Hver hefur aldrei rangt fyrir sér?
11.4.2008 | 00:46
Uppáhalds heimspekilegu augnablikin mín eru ekki leiftrin þegar manni finnst eitt augnablik að maður skilji allt í einu allan heiminn, reynir að skrá niður hvernig hann er og svo hverfur þessi sterka sýn eins og draumur, - heldur eru það augnablikin þegar ég er að skoða hugtök og uppgötva allt í einu að ég veit hvorki upp né niður, að viðfangsefnið er margbrotnara en ég hafði áður gert mér í hugarlund - að heimurinn er þannig stærri og meiri en ég hafði áður áttað mig á.
Oft hef ég á tilfinningunni að ég viti gífurlega mikið um heiminn sem við lifum í, og gerist jafnvel svo djarfur að telja mig vita svarið við tilgangi lífsins. En það eru bara stutt augnablik sem ég veit innst inni að eru tálsýnir, því ég skil það eitt að þegar maður telur sig vera búinn að festa hönd á hvernig hlutirnir eru, þá er sú festing manns eigið sköpunarverk, og þar af leiðandi ófullkomið eins og ég, eins og allar manneskjur.
Sumir opna aldrei lófann til að sjá hvernig veruleikinn hefur bráðnað undan gripinu, og þrjóskast við til dauðadags, því að það að sjá mynd af veruleikanum einu sinni í föstu formi, það getur verið nóg fyrir suma. Það dugar hins vegar ekki lengi fyrir þetta fólk sem þarf alltaf að spyrja af hverju þetta og hvers vegna hitt. Það vill bara þannig til, og ég hef ekki hugmynd um hvorki af hverju né hvers vegna, að ég er síðarnefnda manngerðin.
Einn af mínum eftirlætis heimspekingum og sálufélögum er Charles Sanders Peirce. Undirstöðuhugtak heimspeki hans er sú trú að það eina sem er áreiðanlegt þegar um þekkingu er að ræða, sama af hvaða toga hún er, hvort sem hún er vísindaleg, guðfræðileg, byggð á reynslu eða hugsunum, þá er aðeins eitt sem tengir þær allar saman. Og það er að okkur getur skjátlast. Eða til að vera nákvæmari: okkur hlýtur að skjátlast.
Reyndar hélt Peirce því fram að því öruggari sem við værum um að við vissum sannleikann um eitthvað ákveðið fyrirbæri, einmitt þá skjátlaðist okkur mest, og það er einmitt af þessum sökum sem mikilvægt er að halda leitinni áfram - öll stöðnum og föst trú bindur lífið við hugmyndir skapaðar af mönnum, en vitundin um óvissuna frelsar okkur undan fjötrum eigin trúar. Ég er ekki að tala gegn trúarbrögðum eða vísindum, því að trúað fólk getur vissulega verið leitandi rétt eins og vísindamenn. Það eru hins vegar þeir sem eru hættir að leita sem eru villtir.
Peirce gagnrýndi af mikilli hörku heimspekinga sem dældu heimspekilegum fróðleik í nemendur sína, þar sem að þeir væru búnir að finna réttu svörin, og létu eins og þeim gæti ekki skjátlast um nokkurn skapaðan hlut. Málið er að sama hversu flott kenningarkerfi heimspekingar skapa, það finnst alltaf einhver glufa í þeim, alltaf eitthvað sem passar ekki alveg saman við veruleikann, eða er í mótsögn við sjálft sig eða heilbrigða skynsemi.
Heimspekin, erum við Peirce sammála um, er einmitt eilíf leit að þekkingu og visku, ekki útdeiling. Heimspekingur sem segir öðrum hvernig heimurinn er með fullri vissu og endanleika, er sölumaður gallaðrar vöru.
Athugasemdir
Góð speki.
Steingerður Steinarsdóttir, 11.4.2008 kl. 10:28
Mig minnir að ég hafi einu sinni haft rangt fyrir mér , eða hvað ?
Ómar Ingi, 11.4.2008 kl. 10:38
Ég hef reyndar aldrei rangt fyrir mér.... en þetta helv. góður og vel skrifaður pistill! Takk!
Gunnar Th. Gunnarsson, 11.4.2008 kl. 17:01
Takk fyrir athugasemdirnar. Guðjón Viðar, vel að orði komist!
Hrannar Baldursson, 11.4.2008 kl. 19:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.