Öngstræti þeirra sem vantar visku
22.12.2023 | 17:50
Ósnotur maður
hyggur sér alla vera
viðhlæjendur vini.
Hitt-ki hann finnur,
þótt þeir um hann fár lesi,
ef hann með snotrum situr.
- Hávamál
Flest okkar skortir visku með einum eða öðrum hætti. Við lærum fljótt að fela þennan skort, til dæmis með að hlæja að bröndurum sem við skiljum ekki þegar einhverjir aðrir hlægja, með því að vera svolítið meðvirk.
Eins og segir í þessu ljóði Hávamála sem vitnað er í hér að ofan, þá áttar hinn óvitri sig ekki á að þeir sem þykjast vera sammála honum eru ekkert endilega vinir hans, og áttar sig ekki þegar aðrir hæðast að honum. Þetta er frekar leiðinleg staða fyrir manneskju.
Góðu fréttirnar eru þær að það er hægt að snúa sér frá því að vera óvitur og stefna á visku. Það getur þýtt ýmsar fórnir, eins og að lesa meira, læra meira, hugsa betur og taka betri ákvarðanir, sem þýðir að maður getur sjálfsagt ekki skemmt sér og verið kærulaus öllum stundum.
Sá sem skilur ekki hlutina, sá sem getur ekki tekið góðar ákvarðanir, sá sem getur ekki hagað sér skynsamlega, sá sem getur ekki stutt við aðra án þess að hugsa fyrst um sjálfan sig og sína, það er fólkið sem er óviturt.
Hinn óvitri er líklegur til að telja sig skilja kjarna hvers einasta málefnis, þrátt fyrir að hafa rétt skrapað í hismið. Sá vitri hefur hins vegar fjarlægt hismið og komist að kjarna hvers máls með rannsóknum og rökhugsun. Hinn óvitri telur sig vita eitthvað sem hann ekki veit, og byggir það á skoðunum sínum, sem geta auðveldlega verið byggðar á einhverju öðrum en rannsóknum og rökhugsun.
Hinn óvitri á erfitt með að taka ákvarðanir. Hann þekkir ekkert endilega muninn á réttu og röngu, eða góðu og illu, skynsamlegum leiðum og ógöngum. Þannig flækist hinn óvitri stöðugt fyrir sjálfum sér.
Hinn óvitri gerir mistök og skammast sín fyrir þau, og reynir að fela þau, lætur engan vita að hann hafi gert þau, og ef honum tekst að hylja spor eigin mistaka hefur hann ekkert annað lært en að fela mistök. Sá vitri horfist hins vegar í augu við eigin mistök, og er tilbúinn að viðurkenna þau, og jafnvel eigin skort á þekkingu eða skilning. Þannig lærir hann á eigin mistökum, og ekki nóg með það, hann fylgist með frásögnum af mistökum annarra, til þess að læra af þeim, því hvað er betra en að geta lært af mistökum annarra frekar en að þurfa að gera mistök sjálfur?
Þá sem skortir visku eru oft uppteknir af sjálfum sér, telja að heimurinn snúist um þá, að allt sem þeir sjá hljóti að vera það sem allir aðrir sjá. Hinn vitri áttar sig hins vegar á hvernig hvert og eitt okkar er eins og mjór þráður í miklu teppi sem tengir okkur öll saman, og áttar sig á, með auðmýkt, að lítill þráður hefur kannski lítið að segja, en án hans verður teppið ekki jafn traust og gott.
Það er samt ekki það sama að vera upptekinn af sjálfum sér og leita sér sjálfsþekkingar. Sá sem leitar sér þekkingar á sjálfum sér er ekkert endilega upptekinn af sjálfum sér, heldur er að læra um fyrirbæri sem enginn annar getur nálgast með sama hætti, og þetta nám á manni sjálfum getur vakið mikla undrun. Sá sem er upptekinn af sjálfum sér, eins undarlega og það kann að hljóma, hefur líkast til afar lítinn áhuga á að læra um sjálfan sig, eða veit ekki hvert best er að snúa sér í slíkri rannsókn.
Sá sem skortir visku virðist ekki vera að horfa í átt að því sanna og góða, heldur horfir á skuggamyndir, eins og Platón lýsir í hellislíkingu sinni. Í þeirri líkingu sat heil þjóð hlekkjuð við vegg djúpt í helli nokkrum og kepptist við að greina skuggamyndir á vegg sem birtist fyrir framan það, en á bakvið þau logaði eldur sem varpaði skuggamyndum á vegginn sem þau voru svo upptekin við að greina.
Það eru margar skuggamyndir sem trufla okkur frá því að sjá hið sanna og góða. Sjálfsagt eru þær ólíkar í nútímanum, en engu að síður til staðar, í alls konar formi og gerð. Hvort betra sé að lifa í samfélagi skuggamynda eða sannleikans er svo önnur og stærri spurning.
Athugasemdir
Ég heyrði þetta í æsku: "Sælir eru fattlausir, því þeir fatta ekki hvað þeir eru vitlausir."
Wilhelm Emilsson, 22.12.2023 kl. 21:20
Það er sjálfsagt eitthvað til í þessu, Wilhelm.
Hrannar Baldursson, 23.12.2023 kl. 09:31
Takk fyrir svarið, Hrannar. Gaman að lesa um hvernig þú tvinnaðir saman Hávamál og Plató í pistlinum. "Vits er þörf / þeim er víða ratar." Gleðileg jól og farsælt komandi ár.
Wilhelm Emilsson, 23.12.2023 kl. 11:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.