3:10 to Yuma (1957) ****

3:10 to Yuma (1957) ****

Ben Wade (Glenn Ford) og glæpaflokkur hans ræna gullsendingu frá herra Butterfield (Robert Emhardt) og til að stoppa vagn hans nota þeir nautgripi frá bónda í nágrenninu. Þessi bóndi, Dan Evans (Van Heflin) verður vitni að ráninu ásamt tveimur sonum sínum. Hann situr aðgerðarlaus á hesti sínum og lætur Wade fá sinn eigin hest og sona sinna þegar hann biður um þá. Dan Evans er einfaldlega skynsamur maður sem vill ekki hætta lífi sona sinna við ómögulegar aðstæður.

Yngri sonurinn er hissa á föður sínum að gera ekkert í málunum, og eiginkona hans, Alice Evans (Leora Dana) er undrandi að heyra að hann hafi staðið aðgerðarlaus hjá á meðan glæpur var framinn, gefur honum augnaráð eins og hún sé hissa á honum og þekki hann ekki almennilega. Það er ljóst að stolt hans er sært.

Það hefur verið þurrkur í þrjú ár og nautgripir hans eru að skrælna. Eina leiðin til að þeir geti lifað af er ef þeir fá að drekka úr læk sem rennur um jörð nágrannans. Þessi réttur mun hins vegar kosta hann 200 dollara. Dan fer í bæinn til að biðja um lán. Hann slysast til að vera réttur maður á réttum stað, eða rangur maður á röngum stað, því að hann nær að handsama Ben Wade ásamt bæjarbúum. Þegar hann fær ekki lánið en er boðið 200 dollara til að fara með Wade til lestarstöðvar þar sem lest fer um kl. 15:10 á leið til Yuma, ákveður hann að taka starfið.

Það sem kemur helst á óvart er að glæpamaðurinn Ben Wade er ekki eins og glæpamenn eru flestir. Hann er þægilegur og rólegur í umgengni, greinilega mjög gáfaður og sýnir því sem hann telur hafa gildi mikla virðingu. Herra Butterfield og bæjarróninn Alex Potter (Henry Jones) fara með þeim að lestinni.

Eftir að komið er inn á hótel þar sem þeir Wade og Evans bíða lengi inni á hótelherbergi, ræða þeir saman, og virðing Wade fyrir Evans fer dýpkandi. Þegar ræningjahópur Wade kemur í bæinn og Evans stendur einn eftir, þarf Evans að taka ákvörðun. Honum eru boðnir gull og grænir skógar fyrir að sleppa glæpamanninum, en stolt hans hefur verið sært og til eru hlutir mikilvægari en peningar og jafnvel lífið sjálft. Þetta er nokkuð sem Wade skilur og ber nú mikla virðingu fyrir heilindum bóndans, og nú stendur hann í þeim vanda að koma fangaverði sínum lifandi í gegnum hans eigin ræningjahóp á leið þeirra að lestinni til Yuma kl. 15:10.

3:10 to Yuma er hörkuspennandi og vel leikinn vestri. Ég hef ekki séð nýju útgáfuna frá 2007, get varla beðið eftir að hún komi út á DVD, þar sem að hún fær hörkudóma líka. Handritið er líka vel skrifað, eftir smásögu Elmore Leonard.

3:10 to Yuma fjallar um virðingu, heiður, vináttu, traust, bræðralag og hugrekki á mjög spennandi hátt. Ég hef lengi haft mikið dálæti af vestrum þar sem hetjurnar klóra sig í gegnum stanslausa erfiðleika og lifa það stundum af, en stundum ekki. Ég mæli afdráttarlaust með þessari útgáfu af 3:10 to Yuma.

Sýnishorn:


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Horfi stundum á þessar gömlu á T C M  frábærlega gaman.

Ásdís Sigurðardóttir, 5.2.2008 kl. 19:49

2 Smámynd: Fröken M

Ég sá nýju útgáfuna og fannst hún æðisleg.

Það vill ekki svo vel til að þú getir mælt með fleiri gömlum og góðum vestrum?

Fröken M, 6.2.2008 kl. 13:23

3 Smámynd: Hrannar Baldursson

Spurning hvort að næsti listi á eftir Vísindaskáldsögunum verði ekki vestrar. Svona í fljótu bragði fyrir góða vestra dettur mér helst í hug The Proposition, Unforgiven (og nánast hvaða Clint Eastwood vestri sem er), svo og allir vestrar eftir Sergio Leone og John Ford. Ég hafði mjög gaman af Silverado, þó að hún sé töluvert léttmeti miðað við þær fyrrnefndu.

Hrannar Baldursson, 6.2.2008 kl. 19:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband