Fjöldamorð og nauðganir í tölvuleikjum
27.5.2007 | 10:34
Efni tölvuleikja
Enn einu sinni vakna hugmyndir þegar ég les yfir síðasta pistil bloggvinu minnar Hafrúnar, Ofbeldisleikir. Þar spyr hún: "Afhverju er verra að nauðga einhverjum í tölvuleik heldur en að drepa heilan her af góðborgurum og það oft á viðbjóðslegan hátt?"
Ég held að Hafrún hitti með þessari spurningu naglann á höfuðið. Það er nefnilega hvorki verra né betra að nauðga eða drepa í tölvuleik. Þetta er ekki raunveruleiki, þar sem einhver hlýtur skaða af. Verið er að framkvæma ákveðnar skipanir með stjórntæki, en ekki verið að framkvæma slíkan verknað í raun og veru. Hvort að siðferðisvitund þeirrar manneskju sem spilar slíka leiki sljóvgast eða ekki, það er ágætis spurning; en hún sljóvgast ekkert meira af slíkum leikjum en af kvikmyndum, ritum eða efni á netinu, sem er af samskonar rótum.
Vandamálið við tölvuleiki er alls ekki innihald þeirra, heldur sú áráttuhegðun sem fólk þjálfar upp með því að síendurtaka sífellt sömu aðgerðirnar. Það er reyndar hægt að nýta tölvuleiki til að læra hitt og þetta; en ég stórefast um að þeir geti kennt siðblindu. Fleira þarf til.
Mikið hefur verið rætt um nauðgunarleik sem hægt var að nálgast á netinu, og aðgangur að honum bannaður. Nú hef ég ekki séð þennan leik, en get ekki trúað því að hann sé eitthvað verri en annar hver leikur sem hægt er að finna í hillum verslana sem selja slíkar vörur, sem ganga flestir út á dráp á tölvupersónum. Ef mér yrði sýndur þessi leikur má búast við að viðbrögðin væru hneykslun, - en ég einfaldlega held í hæfilegri fjarlægð frá mér hlutum sem mér finnst ógeðslegir. Og mér finnst gott að hafa það val, en slíkt val einkennir þá einstaklinga sem fara með siðferðilegt vald á eigin gerðum.
Spurning hvort að þarna sé verið að gefa fordæmi fyrir dóm á þeirri túlkun að orsakasamband sé á milli tölvuleikja og hegðunar einstaklinga. Kannski þetta útskýri Íraksstríðið og vilja Íslendinga til þátttöku í því; en ef við skoðum vinsælustu leikina fyrir allar helstu leikjatölvurnar, þá fáum við þá athyglisverðu niðurstöðu að fjórir af fimm innihalda 'Stríð' (War) í heiti sínu. Ja, ofbeldi og stríð selja, og fyrst ráðamenn gera þetta í raun og veru, af hverju ættu börnin ekki að stunda þetta. Þau gera jú það sem fyrir þeim er haft.
- PC: World of Warcraft
- Playstation 2: God of War 2
- Playstation 3: Oblivion IV: Elder Scrolls
- X-Box 360: Gears of War
- Wii: WarioWare
Form tölvuleikja:
Ofspilun á tölvuleikjum held ég að sé meira vandamál heldur en hvaða efni er í þeim. Efnislega eru þeir eins og bækur, bíómyndir og netið; en formlega geta þeir haldið viðkomandi við efnið tímunum saman, jafnvel dögum saman; þar sem að viðkomandi hefur fullkomna stjórn á öllu sínu nánasta umhverfi - ef hann gerir mistök, er alltaf hægt að byrja aftur. En eftir alltof langa og síendurtekna spilun gæti ég trúað því að viðkomandi haldi þörfinni fyrir að hafa stjórn á nánasta umhverfi sínu, og á því erfiðara með að vera kyrr, hlusta, læra og meðtaka. Ég trúi því að viðkomandi verði pirraður á því sem virkar ekki strax eins og hann vill að það virki. Ég held að þetta sé jafnvel einn af þeim hlutum sem aukið hefur á lærða 'ofvirkni' hjá börnum.
Það mætti gera könnun á hvort að mælanlegt samband sé á milli ofvirkni og tölvuleikjaspilunar barna.
Efnið er aukaatriði - aðalatriðið er hvernig viðfangið hefur áhrif á fólk. Það eru góðu leikirnir sem eru hættulegastir, en þeir kalla á meiri spilun og endurspilun; og gera þannig börn, unglinga og jafnvel fullorðna að þrælum tölvuleikja. Hvað þeir gera í huganum með sínum puttum fyrir framan sjónvarpstækið er aukaatriði - það að fólk sitji tímunum saman og síendurtekur sömu aðgerðirnar, - það er sjúkt. Ljóst er að spilun á tölvuleikjum má ekki vera stjórnlaus, frekar en nokkur önnur neysla.
Meginflokkur: Spil og leikir | Aukaflokkur: Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 17:09 | Facebook
Athugasemdir
Það er rangt að bera saman nauðganir og morð, líkt og þetta sé sambærilegt. Það er jafn fráleitt og að bera saman barnaníð og fótbolta.
Út um allan heim er fólk þjálfað á vegum hins opinbera til að drepa annað fólk. Það er sent til annarra landa til að drepa. Þeir sem flesta drepa hækka í tign, strípum er fjölgað á hermannajökkum þeirra og það er hlaðið á þá heiðursmerkjum. Í fjölmiðlum og í opinberum ræðum eru þeir kallaðir hetjur.
Íslendingar hafa á síðustu árum reynt að hengja sig utan í drápsglöðustu þjóðir með því að skrá sig formlega á lista herskárra þjóða og þannig vottað virðingu þeim sem hafa slátrað tugum þúsunda Íraka.
Jens Guð, 27.5.2007 kl. 12:10
Jens: Nauðganir og morð eru bæði óréttlætanlegar gerðir. Barnaníð er það líka. Fótbolti er það ekki.
Spurning: er það skaðleg hegðun að spila tölvuleiki sem líkja eftir óréttlætanlegri breytni?
Hrannar Baldursson, 27.5.2007 kl. 12:41
Jens langar að benda þér á að menn eru einnig þjálfaðir út um allan heim til þess að nauðga konum, slíkt er þekkt aðgerð í stríði. Nauðganir á konum voru t.d. markvist stundaðar í balkanskagastríðinu. Markmiðið þar var t.d. ef ég man rétt að fjölga serbum, þjóðernið á barninu ræðst af faðerni þess. Getur lesið meira um þetta í lokaritgerð Örnu Grímsdóttir lögfræðings. Ritgerðin er eflaust til á þjóðarbókhlöðunni.
Og auðvitað er hægt að bara saman nauðganir og dráp, bæði form af ofbeldi.
Hafrún Kristjánsdóttir, 27.5.2007 kl. 12:44
Ég kíkti á gömlu félagssálfræðina mína og skoðaði tengsl áhorfs á ofbeldi hverskonar (TV og leikir) Rannsóknarniðurstöður eru allar á einn veg. Fylgni er á milli áhorfs á ofbeldi og ofbeldishegðunar en orsakasamband hefur ekki fundist. Við vitum semsagt ekki hvort það eru þeir sem eru ofbeldisfyllri sem sækja meira í að horfa á (spila) ofbeldi eða hvort að ofbeldisáhorf leiði ofbeldishegðunar, þetta er bara spurning um eggið og hænuna.
Við lestur kaflans rakst ég á mjög áhugaverða málsgrein hún er þessi
"Male participants who saw an aggressive pornographic film daily for one week experienced decreased feelings of depression, annoyance and anxiousness in response to the films, but experienced them as more enjoyable, less violent and less degrading to women" (Hewstone og Sroebe, 2001)
Hafrún Kristjánsdóttir, 27.5.2007 kl. 13:12
Dráp á fólki er réttlætt af alþjóðasamfélaginu, sbr. stríðsrekstur. Nauðganir ekki. Á þessu er regin munur.
Hjá okkar helstu vinaþjóðum, til að mynda Bandaríkjamönnum og Bretum, er hernaður á hendur öðrum þjóðum jafn vinsæll og réttlætanlegur og fótbolti. Í þarlendum fjölmiðlum er fagnað af sama ákafa og með svipuðu orðalagi þegar hetjunum þeirra tekst að stráfella Íraka og þegar fótboltahetjurnar vinna knattspyrnuleik.
Ef þið viljið hanga í hártogunum þá er upplagt að vísa í opinbert málgagn eða stjórnmálamenn sem réttlæta og mæla með nauðgunum. Fyrst að ykkur er svona mikið í mun að leggja dráp og nauðganir að jöfnu sem nánast eitt og sama fyrirbærið.
Jens Guð, 27.5.2007 kl. 13:34
Það er mér ekki mikið í mun að leggja dráp og nauðgun að jöfnu, skil ekki hvernig þú færð það út. Var bara að benda á að hermenn eru ekki bara þjálfaðir til að drepa heldur líka eru amk sumir þeirra þjálfaðir til að nauðga. Ég legg þetta tvennt ekki að jöfnu og það gerir dómskerfið heldur ekki (s.b.r refsiramma). Dráp fara ekki bara fram í stríðsátökum heldur líka bara á götum úti. Til eru tölvuleikir, sem seldir eru í massavís í skífunni sem snúast um það að þú almennur borgari átt að drepa sem flesta almenna borgara á sem ógeðslegan hátt og hægt er. Aukabónus fæst fyrir að skvera hórur, stela bílum osfv. Upphaflega spurning mín var afhverju er nauðgunarleikur talin verri heldur en þessi leikur t.d.? AFhverju skiptir löggan sér að einu formi ofbeldis í tölvuleikjum en ekki öðru.
Hafrún Kristjánsdóttir, 27.5.2007 kl. 13:47
Nauðganir og dráp á fólki við stríðsaðstæður eru ekki sambærilegar athafnir. Samt er algengt að nauðganir, pyntingar og annar slíkur viðbjóður þrífist við stríðsaðstæður. Hermaður getur hugsað með sér:
Nú, ég get drepið þessa óvinakonu og það er réttlætanlegt, en ég get ekki nauðgað henni. Hvað ef ég nauðga henni og drep hana svo. Er það ekki réttlætanlegt?"
Nauðganir í stríði eru ekki réttlætanlegar, þó að dráp séu það, samkvæmt lögum og reglugerðum alþjóðasamfélagsins um stríðsrekstur. Samt getur fólk haft þá skoðun að þetta sé jafn mikill viðbjóður.
Morð er þegar manneskja er drepin á ólöglegan hátt. Nauðgun er þegar samfarir eru þvingaðar á aðra manneskju á ólöglegan hátt. Þetta tvennt er sambærilegt, annars vegar sem ólögleg fyrirbæri og hins vegar sem ofbeldisverk.
Samkvæmt þessu eru morð og nauðganir sambærileg; og þá spurning, fyrst verið er að banna tölvuleik þar sem spilarar nauðga, af hverju eru þá tölvuleikir þar sem spilarar myrða ekki bannaðir líka?
Sjálfur er ég móti opinberri ritskoðun og held að hún sé stórhættuleg ógn gegn einstaklingsfrelsi, nema þegar sviðið er vel skilgreint og samþykkt sem skaðlegt samfélaginu og jafnvel hættulegt, eins og barnaklám, því að illa skilgreind ritskoðun getur undið hratt upp á sig og fljótt orðið að skrýmsli sem enginn getur stöðvað.
Hrannar Baldursson, 27.5.2007 kl. 15:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.