Hvernig bregstu við eigin reiði?

fist-1148029_1920 

Hver kannast ekki við það að hafa allt í einu fundið til mikillar reiði, svo mikillar að maður hvorki sér né heyrir neitt lengur, heldur hefur ríka tilhneigingu til að bregðast við?

Við stjórnum reiðinni misjafnlega vel. Sumir hafa stuttan kveikiþráð, aðrir lengri. Sumir átta sig á mikilvægi þess að láta hugsunina ráða ferðinni, aðrir leyfa tilfinningunum að taka völdin. 

Þeir sem leyfa reiðinni að taka völdin eru fljótir að bregðast við alls konar áreiti, jafnvel þó að stundum væri betra að gera ekki neitt. 

Það er margt sem getur vakið í okkur reiðina, en það er yfirleitt eitthvað sem stríðir gegn okkar lífsspeki, hvort sem hún er djúp eða grunn. 

Mikið af fólki fær útrás fyrir reiðinni með alls konar hætti, til dæmis gerist það þegar það fylgist með íþróttaleikjum, og þá er oft auðvelt að reiðast andstæðingum þess sem að maður heldur með eða dómaranum. Það losar um eitthvað að geta rifist út af einhverju sem gerðist.

Svona útrás er hægt að fá með því að lesa sögu, fara í leikhús, horfa á sjónvarpsþátt eða kvikmynd, því sögurnar búa til persónur sem við getum haldið með og séð sjálf okkur í, og svo þegar illmenni gerir eitthvað á þeirra hlut, þá bregst persónan misjafnlega við áreitinu, en það sem hún lendir í kallar á áhuga okkar og viðbrögð.

Þetta er allt góður undirbúningur fyrir augnablikin sem við finnum fyrir réttlátri reiði í lífinu sjálfu, þegar einhver gerir á okkar hlut, stelur eða lýgur, brýtur einhvern veginn gegn okkur. Þá verðum við kannski búin að fá einhverja þjálfun í hvernig best er að bregðast við, með því að skoða okkar eigin viðbrögð í leik eða sögu.

Þau sem velta þessum hlutum fyrir sér eru líklegri til að ráða við eigin reiði, en þau sem gera það ekki eru líkleg til að gera eða segja eitthvað sem þau sjá síðan eftir. Slík reiðiköst geta haft afdrifaríkar afleiðingar í samskiptum við annað fólk, þegar kemur að starfsfélögum, vinum og fjölskyldu. Það er ekki hægt að gera ráð fyrir því að afsökunarbeiðni sé nóg þegar einhver hefur leikið af sér í reiðikasti. 

En þegar maður reiðist, þá gerist þetta óhjákvæmilega. Maður hættir að hlusta og fylgjast með. Það verða svo mikil læti innra með manni að ekkert annað kemst að. Gamalt heimilisráð er að telja hægt upp að tíu og ef það dugar ekki telja aftur á bak frá tíu til núll. Það virkar ekkert endilega alltaf, en öðru hverju ætti það að duga.

Ég velti svolítið fyrir mér hvort að skapið okkar sé eitthvað sem okkur er gefið frá fæðingu og verður aldrei stjórnað, eða hvort við getum lært inn á okkar eigin skap og lært að stjórna því. Það held ég að sé hægt að einhverju leyti, en kannski blossar skapið alltaf upp í okkur misjafnlega sterk og kannski er það í sjálfu sér óviðráðanlegt, og það eina sem við getum gert er að stjórna viðbrögðum okkar, þegar við höfum vit á því.

Mynd eftir wendy CORNIQUET frá Pixabay


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

 

Þetta segir Biblían: Vitið bræður mínir elskaðir. Hver maður skal vera fljótur til að heyra, seinn til að tala, seinn til reiði. Og Bókin helga talar aftur og aftur um reiði Guðs að Hann reiðist sannarlega, en missir aldrei stjórn á skapi sínu. Það hefur afleiðingar að reita Guð til reiði. Hann refsar.

Við sem erum í Kristi, bræður hans, reiðumst eins og hann, en missum ekki stjórn á skapi okkar fyrir Guðs náð.

 

Guðmundur Örn Ragnarsson (IP-tala skráð) 31.5.2021 kl. 00:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband