Hugleiðing um auðmýkt og stolt

Ég hef verið að velta fyrir mér leiðtogum. Suma met ég sem slæma og aðra sem góða. Þeir slæmu held ég að séu fullir stolts, en hinir góðu fullir af auðmýkt. Ég tengi stolt við fáfræði og skort á mannúð, en auðmýkt við visku og mannúð.

Ef þú gætir valið um hvernig þú bregst við öllum aðstæðum í þínu lífi, og þú hefur sannarlega þetta val, hvort gæfi þér farsælla líf, að bregðast við og framkvæma með auðmýkt eða stolti? Hvort væri líklegra til að veita þér hamingju?

Hugsaðu þér tvo kennara. Annar er stoltur, hinn er auðmjúkur. Sá stolti flytur fyrirlestra af miklum móð og útvarpar eigin hugarheimi, sá auðmjúki hlustar á nemendur sína og reynir að skilja veröld þeirra. Sá stolti veit hlutina með fullvissu, en sá auðmjúki leyfir sér að efast. Fullvissan er þó aðeins trú, jafnvel blindgata, og efasemdin upphafið að leit, jafnvel leiðangri.

Hugsum okkur mann sem nær glæsilegum árangri, á hvaða sviði sem er, í viðskiptum, listum, íþróttum, frægð, hverju sem er. Það er ekkert auðveldara en fyrir hann en að fyllast stolti, þykjast fyrir sjálfum sér og heiminum að hann sé betri en allir aðrir, og segjum að hann komi þannig fram, eins og hann sé sá besti og allir aðrir verri. Sumir munu dýrka og dásama þennan merka mann, aðrir munu sjá í gegnum hann og andvarpa með vorkunn. Að sjá sjálfan sig í hyllingum er ósönn mynd sem fyrr eða síðar mun valda vonbrigðum.

Segjum að þessi einstaklingur átti sig á að hann hafi ekki sýnt viðeigandi auðmýkt, að hann hafi verið í skýjunum, og ákveði að jarðtengja sig, og jafnvel gera lítið úr eigin afrekum, en því meira úr árangri þeirra sem eru í kringum hann. Þegar honum er hælt, bendir hann á að aðrir hafi nú afrekað meira, eða jafnvel að þetta sé bara tímabundinn sigur, að innan aldar verði hann hugsanlega ekkert annað en mold, aska, gufa eða andardráttur, og spyr jafnvel hvort raunverulegur munur sé á honum í dag og því fyrirbæri sem verði eftir af honum eftir hundrað eða þúsund ár.

Hvernig áhrif ætli stoltið eða auðmýktin hafi á heimsmynd, hugarheim og líf manneskjunnar, og hvernig áhrif hefðu þessi viðmót á fólkið í kring?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Auðmýkt sýnir aldrei hann,
alltaf Trump er bestur,
fólið sér til frægðar vann,
að flokkast sem tréhestur.

Þorsteinn Briem, 9.6.2020 kl. 18:34

3 Smámynd: Hrannar Baldursson

Takk fyrir athugasemdirnar. :) 

Hrannar Baldursson, 11.6.2020 kl. 09:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband