Munurinn á fræðslu og námi
8.3.2021 | 22:11
Fræðsla getur verið gríðarlegt kerfi sem nær út um alla mannlega tilveru, hvert sem þú lítur, og er ætlað að þjóna öllu mannkyninu, eða lítið kver sem hannað er til að þjóna fáum. Mikið af fólki kemur að fræðslu, ekki bara leiðbeinandi eða kennari, heldur líka þeir sem vinna á skrifstofunni, sjá um bókhald og skráningu, stjórnendur, ráðamenn, fræðimenn, rithöfundar, hönnuðir námsefnis og fleiri. Allt þetta kerfi skipuleggur og framkvæmir fræðslu, stundum er það virkilega gott, stundum er það hræðilega lélegt. En óháð gæðum þess getur nemandinn, sá sem sér um námið, annað hvort lært mikið eða lítið.
Nemandi getur lært af nánast hvaða aðstæðum sem er hafi hann rétta hugarfarið. Hins vegar sá sem hefur slakt hugarfar til náms er líklegur til að læra lítið, að minnsta kosti þar til hann eða hún áttar sig á eigin ábyrgð. Sumir átta sig aldrei. Aðrir átta sig seint. Þeir sem átta sig snemma komast fljótt á beina braut sem getur leitt þá menntaveginn. Aðrir fara ýmsar krókaleiðir, læra ýmislegt, hafa aðrar áherslur í lífinu, en flestir finna á endanum góða leið, svo framarlega sem þeir vita nokkurn veginn hvert þeir vilja fara.
Heimsins besti kennari nær ekkert endilega til heimsins versta nemanda. Heimsins versti kennari hefur sjálfsagt lítil sem engin áhrif á heimsins versta nemanda. Heimsins versti kennari hefur lítil áhrif á heimsins besta nemanda, fyrir utan að nemandinn verður að læra á eigin forsendum og án stuðnings, en getur samt lært ýmislegt gagnlegt. En það að hafa heimsins besta kennara og heimsins besta nemanda saman við fræðslu og námsaðstæður, það er þar sem einhver galdur á sér stað. Nemandinn verður ennþá betri í námi en þegar hann er einn og fer að sýna framúrskarandi árangur, og kennarinn verður einnig ennþá betri fyrir vikið. Ennþá betra er þegar fleiri framúrskarandi einstaklingar bætast í hópinn.
Að sjálfsögðu eru ekki til í veruleikanum heimsins besti og versti kennari eða nemandi, en þetta eru hugsjónir sem við getum notast við til að sjá fyrir okkur hvernig aðstæður gætu verið ákjósanlegar fyrir fræðslu og nám.
Það er nefnilega svo merkilegt að aðstæður við nám eru alltaf tvenns konar, það eru fræðsluaðstæðurnar, ytri aðstæður, umhverfið, námsefnið, áreitið; við getum kallað þetta veruleikann, en svo eru það aðrar aðstæður sem skipta alveg jafn miklu máli, innri aðstæður nemandans, það sem hann hefur áður lært, hversu mikla hvatningu hann finnur, hversu tilbúinn hann er til að læra, og þar fram eftir götunum; við getum kallað þetta fyrirbæri.
Veruleikinn og fyrirbærin takast á í öllum okkar verkum. Þegar við áttum okkur á því, hvernig fræðsla og nám eru gjörólík þó að þau stefni að sama markmiði, það er fyrsta skrefið í átt að framúrskarandi námi og árangri, óháð viðfangsefni.
Athugasemdir
Er það ekki mest þannig að nemendur NEMA almenna þekkingu um hin ýsmu mál í skólum hins opinbera.
Hins vegar geta allir FRÆTT alla um eitthvað án þess að sú fræðsla sé endilega negld niður í staðlaðar skólabækur.
Jón Þórhallsson, 9.3.2021 kl. 11:46
Það geta bæði allir numið og allir lært. Það er náttúrulega fátt betra en þegar báðir kostir fyrirfinnast í sömu manneskju.
Hrannar Baldursson, 9.3.2021 kl. 22:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.