Getum við útrýmt illsku, fáfræði og heimsku úr heiminum eða okkur?

stormtrooper-1343877_1920

Það er margt sem getur pirrað við heiminn. Eitt af því er fólk sem er á ólíkri skoðun um lífið og tilveruna, sérstaklega þegar það eru stjórnmálamenn eða predikarar sem reyna að yfirfæra eigin skoðanir yfir á alla aðra í samfélaginu. Annað er COVID-19 sem hefur alltof lengi fengið að grassera um allan heim. Enn eitt er fólk sem ber ekki virðingu fyrir lögum um sóttvarnir og hafa hamlandi áhrif á líf fjölda manns. Og annað er fólkið sem fordæmir alla þá sem tilheyra ákveðnum menningarheimi og halda uppi hatursumræðu um hópa fólks.

Allt þetta er illt og getur verið pirrandi. En eitt virðist sameiginlegt með allri illsku heimsins, hún virðist eiga sér upphaf í fáfræði og heimsku, grunnum skoðunum og fordómum, slæmu skapi og leiðindum.

En þessi illska, rétt eins og fáfræðin og heimskan, er endalaus í eðli sínu og útilokað fyrir eina manneskju eða jafnvel allt mannkynið að útrýma henni. Þó að það takist í eina sekúndu um alla veröld, þá myndi þetta augnablik vera fljótt að glatast þar sem tímanum tekst að rústa öllu á endanum, bæði góðu og illu.

Það er samt hægt að taka á illsku, fáfræði og heimsku að einhverju leyti, í smáum hluta heimsins, í okkur sjálfum. Ef við í stað þess að kenna öðrum um eitthvað slæmt sem hefur gerst og lítum frekar í eigin barm, veltum fyrir okkur hvað við gætum hafa gert betur til að koma í veg fyrir þessar aðstæður, þá gætum við kannski fundið eitthvað sem mögulegt er að lagfæra. Það sama með fáfræði og heimsku, í stað þess að kvarta yfir fordómum og hleypidómum annarra, hvernig væri þá að leggja á sig þá vinnu sem það kostar að skoða eigin hug? Hvernig væri að nota tímann til að læra, til að hrista aðeins upp í þessu lífi sem við lifum, koma okkur út fyrir þægindarammann og lifa aðeins?

Ég fyrir mitt leyti skrifa þetta blogg, les mikið og reyni að koma mér í krefjandi aðstæður. Ekki held ég að það muni breyta heiminum. Ekki held ég að það muni breyta skoðunum einhvers sem les þetta blogg. Hugsanlega kveikir það einhverjar hugmyndir og getur verið tilefni til spjalls á föstudagskvöldi. Hins vegar gerir það mér gagn. Það gefur mér færi á að hugsa upphátt og hrópa þessar hugsanir út í heiminn, svipað og að standa út í fjöru og öskra að ólgandi öldusjó, nógu hátt til að ég hlusti sjálfur, án þess að það hafi nokkur áhrif á hafið og vindinn.

Það er nefnilega svolítið merkilegt sem gerist þegar maður færir eigin hugsanir í orð, þessar hugsanir sem voru kannski grófar og út um allt, slípast aðeins til og verða skarpari. 

 

Mynd: Pixabay


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þórhallsson

"EFTIR HÖFÐINU DANSA LIMIRNIR!"

(Segir máltækið).

Ef að það getur verið bara 1 HVÍTUR KÓNGUR 

á venjulegum skákborðum;

hvar ætti sá HEIMAREITUR  að vera

á skákborði

raunveruleikans?

---------------------------------------------------

Er það

1.Altaristaflan í kirkjunni á Sauðárkróki?

2.Altarið inn í Hallgrímskirkjunni?

3.Altaristaflan inn í Dómkirkjunni í rvk?

4.Starfandi forseti íslands hverju sinni?

5.Eitthvert af kóngafólkinu í Evrópu?

6.Páfinn?

7. Framkvæmdastjóri Sameinuðuþjóðana?

=Getum við landsmenn /jarðarbúar komið okkur saman

um einhvern 1 fermeter hér á jörðu?

Jón Þórhallsson, 21.4.2021 kl. 10:42

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Drottningin er langöflugasti taflmaðurinn á skákborðinu, öflugri en biskupinn, og kóngurinn, hvítur sem svartur, er drusla sem þarf að verja með öllum ráðum alla skákina. cool

Þorsteinn Briem, 21.4.2021 kl. 11:24

3 Smámynd: Jón Þórhallsson

HVÍTI Kóngurinn hlýtur alltaf að vera "HÖFUÐ" góðu aflanna.

Það er til máltæki sem að hljómar svona:

"Það þurfa alltaf að vera til MIÐJUR til að skilja heiminn;

finnur þú MIÐJUNA; þá öðlast þú helgan frið".

Jón Þórhallsson, 21.4.2021 kl. 11:51

4 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Sæll Hrannar

Grein þín hér er áhugaverð lesning, fær mig til að hugsa. Þakka þér fyrir að deila hugsunum þínum með mér.!!!

Tómas Ibsen Halldórsson, 21.4.2021 kl. 13:18

5 Smámynd: Hrannar Baldursson

Takk fyrir athugasemdirnar. Jón, ætti að vera einhver heimareitur í veruleikanum? Lífið er ekki skák.

Þorsteinn: þó að drottningin sé öflugust á skákborðinu, þá skiptir mestu fyrir góða skák að öllum taflmönnum sé beitt sem teymi. 

Tómas. Þakka þér. smile

Hrannar Baldursson, 22.4.2021 kl. 11:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband