Hvaðan koma Pólverjar?
24.3.2008 | 11:42
Mikið hefur verið rætt um Pólverja síðustu misserin, um það hversu margir hafa flutt til Íslands og hvernig fjöldi þeirra hefur tekið að sér lægst launuðu störfin á Íslandi. Á laugardaginn var birtist svo frétt um að pólsk mafía væri að störfum á Íslandi sem legði fjölskyldur pólskra verkamanna í einelti. Ég var frekar hissa á þessu öllu saman, og þar sem ég var farinn að heyra orðið Pólverji í annarri hverri setningu, ákvað ég að leita mér upplýsinga um þennan þjóðflokk, - og þá sérstaklega um sögu hans.
Það er óhætt að segja að Pólverjar komi úr allt öðru evrópsku umhverfi en Íslendingar. Íslendingar hafa lifað í friðsæld og fátækt en Pólverjar hafa aftur á móti þurft að lifa og deyja í styrjöldum og lifað við fátækt frá örófi alda - og síðast í síðari heimstyrjöldinni var fjórðungur þjóðarinnar drepinn af nasistum fyrir engar sakir. Ég hef ekki dug í mér að telja allar þær styrjaldir sem Pólverjar hafa tekið þátt í síðustu 1000 árin, en einu blóðugu deilurnar sem ég man eftir á Íslandi yfir þetta tímabil voru á Sturlungaöld, milli Oddverja og Sturlunga á 13. öld.
Fólk hefur búið á landssvæðinu þar sem Pólland er núna í rúm 500.000 ár. Þar lifði fólk gegnum steinöld, bronsöld og járnöld. Rómverjar réðust inn í Pólland og töpuðu því svo aftur þegar herflokkar úr austri réðust að Rómaveldi. En heimsveldið átti eftir að ná völdum á ný.
Árið 966 staðfestir Ottó hinn mikli leiðtogatitil Miezko I, sem gerir Póland aftur að hluta rómverska heimsveldisins, en nú í samvinnu við páfa og þar af leiðandi kaþólsku kirkjuna. Fyrstu konungar Póllands voru öflugir og tókst að efla og styrkja ríkið töluvert, en erfingjar krúnunnar fóru að takast á um hver ætti að fara með hvaða völd í ríkinu, og var því loks skipt í fjóra hluta á 13. öld. Þetta varð til þess að þjóðin var veikari sem heild og illa undirbúin fyrir innrás Mongóla á germönsk svæði. Þetta þýddi að gífurlegur fjöldi af þýskum innflytjendum fluttist inn til Póllands, sem varð til þess að Pólverjar þurftu að aðlagast þýskum lögum og menningu, - innflytjendur tóku yfir Pólland.
Á 14. öld sameinuðust Pólverjar og Litháar í stríði gegn Riddarareglunni frá Riga, sem hafði framið fjöldamorð á pólskum bændum og riddurum.
Á 16. öld ríkti samveldi Pólverja og Litháa, en þetta ástand ríkti fram á 18. öld. En árið 1572 gerðist sá stórmerkilegi hlutur að Sigmundur II Ágústus konungur Póllands lést án erfingja. Eftir miklar pælingar var ákveðið að kjósa næsta kóng, en aðalsmenni fengu kosningarétt. Sá sem fékk kosningu yrði við völd til dauða, og þá færi næsta kosning fram. Þeir sem buðu sig fram voru engir Pólverjar: Henri frá Valois (bróðir Frakkakonungs); rússneskur zsar, Ivan IV, Ernest erkigreifi frá Austurríki og Svíakonungur, Jóhann Vasa III. Henri frá Valois vann kosningarnar, en þremur árum síðar lést Frakkakonungur og hann flutti til Frakklands til að taka við krúnunni, og skyldi Pólland eftir konungslaust.
Mikið var um styrjaldir og uppreisnir á þessu tímabili og eftir styrjaldir 17. aldar var Pólland loks gjaldþrota.
Á 18. öld gerðu Pólverjar samkomulag með Rússum og tóku þátt í stríði gegn Svíum um yfirráð baltneska landsvæðisins. Barist var í Póllandi um pólska hásætið. Svíar sigruðu árið 1704. Svíar töpuðu svo fyrir Rússum 1709. Eftir að borgarastríð árið 1717 var Pólland gert að fylki í rússneska ríkinu. Árið 1732 gerðu Rússar, Prússar og Austurríkismenn samþykkt um að halda Póllandi óvirku sem ríki í Evrópu. Afleiðingin var sú að stjórnleysi ríkti í landinu næstu árin.
Ólíkar þjóðir voru með puttana í stjórnun Póllands næstu áratugina, og Pólverjar sáu fyrst tækifæri til að öðlast sjálfstæði eftir fyrri heimsstyrjöldina árið 1918, enda höfðu þær þjóðir sem vildu stjórna Póllandi allar farið illa út úr stríðinu.
Frá 1918-1930 fengu Pólverjar loks að lifa í friði frá styrjöldum og fátækt. En blómaskeiðið var ekki langt, því árið 1930 skall á kreppan mikla, en samt ríkti friður í Póllandi til 1939 þegar nasistar réðust inn Pólland og hófu þannig síðari heimstyrjöldina. Póllandi var skipt upp í svæði sem sovétmenn og nasistar skiptu á milli sín.
Pólverjar voru mjög andsnúnir nasistum og gerðu margar tilraunir til að berjast gegn þeim, en talið er að um sex milljón Pólverjar hafi verið myrtir af þýskum nasistum og tvær og hálf milljón Pólverja fluttir til Þýskalands í nauðungarvinnu. Aðeins um 500.000 þeirra sem drepnir voru, voru hermenn. Það er útbreiddur misskilningur að það hafi aðallega verið pólskir gyðingar sem voru fórnarlömb nasista, en það rétta er að um helmingur þeirra sem voru drepnir voru kristnir og hinn helmingurinn gyðingar. Árið 1945 höfðu Pólverjar tapað um 25% þjóðarinnar í síðari heimstyrjöldinni, og skyldi eftir sig um eina milljón munaðarleysingja. Þjóðin tapaði um 38% af eigum sínum, á meðan Bretar töpuðu um 1% og Frakkar einnig um 1%.
Í júní, árið 1945 fengu Pólverjar aftur sjálfstæði. Næstu áratugir voru erfiðir. Kommúnistar héldu völdum. Starfsskilyrði voru erfið, laun lág og fátækt mikil. Mikið var um verkföll, sem jafnvel var brugðist við með hervaldi.
Árið 1989 var kommúnismi aflagður í Póllandi, og loks fór ástandið að skána. Pólland gekk í NATO 1999 og í Evrópusambandið árið 2004.
Myndir og upplýsingar: Wikipedia.org. Hægt er að finna upprunalega slóð allra mynda með því að hægrismella á þær og velja properties.
Athugasemdir
HAHAHAHAHAHA
Þú ert ekki hægt Hrannar
Ómar Ingi, 24.3.2008 kl. 12:53
Komdu sæll og gleðilega páska. Þakka fínan pistil. Eina sem þú ekki tekur fram er að gyðingar héldu landinu gangandi hvað iðnaðarstéttir snertir í gegnum aldirnar. Þess vegna meðal annars þessi rosalegi antisemetismi til staðar ennþá í Póllandi.
Þó saga Póllands sé svona blóðug og sorgleg þá veitir hún þeim engan rétt að ríða húsum eins og þeir gera á vesturlöndum, ekki bara á Íslandi, en annarsstaðar líka. Þeir eru óvinsælir allsstaðar. því miður. Með beztu kveðju.
bumba (IP-tala skráð) 24.3.2008 kl. 13:27
Ómar: víst er ég hægt. :)
Bumba: Það er margt fleira sem ég tek ekki fram, enda er saga Pólverja margslungin. Ég veit nú lítið um óvnisældir Pólverja alls staðar, en sé ekki betur en að ástæða allra þessara styrjalda í margar aldir búi frekar í staðsetningu Póllands heldur en samfélagsgerð pólskra einstaklinga. Það er hins vegar önnur og erfiðari spurning, hvaða áhrif hafa styrjaldir á þjóðarsálir?
Ef þú lifðir með þá þekkingu alla þína ævi að einhverjir af þínum forfeðrum hafa verið drepnir í stríðum, þá spyr ég mig hvort að það hafi áhrif á það traust sem ég get borið til annarra einstaklinga.
Hrannar Baldursson, 24.3.2008 kl. 13:48
sæll frændi! =)
Gaman að rekast á þig hér! =)
góður og áhugaverður pistill!
Kveðja frá Ungverjalandi
Katrín Björg (IP-tala skráð) 24.3.2008 kl. 14:43
Sæll aftur. Það má vel vera að það sé svo. Ég er hef búið erlendis meira eða minna í 7 löndum fyrir utan Ísland síðan 1969. Kom heim í stuttan tíma '93 til '97 og svo aftur 2001 og til dagsins í dag. Þó hef ég á báðum þessum tímabilum þurft að sinna störfum mínum erlendis.
Sízt ætti það að sitja á mér að gagnrýna útlendinga Hrannar, þar sem ég hef sjálfur verið útlendingur miklu meira en helming ævi minnar. Ég er kannski mesti útlendingurinn á Íslandi, (það finns mér mjög oft), allt er svo breytt að stundum skil ég ekki neitt í neinu. En að dæma þá útlendingana, það geri ég ekki. Heldur segi ég bara frá þeirri reynslu sem ég hef upplifað í þessum löndum sem ég hef búið í. Hún hefur því miður ekki alltaf verið góð.
Amma mín var afskaplega klók kona. Hún var viðlesin. Einu sinni sagði hún við mig þegar sýnt þótti að ég myndi dvelja lengi í útlöndum. "Kínverskur málsháttur segir: Þar sem þú ert gestur þá vertu kurteis. Þar sem þú ert gestur til langframa þá leggðu þig fram að læra tungumál gestgjafa þíns. Annars muntu aldrei læra að þekkja sál hans né þjóðar hans". Þessa kínversku speki hef ég haft af leiðarljósi undanfarin 39 ár. Þess vegna hef ég lagt mig allan fram að læra mál þeirra þjóða sem ég hef dvalið hjá og ilengst í lengri eða skemmri tíma. Þess vegna tala ég 9 tungumál reiprennandi, ekki út af því að ég sé eitthvað málaséní, það er ég ekki, heldur hef ég reynt af fremsta megni að vera kurteis. Það er aðalástæðan. Þess vegna á ég mjög erfitt með að kyngja því að útlendingar sem koma til Íslands og veigra sér við að læra málið okkar ylhýra og oft með samþykki okkar ísledinga með því yfirskyni að málið sé svo erfitt. Ég bara samþykki þetta ekki. Ég sæi framan í frakka, þjóðverja, hollendinga, ítali ef útlendingarnir hjá þeim töluðu bjagaða ensku í búðum eða annarsstaðar þar sem þeir eða þær gegna þjónustustörfum. Það er og verður ekki liðið. En við, fíflin, íslendingarnir, segjum jú jú allt í lagi. Ég fyrirlít svona anarkisma. Það er ekki furða þó ekki gangi allaf vel á Íslandi með svona hugsunarhátt.
En svo er fullt af fólki af erlendu bergi brotið se leggur sig virkilega fram til að læra íslenzkuna. Og tala hana margir afskaplega vel. Það ber að þakka og styðja af fremsta megni. Að maður skuli þurfa að leita orðið með logandi ljósi liggur manni við að segja í sumum búðum eftir því að ná tali af einhverjum sem talar íslenzku á Íslandi, það er ókurteisi og mér liggur við að segja andstyggð af landans hálfu. Ætti ekki að eiga sér stað. Þetta er mín skoðun og við hana stend ég. Með beztu kveðju.
bumba (IP-tala skráð) 24.3.2008 kl. 16:36
Við eigum greinilega ýmislegt sameiginlegt Bumba. Ömmur okkar báðar vitrar, við höfum báðir upplifað að vera útlendingar erlendis, lært þau tungumál sem rædd voru á svæðinu, - og erum sjálfsagt þess vegna hneykslaðir á því að varla lengur notað íslensku þegar maður skreppur út í búð.
Gott innlegg hjá þér. Takk.
Kata: Gaman að fá þig í heimsókn. Hvernig gengur að læra ungversku?
Hrannar Baldursson, 24.3.2008 kl. 17:13
Takk fyrir góða pistla bæði tvö (frummælandi og síðasti ræðumaður að svo stöddu)
Góð þessi kínverska speki. Þeir pólverjar og Litháar (af því þeir eru líka svo oft í fréttum) sem ég þekki og hafa lagt sig fram að tala íslenskuna vel vegnar vel hér á landi og finna sig í íslensku samfélagi og eru stoltir þegnar landsins. Svo eru aðrir af landar þeirra sem vilja ekki reyna læra okkar "ylhýra", því miður virðast þeir ekki eins hamingjusamir og sáttir, ýmislegt sem þeir geta haft á hornum sér.
Ég skil ekki þessa meðvirkni okkar íslendinga. Er þetta liður í að aumingjavæðast, og halda að við séum eitthvað góð og segja "aumingja útlendingarnir, þeir eiga svo bágt". Ekki myndi ég vilja vera álitinn "aumingja útlendingurinn" í öðru landi .
Gleðilega páskarest
Jóhanna Garðarsdóttir, 24.3.2008 kl. 17:28
Fróðlegasta lesning fyrir mig búandi í samfélagi blönduðu stórum hópi fólks frá Póllandi. Yfirleitt friðsamt, dugnaðarfólk enda er svo sem enginn að segja annað hér. Samskipti við okkur Íslendingana eru harla lítil og þar spila tungumálaörðugleikar stærstu rulluna. Það er nú þannig að það virðist allt ganga svo vel hjá þeim sem flytja hingað, eingöngu talandi pólsku þá meina ég við að sækja alla þjónustu enda reynum við að sýna liðlegheit. Þegar fyrirstaðan er lítil sem engin í að bera sig eftir björginni á nýja staðnum dregur það úr nennu til að læra íslenskuna. En sem betur fer ekki hjá öllum. Við eigum einmitt að gera mun strangari kröfur íslendingar um að fólk fái íslenskukennslu og einhverja fræðslu um grunngerð samfélags okkar, ætlum við að bjóða fólk velkomið.
Anna (IP-tala skráð) 24.3.2008 kl. 18:31
Heyrðu, Ungverskan mætti ganga betur... Fengum örstutt námskeið í upphafi skólans. Ekki beint besta kennslan þannig maður þarf að vera duglegur að læra eitthvað sjálfur..
Versta er að þetta er svo ótrúlega erfitt mál..kann að segja :kerek egy taxi... jó napot kivanok (góðan daginn)
Kata (IP-tala skráð) 24.3.2008 kl. 19:13
Flottur pistill, las hann allan. Það er hræðilegt hvað þessi þjóð hefur þurft að líða. Við hér getum ekki skilið það. Pirringur út í útlendinga finnst mér hallærislegur. Auðvitað lærir fólk íslensku ef það ætlar að ílengjast hér. Skil vel útlendinga sem nenna ekki að læra íslensku ef þeir eru ákveðnir í að fara aftur heim.
Þórdís Bára Hannesdóttir, 24.3.2008 kl. 20:24
Þeir virðast bara hafa ofbeldisgen í sér ,,orginal,,..er þetta of rasískt?
Númi (IP-tala skráð) 24.3.2008 kl. 23:05
Það vantar eitthvað upp á söguþekkinguna hjá þér, í það minnsta minnist þú ekkert á Pólland-Sovét stríðið 1919-1921 en segir að þá hafi verið friðartímar í Póllandi sem er náttúruleg heljarinnar vitleysa. Í ágúst 1920 var háð Orustan um Varsjá þar sem herir bolsévika réðust gegn borginni(eftir að hafa hertekið stóran hluta Póllands) með fyrir augum að koma á fót Sovét-Póllandi. Póllverjum tókst á síðustu stundu að snúa stríðinu sér í vil og hrekja bolsévika í burtu. Telja þetta einn sinn mesta hernaðarsigur að ég held. Meðal þáttakenda í þessu stríði var de Gaul(að láni frá Frökkum).
Kalli (IP-tala skráð) 25.3.2008 kl. 00:54
Góð færsla. Vildi bara bæta við að fáni Póllands er tvílitur, rauður að neðan og hvítur að ofan. Pólskur kunningi minn sagði mér að þetta táknaði blóðuga fortíð, eða blóði drifna jörð, og bjarta framtíð.
Villi Asgeirsson, 25.3.2008 kl. 09:13
Blessaður Kalli. Vissulega er söguþekking mín á Póllandi ekki fullkomin. Þakka þér fyrir leiðréttinguna.
Áhugaverðar upplýsingar um pólska fánann, Villi.
Hrannar Baldursson, 25.3.2008 kl. 09:32
Það er líka staðreynd að flestum pólverjum fannst ekkert leiðinlegt þegar nasistarnir tóku gyðingana.
Steini (IP-tala skráð) 25.3.2008 kl. 11:03
Steini: Þetta getur ekki ekki staðreynd, þar sem ómögulegt er að sanna fullyrðinguna. Það getur verið staðreynd að það snjói út. Það getur verið staðreynd að það sé 4 stiga frost. Það getur hins vegar ekki verið staðreynd að flestum finnist kalt, jafnvel þó að rannsóknir styðji það. Tilfinningar, fordómar og huglægt mat eru ekki staðreyndir.
Hrannar Baldursson, 25.3.2008 kl. 11:29
Nú vinn ég með stórum hóp Pólverja. Einn þeirra er enn feiminn við að tala íslensku, en situr samt öllum stundum yfir íslenskum textum - með orðabókina við hliðina á sér. Annar notar hvert tækifæri til að spyrja mig um merkingar hinna og þessarra orða og kennir mér pólsku hugtökin á móti.
Ég legg mig fram við að tala skýra íslensku við strákana, gríp til enskunnar ef það er ekki nóg - og pólsku orðabókarinnar ef enskan dugar ekki til.
Það er ekki hægt að ætlast til þess að fólk læri tungumál einn, tveir og þrír, en á meðan það er að "aðlagast" þarf að sýna því þolinmæði.
Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 25.3.2008 kl. 11:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.