Hvað eiga Davíð Oddsson og Guð sameiginlegt?

 

 

Ég skil að fólk sé pirrað út í Davíð og Guð. Þeir eru hins vegar ekki sökudólgarnir. Það er verið að kenna þeim um það sem arftakar þeirra gerðu. Og það er einfaldlega ekki sami hluturinn.

Síðustu daga hef ég verið að skrifa greinar um sameiningarafl og stakk upp á að trúarbrögð væru slíkt afl, sem er ekki bara innbyggt í samfélög manna og þeim eðlilegt, heldur til góðs fyrir þjóðir á meðan valdið sem trúarbrögðunum sem fylgir, er ekki misnotað. Sem reyndar gerist ansi oft.

Nokkrir trúlausir bloggarar, sumir nafnlausir og aðrir með nafni, mótmæltu hástöfum og voru margir hverjir duglegir við að kalla skrif mín bull og vitleysu, einfaldlega vegna þess hugsanlega að ég hafði ekki lesið sömu kreddur og þeir, var að velta hlutunum fyrir mér á skapandi hátt, og gaf trúarbrögðum séns, eða með öðrum orðum: var á ólíkri skoðun.

Nú hefur verið tilkynnt að Davíð Oddsson verði ritstjóri Moggans, málgagni sjálfstæðismanna, og fjöldi bloggvina minna hefur í kjölfarið sent inn skilaboð um að þeir séu nú hættir á Moggablogginu og fluttir eitthvað annað. Einnig hafa margar færslur einmitt fjallað um það að viðkomandi sé að skrifa sína síðustu færslu.

Hvað er málið?

Mogginn hefur alla tíð verið málgagn sjálfstæðismanna. Rétt eins og kristni hafa verið viðfang íslensku þjóðkirkjunnar. Ég hef verið meðvitaður um þetta, og samt skrifað á Moggabloggið, þó að ég sé ekki sjálfstæðismaður. Ég samþykki samt tilvist þeirra og hef ekkert á móti því að fólk hafi ólíkar pólitískar skoðanir. Nú kemur inn maður sem allir vita hver er, og óttast að hann muni nú gera málgagnið að pólitískum pésa sem muni glata trúverðugleika sínum.

Með fullri virðingu fyrir Mogganum, þá hefur hann ekki verið trúverðugur um langa tíð, á meðan hann þykist vera pólitískt hlutlaus, starfar þannig en er það ekki.

Davíð Oddsson hefur verið gagnrýndur gífurlega fyrir að hafa verið Seðlabankastjóri og upphafsmaður nýfrjálshyggju á Íslandi, sem leiddi allt í kaldakol haustið 2008, og þjóðin er farin að finna verulega fyrir. Fólk keppist um að segja hann sekan um eitthvað misjafnt, hefur jafnvel skrifað nafn hans á kröfuspjöld og mótmælt opinberlega fyrir framan Seðlabankann. Ég mótmælti þessum mótmælum á sínum tíma í greininni Má ég vinsamlegast mótmæla mótmælunum gegn Davíð Oddssyni?, og geri það enn.

Ég hef nefnilega ekki séð neina vísbendingu um að Davíð Oddsson sé sekur um eitt eða neitt. Hann hefur verið umdeildur, en deilurnar að miklu sprottnar upp vegna harðrar gagnrýni hans á starfsemi Baugs, og uppfrá því hafa Baugsmiðlar gert sitt besta til að ófrægja manninn, og tekist það ansi vel. Ég er eiginlega hissa á jafnaðargeði Davíðs, að hann skuli einfaldlega ekki brjálast, en þess í stað standa styrkur í báða fætur og í dag vonandi byrja að svara fyrir sig. Mogginn er kannski steinvarpan sem Davíð vantar til að sigrast á Golíati Baugs?

Davíð hefur gert margt gott, meðal þess er þessi umdeilda nýfrjálshyggja, en hún var einfaldlega skref í rétta átt á þeim tíma sem hún kom inn. Ég efast hins vegar um gildi einkavæðingar ýmissa stofnana og fyrirtækja í hendur misgáfaðra einstaklinga sem hugsuðu fyrst og fremst um eigin hag, frekar en þjóðarhag, en mig grunar að Davíð hafi gert þau mistök að trúa um of á hið góða í þessu fólki - að það myndi aldrei svíkja þjóð sína fyrir pening. Við vitum hvernig fór.

Um þessar mundir er afar vinsælt á Íslandi að vera á móti Davíð Oddssyni, og einnig á móti Guði. Þetta eiga þeir Davíð og Guð sameiginlegt. Þeir eiga líka það sameiginlegt að ímyndin sem fólk hefur almennt um Davíð og Guð er hugsanlega röng. Margir hverjir telja Davíð vera gjörspilltan, og aðrir að Guð sé einfaldlega ekki til. Hvort tveggja getur auðveldlega verið rangt, þar sem að ósköp auðvelt er að trúa á hvort tveggja, það er að segja að vald spillir fólki og að Davíð hafi haft mikil völd og þar af leiðandi spillst, og hins vegar að Guð sé ekki til. 

Hins vegar getur vel verið að sannleikurinn sé annar, að Davíð sé einmitt undantekningin frá reglunni um að vald spilli, og að Guð sé í raun og veru til. Kannski ekki á nákvæmlega sama hátt og við höldum, en séu samt sjálfstæður veruleiki óháðir þekkingu okkar um viðkomandi, þar sem að við getum í raun hvorki dæmt innri mann einhvers frekar en við getum dæmt Guð, þar sem hvort tveggja eru óþekktar víddir.

Ég er þakklátur Davíð fyrir að hafa vakið athygli á að hlutirnir voru langt frá því að vera í lagi, í mars árið 2008. Þar sagði hann farir sínar ekki sléttar. Fólkið sem var við völd hlustaði ekki á hann, og því reyndi hann að koma skilaboðum til þjóðarinnar. Hann hafði einfaldlega ekki nógu mikil völd sem Seðlabankastjóri til að gera eitthvað í málunum. Réttu valdhafarnir voru viðskipta-, fjármála- og forsætisráðherra, sem einfaldlega hlustuðu ekki á það sem Davíð hafði að segja. Davíð talaði til almennings, og í það minnsta ég hlustaði, og skrifaði út frá því greinina Var stærsta bankarán aldarinnar framið á Íslandi rétt fyrir páska?

Davíð og Guð eiga það sameiginlegt að vera ekki vinsælir á Íslandi í dag, og að þeim hefur verið gert upp sakir sem eru ekki þeirra, heldur arftaka þeirra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Leiðrétting: DO er til, guð ekki... guð er svona sýndar DO sem er ekki hægt að gagnrýna, má ekki gagnrýna því hann er með alla í sýndargíslingu, lifandi og dauða.

DoctorE (IP-tala skráð) 25.9.2009 kl. 10:07

2 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Guð er svo sannarlega til.

Hjörtur J. Guðmundsson, 25.9.2009 kl. 10:34

3 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Nokkrir trúlausir bloggarar, sumir nafnlausir og aðrir með nafni, mótmæltu hástöfum og voru margir hverjir duglegir við að kalla skrif mín bull og vitleysu, einfaldlega vegna þess hugsanlega að ég hafði ekki lesið sömu kreddur og þeir, var að velta hlutunum fyrir mér á skapandi hátt, og gaf trúarbrögðum séns, eða með öðrum orðum: var á ólíkri skoðun.

Mikið óskaplega finnst mér þetta óheiðarlegt í ljósi umræðunnar.

Matthías Ásgeirsson, 25.9.2009 kl. 10:38

4 identicon

Sannaðu það...

DoctorE (IP-tala skráð) 25.9.2009 kl. 10:39

5 Smámynd: Ómar Ingi

Guð er ekki til osfv það má rífast um það , en ekki verður rifist um þann sannleika að Davíð Oddsson er nú ritstjóri MBL.

Amen

Ómar Ingi, 25.9.2009 kl. 11:45

6 Smámynd: Hrannar Baldursson

Matthías: Þannig horfir þetta við mér. Óheiðarlegt er það ekki.

DoctorE: Spurning hvort að ég sanni einfaldlega tilvist Guðs í næstu bloggfærslum, fyrst þú efast svona ógurlega. Redda þessu bara.

Ómar: Davíð Oddsson er nú ritstjóri mbl, en hver er Davíð Oddsson? Er hann þessi maður sem fólk hefur verið að ásaka um vanrækslu, einkavinavæðingu, pólitískt hagsmunaplott og valdagræðgi, eða er hann réttsýnn maður undir röngum sakargiftum?

Hrannar Baldursson, 25.9.2009 kl. 12:36

7 Smámynd: Styrmir Reynisson

Það er mjög líklegt að Davíð og fleiri séu annað hvort óhugnanlega vanhægir í þau störf sem þeir gegndu, eða eru sekir um einhver ef ekki öll atriðin sem þú telur upp í svari þínu hér að ofan.

Styrmir Reynisson, 25.9.2009 kl. 13:15

8 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Það er afar athyglisvert að þú skulir leitast við að líkja saman Davíð Oddsyni og Guði og fylgja þannig eftir frægri samlíkingu hans sjálfs þar sem hann líkti sjálfum sér við Krist á krossinum. - Sé þeirri samlíkingu fylgt út í hörgul má segja að Davíð sé nú upprisinn til að deila og drottna á ný.

En það sem þér yfirsést er að Davíð er mannlegur og stjórnast af mannlegum kenndum, tifinningum og hugsunum. Enginn þekkir raunveru Guðs en um raunveru mannsins er ýmislegt vitað.

Í mörg á tók Davíð að sér ráðsmennsku meðal íslensku þjóðarinnar. Hann fylgdi óumdeilanlega stefnu sem leiddi þjóðina fyrir björg. Á bjargbrúninni stökk hann til hliðar og á meðan hann horfði á eftir fólkinu hrapa niður í hyldýpið hrópaði hann hátt og skýrt; Þetta er ekki mér að kenna, ég er ekki ábyrgur fyrir því að þið fylgið mér. -

Þér finnst dómstóll götunnar dæma Davíð hart fyrir hans hlut í ógæfu þjóðarinnar, án þess að færa fyrir því efnisleg rök að hann hafi ekki átt þann dóm skilið. - Það eina sem þú ert að segja er að kannski var Davíð saklaus af því að það er mögulegt að fólk hafi rangt fyrir sér. -

Að hafa rangt fyrir sér mannlegur eiginleiki, ekki Guðlegur. Sem hluti af mannkyninu er Davíð því fær um að hafa rangt fyrir sér líka. Yfirgnæfandi líkur eru á því sem fyrr segir að Davíð og stefnan sem hann fylgdi hafi leitt þjóðina efnahagslega og siðferðislega í þrot. -

Þeir sem trúa því að Guð sé ekki til, geta alveg haft rangt fyrir sér.

Þeir sem trúa því að Davíð sé saklaus hafa örugglega rangt fyrir sér.

Svanur Gísli Þorkelsson, 25.9.2009 kl. 13:25

9 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Eftir að Davíð fór að vara við þá jók Seðlabankinn útlán til viðskiptabankana úr ca 150 milljarða í ca 600 milljarða.  Þeir töpuðust flest allir og ríkið varð að setja 200 milljarða í Seðlabankann.  Vextir eru ca 10% í dag og það gera 20 milljarða í vaxtakostnað á ári.

Það er ekki hægt að segja að menn skili af sér góðu verki þegar gjaldmiðillinn er hruninn, stýrivextir eru 18%, verðbólgan er tæp 19%, sett eru á gjaldeyrishöft og hirslur Seðlabankans tómar.

Kannski er árangur eins og annað í lífinu afstæður.

Lúðvík Júlíusson, 25.9.2009 kl. 13:27

10 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Þannig horfir þetta við mér. Óheiðarlegt er það ekki.

 Hrannar, að sjálfsögðu er óheiðarlegt að ljúfa upp á fólk og það er það sem þú gerir þegar þú segir að einhverjir séu "duglegir við að kalla skrif mín bull og vitleysu, einfaldlega vegna þess hugsanlega að ég hafði ekki lesið sömu kreddur og þeir, var að velta hlutunum fyrir mér á skapandi hátt, og gaf trúarbrögðum séns, eða með öðrum orðum: var á ólíkri skoðun".

Þú ert duglegur við að saka andmælendur þína um hroka og yfirlæti en tekur sjálfur engum rökum og tekur svo til þess ráðs að segja ósatt um þá sem þér mótmæla.

Þér hefur verið mótmælt með rökum.  Það snýst ekkert um "skapandi" vangaveltur þínar (sem voru í formi fullyrðinga) eða það að þú ert á öndverðri skoðun við þá sem þér eru ekki sammála.  Þetta snýst þvert á móti um að hugmyndir þínar eru lélegar og rökstuðningurinn verri.

Matthías Ásgeirsson, 25.9.2009 kl. 13:32

11 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Þarna átti að sjálfsögðu að standa: "að ljúga upp á fólk"

Matthías Ásgeirsson, 25.9.2009 kl. 13:33

12 Smámynd: Offari

Góð færsla hjá þér. Kreppan stafar af græðgi sem er mannlegt eðli. Kreppan hefði komið hvort sem Davíð og Guð hefði fæðst eður ei. Ég hef líkt þessum árásum útrásarvíkingana á stjórnmálamenn við viðbrögðum nauðgara við fórnarlömb sín. Þar sem þeir segja fórnalambið hafi beðið um að vera nauðgað.

Stjórnvöld gerðu margar skissur en það var ekki þar með sagt að þau hafi viljað að hagkerfinu yrði nauðgað. Það er ekkert sem réttlætir nauðgun.

Offari, 25.9.2009 kl. 14:09

13 Smámynd: Ómar Ingi

Óvinir Davíðs útrásarvíkingur einn þá sérstaklega sem keypti 365 og notaði það gegn honum í einkastríði gegn honum  nú hafa fjölmiðlafólk í hópum loksins viðurkennt að hafa látið eigendur ritstýra og stjórna fjölmiðlum 365 eftir þeirra eigin geðþótta og í stríði við Davíð þar á meðal.

Það má margt segja um Davíð en ég er þó einn þeirra sem finnst hann vera réttsýnn og hugsanlega með heiðarlegustu stjórnmálamönnum þessa lýðveldis frá upphafi.

Tíminn mun líklega dæma hann rétt , þegar við verðum komin annað.

Ómar Ingi, 25.9.2009 kl. 14:23

14 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Offari; Regluverki frjálshyggjunnar má vel líkja við þær reglur sem gilda á hóruhúsum. Hórunum er ekki nauðgað, þær stunda "viðskipti. - Stefna stjórnavalda var að skeyta engu um siðferðið í þessum viðskiptum, halda því jafnvel fram að þeim réðu lögmál sem væru ofar mannlegum áhrifum.

Blekkingin sem þeir beittu var að finna það sem þeir kölluðu "fé án hirðis" , færa það til bókar, slá út á það lán og fjármagna lánin með erlendum innlánum sem buðu himinháa vexti. - Þetta var ekki "skissa" heldur útpæld svikamilla sem hórumangararnir og hórurnar höfðu komið sér saman um.

Svanur Gísli Þorkelsson, 25.9.2009 kl. 14:25

15 Smámynd: Offari

Sæll Svanur regluverk frjálshyggjunar gerði ráð fyrir því að viðskiptalífið sjálft myndi móta sér reglur sem kæmi viðskiptum til góða. Græðgin kom hinsvegar í veg fyrir að viðskiptalífið væri fært um að stjórna sér sjálft. Allir vildu fá stórustu sneiðina af kökuni og skeyttu því engu þótt sumir fengu ekkert.

Ég er einhvernveginn á þeirr skoðun að blekkingar hafi ekki byrjað að verulegu ráði fyrr en menn fóru að sjá hvert stefndi. Blekkingar hafi því verið nauðvörn sem kostuð alltof mikið. Ég held að stjórnvöld hafi ekki vísvitandi samþykkt þessa blekkingarleið heldur hafi lamast því búið vara að draga svo marga inn í þessa þvælu.

Offari, 25.9.2009 kl. 16:41

16 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég játa það fúslega Hrannar að ég veit ekki hvort guð er til og það veist þú ekki heldur.

Varðandi Davíð: Sameiningarafl eins hóps er sundrungarafl gagnvart öðrum.  Samnefnari fyrir trúarbrögð. Ekki satt?

Hérr er Sam Harris til að létta þér lundina.

Jón Steinar Ragnarsson, 25.9.2009 kl. 17:55

17 Smámynd: Hrannar Baldursson

Jón Steinar: Maður verður að hafa ákveðinn húmor fyrir histeríunni.

Hrannar Baldursson, 25.9.2009 kl. 18:06

18 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þú meinar trúarlegri móðursýki væntanlega?

Já það er hægt að hafa gaman að henni upp að vissu marki. 

En svona til hughreystingar frá mér:

Þótt kaldur vetur  kræli á sér

og knörr í naustum frjósi.

Barnsins hjárta búi í þér

og baði líf þitt ljósi.

Því vonin sigrar vetrarbál 

og vermir hverju hjarta.

Senn mun ríkja söngsins mál

og sól um veröld bjarta.

Jón Steinar Ragnarsson, 25.9.2009 kl. 18:53

19 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Jæja, Hrannar. DO og Guð?

Pólítísk ábyrgð DO er auðvitað til staðar. Eini raunverulegi leiðtogi íslenskra stjórnmála í öllum aðdraganda bankahrunsins. Hann framfylgdi efnahagslegri og pólítískri stefnu sem kom frá útlöndum og hefur beðið skipbrot þar jafnt sem hér. Alan Greenspan, einn helsti höfundur þessarar stefnu, hefur beðist opinberlega afsökunar á mistökunum. Kannski er kergjan í garð DO ekki síst sú að hann hefur aldrei getað viðurkennt eigin mistök.

Er DO slæmt val sem Moggaritstjóri? Nei, ég held að það sé kominn tími til að Íslendingar hætti að lifa í blekkingu um hlutlausa fjölmiðla. Mogginn hefur lengst af haldið þessu á lofti, oftast ósköp hjáróma. Núna getur hann hætt því í eitt skipti fyrir öll. Með DO við stjórnvölinn vitum við hvar við höfum Moggann, feluleikurinn er búinn. Og hver veit, ef honum tekst að halda sér edrú verður hann kannski frábær ritstjóri sem tekst að hrista ærlega upp í forstokkuðu samfélagi.

Er Guð orðinn óvinsæll í líkingu við DO? Ég fagna því, hann á ekki annað skilið. Frábær árangur vantrúarmanna og annarra baráttumanna frelsis, réttlætis, mannúðar og mennsku, boðbera skynsemi og sanngirni, talsmanna góðs siðferðis og heiðarleika.

Nauðvörn guðsafsakanda einkennist í vaxandi mæli af hjáróma pípi. Tilraun þín, Hrannar, til að verja samfélagsgildi trúarbragða gegn eigin sannfæringu hefur beðið skipbrot og tími til kominn að viðurkenna mistökin.

Brynjólfur Þorvarðsson, 25.9.2009 kl. 22:02

20 Smámynd: Óskar Arnórsson

Ef maður gæfi sér það að Davíð væri almáttugur og "Davíðs-trú" með tilheyrandi kirkjum yrðu reistar um allt honum til dýrðar. Myndi nokkuð þýða að biðja til hans þó það sé kanski mögulegt að sanna vísindalega, tilveru hans?  Þ.e. Davíðs..

Frábær fyrirsögn og góður pistill...

Óskar Arnórsson, 25.9.2009 kl. 22:11

21 Smámynd: Marteinn Unnar Heiðarsson

Davíð gerði ein mistök það var þegar Viðeyjarstjórnin var gerð og hann gaf Jóni Baldvini eftir EES samningin og eftir það byrjuðu vandræðin og áttu bara eftir að aukast.Held að Davíð hafi ekki áttað sig á þessari blekkingu kommúnistana nógu fljótt því miður.Í dag er í gangi helför gegn Íslensku þjóðfélagi og allt í boði kommúnista (samfylking/vg)og ekki séð fyrir enda á því enn.Ég ætla ekki að verja Davíð hér en þó er altílagi að menn tali af viti og þá á ég við hvað er hægt að kenna Davíð um?? Það var ekki hann sem gaf þennan möguleika á þessari bankaútrás sem var eftir reglugerð ESB sem við urðum að samþykkja í gegnum EES í boði Jóns Baldvins (Samfylking/VG)Það var hægt að gera tvíhliðasamning einsog var gerður í Sviss og þar er fólk bara ánægt með þann samning.Er ekki kominn tími til að fólk fari að horfa á raunveruleikann í þessu máli bæði varðandi ICESLAVE og ESB hvað þá ASG sem virðist orðið stjórna öllu hér, þar sem við eigum duglausa stjórnmálamenn í dag sem eingöngu hugsa um feit störf í ESB og skilaboðin frá ríkisstjórn okkar í dag eru þið getið átt það sem úti frís..

Marteinn Unnar Heiðarsson, 25.9.2009 kl. 22:31

22 identicon

 

Til gamans. 

Hugmyndaheimur sérhvers manns er hans trú. Háskólatrú, akademisk, er aðal trú allra, 99,5%. það er eitthvað sem kennt er í æðstu skólunum á hverjum tíma sem sannleikur. Þá er trúleisi ekki til. jg

http://www.ismennt.is/not/jonasg/jg/jg06/Kreppan%202008-.htm 

Mig langar að vita hvað guð er að hugsa, annað eru smáatriði sagði, skrifaði Einstein"I want to know God's thoughts; the rest are details."-         Albert Einstein-          Efni og orka er það sama,-          Eða

-          Birtingar myndin er sem efni eða orka

Allt efni er byggt upp af orku. Það er ekkert til, svo að við vitum, sem er ekki byggt upp af orku.Með öðrum orðum, það er ekkert til nema fyrir eða vegna orkunnar.Og áður var okkur kennt,Það er ekkert til nema fyrir Guð, hann er skapari alls. Er það sem okkur var kennt að héti guð og væri á bak við allt,

krafturinn sem allt byggist á.

www.geimur.com

Jónas Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 25.9.2009 kl. 22:59

23 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Hrannar, þakka þér fyrir góða færslu, ég get tekið undir flest ef ekki allt sem þú segir.

Gangi þér allt í haginn.

Tómas Ibsen Halldórsson, 25.9.2009 kl. 23:10

24 identicon

Æskilegt að leiðrétta. jg

trúleysi

Jónas Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 25.9.2009 kl. 23:12

25 identicon

Gaman að lesa röksemdafærslurnar þínar Hrannar. Þær eru einstaklega sjálfhverfar og ótrúverðugar. "Ég hef nefnilega ekki séð neina vísbendingu um að Davíð Oddsson sé sekur um eitt eða neitt." Þessi setning segir eiginlega allt sem segja þarf. Lifðu sæll í eigin fávisku.

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 26.9.2009 kl. 01:28

26 Smámynd: Hrannar Baldursson

Hilmar: Takk fyrir hólið og það umburðarlyndi sem þú sýnir skoðunum ólíkum þínum. Vinsamlegast útskýrðu fyrir mér, hafirðu tíma, hvað vísbendingar eru til staðar um að Davíð Oddsson sé sekur um eitthvað afbrot sem skaðað hefur íslenska þjóð? Ég er vel meðvitaður um dómstól götunnar gagnvart Davíð, en réttlætiskennd mín krefst meiri sannanna en að viðkomandi hafi verið við pólitísk völd, að kerfið sem hann byggði í samvinnu með þjóðinni hafi brugðist, og að hann stoppaði ekki innspýtingu í fjármálakerfið að fyrirmyndi Obama í USA.

Tómas: Takk, gangi þér vel sömuleiðis.

Jónas: Ég hef einmitt mikið pælt í því hvort að ákveðin 'heilbrigð skynsemistrú' eða 'gervivísindatrú' hafi tekið við af helstu trúarbrögðum sem sameiningarafl, án þess að ég hafi sérstaklega getið þess í öðrum færslum, þar sem að fjöldi vísindakenninga geta vel verið mýtur á við það sem trúarbrögð sannfærðu fólk um fyrr á tímum. Til að vísindi verði ekki að einhverjum trúarbrögðum þarf fólk að skilja hvað vísindi eru og hvar þau hefjast, hvað kemur á undan þeim og hvert þau leiða. Að trúa á vísindi frekar en Guð hefur örugglega ýmsa kosti og galla, en svo geta risið trúarbrögð sem skilgreina einfaldlega hið loðna hugtak Guð sem kraftinn að baki vísindum, og þá lendum við enn og aftur á byrjunarreit. 

Marteinn: Ég er algjörlega ósammála því að rangt hafi verið fyrir okkur að ganga í EES, nokkuð sem opnaði þjóðinni möguleika á alþjóðavísu, og einnig er ég ósammála Davíð um að rangt væri hjá okkur að ganga í ESB. Ég held að innganga í ESB sé eina von okkar til að uppræta spillingu og skipulega kerfisglæpi á Íslandi, og stoppa stöðuga misnotkun sem koma heiðarlegu fólki illa. Íslensk stjórnmál virðast afar rotin og stjórnsýslan byggir á þeirri hugmynd að fólk sé almenn heiðarlegt, en veruleikinn virðist allt annar, spillingin festi rætur í hæstu lögum samfélagsins og hefur náð niður í smæstu einingar. Við erum ekki sjálfstæð þjóð, af því að við erum ekki heiðarleg gagnvart okkur sjálfum.

Óskar: Davíðstrú ríkti á Íslandi í fjölmörg ár, en síðan reyndist Davíð mannlegur og fólk virðist hafa verið afar vonsvikið yfir því, enda kaus það fullkominn Guð, ekki manneskju sem stundum hefur rangt fyrir sér í mikilvægum málefnum. Það er í tísku á Íslandi að vera á móti Guð og Davíð, eins og það var í tísku í Bandaríkjunum að vera á móti Michael Jackson.

Brynjólfur: Ég geri mér fulla grein fyrir að ég get haft rangt fyrir mér og að stundum hef ég rangt fyrir mér, en að trúarbrögðin séu innbygð í manneskuna og að við þurfum á þeim að halda sem sameiningarkrafti samfélags, hefur ekki breyst. Þegar ég tala um trúarbrögð er ég ekki að tala einungis um öll þau trúarbrögð sem mannkynið hefur upplifað, heldur einnig um öll þau trúarbrögð sem mannkynið mun upplifa. Líka þau trúarbrögð sem Íslendingar upplifa í dag, en við erum svo sundruð þjóð og ósameinuð, að ég furða mig á af hverju sífellt er verið að hneykslast á Guði og Davíð, útrásarvíkingum, spillingaröflum og pólitíkusum þegar fólk þarf hugsanlega fyrst og fremst að rækta eigin garð. Ég er að rækta eigin garð með því að skrifa skoðanir mínar, óháð því hvort ég viti að þær séu vinsælar eða ekki. Það er margt absúrd í þessum heimi.

Jón Steinar: Snilldarljóð frá þér. Takk. Samdirðu það sjálfur?

Þótt kaldur vetur  kræli á sér

og knörr í naustum frjósi.

Barnsins hjárta búi í þér

og baði líf þitt ljósi.

Því vonin sigrar vetrarbál 

og vermir hverju hjarta.

Senn mun ríkja söngsins mál

og sól um veröld bjarta.

Offari: Vel orðað. Mér sýnist líking þín um að kerfinu hafi verið nauðgað hitti beint í mark.

Ómar: Við erum þá sammála um eitthvað.

Matthías: Það væri gagnlegra ef þú vísaðir til málefnis af nákvæmni. Óljósar alhæfingar gagnast lítið þegar kemur að gagnrýni, þó að auðveldara sé að skrifa þær umhugsunarlaust. Ef þú ert svona hrikalega ósáttur við mínar skoðanir, af hverju ertu einn af dyggustu lesendum mínum?

Lúðvík: Það er auðvelt að réttlæta aðgerðir Seðlabankans, og skilja að þeir hafi ekki áttað sig á að allur peningur sem fór út í kerfið færi beint í vasa einhvers sem einfaldlega opnaði nýja bankabók á óskilgreindri eyju úti í heimi, frekar en að nota þá í það sem þeim var ætlað. Obama gerði það sama í USA, og sumir hverjir sem misnotuðu þetta eru þegar komnir í fangelsi þar. Hins vegar virðist réttarkerfi okkar algjörlega farlama þegar kemur að spillingu og fjármálaglæpum. Eva Joly er okkar helsta von, ekki vegna þess að hún er ráðgjafi okkar, heldur vegna þess að hún er dugleg við að vekja athygli á getuleysi Íslendinga í að taka til heima hjá sér og fær fólk með reynslu víða um heim til að koma að málinu. Það er óþarfi fyrir okkur að móðgast yfir skoðunum hennar, en það verður áhugavert að sjá hvort að þeir sem mest hafa skaðað bæði íslenskt og alþjóðlegt samfélag verði refsað af íslenskum lögum, og ef þeir sleppa á Íslandi, eins og við má búast, hvort að alþjóðleg lög nái yfir þá og þeir geti  óttast að dúsa í fangaklefa einhverja áratugi.

Styrmir: Það er fátt auðveldara en að vera vitur eftirá.

Svanur: Þú tókst eftir hvaðan hugmyndin kom. En ef þú ert svona sannfærður um sekt Davíðs, hvar eru sönnunargögnin? Trú og sannfæring er ekki nóg þegar kemur að slíkum málum.

DoctorE: Kannski við séum í sýndarveruleika og þú ert forritarinn?

Hjörtur: Ef Guð er til, þá er hann, hún eða það til á forsendum sem okkur er ómögulegt að þekkja, þó að tilraun heimspekinga til að sanna eða afsanna tilvist Guðs gegnum árþúsundin séu sannarlega áhugavert viðfangsefni, nokkuð sem mig langar að fjalla um þegar mér gefst rýmri tími til þess.

Hrannar Baldursson, 26.9.2009 kl. 08:52

27 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Já Hrannar: Þetta er hluti af lengra ljóði, jah...eigum við að segja Sálmi. Ég samdi texta, erfiljóð og sálma í den, svona aðalega til að vinna mér in fyrir brennivíni.  Það mætti kalla það að hræsna sér til framdráttar.  Ansi almenn íþrótt.

Jón Steinar Ragnarsson, 26.9.2009 kl. 09:41

28 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Þakka þér fyrir annan ágætan pistil - og Jóni Steinari fyrir yndislegt ljóð.

Svavar Alfreð Jónsson, 26.9.2009 kl. 10:02

29 identicon

VARAST BER AÐ SPYRÐA NAFN  GUÐS  VIÐ NAFN ÞESS HRYLLINGS SEM HEITIR DAVÍÐ ODDSSON,OG ER NÚVERANDI RITSTJÓRI MORGUNBLAÐSINS.EN ÞAR ER UM AÐ RÆÐA MANN SEM ÞJÓÐIN Á AÐ HANDTAKA OG FÆRA Í HLEKKJUM TIL STRÍÐSGLÆPADÓMSTÓLSINS (ÍRAK) DAVÍÐ ÞESSI ODDSSON HEFIR ÁTT STÆRSTAN ÞÁTT Í ÞVÍ AÐ HAFA KOMIÐ ÞJÓÐ SINNI Í HLEKKI ÞÁ ER DAVÍÐ ÞESSI EKKERT ÓLÍKUR ÖÐRUM EN GUÐI SEM MÆTTI LÍKJA HONUM VIÐ EN SÁ MAÐUR ER  HITLER  ,,,BÁÐIR LANGRÆKNIR OG SIÐBLINDIR,,OG FLEIRA OG FLEIRA.(skilaboð frá Davíð til Núma::Þú Númi verður þefaður uppi..)Eitt eigum við Davíð þó sameiginlegt,,það er að fara ekki inní  ESB,,,,,,,,amen

Númi (IP-tala skráð) 26.9.2009 kl. 10:41

30 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Frábær pistill Hrannar og góð greining á Davíðs heilkenninu sem hrjáir hálfa íslensku þjóðina þessa daga.

Ég held að Bæði Davíð og Guð séu góðir að upplagi og þeir eru báðir raunverulegir þó ég trúi persónulega ekki á þá, þá veit ég að margir gera það og ég reyni að virða það.

Davíð og Guð urðu hinsvegar báðir vandamál þegar menn fóru að trú á þá og hata í blindni.

Guðmundur Jónsson, 26.9.2009 kl. 12:58

31 identicon

Sorry Númi en samkvæmt biblíu þá er DO algert lamb.. öll illmenni mannkynssögunnar eru ekki hálfdrættingar í illsku miðað við hann Gudda.

Ef eitthvað formúlaði lífið á jörðinni.. þá getur slík vera ekki verið guð.. aðeins lífsform sem er meira advanced en við... lífsform sem gekk í gegnum samskonar þróun og við.. á öðrum stað.. við aðrar aðstæður.
Guð er orðskrípi; guð er sýndarsnuð... það táknar ekkert nema fáfræði og langanir.
Ef ég myndi búa til líf(Sem ég hef gert).. væri ég þá guð... alls ekki, ef ég lofaði börnum mínum eilífu lífi fyrir að dýrka mig.. eða pyntingum fyrir að dýrka mig ekki... er ég þá guð.. nop, ég væri ekkert nema geðsjúkur fáviti, klár en samt geðsjúkur fáviti með yfirnáttúrulega og heimskulega þörf á að láta dýrka mig.

Guð er söluvara.. sem ekkert raunverulegt er ábakvið.. zero, null, 0

DoctorE (IP-tala skráð) 26.9.2009 kl. 12:59

32 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Matthías: Það væri gagnlegra ef þú vísaðir til málefnis af nákvæmni. Óljósar alhæfingar gagnast lítið þegar kemur að gagnrýni, þó að auðveldara sé að skrifa þær umhugsunarlaust. Ef þú ert svona hrikalega ósáttur við mínar skoðanir, af hverju ertu einn af dyggustu lesendum mínum?

Ég hef svarað þér málefnalega í athugasemdum við fyrri pistla.  Hér segir þú aftur á móti að ég sé bara fúll vegna þess að þú ert á annarri skoðun en ég.   Þú svaraðir aldrei málefnalegri gagnrýni minni.

Ég er ekki einn af þínum dyggustu lesendum Hrannar.  Mér þykir þú satt að segja froðubloggari.  Ég fylgist með bloggfærslum á blogggáttinni og þar birtast þínar færslur.  Flestar leiði ég hjá mér.

Matthías Ásgeirsson, 26.9.2009 kl. 13:06

33 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Hrannar, þú segir:

"Það er auðvelt að réttlæta aðgerðir Seðlabankans, og skilja að þeir hafi ekki áttað sig á að allur peningur sem fór út í kerfið færi beint í vasa einhvers sem einfaldlega opnaði nýja bankabók á óskilgreindri eyju úti í heimi, frekar en að nota þá í það sem þeim var ætlað"

Hvað er að marka viðvaranir manns sem fer ekki eftir þeim sjálfur og heldur áfram að leggja undir sífellt hærri upphæðir þangað til spilaborgin hrynur?

Ef hægt er að réttlæta þetta með fáfræði þá er hægt að réttlæta allt.

Samkvæmt röksemdarfærslu þinni voru útrásarvíkingarnir líka einfaldlega fáfróðir um afleiðingar þess sem þeir gerðu og því saklausir eins og DO.

Lúðvík Júlíusson, 26.9.2009 kl. 13:27

34 identicon

Guð blessi bloggið þitt

kv d

Dóra litla (IP-tala skráð) 26.9.2009 kl. 13:55

35 identicon

Vinsamlega ekki nefna raðmorðingjan Guð í sömu setningu og hinn heilagi Davíð Oddson.

Davíð Oddson Blessi Ykkur Öll.

CrazyGuy (IP-tala skráð) 26.9.2009 kl. 16:04

36 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Crazy Guy: Sammála. Óþarfi að draga nafn Davíðs niður í svaðið með að spyrða hann við guð.

Jón Steinar Ragnarsson, 26.9.2009 kl. 16:46

37 identicon

Því svo elskaði DO flokkinn að hann gaf sjálfan sig í ritstjórastólinn, svo hver sem honum ekki trúir verði sagðar lygasögur þar til hann trúir þeim...

eða eitthvað í þessa átt

DoctorE (IP-tala skráð) 26.9.2009 kl. 20:09

38 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Stórskemmtileg skrif hjá þér Hrannar. Mjög skemmtileg röksemdarfærsla að Guði og DO séu gerar upp sakir sem séu arftakanna. Ég veit ekki hversu langt á að ganga í að líkja þessum tveimur herramönnum saman en skemmtilegar pælingar.

Guðmundur St Ragnarsson, 26.9.2009 kl. 20:36

39 Smámynd: Dúa

Góður pistill

Dúa, 26.9.2009 kl. 22:14

40 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

"Það var ekki hann sem gaf þennan möguleika á þessari bankaútrás sem var eftir reglugerð ESB sem við urðum að samþykkja í gegnum EES í boði Jóns Baldvins (Samfylking/VG)"

Það er rétt hjá þér svo langt sem það nær að regluverk EES samningsins opnaði íslenskt viðskiptalíf svo það nálgaðist nútímann. En það er ekki hægt að kenna EES um það bankahrun sem varð hér á Íslandi.

Það er einnig erfitt að kenna DO um bankahrunið sjálft, þótt sumir myndu benda á vangetu hans sem seðlabankastjóra árið fram að hruni, og furðulegar ákvarðanir undir lokin, sem samverkandi þætti. Þar ber DO ábyrgð sem hann hefur ekki viðurkennt opinberlega.

En það má vel skella heilmiklu af afleiðingum bankahrunsins á herðar DO, þ.e. bæði alvarleikann (að allir helstu bankarnir skyldu hrynja) sem og afleiðingarnar (að Ísland er skuldsettasta þjóð norðan miðbaugs).

DO var valdamesti stjórnmálamaður Íslands í mjög langan tíma, hátt í tvo áratugi. Allan þann tíma vann hann náið með hugmyndafræðingi sínum, Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni. HHG hefur frá unglingsárum verið haldinn ótrúlegri ofurtrú á frjálslynda markaðshagfræði, ég minnist þess að hafa hlustað á hann flytja dásemdarræður í kjallara Casa Nova um hvernig kenningar Friedmanns og kó myndu bjarga heiminum. Þá hugsaði ég með sjálfum mér, "drengurinn er alvarlega veruleikafirrtur.

DO framkvæmdi hugmyndir HHG, hugmyndir sem fengnar voru að láni erlendis frá en færðar í lifandi búning hér á landi. HHG lýsti þessum hugmyndum opinberlega stuttu eftir að DO varð forsætisráðherra: Hér á Íslandi átti að skapa umhverfi peningamála sem gæti opnað fyrir flóðgáttir fjármagns og breytt klakanum fjármálaveldi sambærilegt við Sviss plús Lúxemborg í öðru veldi. HHG lýsti því vel hvernig afnema átti öll höft á fjármagn og fjármagnsstofnanir, hvernig bankastarfsemi yrði þorskur 21. aldarinnar. Hér gætu erlend stórfyrirtæki geymt peninga sína vegna galopinna fjármagnsflutninga og strangrar bankaleyndadr og skráð sig til heimilisfestu vegna botnlágrar skattlagningar. Ísland yrði skattaskjól allra skattaskjóla.

DO framkvæmdi kenningar HHG. Regluverkið var ekki bara opnað í samræmi við EES, það var opnað miklu meira. Ráðleggingar um aðhald og takmarkanir á bankastarfsemi þegar bankarnir voru einkavæddir, og hefðu verið í fullu samræmi við reglur EES, voru að engu hafðar. Þetta voru pólítískar ákvarðanir teknar með hag okkar Íslendinga í huga, en þetta var leið sem reyndist jafn vitlaus og ef við hefðum sett maóista í stól forsætisráðherra og með lenínista sem helsta ráðgjafa hans.

Það er því fullkomlega eðlilegt að skella skuld á DO. Hann réði, hann tók hinar pólítísku ákvarðanir. Og hann var enn með puttana í öllu þegar kerfið hrundi. Það að hann skuli ekki persónulega hafa stjórnað bönkunum firrir hann ekki ábyrgð.

Við erum að tala um pólítíska ábyrgð sem þarfnast ekki réttarhalds eða vitnaleiðslu. Það er enginn (eða alla vega fáir) sem telja DO hafa brotið lög eða reynt að svindla og svíkjast um. Hin pólítíska ábyrgð er ótvíræð.

Síðan komum við að persónunni sem við höfum fengið að kynnast í gegnum mörg ár: greindinni, húmornum, ráðsmennskunni. En einnig ofsareiðinni, vænisýkinni, klíkuskapnum. Og núna síðast svo ekki verði um villst, hrokanum, ábyrgðarleysinu, blindunni á eigin ágalla.

Sagan á eftir að sýna okkur að við höfðum marga glæpamenn og svindlara sem rústuðu íslenskum efnahag. En sagan mun einnig sýna að það voru nokkrir fáir pólítískir leiðtogar sem gerðu hin afdrifaríku mistök þegar þeir gáfu þessum glæðamönmnum og svindlurum óskorað og eftirlitslaust vald yfir efnahag okkar og sjálfstæði. Glæpamenn og svindlarar hafa alltaf verið til. Hlutverk stjórnvalda er veita þeim aðhald, ekki gefa þeim lyklana að peningaprentsmiðjunni.

Lýðveldið Ísland er 65 ára gamalt. Við erum pínulítið land, lengst útí rassgati, byggt hrokagikkum. Erlendis hlægja menn og benda á okkur sem dæmi um hvernig smáþjóðir geti ekki lifað sjálfstætt og séu í raun sníkjudýr á hinar stærri. Áframhaldandi sjálfstæði okkar er í höndum þessara stórþjóða sem líta á okkur sem í besta falli heimskingja, í versta falli ófyrirleitna smákrakka sem voru gripnir með puttana í kökukassanum og heimta nú að fá fullt af peningum til að halda áfram að háma í sig smákökur á kostnað annarra.

"Svona eruð þið í þessum smálöndum, þið getið ekki staðið undir eigin rassgati og komið vælandi til okkar þegar á bjátar". Þetta er bein þýðing á því sem matráðskona nokkur hér á Norður-Jótlandi sagði við mig í kvöldverðarboði fyrir nokkru. Maðurinn hennar, smiðurinn, tók undir: Það væru danskir skattgreiðendur sem kæmu til með að borga fyrir peningafyllerí vitlausra Íslendinga. Átti ég að fara að verja DO og blóðuga útrásarvíkinga? Nei, ég skammaðist mín bara fyrir að vera Íslendingur.

Brynjólfur Þorvarðsson, 27.9.2009 kl. 18:36

41 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Annars finnst mér skemmtilegra að skrifa um trúarbrögð. Mér finnst skrítin þessi fullyrðing þín um að trúarbrögð séu innbyggð í manneskjuna.

Lang flestir sem ég þekkja og hef umgengist eru lítið sem ekkert trúaðir og hafa lítil sem enga þörf fyrir trúarbrögð. Sumir, og það fáir, sem ég þekki eru trúaðir. Nokkrir, ívið fleiri, nota trúarbrögð að einhverju leyti sem hluta af tilvist sinni. Í þeim flokki eru flestir hinna trúuðu og sumir hinna trúlausu/trúlitlu.

Félags- og mannfræðirannsóknir hafa ekki sýnt fram á að trúarbrögð séu innbyggð í manninn. Trúarbrögð eru skipulögð trú, formfest trú sem margir aðhyllast og eru nokkurn veginn sammála um. Af hverju ætti slíkt að vera innbyggt í manninn? Kannski ertu að meina að trú sé okkur mönnunum eðlislæg?

Öll höfum við sálfræðilega, innbyggða eiginleika sem gera það að verkum að við eigum auðvelt með að aðhyllast og trúa á ákveðna hluti, t.d. að mannleg hugsun eða vilji búi bak við náttúrufyrirbæri. Mjög fáir einstaklingar (líklega einn af hverjum 50) getur hins vegar fundið mjög sterklega fyrir þessu, jafnvel svo sterklega að hann sannfærist um tilvist hugsunar og vilja í nánast öllu umhverfinu. Þessi eiginleiki nefnist schizoid personality disorder og gæti skýrt hvort tveggja, sterka trú ákveðinna einstaklinga sem og tilvist geðklofa þrátt fyrir náttúruval. Sjá: http://en.wikipedia.org/wiki/Schizoid_personality_disorder

Það má því segja sem svo að hæfileikinn til að trúa sé til staðar með veikum hætti hjá flestum okkar en mjög sterklega hjá mjög fáum. Það er því rangt að segja að trú sé innbyggð í okkur öll.

Trúarbrögð eru samfélagslegt fyrirbæri. Þróun þeirra, eðli, tilgangur og einkenni eru gríðarlega flókin fræði. Eitt virðist þó standa upp úr: Öll stærri samfélög í sögunni einkennast af aragrúa mismunandi trúarbragða, með undantekningu af kristnum samfélögum en það eru einu samfélögin þar sem menn hafa gegnumsneitt og markvisst beitt ofbeldi til að útrýma öðrum trúarbrögðum.

Samfélagslegt gildi trúarbragða er eflaust mikið og sérstaklega í minni samfélögum. Hið dæmigerða forsögulega samfélag virðist alltaf vera með tvær stofnanir, hina trúarlegu og hina veraldlegu. Stærri samfélög eru einnig flest með þessa tvískiptingu.

Samfélagslegt hlutverk trúarbragða í nútímasamfélagi er aftur á móti umdeilt. Til að byrja með er ógjörningur að sameina stærri samfélag um ein trúarbrögð öðru vísi en að afnema mörg þau grundvallarréttindi sem einkenna samfélagsgerð okkar. Í öðru lagi er hið samfélagslega hlutverk slíkra trúarbragða mjög óljóst. Við Íslendingar sameinumst um tungu okkar, land og menningu. Trúarbrögðin eru hverfandi lítill hluti þessa. Við finnum til miklu meiri samkenndar með öðrum íslendingum en með trúfélögum úr öðrum löndum. Stofnanir samfélagsins, skólar, sjúkrahús, dómstólar, mannvirkjagerð, samfélagslegur stuðningur við aldraða og sjúka - allt fúnkerar þetta ljómandi vel án aðkomu trúarbragða. Í þeim fáu tilfellum þar sem trúarbrögð hafa hlutverk þá er mjög óljóst hvor það hlutverk sé með nokkrum hætti nauðsynlegt.

Mér er því enn fyrimunað að taka undir fullyrðingar þínar í þá veru að trúarbrögð séu innbyggð í okkur manninn, eða að þau séu nauðsynleg til að halda samfélögum saman.

Fjölbreytni er þvert á móti nauðsynleg samfélagsgerð okkar, þetta kemur t.d. sterklega fram í heimspekikenningum Dewey og annarra pragmatísta: Lýðræðið, sem er grundvöllur samfélagsins, þrífst aðeins þar sem hin fjölbreyttasta hugsanaflóra fær að dafna. Eða eins og Brutha spámaður sagði: Látið þúsund raddir hljóma.

Brynjólfur Þorvarðsson, 27.9.2009 kl. 19:08

42 identicon

Praise the schizophrenians for they are the messengers of god.
Ef þið trúið mér ekki þá megið þið kynna ykkur það að þeir sem náðu lengst í frumkirkju.. og líka í kaþólsku kirkjunni, voru gerðir að dýrlingum.. voru einmitt schizophrenians ...
DO er náttlega með eitthvað spúkí í hausnum á sér.. enginn mynd láta hafa sig út í svona rugl.. guðakomplexarnir mar

DoctorE (IP-tala skráð) 28.9.2009 kl. 08:52

43 Smámynd: Einar Þór Strand

Það er svo gaman þegar Samfylkingarmenn reyna að gera allt til að nota DO til að breiða yfir eigin daður við útrásina, ekki það að DO sé eitthvað saklaus en að nota hann sem blóraböggul til að breiða yfir eigin mistök það sýnir hvað fólk er lítilla sanda og lítilla sæva.

Eða hvar er gangrýnin á Ingibjörgu Sólrúnu, Björgvin, Össur og CO,  hvar er gagnrýnin á skjaldborgina sem Sf sló upp kringum JÁJ og Baug?

Nei ykkur væri hollast að fara að skoða eigin rann og taka ærlega til þar.

Einar Þór Strand, 3.10.2009 kl. 10:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband