Þurfum við trú til að öðlast mannlegan þroska?

Öll trúum við einhverju. Hugsanlega trúum við öll á eitthvað líka.

Í fyrri skilningnum geturðu trúað því að mjólkin sem þú drekkur sé ekki komin yfir síðasta neysludag. Í seinni skilningnum getur verið að þú trúir á Guð, guði, hið guðlega eða fjarveru alls guðlegs. Þetta stutta erindi fjallar um síðari skilninginn á trú. Höfundur svarar ekki spurningunni, heldur veltur henni aðeins fyrir sér.

Á þessum dögum rafrænnar alheimsmenningar er auðvelt að sjá skýrt og greinilega að trúarbrögð eru ólík um allan heim, og efasemdarmenn sjá auðveldlega að sögurnar á bakvið öll þessi trúarbrögð og guðlegu verurnar geta ekki allar verið sannar, alls staðar og um allan tíma, nema vegirnir séu því óútskýranlegri.

En slík trú snýst ekki um sannleikann, því þá væru kerfin kringum trúna ekki kölluð trúarbrögð, heldur sannleikabrögð. Slíkt er náttúrulega fjarstæða. Samt heldur fólk áfram um allan heim að iðka sín trúarbrögð, og maður getur ekki annað en forvitnast um af hverju það sé. 

Trúarbrögð eiga það sameiginlegt að hafa eitthvað göfugt markmið, einhverja fallega sýn, eitthvað sem fullkomnar lífið þegar því loks lýkur. Kristnir, gyðingar og múslímar fara til himnaríkis, sannir fylgjendur Búdda öðlast upplýsingu, goðatrúarmenn fara til Valhallar, hindúar fæðast aftur og aftur, og þar fram eftir götunum. En fólk kemst ekki á þessa eftirsóknarverðu staði með því einu að lifa og deyja, nei, það þarf nefnilega að kaupa sér aðgangsmiða. Og þar er lykillinn að gildi trúarbragða.

Leiðirnar til að kaupa aðgangsmiðann eru ólíkar, en þessar leiðir gefa lífi þess sem lifir ákveðið gildi. Viðkomandi verður þátttakandi í sögu, og skiptir þá engu máli hvort hún sé sönn eða ekki, heldur er málið að þetta er saga sögð kynslóð eftir kynslóð, og hún er ekki endilega skráð í bók, heldur með verkum.

Kristnir reyna að lifa góðu lífi, fylgja fordæmi Jesús Krists, sem fórnaði sjálfum sér fyrir syndir mannkyns, eins og sagan segir, og boðaði að fólk ætti að fyrirgefa hvoru öðru, eina leiðin til að breyta röngu í rétt væri með kærleika og fyrirgefningu. Goðatrúar aftur á móti héldu að það væri skylda sérhvers manns að rétta fyrir hið ranga sem einhverjum var gert, hugsanlega með blóðhefnd, eða dæma viðkomandi fyrir dómstólum. Eitt af mikilvægustu gildum margra gyðinga sem ég hef kynnst um ævina er að leita sér sannrar þekkingar, á meðan þeir sem stunda Búdda leita uppljómunar leita eftir visku, og múslímar gera sitt besta til að vernda allt það sem í trú þeirra er heilagt.

Það skondna við þetta er að öll þessi (og fleiri) trúarbrögð hafa rétt fyrir sér, þau eru rétt út frá menningarheimi viðkomandi, en eru líka röng út frá fræðilegu eða vísindalegu sjónarhorni, þar sem þau líkjast meira hindurvitnum en sannleikanum.

Samt eiga fræði og vísindi ekki auðvelt með að gagnrýna trúarbrögðin sem hindurvitni, því eðli þeirra vegna hafa þau ekki upp á neitt að bjóða í staðinn. Ástæðan er sú forsenda vísinda að þau eru þekkingarleit, en ekki sannleikur eða þekking. Hins vegar getur manneskja sem engum trúarbrögðum fylgir, og nemur vísindi, talið sig hafa næga visku eða þekkingu til að meta trúarbrögð sem einskis virði, og upphefja þess í stað trú sem byggir á vísindalegum upplýsingum og kenningum. 

Vandinn við vísindalegar kenningar er að þær eru síbreytilegar. Ef þú trúir einhverju eins og flestir nútímamenn gera, á að heimurinn hafi byrjað í stóra hvelli, útilokarðu þann möguleika að þessi kenning geti verið röng og muni af framtíðar eðlisfræðingum vera afsönnuð. Það sama á við allar aðrar kenningar vísinda, sama hvað þær virðast sannfærandi.

Þá situr eftir spurningin, er ekkert eftir sem hægt er að trúa á? Er hægt að trúa á gagnrýna hugsun, skynsemi, eða heilbrigða skynsemi? Er hægt að taka ákvarðanir út frá þeim hugmyndum og kenningum sem eru til staðar, hvort sem þær eru byggðar einungis á fræðum og vísindum, eða að einhverju leyti á reynslu fyrri kynslóða? Hvernig ætli maður feti sig um slíkan heim? Þarf maður að vita allt, fylgjast með öllu, eða kannski bara rækta sjálfan sig?

Þyrftum við að trúa á skynsemina til að öðlast mannlegan þroska, eða er nóg að vita til hennar? Vandinn hérna er hugsanlega sá að sú vinna sem fer í að vera skynsamleg manneskja krefst miklu meira heldur en sú vinna sem fer í að fylgja trúarbrögðum, og það er ekkert víst að allir nenni að trúa á skynsemina.

Eða er hin nýja trú, kannski trúin á lífið sjálft, á dygðina, dugnaðinn, hugrekki, og allt það góða í mannlegu fari, eitthvað sem við getum pælt í með því að hlusta á sögur eða horfa á kvikmyndir, og ræða ekki aðeins hvort sagan var góð, heldur líka persónurnar, hvort þær hafi verið góðar eða illar, ekki bara vel eða illa samdar, og þá út frá hvaða heimsmynd. Er þetta svipuð aðferð og hlusta á fornar mýtur og dæmisögur, og meta hið góða og illa út frá þeim, þar sem hið góða og illa er ekki eitthvað sem leynist í sögunum, heldur eitthvað sem býr djúpt í okkur sjálfum?

Hugsanlega skiptir það okkur á endanum mestu máli að bæta heiminn, eða að minnsta kosti þann heim sem börn okkar munu erfa. Til að það sé mögulegt, þurfum við að átta okkur á sögunni um heiminn og hvernig hægt er að hafa góð áhrif á hann til framtíðar. Það krefst trúar, því að skilningur á sögum krefst trúar, eða að sjá annað en það sem er innan seilingar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hvorki hefur verið sannað né afsannað að einhverjir guðir eða álfar séu til, enda er um trú að ræða í báðum tilfellum en ekki vísindi.

Og hvorutveggja jafn merkilegt eða ómerkilegt.

Móðurafi minn var bæði kristinn og álfatrúar og í fjölskylduboði þvörguðu hann og dómkirkjupresturinn um álfatrú.

Ég hef sjaldan skemmt mér betur. cool

Þorsteinn Briem, 2.6.2019 kl. 14:47

2 Smámynd: Jón Þórhallsson

Erum við ekki sammála um að heimurinn væri betri ef að allir jarðarbúarnir færu alltaf eftir BOÐOÐRUNUM 10 alla daga?

BOÐORÐIN 10 eiga uppruna sinn úr trúarbröðgum/BIBLÍÚNNI

og við lærum venjulega um þau í sunnudagaskólanum; er það ekki? 

https://thjodarskutan.blog.is/blog/thjodarskutan/entry/2231833/

----------------------------------------------------------------------

Mörg trúarbrögð heimsins í dag eru orðin gamaldags og hjálpa ekki;

Þess vegna þarfnast þau uppfærslu :

Ég mæli með því að fólk skoði allar bloggfærslurnar á þessari bloggsíðu:

https://thjodarskutan.blog.is/blog/thjodarskutan/category/2293/ 

Jón Þórhallsson, 2.6.2019 kl. 14:58

3 Smámynd: Jón Þórhallsson

Það sem að þjóðkirkjuna vantar er að bjóða meira upp á

SAMRÆÐU-GUÐFRÆÐI inní kirkjunum. (Eins og er hjá GUÐSPEKI-FÉLAGINU)

=Þá er einhverjum spurningum varpað fram í messu-auglýsingunum

sem að fólk á að keppast við að svara í eigin huga og með öðrum.

Málið snýst ekki endilega um að eitthvað eitt svar sé rétt

en SAMTALIÐ ER MIKILVÆGT.

Jón Þórhallsson, 2.6.2019 kl. 17:04

4 Smámynd: Jón Þórhallsson

Hérna í neðsta myndbandinu á þessarri bloggsíðu kemur sönnun fyrir tilvist álfs sem að hefur að öllum líkindum verið skotinn með haglabyssu:

https://thjodarskutan.blog.is/blog/gudspekifelag_s/entry/1308207/

Jón Þórhallsson, 2.6.2019 kl. 17:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband