldað, og berjast fyrir því að hver einasta sála á þessu landi fái að njóta sín og hljóti verðskulduð tækifæri. 

Miklar breytingar eins og átt hafa sér stað í þjóðfélaginu með hruni bankanna má túlka sem hörmungar, en þær má líka túlka sem tækifæri til að gera góða hluti.

Ég hef ekki sagt mörgum frá því, en fyrir nokkrum árum gjöreyðilagði fellibylur fyrirtæki sem við eiginkona mín höfðum stofnað í Mexíkó. Þegar fellibylnum hafði slotað bankaði nágranni minn upp á og rétti mér sveðju. Það var ekkert sjálfsagðara en að verja öllum þeim degi langt fram á kvöld í að höggva trén sem lágu yfir göturnar. Slík samstaða er eitthvað sem við þurfum í dag.

Ég hvet alla sem geta að segja frá hvernig þeim hefur tekist að sigrast á erfiðleikum, sögur sem segja okkur af hverju við erum öll mikilvæg, af hverju þú ert heima þegar þú ert á Íslandi, af hverju þú berst áfram þó að á móti blási.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband