Hvernig notum við tjáningarfrelsið sem áróðurstæki? Svör við athugasemdum greinarinnar: "Skal umbera þá sem misnota tjáningarfrelsið gegn múslimum?"
30.3.2008 | 11:14
Í gær og í dag hef ég fengið mörg áhugaverð svör við grein sem ég skrifaði um kvikmyndina Fitna, sem er áróðursmynd gegn múslimum og með myndum af staðreyndum fullyrt að allir múslimar sér hryðjuverkamenn. Sumir einstaklingar virðast ekki átta sig á að slíkur fordómafullur áróður er hættulegur, og sumir átta sig ekki á að þetta er áróður sem fer með rangt mál, sem er nokkuð alvarlegt mál í mínum huga. Svona fordómafullur áróður væri ekki hættulegur ef allt fólk áttaði sig á að þetta er fordómafullur áróður.
"Það að birting þessarar myndar særi tilfinningar einhvers manns er að mínu viti ekki nógu sterk rök og ég var ekki meðvitaður um að hægt væri að móðga fyrirbæri á borð við trúarbrögð eða siðferðiskennd." (salb)
Málið snýst ekki um móðganir eða særðar tilfinningar, heldur um rétt hópa eða einstaklinga til að æsa upp fordóma og hatur gegn ákveðum hópi fólks.
Fullyrðing kvikmyndarinnar eru sú að múslimar bera ábyrgð á hryðjuverkum. Það er einfaldlega ekki satt. Það er hins vegar satt að sumir einstaklingar sem trúa á Íslam beri ábyrgð á hryðjuverkum. Þessi yfirfæring sumra yfir á alla er fordómurinn ósanni.
Það vill svo til að leiðtogi öflugustu hryðjuverkasamtaka heims er öfgafullur múslimi, og að öfgafullir múslimar nota smávægilegustu rangfærslur sem olíu á eld hatursfullra fordóma, til að hafa áhrif á þá hófsömu og æsa þá til verka. Ég er ekki að segja að það sé rétt hjá öfgafullum múslimum að hóta kvikmyndagerðarmönnum lífláti, frekar en það er rétt hjá nokkrum einstaklingi að senda hótunarbréf til nokkurrar manneskju.
Kristnir öfgatrúarhópar eru lítið skárri, þar sem þeir ofsækja einstaklinga fyrir skoðanir sínar, brenna bækur, brenna hljómplötur, ofsækja fólk af öðrum trúarbrögðum, fremja jafnvel fjöldasjálfsvíg. Ég hef margoft verið vitni að umræðum þar sem allir kristnir eru sagðir klikk út af svona atriðum. Það þýðir samt ekki að allir kristnir séu klikk.
Dæmi: Ef gerð væri kvikmynd sem flokkaði alla Evrópubúa sem nasista og fasista, þar sem að það voru vissulega hópar innan evrópskra þjóða sem voru forsprakkar þessara öfga. Ísland væri tekið sem dæmi um land þar sem nasismi grasseraði vegna þess að til er hópur á Íslandi sem er gegn innflytjendum, og þar af leiðandi séu allir Íslendingar nasistar. Segjum að gerð yrði kvikmynd sem fengi mikla útbreiðslu og mælti með því að Íslendingar yrðu helst skotnir á færi þar sem þeir sæjust utan Evrópu, vegna þess að þeir eru nasistar og þar af leiðandi hryðjuverkamenn, væri þá rangt fyrir Íslendinga að vilja gera einhverjar ráðstafanir gegn slíkri kvikmynd?
Í mínum huga (á þessum tímapunkti) er varla hægt annað en að líta á umrædda klippu sem áróður ætlaðan til að æsa upp og vekja hatur á muslimum og/eða islam í heild... og það merkilega er, að það virðist vera að virka ! Það er ótrúlegt sem fólk lætur útúr sér í kommentum víða á netinu (og þá er eg ekkert sérstaklega að meina hér á mbl bloggum) Ekkert óalgengt að maður sjái: "nuke them" "hefjum krossferð" "útrýmum þeim" o.s.frv. o.s.frv. Óhugnarlegt.
Þetta er alveg komið í þvílíkt rugl. (Ómar Bjarki Kristjánsson)
Sammála.
Á að hengja boðbera válegra tíðinda? (Helga Guðrún Eiríksdóttir)
Nei. En boðberar válegra tíðinda verða að fara með satt og rétt mál, annars er hætta á að ráðist verði að saklausum. Er slíkt réttlætanlegt?
það þarf ekkert að (gera) í þessum málum nema fjarlægjar hömlur af tjáningarfrelsi og hafa þær svipaðar og eru í Bna (Alexander Kristófer Gústafsson)
Bandaríkjamenn hafa ekki samþykkt að fara eftir mannréttindarsáttmála sameinuðu þjóðanna, þó að upphaflegur höfundur þeirra hafi verið Bandaríkjamaður. Mannréttindarsáttmálinn ver til að mynda hópa gegn óábyrgum áróðri. Frelsi er ekki það að mega gera hvað sem er án afleiðinga. Frelsi er fyrir þá sem geta höndlað það, vonandi alla, en þeir sem misnota það verða að standa taka afleiðingum eigin máls og gerða. Ég vil frekar styðja mannréttindin en vinna gegn þeim. Hvað um þig?
Treð því hér inn - að í stað þess að taka svínakjöt og önnur matvæli sem ekki neytt af trúarástæðum - úr mötuneyti t.d. Austurbæjarskóla, hefði e.t.v.átt að bæta við daglegt úrval.
Væri nokkuð slæmt að leyfa "öllum trúar og/eða vantrúarhópum" að hafa sitt tákn/skjaldarmerki/píslarvott/ á skólagangaveggjum, í stað þess að banna það sem fyrir kann að hafa verið (t.d. krossinn)? (Beturvitringur)
Sammála því að almennt sé skynsamlegra að leyfa fleirum að vera með en að útiloka alla.
Þessi stuttmynd á sama rétt á sér og meistaraverk Richard Dawkins "Root of all Evil?"God that wasn't there, bara hina sjokkerandi "Deliver us from Evil" sem Amy Berg gerði. Ég kannast hins vegar ekki við að kaþóikkar, aðrir kristnir eða samkynhneigðir hafi hótað því að strádrepa þá sem stóðu að þessum kvikmyndum. sem og ágæta pæling Brian Flemming um the
Á að taka eitthvað sérstakt auka-tillit til þeirra sem lesa einhvern kóran? (Víðir Ragnarsson)
Kannski tökum við ekki eftir slíkum ummælum frá öfgafullum kristnum trúarhópum af því að við þekkjum slíka hópa aðeins betur en öfgafulla múslímska trúarhópa, og vitum að ekki borgar sig að taka mark á slíku rugli. Hljómar undarlega, en pældu í þessu. Sumt sem er frétt fyrir kristna er ekki frétt fyrir múslima og sumt sem er frétt fyrir múslima er ekki frétt fyrir kristna. Við erum ólík og okkur ber að virða það. Við þurfum að átta okkur á að mannvirðing skiptir máli, og hluti af mannvirðingu er að bera virðingu fyrir ólíkum skoðunum og lífsviðhorfum, sama hver á í hlut.
Ég er nú ekki alveg að skilja þennan pistil - eftir svo hámenntaðan mann. Mynd Fitna fjallar um tengsl Islamstrúar við hryðjuverk, kúgun þegna Íslamskra ríkja og svo framvegis.
Í ljósi þess að allir helstu trúarleiðtogar Islamstrúar hafa í áratugi boðað og hvatt til að meðlimir annarra trúarbragða væru myrtir og heilu þjóðunum útrýmt, í ljósi þess að heilu ríkjunum er stjórnað í samræmi við Sharia lög og þar eru almenn mannréttindi einskis virt og það í nafni trúarinnar og í ljósi þess að hvar sem stórir hópar múslima hafa sest að og komið sér upp moskum og trúarbragðakennslu skapast ótrúleg vandamál sem við kannski heyrum minnst um - í ljósi alls þessa er myndin fullkomlega eðlilegt innlegg í umræðu og í anda þess lýðræðis og skoðanafrelsis sem við eigum að venjast. (salb)
Það skiptir nú ekki neinu máli hversu mikla eða litla menntun ég hef, allir hafa rétt á sínum skoðunum sama í hvaða stöðu þeir eru, ríkir sem fátækir, ómenntaðir sem hámenntaðir, Íslendingar sem fólk af erlendum uppruna, þú sem ég.
Geturðu nefnt hverjir þeir eru þessir helstu trúarleiðtogar Íslamstrúar sem hafa mælt með þjóðarmorðum og morðum á einstaklingum, og hversu margir þeir eru í samanburði við alla trúarleiðtoga Íslams? Rétt er að í sumum ríkjum er ekki aðskilnaður á milli ríkis og trúar. Það vandamál er til staðar víðar. Myndin er ekki eðlilegt innlegg, þar sem hennar markmið er að æsa upp fólk gegn múslimum, ekki að ræða hlutina á sanngjörnum forsendum.
Ég veit að mín orð hafa lítið að segja, smárödd sem fellur eins og stakur vatnsdropi á olíubál fordóma, gleyptur af hatrinu og offorsinu sem fylgir þeirri trúarsannfæringu sem tengd er slíkum áróðri.
Ég veit að það sem ég hef að segja er eins og lágvært hvísl í herbergi þar sem sjötíu öskrandi einstaklingar hrópa sama slagorðið, en í stað þess að fylgja straumnum, þá hef ég fullan rétt til að snúast gegn honum. Þann rétt hefur þú líka. Það er nokkur sigur unnin í því að fylgja ekki flæðinu hugsunarlaust.
Hvenær brýtur eitthvað gegn rétti okkar? Ef ég tel einhvern hafa á röngu að standa, má ég þá ekki gagnrýna hann t.d.? Væri það brot gagnvart öðrum? Eða á þetta einungis við um málefni eins og kynhneigð og trúarbrögð? Má ekki tala um eða gagnrýna þau? (Þorsteinn Ásgrímsson)
Tabú er allt annað mál. Mín skoðun er að ræða megi hvað sem er, en það verður að gera vel og af ábyrgð, en ekki hrauna út úr sér hverju sem er.
Flokkast teiknimyndin hér fyrir neðan sem áróður? Ef svo er, er um ábyrgan eða óábyrgan áróður að ræða? Skiptir þessi greinarmunur máli?
Allir myndir fengnar af síðunni Propaganda (áróður) á wikipedia.org.
Athugasemdir
Gott að sjá að skynsemin á sér ennþá talsmenn, afar góð samantekt hjá þér og skerpir á hvað við er að eiga þegar hatursáróður vaður uppi, mannkynið hefur séð þetta allt áður, gömlu sundurlyndis trixin dregin fram aftur og aftur, magnað hvað hægt er að veiða fólk aftur og aftur með sama gatslitna háfnum, alltaf skal vera nóg af skammsýnu fólki til að taka undir haturstalið.
salb, þér finnst Hrannar næstum því þjóðhættulegur maður vegna skynsamlegra og yfirvegaðra skrifa hans, hvers vegna er mér fyrirmunað að skilja, mér sýnist málflutningur hans algerlega lausan við allt ofstæki og ósanngirni, meira en hægt er að segja um marga sem tjá sig um þessi mál.
Georg P Sveinbjörnsson, 30.3.2008 kl. 13:48
Þeir múslimar sem ég þekki eru ekkert yfir sig stoltir af þessum öfgahópum sem koma óorði á venjulega friðsama múslima.
Það er aldrei talað um hið þræltrúaða kristna gáfnljós, Bush sem er búin að slá heimsmet í að jarða múslima äut um allan heim með hjálp Breta, og er nú að undirbúa árás á Íran.
Það á ekki að gera lítið úr hriðjuverkamönnum, en það er saga á bak við alla svona hluti og ég kóperaði eitt blogg sem er góð samantekt að mínu mati á hatri sumra ungra múslima sem eru farnir að fatta hvernigvesturveldin hafa farið með þá í gegn um tíðinna...það svona:
Þegar að mál múslíma og Íslam eru rædd fer oft lítið fyrir að þau séu skoðuð í sögulegu samhengi.
Hversvegna er Íslam og öfgasamir múslímar allt í einu orðnir svona áberandi. Hversvegna er önnur kynslóð friðsamra múslíma fjölskyldna sem fluttust til vesturlanda í leit að menntun og betri lífskilyrðum, allt í einu orðnir herskáir öfgamenn? Íhugum eftirfarandi staðreyndir.
Staðreynd. Auðugustu olíulindir heims er að finna í löndum múslíma.
Staðreynd. Efnahagslíf vesturlanda veltur á aðgengi að þessari olíu.
Staðreynd. Frá því að blómaskeiði Ottomans veldisins lauk, skiptu lönd múslíma og menning engu fyrir vesturlandabúa almennt, þar til að olía varð að lífsblóði efnahagslífs okkar.
Staðreynd. Írak var sérstaklega stofnað eftir fyrri heimsstyrjöldina til að vesturlönd hefðu aðgang að olíulindunum í norðurhluta landsins. Eftir að meiri olía fannst í miðríkinu, varð ríkið enn mikilvægara sem olíuríki.
Staðreynd. Kúveit var klofið í burtu frá Írak til að vestrið hefði öruggari aðgang að olíulindum þess lands.
Staðreynd. Múslímar sem lifðu margir hverjir í auðugustu ríkjum heimsins hvað auðlindir varðaði, fengu hvergi að njóta gæða landa sinna.
Staðreynd. Í öllum múslímaríkjunum samanlögðum eru gefnir úr færri bókatitlar á ári en á Íslandi. Fáfræði er landlæg og aðgangur að þekkingu takmarkaður.
Staðreynd. Ýmis ákvæði Íslam eru notuð óspart til þess að réttlæta hefndaraðgerðir og andspyrnu gegn vesturlöndum. Arð og auðlindarányrkja vesturlanda virðist réttlæta þessa andspyrnu í hugum múslíma.
Staðreynd. Rússar börðust við Talibana til að reyna að tryggja sér aðgang að olíu og landi fyrir olíuleiðslur sínar í Afganistan. Bandaríkin studdu dyggilega við bakið á Talibönum og stofnuðu m.a. sérsveitina Al kaida sem Bin Laden stýrir nú. Bandaríkin og Bretland ásamt völdum Nato ríkjum reyna nú það sem USSR mistókst.
Það þarf ekki neinn sagnfræðing til að skýra samhengið milli þessara staðreynda. Andstaða múslíma við vesturlönd er fyrst og fremst af efnahagslegum. Andúð þeirra á "spillingu " okkar er eitt af mörgu sem alið er á meðal þeirra til að afmenna óvininn.
Mér finnst allt í lagi að skoða hlutina frá fleiri hliðum en einni eða tveim..málið er kannski flóknara en svo og það þarf að sína þessum fólki skilning þó sjálfsmorðsbomarar séu ekkert að vera hrifin af..
Óskar Arnórsson, 30.3.2008 kl. 13:50
hehe..Ég er að dúndra á Dabba Einræðisherra Íslands! Ekki Íslams..
Óskar Arnórsson, 30.3.2008 kl. 14:13
Ég er með ágætis minni miðað við aldur held ég bara..
Óskar Arnórsson, 30.3.2008 kl. 14:15
Salb. eigum við að halda okkur við málefnalega umræðu í staðinn fyrir eitthvað persónulegt skítkast sem þú hefur gegn fólki sem er ekki alveg sammála þér.... ?
Katrín B (IP-tala skráð) 30.3.2008 kl. 14:27
salb, ekki ertu nú beint málefnalegur en ég ætla ekki niður á þitt plan.
Hvernig þú færð það út að ég sé með hatursáróður á minni síðu er mér fyrirmunað að skilja, ef þú ert með bæði augu opin sérðu að ég skrifa mest gegn ofríki og arðráni hverskonar hvar sem það er stundað, svikamyllu bankaeigenda og hergagnaframleiðenda og annarra gírugra stríðsgróðapunga, ósjálfstæðum massafjölmiðlum, lögreglufasima og eftirlitssamfélagi, mannræktarviðbjóði(Eugenics) og álíka gerfivísindum, þjóðarmorðum og ofbeldi hverskonar, þar á meðal á Palestínumönnum, misnotkun trúarbragða alment til að stjórna fólki og halda í óraunsæjum ótta og undigefni. Þú fellur í þá gryfju að halda að þó að ég gagnrýni Ísraela harðlega fyrir illvirki sín sé ég þar með gyðingahatari, ég frábið mér slíkt bull, ég set engin samansemmerki á milli gyðinga og harlínu Zíonista, ég ber mikla virðingu fyrir Gyðingum en fyrirlít að sama skapi marga leiðtoga Ísraelsmanna fyrr og síðar af gefnu tilefni...en ég fyrirleit líka Arafat. Heilt yfir
Með góðum vilja mætti líka kannski halda að ég hataði bandaríkjamenn og styddi hryðjuverkamenn(samkvæmt skilgreiningu G W. Bush allavegana)þegar bloggið mitt er skoðað af því að ég fyrirlít Bush forseta og hyskið sem nú möndlar með völdin þar vestra og illvirki þeirra, en það væri mikil einfeldni að draga þá ályktun að ég hefði eitthvað á móti bandaríkjamönnum yfirleitt, þeir geta lítið gert við vitskertum leiðtogum með stolin völd og ég ber ótakmarkaða virðingu fyrir bandarísku þjóðinni...sem er sem betur fer að vakna til vitundar um brjálæði stjórnaherra sinna...sem nota bene eru strengjabrúður hergagnaframleiðenda og bankamanna...hinum raunverulegu " Masters Of War"
Georg P Sveinbjörnsson, 30.3.2008 kl. 15:04
Vinsamlegast gætið almennrar kurteisi við skrif á athugasemdum, og forðist að fara út í persónulegar árásir. Slíkt á fátt skilt með málefnalegri umræðu.
Hrannar Baldursson, 30.3.2008 kl. 15:47
Ég er til í að halda mig við málefnilegar umræður Langaði bara að benda þessum ágæta manni á að mér fannst hann svolítið harður.. eins og við Bryndísi hér í færslunni á undan..
Annars var það ekki meira í bili !
KatrínB (IP-tala skráð) 30.3.2008 kl. 16:21
salb virðist í mikilli vörn fyrir hinn lítilmótlega málflutning í hallærislegri mynd Wilders, lítlmótlegir raftar eins og Wilder greyið eiga sér alltaf einhverja stuðningsmenn í nytsömum sakleysingjum þó að skynsamt fólk sjái heimsku hatursáróðursins og fyrirlitlegan tilgang hans.
SeeingRed, 30.3.2008 kl. 16:31
salb: Þakka þér kærlega fyrir!
Ég er ánægð með árangur mýkingarefnisins nú þegar!
Kveðja,
Katrín B (IP-tala skráð) 30.3.2008 kl. 16:41
Spurning hvort að allir séu á sama máli um hvað málfrelsi þýðir? Öllu frelsi fylgir ábyrgð, annars væri það ekki frelsi.
Það hefur verið áhugavert að kíkja yfir athugasemdirnar. Ég skildi Georg þannig í hans færslu að hann væri að gagnrýna fréttamenn fyrir að tilkynna um þjóðerni brotamanna, en ekki úr hvaða bæjarfélaga þeir koma. Mér dettur ekki í hug að gagnrýna hans persónu fyrir þá skoðun, né nokkra persónu fyrir nokkra skoðun.
salb: Ég held að þú sért að misskilja. Málið snýst ekki um rétt einstaklings til að halda fram skoðun sinni, heldur rétt þess sem skoðuninni er beint gegn til að verja sig fyrir árásum gegn áróðri.
Íslendingar geta kært aðra einstaklinga fyrir rógburð og lygar, níð og ásakanir sem hafa engan rétt á sér. Það geta hópar hins vegar ekki gert í dag á alþjóðlegum grundvelli. Og ósk um að fólk fái varið sig gagnvart slíku áreiti og líklegum afleiðingum þess finnst mér eðlileg.
Hrannar Baldursson, 30.3.2008 kl. 18:06
hrannar,
það er nú líka boðið upp á það í hegningarlögum að ef menn veitast að hópum með meiðyrðum og rógi á grundvelli trúarbragða, kynþáttar, litarháttar, kynhneiðgar eða annars, þá er hægt að kæra menn fyrir slíkt og hefur veirð gert hér á landi. Orsökin fyrir þessu er kynþáttaóhróður nasista sem mynd Wilders sækir fyrirmyndina í og ég velti því fyrir mér m.a. í dag hversvegna það er leyfilegt að dreifa þeirri mynd og ástunda hatursáróður gegn múslimum t.d. hér á Moggablogginu en þegar nasistablogg spratt hér upp, þá var lokað fyrir það snögglega sem var hið besta mál. Er hatursáróður í garð eins hóps réttlætanlegri en önnur þegar kemur að okkur Vesturlandabúum og Íslendingum?
Og hvað svo þegar kemur að málfrelsinu? Mörgum hverjum finnst í góðu lagi að ausa óhróðri yfir múslima/innflyjtendur eða aðra hópa en þegar slíkir hópar nota sama málfrelsi til að mótmæla þá eru þeir óvinir málfrelsins. Er það ekki réttur þeirra að mega mótmæla því og segja skoðun? Og hvað með öfgaklerkana sem kynda undir hatur? Eru forsvarmenn málfrelsis þegar kemur að mynd Wilders, tilbúnir til að styðja rétt þeirra til að segja það sama um kristna/Vesturlandabúa þegar öfgafullir íslamistar eiga í hlut og verja þann rétt á bloggsíðum fólks sem á ekki orð yfir því hatri sem þeir spúa?
AK-72, 30.3.2008 kl. 20:17
Hvernig dettur þér í hug að áróður skili einhverjum árangri ?! Þú virðist halda að almenningur séu allir einhverjir heiladauðir zombíar sem eru ginnkeyptir fyrir skyndilausnum öfgamanna, og það þurfi að hafa vit fyrir fólki svo það fari sér ekki að voða.
Viðar Freyr Guðmundsson, 31.3.2008 kl. 01:31
Þakka þér fyrir Hrannar að taka þetta mál upp og það svo rækilega . Ég hef lengi haft í huga svívirðilega framkoma vesturveldana í garð arabaþjóða (múslima) til fjölda ára. Hvernig í ósköpunum getur svona framkoma annað en valdið hatri og einhverjum hermdaraðgerðum.
Það auðveldar hugsunina að snúa dæminu við og setja það þannig upp að það væru múslimar sem væru hið ofursterka herveldi sem kúguðu og dræpu okkur og lýtisvirtu trú okkar og menningu. Hver væri líðan okkar, myndum í við í vanmætti okkar reyna að gera þeim skráveifu . Ef þeir réðust með hervaldi á einhverja þjóð okkar legðu hana í algerlega í rúst vegna þess að þjóðhöfðingi landsins sé lúði ræfill og í þokkabót vondur maður. Maður sem þeir sjálfir höfðu komið til valda.
Veltum þessu vel fyrir okkur. Það er alveg bráðnauðsinlegt að vesturlönd sýni arabaþjóðum fyllstu kurteysi og hættum öllum yfirgangi. Trúarlegar lítilsvirðingaog alhæfingar um hugsun fólksins er bara til þess fallið að auka hatrið og ólguna.
Það er aftur á móti alveg nauðsinlegt með einhverjum ráðum koma á markað eldsneyti í samkeppni við olíu og bensín .
Snorri Hansson, 31.3.2008 kl. 02:22
Hrannar, ég varð að vera ósammála þér með hluta af þeim ályktunum sem þú kemur með í þessu innleggi og því síðasta. Fitna fjallar vissulega um nokkra texta úr Kóraninu og vísar til þess hvernig nokkrir öfgafullir einstaklingar nota þessa texta til að heita á aðra öfgafulla einstaklinga til óhæfuverka. Fitna er ekki um Islam og hefur lítið með Islam að gera. Hún fjallar aftur um það hvernig ýmsir öfgafullir einstaklingar misnota texta Kóransins og setja því blett á Islam. Fitna er jafn mikil áskorun á trúaða múslima að uppræta öfgahyggjuna eins og hún er ábending til okkar hinna um að í Kóraninu er (alveg eins og í Gamla testamentinu) er öfgakenndur texti sem bókstafstrúarfólk misnotar í nafni trúarinnar.
Ekkert í Fitna er sviðsett. Það er enginn texti búinn til eða túlkaður. Vissulega er langt seilst í einu atriði, þar sem sýnt er myndbrot af barni tala illa um gyðinga, en fyrir utan það er bara um frásögn að ræða. Reiði múslima á því ekki að beinast að sendiboðanum, heldur þeim sem nota texta Kóransins til að hvetja til ógnarverka. Sendiboðanum fannst nauðsynlegt að segja þessa sögu af þeirri einföldu ástæðu að honum mislíkar þessi öfgahyggja á sama hátt og honum mislíkar örugglega jafnmikið ýmis öfgahyggja sem fer fram í nafni annarra trúarbragða, svo sem kristnidóms og gyðingdóms.
Ef ekki má segja svona sögu án þess að allt verði vitlaust, þá sýnir það bara að þessa sögu þarf að segja oftar. Eða er það þannig, að aðeins má segja þær sögur sem almenn sátt er um?
Marinó G. Njálsson, 31.3.2008 kl. 11:45
Ég er nú ekki sammála þér Marinó með að þetta sé umfjöllun sem ætluð sé að vekja athygli á öfgamúslimum eingöngu. Henni er fyrst og fremst ætlað að vera pólitískur áróður gerð af öfgamanni í hollenskum stjórnmálum sem m.a. hefur kallað líkt Kóraninum við Mein Kampf og talað fyrir því að mannréttindi múslima sem og moskur verði bannaðar. Í því ljósi verður að skoða myndina.
Einnig má benda á að myndin er ekki ætlað að benda á óhæfuverk öfgamanna heldur er henni ætlað að setja alla múslima undir sama hatt og kemur það bersýnilega í ljós í kaflanum um Holland. Þar eru moskur tengdar við óhæfurverk og einnig þær 54 milljónir múslma sem eru búsettir í Evrópu og í kjölfarið á myndum af hroðaverkum, möskum og tölfræðinni er spurt hvort við viljum hafa Evrópu svona. Það kemur aldrei fram að átt sé við öfgamennina í hópi þessara 54 milljóna heldur öllum spyrt saman og talað um að stoppa múslima. Sum brotin eru einnig frá Írakstríðinu, allavega eitt þar sem lík af málaliða Blackwater sem hafa nú verið ansi öflugir í drápum á almennum borgurum er dregið eftir götu og í framhaldi af því varð blóðbað í Fallujah þar sem framin voru fjöldamorð á almennum borgurum, en dauði þeirra tengdist á engan hátt gerðum öfgamanna né trúnni, heldur voru það uppreisnarmenn að verki.
hreinræktaður hatursáróður í frekar slöppu formi og eins og ég benti á annars staðar þá er þetta eitt af þeim trixum sem er beitt í áróðursfræðinni við það að skapa óvini: þú tengir hópinn sem þú vilt skapa hatur á við allskyns illverki ímynduð sem raunveruleg og allt gert til að sverta, eins og þarna. Mikill meirihluti fólks mun taka þessu sem sannleik um alla múslima og stimpla þá eftir þessu.
Mæli svo með að ef þú vilt kynna þér eitthvað um hatursáróður og hvernig hann funkerar þá er hér góð grein. Svo má auðvitað hugsa þessa mynd út frá einu, hvernig myndi þér finnast um hana ef þetta væri um kristni eða gyðingdóm, hvaða álit myndu kristnir menn eða gyðingar hafa á slíkri mynd og myndu þeir sem tala um málfrelsi verja t.d. svipaðan áróður gegn gyðingum?
Til þeirra sem svo ætla að nota það til að væla um að kristnir/gyðingar séu ekki svo slæmir þá er það aukaatriði þegar verið er að skoða áróður, það er hægt að beina honum gegn öllum í samskonar dúr og Wilders og nasistar gerðu.
AK-72, 31.3.2008 kl. 17:52
Skörp skrif AK-72, þetta er nefnilega mergurinn málsins.
Georg P Sveinbjörnsson, 31.3.2008 kl. 18:42
Ég er sammála þeim AK-72 og Georg, en skrif þeirra er að mínu mati langt frá því að vera atlaga að tjáningarfrelsinu, heldur tilburðir til að verja það.
Hrannar Baldursson, 31.3.2008 kl. 18:55
AK-72, mig minnti endilega að það væru tvær myndir á leiðinni í Hollandi. Fitna og svo önnur sem verið er að bíða með að birta. Leiðréttu mig, ef ég fer með rangt mál. Mig minnir einnig að hin myndin sé sögð mjög róttæk, það róttæk að enginn vill sýna hana og hún sé auk þess mun lengri. Þessu til viðbótar, þá hef ég séð viðtal við Wilders þar sem hann lýsir því yfir að sín mynd sé EKKI róttæk, en henni er vissulega ætlað að vara við þeim öfgum sem eru í Islam. Henni sé ekki beint gegn Islam heldur verið að benda á að Vesturlönd geta ekki leyft hvaða trúarstefnum Islams sem er að taka sér bólfestu á Vesturlöndum. Miðað við viðbrögð múslima, þá virðist hann hafa nokkuð til síns máls.
Ég stend við það sem ég sagði áðan, að myndinni er ekki ætlað að vara við Islam, þ.e. trúarbrögðunum. Henni er ætlað að vara við öfgafullri og ofbeldisfullri túlkun. Henni er ætlað að vara við því að ef við setjum ekki einhver mörk, þá getum við átt von á hverju sem er. Alveg eins og fyrir nokkur hundruð árum beitti kaþólskakirkja nokkuð öfgakenndum meðölum til að "hreinsa til". Fólk var brennt á báli, því var drekkt á hægfara hátt (með sjávarföllum), grýtt til bana og togað í sundur í strekkingarbekkjum. Þessar aðferðir múslima eru nú margar barnaleikur borið saman við uppátæki hinna guðræknu kaþólikka.
Ég hef það síðan á tilfinningunni, að ég hafi horft á einhverja aðra útgáfu af myndinni en þú AK-72. A.m.k. hefur minn fókus á efni myndarinnar verið allt annar.
Marinó G. Njálsson, 31.3.2008 kl. 20:57
Mannréttindi=tjáningarfrelsi og heningarlögin sem hefta tjáningarfrelsi eru brot á mannréttindum.
Alexander Kristófer Gústafsson, 5.4.2008 kl. 03:46
Ég styð tjáningarfrelsi álika langt og aclu gerir í Bna, ég er á móti hate speech lögum eins og kommunistar á Íslandi hafa náð að koma í gegn.
Alexander Kristófer Gústafsson, 5.4.2008 kl. 03:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.