Inland Empire (2006) *1/2
14.11.2007 | 23:09
Það er nánast hægt að kalla mig aðdáanda David Lynch. Ég hef séð flestar hans myndir og verið mjög hrifinn af mörgum þeirra, eins og Wild at Heart, The Lost Highway, Mulholland Dr., Blue Velvet og The Straight Story, auk sjónvarpsþáttaraðarinnar Twin Peaks. Inland Empire hitti ekki í mark hjá mér.
Inland Empire gerist í huga einhverrar manneskju, en það er aldrei ljóst í hvers huga það er. Sigaunakona (Grace Zabriskie) heimsækir leikkonuna Nikki Grace (Laura Dern), fær kaffisopa hjá henni og segir henni frá því hvernig hún muni sjá eftir morgundeginum. Spúkí hugmynd sem vekur eftirvæntingu.
Grace fær hlutverk í kvikmynd sem gerð verður eftir handriti sem trúað er að bölvun hvíli á. Fólk tekur þessari bölvun sæmilega alvarlega, en leikstjórinn Kingsley Stewart (Jeremy Irons) og handritshöfundurinn Freddie Howard (Harry Dean Stanton) segja ekki aðalleikurunum frá þessu fyrr en þau hafa byrjað undirbúning og geta ekki hætt við. Ennþá er hugmyndin spennandi.
Grace lifir sig inn í hlutverk sitt af það miklu afli að hún hættir að gera greinarmun á sjálfri sér og Susan Blue, persónunni sem hún leikur, þar til á endanum að hún hverfur algjörlega inn í hugarheim hennar, og ekki er lengur ljóst hvort að leikkonan fari með hlutverk persónunnar eða persónan með hlutverk leikkonunnar. Grace fer að upplifa hluti sem virðast tengjast öðrum konum sem hún hefur leikið, og konum sem hafa lent í sama manni og þeim sem Susan lendir í.
Hugmyndin er fín og minnir töluvert á Mulholland Dr. og The Lost Highway, en það er bara alltof margt sem klikkar í framkvæmd. Í fyrsta lagi er ekkert sérstaklega skemmtilegt að horfa á myndina sem er líka alltof löng fyrir efni sem gæti rúmast í hálftíma stuttmynd, en hún er 180 mínútur að lengd. Það er að hluta til vegna þess hversu leiðinleg kvikmyndatakan og klippingin er. Þar að auki ofleika leikararnir um of. Yfirleitt notar David Lynch ofleik með snilldarlegum jöfnuði milli veruleika sögunnar og ástands persóna; hann hittir bara einfaldlega ekki í mark hérna.
Ljóst er að það þyrfti að leggja á sig töluverða vinnu í til að skilja Inland Empire og persónur hennar fyllilega, en málið er að hún er ekki nógu áhugaverð til að gefa réttlætanlegt tilefni til þess. Ég hef ekki hugmynd um hvað eitthvað fólk með kanínuhausa er að gera í hugarheimi Lynch, né hvers vegna Lynch ákveður að steypa mynd sem endurtekur senur úr eldri myndum hans, eins og þegar læðst er inn í myrkrað herbergi, farið er fyrir horn og tónlistin á að magna upp einhverjar tilfinningar.
Málið er að Lynch getur gert þetta meistaralega vel, en mistekst í þetta skiptið. Það eru vissulega eftirminnileg atriði í myndinni, sem vekja mann til umhugsunar um hvað maðurinn hafi eiginlega verið að pæla; en það er of lítið af þeim, of langt á milli þeirra og maður hefur aldrei á tilfinningunni að þessar pælingar séu nokkurs virði.
Inland Empire reynir því miður meira á þolinmæðina en nokkuð annað.
Sýnishorn úr Inland Empire:
Flokkur: Kvikmyndir | Facebook
Athugasemdir
leiðinlegt að heyra að kallinn hafi misstigið sig svona. en blue velvet og lost highway eru gjörsamlega frábærar.
leiðinlegt líka ef þetta stórkanónulið er að ofleika svona. kannski bara óverkastað.
eitt sinn kom bróðir minn til mín og henti sér í sófann. sagðist hafa verið í bíó og séð mynd sem hann hefði ekki hugmynd um hvað var nema hún hefði verið frábær. sofnaði svo.
lost higway sko. sá hana tvisvar. í bæði skiptin góð.
arnar valgeirsson, 14.11.2007 kl. 23:38
.. en ég fór í bíó í kvöld og sá syndir feðranna. ekki skemmtileg en ótrúlega áhrifarík. glimrandi fín þrátt fyrir allan dapurleikann.
það eru ekki alltaf jólin sko en allir hafa gott af því að sjá hana.
arnar valgeirsson, 14.11.2007 kl. 23:40
Alltaf góður takk fyrir mig.
Ásdís Sigurðardóttir, 15.11.2007 kl. 00:03
Ah, mér fannst hún góð þegar ég sá hana, reyndar hugsaði ég ekki jafn mikið um hana og hinar myndirnar sem hann hefur gefið út.
Alvy Singer, 15.11.2007 kl. 00:27
Ég hef séð Inland Empire 3X og hún batnar við hvert áhorf.
Skil ég hana?
Já og nei. Ég skil hana betur en ég hef ekki enn náð að hnýta alla þræðina saman.
Skiptir það máli?
Nei! Andrúmsloftið er magnað og það eitt dugar mér. Þetta er ein besta mynd Lynch að mínu mati.
Þorkell Ágúst Óttarsson (IP-tala skráð) 15.11.2007 kl. 00:59
Arnar, ég held að aðal vandamálið við Inland Empire sé klippingin. Það hefði örugglega verið hægt að stytta hana um helming án þess að tapa nokkru.
Ásdís. Takk sömuleiðis.
Alvy, það væri gaman að heyra frá þér hvað þér fannst gott við hana?
Þorkell, ég varð einmitt fyrir vonbrigðum með andrúmsloftið. Ég hafði á tilfinningu allan tímann að ég væri að horfa á mynd tekna upp með ódýrum digital myndavélum, og atriðin sem áttu að skapa andrúmsloftið voru endurtekningar úr fyrri myndum, og þar af leiðandi Lynch klisja. Kannski til að auðvelda hnýtingu lausu endana hefði mátt kalla myndina "I'm every woman" í stað Inland Empire.
Inland Empire flokkast með þeim myndum sem reyna mikið en gera lítið. Hún reynir að búa til sérstakan heim, og tekst það að einhverju leyti, en skemmtanagildið er bara ekki til staðar. Málið er að Lynch myndir hafa yfirleitt spennandi söguþráð og svo undarlegan undirtón. Í Inland Empire er bakgrunnurinn orðinn að aðalleikara, og mér fannst það einfaldlega ekki ganga upp.
Hrannar Baldursson, 15.11.2007 kl. 09:35
ég elska David Lynch en hef svosem engan sérstakan áhuga á að sjá þessa mynd, ætli ég horfi ekki frekar á Twin Peaks í sjöunda sinn (fyrstu 16 þættina amk) svo náði ég aldrei hvað var svona frábært við Wild at heart, ég reyndi að horfa á hana amk 3, en það tókst aldrei. Laura Dern fer líka í taugarnar á mér. En jamms, takk fyrir upplýsingarnar!
halkatla, 15.11.2007 kl. 17:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.